Núll – núll.

“Rafa Benitez spends twenty million pounds on Fernando Torres and then puts him on the bench against Birmingham. Did it work? NO!” -Gary Lineker, Match of the Day á BBC á sunnudag.

Ég fór til Manchester um helgina; slakaði á, verslaði og naut lífsins í nokkra daga. Meira um það hér. En ég fór líka á fótboltaleik, varð vitni að 0-0 jafntefli Liverpool og Birmingham á laugardag. Eftir þann leik hef ég nokkrar athugasemdir sem mig langar að tíunda hér:

1. Andrúmsloftið. Ég hef farið á sex leiki á Anfield og þetta var langslappasta stemning sem ég hef upplifað. Það hefur sennilega stafað af tvennu; í fyrsta lagi var fólk almennt afslappað fyrir leik, frekar en stressað eða spennt, því fólk bjóst við að það væri sennilega að fara að sjá skyldusigur. Í öðru lagi, þá byrjaði liðið leikinn svooo illa að í stað þess að vekja áhorfendur af afslöppuðum dvala og hvetja þá til að syngja virtist liðið bara hvetja aðdáendur til að pirrast og blóta spilamennskunni. Og þegar rúmlega fjörutíu þúsund manns eru pirraðir á spilamennsku þinni leikur þú enn verr. Úr varð vítahringur sem var frekar pirrandi að horfa upp á.

2. Frammistaðan. Ég hef séð Liverpool tapa þremur leikjum á Anfield í mína tíð, en þeir hafa aldrei leikið jafn illa í minni viðurvist og þeir gerðu á laugardaginn. Maik Taylor þurfti varla að verja allan leikinn. Eina lýsingin sem hæfir þessum leik er “andleysi”. Menn geta rembst og rembst við strigann, ákveðnir í að mála meistaraverk, en ef andagiftina vantar koma bara klessur á hvítan bakgrunninn. Þetta er það sem gerðist á laugardag. Það vantaði ekki viðleitnina eða vinnusemina í liðið, en innblásturinn var enginn.

3. Umræðan um Javier Mascherano. Ég kom heim í nótt og las yfir ummælaþráð leikskýrslunnar hans Einars í morgun. Einhverjir virtust reiðast Einari og sögðu jafnvel að hann væri að kalla alla ummælendur síðunnar rasista, eftir að hann sagði að ef Mascherano hefði verið svartur og frá Malí hefði fólk úthúðað honum fyrir frammistöðuna á laugardag. Einar hefði kannski getað orðað þetta betur, en það sér hver maður að hann var ekki að saka ykkur lesendurna um rasisma heldur einfaldlega að benda á að sumir aðdáendur liða virðast hafa ákveðið hverjir eru góðir og hverjir slæmir og ekkert virðist geta breytt því. Mascherano lék á laugardag nákvæmlega eins og Momo Sissoko hefur svo oft leikið; það gerðist allavega fimm sinnum í leiknum að maður sá hann hlaupa Birmingham-mann uppi, tækla hann og standa upp með boltann, hljóta mikið klapp frá áhorfendum … og svo dæla boltanum beint útaf í innkast þegar það virtist frekar auðvelt að senda á samherja. Ef Sissoko á að gera betur í svona stöðum á Mascherano að gera það líka, og þótt enginn efist um varnarvinnu hans eða verndun varnarinnar þá þarf ekki að koma á óvart að miðja Liverpool hafi verið bitlaus með jafn slakan sóknarmann og Mascherano á miðjunni á laugardag. Ég sakna Xabi Alonso.

4. Ég tók eftir einu á leiknum sem ég hefði sennilega ekki séð í sjónvarpinu; í fyrri hálfleik gerðist það í þrígang, þrjár sóknir í röð, að Hyypiä lék boltanum upp völlinn, gaf einhverja bendingu út á kantinn og Babel tók straujið strax af hliðarlínunni og inn í framlínuna. Í kjölfarið gaf Johnny Riise í upp hliðarlínuna og var aleinn, öskrandi á boltann, en Hyypiä ákvað að gefa á einhvern nær sér frekar en að fara í loftið á Riise. Í öll þrjú skiptin sem þetta gerðist stökk Rafa á fætur og gjörsamlega jóóóðlaði á Hyypiä. Þetta var greinilega æft sóknaratriði en einhverra hluta vegna framkvæmdi Hyypiä ekki sitt hlutverk í fléttunni, og því fór sem fór (Riise var orðinn frekar pirraður á þeim finnska, enda var hann aleinn á kantinum mestallan fyrri hálfleikinn en fékk sjaldan eða aldrei boltann). Þetta var kannski leikur liðsins í hnotskurn; allt þaulæft en menn bara framkvæmdu ekki á vellinum það sem hafði verið lagt upp með fyrir leik.

5. Ég reyni alltaf að minna sjálfan mig á að enginn þekkir leikmennina jafn vel og þjálfarinn. Enginn veit hvernig þeir sofa, hvernig þeim líður, hvernig þeir standa sig á æfingum og/eða hvort eitthvað amar að, betur en þjálfarinn sem sér leikmennina daglega og fær borgað fyrir að vita þessa hluti. Þannig að það er alveg möguleiki að eitthvað hafi verið að sem við uppí stúku ekki sáum. Engu að síður gat ég ekki annað en hugsað það sama og allir aðrir þegar byrjunarlið Liverpool skokkaði út á völlinn fyrir leik og við sáum hverjir voru í þeim hóp að hita upp: af hverju í fjandanum var Fernando Torres ekki í byrjunarliðinu? Jú, Voronin og Kuyt áttu alveg að vera nógu góðir til að geta skorað gegn Birmingham og ábyrgðin er þeirra, sem og hinna leikmanna byrjunarliðsins, en ábyrgðin getur alveg verið þeirra og Rafael Benítez. Ian Rush segir að þetta hafi verið taktísk ákvörðun hjá Rafa, en ég kaupi það ekki. Jafnvel þótt lið liggi aftarlega og hraði Torres nýtist ekki er ekki þar með sagt að Voronin sé sjálfkrafa betri kostur í framlínuna. Er ég sá eini sem telur Torres vera með bestu boltatæknina, bestu snerpuna í þröngum svæðum og bestu skottæknina af framherjum Liverpool? Hvers vegna í ósköpunum telur Rafa Benítez hann ekki nýtast gegn liðum sem liggja aftarlega? Horfir hann bara á níuna aftan á treyju Torres og ruglar honum saman við Djibril Cissé?

Læt þetta nægja í bili. Það er nú einu sinni þannig að maður getur aldrei verið öruggur fyrirfram með þá leiki sem maður sækir erlendis, en ég er að verða orðin hálfgerð jóker-fígúra meðal vina minna. Ég hef séð þrjá leiki á Anfield í ár; tveir þeirra hafa tapast 0-1 og ég hef ekki séð Liverpool skora eitt einasta mark í þessum þremur leikjum. Ég er farinn í minnst eins árs frí frá Anfield. Ég læt mér nægja að horfa á leikinn í kvöld í sjónvarpinu og smelli svo á ykkur leikskýrslu strax á eftir. Sú rútína nægir mér næsta árið. 🙂

11 Comments

 1. Niðurstaða = Benitez gerðir ekkert rangt, þetta var allt KAR að kenna, þú færð bara að fara á deildarbikarleik á næsta ári, ef það 🙂

  Annars þá fannst mér alveg rosalega vanta Peter Crouch í þessum leik, jafnvel frekar heldur en Torres.

 2. Flottur pistill, gamann að fá svona annan vinkil á þetta. En Kristján Atli ættir þú ekki að gera okkur öllum greiða og hætta að fara á Anfield þetta er hræðileg tölfræði hjá þér 🙂

 3. Ég þakka frábærann pistil.

  Babu, ég er sammála þér, köngulóin hefði gert gæfu muninn, að mínu mati.

  Ég hef ekki ennþá farið á leikvanginn góða en held að það sé að koma að því, veit einhver hvenær síðasti leikurinn fer fram á vellinum :c)

  Avanti Liverpool – alla daga!!!

 4. Sammála þér Kristján minn um að Alonso sé sárt saknað. Það vill brenna við að drengirnar spilli ekki eins flæðandi bolta og ella er hann er með.

  Eins hef ég saknað Agger upp á síðkastið. Það er meiri bolti í honum en Sami og Carra.
  Hefði verið gott á móti Porto sem pressuðu miðverðina sem og alltaf svo sem. Að miðverðirnir geti nýst til einhvers annars en að verjast og dúndra frá sér boltanum eins skjótt og mögulegt er.

  Þó það sé óneytanlega mikil blóðtaka fyrir klúbbinn að missa þá drengi þá jafngildir það ekki afsökunun fyrir annari eins spilamennsku.
  ÞAð er samt eitthvað sem segir mér að við eigum von á góðum vetri.
  Það eru alltaf brekkur, bara misbrattar

  góðar stundir

 5. Góður pistill en leiðinlegt hvað þú ert óheppinn með leiki. Ég hef líka farið 6 sinnum á Anfield en alltaf séð sigurleik og það sem meira er, fullt af mörkum eða 15 stk. Ég var t.d. á vellinum í 6-0 um daginn gegn Derby – ekki leiðinlegt og spurning að ég fari bara í þinn stað 🙂

 6. úff..fínn pistill þetta. vona að ég haldi ekki áfram að vera óheppinn eins og þú með leiki á anfield. fór einu sinni á liverpool – southampton, töpuðum 1-2. lélegt stuff þar á ferð. fer á Arsenal leikinn 28.okt og er með miða í KOP. ætla rétt að vona að fólk verði í stuði. allavega ætla ég að láta heyra í mér!

 7. Takk, allir. Ykkur er óhætt að hætta að stinga upp á því að ég taki mér frí frá leikjum, þar sem ég tók það fram í pistlinum að það er á dagskrá. 😉

  Annars, þá nefndi ég þetta Hyypiä-dæmi ekki bara af því að ég tók eftir því heldur líka af því að hann hefur oft verið sakaður um að dæla boltanum endalaust fram. Hann gerir það vissulega á köflum (JC og DA eiga það til líka) en miðað við það sem ég varð vitni að á laugardag er honum oft skipað að gera það, og ef eitthvað er á hann það til að vera of ragur við löngu sendingarnar. Ég er viss um að ef hann hefði reynt allavega einu sinni í þessi þrjú skipti sem Riise var auður á kantinum hefðum við getað fengið hættulega sókn eða skotfæri út úr því.

  Já, og er Crouch ekki kallaður ‘Hrossaflugan’? Ég heyri hann kallaðan ýmsum nöfnum; gíraffinn, köngulóin, o.sv.frv., en ég hélt alltaf að Hrossaflugan væri hið eina rétta. Er það bull í mér? 🙂

 8. Heyr, heyr. Virkilega góður pistill hjá þér Kristján.
  Ég er allveg sammála um að það vanti Xabi Alonso. Þegar Gerrard er inná miðjunni og er sá sókndjarfi þá þarf að vera maður fyrir aftan hann sem getur tekið boltann og komið honum í spil. Þetta hefur Macherano gert allveg prýðilega þangað til í leiknum á móti Porto og svo eins á móti Birmingham.
  Ég veit að það er stefnan hjá Benitez að það eigi ekki að skipta máli hver er í liðinu hverju sinni, því að hann ætlast til þess að menn séu tilbúnir að stíga upp þegar kallið kemur.
  En ég er nú ekki á þeim buxunum strax að fara að efast um árangurinn á þessu ári eins og svo margir hér á síðunni eru búnir að gera. Það lenda öll góð lið í lægð og ég held því fram að þetta sé okkar, líkt og man utd byrjuðu illa.

  Annars er ég ánægður með ykkur hér á síðunni, alltaf nóg að efni og manni þarf aldrei að leiðast þegar maður á leið hér um. Keep up the good work!

  Svo er það bara spennandi verkefni í kvöld að sjá ungu strákana okkar leika gegn Reading, ég er a.m.k. orðinn býsna spenntur. Bara að vona að þeir standi sig vel og geri tilkall til aðalliðsins á þessari leiktíð.
  Áfram Liverpool sama hvernig gengur

 9. heheh sorry ég gat bara ekki munað hvað hann var kallaður svo að mér datt ekkert annað í hugn en kónguló heheh, en rétt er það að hann er eins og hrossafluga, vantar bara vængi :c)

  Avanti Liverpool

 10. Gott heyra frá þér Kristján og velkominn heim… sammála þeirri greiningu þinni að KAR ..láti Anfield vera í bili..^^ Ég meina.. þetta er nú ekki einleikið!! Þrír leikir á Anfield á ekki lengri tíma en þetta og ekkert mark. Hmmmm.. 🙂

  Ég sá leikinn og það er gott að heyra það sem mér fannst um leikinn var staðfest af einhverjum sem var á leiknum. En það sem mér fannst skína hvað mest í gegn í þessum leik.. var andleysi okkar manna. Einhver nefndi að ef til vill sakna leikmenn Pako?!? Það væri aldrei. Að brottför Pako af æfingasvæðinu sé að orsaka einhvern slæman móral í okkar menn? Ég vona heitt og innilega ekki. En það er ekki skrítið að maður leiti að skýringum eftir svona stórslys sem þessi leikur var.

  Merkilegt að heyra þetta með Hyypia. Ég verð að viðurkenna að punkturinn með Sissoko/Mascherano hjá Einari á aðeins við rök að styðjast. Í það minnsta fyrir mig sjálfan. Ég er einlægur aðdándi Mascherano og fannst hann standa sig lang best í leiknum gegn Birmingham!!!! Ég tók alveg eftir þessum feilsendingum hjá honum en á móti kom að hann barðist eins og ljón. Ég hef oft hrósað Sissoko fyrir báráttu!!

  Hvað varðar þetta rasista kjaftæði þá hvarflaði ekki sá flötur að mér eitt einasta augnablik þegar ég las leikskýrsluna hans Einars fyrr en einhver póstaði því inn. Ég vil nú bara ekki trúa því upp á Einar að hann hafi verið eitthvað að væna fólk um rasisma þó það væli yfir leikmanninum Sissoko. Mér finnst miklu meira spunnið í Mascherano sem leikmann og það hefur nákvæmlega ekkert með litarhátt að gera.

  YNWA

Itandje í FA og Deildarbikarnum

Sterkt byrjunarlið gegn Reading!