Mánudagspælingar

Í dag er mánudagur; fimm umferðum er lokið í Úrvalsdeildinni og skollið á tveggja vikna hlé vegna landsleikja, forkeppni Meistaradeildarinnar er búin og búið að draga í riðla fyrir sjálfa keppnina, leikmannaglugginn er lokaður fram í janúar og fyrir vikið finnst mér við hæfi að við stöldrum aðeins við og íhugum byrjun tímabilsins.

Tölfræðin

Liverpool FC hefur spilað sex leiki á tímabilinu. Í þeim leikjum …

 • Hefur liðið skorað 16 mörk, sem gerir 2.67 mörk að meðaltali í leik. Þá hafa alls níu leikmenn skorað þessi fimmtán mörk (sjálfsmark Lauren hjá Villa er það sextánda), en það hlýtur að vera jákvætt að svo margir (þar á meðal allir fjórir framherjarnir) leikmenn skuli vera komnir á blað strax.
 • Hefur liðið fengið á sig tvö mörk, bæði úr vítaspyrnum. Fyrra vítið kom vegna klaufaskaps Carragher og/eða heppni Villa, en boltinn hrökk í höndina á honum. Um vítaspyrnudóminn gegn Chelsea þarf ekki að fjölyrða. Eftir stendur sú staðreynd að engu liði hefur enn tekist að brjóta vörn Liverpool á bak aftur með spilamennsku sinni.
 • Pepe Reina hefur leikið alla þessa sex leiki í marki Liverpool og haldið hreinu í fjórum þeirra. Sem er frábær tölfræði, ef hann getur haldið áfram að halda hreinu í fjórum af hverjum sex leikjum á liðið eflaust eftir að setja einhvers konar met í að halda hreinu í vetur. Þ.e.a.s., liðið á eftir að bæta metið sem Pepe Reina á nú þegar. 😉
 • Mörk liðsins hafa skipst þannig: Torres (3), Voronin (3), Alonso (2), Kuyt (2), Gerrard, Babel, Crouch, Sissoko, Hyypiä. Fyrir utan Nicolas Anelka hjá Bolton er Torres markahæstur í Úrvalsdeildinni eftir fimm umferðir (hann á líka leik til góða í þeim efnum). Torres er þegar búinn að skora einu marki minna en Andriy Schevchenko skoraði allt tímabilið í fyrra í Úrvalsdeildinni. Torres er búinn að skora jafn mikið og allt Manchester United-liðið í deildinni. Oft er talað um að nýir leikmenn þurfi tíma til að aðlagast ensku deildinni. Það á ekki við hér. 🙂
 • Í þessum sex leikjum er Rafa Benítez búinn að nota 20 leikmenn, þar af 18 í Úrvalsdeildinni. Þeir tveir sem hafa bara spilað í Evrópu eru Sebastian Leto og Lucas Leiva.
 • Af þessum 20 leikmönnum hafa aðeins tveir spilað hverja einustu mínútu af tímabilinu hingað til; Pepe Reina … og Alvaro Arbeloa. Sem segir mér að sá síðarnefndi sé orðinn lykilmaður í plönum Rafa Benítez.

Úrvalsdeildin

Top of the League!Hvað getur maður sagt? Eftir fimm umferðir er Liverpool FC á toppi Úrvalsdeildarinnar, með einn leik til góða og yfirburða markatölu á við hin toppliðin. Þökk sé stórsigrinum gegn Derby County er liðið með meira en tvöfalt betri markatölu en liðið með næstbestu markatöluna. Það á þó eflaust eftir að jafnast út yfir tímabilið; fyrir það fyrsta eiga Derby-menn eftir að heimsækja hin stórliðin líka, og svo eru fleiri ár síðan við skoruðum meira en bæði Man Utd og Arsenal í deildinni.

Aðalatriðið í þessu er það að við töluðum og töluðum um það í sumar að slæm byrjun í haust, fjórða árið í röð undir stjórn Rafa Benítez, yrði einfaldlega ekki liðin og að afsakanirnar væru uppurnar. Hann fékk að kaupa þá sem hann vildi í sumar og byrjaði með nær heilan hóp í haust og því var kominn tími til að “borga eða þegja”, eins og sagt er. Sem betur fer hefur Rafa borgað sig í þessum fyrstu leikjum og aðeins dómaraskandall ársins hindrar það að liðið sé með 100% sigurhlutfall í öllum leikjum tímabilsins. Við vitum að það er enn mikið eftir af tímabilinu og að það vinnur ekkert lið titilinn í ágúst, en svona byrjun var einmitt það sem liðið þurfti. Menn þurftu að losna við hræðsluna sem fylgir því að byrja illa og fá smá sjálfstraust í kjölfarið. Það er núna komið, enda er nærri því hver eina blaðagrein sem fjallar um Úrvalsdeildina eftir þessa helgi að spyrja sig að því sama: “Getur Liverpool virkilega unnið titilinn?”

Það jákvæðasta við byrjun liðsins í Úrvalsdeildinni er hins vegar spilamennska liðsins. Eins og fram kom hér að ofan hefur Rafa þegar notað átján leikmenn í þessum fjórum deildarleikjum – tveir heima og tveir á útivelli – en það virðist ekki hafa haft nein áhrif á spilamennskuna. Hann stillti upp sama byrjunarliði í fyrsta leiknum úti gegn Aston Villa og heima gegn Chelsea og í báðum leikjum lék það lið virkilega vel og var með öll völd á vellinum. Gegn Sunderland úti hvíldi hann nokkra leikmenn, auk þess sem Gerrard var frá vegna tábrots, og hann varð fyrir því óláni að missa bæði Hyypiä og Carragher útaf meidda í þeim leik. Það kom þó ekki að sök, þar sem þeir leikmenn sem komu inn í staðinn spiluðu í raun ekkert verr heldur en Carra, Gerrard og hinir lykilmennirnir sem voru fjarri góðu gamni. Um helgina spilaði liðið svo án Carra og Gerrard og slátraði Derby County. Það er kannski ekki hægt að lesa of mikið út úr þeim leik, þar sem Derby-liðið var svo lélegt, en fyrir nokkrum árum síðan hefðum við verið í vandræðum með svona lið án Gerrard. Í ár erum við með lið sem er búið að skora tólf mörk í þremur leikjum án fyrirliðans. Það kallast breidd, gott fólk.

Næsti deildarleikur er eftir tólf daga á útivelli gegn Portsmouth. Lið Harry Redknapp tapaði fyrir Arsenal á útivelli um helgina og Chelsea á útivelli í mjög jöfnum leik fyrir viku síðan, en þar áður höfðu þeir m.a. náð jafntefli heima gegn Manchester United. Þeir unnu okkur á Fratton Park á síðasta tímabili, þannig að þetta verður erfiður leikur. Það er þó ljóst að okkar menn munu mæta í þann leik fullir sjálfstrausts eftir sterka byrjun, enda toppliðið í deildinni.

Meistaradeildin

Torres er nýji prinsinn á AnfieldLiðið vann Toulouse, 1-0 á útivelli og 4-0 á heimavelli, og tryggði sér fyrir vikið þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fjórða árið í röð. Búið er að draga í riðla og er Liverpool í riðli A ásamt Porto, Marseille og Besiktas. Fyrsti leikur liðsins er eftir hálfan mánuð, á útivelli gegn Porto.

Í raun má segja að liðið hafi farið í gegnum forkeppnina af meira öryggi nú en þeir eru vanir. Undir stjórn Rafa Benítez hefur liðið tvisvar á þremur árum komið með góða forystu úr útileiknum í seinni leikinn á Anfield og tapað þar 1-0. Því var maður ögn stressaður fyrir heimaleikinn gegn Toulouse, en það reyndist óþarfi. Liðið vann þann leik auðveldlega.

Hvað riðilinn sem er framundan varðar er ljóst að þetta eru þrjú erfið lið sem við erum að fara að mæta. En þannig er Meistaradeildin; menn hafa fyrir því að komast í keppni hinna bestu og hún stæði ekki undir nafni ef menn mættu ekki erfiðum andstæðingum. Þetta eru þrjú lið sem geta öll unnið okkar menn og því er alls ekki öruggt að liðið komist upp úr riðlinum, en eins og liðið hefur leikið í þessari keppni undir stjórn Rafa Benítez og eins vel og liðið er að byrja tímabilið nú í haust getum við vart annað en verið bjartsýnir og hlakkað til þessara leikja.

Hið neikvæða

Í raun er aðeins þrennt sem skilur eftir sig súrt bragð í munni eftir byrjun tímabilsins:

 • Rob Styles. Ef hann hefði sinnt starfi sínu værum við með fullt hús stiga í deildinni. En svona er þetta bara stundum. Það er erfitt að sætta sig við að hafa verið rændir tveimur stigum gegn Chelsea, en lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Vonandi jafnar þetta sig út yfir leiktíðina, ég mun allavega ekki vorkenna Chelsea ef þeir verða rændir einhverjum stigum í vetur. C’est la vie.
 • Meiðsli Carragher og Gerrrad. Þau komu reyndar á góðum tíma, þeir misstu af leikjum gegn Toulouse og Derby á heimavelli og svo tveggja vikna landsleikjahléi, en það er engu að síður slæmt að hafa misst þá einmitt þegar liðið var að komast í spilaform. Vonandi fer Gerrard sér ekki að voða með enska landsliðinu í næstu viku og við fáum þá báða heila inn fyrir næsta deildarleik.
 • Pako Ayesteran, hægri hönd Rafa Benítez og hans nánasti samstarfsmaður síðustu ellefu árin, er hættur hjá Liverpool FC. Það skal enginn efast um það að þetta er mikil blóðtaka fyrir Benítez og liðið. Hverjar svo sem ástæðurnar eru skipta ekki öllu máli að mínu mati, það hlýtur að hafa verið eitthvað óleysanlegt fyrst þessir miklu vinir skildu að skiptum á svona mikilvægum tíma fyrir liðið. Nú þarf hins vegar að horfa til framtíðar og vona að þetta muni ekki kosta liðsmóralinn eða álag á Benítez í vetur.

Niðurstaða

Sem sagt, fyrir utan nokkur skakkaföll hefur Liverpool FC undir stjórn Rafa Benítez byrjað tímabilið virkilega vel, betur en maður þorði hreinlega að vona. Liðið er að spila skemmtilegan bolta, skora 2.67 mörk að meðaltali í leik og breiddin virðist vera mikil. Það munar um það að nýju leikmennirnir virðast allir hafa fundið sig strax í liðinu og þá sérstaklega að Torres er að spila eins og þetta sé tíunda tímabil hans hjá Liverpool, ekki það fyrsta. Það er einfaldlega gaman að vera Liverpool-aðdáandi um þessar mundir því eins skemmtilegt og það er að rifja upp glæstar minningar og góða tíma fortíðar, þá er ekkert jafn skemmtilegt í dag og björt framtíð. 🙂

Ég get ekki beðið eftir næsta leik.

20 Comments

 1. Góðar pælingar 😉 ætliði að fara á landsleikinn og horfa á Torres spila ?

 2. Nei því miður. Ég sé Torres spila á Anfield eftir þrjár vikur, en ég fæ bara eitt tækifæri til að sjá Chris Cornell í Laugardalshöllinni. 🙂

 3. Nei, reikna ekki með því. Hann verður í röngum búningi 🙂

  Maður horfir bara á þetta í TV, viðurkenni það fúslega að ég er aldrei neitt voðalega spenntur að fara á völlinn á landsleiki okkar.

 4. Annars skemmtilegar pælingar og súmmerar þetta ákaflega vel upp. Var meira að segja að spá í það þegar ég sá fyrirsögnina “Hið neikvæða”, hvað þú ætlaðir eiginlega að reyna að finna til að setja þar inn. Hrikalega öflugt að þetta sé það eina neikvæða sem við sjáum við tímabilið og september verður hálfnaður þegar kemur að næsta leik okkar.

  Ég yrði ákaflega sáttur þótt við fengjum ekki þennann 30 marka mann, svo fremi sem þetta dreifist svona áfram. Eins og Rafa segir sjálfur, þá er mun erfiðara við að eiga ef margir eru um hitunina að skora.

  Nú er bara að harka af sér þetta landsleikjahlé og koma jafn grimmir til leiks eftir það. Erfiður útileikur næst (djöfull að þurfa að bíða í heilar tvær vikur).

 5. Einnig gaman að sjá hve duglegir framherjararnir eru að skora í þessum fyrstu leikjum, í ljósi þess að allir blaðamenn voru að keppast um að skrifa um markaþurrð þeirra í undirbúningsleikjunum….

 6. það eina góða við þetta hlé er að maður getur skoðað stiga töfluna reglulega )))) og djö erum við góðir.

 7. Er landsleikurinn á laugardagskvöldið? Ég veit fyrir mig að ég þarf ekki að spá mikið í þetta, Chris Cornell eða Ísland – Spánn….Cornell any day!

  En þetta virðist vera smella núna. Ég, eins og Kristján, er ekki að segja að við verðum meistarar, en við virkum mjög þéttir og sterkir. Mér finnst við reyndar ekki hafa spilað jafn vel og mörgum öðrum. Mér finnst stundum vanta vel útfærðar sóknir þar sem boltinn er látinn ganga manna á milli sem endar með hættulegu færi eða marki. Oft er þetta aðeins og mikið hnoð og of tilviljanakennt…en hey, á meðan við skorum fullt og erum efstir þá kvartar maður ekki mikið:)

  Annað sem mér finnst leiðinlegt, það er þessi Rob Styles tugga. Jújú, maðurinn gerði mistök, og það mjög stór, en að kenna því atviki einu og sér um úrslit leiksins finnst mér frekar dapurt. Rob Styles gerði mistök, var maður í að biðjast afsökunar á þeim og hjá mér er hann meiri maður á eftir. Afhverju kennum við ekki Babel um töpuðu stigin tvö þegar hann klúðraði skotinu í hliðarnetið? Eða Torres fyrir að klúðra fínu færi í leiknum….þið hljótið að skilja hvað ég er að fara. Hættum að kenna einhverjum um, reynum bara að bæta okkur og höldum áfram. Við munum klárlega fá svona “vafasaman” dóm með okkur í vetur og þessi atvik jafna sig alltaf út yfir tímabilið.

 8. Vegna þess að dómgæslan hjá honum í þessum leik var svo léleg að hún kostaði okkur klárlega stigið. T.d. með því að gefa víti sem var eina hættulega færið sem þeir fengu í þeim leik. Þannig að það er í góðu lagi að benda á þetta þegar verið er að hrósa liðinu fyrir sína frammistöðu það sem af er ári. Það er ekkert mark fengið á sig nema úr tveimur vítaspyrnum sem í besta falli flokkast báðar sem ÓHEPPNI.

  Þessi staðreynd helst alveg óhögguð sama hvað Benett þykir mikið fyrir þessu mistökum (ATH ég tek afsökun hans alveg gilda fyrir þessi mannlegu mistök sín og vona að hann komi bara ferskur til baka)

  En góðar pælingar KAR, þetta er alveg akkurat á pari við þá byrjun sem maður var að vonast eftir, þó ég haldi væntingunum ennþá alveg á jörðinni fram í…………..jahh maí :p

 9. Vel mælt Kristján Atli. Ég þurfti að hætta að horfa á Derby leikinn þegar staðan var 3-0 og sigurinn vel öruggur. Liðið virkaði vel á mig, sjálfstraust, barátta, leikgleði og góð samvinna milli manna. Liðið virkar í dag eins og smurð vél og virðist engu skipta hverjir eru inná sem er einnig mikill styrkur. Hver man ekki eftir því að ef Owen var ekki með þá skoruðum við ekki eða ef Gerrard var ekki þá var þetta basl og jafnvel þegar Hyypia fór útaf í örfáar mínútur vegna meiðsli náði Man Utd að skora 2 mörk! Í dag er öldin önnur og við erum með ca. 20-24 leikmannahóp þar sem allir eru hreinlega góðir leikmenn. Liðsheildin er frábær og Rafa er jafnvel að búa til lið sem getur loksins tekið stóra titillinn.

 10. Hvað ætliði að missa mikið þvag yfir því að vera efstir eftir 4-5 umferðir?

 11. Úlli … það er enginn að missa þvag neitt … menn eru bara ánægðir með liðið og spilamennskuna sem hefur verið frábær það sem af er. Vonandi verður framhald af því og þá fyrst skulum við míga.

 12. Úlli, við kvörtum nú nógu andskoti mikið þegar illa gengur, þannig að það má gleðjast þegar að vel gengur.

 13. Af hverju ert þú að ómaka þig yfir þvagi annarra manna Úlli? Ef þetta fer svona í taugarnar á þér að við skulum gleðjast yfir góðu gengi, þá skaltu bara vafra um netið, þú hlýtur að finna einhverja síðu sem þú getur skipst á þvagbröndurum við einhverja sem hafa sama áhugamál og þú.

 14. “Þá hafa alls níu leikmenn skorað þessi fimmtán mörk (sjálfsmark Lauren hjá Villa er það sextánda)”
  Það var Laursen sem skoraði sjálfsmarkið, Lauren er leikmaður Portsmouth. Hann má alveg líka skora sjálfsmark í næsta leik!!!

 15. Eigum við ekki að segja að ég hafi bara verið sannspár með þessari ritvillu minni. 🙂 Við vinnum Portsmouth og Lauren skorar sjálfsmark!

 16. Sælir félagar.
  Gleðjumst meðan við getum og vonandi getum við það lengi vetrar og jafnvel til vors. Látum þvagfærasýkingar manna ekki ergja ogkkar góða geð. En Brynjar, svona í leiðinni, þetta er því miður öfugt hjá .þér.

  YNWA

 17. Hehe, það er satt Einar. En ef við erum efstir eftir 10 umferðir þá er komin einhver alvara í þetta mál, þá fer ég að kasta vatni.

Lið vikunnar.

Þeir útvöldu.