Argentínskir varnarmenn

Það er best að skrifa eitthvað á mánudagsmorgni. Ég bara verð að ná ógeðisbragði gærdagsins úr munninum, og besta leiðin til þess er að þurfa ekki að horfa á fyrirsögn leikskýrslunnar frá því í gær efst á þessari síðu.

Ég á það til að verða alveg svakalega heitur fyrir framan skjáinn þegar ég horfi á leiki (svo ég tali nú ekki um þegar ég er á vellinum) en ég man ekki eftir að hafa verið jafn heitur og pirraður í leikslok og ég var í gær. Ég heyrði í föður mínum símleiðis til Danmerkur strax eftir að lokaflautan gall og ég nánast öskraði á hann af pirringi af því að hann sagði að þetta “[gæti] nú varla verið svo slæmt” um vítaspyrnudóminn sem hann hafði ekki séð og ég var að reyna að lýsa fyrir honum. Í kjölfarið settist ég aðeins niður og gerði það sem ég geri venjulega þegar ég æsi mig yfir knattspyrnuleik, spyr sjálfan mig hvort ég muni muna eftir þessum dómi Styles þegar ég ligg á dánarbeðinu (vonandi) eftir einhverja áratugi. Í kjölfarið róaðist ég aðeins.

Ég er hins vegar ennþá fúll, og því koma hér tilgangslausar uppfærslur á málum tveggja argentínskra varnarmanna:

Gabriel Paletta hefur verið lánaður til Boca Juniors í heimalandi sínu, Argentínu. Það hefur ekki enn verið sagt frá þessu á neinum áreiðanlegum miðlum – ekki svo að ég hafi tekið eftir, allavega – en hann mætti til Buenos Aires á laugardaginn og mun eyða vetrinum hjá þessu dáðasta félagsliði Argentínu.

Paletta er enn aðeins 21s árs gamall og eftir því sem ég best veit vill Rafa helst ekki selja hann, telur hann ennþá bjarta von til framtíðar, þannig að ef það hefur ekki breyst verðum við bara að vona að hann fái dýrmæta reynslu hjá Boca og snúi aftur næsta sumar betur tilbúinn í ensku knattspyrnuna. Það sem við höfum séð til hans í treyju Liverpool hefur verið æði misjafnt; hér er greinilega á ferðinni stór og sterkur strákur sem er fljótur, góður tæklari og fínn skallamaður en um leið hefur dómgreind hans og leikskilningur virst vera nokkrum klössum fyrir neðan það sem til þarf til að menn geti orðið fastir liðir hjá klúbbi eins og Liverpool. Vonandi kemur það með aldrinum, það geta ekki allir þroskast jafn hratt í þessum efnum og Daniel Agger.

Nú, á næstu dögum gæti svo farið að skarð Paletta verði fyllt af reyndari og frægari argentínskum varnarmanni; Gabriel Heinze. Sérstök nefnd Úrvalsdeildarinnar mun taka málefni hans og United/Liverpool fyrir í dag og á morgun og við ættum að geta fengið niðurstöðu í málið áður en þessi vika er úti. Ef þeir dæma Heinze í hag yrðu United væntanlega skikkaðir til að leyfa honum að fara til Liverpool, og ef það gerist gæti Gabriel Heinze verið í leikmannahópi okkar á næsta laugardag gegn Sunderland. Spáið í því. Dæmi þeir hins vegar United í óhag held ég að það sé úti um komu hans til Liverpool og þá gæti orðið fróðlegt að sjá hvort Rafa reynir við einhvern annan vinstrisinnaðan varnarmann á síðustu dögum leikmannagluggans.

Sem sagt, Paletta farinn (í bili) og Heinze annað hvort alveg að koma eða alls ekki. Það er allt og sumt í dag. Mig langaði til að skrifa pistil um þarfar og löngu tímabærar breytingar á uppsetningu dómkerfisins í knattspyrnuleikjum (þetta er jú 21. öldin og tæknin er til staðar) en ég er enn of fúll út í Rob Styles til að geta komið slíkum pistli frá mér á málefnalegan hátt, þannig að hann verður að bíða betri tíma.

Hey, nú man ég: Fernando Torres skoraði flott mark í gær. Var það ekki? Eigum við að sammælast um að einbeita okkur frekar að því hversu góður Torres er heldur en hversu glataður Styles er? 🙂

17 Comments

  1. Það verðum við að gera, sjá það jákvæða því það neikvæða dregur úr manni allan mátt. Ég er reyndar ýmsu vanur, búinn að fylgja Liverpool síðan kringum 1975. Oft hefur maður rifið hárið af sér og stundum næstum því höfuðið. En reynslan kennir manni að það er bara ein leið: að halda ró sinni – ef maður ætlar að lifa áfram. Núna erum við með hörkulið, miklu betra en í fyrra. Að minnsta kosti eru möguleikarnir meiri og breiddin. Liðið byrjar tímabilið vel og þó við höfum misst 2 stig í gær gegn Chelsea þá er samt bjart framundan. Chelsea voru hundheppnir. Gaman að því.

  2. Var að lesa á Soccernet að búið sé að taka Styles fyrir hjá dómarasambandinu og það er búið að taka hann af skrá í næstu umferð….og vonandi það sem eftir er leiktíðar.

    Okkur vantar vinstri bakk…..Arbeloa á að vera bakköpp (og fljótlega byrjunarmaður) fyrir Finnan en ekki vinstra megin.

  3. Ég er nú ennþá á því að fótbolti eigi að vera spilaður eftir sömu reglum á t.d. Selfossvelli, í Varmá, KR velli og er gert á Anfield.

    Þrátt fyrir að það sé kominn 21.öldin þá vil ég ekki sjá myndavélar í dómgæslu enda slíkt ekki nærri því mögulegt nema í stærstu deildunum.
    (kannski of fljótur á mér með þetta komment? 😉

    En þetta er rétt hugsun K.A. horfum á jákvæðu punktana, Torres skoraði ekki bara mark….heldur var þetta mjög vel gert og flott mark hjá honum.

    p.s. ég veit ekki alveg hvort löngun mín í að fá Heinze til Liverpool stafi af því að hann er góður bakvörður eða bara til að bögga United, held að það síðara ráði meiru þarna um 😉

  4. eigum við ekki að segja að Torres sé jafn góður og Styles er lélegur? 😉

  5. Eitt enn

    Júlli, hann er líklega back up í vinstri bak, ertu ekki að gleyma Aurelio?

    Reyndar er Arbeloa líklega bara að spila sig inn í byrjunarliðið

  6. Þó svo að vítaspyrnudómurinn hafi verið ömurlegur er um að gera að halda sér við jákvæðu hlutina, eins og þetta gulla af marki sem Torres skoraði. Alltaf gott þegar svona umtalaðir verðmiðar ná að brjóta ísinn snemma hann virðist nágætlega saman við liðið, þetta getur þá bara batnað. Annars finnst mér annað mjög jákvætt við þetta og það er að Chelsea menn skammast sín almennt fyrir spilamennskuna og gjafavítaspyrnuna, sem þýðir að við vonandi nálgumst liðin fyrir ofan. Mönnum finnst almennt að Chelsea hafi ekki á átt skilið að ná jafntefli sem verður að teljast jákvætt. Fyrir utan auðvitað Móra sem fannst Styles bara eiga góðan leik.

  7. ár eftir ár erum við að sjá svona mistök sem reynast dýrkeyp og sitt sýnist hverjum um hvort þetta sé bara hluti af leiknum. Ég er mjög á því persónulega að það mætti skoða þessi mál betur. Þau rök sem ég hef heyrt gegn því eru tvö, að þetta sé s.s hluti að leiknum og að það myndi skemma/tefja leikinn að reyna að lagfæra þetta. Því er ég ekki sammála:

    • 3 eða 4 dómari gæti setið við sjónvarpsskjá og talað beint við dómarann eða hann gæti bara athugað þetta ef dómari óskaði þess bæði ef einhverjar athugasemdir yrðu gerðar.
    • Hvort lið mætti véfengja eitt atriði í leik ef þjálfari óskaði þess. Annars yrði það ekki skoðað nánar.
  8. Það er mjög göfug hugsjón að leikurinn eigi að vera eins, hvort sem þú ert að spila á Akureyrarvelli eða Anfield. Það er þó samt þannig í dag að það er munur. Yfirleitt/oft eru engir aðstoðardómarar í utandeild eða yngstu flokkum. Þetta er sami leikurinn hvort sem það er 1 eða 3 dómarar.
    Það er alltaf verið að reyna að hamra á að peningar eigi ekki að stjórna boltanum, og því eigi leikurinn að vera eins hjá 4. flokk á Raufarhöfn, og í CL. Munurinn er hins vegar sá að ein mistök dómara í CL og PL geta munað milljörðum króna fyrir félag. Segi og skrifa milljarðar. Ef tæknin er fyrir hendi, og leikurinn sjálfur breytist ekki, afhverju ekki að nota hana?
    Örflaga í blota sem segir til um hvort bolti hafi farið yfir marklínu og það sem Kiddi Geir nefnir í færslu nr.9, breyta leiknum ekki. Ef þetta er gert svona þá breytist flæðið í leiknum ekki neitt umfram það sem það gerir í dag, því að í flestum svona krusíal dómum, þá hópast hvort eð er leikmenn að dómara og leikurinn stoppar í x mínútur.

  9. Rafa Benitez er með eitthvað fetish fyrir vinstri bakvörðum og djúpum miðjumönnum, næ honum ekki. Búinn að fá 2 vinstri bakverði til liðsins (Arbeloa spilar báðar bakvarðastöður) og einhverja 2-3 unga vinstri bakverði.

    Það væri nær að finna einhvern hægri bakvörð, þar sem að Finnan, eins góður og hann er, er nú orðinn 31 árs.

  10. Ef það á að skoða svona atvik á myndbandi þá vakna mun fleiri spurningar heldur en núna. Hver á að ákveða hvort það er brotið á leikmanni. Sumum finnst eitt brot meðan öðrum finnst það ekki.

    Ef það á að vera 5 dómari fyrir framan myndavél þá er það hann sem tekur völdin af dómaranum og gefur rautt spjald. Aðal-dómarinn veit líka miklu betur hvað er búið að gerast á vellinum og er t.d. búinn að veita einhverjum tiltal um að spjalda hann næst. Þá er einhver kall upp í stúku sem segir: Nei þetta var ekki gult.

    Hver ræður þá?

    Eins og ég sagði þá vakna mun fleiri spurningar ef það á að skemma leikinn með vídjóupptökum og passíonið í leiknum minnkar.

  11. Það er rétt að það vakna spurningar við að fara út í myndbandstæknina. Held hins vegar að það sé svar við þeim flestum amk.
    Í dag er það þannig að Aðal-dómarinn reiðir sig á aðstoðardómara. Alveg eins ætti hann að geta reitt sig á fjórða eða fimmta dómara. Fordæmið er t.d. Zidane atvikið, þar sem fjórði dómari sá atvikið að mig minnir. Dómarar og aðstoðardómarar eru í dag í talstöðvasambandi, og svo getur líka verið fyrir dómara fyrir framan mónitor.
    Ég er alveg sammála því að þetta hræðir mig töluvert. Málið er bara að í dag (amk á stóleikjum) er orðið svo mikið af myndavélum sem sjá allt sem gerist á vellinum. Þ.a.l. sjást mistök dómara mun betur eftir leiki, og því snýst oft umfjöllun um leiki meira um þá ef þeir gera mistök. Það var ekki svoleiðis áður, þegar atvik náðust oft ekki á mynd. Þá líka voru rökræður um mistök dómara á milli manna sem voru á leiknum, og ekki hægt að segja eins vel til um hvort þetta voru mistök eða ekki. Það er skemmtilegt spjall, því hvorugur getur “sannað” sitt mál.
    Það sem er verst/leiðinlegt við fótbolta á high level í dag (finnst mér amk), er svekkelsi yfir dómum sem eru augljóslega rangir. Ef þú pælir í þessu atviki sem pirrar okkur alla í dag. Ef þetta hefði náðst illa á mynd, og við gætum ekki sagt með 100% vissu að þetta hefði ekki verið víti….. Væri þá skemmtilegra að ræða þetta atvik í dag? (Reynið að hugsa þetta frá hinni hliðinni líka, þ.e. Liverpool hefði fengið víti og bjargað sér í jafntefli).

    Kannski er ég bara svona skrýtinn 🙂

  12. Það er fínt að ræða þetta með vídeóið…var það ekki það sem var gert með skallann hans Zidane. En… þarf ekki að fara að skoða tímann sem fer í skiptingar. Seinni hálfleikur í fótbolta í dag verður hálfgötóttur útaf öllum þessum skiptingum og því sem fylgir því að menn tölta hægt og rólega útaf vellinum. Menn geta alveg hreint eyðilagt góða skemmtun eins og fótbolta með skiptingum.
    Þá væri t.d. 4. dómarinn sem myndi gefa gó á skiptingar af hliðarlínunni án þess að stöðva yrði leikinn.

  13. Veit eitthver hvort það fáist endanleg niðurstaða með Heinze í dag, eða hvort að þetta komi til með að dragast á langin með endalausum áfrýunum?

Liverpool 1 – Chelsea 1

Frábær tilfinning