Andfótbolti

Um daginn rakst ég á nýja, íslenska fótboltabloggsíðu sem lofar góðu. Andfótbolti.net er skemmtileg síða og inntak hennar tengist á margan hátt umræðunni sem hefur verið ríkjandi á okkar síðu í kjölfar Everton-sigursins. Sjálfir segja stjórnendur Andfótbolta.net að markmið síðunnar sé að “standa vörð um sóknarknattspyrnu sem og að útrýma dapri og úreltri hugmyndafræði, sem er knattspyrna með ofuráherslu á varnarleik”, og ég get lítið annað en fagnað því.

Meðal þess sem maður tekur eftir á þessari síðu er að hún er, að því er virðist, skrifuð af aðdáendum mismunandi liða (ég sé allavega einn United-aðdáanda og einn Liverpool-aðdáanda skrifa þarna inn). Þeir virðast ætla að vera málefnalegir og hlutlausir, samanber hrós gærdagsins sem féll Arsenal-liðinu í skaut fyrir 7-0 sigur í Meistaradeildinni, og því ber einnig að fagna. Þegar við Einar Örn stofnuðum þessa síðu okkar fyrir rúmum þremur árum sögðum við að ef fleiri metnaðarfullar, íslenskar bloggsíður um knattspyrnu yrðu stofnaðar myndum við lesa þær og því fögnum við þessari viðbót við boltaumræðuna hér á landi.

Eitt við þessa síðu fékk mig þó til að staldra við, en það er að síðustjórar virðast hafa ákveðið að Liverpool sé “andfótboltalið Englands”. Liverpool-maðurinn Haukur gagnrýnir sitt eigið lið og aðrir ganga lengra í umræðunni á köflum, um leið og ég (og væntanlega þá við sem stjórnum þessari síðu) er kallaður “ofsatrúarmaður”, en með því eru menn væntanlega að gefa í skyn að ég sjái ekkert slæmt í fari Rafael Benítez og/eða Liverpool-liðsins í dag. Sem er einfaldlega ekki rétt.

Við Liverpool-aðdáendur erum oft ósammála um margt en ég held að það geti allir verið sammála um að við myndum vilja sjá liðið vera sókndjarfara en það er í dag. Í fullkomnum heimi myndu allir spila eins og Arsenal og enginn tapa leik, en þannig er knattspyrnan einfaldlega ekki. Hitt er svo annað mál að á meðan sumir vilja úthrópa stjórann eða liðið fyrir að skora ekki fimm mörk að meðaltali í leik hef ég reynt að taka raunhæft mið af stöðu liðsins í dag og gefa bæði því jákvæða og neikvæða gaum. Fyrir vikið er það mín skoðun, og ég verð að ítreka hana í kjölfar nýlegrar umræðu, að þótt Liverpool-liðið mætti að mínu mati alveg vera sókndjarfara, þá er til margt í heiminum verra en að halda með Liverpool og ég get bara ekki keypt það að þetta lið sem ég styð sé leiðinlegasta lið Englands, hvað þá verðugur handhafi titilsins “andfótboltalið Englands”.

Klisjan er auðvitað sú að benda á titlana sem Liverpool hefur unnið undir stjórn Rafa Benítez. Engum leiðist að komast í úrslitaleiki eða vinna titla. En það á ekki alveg við hér, þar sem hægt er að vinna titla með varnarknattspyrnu (eins og gríska landsliðið sannaði á EM 2004). Í staðinn myndi ég vilja benda á hvernig Liverpool-liðið vann þessa titla. Það myndi t.d. enginn kalla úrslitaleik Meistaradeildarinnar vorið 2005 í Istanbúl leiðinlegan, né úrslitaleik FA bikarkeppninnar ári síðar. Í báðum leikjum var sóknarætlun Liverpool ráðandi og niðurstaðan 3-3 jafntefli í bráðskemmtilegum sóknarleikjum sem voru eflaust jafn blíðir fyrir auga hlutlausra og okkar Púllara.

Liverpool er eins og flest stórlið í Evrópu; Rafa Benítez stillir upp liði til sigurs í nánast hverjum einasta leik (ég myndi segja hverjum einasta fyrir utan Old Trafford í deildinni og útileiki í seinni umferðum Meistaradeildarinnar) og markmiðið hjá honum er alltaf það sama: ná stjórn á leiknum á miðsvæðinu og byggja upp sigurleik út frá því. Stundum reynist það auðveldara en ella og þá valtar liðið yfir mótherjana, sbr. stórsigra gegn liðum eins og Derby, Toulouse, PSV, Arsenal, Sheffield United, Fulham, Charlton og Wigan á síðasta árinu, svo að nokkrir leikir séu nefndir.

Stundum er það erfiðara og í raun ekki raunhæft að ætlast til stórsigurs, en engu að síður hefur liðið undir stjórn Benítez oft staðið sig frábærlega í erfiðari leikjum. Til að mynda vannst útileikurinn við Barcelona í Meistaradeildinni í vor “bara” 2-1, en það veitti mér mikla ánægju að horfa á liðið mitt stjórna leiknum gegn stórliði Börsunga á þeirra heimavelli. Falleg knattspyrna felst ekki bara í því að skora sjö mörk í leik heldur líka í því að sjá þaulpælda taktík stjórans framkvæmda nær fullkomlega á velli og það gerðist til dæmis í þeim leik. Niðurstaðan var sú að í stað þess að mæta á Nou Camp til að liggja með ellefu menn í vörn og vona það besta mætti Benítez með það í huga að mæta ríkjandi Evrópu- og Spánarmeisturum framarlega á vellinum, kaffæra sóknartilburði þeirra með mikilli pressu og ná fyrir vikið að búa til mikið af marktækifærum. Það tókst og ég veit ekki til þess að nokkurt annað lið frá Englandi hafi náð að pressa Barcelona í tap á þeirra heimavelli.

Það ber að geta þess að árið áður mætti Arsenal-liðið á Santiago Bernabeau, heimavöll Real Madrid, og fór með 1-0 sigur af hólmi í Meistaradeildinni. Í þeim leik stillti Arsene Wenger upp 4-5-1 liði þar sem Thierry Henry var fyrir framan mjög þétta miðju og þétta vörn. Í þeim leik sáum við Arsenal-liðið verjast hetjulega gegn sóknartilburðum spænska stórliðsins og svo þegar leið á leikinn sýndi Henry gæði sín með því að búa til sigurmark upp á eigin spýtur. Fallegur sigur þar sem taktík þjálfarans gekk upp, en það er ekki til sá knattspyrnuspekingur í heiminum sem myndi segja ykkur að Arsenal hefði beitt meiri sóknarknattspyrnu í þeim leik en Liverpool gerði gegn Barcelona við svipaðar aðstæður, ári síðar.

En Arsenal er víst málið í dag. Þeir spila stórkostlega knattspyrnu og hafa alla tíð gert undir stjórn Wenger, segja menn. Það er að vissu leyti rétt, en Wenger er samt enginn vitleysingur og hefur, eins og leikurinn gegn Real Madrid ber vitni um, á tíðum látið sóknarknattspyrnuna víkja fyrir velgengni. Eða eruð þið t.d. búin að gleyma bikarsigri Arsenal árið 2005? Minni manna er vissulega stutt. Ef marka mætti sum ummæli hér og víðar mætti halda að Wenger væri búinn að stilla upp fimm manna framlínu í hverjum einasta leik frá því að hann tók við.

Málið er það að eins og ég sagði áðan væri heimurinn fullkominn ef allir spiluðu blússandi sóknarbolta, skoruðu sjö mörk í leik og töpuðu aldrei. Og þótt árangur Arsenal í síðustu tólf sigurleikjum í röð sé vissulega stórkostlegur eru enn spurningar um hvaða árangur þetta beri. Hvort haldið þið að Arsenal-aðdáendur muni monta sig af þessari sigurhrinu í vor ef hún endist ekki og lið eins og t.d. Manchester United hirðir bæði deildina og Meistaradeildina, eða haldið þið að þeir muni ekki líta öfundaraugum á meistaraliðið? Haldið þið að Wenger, með alla sína sóknarmenn í þessu stórkostlega liði, muni hika við að stilla aftur upp jafn varnarsinnuðu liði og hann gerði gegn Real Madrid vorið 2006, ef hann sér fram á velgengni með slíkri taktík? Ég held ekki.

Heimurinn er ekki fullkominn. Wenger, Benítez, Ferguson, Grant og allir hinir stefna að því sama; velgengni á knattspyrnuvellinum. Menn vilja vinna sigra, helst eins flotta og hægt er, en umfram allt vilja menn vinna. Liverpool-liðið hefur á síðustu leiktíðum verið í svona 3-4 sæti yfir markaskorun í Úrvalsdeildinni og vakið stuðningsmönnum sínum reglulegan innblástur með velgengni í Evrópu og bikarkeppnunum heima fyrir. Liðið hefur í leiðinni slegið mörg met fyrir að halda hreinu eða fá fá sem engin mörk á sig, en það hefur örsjaldan verið afrekað með því að liggja í vörn yfir heilu knattspyrnuleikina. Þeir eru teljandi á fingrum annarar handar, slíkir leikir sem ég man eftir undir stjórn Benítez.

Því þykir mér afskaplega ósanngjarnt að sjá Liverpool-liðið – sem við myndum öll vilja sjá spila enn sókndjarfari bolta en það gerir í dag – kallað “andfótboltalið Englands”. Ég man enn eftir því þegar Everton komu á Anfield s.l. vor og héngu á 0-0 jafntefli með því að liggja með ellefu menn í vörn. Þegar dómarinn flautaði til leiksloka hlupu leikmenn þeirra til stuðningsmanna sinna og fögnuðu með þeim eins og liðið hefði verið að vinna bikar. Á þeim tíma gat ég ekki annað en spurt sjálfan mig eftirfarandi spurningar: Hvenær hefur Liverpool-lið nokkurn tímann fagnað því að ná jafntefli í deildarkeppni?

Spyrjið sjálf ykkur þessarar sömu spurningar og reynið svo að halda því fram að Liverpool sé “andfótboltalið Englands”.

41 Comments

 1. Ég held að ég geti ekki verið meira sammál þér Kristján. Þó vissulega meigi gagnrýna Bentiez fyrir marga hluti og oft á tíðum reytir maður hár sér þegar maður sér uppstillingar fyrir suma útileiki. Ég get líka alveg viðurkennt það að Arsenal er að spila skemmtilegasta fótboltan en ég bara get ekki tekið undir það að Liverpool sé leiðinlegasta lið Englands því þeir hafa oft sýnt mjög skemmtilega sóknartilburði og ef menn neita því þá annað hvort eru þeir blindir eða horfa ekki á leiki með Liverpool.

  Ef Liverpool er svona leiðinlegt hvað þá með öll hin liðin í enska boltanum, Blackburn, Bolton, Everton, Chelsea ofsfrv fyrir mér eru tvö lið sem hafa verið að spila meiri sóknarbolta en Liverpool og það eru Man U og Arsenal.

 2. Frábær pistill Kristján! Ég sé ekki hvernig þessi stimpill hefur komist á Liverpool-liðið. Sannarlega hefur Arsenal skorað fleiri mörk en Liverpool í deildinni það sem af er, og það hafa Tottenham og Portsmouth gert líka – en TotPor hafa spilað einum leik fleira. Hvaða lið hafa svo skorað næstflestu mörkin (eftir 9 umf.)? Það eru Liverpool og Newcastle.

  Hver er mælistöngin á góðan sóknarbolta? Eru það færin, skotin á / framhjá marki? Eru það mörkin kannski?

 3. Heyr heyr, góður pistill KAR.

  Það er í hæsta máta mjög ósanngjart að kalla Liverpool andfótboltalið sem spilar eingöngu leiðinlega varnarknattspyrnu. Ég held að það sem mest fari í taugarnar á andstæðingum okkar er það að oftar en ekki nær Liverpool að stoppa/kæfa andstæðinga sína, sérstaklega stóru liðin í því að spila sinn flæðandi bolta, það gera þeir auðvitað með góðum, en pirrandi fyrir andstæðingana, varnarbolta. Líklega erum við með “leiðinlegt varnarlið” þar sem Liverpool er eitt af fáum liðum sem mjög mjög sjaldan brotnar varnarlega.

  Ef skoðað er tölfræði í leikjum Liverpool þá þarf ekki einu sinni að leita að heimildum til að vita að Liverpool hefur oftar en ekki átt mun fleiri skot á mark og verið mun meira með boltan en andstæðingar sínir(segir kannski ekki allt en þó “skrítin” tilviljun hjá svona leiðinlegu andfótboltaliði).

  Annars verðum við held ég að halda áfram að vera þolinmóðir gagnvart uppbyggingu liðsins. T.d. er ekki langt síðan byrjað var að stilla upp hefðbundnu 4-4-2 með klassíska kanntmenn og liðið er ennþá að slípast í þessu kerfi.

  Það er voða einfalt að drulla yfir Liverpool þegar liðið er búið að vera í lægð og smá meiðslavandræðum (hjá lykilmönnum) og hefja Arsenal (sem btw. er búið að spila frábærlega) upp til skýjana þegar allt er að ganga upp hjá þeim.

  Annars held ég að við ættum ekki að vera að spá of mikið í það sem aðrir eru að segja um Liverpool og mest af þessu röfli á að taka sem hrós 😉

  Þannig að þó ég hafi alls ekki verið missa mig í gleðinni undanfarið og oft lýst yfir gríðarlegri óánægju minni með leikstjórnanda liðsins (þennan frá Malí) þá er liðið ennþá á uppleið og í mótun þegar á heildina er litið og það er mjög bjart frammundan.

 4. Ef skoðað er tölfræði í leikjum Liverpool þá þarf ekki einu sinni að leita að heimildum til að vita að Liverpool hefur oftar en ekki átt mun fleiri skot á mark og verið mun meira með boltan en andstæðingar sínir

  Hárréttt. Ég myndi segja að þetta gerðist í sirka 95% tilvika.

 5. Fínn pistill Kristján. Ég er hjartanlega sammála því að það sé orðum ofaukið að segja að Liverpool sé andfótboltalið Englands. Við eigum oft margar marktilraunir og erum meira með boltann. Það sem ég gagnrýni helst(og nú skulum við reyna vera málefnanlegir og virða skoðanir hvorns annars;-)) er það sem við gerum við boltann þegar við erum með hann. Uppbygging sóknanna er oft svo bitlaus og hugmyndasnauð. Flest skot á mark var tölfræði sem GH notaði líka til að fegra sinn skotgrafahernað. Það vantar að fá meira hugmyndaauki í sóknarleikinn því hæfileikarnir hjá leikmönnunum eru svo sannarlega til staðar.

 6. Ég er bara ánægður með þennan pistil. Ég er einn af þeim sem hef í seinni tíð verið óánægður með Rafa og er mjög ósáttur þessar vikurnar. En það er margt sem Kristján segir sem um liðið og stjórann og leikmenninga og kúbbinn yfirleitt sem er hárrétt og vil ég hérmeð þakka fyrir þessi orð hans. Því svona talar bara sannur maður.

 7. Benni, ég er sammála þér í því að liðið getur oft á tíðum virkað stefnulaust í sóknarleiknum. Ég er reyndar á þeirri skoðun að liðið undir stjórn Benítez sé óeðlilega háð Xabi Alonso; þegar hann er í stuði á miðjunni sjáum við yfirleitt blússandi sóknarleik upp báða kantana (og stöku mark frá miðju, sem skemmir ekki fyrir) en þegar hann er meiddur eða ekki að leika vel strögglar liðið yfirleitt. Það er engin tilviljun að lægð liðsins sl. mánuð hefur verið samhliða ristarbroti Alonso, sem er að mínu mati mikilvægasti leikmaður liðsins (þótt hann sé ekki endilega besti leikmaður liðsins).

  Ég ritaði þennan pistil ekki til að verja liðið eða gefa það í skyn að allt væri frábært hjá Liverpool, heldur einfaldlega til að benda mönnum á góða, nýja fótboltabloggsíðu og eins að gagnrýna þá sem vilja kalla Liverpool andfótboltalið Englands. Liverpool er langt frá því að vera neikvæðasta liðið í Úrvalsdeildinni, að mínu mati.

 8. Fullkomlega sammála. Ég held að umræðan um þessi mál eigi það mjög oft til í að pólariserast miklu meira en efni eru til, þannig að þeir sem hallast frekar að því að glasið sé hálffullt hljómi eins og verstu ofstækismenn og halelújagaurar í augum hinna sem sjá frekar hálftómt glasið, en þeirra boðskapur hljómar um leið eins og versta svartagallsraus í hinum hópnum.
  Og staðreyndin er sennilega sú að skoðanir manna eru ekki eins ólíkar og maður fær oft á tilfinninguna. Við höfum svo sem tekið þessa umræðu áður og þá kom ónefnd og bjartsýn stúlka oft við sögu, en hún verður ekki nefnd á nafn hér. 🙂
  Ég býst t.d. fastlega við því að við séum flestir sammála því að meiri áherslu þarf að leggja á skapandi sóknarbolta í okkar liði (sér í lagi miðað við spilamennsku síðustu vikna – þetta byrjaði allt saman vel) en á móti kemur er verið að skjóta langt yfir markið með því að segja að Liverpool spili að jafnaði ömurlegan bolta sem ekki sé horfandi á (þótt það komi vissulega fyrir, sbr. nokkra af síðustu 5 – 7 leikjum)…

 9. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að spyrja menn sem að fárast yfir knattspyrnuliðum sem spila að þeirra mati ,,lélega” knattspyrnu.

  1. Hafið þið einhverntímann spilað fótbolta? (og þá er ég ekki að meina í Landsbankadeildinni, ensku úrvalsdeildinni, bara einhverntímann spilað einhvern fótbolta 3 á móti 3 á sparkvelli þess vegna)

  2. Hafið þið einhverntímann þegar þið hafið verið að spila fótbolta hugsað út í það hvort þið séuð að spila skemmtilegan eða leiðinlegan fótbolta?

  3. Hafið þið einhverntímann spilað fótbolta þar sem það er ekki markmið númer eitt, tvö, og þrjú er að vinna helvítis leikinn?

  Stundum held ég nefnilega að einu kynni þessara manna af knattspyrnu séu sitjandi í sófanum.

  Sá knattspyrnumaður eða knattspyrnustjóri sem hefur það ekki að meginmarkmiði að sigra leikinn er enginn knattspyrnumaður. Markmiðið í knattspyrnu er að vinna. Þeir sem skilja það ekki geta farið að einbeita sér að einhverju öðru.

  Hvað myndu menn segja ef liðsfélagin í bumbuboltanum myndi segja eftir leik:

  ,,Sorry strákar, leiðinlegt að við töpuðum en við vorum bara að spila svo leiðinlegan bolta að ég varð að sýna smá skæri og reyna nokkrar hælsendingar til að poppa þetta aðeins upp.”

  Þið mynduð aldrei bjóða þeim manni í fótbolta aftur. Þið mynduð húðskamma hann og réttilega telja hann svikara. Svikara við málstaðin. Því málstaðurin er sá að sigra. Þess vegna spilum við fótbolta, þess vegna styðjum við okkar lið og sitjum með öndina í hálsinum í sófanum.

  Þeir sem ekki skilja þetta geta bara farið heim, lagst undir sængina borðandi popp og horft á vídeó með Harlem Globetrotters.

 10. Komment Kristins (#12) endaði umræðuna og þetta á við allar keppnisíþróttir.

  Þarf ekkert að ræða þetta frekar – punktur.

 11. Ég held að sumir hérna séu að taka bumbuboltann of alvarlega… 🙂

 12. Svo ég tali nú ekki um að misskilja algerlega hvað falleg og skemmtileg knattspyrna er…

 13. Er þetta ekki bara enn og aftur spurning um smekk hvers og eins? Sumt þykir þér ægifagurt, en mér ekki og vice versa. Hef áður sagt að mér finnst ekkert leiðinlegra í fótbolta en fáránlega lélegur varnarleikur. Mér finnst fallegur sóknarleikur líka fallegur, en skilgreiningin á honum getur verið eins misjöfn og mennirnir eru margir. Þannig að ég held að menn séu ekkert að misskilja, heldur hafa menn bara ólík sjónarmið á fegurð. Það er hægt að taka dæmi með myndlist og tónlist. Það getur verið tónlist sem þú dýrkar í botn og finnst hreinlega ekki til skemmtilegri tónlist, mér getur fundist hún alveg hrútleiðinleg.

 14. ,Sorry strákar, leiðinlegt að við töpuðum en við vorum bara að spila svo leiðinlegan bolta að ég varð að sýna smá skæri og reyna nokkrar hælsendingar til að poppa þetta aðeins upp.”

  Aðallega þetta komment sem mér finnst mikill útúrsnúningur á hvað við nokkrir hérna höfum verið að segja og finnst mikill misskilningur hvað á hvað falleg knattspyrna er.

 15. Ég get hreinlega ekki skilið það hvernig þú getur haldið því fram að það geti einhvern tíman verið misskilningur á því hvernig falleg knattspyrna er. Þetta er persónubundið (nema ég sé að misskilja þig svona hrikalega).

 16. Mér fannst bara þetta komment sem ég vísaði til lýsa svo mikilli mistúlkun á hvað við höfum verið að meina með “falleg knattspyrna”. Tilgangslausar hælsendingar og skæri í tíma og ótíma er ekki dæmi um fallega knattspyrnu. Ég er sammála því að það er mjög misjafnt hvað mönnum finnst falleg knattspyrna vera en held að sé sem skrifaði þetta frekar ýkta komment viti betur en svo að þetta sé það sem við erum að meina. Reyndar held ég að flestir sem hafa tekið þátt í þessum umræðum viti vel hvað við höfum verið að meina þótt þeir séu ekki endilega sammála að það sé eingöngu það sem telst til fallegrar knattspyrnu eða að það sé það sem þeir vilja sjá í fótbolta. Það sem ég get ekki skilið er þá af hverju geta menn þá bara ekki viðurkennt pointið sem við erum að reyna að meika fyrst að þeim finnst það ekki skipta í raun máli.

 17. Lífið er ekki svart-hvítt.

  LFC er ekki andfótboltalið Englands…
  …en það er langt því frá að þar sé allt í sómanum.

 18. Þeir sem geta kallað Liverpool Andfótboltalið Englands hafa einfaldlega ekki verið að fylgjast með Liverpool undanfarin ár….. bara mín skoðun!!!!

  Liverpool er vissulega sterkt varnarlega og byggir sinn fótbolta upp á góðum varnarleik. En það er alveg pottþétt að Liverpool er ekki lélegasta/leiðinlegasta/andfótboltalegast/o.s.frv. fótboltalið Englands. Þeir sem halda slíku fram eru einfaldlega ekki að fylgjast með Liverpool… bara mín skoðun!!

  Leikurinn á Sunnudaginn verður fróðlegur… svo ekki sé meira sagt.
  Get ekki beðið.

  YNWA

 19. sælir,
  bara til að forðast misskilning og leiðindi þá nota ég ekki orðið ofsatrúarmaður á neikvæðan hátt. Hefði allt eins geta kallað EOE þetta. Þið tveir eruð allavega svona með heitari liverpool mönnunum sem ég veit um, og ég þekki þá nokkuð marga.
  Kveðja,

 20. Það er ekki hægt að benda á einstaka leiki. Þá væri mjög auðvelt að benda á 6-0 sigur Reading gegn West Ham í fyrra, eða 7 mörk Portsmouth gegn Reading, en svo er ekki.

  Arsenal spilar að jafnaði miklu meiri sóknarbolta en öll liðin í ensku deildinni, jafnvel til samans. Tottenham er kannski undanskilið, en þeir neyðast líka til að spila sóknarbolta af því þeir verða að skora 3 mörk til að vinna leik því vörnin er svo léleg.

  Varðandi ummæli Kristins, þá er markmiðið auðvitað að vinna leikinn, en þjálfarar nota mismunandi leiðir.

  Wenger virðist þjálfa liðið til að spila saman þannig að þeir spila alltaf mjög svipaðan fótbolta, sem maður sér nánast leik eftir leik. Síðan kemur Benitez sem pælir svo ótrúlega mikið í mótherjanum, að einn daginn er Arbeloa í vinstri bakverði af því að hann er mesti varnarmaðurinn, í leik nr. 2 er Riise af því hann er sóknarsinnaðri, og í leik nr. 3 er Aurelio af því hann getur gefið perfect diagonal bolta upp á Pennant (ég er náttúrulega bara að nefna eitthvað rugl hérna).

  Auðvitað er maður ekki hlutlaus þegar maður er að horfa á Liverpool, og persónulega mættu þeir spila kerfið 6-3-1 fyrir mér svo lengi sem þeir myndu vinna leiki. Aftur á móti, rétt eins og mér finnst alveg dreeepleiðinlegt að horfa á Chelsea leiki, þá skil ég að ef maður ætlaði að setjast niður, Liverpool ekki að spila, og vildi sjá skemmtilega knattspyrnu, þá myndi maður eflaust tjúna inn á Arsenal leik.

 21. Halldór, lastu pistilinn minn áður en þú kommentaðir á hann? Lastu líka það sem ég sagði um Arsenal og goðsögnina um að þeir spili blússandi bolta í hverjum einasta leik? Lastu það sem ég skrifaði um leiki Arsenal gegn Real Madrid 2006 og Man Utd í bikarnum 2005?

 22. En Kristján, þú ert að pikka út einstaka leiki með Arsenal. Þú veist jafn vel og við hinir að þeir spila heilt yfir mjög skemmtilegan og flæðandi sóknarleik og við gætum lært mikið af þeim.

  En annað sem ég fór að spá í um daginn. Horfði einhver hérna á Valencia liðið þegar Rafa var með það? Man einhver t.d. þegar við spiluðum gegn þeim í Evrópukeppninni og við litum út eins og viðvaningar á móti þeim? Mér finnst við vera langt frá þeim standard sem Valencia liðið var þá…en á móti kemur að margt lifir oft ótrúlega “fallegu” lífi í minningunni. Hvernig er ykkar tilfinning fyrir þessu?

 23. Ég man bara það að ég hef ekki séð neitt lið valta yfir Liverpool einsog Valencia undir stjórn Benitez gerðu. Það var hreinlega neyðarlegt.

 24. Nákvæmlega….við áttum aldrei séns! Þetta vantar líka svolítið hjá okkur. Þó við skorum, þá eigum við í erfiðleikum með að “drepa” leiki eða að spila þannig að maður hefur aldrei á tilfinningunni að hitt liðið gæti mögulega jafnað.
  Kannski er hann ekki ennþá kominn með það lið eða þann kjarna sem til þarf, en hann er þó búinn að stjórna Liverpool jafn lengi og hann stjórnaði Valencia, eða í þrjú ár, og því myndi maður ætla að hann ætti að vera kominn með lið sem gæti spilað á þennan hátt.

 25. Ég man vel eftir þessum Liverpool-Valencia leikjum, leikmenn Liverpool litu út eins og viðvaningar og voru hreinlega niðurlægðir. Ég veit ekki hvort Valencia liðið, undir stjórn Rafa, spilaði svona í hverri viku en eitthvað hlýtur þetta að hafa verið í þá áttina.

  Það er rétt að Liverpool, undir stjórn Rafa, hefur ekki náð upp sams konar spilamennsku. En mér fannst á tímabilinu 2005-2006, sérstaklega í nóv/des það tímabilið, sem þetta væri að koma. Liðið spilaði frábæran fótbolta, fékk ekki á sig mark og vann alla leiki frekar sannfærandi. En síðan fór liðið til Japan í Heimsmeistarakeppni félagsliða, missti taktinn og náði aldrei sama takti eftir það og hefur í raun aldrei endurheimt hann. Af hverju? Hef ekki hugmynd en ég vona að Rafa viti það!

 26. The team in full is: Reina, Finnan, Riise, Hyypia, Carragher, Mascherano, Gerrard, Pennant, Babel, Kuyt, Voronin. Subs: Itandje, Hobbs, Alonso, Sissoko, Lucas, Benayoun, Crouch.

 27. hefði haldið að Crouch fengið sénsinn… en þetta er svo sem ágætt lið, sisqó á bekknum og því ber að fagna

 28. Benni, ég sagði aldrei annað. Ég var ekki að halda því fram að Arsenal spiluðu alltaf varnarsinnað. Þeir spila langoftast sóknarknattspyrnu. En sumir virðast halda að þeir spili alltaf sóknarbolta, í hverjum einasta leik undir stjórn Wenger, þannig að ég benti bara á tvö nýleg, fræg dæmi um annað til að minna menn á að jafnvel Wenger er ekki yfir það hafinn að leggjast í vörn fyrir velgengni.

 29. Ok, Liverpool hefur spilað skemmtilegan bolta í einhverjum leikjum. Arsenal hefur spilað leiðinlegan bolta í einhverjum leikjum. Niðurstaða: liðin spila jafnskemmtilegan fótbolta….. NEI!!!!!!!!!!!

 30. Hvað eigum við Púllarar að þurfa að horfa lengi á þessa hörmulegu spilamennsku. Það er ekki hægt að bjóða upp á þetta leik eftir leik, hingað og ekki lengra.
  BURT MEÐ BENNA!!!!!!!!!!

 31. Kristján, má ég spyrja, horfðir þú á Real Madrid – Arsenal? Ég man nefnilega að Liverpool var að tapa fyrir Benfica á sama tíma og þessi leikur var þannig að ég efast um að þú hafir verið að horfa á Arsenal leikinn í beinni. Enda eru ályktanir þínar um þann leik kolrangar, Arsenal lagðist alls ekki í vörn í þeim leik. Arsenal átti mun fleiri og hættulegri færi og spilaði mjög vel í leiknum. Þú getur séð það helsta úr leiknum hérna:

  http://youtube.com/watch?v=lhIostUure8

  Hvað bikarúrslitaleikinn gegn Manutd varðar þá spilaði Arsenal einfaldlega illa í þeim leik. Það var ekkert lagt upp með að hanga í vörn, Arsenal átti einfaldlega mjög dapran dag á meðan Manutd spilaði mjög vel en þökk sé Lehmann þá náðu þeir ekki að skora.

 32. Til að byrja með verð ég að fá að segja að persónulega finnst mér Liverpool ekki leiðinlegasta liðið í ensku úrvalsdeildinni. Þó get ég ímyndað mér að það sé mjög erfitt að taka slíkri fullyrðingu sem einhverju sérstöku hrósi. Skemmtanagildismat manna er misjafnt eins og áður hefur komið fram hérna, en það er samt staðreynd að liðið liggur undir ámæli margra um að spila leiðinlega knattspyrnu helgi eftir helgi, eða a.m.k. aðra hverja helgi.

  Þeir leikir sem Liverpool hafa spilað með slíkum hætti undanfarin ár eru vægast sagt mjög margir. Bara þessi ágæta heimasíða er staðfesting á því þ.e. leikskýrslurnar sem koma hingað eftir leiki. Þá eru ekki taldir með leikirnir sem eru nokkurn veginn beggja vegna línunnar, t.d. eins og leikurinn á móti Everton. Ég veit um marga Liverpool menn sem voru mjög sáttir með þau úrslit, en hvað dómarinn hefði gert allt og jafntefli hefði orðið niðurstaðan? Ekki eins sáttir býst ég við. Menn þurfa að líta á heildarmyndina. Þetta var ekki mjög sannfærandi sigur. Enda kom það á daginn í næsta leik sem var leikurinn á móti Besiktas.

  Það eru ótal leikir sýndir með Liverpool á hverju tímabili, þar sem þeir etja kappi við stóru liðin í Evrópu sem og heima á Englandi. Liverpool þarf að fara að bera sig saman við stóru liðin þegar talað er um knattspyrnuleg gæði, t.d. líta á 3 stig gegn Everton sama hvort það sé á heimavelli eða útivelli sem skylduverk. Það er það mikill stærðarmunur á liðunum.

  Varðandi Man Utd-Arsenal í bikarúrslitunum vorið 2005 þá var skömm að því að Arsenal vann þann leik, áttu það engan veginn skilið. Þó þeir hafi verið arfaslakir í þeim þá voru þeir alls ekki að spila einhvern sérstakan varnarbolta (eins og “jogi” nefnir hér fyrir ofan).

  Ég ítreka að það þarf að líta á heildarmyndina. Að bera saman einn leik með Arsenal fyrir meira en tveimur árum saman við Liverpool liðið í gegnum tíðina er vafasamt. Þá er alveg eins hægt að nefna öll knattspyrnulið heimsins og kalla þau varnarvígi. Hvaða lið hefur ekki dottið á leik sem það veldur ekki einu né neinu og þurft að falla niður á völlinn af illri nauðsyn?

  En minni manna er stutt. Það er rétt Kristján, en um það snýst knattspyrnuheimurinn. Hvað liðin eru að gera á þessari stundu er það sem skiptir máli.

  Það er samt ekki rétt að Arsenal hafi spilað varnarbolta á Bernabeau árið 2006. Þið megið kalla það varnarbolta en það var ágætis fótboltaleikur í mínum huga. Það er grundvallarmunur á því að stilla upp 4-5-1 og spila vörn allan leikinn og að nota það sem vopn gegn liði eins og Real Madrid með útivallamarks-regluna til hliðsjónar. “Þétt miðja” er ekki beint rétta orðið þar sem Ljungberg, Hleb, Reyes, Fabregas og Silva voru á miðjunni í þessum leik. Arsenal spiluðu hraðan einnar snertingar bolta í þessum leik og Real Madrid áttu í miklum vandræðum og alltaf þegar þeir misstu boltann þá reyndu Arsenal að sækja hratt á þá með mörgum mönnum og fáum snertingum.

  Ég ákvað að grafa upp tölfræði úr viðureignum Real Madrid og Arsenal samanborið við Barcelona-Liverpool:

  Á Bernabeau árið 2005 áttu Real Madrid 15 markskot gegn 11 markskotum Arsenal. Possession 60% – 40%.

  Á Nou Camp ári seinna áttu Barcelona 12 markskot og voru 62% með boltann á móti 7 markskotum hjá Liverpool og 38% boltahlutfalli.

  Þið segið að tölfræðin ljúgi ekki þannig að þetta ættu að hafa verið mjög svipaðir leikir.

  Sigur Arsenal á Man Utd í bikarúrslitunum 2005 var vægast sagt mjög ósanngjarn, því miður fyrir knattspyrnuna. Sennilega álíka ósanngjarn og sigur Liverpool á AC Milan viku seinna. En nóg um það.

  Ég set samt stórt spurningamerki við að menn grafi upp einstaka leiki liðs sem voru spilaðir fyrir meira en tveimur árum til að réttlæta taktíkina sem Benitez er að beita. Mér finnst það ekki vera aðal atriðið í þessu.

  Viðureignir Chelsa og Liverpool í gegnum árin eru gott dæmi um slæma þróun í knattspyrnu. Þær viðureignir fengu ávallt gríðarlega athygli og umfjöllun en það sem stóð upp úr fyrir hinn hlutlausa knattspyrnuáhugamann voru leiðindi á leiðindi ofan. Sú staðreynd að fólki hafi verið boðið upp á þessar viðureignir á sínum tíma er vandamál út af fyrir sig. Það kjósa sennilega fæstir að horfa á svona leiki aftur.

  Starf knattspyrnustjóra er auðvitað að vinna leiki eins og Kristján nefnir. En grundvallarhlutverk þeirra er að fá fólk til að mæta á völlinn. Benitez á þó ekki í vandræðum með það þar sem Liverpool getur státað af dyggustu stuðningsmönnunum af toppliðunum í deildinni. Ég er fullviss um að knattspyrna yrði ekki mikið lengur vinsælasta íþrótt veraldar ef markmið allra í íþróttinni væri að halda hreinu og skora eitt mark (ath ég er ekki að beina þessu til Liverpool heldur bara nefna þetta sem dæmi fyrst menn koma með rök, leiðinlegri knattspyrnu til varnar, að markmiðið sé að vinna leiki og ekkert meira um það að segja).

  Liverpool er risa klúbbur og ég geri væntingar um að lið sem ætlar að vera í baráttu um titla á öllum vígstöðum sé að spila bolta sem hægt er að horfa á án þess að áhorfendur heima í stofu verði leiðir jafn oft og hefur komið á daginn.

  Ég tek það þó fram að ég ætlast ekki til að Benitez byrji með 3 framherja í næsta leik eða eitthvað slíkt (enda er fjöldi framherja ekki ávísun á árangur), kerfisbreyting getur tekið marga mánuði og skiljanlega er Benitez ekki í kjör stöðu til að fara að grúska í leikkerfinu sínu eins og staðan er núna. Menn þurfa jú auðvitað að vera hliðhollir sinni stefnu og halda áfram að reyna að vinna með það sem þeir eru búnir að setja fyrir sig.

  Þetta er bara mitt instant sjónarmið.

  Með von um að Liverpool blási til sóknar, hætti að sætta sig jafntefli gegn Man Utd í framtíðinni og vinni fleiri “verðskuldaða” sigra.

  Knattspyrnukveðja,
  Birgir

 33. Sælir drengir og afsakið að ég skuli vekja upp dauða umræðu.

  Ég veit ekki með hvaða liði þú heldur Birgir en ég af orðum þínum að dæma að þú haldir með annaðhvort Liverpool eða Chelsea. Því ég get sagt þér það að 99% stuðningsmanna liða sitja á stólbrúninni iðandi í skinninu á meðan á leikjum þessara liða stendur. (Að mörgu leyti er það það skemmtilegasta í fótbolta (að mínu mati) spennan og eftirvæntingin, áhyggurnar, stressið og biðin).

  Þannig er það bara að þegar tvö lið á sama plani mætast þá gerist ekki mikið. Það er sama hvað annað liðið reynir – hitt á alltaf mótleik. Og ef þú ætlar að gerast djarfur og fjölga í sókninni þá er þér refsað.

  Jogi held ég að hafi mögulega hitt naglan á höfuðið áðan þegar hann minntist á það að að Arsenal hefði bara spilað illa í úrslitaleiknum forðum. Akkúrat. Ég held nefnilega að það sé oft lóðið. Lið spila illa. Þegar Liverpool er að gera jafntefli á móti liði í neðri hlutanum og sóknarleikurin steindauður þá er það ekki útaf því að það hafi verið dagsskipun Benitez að pakka inn í teig og treysta á skyndisóknir eða halda jafnteflinu heldur það að liðið er að spila illa og kemur því ekki í framkvæmd sem fyrir það var lagt.

  Síðan er ég alveg sammála Gumma Halldórs í kommenti nr. 31. Liverpool-liðið var að spila frábæran bolta um tíma tímabilið 2005/2006. Frábæran af því hlutirnir voru að ganga upp. Rafa vill hafa hátt possession, halda boltanum og stjórna leikjum frá miðjunni (ef ég skil hann rétt). Ýta andstæðingunum síðan markvisst aftar og skapa þar með aukna pressu. Mér finnst ekkert varnarsinnað við þessa hugmyndafræði. Síðan er önnur spurning hvort planið gangi upp. Reyndar finnst mér Liverpool aðeins hafa horfið frá þessari leið á þessu tímabili. Valdið á leikjunum hefur minnkað, sóknarleikurinn hefur ekki verið jafn yfirvegaður – í auknum mæli spilað upp á skyndisóknir. Ég held hinsvegar að þetta sé aðallega út af því að hlutirnir hafi ekki verið að ganga upp frekar en einhver hugmyndafræðileg umskipti í kollinum á Benitez.

  Svo ég geri mér og öðrum nú þann grikk að tjá mig út frá eigin tilfinningum frekar en rökum þá finnst mér nú skemmtilegast að horfa á sóknarleik sem er fyrirsjáanlegur. Þar sem sérð hvert næsta sending á að fara og uppbygging sóknarleiksis er einföld en um leið MJÖG öguð. Þetta sé ég oft hjá liðum eins og Arsenal og Man.Utd. Með þetta til hliðsjónar finnst mér furðulegt þegar menn eru að gagnrýna sóknarleik Benitez með tilliti til ummæla Babels um að Rafa skipti sér lítið að sóknarleiknum. Því yfirleitt finnst mér gagnrýni á sóknarleik Benitez vera sú að hann sé of agaður og niðurnjörvaður. Frá mínum bæjardyrum séð væri nær lagi að saka hann um agaleysi og oftreysta hugmyndaaugði einstakra leikmanna.

  Svona í lokin þá held ég að menn séu stundum að ofmeta ásetning knattspyrnustjóra í því sem þeir kalla ,,leiðinlegan” fótbolta . Það hlýtur að vera markmið 99% knattspyrnustjóra og þjálfara að dómínera leiki. Síðan veltur það á mannskapnum hvort það er hreinlega hægt eða hversu mikið það er hægt. Síðan er allt önnur saga hvernig það gengur upp.

 34. “Þannig er það bara að þegar tvö lið á sama plani mætast þá gerist ekki mikið. Það er sama hvað annað liðið reynir – hitt á alltaf mótleik. Og ef þú ætlar að gerast djarfur og fjölga í sókninni þá er þér refsað.”

  Mig langar þá að benda á þessu á móti t.d. leiki Barcelona vs Real Madrid, Barcelona vs Sevilla, Real Madrid vs Sevilla. M.a.s. innbyrðisleikir Arsenal, Utd og Chelsea (þótt þeir hafi verið frekar daprir síðustu ár) hafa verið betri en allir leikir Liverpool vs Chelsea. Auðvitað hafa Liv-Che leikirnir verið svakalega spennandi fyrir okkur sem höldum með liðinu en fyrir alla aðra og restina af heiminum þá hefur þetta verið eins skemmtilegt og að horfa á upptöku af skáklýsingum.

  Hvernig er líka komið fyrir fótboltanum þegar það að fá á sig eitt mark er endalok heimsins hvað þjálfara varðar? Ég er ekkert að tala um að öll lið eigi að fara gung ho í alla leiki en svo virðist bara sem markaskorun sé eitthvað sem margir þjálfarar leggi ekkert upp úr og sé í raun aukaatriði sem eigi að huga að svo lengi sem menn haldi marki sínu hreinu. Það er ekki skrýtið að atvinnuknattspyrnumenn um allan heim leiki með grettu á andlitinu en ekki bros.

One Ping

 1. Pingback:

Besiktas á morgun

Kuyt og Voronin frammi, Alonso á bekknum.