Zidane: A 21st Century Portrait

Góðan daginn og gleðilegan mánudag! Ég veit ekki með ykkur, en ég er að fara yfir um í þessum taumlausu leiðindum sem við köllum Landsleikjahlé. Fyrir vikið ætla ég að grípa til þess ráðs að deila með ykkur smá kvikmyndanördaskap. Ég biðst afsökunar fyrirfram:

Um daginn horfði ég á stórmerkilega kvikmynd, Zidane: A 21st Century Portrait. Hún fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um frönsku knattspyrnuhetjuna Zinedine Zidane, sem var sennilega hæfileikaríkasti og besti knattspyrnumaður sinnar kynslóðar áður en hann lagði skóna á hilluna eftir HM í knattspyrnu í fyrra. Eins og flestir muna ennþá lauk ferli hans með ólíklegasta móti, er hann skallaði andstæðing í úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar og var rekinn útaf, en myndin fjallar ekki um það.

Zidane: A 21st Century PortraitÞessi kvikmynd, sem er meðal annars framleidd af Íslendingnum Sigurjóni Sighvatssyni, fjallar um einn leik í spænsku La Liga. Um er að ræða leik Real Madrid og Villareal sem fór fram á Santiago Bernabeau-vellinum vorið 2005. Því minna sem maður veit um þennan leik þegar maður horfir á myndina, því betra, því það tekur vafalítið spennuna úr henni að vita hvernig henni lauk, hvað gerðist og hvenær. Ég mundi ekkert hvað gerðist í þessum leik og það jók bara á spennuna. Eins sjá glöggir að þetta er frá vorinu 2005, en meðal “aukaleikara” í myndinni eru markvörður Villareal, Pepe Reina, og framherji Real Madrid, Michael Owen.

Allavega. Í stað þess að horfa á þennan knattspyrnuleik eins og maður horfir venjulega á leiki fáum við hér stórkostlega innsýn í heim knattspyrnumannsins; á meðan á leik stóð var sautján myndavélum beint að Zidane, auk þess sem hann lék með hljóðnema saumaðan í búning sinn. Leikstjórarnir, þeir Douglas Gordon og Philippe Parreno, klippa myndina stórvel svo að manni leiðist aldrei þótt mest allan tímann sé verið að horfa á einn mann hlaupa um völlinn og taka mismikinn þátt í leiknum. Þeir skipta yfir í “útsendingu” spænsks sjónvarps þegar eitthvað gerist, svona til að sýna okkur hvað er að gerast í leiknum fyrir utan Zidane, og svo fáum við að sjá hvernig Zidane bregst við. En mest allan tímann erum við að horfa á þennan mikla meistara leika knattspyrnuleik.

Það er undarleg tilfinning að fá að kynnast því hvernig Zinedine Zidane lék knattspyrnu. Sem er í rauninni það sem gerist – við fáum að prófa að vera Zidane í einum leik. Það var margt sem kom mér á óvart við að horfa svona á hann; til að mynda segir hann varla nema svona þrjátíu orð í leiknum, og eina heila setningin sem hann segir er við dómarann á vel völdu augnabliki. Þá er mjög spes augnablik seint í leiknum þegar hann og Roberto Carlos hlæja vel og lengi saman, án þess að nokkur orð hafi verið sögð. Það er engu líkara en að þessir menn séu svo samstilltir að þeir þurfi ekki að tala til að skilja hvor annan.

Maður skynjar ýmislegt þegar maður horfir á þessa mynd. Hún er ekki fyrir efasemdarmenn, ég hugsa að aðeins harðir áhugamenn um knattspyrnu geti horft á þetta til enda, en þar skilur líka að. Ég hafði stórgaman af þessari mynd og mig grunar að þið mynduð hafa gaman af henni líka, sem hafið á annað borð nægan áhuga á knattspyrnu til að lesa þessa síðu. Ég efast þó um að konan mín myndi endast nema fimm mínútur yfir henni.

Zidane var sannarlega snillingur á knattspyrnuvellinum, það geta allir sem hafa séð hann spila í eigin persónu vottað fyrir, og það er eins og áður sagði athyglisvert að fylgjast með hvernig hann ber sig að í leik. Hann hleypur ekki mikið, en er stöðugt á ferðinni. Hann stoppar aldrei, þótt ég hugsa að hann taki sennilega ALDREI á sprett í þessum heila leik. Það hljómar ótrúlega, en þegar maður horfir á hann spila finnst manni sem hann einfaldlega þurfi aldrei að spretta úr spori. Enda var hraðinn aldrei hans helsta vopn. Stærsti vöðvi Zidane hefur alltaf verið heilinn og það sést í þessum leik hve mikil einbeitningin er. Hann er alltaf að lesa leikinn, alltaf á ferðinni um völlinn að leita uppi glufur. Hann missir boltann ALDREI í þessum leik, ef frá eru taldar nokkrar misheppnaðar stungusendingar, og þótt hann sé mismikið inni í spilinu hjá Real er hann alltaf líklegur til að skipta sköpum.

Ég mæli bara með að þið horfið á þessa mynd. Framan á hulstrinu sem ég keypti er tilvitnun úr The Guardian þar sem einhver blaðamaðurinn heldur því fram að þetta sé besta kvikmynd um knattspyrnu sem hefur verið gerð, og svei mér þá ef ég get ekki tekið undir það. Hún er reyndar bara fyrir harða aðdáendur, en þessar tæplega níutíu mínútur eru fyllilega þess virði. Ef þið hafið tíma til að horfa á Sunderland – Birmingham á laugardegi hafið þið alveg tíma til að fylgjast með sönnum meistara að störfum.

Án þess að ég vilji spilla neinu, þá er myndin ekki bara góð mynd af knattspyrnuhæfileikum Zidane heldur einnig persónuleika hans. Eins og menn vita átti hann sér dökka hlið sem átti það til að skyggja á hæfileika hans og sú skuggahlið sýnir sig alveg á köflum hér. Hann skallar engan í bringuna, en skuggahliðin er samt þarna. Það er einmitt það sem gerði Zidane svo heillandi sem knattspyrnumann; maður vissi aldrei hvað hann gerði næst.

Það er mjög auðvelt að fletta upp úrslitum þessa leiks og sjá hvað gerðist, hvenær og hver örlög Zidane urðu þennan apríldag gegn Villareal. En ég hvet ykkur til að gera það ekki (og enn síður að afhjúpa það í ummælum þessarar færslu). Ef þið mögulega getið, sjáið þessa mynd og gerir það án þess að vita úrslitin. Þið munið heillast af hæfileikum og persónuleika Zinedine Zidane, besta knattspyrnumanns sinnar kynslóðar.

13 Comments

 1. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þurfti ég að horfa á þessa mynd fyrir frönskutíma, og mér hefur aldrei liðið jafn kjánalega og leiðst jafn mikið í bíó.

  Fannst þetta alveg fáranlega asnaleg mynd og gat engan vegin notið þess að horfa á hana.

  Held jafnvel að ég myndi frekar horfa á Derby County vs Birmingham á laugardegi.

  En þetta er svo sem bara mitt mat og ég vona að menn virði það:)

 2. Ég er afar sammála Kristjáni Atla þar sem ég hafði mjög gaman af þessari mynd og þeirri nálgun sem leikstjórarnir Douglas Gordon og Philippe Parreno notast við í þessari mynd. Ég var heillaður af þessari mynd og fannst hún spennandi, áhugarverð, öðruvísi, framandi og umfram allt falleg.

 3. Sindri, auðvitað virðum við þína skoðun, enda er ekkert rétt eða rangt í þessum málum, aðeins skoðanir. Svona mynd er líka, eins og ég sagði, alls ekki fyrir alla. 🙂

 4. Sælir félagar.
  Að mínu mati er Zidane á topp 5 listanum yfir bestu knattspyrnumenn sögunnar. Þegar komið er á þann stað á listanum eru gæðin orðin slík að það er ekki hægt að rífast um hver af þessum 5 var bestur eða hverjir eiga að vera á þeim lista. Það er hægt, fyrir utan Zidane, að nefna menn eins og Pele, Maradona, Puskas jafnvel Dalglish o.fl. Enginn þeirra sem eru að spila í dag ná þeim hæðum sem þessir menn náðu en einhverjir þeirra munu verða taldir eiga heima í þeim hópi.
  Ég hefi ekki séð þessa mynd um Zidane en ætla að eignast hana og á eftir að horfa á hana með andagt. Ég hefi ekki horft á knattspyrnumann leika betur fótbolta en ef til vill nokkra sem hægt er að segja að hafi gert það álíka vel.
  YNWA

 5. Ronaldo er nú enn að spila í dag. Þegar hann var uppá sitt allra besta þá voru menn eins og Henry o.fl. eins og smástrákar við hliðina á honum. Algjör afburða striker sem vann HM 2sinnum og á hiklaust heima meðal bestu leikmanna allra tíma að mínu mati.

  Maður hefur lengi verið á leiðinni að kíkja á þessa Zidane mynd. Veit hvernig þessi leikur gegn Villareal fór og hvað gerðist. Samt ætti það ekki að spilla ánægjunni.
  Alltaf virkilega gaman að svona myndum sem færir fótboltann í nýjan búning og eykur listræna gildið í kringum íþróttina. Öfugt við markaðshyggjuna sem er alltof mikil í fótboltanum í dag.

 6. Gleymist líka oft að Ronaldo hefur átt við slík meiðsli að stríða að sorgarsaga Eiðs Smára verður léttvæg í þeim efnum, eða þannig. Ronaldo er besti framherji mannkynssögunnar í mínum bókum.

 7. ég náði í þessa mynd eftir að hafa lesið þennann pistil og hreifst mjög, gaman að sjá svona kækina í Zidane og svo lesa quotin hanns á meðan maður fygldist með honum. Frábær myndataka, náðu öllum hreyfingum og smáatriðum hjá kallinum

 8. Horfði á myndina og hafði gaman. Ég get hins vegar ímyndað mér að það væri enn skemmtilegra hefði þetta verið úrslitaleikurinn á HM.. hmm.

 9. Ég er sammála að hann er mesti snillingur sinnar kynslóðar og það sem stóð uppúr eftir myndina er ótrúleg boltatækni, einbeitni og yfirsýn sem hann hefur í leiknum. Hann er líka svo lokaður eitthvað og hann virðist vera eitthvað pirraður allan leikinn…og líklega mest allan feril sinn.

  Þrátt fyrir þetta þá varð ég fyrir miklum vonbrigðum með myndina. Með atvikið í lokin þá skil ég ekki af hverju þeir sýndu ekki nærmynd af Zidan í því atviki, með hljóði og tilheyrandi.

  Maður fær að sjá hluti sem maður hefur aldrei séð áður og mjög gaman að fylgjast með honum öðruvísi en í vejulegri útsendingu. 30 mínútur af þessu hefði samt verið meira en nóg.

One Ping

 1. Pingback:

Eru ekki allir í stuði?

Landsleikirnir um helgina og Carra klár gegn Porstmouth.