Liverpool 6 – Derby County 0

Okkar menn unnu í dag **auðveldan 6-0 sigur á Derby County** á Anfield og skelltu sér þar með á topp Úrvalsdeildarinnar, að minnsta kosti þangað til á morgun. Í raun var hálfgerður Toulouse-bragur á þessum sigri, þ.e. að liðið náði að innbyrða öruggan stórsigur án þess að þurfa nokkurn tímann að smella sér í gír. Þetta var einfaldlega auðveldur sigur.

Rafa gerði flestar þær breytingar sem maður bjóst við fyrir leik og byrjunarliðið var svona:

Reina

Finnan – Agger – Hyypiä – Arbeloa

Pennant – Mascherano – Alonso – Babel

Kuyt – Torres

**Bekkur:** Itandje, Riise, Sissoko, Benayoun, Voronin.

Í síðari hálfleik tók Rafa svo Pennant út fyrir Benayoun á 61. mínútu, Babel út fyrir Voronin á 73. mínútu og á 77. mínútu kom Sissoko inn fyrir Mascherano.

Fyrri hálfleikur þessa leiks var satt best að segja ekkert sérstakur. Liðið var ekki að spila neitt sérstakan bolta og það var eins og menn ættu erfitt með að einbeita sér að því að stjórna boltanum og senda einföldustu bolta. Derby-liðið var hins vegar ekki mikið skárra og þrátt fyrir dapra spilamennsku framan af höfðu okkar menn stjórn á þessum leik allt frá fyrstu mínútu. Það var svo á 26. mínútu að fyrsta mark leiksins kom; Jermaine Pennant, sem var langbesti maður vallarins í fyrri hálfleik, vann aukaspyrnu inná miðjum vallarhelmingi Derby og **Xabi Alonso** tók hana, lyfti boltanum inná fjærstöngina þar sem Kuyt reyndi að skalla hann. Boltinn var hins vegar of hár fyrir Kuyt og hreinlega of erfiður fyrir markvörð Derby líka því hann endaði í fjærhorninu. Ég man ekki hvenær, en ég sver að ég hef séð Alonso skora svona mark áður, af sama stað á sama vallarhelmingi á Anfield. 🙂

Eftir markið jókst sókn Liverpool aðeins og sérstaklega var Pennant duglegur að búa til dauðafæri fyrir Kuyt (skalli og skot) og Torres (skalli) en þeim tókst ekki að nýta færin sín. Undir lok hálfleiksins kom svo annað markið; Agger átti frábæra stungusendingu upp vinstri kantinn á Arbeloa sem hafði hlaupið upp kantinn. Hann lék boltanum inná teiginn og lagði hann svo út á **Ryan Babel** sem þóttist ætla að skjóta en tók í staðinn snertingu, lét tvo varnarmenn Derby leggjast og setti hann svo upp í markhornið nær. Frábært mark hjá Babel sem hafði annars verið dapur í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var sem sagt 2-0.

Okkar menn hófu síðari hálfleikinn af krafti og eftir um 55 mínútur var staðan orðin 3-0. Einhver Derby-maðurinn var með boltann á miðjum eigin vallarhelmingi og hélt að hann hefði smá tíma til að vega og meta stöðuna og velja besta sendingarkostinn. Það þýðir hins vegar ekkert þegar þú ert með andstæðing eins og Javier Mascherano á sama grasvelli. Mascherano kom aftan að Derby-manninum, henti sér á boltann og tæklaði hann að **Fernando Torres** sem var kominn í stöðuna einn gegn tveimur til móts við vítateig Derby. Hann lék framhjá þeim vinstra megin og inná teiginn, nýtti sér hraða sinn til að komast undan þeim og lagði boltann svo í fjærhornið með vinstri. Óverjandi fyrir markvörð Derby og staðan orðin 3-0. Rétt eins og hjá Babel hafði Torres ekki átt góðan dag fram að markinu sínu en hann kláraði af krafti og fær plús í kladdann fyrir flott mark, þótt oft hafi hann leikið betur en í dag.

Á 69. mínútu kom svo fjórða markið; Liverpool-liðið lék upp hægra megin og boltinn barst á Yossi Benayoun inní teignum. Hann reyndi að skjóta en var tæklaður og boltinn barst út að vítateigslínunni þar sem **Xabi Alonso** kom aðvífandi og lagði boltann í markið. Annað mark hans í leiknum og staðan orðin 4-0 fyrir Liverpool og þegar hér var komið sögu var löngu orðið ljóst að eina spurningin var hversu mörg mörk okkar menn myndu skora í dag.

Fimmta markið kom á 76. mínútu; Torres fékk boltann úti við vítateigslínuna vinstra megin en missti boltann, vann hann svo aftur og sendi á Mascherano sem sendi boltann strax inní teiginn á Kuyt. Hann skaut föstu skoti sem markvörður Derby varði en hélt ekki og **Andriy Voronin**, nýkominn inná, fylgdi vel á eftir og skoraði sitt þriðja mark í vetur!

Á 78. mínútu skoraði **Fernando Torres** sitt annað mark í leiknum, þriðja í vetur og sjötta mark leiksins. Hann nýtti sér kæruleysi varnarmanna Derby og vann af þeim boltann við vítateigslínuna, lék honum framhjá markverði Derby og skaut í tómt netið. Sex-núll fyrir okkar menn!

Eftir sjötta markið róaðist leikurinn aðeins, það var eins og okkar menn hefðu fengið nóg … í bili. Það skal líka tekið fram að liðið hefði getað verið búið að skora fleiri þegar sjötta markið kom; til að mynda átti Kuyt að skora allavega eitt í hvorum hálfleik en hann nýtti ekki nógu vel, auk þess sem Alonso klúðraði algjöru dauðadauðafæri á markteig í upphafi síðari hálfleiks. En lokatölurnar voru 6-0 fyrir okkar menn og var sá sigur síst of stór!

**Maður leiksins:** Eins og ég sagði áðan fannst mér liðið í raun ekki spila neitt sérstaklega vel, en þeir spiluðu samt alls ekki illa. Getumunurinn á þessum liðum var bara slíkur að þetta var allan tímann möguleiki, að svona stór sigur ynnist. Í liði okkar manna las Pepe Reina nokkur Andrésblöð í markinu og vörnin gerði vel það litla sem þeir þurftu að gera. Pennant var frábær í fyrri hálfleik en fór snemma útaf á meðan Babel var slappur í fyrri hálfleik en skoraði gott mark og var ögn skárri eftir hlé. Torres og Kuyt voru ekkert sérstakir á það heila í þessum leik en Torres skoraði þó tvö sem er mjög gott. Benayoun, Voronin og Sissoko áttu fínar innkomur og þá sérstaklega Voronin sem skoraði enn og aftur í dag. Á miðjunni voru að mínu mati okkar bestu menn í dag; Mascherano er svo góður að það hálfa væri nóg og hann sýndi enn og aftur í dag hvers vegna hann á eftir að vera lykilmaður í þessu liði í vetur.

Ég ætla hins vegar að velja **XABI ALONSO** mann leiksins í dag. Hann stjórnaði spili liðsins eins og kóngur frá miðsvæðinu og það er ekki á hverjum degi sem spænski sendingarmeistarinn skorar tvö mörk í einum leik. Hann gerði það þó í dag, kom liðinu á bragðið og skoraði svo gott mark í síðari hálfleik sem kórónaði góðan leik.

Nú tekur við tveggja vikna landsleikjahlé áður en liðið spilar á útivelli gegn Portsmouth, en við getum þó huggað okkur við að okkar menn eru á toppi Úrvalsdeildarinnar, að minnsta kosti þangað til á morgun og jafnvel þótt úrslit verði okkur óhagstæð þá verðum við örugglega í einu af þremur efstu sætunum yfir landsleikjahléið. Það, gott fólk, kallast góð byrjun á deild. 😉

45 Comments

 1. Ahhhhh…
  Tólf mörk á einni viku og hanskarnir hans Pepe eru farnir að ryðga

 2. Frábært! Frábær sigur! Greinilegt að ég þarf að vera í vinnunni oftar… hmmm? 🙂

  Það segir sitt að geta unnið leiki án þess að vera í einhverjum svakalegum gír, vér erum kátir!

  Áfram Liverpool!

 3. “… that’s how the cookie crumbles!”

  Þetta var æðislegur leikur. Ekkert meira um hann að segja.

  Benayoun er samt klárlega eyðnismitaður.

 4. Og ég sem hélt ég væri varkár með 3-1 spá. Rosalegur munur á þessu Liverpool liði í ár og í fyrra. Frábært upphaf á leiktíðinni.

 5. Verð að segja að Mascherano sé maður leiksins, hann átti varla feilsendingu allann leikinn. Fannst leikur okkar gjörbreytast þegar hann fór útaf fyrir Sissoko.

 6. Þegar Steven Gerrard skoraði sigurmarkið gegn Aston Villa í 1. umferð þá stukku margir efasemdarmenn Liverpool til og sögðu að það hefði lítið breyst hjá liðinu, Gerrard væri sá eini sem gæti klárað leiki fyrir liðið og væri ómissandi. Núna hefur Liverpool skorað 10 mörk í tveimur leikjum án Gerrard og Carra. Það segir nú töluvert til um breiddina í hópnum.

  Ég ætla ekki að leyfa mér að vera of bjartsýnn en það bendir allt til þess að Liverpool verði með í toppbaráttunni í vetur og hvernig sem sú barátta fer þá er allavega gaman að taka þátt í henni, mjög gaman 🙂

 7. Jæja kæru félagar allir sem einn, ég er staddur í Singapore og brá mér á pubbinn hérna rétt hjá hótelinu og viti menn BARA LIVERPOOL menn og konur. 1. 2. og 3. markið… VAAAAÁÁ …. ég hef bara ekki séð eins mikil fagnaðarlæti, held bara á allri minni 37 ára ævi hehheh. Frábær afgreiðsla hjá okkar mönnum og það er ekkert sem bendir til þess að við séum neitt meðallið þetta árið ó nei ó nei :c)

  Minn dómur:
  Peppe á bara skilið að fá sér einn kaldann (Carlsberg) á meðan… eða þannig sko
  Alonso… þarf eitthvað að segja um hann annað en að hann er SNILLINGUR
  (Kristján Atli) sammála þér ég hef séð sama markið, man ekki í hvaða leik en nákvæmlega eins
  Mascherano… þetta er maðurinn ekki spurning, sáuð þið taktinn hjá honum
  Voronin… ef hann heldur áfram eins og staðan er núna þá þurfum við ekki að örvænta
  Ryan Babel… gott mark, vonandi á hann eftir að setja nokkra góða í viðbót
  … ég held að ég þurfi ekki að segja meira eða…

  AVANTI LIVERPOOL

 8. mér fanst þettað góður leikur hjá LIV ,voru frábærir mér fannst allt liðið fRÁBÆRT hyypia ?ekki amarlegt að eiga svona mann ,alltaf tilbúinn stór leikur hjá LIV á móti liði sem er að berjast upp á við , ekkert lið í úrvalsdeildini er lélegt svo ?????frábært, VORONIN minn maður ekki lengi að setjann

 9. Svo má til gamans geta þess að markatala Liverpool úr þessum fyrstu fjórum leikjum er 11-2 og komu mörkin tvö sem liðið hefur fengið á sig úr tveimur vítaspyrnum, önnur eftir óþarfa “handavinnu” Carragher og hin hreina ímyndarveiki dómarans. Þannig að vörnin er vinna fyrir kaupinu sínu 🙂

 10. Frábær leikur! 🙂

  Nota bene, þetta er víst í fyrsta skipti í FIMM ÁR sem að Liverpool eru á topp úrvalsdeildarinnar. Það er magnað. Og nota bene ef eitthvað lið kemst upp fyrir okkur á morgunk, þá verður það lið búið að spila leik meira en við.

  Við erum með NÍU mörk í plús. Liðið með næstbesta markamuninn er með þrjú mörk í plús. Ég veit að það er líitð búið, en mikið afskaplega er þetta mikið skemmtilegra en að vera búnir að tapa deildinni eftir fyrstu leikina.

 11. Þið ættuð bara að sjá borgina okkar í dag! Menn ennþá að fagna 800 ára afmæli borgarinnar sem var á þriðjudaginn og eftir leikinn í dag var stemningin í dag hreinlega ólýsanleg. Það er á svona stundum sem maður veltir fyrir sér hvers vegna í ósköpunum maður hafi einvhern tímann búin einhverstaðar annars staðar. Yndislegt! Ég get því miður ekki tekið þátt í fagnaðarlátunum af fullum krafti þar sem við tekur sunnudagur fullur af lestri og skólatengdum leiðindum og það hefur aldrei verið mín sterkasta hlið að læra timbraður 🙂 En eitt sem er að plaga mig:

  “Mascherano er svo góður að það hálfa væri nóg og hann sýndi enn og aftur í dag hvers vegna hann á eftir að vera lykilmaður í þessu liði í vetur.”

  Nú er ég búinn að sjá hann í tveimur leikjum í röð á Anfield og maðurinn er hreinlega alveg fáránlega góður! Ég er fullkomlega sammála þér Kristján Atli að Mascherano eigi að vera lykilmaður í Liverpool liðinu en hvernig í ósköpunum eigum við að ná að halda honum í vor án þess að hann sé í byrjunarliðinu í flestum leikjum? Þessi maður má bara ekki fara! Flestir scouserarnir sem ég talaði við í dag virtust vera á þeirri skoðun að ef Alonso verður að fara á bekkinn til að fá pláss fyrir Mascherano þá verður bara að hafa það! Ég vil ekki einu sinni hugsa um að Alonso verði einhver b-maður, enda einn af mínum uppáhaldsmönnum, en mér finnst það nokkuð ljóst að Mascherano á eftir að fara annað nema hann verði nokkuð fastur byrjunarliðsmaður. Hvað gerum við? Ég vil engan af þeim missa. Setjum við Gerrard aftur á kantinn? Ég bara spyr eins og fávís kona. En þessi Mascherano maður, that’s a keeper!

 12. Maður leiksins í Guardian: Jermaine Pennant:

  Man of the match: Jermaine Pennant

  Difficult this. There is an argument for Torres, Babel and Alonso. Yet the winger edges it for a 61-minute display that might make Steve McClaren wonder why he did not select him for the upcoming Euro 2008 qualifiers. Pennant was quick, effective and brimming with confidence. Is it too late, Steve?

 13. Frábær leikur! Gaman að sjá okkar menn loksins klára þessi minni lið með stæl. Sammála mönnum um Mascherano, því lík maskína á miðjunni, frábær leikmaður! Maður leiksins að mínum dómi.

  Ps. Don Roberto, hafið það gott þarna úti, vonandi heyrumst við fljótlega 🙂

 14. McClaren biður til guðs um að einhver vængmaður landsliðsins meiðist svo að hann geta valið Pennant í staðin:)

  Annars er maður bara hress:)

 15. Fyrirgefið mér þó að ég fjalli ekki mikið um leikinn í dag en ég er á leið til Liverpool þann 7. okt og er að reyna að fá miða á Liverpool – Tottenham en gengur illa:-( því datt mér í hug að spyrja Liverpoolbúann (og alla þá sem lesa þetta) hvort að hann (þeir(skemmtilegir þessir svigar)) geti(ð) leiðbeint mér um hvert sé best að snúa sér. Meilið er stjanigu@mi.is
  En þá að leiknum, þetta er akurat dæmi um leik sem verður að vinnast og sýnir bara að Rafa virðist vera á réttri leið með liðið hvað við kláruðum leikinn af miklu öryggi, hérna áður fyrr að þá kom það fyrir að við áttum heilu og hálfu leikina og hátt í 20 skot á markið en náðum ekki að nýta yfirburðina til að setja hann inn, þeir tímar eru vonandi liðnir og markaregntímabilið komið með tilheyrandi þurrki í vörninni.

 16. Frábær sigur í dag og gaman að sjá svona mörg mörk 🙂
  En aðeins að öðru, þar sem ég var að fletta í gegnum tölfræðina í ensku og þar á meðal að skoða þessa actim index fyrir leikmennina. Þar er Andreij Voronin efstur Liverpool leikmanna í 40 sæti en Chelsea eiga aftur á móti 5 leikmenn í sætum 1-25. Veit ekki hvernig þetta reiknast en finnst að minnsta kosti ekki vera mikið samræmi í þessari stigagjöf.
  En skítt með það 6-0 Snilld!!!

 17. Ég veit að Derby er ekki besta lið í heimi en svakalega virkar liðið okkar sannfærandi í byrjun tímabils. Vonandi getur maður verið jafn kokhraustur í lok tímabils og núna. Við erum komin með massívasta hópinn í deildinni og ég hef trú á því að Rafa sé rétti maðurinn fyrir þennan hóp til að berjast um efsta sætið. Liverpool verður amk í topp 2 í lok tímabilsins. Ef við lendum neðar = bara óheppni. Í raun hefði Rafa getað keypt fleirri leikmenn í sumar en hann veit hvað hann syngur og mér sýnist hann vera hitta á frábæra blöndu í leikmannahópnum. Gæði og magn spila vel saman, þar sem undanfarin ár hefur magnið því miður verið meira áberandi vegna skorts á fjármunum. Okkar tími er kominn 😀

 18. Eg var ad lesa ad Plymouth hefdu reynt ad signa benayun adur en leikmannaglugginn lokadi. Teir litu a hann sem squad player. Kannski var tad samt annar benayun. Rulluf

 19. Já manni sýnist Rafa einmitt hafa hitt á rétta blöndu leikmanna. Mér finnst Torres og jafnvel Arbeloa vera að koma með nýjar víddir og vinnusemi í sóknarleik Liverpool.
  Maður hreinlega sér strax hvað Riise t.d er einhæfur þegar Arbeloa skeiðar í 2.markinu upp vinstri kantinn – tekur við stunguboltanum af yfirvegun, setur boltann yfir á hægri löppina og sendir útá Babel.
  Nú er bara að Rafa takist líka að halda öllum leikmönnum hungruðum með sinni squad rotation heimspeki. Um að gera dreifa álaginu sem mest á meðan við getum til að minnka líkur á að við missum menn í meiðsli.

  Maður bara vonar að við munum ekki toppa of snemma enda er enska deildin langhlaup en ekki sprettur. Mig sýnist á öllu að rifrildi Rafa og Pako Ayesteran sé tilkomið vegna þess að Rafa flýtti æfingaáætlun liðsins í sumar svo liðið myndi örugglega vera í toppformi líkamlega í fyrstu leikjunum.
  Liverpool er augljóslega að spila langbesta boltann á Englandi núna og við verðum að nýta þetta og ná upp góðu 5-10 stiga forskoti áður en jólatörnin skellur á.

  Svona 6-0 rútínusigur gegn Derby er frábær frétt vegna þess að sóknarspilið er hætt að vera jafn tilviljunarkennt og það var. Núna geta Liverpool spilað á hálfum hraða en samt skorað hrúgu af mörkum vegna þess hversu aggresívir sóknarmenn Liverpool eru og hreyfa sig kerfisbundið og hratt milli svæða.
  Í 6 markinu t.d. vinnur Voronin boltann eftir klafs á miðjunni og veit hvernig Torres hreyfir sig direct inní teig. = Án þess að hika lyftir hann boltanum yfir vörnina þar sem Torres nær að nota hraðann og pressa varnarmann til að gera mistök.
  Svona góður leikskilningur milli miðju og sóknar og fljót hugsun mun fleyta Liverpool langt í vetur og er martröð hvers varnarmanns.

  Síðan má ekki gleyma því að við erum að spila svona án Gerrard og Carragher, ásamt því að Kuyt klúðrar 3-4 dauðfærum í öðrum hverjum leik þessa dagana! 😉
  Það er sko enn….. “Room for Improvement”.
  Hvernig svaka fótbolta spilar þetta Liverpool lið þá eiginlega þegar allir verða á fullu gasi og liðið jafn ofur skipulagt og það er nú?!
  Munum við gjörsamlega niðurlægja Man Utd 5-0 á Anfield, svipað eins og Newcastle gerði hér um árið þegar Keegan stjórnaði þeim?

  Ef Mascherano spilar eins og engill, Carragher étur sóknarmenn lifandi, Torres heldur öllum varnarmönnum hræddum, bakverðir Liverpool þindarlausir upp og niður kantana, Babel köttandi stórhættulegur inná miðjuna og Gerrard verður útum allt eru slík draumaúrslit möguleg.

  Maður getur látið sig dreyma miðað við hvernig Liverpool spilar þessa dagana og möguleikanna sem býr í þessu frábæra liði. 🙂

 20. Robert Eolex augljóslega orðinn þreyttur á því a kommenta á gras.is……..

  En frábær sigur í dag, æðislegt að nýju mennirnir séu strax farnir að stimpla sig inn. Þó að það hafi alltaf verið forréttindi að hafa nóg vit í kollinnum til þess að styðja Liverpool þá hefur það stundun reynt á þolrifin en þessi misserin þá er svo sannarlega gaman að vera rauður.

  ynwa

 21. Vá. Það var eitthvað sem sagði mér að kíkja inná þessa síðu rétt áður en ég færi að sofa. Það var eins gott … þessi síða er á sínu fjórða ári og ég hef ALDREI þurft að eyða út þremur ummælum í einu, frá fleiri en einum aðila.

  Haldið þessu málefnalegu. Mér er sama hvað þið segið um knattspyrnugetu leikmanna en skítkast, úthrópanir og dylgjur um leikmenn sem þjóna þeim eina tilgangi að reyna að sverta persónu þeirra verða ekki undir neinum kringumstæðum liðið!

 22. ég verð að segja það að LIV vinnur tvöfallt eða þrefallt núna á þessari leiktíð og m u verður í 5-6 sæti og dettur fljótt úr meistaradeildinni sorry m u menn

 23. Klassa sigur okkar manna og það er ljóst að við ætlum okkur MIKIÐ á þessu tímabili. Virkilega gaman að sjá hvernig liðið spilar og boltinn flýtur manna á milli. Gefum Bjarna Fel. orðið: “Bang, bang, bang og mark! Svona einfalt er þetta fyrir Liverpool.”

 24. Vona bara að menn eru að taka eftir mikilvægi Hyypia undanfarið. Það var talað um að hann væri á leiðinni út fyrir skömmu en hann hefur virkilega staðið vaktina. Finnst hann meira að segja ferskari en í fyrra.

  Það er gaman að sjá liðið sitt spila á fullu sjálfsöryggi og klára dæmið í stað þess að vera alltaf að elta leikinn fram í rauðan dauðan. Lenti í sömu samræðum í gær og Arnór virðist vera að brydda uppá (27) og það er vonandi að Benitez haldi dampinum á liðinu út tímabilið.

  En ég fullyrði að ég hef ekki séð jafn öflugt Liverpool-lið síðan 1990.

 25. Alveg sammála Daða varðandi Hyypia. Þegar Agger kom og komst strax í takt við leik liðsins og sýndi hversu góður hann er þá fannst mér að sumir væru tilbúnir að henda Hyypia á haugana. Ég held að við værum nú ekki eins vel staddir í dag ef Hyypia hefði verið seldur í sumar.

  Menn mega ekki gleyma því að þegar Hyypia kom til Liverpool árið 1999 hafði liðið ekki átt framúrskarandi miðvörð frá því að Alan Hansen lagði skóna á hilluna (Mark Wright var t.d. ekki framúrskarandi miðvörður) og það sem við áttum að venjast voru varnartaktar Scales, Babb, Ruddock, Kvarme og fleiri fúskara sem menn hlógu að.

  Vissulega hefur Hyypia elst síðan 1999 og er kannski ekki eins góður og hann var þá en það er ekkert annað lið í deildinni með betri þriðja miðvörð og persónulega finnst mér hann yfirleitt alltaf standa fyrir sínu. Gleymum því ekki heldur að hann tók við fyrirliðabandinu fljótlega eftir komu sína og var seinna sviptur því sem er nú alltaf umdeilt. En alltaf hélt Hyypia áfram að vinna vinnuna sína og er hann greinilega atvinnumaður fram í fingurgóma.

  Kannski er þetta síðasta leiktíð hans og kannski eru þetta ótímabærar yfirlýsingar en þegar Hyypia hættir þá verður hans minnst sem eins allra, allra besta miðvarðar í sögu klúbbsins. Amen 🙂

 26. Já mjög jákvætt og góð tilbreyting frá því að vera í vandræðum með litlu liðin.
  Við skulum samt ekki gleyma okkur í einhverjum titil draumum, þetta Derby lið fer beinustu leið niður í fyrstu deild næsta vor og því var þetta varla marktækt.
  En auðvitað er þessi byrjun á tímabilinu mjög góð og loksins erum við að ræsa rétt.
  Eigum áframhaldandi “létt” prógram svo það er um að gera að halda áfram að hala inn stigum : )
  Svo er bara að vona að Aston Villa geri rúblubændum erfitt fyrir í dag : )

 27. (Gummi Halldórs) Vissulega er Hyypia mjög góður og frábært að hafa hann svona sprækann og til taks, en fyrir mér eru Chelsea með meiri breidd í miðvörðum. Þar sem þeir keyptu (fengu) til sín 2 frábæra miðverði svo að þeir megi við meiðslum í þeirri stöðu svo að liðið þetti ekki í sama pakka og í fyrra.

  En annars er ég bara sáttur við síðu 344 á taextavarpinu, horfði á hana í allt gærkvöæd þar sem hún var betri en dagskráin á öllum sjónvarpsstöðunum….!!!!!

 28. (Bjartmar) Ég skoðaði hópinn á Chelsea og eftir þann lestur þá er ég alveg tilbúinn að fallast á það hjá þér að Chelsea er með meiri breidd í miðvarðarstöðunni enda með Carvahlo, Terry, Ben Haim og Alex. Sá síðastnefndi á reyndar eftir að sanna sig á enskri grundu en mín tilfinning er sú að hann eigi eftir að standa sig vel. Essien og Ferreira geta líka spilað þessa stöðu…illa!

  En ég er frekar til í að hafa Hyypia á bekknum frekar en annan hvorn þeirra Ben Haim og Alex. Það sem Liverpool vantar, og ætlaði á að fá með Heinze, er fjórði valkosturinn í þessa stöðu og það hefði þurft að leysa þann vanda fyrir 1.september.

  En hvað meinarðu með sjónvarpsdagskránna? Varstu ekki límdur við skjáinn þegar danskeppninn á Rúv stóð sem hæst?! 🙂

 29. Hvernig finnst ykkur það að Fernando Torres sé búin að skora jafnmörg mörk og allt Man Utd liðið á leiktíðinni í einum leik minna hehehehe…

 30. Og efsta sætið ætlar að verða okkar aðeins lengur þar sem Chel$ki tapaði 2-0 fyrir Villa rétt í þessu 🙂

 31. (Gummi Halldórs) jú ég kikti bara á textavarpið þegar það var auglýsingahlé

 32. Sælir bræður, hef líka verið að heyra fregnir af þessu með kaup Plymouth á Benayoun, er þetta okkur maður eða einhver annar Benayoun?

  Væri ekki vitlaust að losa sig við hann meðan hann er einhvers virði !!

 33. Æ, erum við að lenda í því að fá alls konar fugla hérna inn. Þurfum við að fara að vakta betur ummælakerfið svo þessi góði standard haldist hérna.

One Ping

 1. Pingback:

Liðið gegn Derby komið:

Nýr haus fyrir veturinn