Wigan 0 – Liverpool 1

Jæja, okkar menn náðu að vinna **0-1 útisigur** gegn Wigan Athletic í Úrvalsdeildinni í dag og í kjölfarið lýkur jafnteflishrinu sem náði upp í heila tvo leiki í efstu deild enska boltans. Þessi sigur var langt því frá fallegur og í raun smávegis heppnisstimpill yfir þessu, en það þarf líka að vinna svona leiki og það gerðist í dag.

Rafa stillti upp þessu liði:

Reina

Arbeloa – Carragher – Hyypiä – Aurelio

Pennant – Gerrard – Mascherano – Riise

Kuyt – Torres

**Bekkur:** Itandje, Finnan, Sissoko, Benayoun, Voronin.

Rafa setti Benayoun inn fyrir Aurelio um miðjan síðari hálfleik og undir lokin tók hann Torres og Pennant út fyrir Voronin og Sissoko.

Fyrri hálfleikur í þessum leik var drepleiðinlegur. Mark Clattenburg, slappur dómari leiksins, virtist ætla að vera aðalstjarna dagsins og hafði bæði löglega vítaspyrnu af Liverpool, þegar Titus Bramble hljóp Sami Hyypiä niður í vítateig Wigan, og Wigan, þegar Jamie Carragher braut á Julius Aghahowa en línuvörðurinn dæmdi rangstöðu á einhvern allt annan Wigan-mann. Þess fyrir utan var Torres nálægt því í tvígang að skora en í fyrra skiptið varði Kirkland frá honum og svo hljóp frákastið nokkrum sentímetrum til hliðar við stöngina, en í seinna skiptið skaut Torres rétt framhjá með góðri hjólhestaspyrnu. Torres var í færunum í dag en ekki á skotskónum eins og í síðasta leik. Hann hefði getað skorað allavega tvö í dag en skoraði því miður ekki, þrátt fyrir að spila frá byrjun.

Seinni hálfleikur var næstum því jafn drepleiðinlegur og sá fyrri. Okkar menn sluppu með skrekkinn um miðjan hálfleikinn þegar Clattenburg dómari dæmdi aftur ranga rangstöðu, en í þetta skiptið var það Marcus Bent sem skoraði löglegt mark en flautuð var rangstaða á einhvern annan Wigan-mann. Ótrúleg dómgæsla en okkar menn önduðu léttar. Stundum er maður heppinn með dóma, eins og í þetta skipti, og stundum er maður óheppinn (sjá Chelsea-leikinn í ágúst).

Þegar kortér var eftir af leiknum kom svo eina markið. Pennant lék frá vinstri kanti og gaf boltann inn á varamanninn **Yossi Benayoun** sem lék Titus Bramble upp úr skónum og skoraði svo yfir Chris Kirkland í marki Wigan. Laglegt mark hjá þeim ísraelska sem fagnaði vel og innilega enda hetja Liverpool-liðsins í dag. Wigan-liðið reyndi í kjölfarið að pressa en lítið gekk, þó átti Aghahowa skalla framhjá úr dauðafæri í uppbótartíma en allt kom fyrir ekki og lokastaðan varð sigur Liverpool, 1-0.

**Maður leiksins:** Í raun var ekki mikil batamerki að sjá á Liverpool-liðinu; sama andleysið ríkti og gegn Birmingham og það var hreinlega ekki annað að sjá en að menn eins og Gerrard, Riise, Torres, Kuyt og Pennant væru annað hvort of þreyttir til að leggja sig 100% fram í þessum leik eða of áhugalausir. Ég ætla að giska á að það hafi verið sitt lítið af hvoru.

Það var hins vegar varamaður sem breytti leiknum í dag og gerði gæfumuninn og því ætla ég að velja **Yossi Benayoun** mann leiksins. Hann lék kannski bara í 25 mínútur eða svo, en hann gerði það sem til þarf (vonandi sjá menn í dag af hverju Rafa talaði um hann sem staðgengil Luis García – þeir gera óvæntu hlutina svo vel) til að tryggja liðinu þrjú stig, auk þess sem hann virtist koma með baráttu inn í miðjuna sem vantaði í flest alla aðra leikmenn liðsins.

Nú, hin toppliðin unnu flest í dag – United, Arsenal og Man City þar á meðal – þannig að staða fjögurra efstu er óbreytt að sinni. Það vekur þó athygli að Chelsea náðu aðeins 0-0 jafntefli á heimavelli gegn Fulham og því eru fyrrum meistarar Englands nú staddir um miðja deild í frekar vondum málum.

Næsti leikur er á miðvikudag gegn Marseille í Meistaradeildinni, og svo á sunnudag eftir rúma viku mætast Liverpool og Tottenham í næstu umferð deildarinnar. Báðir leikirnir fara fram á Anfield.

43 Comments

  1. Ég held að ég hafi ekki fagnað Liverpool marki svona innilega síðan Torres skoraði gegn Chelsea. Þetta var alls ekki verðskuldaður sigur, en þetta var sigur engu að síður og því nenni ég ekki að hugsa um allt þetta neikvæða í dag. Ég segi bara guði sé lof fyrir Yossi! Skapið mitt væri ekki svona gott ef hans hefði ekki notið í dag. 🙂

  2. Klassa sigur, slappur leikur,,Thank God for Titus Bramble, alltaf gott að vita af honum í liði andstæðinga 🙂

  3. Eitt aðeins ótengt þessu, veit ekki hversu margir eru sammála mér en að hafa 4-4-2 á þessum tíma og svon endursýnt aftur og aftur í kvöld finnst mér algjör snilld og þvílík viðbót við þetta allt. Man að margir voru að segja að þessi þáttur væri óþarfi og annað, meðal annars ég.

  4. nú gerði rafa breytingu sem virkaði eru ekki allir ánægir með það flott flott gaman gama ég get ekki sagt meira jess jess

  5. Sigur á útivelli og 3 stig. Stundum þarf heppni til, kannski meistaraheppni?

  6. góður útisigur, held að Benayoun sé smám saman að kveða niður þær gagnrýnisraddir að hann sé bara meðalmaður sem stór klúbbur á borð við Liverpool eigi ekki að fjárfesta í 🙂

  7. Spilamennskan hjá liðinu undanfarið hefur verið slök og veldur vonbrigðum og áhyggjum. Þetta er engan veginn nógu gott, hvað þá sannfærandi. Samt er gott að fá þrjú stig í svona skítaleik, það er vissulega styrkleikamerki. En ég er ekki í skýjunum með liðið. Landsleikjahléið hefur greinilega slegið Liverpool út af laginu.

  8. Ég lýsi enn og aftur eftir þeim harðákveðnu snillingum sem kölluðu Yossi Benayoun algeran meðalskussa sem hefði ekkert erindi í Liverpool….og það áður en leiktíðin byrjaði! 😉

    Ég lýsi líka eftir fleiri kommentum við þennan leik. Við unnum nefnilega!
    Þrátt fyrir að spila ekkert sérstaklega. Meistaraheppni?

    Jibbí!

  9. Eitt, sem er líka alveg ótrúlegt.

    Árangur á Anfield: 1 sigur, 2 jafntefli, 0 tapÁrangur á útivelli: 3 sigrar, 1 jafntefli, 0 tap.

    Liverpool er með besta árangur á útivöllum í deildinni. Af sem áður var.

  10. Attum þetta svosem inni að spila svona leik og vinna hann..Domarinn var annsi katur i dag fannst mer og nokkuð goður við okkar menn….

  11. Við vorum bara alveg drulluhepnir, en lítið á Man.Utd, þeir hafa verið að dæla inn 1-0 sigrum. Skiptir ekki máli hvernig þeir koma sigrarnir ef þeir bara koma.

  12. Voru Arsenal og MUFC ekki líka að vinna 0-1 sigra í dag þar sem hin liðin voru síst síðri aðilinn, ég sé ekkert um það í blöðunum að það hafi verið heppnissigrar, leiðist þessi umræða um að við höfum verið “heppnir”, liðið vann vinnuna sína í dag, gerði það sem fótbolti gengur út á , skora mörk og verja sitt mark.

  13. Þetta snýst um að vinna, það er ekkert flóknari en það og á meðan við vinnum þá ættu menn að hætta að gagnrýna lið og þjálfara.

    Ég horfði á hluta af Birm-Man.Utd og þeir rauðklæddu máttu prísa sig sælan fyrir sigurinn, svo við skulum anda með nefinu og gleðjast yfir þrem stigum á útivelli.

  14. Alveg kostuleg ummæli hérna númer 15. Liðið er búið að spila MJÖG ILLA síðan Pako fór(hvort sem það er því að kenna eða ekki, allavega auðvelt að benda á það) og menn segja bara að afþví að liðið vinnur þá sé þetta óþarfa væl. Ég hef MIKLAR áhyggjur af spilamennsku okkar, við erum bara að spila alveg herfilega illa.

    Hvor hópurinn er verri, þeir sem væla yfir spilamennsku og gengi liðsins eða þeir sem væla yfir þeim sem væla? Fyrri hópurinn sínir í það minnsta tilfinningar í garð síns liðs án þess að ég sé að setja þann hóp á hærri stall.

  15. Það að Pmouth skyldi skora 7 mörk á móti Reading í gær, setur smá skugga á deildarbikarleikinn hjá okkur í vikunni. Í byrjun leiktíðar var eins og liðið væri komið til að sigra deildina, spilaði boltanum vel á milli sín og menn voru a skapa færi og opna svæði, eitthvað sem manni hefur fundist vanta hjá liðinu. Í gær (og undanfarna leiki) hefur meira borið á því að menn hafi verið fyrir hvorum öðrum í stað þess að koma boltanum saman upp völlinn. Gott mál að fá 3 stig úr leiknum í gær en hann ber samt þess merki að ekki sé allt í lagi hjá LFC.

  16. Mér finnast ummæli númer 17 enn kostulegri en nr. 15. Vissulega spiluðum við ekki vel í þessum leik, en það sem þarf að benda á er að við erum að vinna leikina sem við spilum ekki eins vel í … og það er framför. Ég get heldur ekki tekið undir að spilamennskan hafi verið slæm í deildarbikarnum, og ef Benni Jón og fleiri eru að velta fyrir sér deildinni eingöngu, þá stendur ennþá eftir sú staðreynd að Arsenik er eina liðið sem hefur tapað færri stigum en Liverpool. Ef það er slæm spilamennska, þá horfi ég fram á bjartari tíma þegar góða spilamennskan kemur.

    Og hún kemur. Sjáið bara Man U í byrjun tímabils, og sjáið hvar liðið er núna. Það er ekkert verið að afskrifa eitt eða neitt.

    Og það að væla yfir spilamennsku og gengi liðsins ber alls engan vott um það að þykja vænna um liðið en hinum sem “væla yfir vælurum”. Af hverju þarf að flokka þetta svona? Flestir þeir sem kommenta hér eru gallharðir Púllarar. Eða ætlar Benni Jón virkilega að segja mér það að með væli yfir spilamennsku sé hann að sýna meiri tilfinningar til liðsins??

    Liverpool vann í gær og ég hef ekki áhyggjur ennþá. (damn, ég hlýt að vera gjörsamlega tilfinningalaus … 🙂 )

  17. Ég sem hélt að ‘grátkórinn’ hefði tekið frí þessa helgi!

    3 stig eru góð stig.

    Undir stjórn Rafa hefur liðið spilað betur seinni hluta haustsins en upphaf tímabils, þannig góðir betri tímar eru að koma (ekki það að þetta séu slæmir tímar).

  18. Úskýrðu fyrir mér Doddi minn afhverju mín ummæli eru kostuleg? Liðið er að spila illa, og já, mér fannst við ekkert spes gegn Reading, aðalega í fyrri hálfleik, og við höfum verið að tapa stigum. Unnum reyndar í gær en ekki var sjáanleg bæting á spilamennskunni. Ef þér finnst við spila vel og þú hefur litlar sem engar áhyggjur, þá þú um það.

    Auðvitað er maður ánægður með stigin þrjú þegar við spilum illa, en líttu á þessa setningu, “þegar við spilum ILLA”. Við höfum spilað illa núna gegn Wigan, “Reading”, Birmingham, Porto, og Portsmouth(set Reading innan gæsalappa þar sem ég veit ekki hvort allir séu sammála um þann leik) og til eru menn sem eru bara sallarólegir og sáttir.

    Ef þú skoðar leiki okkar í haust og töfluna þá erum við bara búnir að með einn virkilega stóran leik, gegn Chelsea sem við klúðruðum. Hinir leikirnir hafa verið gegn Aston Villa, Sunderland, Derby, Portsmouth, Birmingham og Wigan…ekki beint stór lið þó auðvitað séu allir leikir erfiðir. Ef þú tekur Derby leikinn frá þá höfum við skorað heil sex mörk í sex leikjum. Derby leikurinn gefur nefnilega svolítið “falska” mynd af gengi okkar ef þannig má að orði komast. Hann í það minnsta fegrar mjög mjög slaka markaskorun okkar.

    Síðan finnst mér mjög kjánalegt að benda á önnur lið alltaf. Mér er bara nákvæmlega sama hvað þau eru að gera, ég vil bara að mínu liði gangi sem best og hef áhyggjur af þeim. Hvort Man Utd sé í skítnum(unnið 5 leiki í röð) eða Chelsea að missa mann í bann og/eða meiðsl er bara ekki mitt mál.

    Að lokum vil ég skamma þig létt fyrir bjánaskapinn í lok ummála þinna þegar þú ýar að því að ég sé að draga menn í dilka eftir því hversu miklir stuðningsmenn þeir eru. Ég var alls ekki að því og tók það sérstaklega fram og ég bjóst við að meðalgreindur maður myndi átta sig á því. Vil biðja þig að gera þetta ekki aftur.

  19. OK, skil vel að menn séu ánægðir með sigurinn, alltaf gott að vinna á útivelli í þessari deild sama hver andstæðingurinn er og ég er ánægður með sigurinn. Ég tek hinsvegar undir með Helga og fl., við höfum ekki spilað vel í síðustu leikjum og ég lýsi eftir sömu spilamennsku og við sýndum í upphafi móts, hefðum t.a.m alveg eins getað tapað þessum leik eins og unnið. Vonandi fer þetta að smella í gírinn hjá okkur aftur því með þessari spilamennsku þá gerum við engar rósir í vetur. Varðandi tal manna um að vera ekki a væla yfir spilamennsku liðsins ef það vinnur finnst mér það bull, við erum með vel mannað lið og höfum sýnt að á góðum degi getum við spilað góða og skemmtilega knattspyrnu og allir aðdáendur liðsins hljóta að óska eftir slíkum leikjum en ekki andlausum frammistöðum eins og liðið er að sýna núna leik eftir leik, td Birmingham,Portsmouth, Wigan.

  20. Get tekið undir að spilamennskan undanfarið sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, en ég er 100% viss um að hún á eftir að batna þegar liðið slípast betur saman. Liðið er að halda hreinu í flestum leikjum og við erum að ná stigum úr öllum leikjum, þannig að það er meira jákvætt í leik liðsins en neikvætt. Ekki má gleyma að tveir mikilvægir hlekkir hafa meiðst þ.e. Alonso og Agger.
    Annars má benda á það að Utd og Chelsea hafa heldur ekkert verið að spila glymrandi bolta þannig að það má búast við að þessi lið ásamt Liverpool eigi eftir að vaxa eftir því sem líður á mótið. Málið núna er bara að vona að Arsenal vélin fari að hikksta.

  21. SAMMÁLA SÍÐASTA RÆÐUMANNI.

    Er hægt að byðja um smá hlut á síðuna? Ef svo er þá væri ég alveg til í að sjá stigatöfluna setta upp tildæmis bara 5 eftstu liðin. Með fyrirfram þökk.

    Avanti Liverpool

  22. og til eru menn sem eru bara sallarólegir og sáttir.

    Nei, ég held að þeir menn séu ekki til. Það er enginn að kommenta hér og segja að þetta hafi verið æði.

    En það eru hins vegar til menn einsog ég sem nenna ekki að fara í stórkostlegt þunglyndi eftir sigurleiki bara vegna þess að sigurinn var ekki nógu glæsilegur. En ef þú vilt vera með svekkelsiskomment og kalla þá sem horfa á björtu hliðarnar kostulega, alveg þangað til að við spilum einsog Barcelona fyrir tveim árum, þá er þér velkomið að gera það.

  23. Benni Jón … ég notaði “kostuleg” eingöngu vegna þess að þú hafðir notað það gagnvart ummælum 15, sem mér fannst sanngjarn punktur í umræðuna.

    Ég myndi telja útisigur gegn Aston Villa stóran leik… en það er kannski bara ég. Það þýðir heldur ekkert að taka út einhvern leik, eins og Derby leikinn, vegna þess að hann gefi falska mynd af markaskorun. Jú, Arsenal hefur skorað fleiri mörk, en þeir röðuðu inn 5 stykkjum á móti Derby. Maður ber eðlilega liðið saman við þau lið sem ég trúi að muni vera í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn – hvað er að því?

    “Hvor hópurinn er verri, þeir sem væla yfir spilamennsku og gengi liðsins eða þeir sem væla yfir þeim sem væla? Fyrri hópurinn sínir í það minnsta tilfinningar í garð síns liðs án þess að ég sé að setja þann hóp á hærri stall.” — Það er alltaf einhver tilgangur með því að setja svona setningar/fullyrðingar fram og því spyr ég þig … hver var þinn tilgangur? Ég leyfi mér algjörlega að nota ýkta kaldhæðni til að benda á það sem mér fannst asnalegt í ummælunum þínum. Skamma þú mig ef þú vilt, og þú mátt efast um greind mína. En ég bakka ekkert með það, að með þessu kommenti þínu gafstu til kynna að væl yfir gengi liðsins beri vott um meiri tilfinningar til liðsins heldur en þeir sem gagnrýna þetta væl.

  24. Ég pant þá vera í hópnum sem vælir yfir þeim sem væla yfir þeim sem væla yfir spilamennsku liðsins.

  25. Fyrir mér er heimurinn ekki svona svart/hvítur. Ég get til dæmis alveg gagnrýnt Rafa en samt stutt hann sem stjóra. Það að vera ósammála einhverju einu eða tvennu sem hann gerir þýðir ekki að ég vilji láta reka hann. Að sama skapi á ég mjög auðvelt með að gleðjast helling yfir sigrinum og þremur stigunum gegn Wigan í gær … án þess að vera mjög ánægður með frammistöðu liðsins.

    Hér eru staðreyndirnar:

    • Liðið lék höööööörmulega í meira og minna 93 mínútur í gær.

    • Liðið vann 0-1 á útivelli og hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í sjö leikjum í deildinni.

    Þetta eru staðreyndirnar. Eins og klisjan segir, þá er þessi Wigan-leikur svona týpískur að því leytinu til að við hefðum sennilega tapað honum í fyrra, en í ár náum við að vinna hann. Öll lið ganga í gegnum lægð Benni Jón, spila- og getulega. Form is temporary, class is permanent. Hins vegar hefur það verið venjan hjá okkar mönnum að tapa þeim leikjum þar sem þeir leika illa, og þá horfum við jafnan öfundaraugum á hin stórliðin sem grinda út 1-0 baráttusigra í sínum lægðum og segjum “af hverju geta menn ekki bara gert eins og Utd/Chelsea/Arsenal?”

    United vann deildina ekki í fyrra á því að leika blússandi knattspyrnu í hverjum einasta leik. Arsenal hafa byrjað best liða í haust en þeir eiga eftir að eiga sitt tímabil þar sem boltinn vill ekki rúlla fyrir þá og ekkert virðist ganga upp. United eru að eiga eitt slíkt tímabil núna í haust en þeir eru samt í öðru sæti. Eftir góða byrjun okkar manna hvað spilamennsku varðar eru þeir núna að upplifa smá lægð en í þeirri lægð er liðið búið að skila tveimur jafnteflum og einum sigri. Í þeirri lægð er liðið búið að ná sér í besta árangur allra liða á útivelli. Í fyrra hefði svona lægð þýtt þrír tapleikir, búið spil, en í ár erum við á fullu í toppbaráttunni þrátt fyrir að spila illa.

    Ég sá liðið leika hörmulega í gær eins og þið, en ég hef ekki áhyggjur. Menn hrista af sér slenið, boltinn mun rúlla liðinu í vil aftur og menn eins og Gerrard, Mascherano, Riise og Pennant munu sýna sitt rétta andlit á næstu vikum. Þannig bara gengur það. En á meðan menn berjast við eigið getuleysi er mikilvægt að halda áfram að vinna og það er liðið að gera.

    Öndum rólega, þó ekki sé nema þessa einu helgi. Liðið er á tveggja leikja sigurbraut þrátt fyrir slappa spilamennsku og er enn taplaust í öllum keppnum. Öndum rólega.

  26. Gott mal ad taka 3 stig tho menn spili illa. Og Yossi faer stort prik i kladdan fyrir svona klar.

    For a Celtic-Dundee i gaer… kostulegt alveg thar sem Celtic spiladi hryllilega illa en vann samt 3-0. En eg vard ekki var vid sjalfskipada “bestu studningsmenn Bretlandseyja”. Thetta var eins og ad koma a Old Trafford…algjor grafarthogn…og ekki vantadi samt ahorfendur. Mer kom a ovart ad thad var heldur ekki sungid YNWA…veit einhver hvad er malid med thad? Eg helt their syngdu thad fyrir alla leiki eins og Liverpool og ad Bretar vilja meina ad Celtic addaendur syngji thad betur???

    Thannig ad stori ljosi punkturinn fyrir mig thessa helgi er su vissa ad vid eigum bestu studningsmennina a Anfield. 🙂

    Tho ad vid noldrum stundum… 🙂

  27. Það er voðaleg einföldun finnst mér Kristján að segja liðið í sókn því í fyrra hefðum við tapað þessum leik. Hvernig geturðu sagt þetta Kristján? Ég er sammála um að liðið sé sterkara í ár en í fyrra, en mér finnst samt kjánalegt að þykjast geta fullyrt að eitt af batamerkjunum sé að núna náum við í stig í þeim leikjum sem við annars hefðum tapað í fyrra. Það er bara ekki nokkur leið að geta fullyrt svona.

    Bottom-line, við byrjuðum tímabilið mjög vel, vorum sterkir og massívir en höfum gert uppá bak síðan. Við spilum mjög illa, en auðvitað er jákvætt að við erum að ná í stig. Mér finnst bara mjög eðlilegt að menn séu svolítið pirraðir þegar liðið er jafn andlaust og það hefur verið undanfarið.

    Ummæli eins og þessi sem einar örn lætur út úr sér eru síðan alveg kostuleg.

    “En það eru hins vegar til menn einsog ég sem nenna ekki að fara í stórkostlegt þunglyndi eftir sigurleiki bara vegna þess að sigurinn var ekki nógu glæsilegur.”

    …veistu einar, ég ætlaði að svara þér en þetta er svo kjánalegt hjá þér að ég nenni því varla. Látum það samt vaða. Í fyrsta lagi þá þekkir þú mig ekki og ég yrði mjög þakklátur ef það myndi haldast þannig. Í öðru lagi þá verð ég að spyrja þig, ertu óbeint að segja að ég sé í stórkostlegu þunglyndi ef við spilum ekki eins og Barca fyrir tveim árum? Hvernig í dónaorð getur þú sagt það þegar þú þekkir mig ekki neitt?
    Ég ætla bara að spyrja þig, finnst þér óeðlilegt að menn séu ekki ánægðir með spilamenskuna? Það er ekkert að því að sjá ljósu punktana, bara gott mál. En af sama skapi hlítur að meiga benda á það sem betur má fara…eitthvað sem verðist vera á bannlista hjá sumum. Hlítur að virka í báðar áttir ekki satt?..manni finnst það allavega eðlilegast. Við þurfum nú ekki að leita lengra en Rafa með mann sem hrósar lítið en gagnrýnir mikið…spyrjið bara Steven Gerrard.

  28. Sælir félagar
    Góður sigur -heppni má segja og hún þarf að vera með. Dómgæslan slök en það virðist vera að gerast aftur og aftur. Hvernig sem á því stendur.
    Það sem skiptir máli er að landa sigri þrátt fyrir að vera spila illa og vona að liðið komi betur stefnt í næsta leik. Menn eins og Gerrard verða að hrista af sér velluganginn og fara að skila því sem þeir eiga að skila.
    Svo vil ég koma því að einu sinni enn að ég vil hafa Beayoun og Babel á köntunum og Torres og Gerrard í byrjunarliði – alltaf.

    YNWA

  29. Ótrúlegt hvað er hægt að rífast mikið um gengi þessa liðs. Þetta er frekar einfalt, liðið er búið að spila mjög illa í síðustu leikjum og var sérstaklega heppið í gær með dómgæslu og nokkur færi Wigan sem hefðu alveg getað dottið inn. Fyrir þá sem væla yfir “vælurunum” þá er ekkert eðlilegra en að menn hafi áhyggjur af spilamennsku liðsins og ég efast um að nokkur af þeim sem gera það séu í þunglyndi yfir unnum leik. Tek t.d. undir með Einari Erni að maður hefur sjaldan fagnað marki eins innilega.
    Það eru allir sammála um að liðið ætti að vera að spila betur en það hafi verið gott að ná að vinna samt, hvernig er þá hægt að halda áfram að rífast svona mikið? 🙂
    P.S. Tek líka undir eftirlýsinguna á þeim sem fannst Benayoun ekkert erindi eiga í Liverpool!

  30. Benni Jón segir:

    “Það er voðaleg einföldun finnst mér Kristján að segja liðið í sókn því í fyrra hefðum við tapað þessum leik. Hvernig geturðu sagt þetta Kristján? Ég er sammála um að liðið sé sterkara í ár en í fyrra, en mér finnst samt kjánalegt að þykjast geta fullyrt að eitt af batamerkjunum sé að núna náum við í stig í þeim leikjum sem við annars hefðum tapað í fyrra. Það er bara ekki nokkur leið að geta fullyrt svona.”

    Sorrý Benni, en ég er einfaldlega ósammála þér. Mér finnst það einmitt batamerki á liði að það skuli vinna leiki sem það hefði tapað í fyrra, miðað við spilamennsku, og mér finnst það líka batamerki að lið sem varð að athlægi í fyrstu sex útileikjum sínum í fyrra skuli vera með besta árangur allra liða á útivelli eftir átta umferðir í ár. Við skulum bara vera sammála um að vera ósammála um þetta. 🙂

    Benni Jón segir:

    “…veistu einar, ég ætlaði að svara þér en þetta er svo kjánalegt hjá þér að ég nenni því varla. Látum það samt vaða. Í fyrsta lagi þá þekkir þú mig ekki og ég yrði mjög þakklátur ef það myndi haldast þannig.”

    Af hverju þarftu að taka hlutunum svona persónulega? Eða að fara út í þessa sálma yfirhöfuð? Þið Einar eruð ósammála um flest, það hefur komið vel fram í umræðum á þessari síðu undanfarin misseri. En veistu, ég þekki ykkur báða og finnst þið fínir. Ég hef oft verið ósammála þér en samt höfum við getað rætt rokktónlist og horft á boltann yfir glasi á Players. Af hverju í ósköpunum heldurðu að Einar Örn sé eitthvað verri af því að þú ert ósammála honum?

    Og bara svo það sé á hreinu, þegar einhver segir eins og Einar sagði að menn séu í “stórkostlegu þunglyndi”, þá er hann ekki að meina að þú liggir heima og grátir í koddann þinn yfir erfiðri æsku. Hann er einfaldleg að meina stórkostlegt þunglyndi hér inni á þessari síðu. Við sem ræðum málin í ummælunum hér þekkjumst í flestum tilfellum ekki persónulega, þannig að það er óþarfi að taka því sem persónuárás þegar einhver sakar þig um “stórkostlegt þunglyndi.” Viðkomandi er engan veginn að gefa það í skyn að þú sért veikur eða andlega vanheill á nokkurn hátt. Viðkomandi er bara að gefa það í skyn að sér finnist skrýtið hversu erfitt þú átt með að gleðjast yfir sigurleik … HÉR INNI. Því við þekkjumst ekkert utan þessarar síðu, í flestum tilfellum (eins og með ykkur Einar, greinilega).

    Þannig að … slökum aðeins á. Þetta þarf ekki að vera svona persónulegt. Ég skal bjóða ykkur Einari í bjór næst þegar þið eruð á Players á sama tíma, og ég lofa þér því að þið munið brosa framan í hvorn annan. 🙂

  31. Ég efa ekki að við einar myndum brosa framan í hvorn annan ef við myndum hittast, ég erfi aldrei neitt við menn, sérstaklega ekki útaf einhverju netþrasi. Ég hef að vísu hitt hann einu sinni, á Park úti í Liverpool í einhverri ferðinni, en það kemur málinu lítið við.

    En þú ert aðeins að misskylja mig með fyrsta kvótið. Vandamálið er að þú getur ekki fullyrt að liðið hefði unnið þessa leiki í fyrra. Ef við værum vissir um það, þá væri ég hjartanlega sammála þér að þetta væru batamerki. Vandamálið er bara að það er ekki nokkur leið að fullyrða að liðið hefði tapað þessum leik í fyrra.

    En það eru klár batamerki með útistigin hingað til, ekki spurning…en það breytir ekki þeirri staðreynd að við höfum spilað illa undanfarið og ég tel fólk vera í fullum rétti að gagnrýna það og/eða hafa áhyggjur af því.

    …og bara svo það sé á hreinu þá átti ég fína æsku Kristján 😉

  32. Er mjög sammála Benna Jóni hér varðandi rétt manna til að gagnrýna. Að mínu mati eru það “verðmætari” stuðningsmenn sem leyfa sér að gagnrýna hart þegar illa gengur og hrósa þegar vel gengur. Ekki eins og sumir sem hrósa þegar vel gengur og bíða alltof lengi með gagnrýni þegar illa gengur.

    Leikmennirnir eru á svimandi launum inni á vellinum til að skemmta okkur áhangendum því að ef við værum ekki til staðar þá væru þeir að vinna í sláturhúsi. Við eigum að gagnrýna stöðugt án þess að vera með ósanngirni í gagnrýninni. Þeir stuðningsmenn sem ekki þora/vilja gagnrýna hart eru ekki til gagns, þeir eru aðeins til skrauts.

    Takk annars fyrir skemmtilega síðu.

  33. Sælir félagar.
    Passið bara að hafa það ekki nema eitt glas – hver
    veit hvað gerist ef þau verða fleiri.

  34. Jæja.
    Viðurkenni það alveg að ég hristi nú pínulítið hausinn yfir sumum ummælunum hérna. Torres karlinn átti a.m.k. að setja tvö mörk og Kirkland var að spjara sig vel, sér í lagi í fyrri hálfleiknum. Mér fannst liðið vera að spila vel, utan Gerrard, sem ekki er kominn í stand. Aurelio var ryðgaður, en það finnst mér skiljanlegt. Við héldum ennþá hreinu og erum að mínu mati án vafa að leika besta varnarleikinn í deildinni. Auðvitað var maður fúll yfir því að vera ekki tveimur mörkum yfir í hálfleiknum, svo þegar Wigan fór að sækja í upphafi hans og átti að fá að skora mörk fór ég að hugsa, jæja, 1-0 tap eða í mesta lagi 0-0.
    Þá kom Rafael með flott innslag og henti Benayoun inná. Mér finnst Yossi ekki “hreinn” kantmaður, heldur leysir hann mikið inn á miðsvæðið og þegar við sækjum er hann stundum þriðji senterinn. Markið hans minnti mig á Kenny Dalglish í góðu formi! Þess vegna vill ég nú aðeins frekar hafa það þannig að Pennant sé líka að spila mikið, því ég vill sjá alvöru kantmenn í liðinu líka. Pennant og Kewell eru slíkir, Benayoun og Babel leysa inn.
    Ég var mjög glaður í leikslok, lið sem verða meistarar þurfa svo margt. Auðvitað var gott að vinna Derby 6-0 og sýna flugeldana. Á laugardaginn sýndu United, Arsenal og Liverpool það að þau vinna leiki án þess að detta í toppgírinn, Ronaldo kláraði Birmingham, án þess að United ætti það skilið, West Ham átti að fá mark Ljungberg gilt eins pg Wigan. Við erum ekki í toppgírnum alveg þessa dagana og þar höfum við undanfarið klárað tímabilin. Leikurinn um helgina sagði mér meira en Derby leikurinn um liðið. Það ætlar sér langt og leikmennirnir eru einbeittari en áður. Þeir sem muna eftir Liverpool “of old” muna vel eftir snilldarleikjunum, ég man þó ekki síður eftir heppnisútisigrum í Ipswich, Leicester, Norwich og slíkum borgum. Slíkir sigrar skila meistaratitlum.

  35. Það er ekki hægt að neita því að liðið hefur verið að spila töluvert undir getu í undanförnum leikjum. Mér varð eiginlega um og ó þegar ég sá Carragher eiga slaka hreinsun eftir slaka hreinsun í leiknum í gær. En svo bregðast krosstré sem önnur…

    Kannski er það fjarvera Aggers sem skapar þetta óöruggi hjá Carra, ég veit það þó ekki.

    En málið er að mínu mati ansi einfallt. Liðið er að leika mjög slakann leik. Sóknaruppbyggingin er alltof hæg og skilar litlu. Þó svo við höfum ekki verið að fá á okkur mikið af mörkum í upphafi leiktíðar þá er það einungis tímaspursmál um hvenær þau fara áð hrannast inn, þ.e. ef varnarleikurinn verður áfram svona vandræðalegur hjá okkur.

    Við vorum stálheppnir á móti Wigan um helgina, þeir fengu ágætis færi og voru óheppnir með dómgæslu sem virtist falla okkar megin.

    Við höfum átt þrjá mjög slaka leiki Porto, Birmingham og Wigan og þó að Torres hafi sett þrjú glæsileg mörk á Reading þá þíðir það ekki að allt hafi verið með feldu í okkar leik. Vörnin var t.a.m. frekar vandræðaleg.

    Því finnst mér ekkert skrítið að menn gagnrýni liðið og stjórann ef þeir gera það að sómasamlegan hátt.

  36. Sælir poolarar;)
    Er með eina spurningu sem kemur þessari umræðu ekkert við en vona að það sé í lagi að koma með hana hérna! Þannig er mál með veksti að ég er að flytja til Orlando og langði að vita hvort að þið vissuð hvort enski boltinn er sýndur þarna úti? eða hafa kanarnir engann áhuga á enksa boltanum! Hef mikklar áhiggjur af þessu og það væri gaman ef að þið gætuð frætt mig e-h um þetta?

  37. Hvernig væri að smella inn annarri könnun á þessa heimasíðu til að athuga hverjir stóðu við stóru orðin og sniðgengu 365 ehf. Gaman að sjá hve margir eru með Sýn, Sýn 2, Sýn og Sýn 2, Stöð 2, Sýn og Sýn2 eða allan pakkann hjá 365 ehf. Ég blessunarlega sagði upp Sýn og keypti mér ekki aðgang af Sýn 2. Mig langar bara að vita hvort ég sé sá eini sem gerði það.

Liðið gegn Wigan komið – Torres inni!

Marseille á morgun