Krakkaklúbburinn

Ég hef verið að furða mig svolítið á því í talsverðan tíma þegar verið er að tala um “ungu strákana” hans Wenger. Þ.e. að liðið sé svo kornungt að það sé með hreinum ólíkindum hversu góðir þeir séu. Hér ætla ég mér alls ekki að draga það neitt í efa að þetta er frábært lið og Wenger er að mínum dómi besti “stjórinn” í boltanum í dag. Ég ætla aftur á móti að fjalla aðeins um þessa skilgreiningu sem er á aldri liðsins.

Það er oft talað um topp 4 liðin, sem virðast hreinlega vera í sér deild á Englandi. Öll þessi 4 lið eru með unga og spræka stráka innan sinna raða og svo reynslubolta inn á milli. Arsenal eru með fleiri unga stráka sem spila reglulega, heldur en hin liðin, en munurinn er hreinlega ekki jafn mikill og látið er í veðri vaka í fjölmiðlum. Ég tók mig því til um síðustu helgi og fór yfir hópana hjá þessum liðum 4. Ég fór yfir þá leikmenn sem hafa leikið með félögunum í Evrópukeppninni og deildinni á tímabilinu. Liverpool og Chelsea höfðu notað 22 leikmenn, en Arsenal og Man.Utd höfðu notað 23 stykki. Ég bætti við varamarkvörðunum hjá Chelsea og Liverpool þótt þeir hafi ekki ennþá spilað í þessum keppnum, bara til að klára hópinn.

Til að gera langa sögu stutta, þá eru Arsenal með yngsta hópinn (kom mér ekkert á óvart) en hópurinn hjá Man.Utd t.d. er 1,2 árum eldri og Liverpool 1,4 árum eldri. Meðalaldurinn hjá Arsenal er sem sagt 24,1 ár, 25,3 hjá Man.Utd, 25,5 hjá Liverpool og 26,6 hjá Chelsea. Klárlega munur, en það sem ég er þó að segja að það að 1,2 ár skuli gera gæfumuninn með að annað liðið sé kallað “krakkaliðið” en hitt ekki, það finnst mér skrítnast. En ég hélt nú aðeins áfram í þessum pælingum mínum. Ég setti upp sterkasta byrjunarlið þessara liða ef allir væru heilir (auðvitað er þetta alltaf huglægt mat og menn geta verið ósammála um hvaða menn eigi heima þar) og þá kom þessi niðurstaða:

Arsenal 25,0
(Almunia, Sagna, Toure, Gallas, Clichy, Flamini, Fabregas, Hleb, Rosicky, Van Persie og Adebayor)
Liverpool 25,5
(Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Aurelio, Gerrard, Alonso, Maschareno, Kewell, Crouch og Torres)
Chelsea 26,8
(Cech, Belletti, Carvalho, Terry, A.Cole, J.Cole, Essien, Lampard, Wright-Phillips, Malouda og Drogba)
Man.utd 27,6
(Van der Saar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Ronaldo, Hargreaves, Scholes, Giggs, Rooney og Tevez)

Eins og áður sagði, þá getur mat hvers og eins verið misjafnt með hvaða leikmenn teljast vera bestu 11. Arsenal eru með unga menn sem lykilmenn, en það hafa hin liðin líka. Það verða öll lið að vera með reynslubolta inn á milli og það er staðreyndin hjá öllum þessum liðum. Man.Utd eru ennþá með nokkra lykilmenn sem eru komnir á efri ár í boltanum, en það er líka klárt að þeir eru með mjög unga og þrælgóða spilara sem eru að spila meira og meira. Sama gildir um Liverpool liðið.

Meiðsli spila oft stóra rullu inn í það hverjir leika hverju sinni. Ég tók líka til gamans saman lista yfir þá 11 leikmenn sem hafa spilað flesta leiki með þessum liðum á tímabilinu. Þar komu niðurstöður talsvert á óvart verð ég að segja, sér í lagi er varða Chelsea liðið:

Arsenal 25,1
Chelsea 25,3
Liverpool 26,8
Man.Utd 27,5

Meðalaldurinn í liði Liverpool er búinn að vera talsvert hærri vegna fjarveru Daniel Agger. Það munar heilum 12 árum á honum og Hyypia sem hefur verið að fylla skarðið. En þessi upptalning mín er fyrst og fremst sett fram til upplýsinga fyrst maður fór að kafa aðeins ofan í þetta dæmi. Menn geta svo dæmt hver fyrir sig í þessu, en það breytir því ekkert að aldur er afstæður. Það er hvað liðin gera inni á vellinum sem skiptir höfuð máli. Gat bara ekki setið á mér lengur með að grafa aðeins ofan í þetta, því mér hefur fundist þessi “krakkaklúbbs” umræða undanfarið um Arsenal vera þreytt, sér í lagi þar sem lykilmenn í öðrum liðum eru ansi ungir og efast ég ekkert um að öll þessi 4 lið eiga eftir að vera í bullandi baráttu við hvert annað næstu árin og ef ekki áratugina.

28 Comments

  1. flott samantekt… gaman af því hversu mikið íþróttafréttamenn geta stjórnað umræðunni og staðhæft hluti án þess að hafa kannað málin til hlýtar… þetta er gott dæmi um það sem og gagnrýnin á Rotation-ið hjá Benitez… held að það ætti að taka sér til og senda íþróttafréttamönnum þessa lands greinina eftir Tomkins sem búið er að íslenska á þessari síðu, kannski ágætt að þessi grein hér að ofan mundi fylgja með í þeirri sendingu 🙂

    kannski ótengt þessu en þó í samhengi við framgöngu fjölmiðlamanna…

    hversu þreytt er það að fyrir og eftir (og venjulega í lýsingu) hvern einasta Liverpool leik í meistaradeildinni/deildinni þá er röflað um ,,skiptikerfi Benitez” ? Síðustu ár hefur verið röflað um hvort Gerrard eig að vera á kantinum eða miðjunni fyrir og eftir nánast hvern einasta Liverpool-leik (þessi umræða hefur dottið úr tísku en rotation umræðan virðist vera komin í tísku aftur hjá íþróttafréttamönnum)…. manni dettur helst í hug orð skáldsins: ,,afsakiði meðan að ég æli” þegar maður heyrir þessar umræður í þúsundasta sinn

  2. Ein spurning SSteinn
    Hefðir þú haft vörnina svona, þ.e. Arbeloa og Aurelio í bakvörðunum ef þú hefðir sett þetta upp fyrir leikinn á þriðjudaginn?
    Finnan hefur verið hafinn til skýjanna hér á þessu bloggi sem annarsstaðar þar sem málefni Liverpool hafa verið rædd, og sennilega með réttu. Og Rise hefur líka komið mikið við sögu í vinstri bakverðinum, þó svo ég sé sammála því að Aurelio sé betri, (asskotinn það eru allir betri en Rise) og Arbeloa betri framávið en Finnan. Arbeloa lenti aftur á móti í vandræðum 1-2 sinnum í Besiktasleiknum varnarlega, sem Finnan hefði sennilega ekki gert.
    Ég er ekki á neinn hátt að “dissa” þig með þessum kommenti mínu, greinin þín er góð og athyglisverð, vildi bara benda á að það virðist oft vera þannig með okkur fótboltaáhangendur (og annara íþrótta líka) að langtímaminnið er ekki svo gott. Mig grunar að Finnan allavega hefði verið í liði bestu 11 í síðustu viku.

    YNWA
    Ninni

  3. Aurelio er nó breiner hjá mér og það hefur komið oft fram hérna á blogginu. Tek hann any day, any time fram yfir Riise bæði fyrir og eftir Besiktas leikinn.

    Varðandi Arbeloa þá er það annar punktur. Fyrst stillti ég Finnan upp í liðinu, enda búinn að vera Mr. Reliable síðustu árin. Það hefur þó komið fram hjá okkur pistlahöfundum hérna að Finnan hefur engan veginn verið að finna sig undanfarið eða hreinlega í heild sinni á þessu tímabili, á meðan Arbeloa hefur verið að styrkjast mikið. Ég tók því ákvörðun um að setja Arbeloa þarna inn en ekki Finnan, því miðað við þetta tímabil þá myndi ég stilla honum upp á undan Finnan (en það færi auðvitað eftir leikjum). Það mætti líka færa rök fyrir því að Kewell væri þarna á kantinum. Það væri alveg hægt að setja Babel þar í staðinn, en þessir 11 sem ég valdi eru þeir 11 sem ég tel að myndu vera sterkasta byrjunarlið Liverpool í dag.

    En 11 manna sterkasta lið er eflaust afskaplega misjafnt eftir því hverjir eru að velja það og hefur hver sína skoðun á því 🙂

  4. Takk fyrir greinagóð svör SSteinn!
    En point-ið hjá mér er að við þennan sigur á þriðjudaginn hefur hugarfar okkar Liverpool-manna/kvenna breyst mikið og það er ekki síst að þakka frábærum leik bakvarðanna okkar í þessum leik.
    Þeir Arbeloa og Aurelio gerðu Einari Erni mikinn greiða með því að spila eins og þeir gerðu í þessum leik, því eins og hann sagði eftir Blackburn-leikinn hefur munurinn á okkar liði og ManUtd og Arsenal mikið legið í bakvörðunum, þ.e. hvernig þeir hafa spilað, og get ég ekki verið meira sammála því.
    Og svo það sé á hreinu, þá er ég algerlega sammála þér beð þetta 11 manna lið sem þú stillir upp SSteinn. Það má alveg rökræða um framherjana, Það er engin spurning um Torres, og Crouch spilaði frábærlega á þriðjudaginn og hefur gert það oft, en Babel spilaði líka frábærlega þann tíma sem hann spilaði frammi á móti Besiktas og sýndi hversu góður framherji hann er. Þannig að ég hefði ekkert orðið ósáttur ef þú hefðir sett hann þar.

    YNWA
    Ninni

  5. Já, nákvæmlega. Ég hef reyndar fylgst svo lengi með Aurelio og hef verið mikill aðdáandi hans frá því ég sá hann fyrst hjá Valencia. Það er hreinlega ferlegt hvað hann hefur verið óheppinn með meiðsli, því hann er by far okkar besti vinstri bakvörður haldi hann sér heilum. Það var eitt atvik einmitt í Besiktas leiknum, þar sem ég sneri mér að félögunum við borðið og sagði: “sjáið þið hvernig þessi bakvörður kemur boltanum upp kantinn á þann sem þar spilar, Riise hefði bombað boltanum eitthvað fram, en Aurelio tekur hnitmiðaða sendingu yfir miðjumennina og í lappirnar á þeim sem var að hlaupa upp kantinn”.

    Þarna liggur stór munur í þessum tveimur leikmönnum. Ég er þó ennþá mikill Finnan maður, en Arbeloa hefur bara komið mér hrikalega á óvart síðan hann kom og er bara einhvern veginn graðari. En gott að við erum sammála um þetta 🙂

    Ég átti samt í mestum erfiðleikum með framherjana. Eins og þeir Torres og Kuyt byrjuðu saman í upphafi tímabils, þá var ég á því að þeir myndu mynda besta framherjaparið. Annar gríðarlega duglegur og vinnusamur og hinn eldfljótur og klár. Babel kemur reyndar líka vel til greina, en hefur spilað of lítið í þessari stöðu fyrir Liverpool til að koma til greina að mínu mati.

  6. Já að mínu mati er Arbeloa einhver bestu kaup sem Benitez hefur gert, það vissi enginn hver hann var áður en hann mætti á Melwood en hann hefur algerlega slegið í gegn. Gott dæmi er að ég var Anfield á Liverpool v Everton í febrúar sl. og hitt nokkra spánverja, Liverpool aðdáendur, á bar eftir leikinn og spurði þá um þennn spánverja sem Benitez var að kaupa (mundi ekki nafnið á honum) en þeir vissu ekkert um hann, eða að búið væri að kaupa spánverja yfirhöfuð.
    Og svo er ég algerlega sammála þér með Aurelio, það var alger synd þegar hann meiddist síðasta vetur, hann var að koma virkilega vel til og var að eigna sér bakvarðastöðuna.

    YNWA
    ninni

  7. Varðandi sterkasta byrjunarlið ef allir eru heilir: Er ekki Nani búinn að slá Giggs út úr liðinu? Myndi ekki meðalaldur Man. Utd. lækka ansi mikið við þau skipti? Hugsanlega fara niður fyrir Liverpool.

  8. Nei, hann færi niður í 26,5 við það. Ég leyfi mér stórlega að efast um að Nani yrði tekinn fram yfir Giggs þegar báðir eru alveg heilir og það ætti að fara að spila alvöru leik. En ég er ekki sérfræðingur í Man.Utd fræðum, þannig að það getur vel verið að það sé hreinlega rangt hjá mér.

  9. G. Neville, er hann ekki fyrirliði Man Utd? og 1st choice í enska landsliðinu þegar hann er heill… hann er klárlega hægri bakvörður í sterkasta liði Man Utd

  10. Flottur pistill SSteinn meira svona. Tomkins stíll yfir þessu hjá þér 😉

  11. Ég vissi það nú ekki, en endilega ekki segja mér meira né nánara frá því 😉

  12. Fín grein!

    Eins og bent var á er Che Neville auðvitað enn first-choice bakvörður hjá mínum mönnum, en ég fyrirgef alveg Liverpool mönnum að vilja ekki vita af því 🙂

    Var nógu áhugamikill um þetta til að fikta aðeins í United liðinu og ef við setjum Nani og Anderson inn eins og þetta var í nokkrum (góðum) leikjum, dettur þetta niður í 25,6. Að ég tali nú ekki um ef van der Sar væri meiddur. En auðvitað er það rétt, Giggs og Scholes eru enn fyrstir inn ef þeir eru heilir.

    Allavega þá sýnir þetta að öll þessi fjögur lið eru verulega vel sett hvað aldur varðar, þetta verður bara spennandi næstu árin.

  13. Ef meðaldurinn væri reiknaður með vegnu meðaltali er alveg ljóst að Arsenal væri með yngsta liðið. En jájá, þetta eru auðvitað engin börn.
    En það að það muni 1,4 á 22 manna hópum er ekki lítið. Ungir leikmenn breytast mjög mikið á þessum árum.

  14. Ég held að Arsenal fái þennan krakkaklúbbs stimpil svolítið á sig vegna þess að unglingarnir þeirra eru í flestum tilfellum í raun óþekktir leikmenn þegar þeir koma til Arsenal og Wenger mótar þá í 2-3 ár eftir sínu höfði áður en hann hleypir þeim í aðalliðið. Ungu leikmennirnir sem hafa verið að brjóta sér leið inn í hin topp4 liðin hafa oftar en ekki verið keyptir til að ganga beint inn í aðalliðið (a.m.k. inn í hópinn) á fyrsta eða í síðasta lagi öðru ári sínu sbr. t.d. Agger, sissoko, lucas og Babel hjá okkur núna.

    En auðvitað er Arsenal með áberandi yngsta hópinn, því er ekki hægt að neita (og sérstaklega ekki eftir þessa ágætu samantekt ssteins), og 1,2 ár er töluvert mikið á 23 manna hópi þannig að þó þetta séu ekki beint krakkar að þá verðskuldar Arsenal samt að töluverðu leiti þennan stimpil sinn.

  15. Mjög góð grein og áhugavert að sjá þetta tekið svona saman. Ég man eftir að hafa lesið einhverja grein einhvers staðar þar sem það var útskýrt nákvæmlega hvers vegna Arsenal-liðið hefur þann óopinbera titil að vera krakkalið. Þar voru gefnar nokkrar ástæður fyrir því:

    • Wenger er með þá reglu að bjóða leikmönnum 30 ára og eldri ekki meira en eins árs samning í senn. Það var jú ástæðan fyrir því að Pires yfirgaf Arsenal, hann fékk ekki meira en ár þegar samningurinn hans kláraðist.

    • Hann hefur stundað það á sínum ferli, eins og reyndar Sir Alex Ferguson, að selja sína bestu menn svona rétt hinum megin við hátind ferilsins, áður en þeir byrja að dala en á meðan hann fær enn góðan pening fyrir þá, og setja svo nýja menn inn í þeirra stað. Góð dæmi um þetta eru; Sol Campbell fyrir Philippe Senderos, Robert Pires fyrir Aleksandr Hleb og Thierry Henry fyrir Robin Van Persie. Ef við erum sanngjarnir held ég að það sé ansi langt í það að við sjáum Rafa t.d. selja Gerrard um þrítugt og setja allt sitt traust á rétt rúmlega tvítugan gutta í staðinn.

    • Hann er ofboðslega duglegur að finna menn mjög unga og koma þeim inn í liðið hjá sér í gegnum unglingastarfið.

    Þessi síðasti punktur er svo sá áhugaverðasti að mínu mati. Ef þú skoðar t.d. ungu strákana í Chelsea liðinu eru þeir eftirfarandi:

    Salomon Kalou, Shaun Wright-Phillips, Joe Cole, John Obi Mikel, Steve Sinclair.

    Þarna er aðeins einn strákur sem kemur upp úr unglingastarfi Chelsea, Sinclair, en allir hinir eiga það sameiginlegt að hafa þrátt fyrir ungan aldur kostað morðfjár og farið beint inn í aðalliðshópinn.

    Hjá okkur er svipað uppi á teningnum. Skoðum ungu strákana okkar:

    Fernando Torres, Ryan Babel, Jermaine Pennant, Lucas Leiva, Momo Sissoko, Sebastian Leto, Nabil El Zhar, Jack Hobbs, Emiliano Insúa.

    Hér notaði ég sömu kríteríu og hjá Chelsea, þ.e. leikmenn 25 ára og yngri sem hafa spilað fyrir aðalliðið. Hjá okkur eru þrír úr þessum hópi sem komu ódýrt (miðað við hina) og voru um tíma í unglingastarfi okkar og í varaliðinu áður en þeir komu inn í aðalliðið. Þetta eru þeir El Zhar, Hobbs og Insúa. Hinir sex eiga það sameiginlegt að hafa kostað formúgu og komið úr toppliðum í Evrópu/Englandi, fyrir utan Leto sem var ekkert sérstaklega frægur þegar hann kom.

    Ef við síðan lítum á Arsenal-liðið og skoðum ungu strákana hans Wenger:

    Gael Clichy, Emanuel Eboue, Philippe Senderos, Bakary Sagna, Justin Hoyte, Armand Traoré, Cesc Fabregas, Denílson, Lassana Diarra, Mathieu Flamini, Abou Diaby, Alexandre Song, Robin Van Persie, Nicklas Bendtner, Theo Walcott.

    Þetta er talsvert fjölmennari listi en hjá hinum liðunum, og ef við erum alveg hörð gætum við sagt að Bakary Sagna og Robin Van Persie hafi verið einu leikmennirnir sem Wenger keypti beint inn í aðalliðið hjá sér, á sama máta og Chelsea keyptu Kalou og Mikel beint inn í lið sitt og við keyptum Agger og Babel beint inn hjá okkur.

    Allt hitt eru strákar sem liðið fékk tiltölulega ódýrt (nema Walcott, auðvitað) og talsvert undir tvítugu og setti þá í unglingastarfið áður en þeir komu í gegn.

    Meðalaldurinn lýgur aðeins til um þetta hjá Arsenal. Þeir eru með talsvert eldra lið en hin þrjú liðin ef þú tekur krakkana frá. Hjá þeim eru Lehmann, Almunia, Gallas og Gilberto Silva öfugu megin við þrítugt, hjá okkur eru bara Hyypiä og Finnan öfugu megin við þrítugt. Þannig að þeir eru með eldri „rest“ í hópnum sínum en okkar „rest“ en líka með talsvert fjölmennari hóp af kjúklingum.

    Aðalmunurinn á Wenger og Benítez er því að mínu mati augljós: Wenger hefur komið fleiri strákum í gegnum sitt unglingastarf og inn í byrjunarliðið sitt af því að hann hefur verið hjá sínu liði einhverjum 7-8 árum lengur. Það muna allir hvernig liðið hjá Arsenal var skipað fyrstu árin sem Wenger var við stjórn. Þar voru menn eins og Seaman, Winterburn, Bould, Adams, Dixon, Luzhny, Sylvinho, Merson, Wright, Keown, Parlour, Petit og Overmars. Ef maður skoðar meistaralið þeirra frá árinu 1998 vekur athygli að það voru aðeins tveir krakkar í liðinu; Vieira og Anelka. Annar þeirra átti eftir að yfirgefa liðið strax (Anelka) en hinn átti eftir að eyða bestu árum ferils síns hjá Arsenal.

    Þess vegna er oft óraunverulegt að bera Rafa, og José Mourinho/Avram Grant, saman við Sir Alex Ferguson (21 ár hjá Man Utd) og Wenger (11-12 ár hjá Arsenal). Þessir menn hafa einfaldlega haft miklu meiri tíma til að koma sínum unglingum í gegnum kerfið og inn í liðið.

    Það er góður kjarni af ungum leikmönnum í aðalliði Liverpool eins og er, en það er líka vert að minna á að Rafa hefur verið að raða unglingsstrákum inn í varaliðið á síðustu misserum. Þessir strákar eiga flestir eftir að fara eitthvað annað en ef bara einn eða tveir á ári ná að stíga skrefið upp í aðalliðið mun það skila sér í fjölmennum hópi „uppaldra“ hjá Liverpool, eins og við sjáum hjá Arsenal í dag.

  16. “Ef við erum sanngjarnir held ég að það sé ansi langt í það að við sjáum Rafa t.d. selja Gerrard um þrítugt og setja allt sitt traust á rétt rúmlega tvítugan gutta í staðinn.”
    það er spurning hvernig Lucas nær að aðlagast Enska boltanum og Liverpool. Ef hann nær sér á strik þá er aldrei að vita. Hver veit hvað Rafa er að pæla? 😉
    En það er alveg rétt að Wenger hefur haft góðan tíma til að byggja upp hjá Arsenal. Benites er í raun á “byrjunarreit” þetta tímabilið. Þannig að maður ætti kannski að halda sig hægan í gagnrýninni á hann a.m.k. þangað til eftir þetta tímabil.

  17. þið sjáið það í lok tímabilsins að reynslan skiptir máli ekki aldur.Annars gaman að pæla í þessu

  18. Alveg sammála KAR #16
    – Aðalmunurinn á Wenger og Benítez er því að mínu mati augljós: Wenger hefur komið fleiri strákum í gegnum sitt unglingastarf og inn í byrjunarliðið sitt af því að hann hefur verið hjá sínu liði einhverjum 7-8 árum lengur.

    Þetta er akkurat málið, stjórarnir hjá þessum stóru liðum þurfa að fá tíma til að byggja upp sín lið. Wenger náði strax árangri en skipti síðan smátt og smátt um lið, núna rúllar þetta hjá honum nánast eins og færiband, það koma ár inn á milli sem uppbyggingin stendur yfir (held að Arsenal sé á síðasta árinu í svoleiðis ferli) og enginn titill skilar sér í hús.

    En þeir fá tíma og traust frá stjórinni til að byggja upp nýtt og massíft lið, sem tekur oftast ekki svo langan tíma þar sem það er aldrei langt í að næstu kjúklinar fari að banka á aðalliðsdyrnar. Sama má segja um United, Ferguson hefur nokkrum sinnum byggt upp gott lið og liðið hans í dag er fínt dæmi um lið sem small fyrst almennilega saman í fyrra.

    Rafa er að kaupa haug af strákum sem teljast með efnilegri leikmönnum evrópu og ég vona heitt og innilega að hann fái nægan tíma til að klára uppbygginguna, til þess þarf hann vinnufrið og þessi fáránlega óþolinmæðis pressa og neikvæðni þarf aðeins að minnka….áður en fólk á réttum stöðum fer að taka mark á henni.

  19. Ágætis pælingar. Það verður samt að viðurkennast að það sem Wenger er búin að gera er afrek. Kjarninn í hans liði getur verið kjarninn í hans liði mun lengur en kjarninn hjá Liverpool, Chelsea og sömuleiðis Man. Utd. Því þrátt fyrir að þú sért heimsklassa stjóri með hellling af peningum og nægan tíma þá er það afrek að vera búin að byggja upp samkeppnishæft topplið með þetta ungann kjarna. Eins og staðan er í dag bendir allt til þess að þegar kjarninn í Liverpool, Chelsea og United verður komin rétt hinum megin við hátindin (eins og Kristján Atli orðaði það svo skemmtilega) eigi kjarninn í Arsenal-liðinu að halda sér örlíitið lengur í hæsta klassa. Það er sterkt.

    Og ég býst síður við því Rafa Benitez muni nokkurn tímann hafa á að skipa jafn ungu liði í topp klassa og Wenger hefur nú. Og segi ég það án þess að ég sé nokkuð að lasta Rafa eða hans aðferðir. Því það sem Wenger hefur nú er ekkert eðlilegt. Það er mjög sérstakt og krefst mikils tíma og þolinmæðis. Ætli meðalaldur Liverpool-liðsins hafi einhverntímann á gullaldarárum þess hafi einhverntímann verið jafn ungur og Arsenal-liðsins nú?
    Fyrsta liðið sem manni dettur í hug til að bera saman við Arsenal-liðið í dag er Man. Utd 1995/1996. Hver ætli hafi verið meðalaldur þess samanborið við Arsenal í dag?

  20. Það er mikilvægt að hafa í huga eins og Kristján bendir á að Wenger hóf störf árið 1996 Benitez árið 2004.
    Þegar Wenger hafði stjórnað liði Arsenal í fjögur ár eða árið 2000 voru 14 leikjahæstu leikmennirnir: Seaman, Cole, Dixon, Keown, Adams, Grimandi, Viera, Ljungberg, Pires, Parlour, Kanu, Henry, Bergkamp og Wiltord. Sem sagt tveir uppaldnir leikmenn þ.e. Cole og meistari Parlour!.

    Síðan má deila um hvort Gael Clichy, Emanuel Eboue, Philippe Senderos 2.5m, Bakary Sagna 6.5m, Armand Traoré, Cesc Fabregas, Denílson, Lassana Diarra, Mathieu Flamini, Abou Diaby, Alexandre Song, Robin Van Persie, Da Silva 8.5m, Nicklas Bendtner, Theo Walcott 12m, séu uppaldnir leikmenn Arsenal þar sem þeir voru allir keyptir (sumir dýrt)eða fengnir frá öðrum liðum. Bara Justin Hoyte er kemur uppúr Arsenal akademíunni.

    Hins vegar ber ég virðingu fyrir Wenger, hann er óhræddur að gefa ungum leikmönnum séns, óhræddur að eyða miklum fjármunum í unga leikmenn og snillingur í að finna hæfileikaríka leikmenn. Fyrir utan allt þetta þá hafa lið hans alltaf spilað skemmtilega knattspyrnu.

    Það sem ég sakna hins vegar hjá Liverpool er að sjá ekki fleiri stráka koma uppúr akademíunni á borð við Owen, Macca, Gerrard, Carra og Fowler.

  21. Góð viðbót KAR. Ég er aftur á móti ekki sammála Kristni hérna með að kjarninn í liði Wenger eigi eftir að vera lengur en okkar kjarni. Það sést best á því að þegar maður tekur og velur sterkasta liðið, þá munar litlu í meðalaldri á liðunum. Ef við tökum bara “kjarnann” sem liggur upp eftir miðjunni hjá Liverpool, þá erum við að tala um menn eins og Torres (23), Maschareno (23), Agger (22), Reina (25) og Alonso (25). Þetta eru allt strákar sem eiga 6-10 ár eftir á topp level (sumir jafnvel lengur). Þar við bætist svo að menn bæta utan á kjarnann og sjáum bara hvernig hlutirnir eru að þróast hjá Man.Utd. Þeir eru jafnt og þétt að bæta við kjarnann hjá sér og yngja upp.

    Rafa hefur verið að fara svipaða leið og Wenger. Hann hefur verið að týna til sín bráðefnilega menn héðan og þaðan og setja þá í unglingaliðin og varaliðin. Auðvitað hoppa menn ekkert einn, tveir og bingó upp í aðalliðið, en menn gerðu það heldur ekki hjá Wenger. Eins og einare kemur inná, þá er erfitt að tala um að þessir strákar hjá Wenger séu að koma upp í gegnum eitthvað unglingastarf hjá félaginu. Flestir þeirra eru aðkeyptir og settir inn í varaliðið.

    Ég er heldur ekki sammála KAR í sinni upptalningu þegar hann er að tala um að Wenger og Ferguson “selji sína bestu menn svona rétt hinum megin við hátind ferilsins, áður en þeir byrja að dala en á meðan hann fær enn góðan pening fyrir þá, og setja svo nýja menn inn í þeirra stað”. Af þeim sem hann telur upp þá er bara hægt að segja að þetta eigi við um Henry, og samt ekki því það er talsvert síðan Van Persie var keyptur og hann kostaði slatta af seðlum. Þannig að hann er ekki að mínu mati að koma inn í stað Henry. Campbell og Pires fóru á frjálsri sölu ef mig minnir rétt og með Ferguson, þá man ég ekki eftir mörgum svona tilvikum hjá honum, það hefur aðallega verið í gangi hjá honum að hann lendir upp á kant við leikmenn og lætur þá fara eins og skot.

    Þessi pistill minn var ekki settur inn sem eitthvað diss á Arsenal, langt því frá enda tók ég það fram í pistlinum. Ber gríðarlega virðingu fyrir honum sem stjóra. Mér finnst þessi “krakkaklúbbs” umræða í fjölmiðlum samt vera furðuleg. Þó þeir séu með fleiri yngri fringe players en hinir, þá gerir það ekki þetta lið að einhverju krakkaliði. Það eru of margir reynsluboltar í þeirra sterkasta liði að mínu mati, til að þetta geti talist til slíks. Ég dreg þó ekkert úr því að þeir eru með marga unga og góða leikmenn. Ég vonast svo sannarlega til þess að á næstu 2 árum förum við að sjá afraksturinn hjá Rafa eftir að hafa séð hann ná í mikinn fjölda af gríðarlega efnilegum strákum inn til klúbbsins. Þeir eru ekki nokkrir, þeir eru nefninlega fjölmargir.

  22. Sahar hefur leikið nokkra leiki með Chelsea (all seinasta vor held ég). En það er rétt að Terry sé eldri en 25 en það eru Shaun Wright Phillips og Joe Cole líka þannig að ég skil ekki alveg hvað það kemur málinu við. En allavega, Terry kemur allavega úr unglingastarfi Chelsea.

    Annars fínir punktar hjá þér.

  23. Þú hlýtur að horfa frekar lítið á fótbolta því þegar er talað um ungu strákanna hans wengers þá er verið að tala um b-liðið sem er engan veginn aðal liðið.
    johan djouru , philipe senderos , justin hoyte , armand traore , nicklas bendtner , denilsson , theo walcott , lukas fabianski og eduardo da silva og fl og þar dregur gilberto silva aldurinn svolítið upp því hann er 31 árs. Betra að þetta komi framm og unga Arsenal liðið er að gera betri hluti en varaliðin hjá hinum

  24. he he, alltaf gaman þegar Arsenal menn fara að tala um varalið eða B-lið 🙂

    ok, ok, þið eruð æðislegir, bestir og allt það. Getur einnig örugglega fundið póst frá árinu 2006 til að svara líka.

Auglýsing!

Liverpool 2 – Fulham 0