Landsleikir í dag: EM 2008

Í kvöld fara fram landsleikir um víða Evrópu en þá verður leikin síðasta umferð undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Austurríki og Sviss næsta sumar. Um leið og við fögnum því að undankeppnin klárist og það styttist í stórmótið sjálft getum við aðdáendur enska boltans glaðst yfir þeirri staðreynd að þetta er síðasta landsleikjahléð í einhverja þrjá mánuði eða meira. Eftir kvöldið í kvöld er ekkert framundan nema stanslaus leikjatörn hjá okkar mönnum í Liverpool!

Það er samt ekki úr vegi að kíkja á nokkra áhugaverðustu leikina, sér í lagi hvað varðar okkur hér á íslenska Liverpool Blogginu, og spá í spilin:

**Danmörk – Ísland:** Við skulum bara byrja á þessum leik. Sem FH-ingur þekki ég aðeins til Óla Jó sem þjálfara og mín skoðun er sú að hann á annað hvort eftir að koma öllum á óvart og slá í gegn með landsliðið eða renna algjörlega á rassgatið með það. Óli er fær þjálfari en hann fer sínar eigin leiðir og tekur áhættur sem annað hvort borga sig eða ekki. Ég á þó ekki von á því að neitt af þessu komi í ljós í þessum leik þar sem eina dagskipunin verður að halda andlitinu gegn særðum Dönum. Það gæti verið okkur í hag að Parken verður víst bara hálffullur af stemningslausum, dönskum áhorfendum og því allt eins hætt við því að íslenskir áhorfendur verði háværari á vellinum. Það er hins vegar okkur í óhag að danska liðið hlýtur að vera sært eftir slakt gengi að undanförnu og hljóta að vilja sýna sínu fólki sitt rétta andlit. Þó er aldrei að vita nema þeir ætli sér að taka þetta létt og lendi í einhverju vanmati. Við vonum það besta. **Mín spá:** 3-1 fyrir Dani eftir að við komumst óvænt yfir.

**England – Króatía:** Þetta er stóri leikurinn á dagskrá og sá sem öll Evrópa mun fylgjast með. Á meðan Rússar vinna væntanlega Andorra örugglega nægir Englendingum jafntefli á Wembley til að komast áfram, en tveggja marka sigur á Króötum þýðir að svo ótrúlega gæti farið að Englendingar vinni riðilinn sinn, þrátt fyrir að hafa sennilega ekki leikið verr í undankeppni stórmóts í einhverja áratugi. Samkvæmt öllum fréttum verður „Púllarinn“ Scott Carson í marki Englendinga og okkar maður, Peter Crouch mun leiða sóknina í fjarveru Wayne Rooney og Michael Owen. Steven Gerrard verður á miðjunni en þó er óvíst í hvaða hlutverki. Ef ég þekki McClaren rétt verður besti miðjumaður Evrópu látinn hirða upp ruslið í varnarstöðu fyrir aftan hinn *óviðjafnanlega* Frank Lampard. Ég hef svo lítið álit á McClaren að ég vona eiginlega að Englendingar tapi á morgun, ég verð að viðurkenna það. Ég skal þó alveg una þeim sigur ef stóri maðurinn skorar þrennu. 🙂 **Mín spá:** 1-0 baráttusigur Englendinga – Beckham kemur inn í seinni hálfleik og smellir aukaspyrnu.

Fleiri eru þeir nú varla, stórleikirnir sem varða þessa síðu beint. Johnny Riise og Norðmenn munu væntanlega vinna sigur á Möltu en verða að treysta á önnur úrslit til að komast á EM, á meðan *varamarkvörður* Spánverja, Pepe okkar Reina, verður væntanlega í markinu gegn Norður-Írum en fari svo að Írarnir vinni þann leik og Svíar tapi fyrir Lettum á heimavelli (ólíklegt) gætu Norður-Írar skotið nágrannaþjóðum sínum af Bretlandseyjum ref fyrir rass og farið óvænt á EM næsta sumar. Þó verður að teljast líklegra að Englendingar verði einu fulltrúar eyjanna í Sviss og Austurríki.

Hvað segja menn? Hafið þið einhverja trú á Óla Jó? Á íslenska landsliðið séns án Eiðs Smára, eða er fjarvera Daniel Agger og Martin Laursen í vörn Dana nóg til að Gunnar Heiðar og Veigar Páll geti valdið usla? Munu Englendingar vinna Króata? Hvað skorar Crouchinho mörg? Mun McClaren halda starfi sínu eftir þennan leik, jafnvel þótt þeir vinni riðilinn?

Mikið um spurningar, en sú mikilvægasta af þeim er samt þessi: Hversu gott verður að vera loksins búnir með landsleikjahléin í bili? 🙂

14 Comments

  1. Við töpum þessum leik á móti Dönum 2-0, vil bæta því við að mér finnst íslenska liðið spila betur ef eitthvað án Eiðs.
    England 3-1 Króatía. P.C með eitt.
    Vona að McClaren verði látinn fara en á ekki von á því : (
    Að lokum, gott frábært æðislegt, bara deildar knattspyrna út árið ef frá er talið smá bikar útúrdúr : )

  2. Ég spái að Danmörk vinni Ísland frekar vel, 3:0 …. kannski 4:1. Ég hef alveg trú á Óla Jó … en ég hélt fyrst að það myndu verða meiri breytingar hjá honum. Kannski í næsta landsliðshóp, þannig að við gefum honum tækifæri 🙂 Íslenska liðið spilaði með hjartanu þegar Eiður var meiddur (á móti Spáni og N-Írum) … stundum finnst mér Eiður algjörlega vera með hugann við annað, en það er kannski til of mikils ætlast að sjá góðan leik frá honum altaf. En sem fyrirliða … úff – þá vona ég að Hermann verði það áfram. Ég held að England Króatía verði jafnteflisleikur … Gerrard skorar jöfnunarmark í seinni hálfleik, Crouch kemur Englandi yfir en Króatar jafna svo undir lokin.
    Einhverjar fréttir voru nú um það að Steve McLaren myndi hvort eð er halda starfinu sínu … jafnvel þótt Englendingar kæmust ekki áfram. Ég hef bara akkúrat núll álit á þeim manni, þannig að ég tek undir með þér … væri fróðlegt að sjá Englendinga tapa.
    Það verður frábært að fara að sjá loksins leiki með sínu liði. Þó svo að ég sé stoltur oft og styð landsliðin okkar vel í íþróttunum, þá er ég alltaf fyrst og fremst Púllari, og get varla beðið eftir næsta leik!

  3. Verður fyrst og fremst gaman að sjá hvort léttleikinn sem virðist vera í hópnum skilar sér í leikinn. Var afar glaður að sjá að Óli æfði 6 sinnum á 3 dögum, það finnst mér bara hárrétt.
    Alveg á hreinu að landslið sem ætlar sér að stilla sig saman þarf að æfa oft og taka á því á æfingunum. Heyrði það af sumum landsliðsmönnum að þeir æfðu aukalega eftir landsliðsæfingar til að missa ekki niður tempó áður en þeir færu aftur til liða sinna.
    Ég held samt að þetta verði okkur mjög erfitt, Krissi og Raggi munu eiga erfitt í hafsentunum, en það er helsta vandræðastaða okkar Íslendinga núna og því miður virðast fáir vera á leið í landsliðsklassa þar. Því spái ég Dönum 3-1 sigri en við sjáum baráttu, leikgleði og vilja, nokkuð sem var alveg hætt að sjást hjá Eyjólfi.
    England og Króatía gera 0-0 jafntefli í steindauðum leik. Það mun þó engu breyta fyrir Englendingana, þeir eiga enga möguleika á að vinna neitt næsta sumar, eru mörgum skrefum neðan við stóru landsliðin og falla úr ekki seinna en í 8 liða úrslitum.
    Því miður verða það svo Tyrkir sem slá út Norðmenn og Svíar hirða svo stigið sem þeir þurfa og verða eina skandinavíska liðið á EM.

  4. Hvað segja menn?
    Menn segja fínt og eru spenntir fyrir kvöldinu

    Hafið þið einhverja trú á Óla Jó?
    Já, mér líst vel á hann sem þjálfara sem og byrjunarliðið. Einnig atlhyglisvert að lesa viðtöl við landsliðsmenn þar sem þeir segja allt annað tempó vera á æfingum heldur en í tíð Jolla.

    Á íslenska landsliðið séns án Eiðs Smára, eða er fjarvera Daniel Agger og Martin Laursen í vörn Dana nóg til að Gunnar Heiðar og Veigar Páll geti valdið usla?
    Það er ljóst að fjarvera (L)Eiðs Smára eykur ekki möguleika landsliðsins á að ná úrslitum í kvöld, ég á von á frekar öruggum sigri Dana 3-0. Von að Veigar grípi gæsina þegar hún loksins gefst í kvöld og sýni hvað í honum býr.

    Munu Englendingar vinna Króata?
    Já ég á held það. 1-0 með marki Stevie G

    Hvað skorar Crouchinho mörg?
    Hann mun ekki skora í kvöld

    Mun McClaren halda starfi sínu eftir þennan leik, jafnvel þótt þeir vinni riðilinn?
    Hann heldur starfinu ef þeir fara í lokakeppnina annars verður hann rekinn með skít og skömm.

  5. Lampard hefur nú því miður verið betri en Gerrard á þessu tímabili, þó Gerrard hafi verið frábær í síðustu leikjum. Persónulega myndi ég hafa Hargreaves sem ryksugu á miðjunni og leyfa hinum báðum að sækja eins og þeir vilja með Crouch einan frammi.

  6. En pæliði í því hvað það er magnað að við séum að spá í að selja manninn sem er núna aðalmarkvörður Englands vegna þess að við viljum halda manninum sem er varamarkvörður Spánar.

    Og ég heyri ekki einn mann mótmæla því. Það segir ansi mikið um Pepe.

  7. Hvað varðar Scott Carsson þá vil ég bara alls ekki selja hann. Ef við verðum að gera það eða hann heimtar sölu þá selja hann hæstbjóðanda (minnst 15 millj. punda).

    En hvað varðar DK – IS þá lítur út fyrir að ekki hafi komið jafn fáir áhorfendur á leik hjá Danska landsliðinu síðan 1980 þegar liðið mætti Luxemburg, þá mættu 10.500. Í dag hafa verið seldir 18.355 miðar en það þýðir alls ekki að þeir mæti allir því gegn Lettlandi var óvenju stór hluti fólk sem hafði keypt sér miða sem mætti ekki. Líklega þarf meira til að fólk “nenni” á völlinn í vetrarveðrinu hérna í Kaupmannahöfn. Ég hef hins vegar trú á því að Íslendingar muni fjölmenna og mynda góða stemmingu á Parken. Hvernig leikurinn endar er ég alveg blank… þetta getur orðið afar leiðinlegur leikur þar sem fá marktækifæri koma og endar 0-0 eða afar líflegur þar sem bæði lið spila sókndjarfan bolta og spila til sigurs. Væri ekki gaman að sjá 3-4 sigur og fullkomna niðurlæginu Olsen drengjanna?

    England – Króatía, England vinnur 1-0 og Crouch skorar í seinni hálfleik í ótrúlega leiðinlegur fótboltaleik.

  8. Góður punktur Einar. Reina er náttúrulega þegar orðinn legend. Segir margt um markmannsvesen Englendinga og hversu Spánverjar eru í góðum málum. Ég hef fulla trú á því að LOX fari Spánn alla leið og rústi þessu í Sviss og/eða Austurríki. Þeir eru með massívt lið.

  9. Sælir félagar.
    Nú fer þessari ömurlegu landleikjaþvælu að ljúka. Ssssseeeeeeeeeeeeemmmmm betur fer. Þvílík leiðindi maður guðs og lifandi.
    Það liggur við að maður voni að England tapi til að menn hugsanlega losni mclaren þann slaka stjórnanda. Ég tek undir með #2 Dodda sem hefur “nákvæmlega núll álit” á manninum.
    Ég hallast að jafntefli hjá England _ Króatía og Danir koma dýrvitlausir og hakka ísland 28 – 4 eða þannig eitthvað eða jafnvel minna eða meira eða eitthvað 😉 . Ég hefi svo sem enga trú á Óla en það er alveg sama hvað hann er góður þetta íslenska landslið er krapp. 😉

    Það er nú þannig

  10. Held að Ísland eigi eftir að skora snemma og pakka í vörn 1-0 sigur á Parken og niðurlæging Dana algjör 😀
    Síðan önnur pæling er Eiður orðinn of stór fyrir landsliðið eins og Henry hjá tjöllunum? ég meina hann leggur sig ekki meira fram en þegar hann er á æfingu, er ekki málið að fá einhvern inn sem er að spila vel núna og mun berjast eins og ljón fyrir landsliðið

  11. Hvað er málið með þessa ungu ensku markverði? Kirkland, Carson, Wright og fleiri, þetta eru allt helvítis pappakassar þegar eitthvað reynir á!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Óþolandi helvíti.

  12. Er þetta rétti tíminn fyrir McClown að vera með einhverja tilraunastarfsemi í markvarðastöðu Englands, þó að Carson sé nú í eigu Liverpool verðum við nú að viðurkenna að hann er alveg jafn slæmur og robinson.
    Fáranlegt að vera að skipta um markmann fyrir svona mikilvægan leik, enda er carson að drulla á sig í leiknum. Enda engan vegin undirbúin fyrir svona leik.
    Ef það var virkilega svona nauðsynlegt að skipta um markmann afhverju ekki þá velja hinn reynslumikla james fyrir svona stórleik.

  13. Vá! kaupverð Scott Carson hefur hrapað meira í dag en íslenska úrvalsvísitalan 🙂

    Ég er eiginlega sammála síðasta ræðumanni, James hefði e.t.v. átt að spila.

Carson gegn Króatíu

England ekki með á EM