Liverpool 2 – Tottenham 2

Ja hérna.

Í dag gerði Liverpool jafntefli gegn Tottenham, 2-2 á heimavelli. Í dag lauk skelfilegri leikjahrinu liðsins á milli landsleikja. Í dag lauk einni ömurlegustu heimaleikjaviku sem ég man eftir. Í dag vorum við heppnir að ná stigi á heimavelli gegn þriðja neðsta liði deildarinnar, hvers þjálfari var klukkutíma frá því að missa starf sitt í dag. Ég veit ekki með ykkur, en Martin Jol mun að mínu mati skála fyrir Liverpool-liðinu í kvöld fyrir að tryggja honum gálgafrest í starfi.

Ég ætla að koma tæknilegu atriðunum frá, og svo ætla ég aðeins að gera þennan leik upp, og um leið vikuna sem er að líða:

**Liverpool:** Reina – Finnan, Carragher, Hyypiä, Arbeloa – Pennant, Gerrard, Mascherano, Riise – Torres, Voronin. **Bekkur:** Itandje, Benayoun (inn fyrir Voronin), Lucas, Babel (inn fyrir Arbeloa), Kuyt (inn fyrir Pennant).

**Tottenham:** Robinson – Chimbonda, Dawson, Kaboul, Lee – Tainio, Jenas, Zokora, Bale – Keane, Berbatov. **Bekkur:** Malbranque (inn fyrir Tainio) og einhverjir aðrir sem komu ekki inná.

**Mörk Liverpool:** Voronin (12′) og Torres (92′).
**Mörk Tottenham:** Keane 2 (45′ og 47′).

Mörk Tottenham voru skoruð svona: Sitt hvorum megin við hálfleikinn tók Paul Robinson langar spyrnur út úr eigin vítateig og hátt fram völlinn. Þar náði Dimitar Berbatov boltunum á undan Sami Hyypiä og náði að framlengja þá inn á teig Liverpool. Þar var Robbie Keane annars vegar á undan Jamie Carragher og Steve Finnan og hins vegar á undan Jamie Carragher og Pepe Reina og náði að setja boltann í fjærhornið/þaknetið. Að horfa á seinna markið var eins og að horfa á fyrra markið í spegli.

Vörn Liverpool lék svona: illa. Það er nóg að menn skuli hafa verið sofandi framan af leiknum, og það segir sitt um gang leiksins í fyrri hálfleik að jöfnunarmark Tottenham var ekki gegn gangi leiksins og kom mér ekki vitund á óvart, því hann og Berbatov höfðu fengið að leika lausum hala frá byrjun og oft valdið usla gegn slakri vörn okkar manna. Í síðari hálfleik, auk þess að gera sig að fífli með því að fá á sig náááákvæmlega eins mark við upphaf hálfleiksins, máttu menn þakka fyrir að Keane og Berbatov skoruðu ekki fleiri mörk. Ég horfði á þennan leik með bróður mínum og hann sagði um miðjan seinnihálfleikinn að hann hefði viljað eiga Gabriel Paletta til að setja inná í þessum leik, af því að hann gæti ekki mögulega gert verr en Carragher og Hyypiä. Það segir allt sem segja þarf.

Kantmenn Liverpool léku svona: illa. Þegar leið á fyrri hálfleikinn var orðið ljóst að ekkert sem Jermaine Pennant reyndi myndi ganga upp. Hann var að rembast við að komast í gegnum þá Lee og Bale á hægri kantinum en oftar en ekki endaði það með því að hann þurfti að elta þá til baka er þeir unnu af honum boltann og geystust upp kantinn og sköpuðu hættu. Ég var orðinn verulega pirraður út í Pennant fyrir allt klúðrið þegar skringilegri hugsun laust niður í huga minn: hvar í fjandanum var Johnny Riise búinn að vera?!? Því eins illa og Pennant var að spila í þessum leik var hann allavega að reyna; Riise horfði á þennan leik úr leðursófa á vinstri kantinum. Þeir áttu báðir skilið að vera teknir út af í þessum leik en Rafa hlífði Riise og tók Arbeloa út fyrir Babel í staðinn. Ég hefði haldið Arbeloa inná, enda hann sem bakvörður búinn að ógna meira upp vinstra megin en Riise sem kantmaður.

Miðjumenn Liverpool léku svona: illa. Ég á í stökustu vandræðum með að gera upp við mig hvor var lélegri, Javier Mascherano eða Steven Gerrard. Þessir tveir menn, sem að því er virðist flestir Liverpool-aðdáendur heimta að spili alla leiki saman á miðjunni, spiluðu í dag eins og þeir hefðu aldrei hist fyrir leikinn. Á tímabili virtust þeir varla vita af hvor öðrum inná vellinum, og þegar liðið lenti undir og þurfti að pressa upp völlinn til að jafna var eins og þeir væru ekki með það á hreinu hvor ætti að pressa upp og hvor ætti að bíða. Þannig að ég veit ekki hvor þeirra var skárri en hinn, þeir léku báðir ömurlega. Segið þið mér, hvor leikur verr; argentínski varnartengiliðurinn sem reynir og reynir en getur ómögulega sent boltann á samherja og er alveg steingeldur sóknarlega, eða hinn svokallaði besti miðjumaður heims sem horfir á leikinn fljúga hjá frá miðjuhringnum og virðist lítið geta gert nema hengt haus og yppt öxlum?

Framherjar Liverpool léku svona: illa og frábærlega, en þeir skoruðu þó báðir. Andryi Voronin var einfaldlega yfirburðamaður í þessu liði í dag og sá eini sem mig langaði ekki til að sparka í að leik loknum. Hann mætti grimmur og tilbúinn í slaginn frá byrjun og skoraði snemma með góðu frákasti eftir að Robinson í marki Spurs hafði misst auðvelda aukaspyrnu Gerrard frá sér. Sá úkraínski fagnaði markinu mikið og hélt svo áfram að skapa hættu. Nánast hver einasta sókn okkar manna fór upp í gegnum hann og oftar en ekki var það hann sjálfur sem kláraði með skoti líka, því það virtist á tímabili eins og hann væri sá eini sem var vakandi til að gera eitthvað í málunum. Torres, hins vegar, skoraði jöfnunarmarkið með góðum skalla og bjargaði fyrir vikið andliti liðsins upp að vissu marki, en þess fyrir utan var hann hreinlega lélegur í þessum leik og er það eiginlega þriðji leikurinn í röð þar sem hann spilar langt undir getu. Það er erfitt að gagnrýna mann sem er búinn að skora fjögur mörk í fjórum síðustu leikjum liðsins, sérstaklega þar sem nær allir í kringum hann eru að spila enn verr, en Torres getur miklu betur en hann sýndi í dag.

Varamenn Liverpool létu lítið fyrir sér finna. Þeir komu allir með baráttu inní þetta og ef ég man rétt var það sending frá Kuyt frekar en Finnan sem Torres skoraði úr, en annars höfðu þeir lítil áhrif á leikinn.

Rafa lék svona í dag: sæmilega. Ég sagði eftir að liðið lenti undir að það væri varla hægt að sakast við Rafa í þessu tilfelli. Hann er ekki undanþeginn gagnrýni, en hann valdi sterkt byrjunarlið í dag sem komst í 1-0 og hafði nær öll völd á vellinum í um hálftíma. Menn skutu í stöng og klúðruðu dauðafærum og virtist sem liðinu væri fyrirmunað að skora annað markið og gera út um þennan leik fyrir hlé. Svo hætti liðið bara að spila knattspyrnu og leyfði Tottenham-liðinu að vaða yfir sig alveg fram á lokamínútur leiksins. Það er auðvitað alltaf hægt að setja spurningarmerki við það hvort þjálfarinn sé að ná að mótívera liðið nógu vel þegar það leikur illa, en að mínu mati verða leikmennirnir að taka ábyrgð á því hvers vegna þeir höfðu yfirburði í hálftíma en hættu svo að spila knattspyrnu. Það er lítið sem þjálfarinn getur gert í því, og því ætlaði ég mér ekki að gagnrýna Rafa fyrir þessa SKELFILEGU frammistöðu …

… en þá tók hann Andryi Voronin útaf fyrir Yossi Benayoun. Ég ætla sem minnst að segja, en þegar þú ert að horfa upp á ellefu leikmenn inná vellinum og tíu af þeim eru að spila eins og þeir séu með buxurnar á hælunum og þurfi að fá kopp í snatri, meikar þá eitthvað sens að taka ellefta manninn, sem er að brillera, útaf? Ég hélt ekki.

Raunveruleikinn er sá að jöfnunarmark Torres í dag nær ekki að mála yfir sprungurnar sem voru augljósar allt fram á 92. mínútu leiksins. Liðið skortir sjálfstraust, leikmenn eru bæði að leika illa og illa stemmdir, pirringurinn er áþreifanlegur bæði innan vallarins og á meðal áhorfenda, og þessa stundina virðast hvorki framkvæmdarstjórinn né leikmennirnir hafa hugmynd um hvernig á að snúa þessu við. Rafa heldur áfram að velja sterk byrjunarlið og gæðin sem eru til staðar, á pappírnum, eiga að duga til að leggja lið eins og Portsmouth, Birmingham, Marseille og Tottenham að velli, en þetta bara einfaldlega er ekki að virka.

Það er hægt að tala um trú; sumir hafa trú á því að Rafa sé rétti maðurinn til að vinna deildina fyrir Liverpool en aðrir tala um að þeir hafi misst trúna eða jafnvel aldrei haft trú á að hann geti komið liðinu í fremstu röð. Ég ætla ekki að tala við ykkur um trú í dag, heldur raunveruleikann. Raunveruleikinn er sá að þótt maður trúi að liðið sé nógu gott til að vinna titla og þótt velgengnin hafi verið mikil í öðrum keppnum en deildinni á síðustu árum, þá virðist þetta lið eins og staðan er í dag vera langt frá því að geta ýtt heilum nítján liðum niður fyrir sig í þrjátíu og átta leikjum. Það er bara staðreynd.

Mér finnst liðið vera nógu gott til að vinna deildina, og mér finnst Rafa vera stjóri sem er nógu hæfur til að fara á toppinn með þetta lið, en það bara er ekki að gerast. Ég er ekki að segja að það eigi að reka eða selja nokkurn mann, ekki að svo stöddu og það er mín skoðun að slíkt er algjörlega ótímabært á þessum tímapunkti. En ég var líka búinn að segja á þessari síðu í sumar að Rafa yrði látinn taka ábyrgð á frammistöðu liðsins á þessu tímabili, hvort sem hún yrði góð eða slæm. Hann hefur þetta tímabil og svo verður hann metinn og þótt ég hafi haft trú á honum og jafnvel varið hann gegn ósanngjarnri gagnrýni á tímum síðustu þrjú árin, þá er traust til stjórans ekki eitthvað sem hann á víst heldur eitthvað sem hann verður að halda áfram að verðskulda. Hann hefur verðskuldað traust okkar síðustu árin en í dag er eðlilegt að menn efist. Hann verður að lifa með því og berjast í næstu leikjum fyrir því að breyta þeirri skoðun manna.

Í dag er Liverpool sex stigum á eftir Arsenal í deildinni, eftir jafn marga leiki, og fjórum stigum á eftir United, með leik til góða. Í dag er Liverpool fjórum stigum á eftir liðinu í öðru sæti riðilsins í Meistaradeildinni. Í dag er vörnin hjá okkur skítléleg, miðjan gjörsamlega stefnu- og kraftlaus og sóknartilburðirnir stirðir í besta falli. Í dag virðist Rafa ekki geta snúið sér við án þess að það sé gagnrýnt. Í dag er liðið statt í vítahring sem aðeins verður rofinn með einhverju róttæku. Það er undir Rafa Benítez komið að brjótast út úr þessum vítahring, en hann verður að bíða í hálfan mánuð áður en hann fær tækifæri til þess.

Til hamingju með það, Liverpool-stuðningsmenn, og munið að það besta sem þið getið gert er að hvíla ykkur algjörlega á öllum pirringi í garð liðsins og stjórans næstu tvær vikur. Það ætla ég að gera. Á miðvikudaginn horfði ég á liðið tapa gegn Marseille í einni lélegustu frammistöðu síðustu ára, og ég var alveg rólegur. Ég hugsaði með mér að þetta væri kannski sparkið í rassgatið sem liðið þyrfti til að rífa sig upp úr lognmollu síðustu leikja. Í dag horfði ég á liðið gera jafntefli gegn Tottenham, og leika á köflum alveg jafn illa og á miðvikudag, og ég var svo hoppandi brjálaður að ég gat vart klárað að horfa á leikinn til enda.

Af hverju var ég svona rólegur á miðvikudag en brjálaður í dag? Af því að á miðvikudaginn átti botninum að hafa verið náð og eftir þann leik var ástæða til bjartsýni, enda er upp eina áttin sem hægt er að fara af botninum. Í dag hins vegar virtist ekkert hafa breyst, ekkert batnað, ekkert gerst. Reiði mín stafaði af mjög einfaldri spurningu: ef tapið gegn Marseille nægði ekki til að menn tækju sig saman í andlitinu, hvað þarf þá til?

74 Comments

 1. Ég hef þegar bent á lausnina. Jose strax á Anfield! Að vinna ekki heimaleik eftir heimaleik eftir heimaleik er SKANDALL!
  Hvaða helvítis fokk er þetta? Það er ekki control á nokkrum sköpuðum hlut þarna hjá LFC og leikmenn að spila langt undir getu. Við náum ekki að vinna leik á okkar heimavelli og það virðist vera sama hverja Benitez lætur spila enginn sigrar fyrir hann.

  Skiptum um stjóra áður en það verður of seint. Það er enn hægt að snúa þessu við.

 2. Sælir félagar
  Að mínu viti er farið alvarlega að væsa um RB. Annar drulluleikurinn í röð á Anfield. LFC hangir á jafntefli í uppbótatíma. Hörmung á að horfa. Liðinu til skammar og RB. Ekkert gott hægt að segja um þetta. Ekkert.

 3. Æji common Stb !
  Það hefur enginn heilvita maður áhuga á að fá “the special one” á Anfield !
  En það er hinns vegar klárlega eitthvað að.

 4. Ég hef aldrei fagnað Liverpool marki minna en marki Torres í dag. Jafntefli gegn skítlélegu Spurs liði er það sama og tap! Áhugaleysi og tilviljunarkenndur sóknarleikur einkenna spilamennsku liðsins ásamt því að björgunarsveitir hljóta að fara að leita að fyrirliðanum, hann hefur ekki sést um langa hríð!

  Þegar maður hefur ekkert fallegt að segja er best að segja ekki neitt. Því ætla ég ekki að tjá mig meira um þessa “frammistöðu”.

 5. Nú er sú staða að koma upp sem við þekkjum svo vel. Við farnir að elta þá 3 stóru og erum greinilega í höndum RB í sama klassa og T’ham og önnur álíka meðallið. Það er greinilegt að RB hefur ekki það sem til þarf til að vinna efstu deild enska boltans. Eins gott að losna við hann strax þar sem hann virðist ekki hafa það fram að færa sem á vantar.
  Þetta lið virkar einfaldlega ekki í höndum hans hverju sem um er að kenna. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Það var RB en ekki Jol sem missti niður um sig og því er rétt að hann víki í ljósi þess að menn voru að tala um það hér fyrir þennan leik að senda Jol heim með afgerandi sigri . Jol vann og RB má því fara heim mín vegna. Bless.

 6. Þetta er búið að vera svona alveg síðan að Paco Ayesteran fór!!! Það hlýtur bara að vera málið.

  Benitez á bara að kyngja stoltinu og fá Paco aftur á Anfield. Menn eins og Alonso meira að segja búnir að tala um hvað þeir sakni hans.

 7. tott var als ekki lélegt ok sissoko ekki inná en ef hann hefði verið inni þá höfðum við tapað vorum betri en það má ekki sýna etthvað sjó fyrir framan markið eins og torres gaf á voronin og voronin á gerrard, ég held að þettað sé ekki liv eða rafa að kenna tott var bara að spila vel

 8. Ahhhh…. Mæli með að flestir fari í bað, leggi sig eða fari að ganga úti í sólinni eða leika sér í snjónum… Og aðeins að róa sig…

  Ætla nú ekki að segja mikið um leikinn.. Hörmulegt að hafa ekki náð að vinna þennan leik, sérstaklega þegar skoðað er hversu lélegan dag Robinson átti í markinu… að það áttu okkar menn jafnslæman dag fyrir framan markið!

  Er að komast í vana að vera þunglyndur eftir leiki… Svo er ekki alveg eins fúll eins og eftir leikinn á miðvikudaginn…

  En auðvitað er morgunljóst að það eru margir okkar manna að spila undir getu… vörn, miðja og og sókn jafnvel, þýðir að að nota það sem afsökun að Agger, Alsono, kewell og allir hinir séu meiddir.. á ekki að skipta nokkru máli!

  En í mínum huga er ekki spurning um það liðið sársaknar Pako Ayestaran! það hefur ekkert annað breyst.. En samt er eins og leikmennirnir kunni bara ekki að spila bolta…

  En auðvitað megum við stuðningsmenn vera ósáttir við spilamennskuna… Tala nú ekki um þegar maður horfir á Arsenal spila á undan sínum leik.

  Ljóst er að Rafa þarf virkilega að fara leggja höfuðið í bleyti og reyna púsla þessu saman…

  Úffff…. Best að láta renna í baðið 🙂

  YNWA

 9. Þið eruð nú ekki nema einu stigi á eftir man.utd eins og er (ef þið vinnið leikinn sem þið eigið inn). Það gæti verið verra.

 10. frekar slappt að fá tvö “route 1” mörk á sig í sama leiknum…. fyrri hálfleikur var í lagi og á góðum degi hefði forystan verið 2-0 í hálfleik (annað Gerrard skotið dottið inn) en svo fannst mér vanta allan neista í liðið í seinni hálfleik. Lítið í gangi fyrr en í blálokin, hversu oft hefur maður séð Finnan taka þessa hreyfingu ?

  Ég hefði viljað sjá Benayoun koma fyrr inná, fannst hann fríska uppá leik liðsins. Aftur á móti voru innkomur Babel og Kuyt ekki jafn sterkar.

  Framganga Voronin var athyglisverð, í seinni hálfleik var engu líkara en hann væri að spila hafsent er hann bjargaði vel í þrígang.

 11. Ég sá ekki leikinn en ég er búinn að sjá mörkin og ég gat ekki betur séð en að bæði Tottenham mörkin hafi komið eftir útspark frá Robinson.
  Hann fær á sig eitt mark en býr til tvö, ég get varla skrifað undir að hann hafi átt svo slæman dag : )
  Svo vil ég segja það að í allri þessari gagnrýni á Benitez finnst mér oft gleymast hlutverk fyrirliðans okkar, Captain Fantastic sem hefur verið eins og skugginn af sjálfum sér í langan tíma, ég vil meina að hann eigi að berja menn áfram inni á vellinum.
  En eins og ég sagið þá sá ég ekki þennan leik og kannski var Gerrard að stand sig í þessum leik.

 12. Ég verð að segja að þessi leikur gladdi mann ekki í dag. Langt frá því sem maður átti von á frá Liverpool.

  Það er hægt að rökræða leikinn og skammast útí menn en mér fannst eitt einkenna þennan leik (og nokkra síðustu leiki liverpool) var að miðjan var gjörsamlega ekki með í leiknum.. við höngum með boltann alltaf á öftustu varnarmönnum í okkar sóknarleik! Miðjan gerir ekkert nema að verjast en er síðan nánast ekkert með í sóknarleik liðsins. Eina leiðin sem þá er eftir til að skapa hættu framá við er að senda langar sendingar fram þar sem framherjar þurfa standa í endalausum skallaeinvígum til að reyna skapa sér færi. Þessi leið getur hentað í einstaka leikjum en þetta er ekki sú aðferð sem við eigum að beina sóknarleiknum okkar inná. Menn eiga að byggja upp spil í gegn vörn andstæðingana og til þess þarf miðjan að vera með í leiknum.

  Ég tek það samt ekki af liverpool að þeir áttu marga góða spretti í leiknum en þeir stöfuðu að mínu mati frekar á einstaklingsframtökum 1-2 manna, fremur en spili liðsins sem heild. Þetta er atriði sem þeir verða að taka sig saman í andlitinu og fara spila eins og liði eins og Liverpool sæmir.

  Einnig lýsi ég eftir Steven Gerrard, 190 cm, 80 kg, og einn besti fótboltamaður í heimi, hann hefur ekki sést svo vikum skiptir.

 13. Hvað gerðist eiginlega í síðasta landsleikjahléi? Einn 1-0 sigur á wigan, eitt 1-0 tap fyrir marseille og svo bara eins og 4 jafntefli, markatalan 4-4 í síðustu 6 leikjum sem einhverju máli skipta (reading leikurinn telst varla með enda reading að spila á B+ liði líkt og liverpool). það er eitthvað mikið að á anfield og ég segi nú bara aldrei þessu vant að landsleikjahléið sé kærkomið. Nú fær Benitez 2 vikur til að laga sóknarleikinn sem hefur vægast sagt verið afspyrnudapur síðan við slátruðum Derby (og mér fannst hann ekki svo sannfærandi í þeim leik heldur, þrátt fyrir stórsigurinn).

  Ég ætla ekki að ganga eins langt og sigtryggur og heimta að benitez verði rekinn, en hann þarf virkilega að finna einhverja lausn á hugmyndaleysinu í sókn liverpool liðsins, vörnin hefur staðið sig prýðilega það sem af er (þangað til í þessum leik að hyypia átti skelfilegan leik – átti sök báðum mörkunum að mínu mati) og það þarf lítið að laga þar en það þarf einhvern veginn að auka hugmyndaflugið fram á við og ef benitez tekst ekki að finna lausn á þeim vanda í þessu lansleikjahléi getum við gleymt öllum draumum um toppbaráttu í vetur og þá fara líka raddirnar að verða æ háværari sem vilja benitez burt og það sem meira er, þær fara að hafa meira og meira rétt á sér.

 14. Mér finnst merkilegt hve margir spekingar eru hérna að tjá sig um leikinn. Við erum taplausir í deildinni eins og er, og það er verið að væla og tuða vegna þess að RB gangi ekki jafnvel í deildinni og “sumum” virðist ganga með sama lið í Championship Manager tölvuleiknum!?
  Sá ekki leikinn sjálfur, en fylgdist með honum á Skysport Scorecenter og beinni lýsingu á http://www.vg.no í Noregi. Að því að dæma, voru Liverpool stórkostlegir klaufar í dag að vinna ekki með tveimur til þremur mörkum. Fékk Tottenham tvö færi í leiknum, eða hvað?
  Er sammála nafna mínum hér í athugasemdinni að ofan, að menn ættu kannski að gefa sér klst eða svo til að róa sig niður, svo menn tapi sér ekki alveg í athugasemdarugli og innistæðilausum fordæmingum.

  Gísli K. : Átti Alonso að segja við fjölmiðla að þeir sakni Pako ekki??
  Það er greinilega bara eitthvað millibilsástand sem RB er að reyna ná “balans” á, eftir brotthvarf Pako. Kannski verður hann bara að ráða nýjan aðstoðarmann, þrátt fyrir að hann segist ekki ætla að gera það?

 15. Hafliði, The Special One hefur unnið og kann að vinna ensku úrvalsdeildina. Það virðist Rafael ekki hafa – langt frá því. Ég vil fá einhvern til að stjorna Liverpool sem getur labbað allt labbið.
  Við stöndum í stað og virðumst ekki vera nærri því að fara að berjast um titil á Englandi. Á maður bara að vera sáttur við það? Nei ég er tilbúinn að gera það sem ÞARF til að LFC vinni ensku deildina.

  Áfram Liverpool

 16. Skil ekki hvernig nokkrum manni hér dettur í hug að það sé glefsa í huga nýrra eigenda Liverpool að Benitez verði rekinn. Kemur ekki til í sekúndubrot, þið sem eruð með höfuðið í hringjum útaf því skuluð rifja upp…..
  1) Carragher og Gerrard gengu fram fyrir skjöldu og sögðu félaginu mikilvægast að halda Benitez.
  2) Eftir úrslitaleik AC og Liverpool í vor lét Benitez hressilega heyra í sér um það að hann þyrfti að fá að sjá alvöru stuðning til að byggja upp. Bæði unglinga-, vara- og aðallið. Í kjölfar þess var ákveðið að ráða ekki inn mann fyrir Heighway heldur láta Benitez sjá um uppbyggingu félagsins frá A-Ö.
  3) Fernando Torres kom til Liverpool og gaf upp ástæðu þess. Hann vildi spila fyrir Rafael Benitez.
  4) Í haust, vor og allan fyrravetur lýstu ALLIR þeir sem koma að stjórn Liverpool, Moores, Parry, Hicks og Gillette auk allra leikmannanna sem tjáðu sig því að Benitez væri maðurinn. Alla þessa viku hafa leikmenn Liverpool verið að ræða það að þeir lýsi trausti á RB og skilji uppsetningu liðsins.
  Þrátt fyrir að við getum verið ósátt við 1 stig á heimavelli þriðja leikinn í röð fannst mér nú margt jákvæðara í dag en í síðustu leikjum, sér í lagi frammistaða nokkurra LYKILmanna sem sumir hafa nú ekki verið að leika vel að undanförnu. Hins vegar er orðið algerlega ljóst að við þurfum nýjan hafsent, liðið saknar Agger verulega og mörkin sem við fengum á okkur í dag voru léleg. Verulega, eftir löng útspörk!!! COME ON!!!
  En menn gáfust ekki upp og 1 stig er betra en 0 stig. Að þessu sinni er kannski ágætt að fá landsleikjahlé og fara yfir málin.
  Svo langar mig að gleðjast yfir því að Paco málið sé orðið aðalmálið hér á þessari síðu. Halda menn að leikmennirnir spili betur ef að hann situr á bekknum? Benitez velur í liðið og heldur fundi fyrir og í hálfleik. Eru menn í alvöru að tala um að fjarvera hans sé ástæða þess að margir okkar leikmanna leika illa?
  Svo lýsi ég vanþóknun á hugmyndum um ráðning José Mourinho. Maðurinn er hataðri en allir í borginni Liverpool, rauða hlutanum, enda margoft lýst vanþóknun sinni á vellinum og stuðningsmönnum liðsins. Sá sem að biður þess að fá “the Special One” á Anfield hlýtur að vera að grínast. Er það ekki???

 17. liv lenti á móti góðu liði hvernig var leikur þeirra (tott) í síðasta leik unnu sig upp úr 3-1 og hættum að væla við erum taplausir

 18. Einsi kaldi, ég mælist til að þú lærir einföldustu grunnatriði varðandi ritreglur og málfræði áður en þú ferð að commenta meira á netsíður. Ömurlegt að lesa svona bjánaskrift.

  Sá ekki leikinn þannig að ég ætla ekki að commenta á hann.

 19. vá Kristján þú ert í þunglyndinu í dag 🙂

  Er eiginlega ósammála öllu sem þú sagðir í skýrslunni en nenni ekki að nefna allt svo ég tek það helsta.

  Torres.. var orðinn þreyttur á að fá enga þjónustu og þurfti að leita til baka til að fá boltann og er svo langt frá því að vera sammála þér um að hann hafi verið lélegur en undir hans standard skal ég samþykkja.

  Kuyt kom með góða innkomu t.d og Gerrard og Masch voru fínir en ekkert meira en það, reyndar fannst mér Babel frábær eftir að hann kom inná.

  En ég mæli með því Kristján minn að þú skrifir leikskýrslur um kvöld þegar Liverpool tapar eða gerir jafntefli

  Kv. Arnar sem er í furðulega góðu skapi miðað við jafntefli á Anfield

 20. Stb, já hann hefur unnið deildina og ekki geri ég lítið úr því en hvar er hann í dag ?
  Var hann ekki rekinn ?
  Var hann rekinn vegna góðs árangurs á síðasta tímabili og það sem af var af þessu ?
  Ég tel að mesta afrek Moro vera með Porto, ekki með Chelsea, með alla þá leikmenn sem hann hafði úr að velja hjá Chelsea og allt þetta fé er bara algerlega óásættanlegt að verða ekki Englandsmeistari eða vinna CL.
  Hann gat það ekki og þess vegna er hann atvinnulaus í dag.
  Ég hef fulla trú á því að okkar menn rífi sig upp og geri gott mót, tímabilið er nefnilega ekki alveg búið, það er ekki einu sinni hálfnað, það er reyndar ekki búinn einn fjórði ennþá : )
  Ég er ekki sáttur við okkar menn en mótið er bara rétt byrjað og ég er alveg viss um að okkar menn hressist : )

 21. það var einsog HYPPIA væri að halda uppá fertugsafmælið sitt í dag! Hrikalega seinn í hreyfingum.. Þessi maður á nátturlega ekki að vera í eins frábæru liði og Liverpool liðið er í dag! Alltaf þegar hann fær boltann þá dúndrar hann alltaf fram.. auk þess átti hann að trufla Berbatov miklu meira í skallanum og fá þá frekar aukaspyrnu! En þessi leikmaður er útdauður í mínum augum og ef Benitez fer ekki að sjá það þá ætti kallinn að fara hugsa sig um að skipta um vinnu!! Þetta er bara veikasti hlekkurinn í liðinu og þess vegna erum við ekki að vinna leiki!!

 22. Jæja, maður er búinn að gagnrýna okkar menn svo mikið að ég nenni því ekki í dag. 🙂

  Ótímabært að ræða um að reka Benitez, en það má alveg gagnrýna spilamennskuna undanfarið. Og fyrir mitt leyti ef einhverntíman í framtíðinni kæmi upp sú staða að Jose Mourinho yrði stjóri á Anfield þá myndi ég ekkert kvarta yfir því.

  En enn og aftur, í guðanna bænum hættið þessu bulli með Pako…liðið tapaði fjórða hverjum leik með hann á bekknum í fyrra þannig að ég veit ekki hvers þið saknið með hann. Það mætti halda að hann hefði unnið ólympíugull og friðarverðlaun Nóbel eins og þið látið hérna sumir. 🙂

 23. Já…þetta var ömurlegt

  algjörlega sammála Einari með leikskýrsluna fyrir utan kannski 2 atriði…

  mér fannst Javier Mascherano vinna á í þessum leik og einn af fáum leikmönnum sem sýndi vilja til þess að vinna þennan leik og átti m.a. 2 ágæt marktækifæri. það var hann sem tók af skarið þegar þurfti að skora jöfnunarmark…ekki captain fantastic sem virðist ekki geta gert gagn nema þegar Liverpool fær aukaspyrnur fyrir utan teig. Auðvitað var þetta ekki frábær leikur hjá Javier en hann sýndi samt sem áður gæði í þessum leik, vann bolta og skilaði honum frá sér ágætlega, sérstaklega í seinni hálfleik.

  síðan fannst mér gagnrýnin á Torres fullhörð, fannst báðir framherjarnir vera það langbesta við þetta Liverpoollið í dag. spiluðu vel saman þó að vissulega væri voronin í aðalhlutverki í þessum dúett. Fannst hann vinna ágætlega úr þeim stöðum sem hann kom sér í…komst í ágæt færi en skotin hjá honum voru ekkert sérstök

  Þetta er samt engin gagnrýni á Einar sem slíkan…bara mín skoðun á þessari frammistöðu skil mjög vel að sjá það versta í fari allra leikmanna á stundum eins og þessum.

  Allavega alveg ljóst að maður fer að lýsa eftir ,,bestu miðju í Evrópu” þar sem manni finnst hún alls ekki vera að standa undir nafni. manni hefur fundist það vera sérstaklega þar sem við höfum verið að tapa leikjunum, erfitt að segja hvað sé til ráða

  Þetta verða erfiðar tvær vikur þangað til við spilum aftur í deildinni….er orðið allt of langt síðan ég hef séð Liverpool spila góðan bolta…maður liggur bara í þunglyndi á meðan 😉

 24. úff ruglaðist aðeins…skipta á Einari og Kristjáni Atla í kommentinu hér að ofan

 25. Næstu leikir okkar eru svona:
  Everton-Liverpool
  Liverpool-Arsenal
  Blackburn-Liverpool

  Við eigum sem sagt “auðveldan” leik næst 10 nóv heima á móti Fulham : )
  Eins gott að okkar menn berji sig saman í landsleikjahléinu….ef það er hægt ; )

 26. gunnar fyrirgegðu eheGunnar við sem erum að blogga erum ekki að hugsa um stafsetningu ,við erum að koma okkar ath,semdum á framfæri og ef þér líkar ekki stafsetningin mín og getur ekki stautað þig framúr henna þá skaltu bara ekki lesa það sem einsi kaldi skrifar

 27. Er einhver hérna inni sem var ekki sáttur með byrjunarliðið fyrir leik?

  Er það Benitez að kenna að Steven Gerrard nýtir ekki algjört dauðafæri og kemur Liverpool í 2-0 og geri út um leikinn?

  Er það Benitez að kenna að 2 af okkar reynslumestu leikmönnum gleyma 2x grundvallaratriðum í varnarleik og gjörsamlega gefa Tottenham mörkin?

  -Vissulega þarf Benitez að bera ábyrgð en fá leikmenn aldrei gagnrýni? Það voru leikmennirnir sem klúðruðu þessum leik, ekki Benitez.

 28. SAMMMMMMMMÁLA SÍÐAAAAAAAAAASTA RÆÆÆÆÆÆÆÆÐUMAAAAAAANNNNNNNIIIIIIIIIIIIIII

  AVANTI LIVERPOOL

 29. Ég er kjaftstopp!! En við erum aðeins 6 stigum á eftir toppsætinu svo það er langur vegur frá að öll von sé úti!!!!!

  Tveggja vikna fu…… landsleikjahlé og svo Everton… Vinnum þann leik með stæl!!! Og marga fleiri þess leiktíð!!

  YNWA

 30. Menn virðast alveg vera að missa sig hér. Mig langar þó að benda á örfáar staðreyndir:

  • Á þessu tímabili (með undirbúningstímabilinu) er Liverpool búið að spila alls 23 leiki
  • 13 þeirra hafa endað með sigri okkar manna
  • 9 þeirra hafa endað með jafnteflum
  • einn leikur hefur tapast
  • Liverpool er taplaust í Úrvalsdeildinni í haust
  • Liverpool hefur aðeins tapað fjórum Úrvalsdeildarleikjum á árinu 2007 (og þannig verður það a.m.k. 20. okt. nk.)

  Þessi árangur myndi teljast frábær í hugum flestra og hann er það vissulega, en menn mega ekki missa sig í einhverri augnabliksbræði og láta eins og heimurinn sé að farast. Jafntefli gegn Tottenham á heimavelli er lélegt, tap gegn Marseilles er líka lélegt en ef við skoðum þessar staðreyndir hér að ofan þá sér það hver maður hvers konar heimska það er að heimta Rafa burt, tala um hörmung, skandal o.s.frv. Eftir 6-0 sigurinn á Derby heyrðust ekki slíkar raddir og nú bergmála þessi net-öskur manna í kollinum á manni mánuði síðar. Slökum á og stöndum frekar með liðinu okkar – ekki á móti því. Við erum jú stuðningsmenn, ekki satt?

 31. Gleymdi…
  Takk Kristján Atli fyrir frábæra samantekt á ástandinu!! Eins og svo oft áður orðar þú hlutina eins og ég vildi sagt hafa.. 🙂
  YNWA

 32. Oki ég er ekki sáttur við að fá bara 1 stig úr þessari viðureign en að segja allt liðið var ömurlegt í þessum leik, því er ég ekki samála.

  Liverpool var betra í fyrihálfleik og hefðu átt að vera 2-3 mörkum yfir í hálfleik en fá í staðinn kjaftshögg og svo rothögg í enda fyrihálfleiks og byrjun síðari.
  Mér leist vel á byrjunar liðið, Gerrard fannst mér vera að vakna til lífsins, sóknarmenn okkar virkur hættulegir og Kyut og Babel komu með smá kraft í þetta. Þetta var ekki svo slæmt.

  Tottenham er með mjög sterkt lið sem mun ná evrópusæti þrátt fyrir skelfilega byrjun(eru örugglega með 5 besta mannskapinn í deildini á eftir stóru fjóru liðunum).

  Staðan er svona (titilbarátan) og Arsenal og Liverpool eiga leik inni á hinn liðinn.
  Arsenal 22
  Man utd 20
  Liverpool 16
  Chelsea 15

  Liverpool er búið að spila 8 leiki og tapa engun þannig að þetta er ekki skelfilegt en við verðum að fara að breytta þessum jafnteflum í sigra.

 33. Sælir félagar.
  Loksins fékk ég tíma til að lesa frábæra leikskýrslu og þakka fyrir hana. Það er örlítið farið að snjóa yfir fyrstu viðbrögðin og reiðina út í alallega Rafa Benitez. En eftir sem áður er það mitt álit að það sé hann sem verður a’ð snúa þessu ástandi við. Ef hann getur það ekki er hann ekki starfi sínu vaxin. Svo einfalt er það mál. Og eins og staðan er núna eigum við í mesta lagi séns á 3 sæti miðað við að vinna leikinn sem við eigum inni. Og eins og liðið leikur núna þá er það sko alls ekki bókað. Síður en svo. Ég get svo sem fallist á að reka RB ekki fyrr en í vor ef við verðum í 4. til 10. sæti. En það er ekki ásættanleg niðurstaða í lok leiktíðar. En sjáum til.

  YNWA

 34. Af hverju þurfti Riise að vera á kanntinum í dag? Er hann nógu góður sóknarlega til þess að vera vinstri kanntmaður Liverpool ? Voru menn ekki flestir á því í sumar að það þyrfti að kaupa góðann kantmann svo Riise þyrfti ekki að vera þarna eins og í dag. Af hverju spilar hann ekki Babel eins mikið og hann getur til þess að hann aðlagist enska boltanum fyrr. Það er maður sem er að spila í framlínunni í Hollenska landsliðinu en ekki í varnarlínu Noregs.

 35. Við erum stuðningsmenn Liverpool og erum að fá útrás fyrir vonbrigði okkar hér á blogginu. Það er ágætisaðferð – maður blæs en lemur engan, hvorki konuna né börnin – svo er það búið. Lokaorð mín í dag: langflestir leikmennirnir ættu að skammast sín. Þeir hafa hálfan mánuð til að breyta hugarfarinu.

 36. Auðvitað eiga leikmennirnir mikla gagnrýni skilda eftir síðustu leiki en þegar það koma svona margir arfaslakir leikir í röð þá hlýtur það að vera eitthvað í stjórnun liðsins sem er að klikka. Það er t.d. ekkert nýtt að Liverpool eigi erfitt með að skora, þannig hefur það verið síðan á tímum Houllier og ekki hefur það skánnað með Benítez.
  Eins og hefur sést í síðustu leikjum þá er þetta Liverpool lið nánast algerlega rúið hugmyndum fram á við (þess vegna er t.d. hart að gagnrýna Torres í dag því hann fær enga þjónustu þótt hann hafi vissulega staðið sig frekar illa þegar hann þó fékk boltann). Ég held og óttaðist þetta frá því að Benítez tók við Liverpool að þjálfarinn er bara allt of varnarsinnaður og varkár að upplagi. Hugmyndin er bara að verjast stíft og treysta á að einhver taki af skarið og poti inn einu marki. Þess vegna t.d. var Liverpool svo háð Gerrard 2004/2005 því það þurfti alltaf einhvern yfirburðaleikmann að koma með einhverjar snilli til að bjarga málunum frekar en eitthvað skipulagt spil til að skora. Viðtal sem var birt hér á síðunni fyrir einhverjum vikum við Ryan Babel sýndi t.d. fram á þetta hugarfar Benítez. Babel sagði að Benítez hefði aldrei minnst á hann einu orði um hvað hann vildi að leikmaðurinn gerði sóknarlega. Aðeins ráðleggingar um varnarhliðina og svo bara redda sér einhvern veginn.
  Er það skrýtið þegar hugarfarið er svona frá stjórnendum liðsins að leikur liðsins sé svipað frjór og nítugur maður með eitt eista sitjandi ofan á kjarnorkuúrgangi?

 37. Kjartan.
  Hvað ertu að meina með að Liverpool fái fá færi?
  Ertu búinn að horfa á einn leik, gegn Marseille??????
  Í öðrum leikjum er aðalklúðrið að hafa ekki nýtt betur góð, og DAUÐAfæri. Í dag var stangarskot, flott markvarsla og klúður í 3 á mót 2 stöðu afdrifaríkt í 1-0 yfir stöðu. Vinsamlega ekki bera saman leikstíl Bentiez og Houllier. Þú hlýtur bara að vera að grínast þar, tel það alveg ljóst.

 38. Benítez og Houllier eru með nákvæmlega sömu fílósófíu til fótbolta, það er alveg augljóst, svo er annað mál hvor er betri að fá hana til að virka. Ég myndi segja að eitt dauðafæri hafi farið forgörðum í dag (Voronin-Gerrard færið), ekki hægt að tala um að skjóta í stöng úr aukaspyrnu sem dæmi um að skapa sér færi og “flotta markvarslan” var úr mjög þröngu færi.
  Ég sá btw EKKI Marseille leikinn fyrir utan fyrstu 25 mín en hef séð ca 95% leikja Liverpool undir Benítez og það heyrir bara til undantekninga að Liverpool spili sig í færi.

 39. Gott að ná að jafna úr því sem komið var í þessum leik.

  Við vorum alls ekki jafn lélegir í dag og gegn Marseille… við vorum einfaldlega mjög svipaðir og undanfarið… ekki nógu góðir.

  Ef lið nýtir ekki færin þá vinnur lið ekki, svo einfalt er þetta!

 40. Ekkert rugl Andri Fannar, það saknar enginn Alonso. Við söknum hins vegar Agger, ekki reyna að segjá mér annað.

 41. Það er sjaldan sem maður fagnar landsleikjahléi en í þetta skipti gerir maður það. Fyrsti leikur eftir hlé verður EVERTON á Goodison, laugardagshádegisleikur. Ljóst að sá leikur verður ansi mikilvægur upp á framhaldið, þar sem þessir leikir hafa oft haft mikil áhrif á gengi liðanna í næstu leikjum. Skal alveg játa að ég er ekki bjartsýnn. Var hræddur fyrir tímabilið að liðið væri ekki enn nægjanlega sterkt til þess að keppa við Arsenal, Man Utd og Chelsea og því miður virðist það vera koma daginn. Vantar að mínu mati enn tvo-þrjá topp leikmenn til þess að geta keppt við þau. Liðið virðist vera komið í sama farið og undanfarin ár þ.e. að tapa stigum á móti minni liðum.

 42. Agger hefði tekið báða þessa skalla á móti Berbatov.. og þar að auki hefði hann snýtt sér í leiðinni! málið var einfald í dag, Hyppia er greinilega bara komin á fimtugsaldurinn.. allavena líkamlega! hefðum unnið 2-0 með einhvern annan þarna í miðverðinum! Gjörsamlega óþolandi að horfa uppá þennan mann fá að spila með jafn miklu stórliði og liverpool er!!

 43. Ég er alveg sammála Kjartani… bendi hér á grein sem ég skrifaði í fyrra á fótbolti.net http://www.fotbolti.net/printStory.php?id=41687

  Hugmyndin um stigagjöfina var reyndar bara til að hrista uppi í fólki, en punkturinn varðandi hugafarsbreytinguna og hrædda litla þjálfara stendur. Maggi (40), það er vandfundinn leikur með Liverpool sem ég missi af og þegar ég sest niður í dag til að horfa á með liðinu þá býst ég aldrei nokkurn tímann við því að Liverpool skapi sér fjölda færa á borð við það sem Arsenal var t.d. að gera í dag og Man Utd í fyrra. Maður býst við öruggum varnarleik og hægum og ómarkvissum sóknarleik. Kannski er það akkurat það sem menn vilja, það voru hörð viðbrögð við fótbolta.net greininni þar sem menn rómuðu varnarfótbolta og tæklingar.

  Bendi í framhaldi af því líka á grein sem Paul Gardner skrifar í nýjasta World Soccer þar sem hann gagnrýnir útspörk og þrumur markmanna fram á við. Hann gerði óformlega rannsókn þar sem hann dró þá ályktun að boltinn héldist í 17% tilvika innan liðsins, annars færi hann yfirleitt beint til hins liðsins.

  Auðvitað skoruðu Spurs tvö mörk með svona spyrnum en þær voru mjög vel útfærðar. Ekki bara út í loftið eða í brjáluðum flýti heldur á ákveðinn stað með ákveðinn tilgang. Þá spyr maður, hvað var Pepe Reina að gera í allan dag? Gefa mótherjunum boltann. Það virtist vera eina fyrirframákveðna sóknartaktíkin hjá liðinu og yfirleitt endaði hann…jú hjá Tottenham.

  Við ræddum svo nokkrir um Babel í dag. Þegar hann var keyptur í sumar sögðu Arsenal aðdáendur að Benitez myndi eyðileggja hann. Wenger hefði gert hann að frábærum leikmanni en hann myndi bara verma bekkinn hjá Liverpool og spila út úr stöðum. Ætli þeir reynist sannspáir?

 44. Grétar, ég er ósammála…Hyypia hefur staðið sig fantavel í vetur og þessi tvö mörk voru ekki síður Finnan og Carragher að kenna…ef þau voru einhverjum að kenna…þau voru bara fantavel útfærð.

 45. Sáuð þið Arsenal-leikinn í dag? Ætla ekki að reyna að lýsa muninum á skemmtanagildi Arsenal og Liverpool þessa dagana……. Það eru til menn eins og Ferguson, Van Gaal, Hitzfeld og fleiri sem kunna sitt fag, en að mínu mati er Arsene Wenger algjörlega sér á báti í þessum bransa. Maðurinn er bara snillingur og ekkert minna en það.

 46. Held að þetta sé ósköp einfalt. Alonso og Agger þurfa að koma aftur inn í liðið eftir meiðsli og Gerrard þarf hvíld.

 47. …svo þarf reyndar Benitez að fara að passa upp á að fokka ekki upp í flæðinu þegar menn ná vel saman á vellinum með óskynsamlegum róteringum.

 48. Ansi athyglivert það sem Daði skrifar um Benitez og Babel. Það er líka athyglivert að bera saman LFC og Arsenal. Ég verð að viðurkenna að ég öfunda Arsenal aðdáendur og það ekki að ástæðulausu. Wenger og RB eru með svona álíka ný lið í höndunum. Wenger er búinn að skipta nánast öllu sínu liði út á 3 árum og svipað hjá RB. Hvar liggur munurinn á þessum liðum og á þessum stjórum?????????????????????????
  Ég vonaði fyrir leikinn við T’ham að nú mundu okkar menn rífa sig upp og spila bullandi, hraðan og skemmtilegan sóknarbolta. Enn?????????
  Það virðist ekki geta gerst með RB. Það er líka hroðalegt ef Arsenal menn koma til með að hafa rétt fyrir sér hvað Babel varðar.
  En ókei, látum RB klára þetta tímabil þó mér sýnist að maður eigi eftir að verða meira og minna brjálaður fram á vor. Svo verður að gera það sem gera þarf.

  YNWA

 49. snilld að lesa þetta eftir ykkur alla – smá lægð og allir æla úr sér spakmælum um hvað fór úrskeiðis, hverjum á að kenna um, er hægt að hengja einhvern í textanum fyrir leikinn. Ennnnnn hvað ekki hægt að kenna Rafa um allt – samt hægt að finna út eitthvað tengt honum – voru þetta ekki einstaklings mistök hjá varnarmönnum okkar – hetjunum okkar – grjóthörðu púllurum hyypia og carrager – djjöö hvað ég er ánægður að þeir séu ekki nýddir niður með 80 kommentum þó þeir hafi raunverulega gert upp á bak – AFHVERJU — jú okkar hetjur eru okkar hetjur sama á hverju dynur – látum ekki eins og kjánar við erum að verða meistarar og leikmenn lfc verða alltaf hetjur……..já áfram ungmennafélagið liverpool

 50. Er þetta síðasta komment djók? Vandamál Liverpool eru mun djúpstæðari en svo að það sé hægt að kenna tveimur varnarmistökum um. Það er alveg deginum ljósara.
  “Ég vonaði fyrir leikinn við T’ham að nú mundu okkar menn rífa sig upp og spila bullandi, hraðan og skemmtilegan sóknarbolta. Enn?????????”
  Ég er sammála innihaldi þessarar færslu en þessi setning fær mig til að brosa yfir hvað fólk getur lengi haldið í von og bjartsýni þegar það er langt síðan að nokkur ástæða til hennar er horfin á braut. Benítez er einfaldlega ekki þannig þjálfari að Liverpool muni nokkru sinni spila fótbolta sem telst hraður, skemmtilegur eða sóknarsinnaður.
  Það væri ekki vitlaust fyrir Liverpool að fara að ræða við Juande Ramos sem hættir hjá Sevilla eftir þetta tímabil. Hann langar til Englands, talar ensku og er mjög sveigjanlegur og pósitívur þjálfari.

 51. Daði.. Eftir að Agger meiddist og gamli kom inn í staðinn fyrir hann! þá allti einu förum við að fá mörk á okkur og tapa leikjum! hmm.. maður fer nú að spyrja sig hvar veikleikinn liggur! Og eitt annað atriði með gamla, þá missti eg hreinilega töluna á þvi hversu oft hann ætlaði að gera úrslitasendinguna í leiknum, og það er ekki bara í þessum leik! Þetta er maður sem á bara að vera sem minst með boltann! jú okei hann var drullu góður þegar “við” urðum evrópumeistarar.. En hann er engin P.Maldini! Þvi miður þá er hann bara orðin þreyttur greyið kallinn og það sást greinilega í dag og í síðasta leik.. ekki reyna að mótmæla þvi! En greyið ekki fara að tala um þjálfaraskipti enn eina ferðina á þessu liði.. ekki var Ferguson rekinn þegar hann vann ekki neitt 2 ár í röð.. en sjáiði kallinn í dag! gefum Benitez aðeins meiri séns og ekki byrja að bölva honum alltaf í sand og öskur! það eru leikmennirnir sem tapa leiknum!

 52. Þrátt fyrir allt þá erum við enn taplausir og með næstbestu vörnina í deildinni, sé litið til þess hversu mörg mörk liðin fá á sig… þurfum þá líklega að skora fleiri mörk.
  Ég er allt of bjartsýnn til að segja að titillinn sé úr seilingarfjarlægð. Ég er ekki einu sinni búinn að afskrifa Chelsea, og þeir eru neðar en við á töflunni.

  YNWA

 53. Ég vil bara segja .Liv spilaði betur núna heldur en í síðustu leikjum,vissulega þarf Gerrard að fara að spila betur ,og vissulega þarf að skjóta úr ákjósanlegum færum,vissulega þarf að koma meira frá köntunum, en tottenham er ekki lélegt lið, þeir geta unnið öll lið á góðum degi og þettað var góður dagur hjá þeim .Liv má ekki hugsa að þettað er lélegt lið og mæta með hálfum hug á völlin .En þeir hafa gert það í síðustu leikjum. Svo læt ég þettað gott heita,ÁFRAM LIVERPOOOOOOOOOOOOL

 54. Ummæli #43
  “Ekkert rugl Andri Fannar, það saknar enginn Alonso. Við söknum hins vegar Agger, ekki reyna að segjá mér annað.”

  Er ekki alveg í lagi með þig Stefán..
  Ef þú sérð ekki mun á miðjunni og spilinu þegar Alonso er ekki með þá ættir þú að snúa þér að keilu.

  áfram Liverpool

 55. Þetta er búin að vera sorglegt á að horfa undanfarið hjá liðinu. Eitt vakti þó sérlega athygli mína í gær. Það er með ólíkindum oft að sóknarmenn Liverpool eru að fá boltann í lappirnar án þess að vera á ferðinni, og snúa bakinu í markið sem þeir ættu að vera að koma boltanum í !! Ég get ekki séð hvernig það sé vænlegt til árangurs, því upp úr þessum tilfellum braut sóknarmaðurin oftar en ekki á varnarmanni Tottenham, auk þess sem allur hraði fellur úr sóknarleiknum..eða hvað?

 56. Mér er ekki skemmt þegar menn drulla yfir Sami Hyypia og segja hann ekki hæfan að spila í slíku stórliði eins og Liverpool er. Liverpool hefur ekki átt betri varnarmann síðastliðinn áratug og sæmir alveg slíku liði. Annað er þó að hann lék langt undir getu í dag og súrt að sjá þennan mann sem hefur drottnað í svona sköllum lúta í lægra haldi..

  Gagnrýnir samt enginn Reina? Hann hikaði á úrslitastundu í fyrra markinu. Keane missti boltann vel frá sér og mér finnst að gott úthlaup hefði bjargað því frá marki.

  Hann var nú nógu viljugur til að æða út síðar í leiknum þegar hann var kominn vel fram á miðjan vallarhelming Liverpool og maður fékk svona Grobbelaar – James ískaldan hroll.

 57. Nú tekur við það skemmtilegasta á hverju tímabili – hálfsmánaðar landsleikjahlé. Virkilega gaman að því. Eina spennan er hverjir meiðast. Ég var brjálaðu þegar síðasta hlé kom því þá voru okkar menn á virkilegu rönni. Núna er hægt að sætta sig við það að einhverju leyti því spilamennskan hefur verið vandræðaleg í besta falli. Nú gefst tími til að sleikja sárin. Annars vorkenni ég þessum köllum ekkert að spila einn leik í viku. Í gamla daga spiluðu menn eins og Dalgilsh hátt í 60 leiki á tímabili og unnu þá flesta. Í dag er einhver bómullarspeki í gangi þar sem menn eiga að spila sem minnst – fyrir sem mest laun.

 58. hehe..sammála Agli í #58. Í keilu með þig Stefán # 43! 🙂

 59. Mig langar nú líka aðeins til að benda mönnum hér á að bikaraþurrð Wenger hjá Arsenal. Vissulega hefur hann unnið deildina og ætla ég ekkert að taka það af honum. Heldur ekki það að hann spilar alveg hroðalega skemmtilegan fótbolta.
  Í fyrra var mjög heit umræða meðal Arsenalmanna, þ.á.m. margra af mínum betri vinum um “bullið að nota bara unga leikmenn”. Enda hafa síðustu 2 ár í deildinni verið enn sorglegri en hjá okkar mönnum, skriðið inn í 4.sætið hvort ár um sig. Menn voru þar hver af öðrum tilbúnir að tala um hvaða leikmenn vantaði og hvert nafnið af öðru datt frá Emirates.
  Í staðinn komu ungir leikmenn sem Wenger hefur verið að safna að sér, í næsta stórlið Arsenal. Og þá hoppa menn upp og hrósa Wenger. Það finnst mér gott, því Wenger er snillingur sem ég vildi fá til Liverpool á sínum tíma.
  Hins vegar urðu þær breytingar á Anfield í fyrra að skyndilega varð til fjármagn til að fjárfesta í nútíð og framtíð. Gríðarlegur munur á árangri unglinga- og varaliðsins okkar skila sér vonandi í betri leikmönnum. Skulum sko ekki gleyma því að Arsenal tapaði haug af leikjum í fyrra, en enginn fór þar á límingunum í yfirstjórninni, sannfærðir um að betri tímar biðu. Sem er í dag, og ætti að verða áfram, þrátt fyrir að Arsenal eigi enn eftir marga leiki við stærstu liðin.
  Mér dettur ekki í hug að segja að ég sé ánægður þessa dagana. Hins vegar vill ég gefa Rafael Benitez talsvert meiri tíma til að byggja liðið sitt upp. Hann tók að mínu mati við hálfónýtu liði og miklu rugli í umgjörð félagsins og er í vetur í fyrsta sinn að fá að vinna eftir sínum línum. Ef það ekki virkar vill ég heldur ekki henda bara öllu í burtu, því við eigum ekki að skipta um stefnu eins og nærbuxur. Trúi enn á það í boltanum að þolinmæði sé dyggð. Arsene Wenger er búinn að vinna 6 bikara í 44 tilraunum (11 ár og 4 keppnir). Á ákveðnum tímapunkti vildu allir láta hann víkja, en svarið hans var að byggja upp ósigrandi lið. Ef ég man rétt vann Ferguson 2 bikara fyrstu 6 árin. Yfir 90 % aðdáenda þeirra vildu um miðbik þess tíma reka hann.
  Varðandi leikstíl liðsins er ég sannfærður um að við munum sjá meiri sóknarknattspyrnu. Þegar maður kemur að lekri skútu byrjar maður að laga botninn, markvörslu og varnarleik í boltatilvikinu. Svo reynir maður að finna sjóara á skipið (leikmenn sem geta siglt öruggu leiðirnar) og að lokum finnur maður aflaklærnar. Ég tel að í sumar hafi í fyrsta sinn verið hægt að fá aflaklær. Benitez valdi Voronin, Babel, Benayoun og Torres. Allt eru þar á ferð góðir leikmenn sem ég tel munu verða þekkt nöfn hjá liðinu. Því miður fengum við ekki Heinze og vorum ekki með varaplan þar, ég tel brýnt að við fáum hafsent og vinstri vængmann (winger, ekki kantara) við fyrsta tækifæri. Svo er bara einfalt. HEIMTA það að LEIKMENNIRNIR leiki betur. Bæði mörkin sem við fáum okkur eru hreint grín og algerlega ljóst að þjálfarinn hefur viljað afhausa varnarmenn okkar í gær. Trúi ekki á einhvern ofurmannlegan innblástur þarna. Halda menn í alvöru að Benitez hafi ekki rætt við Hyypia, Carra, Finnan og Reina í hálfleik um aðdraganda marks nr. 1? Til hvers, þessir leikmenn fara út á völl og fá á sig EINS MARK eftir 80 SEKÚNDUR!!!! Þoli það ekki þegar stöðugt á að hengja þjálfarann, það að skipta um þjálfara mun ekki þýða það að varnarlínan bjargi slíkum mörkum, eða að menn klári færi.
  Leikmennirnir HLJOTA að bera einhverja ábyrgð!!!!!!!

 60. Heyr, heyr Egill (ummæli 58). Alveg sammála að okkur sárvantar Alonso sem stýrir spilinu og virkjar kantara og aðra menn. Andri Fannar, það er nokkuð ljóst að Alonso er gríðarlega mikilvægur leikmaður og án hans erum við ekki nærri eins sterkir, þó að vissulega sé einnig slæmt að Agger sé frá þar sem Hyypia er ekki nægilega öflugur leikmaður eins og hann var.

 61. Þetta sannar bara það sem ég hef alltaf sagt fá nýjann stjóra strax

 62. Siggi #65 já, en málið er að, þegar Agger er ekki, þá er útspilið og sóknarhluti varnarinnar mun slakari. Hann ber boltann vel upp völlinn og er með góðar sendingar, eitthvað sem Hyypia á það til að gera en ekki jafn vel og eins oft og Agger.

 63. Hvernig væri að fá Eriksson í stólinn :). Hann er líklegur til að gera góða hluti og kaupa ekki nánast bara leikmenn sem spila í sínu heimalandi eða tala hans móðurmál…

 64. Það hefur nánast verið ólíft á spjallborðum og slíku tengdu liverpool undanfarið vegna manna sem eru að lepja allt upp eftir einhverri hasarfréttamennsku og eintóm öfga viðbrögð á gengi liðsins. En svo kemur Maggi og bjargar öllu 🙂
  Góð komment Maggi.

 65. Sælir félagar
  Maggi góður og nú er orðið það langt liðið frá leiknum að ég er honum bara sammála 🙂

 66. Howdy, howdy!

  Merkilegt þykir mér hvað stuðningsmenn Liverpool tala orðið almennt illa um liðið. Neikvæðnin, pirringurinn og svartmættið er orðinn svo mikill að menn eins og Kristján Atli sáu bara ekkert gott við þennan leik fyrir utan vinnusemi Voronins. Ég sá þennan leik rétt eins og alla aðra leiki Liverpool og staðreyndin er bara sú að við vorum að gera mun betur í þessum leik heldur en það sem tíðkast hefur undanfarið. Við hefðum getað gert út um þennan leik í fyrrihálfleik. Við fengum þrjú dauðafæri og við skulum heldur ekki gleyma því að Gerrard átti þetta fína skot í stöng. Sóknarleikur liðsins var mun skárri heldur en hann hefur verið upp á síðkastið en vandamálin mátti rekja til varnarinnar. Hversu skrítið sem það kann að hljóma. Hyypia kallinn átti í vandræðum með Berbatov og Robbie Keane refsaði okkur tvisvar á nokkurn veginn sama háttinn.

  Oki, ég veit að það er pirrandi að gera jafntefli gegn liði sem hafði ekki unnið síðustu níu leiki og ég veit það að menn hafa alla ástæðu til þess að vera ekki sáttir með þessi úrslit en það sem pirrar mig mest er sú staðreynd að menn eru hættir að hvetja liðið áfram. Það eitt og sér hélt ég að væri eitthvað vandamál sem Liverpool FC þyrfti aldrei að hafa áhyggjur af. Hvar voru söngvarnir á leiknum? Hvar var stemmingin? Hvar var Liverpool-sálin? Hvar voru stuðningsmennirnir? Oftar en ekki þá mátti heyra saumnál detta. Er það alveg eðlilegt?

  Þegar ég var lítill pjakkur þá ákvað ég að halda með Liverpool því mig langaði að vera hluti af best studda klúbb Englands. Sama hvernig liðinu hefur gengið þá hef ég alltaf haft það. Eins leiðinlegt og mér þykir að segja það þá hafa stuðningsmenn Liverpool ekki staðið nægilega vel við bakið á leikmönnunum liðsins og ekki síst þjálfaranum í undanförnum leikjum. Og það þykir mér verst, það er orðið algeng sjón að sjá comment og pistla þar sem menn eru að hrauna yfir kónginn sjálfan, Rafa Benitez. Ég ætla ekki einu sinni að gera ykkur það að fara að draga upp allt það sem þessi dýrlingur hefur gert fyrir klúbbinn okkar, því mér þykir það líklegt að þið séuð nokkuð kunnir um það. Ég skora hér með bloggara síðuna að koma með blogg tengt árangri Rafa Benitez. Einnig væri gaman að sjá samanburð milli liðanna, þ.e.a.s. hvað það er búið að eyða í liðin o.fl.

  Koma svo Liverpool-stuðningsmenn við getum svo miklu, miklu betur.

  Með virðingu og vinsemd,
  Birkir Már

 67. Neikvæðnin, pirringurinn og svartmættið er orðið svo mikið að menn eins og Kristján Atli sáu bara ekkert gott við þennan leik fyrir utan vinnusemi Voronins*

  Afsakið þetta, en svona átti þetta víst að vera.

 68. Held það sé bull og vitleysa að halda fram að við þurfum nýjan stjóra, Benitez er rétti maðurinn!!

 69. Þú heldur að það sé bull og vitleysa ! þá ertu bara hreint ekki viss. Gleymum því ekki að Benitez sem sumir halda ekki vatni yfir hefur verið að eyða tíma í vandræðagemsa og miðlungsleikmenn sem önnur lið voru búin að setja í endurvinnslutunnuna.

Liðið gegn Tottenham:

Bloggarar óskast!