Liverpool 1 – Chelsea 1

Það er auðvelt að segja að fótbolta-unnendur kenni dómurum alltaf um ófarir síns liðs. Ég tel hins vegar að í gegnum árin höfum við á Liverpool blogginu sannað það að við erum miklu líklegri til að kenna okkar leikmönnum um ófarir liðsins fremur en dómurum.

Í raun eru þau örfá skiptin þar sem við höfum kennt dómurum um ófarir Liverpool liðsins, sem hafa þó verið talsverðar síðustu 3 árin.

Í dag hins vegar ætla ég að gera á þessu undantekningu því að ástæða þess að Liverpool vann ekki Chelsea í dag er einfaldlega sú að Rob Styles GAF Chelsea mönnum jöfnunarmarkið með einhverri allra fáránlegustu ákvörðun sem ég hef séð.

Rafa stillti þessu svona upp.

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Arbeloa

Pennant – Gerrard – Alonso – Riise

Torres – Kuyt

Á meðan að Mourinho stillti svona upp.

Cech

Essien – Ben Haim – Terry – A.Cole

Wright-Phillips – Lampard – Obi Mikel – Malouda

Kalou – Drogba
Rob Styles

Mörk: Liverpool: Torres. Chelsea: Styles.

Liverpool menn voru betra liðið nánast allan tímann. Fyrstu fimm mínúturnar var þetta í jafnvægi, en smám byrjaði Liverpool að pressa vel á Chelsea. Á 16.mínútu vann Dirk Kuyt boltann af Chelsea mönnum. Hann barst á Steven Gerrard, sem gaf frábæra sendingu inná **Fernando Torres**, sem að niðurlægði Tal Ben-Haim og skoraði svo framhjá Petr Cech. Frábært mark og Fernando Torres kominn á blað fyrir Liverpool.

Liverpool héldu áfram að pressa vel, án þess að skapa sér nein brjáluð færi. Hins vegar á svona 10 mínútna kafla í lok fyrri hálfleiks þá voru Chelsea sterkara liðið og voru þeir nálægt því að skora eftir aukaspyrnu. Í hálfleik var staðan 1-0 fyrir Liverpool.

Jose Mourinho tók sína dæmigerðu hálfleiks-skiptingu og tók Salomon Kalou (sem hafði ekki getað rassgat) útaf fyrir Claudio Pizzarro.

Þetta virtist breyta einhverja því að Chelsea byrjaði ágætlega í seinni hálfleik og fengu færi. En smám saman komust Liverpool menn inní leikinn og tóku yfirhöndina. Gerrard átti einhver skot á markið og Liverpool var mun meira með boltann.

Þangað til að á 60. mínútu þegar að **ROB STYLES** eyðilagði leikinn. Chelsea fékk boltann í skyndisókn og Wright-Phillips gaf inná teiginn. Þar var Florent Malouda, sem að hoppaði upp og á Steve Finnan (sem virtist m.a.s. vera að reyna að fara frá honum) og lét sig svo detta niður. Af einhverjum ástæðum, sem ég mun ALDREI NOKKURN TÍMANN Á ÆVINNI skilja þá dæmdi Rob Styles vítaspyrnu. Algjörlega og fullkomlega óskiljanlegur dómur. Styles var um fimm metra frá Malouda og því með hreinum ólíkindum hvernig hann gat fengið það út að þetta væri víti.

En Styles var ákveðinn og Frank fokking Lampard skoraði úr vítinu.

Chelsea liðið hafði þó sennilega unnið sér inn fyrir þessum vítaspyrnudómi með sínum típíska nöldri. Þeir voru gjarnir á að hópast í kringum dómarann og setja pressu á hann margoft í leiknum. Það magnaða var svo að eftir að dómarinn hafði GEFIÐ ÞEIM MARK þá héldu þeir því áfram. Alvöru dómarar gefa ekki eftir undan slíkri pressu, en Rob Styles gerði það.

Rafa gerði einhverjar breytingar eftir markið. Jermaine Pennnat var tekinn útaf fyrir Ryan Babel (Pennant hafði að mínu mati verið góður) og svo var Crouchy settur inná fyrir Riise. Ég hélt að Babel hefði tryggt Liverpool sigur þegar hann *dúndraði* boltanum í hliðarnetið. Riise fékk einnig færi eftir góða sendingu fyrir frá Babel.

Chelsea liðið pakkaði hins vegar bara í vörn eftir markið og settu meira að segja inná 5. varnarmanninn þegar að Alex kom inná.

**Maður leiksins**: Þetta er svo sem ekkert auðvelt val því að Liverpool liðið spilaði vel og við áttum svo sannarlega skilið að vinna í dag. Liverpool liðið var mun betra liðið í dag og jafntefli eru alls ekki sanngjörn úrslit. Vörnin var mjög sterk og Drogba sást varla í leiknum. Reina gat svo auðvitað lítið gert í markinu, enda var spyrnan frá Lampard góð.

Frammi var Torres góður, en Kuyt var ekkert voðalega spennandi. Hann vann auðvitað vel fyrir liðið einsog alltaf, en það er bara ekki nóg. Á köntunum voru Riise og Pennant fínir. Á miðri miðjunni var Xabi Alonso stundum óöruggur, en á heildina þá unnu Gerrard og Alonso klárlega baráttuna gegn þremur miðjumönnum Chelsea, Essien, Lampard og Mikel.

Ég ætla þó að velja **Steven Gerrard** mann leiksins. Hann var enginn yfirburðamaður í liðinu, en hann lék mjög vel.

Hann fær vonandi frí í vikunni, en um næstu helgi á Liverpool svo útileik gegn Sunderland.

Ég sagði það fyrir leiktíðina að það væri algjört lykilatriði að Liverpool næði 4 stigum útúr þessum erfiðu tveimur leikjum. Það hefur tekist, en samt getur maður ekki verið sáttur því að Liverpool átti svo sannarlega skilið að vinna í dag. En Chelsea, Arsenal og Liverpool hafa núna tapað tveimur stigum og United hefur tapað sjö stigum, svo að eftir allt er þetta ekki alslæmt. Auk þess hefur Liverpool að mínu mati verið að spila best af þessum liðum núna í upphafi móts. Þannig að það eru margar ástæður til bjartsýni fyrir þetta tímabil.

En Rob Styles má skammast sín.

58 Comments

  1. Þetta var rán um hábjartan dag. Alveg sorglegt :o(

    Hinsvegar lítur liðið vel út og ekkert að óttast um framhaldið ef það sem við sáum til Liverpool í dag er það sem koma skal. Pælið í einu, Liverpool hefur verið óheppið í þessum fyrstu tveimur leikjum og fengið á sig tvö víti. En fjögur stig eru í húsi þrátt fyrir það sem ég er bara nokkuð sáttur við.

    Nú er bara að vinna leikinn sem við eigum til góða og þrýsta á Chelsea í allan vetur. Man Utd er í ruglinu eins og er en þeir hljóta að ná sé upp úr því og verða með í baráttunni.

  2. Sælir félagar
    Liðið lítur vel út og er greinilega að spila besta fótboltann í þessum fyrstu umferðum. Rob Styles ætti að skila inn dómaraskírteininu og ganga svo út og hengja sig. Þegar menn missa svona gjörsamlega niðrum sig eiga þeir að sjá sóma sinn í að fara af sviðinu og láta aldrei sjá sig þar aftur. Því miður eru svona afdrífarík mistök óafturkallanleg og óbætanleg. Hinsvegar er Stiles ekki ómissandi og vonandi áttar hann sig á því. Þar sem mér sýnist að þetta verði liðin sem munu berjast um toppinn þá geta svona fíflalæti (og ef maðuteldi það ekki ómögulegt þá mætti halda að svona dómgæsla væri keypt) kostað ansi mikið.
    YNWA

  3. Þetta var eiginlega bara sorglegt í dag. Alltaf synd þegar dómarinn verður aðalmaður leiksins. Hann dæmir varla fleiri leiki í bili!

  4. Þessi hálfitaskapur kostaði okkur 3 stig, við töpuðum tveimur og Chel$ki vann eitt. Ef Chelsea vinnur í maí með 2 stiga forskot á Liverpool þá vitum við hvað gera skal við herra Styles.

    En hvaða hálfvitaskapur var þetta, hann sá þetta svo vel og var betur staðsettur en allar myndavélar á vellinum. Þetta er fáviti með sýningarþörf. Hvað eru leikmennirnir að taka í höndina á þessu gerpi. Fokking ljóta fífl er þessi Styles

    Einn reiður.

  5. Veit það hljómar kannski hálf asnalega en ég er nokkuð ánægður með þetta, þá ekki úrslitin að sjálfsögðu heldur þá staðreynd að við lékum í dag gegn einu besta liði evrópu, vorum betra liðið, sóttum á þá. Liðið brotnaði ekki þrátt fyrir þessa rugl vítaspyrnu og náði aftur yfirhöndinni í leiknum. Benítes var ekki of hræddur í liðsuppstillingu. Torres skoraði gegn einni bestu vörn úrvalsdeildarinnar og sýndi að hann er klár í dæmið. Ef mið er tekið af þessum leik þá erum við komnir til að vera í baráttunni við Chelsea og Man utd um dolluna þrátt fyrir að ýmsir spámenn hafi ekki talið okkur samkeppnishæfa fyrir tímabilið. Liðið lýtur vel út þó ég hafi áhyggjur af meiðslum Kewell sem virðast aldrei ætla að taka enda. Vonandi þá fyrir okkur að Babel aðlagist fljótt og reynist góður leikmaður því Riise er til langstíma litið ekki boðlegur vinstri kantmaður hjá liði sem ætlar að berjast um sigur í sterkustu deild í heimi. Er viss um að þegar menn jafna sig á blessuðum dómaranum og fara að hugsa út í það hversu vel Liverpool leit út gegn liði sem gefur aldrei mörg færi á sér þá færast bros á andlit Liverpoolmanna að nýju. Er bjartsýnni en ég var á þetta tímabil í upphafi, skal viðurkenna að ég taldi okkur en skrefi á eftir Man utd og Chelsea en segji bara í dag “bring it on”. Við erum með hörkulið og verum í baráttunni til enda. Held að við eigum Sunderland í næsta leik og sennilega það gáfulegasta hjá Keane að spara okkur rútuferðina og gefa bara leikinn!

  6. Rugl dómgæsla.. ekkki gleyma að dómarinn veifaði spjöldum í hægri vinstri í djóki!!

    Fannst mjög skrýtið þegar Rafa tók Pennant út af!!! Vildi sjá Babel koma inn og en hann átti að koma inn á fyrir Riise ef Rafa fannst það of mikil sókn þá hefði hann átt að seta hann inn á fyrir Kuyt.

  7. Já, Rob Styles eyðilagði leikinn. Fari hann og veri bölvaður.
    En hvernig væri að senda Rafa í námskeið í innáskiptingum??? Pennant spilaði vel þannig að hann var tekinn útaf??? Og svo var Kuyt kominn á hægri kantinn þegar Riise fór útaf fyrir Crouch??? Eftir að Pennant fór útaf þrengdist spilið hjá Liverpool og menn fóru í það að dæla inn háum sendingum í átt að Chelsea. Það vita það allir að það er ekki líklegt til árangurs. Babel verður að fá að byrja næsta leik frammi…og með Pennant á kantinum. Svo hefði Alonso átt að vera kominn útaf eftir 60 mín. og Mascherano inná. Miðjan var alveg töpuð í seinni hálfleik.
    Skiptingar Rafa taka oft balansinn útúr leik Liverpool. Skiptingar Mourinho eru oftast hnitmiðaðar og skila árangri.
    Svona námskeið hlýtur að vera niðurgreitt af VR.

  8. Myndi ekki segja að Torres hafi niðurlægt Ben Haim. Ben Haim er einfaldlega lélegur, hann labbaði bara beint framhjá honum.

  9. fekk ekki einn chelsea maður 2 gul spjöld i leiknum eða var það bara vitleisa

  10. Svo maður tapi sér ekki í neikvæðni þá var þetta nú fjandi fallegt mark hjá Gerrard og Torres. 🙂
    Eins og Gerrard sagði eftir leikinn, “Torres er góður, meira svona takk”.
    Og Liverpool gerði engin mistök á vellinum, það var bara þessi trúður í dómarabúningnum sem klikkaði.

  11. Daði ég er nokkuð viss um að Benites viti alveg hvað hann er að gera, Pennant var á gulu spjaldi og var sífellt tuðandi í dómaranum og var ekki langt frá rauðu spjaldi.

  12. Daði, miðjan töpuð í seinni? Ég sá aðeins seinni og það var einungis eitt lið á vellinum og það var okkar lið! Meira að segja tveir Man Utd menn sem horfðu með mér voru alveg sammála þessu. Liverpool gjörsamlega valtaði yfir Chelsea/Styles í dag en því miður er Rob Styles fáviti.

  13. Tilþrif dagsins átti Fernando Torres.
    Setningu dagisns átti Arnar Björnsson… “Chelsea eru komnir yfir 1-1!!!

    En maður dagsins er enginn annar en Rob Styles fyrir hálfvitalegustu dómgæslu sem hefur sést í manna minnum.

    Ég segi bara eins og Rafa….unbelievable ..unbelievable.. unbelievable

  14. OK!!
    Til að byrja með þá var Rob Styles án efa versti maður vallarins, hann var ekki samkvæmur sjálfum sér því hann lét gulu spjöldin flakka eins og hann væri að bjóða í afmælisveislu!
    Essien fékk 2 gul spjöld í leiknum en Styles var of upptekinn af sjálfum sér og að komast í sviðsljósið að hann áttaði sig ekki á hvað hann var að gera.
    Að hann skuli ekki hafa séð hvernig malouda hljóp inn í Finnan þar sem hann stóð 5 metrum frá er hneyksli leiktíðarinnar og ætti hann að afsala sér dómararéttindunum fyrir það eitt að dæma vítaspyrnu.

    En sleppum öllum biturleika og horfum á liðið sem er kennt við Liverpool-borg.
    Þeir litu mjög vel út, spiluðu mjög skemmtilegan bolta enda sáu Chelsea menn ekki til sólar næstum allan leikinn. Torres á eftir að koma mjög sterkur inn fyrir okkar menn sem og Rayan Babel (sem by the way er með ótrúlega fastann hægri fót).
    Eins og Þjálfararnir segja, þá er þetta bara 1 leikur og mikið eftir að leiktíðinni.
    Kveð að sinni
    Mjög bitur aðdáandi

  15. Varðandi þennan sirkus í kringum Ben-Haim og Essien. Guardian segja þetta:

    Styles later put a tin lid on his performance by waving a yellow card in the general direction of both Tel Ben Haim and Michael Essien – both of whom had already been booked. Neither man was sent off – it was later reported by the fourth official that Styles was “convinced” he had not booked either man.

  16. er ekki sáttur við dómarann liv átti þennan leik og kátur á að gera meira í því skora mörk, en það er ekki nóg að vera duglegur og skora ekki neitt hann er allt of ragur að skjóta en við höfum ekki tapað leik

  17. ekki sáttur eins og allir. en mér finnst Arbeloa hafa gleymst í umræðunni. mér fannst hann eiga stórleik. barðist eins og ljón og var síhlaupandi.

  18. Fín leikskýrsla og þetta var svo grátlegt. Að sjá þetta Chelski lið pakka saman í vörn, því engan áhuga höfðu þeir á að sækja sigur … þetta var sorglegt. Virkilega sorglegt. Ég er stoltur af mínum mönnum, þeir spiluðu frábæran fótbolta á köflum, og ég er sammála með Gerrard sem mann leiksins. Sorglegt líka að sjá Moronho verja vítaspyrnudóminn …

    djöfulli þoli ég Chelski minna og minna ….. aaarggghhh!!!

    Áfram Liverpool! Við verðum í titlabaráttu!!!

  19. Einar Örn, þú átt samúð mína alla að hafa þurft að skrifa leikskýrslu um þennan leik. Ég ætla hins vegar að nýta mér það að þurfa ekki að skrifa leikskýrslu og segja einfaldlega ekki neitt um þennan flautukonsert sem fram fór í dag. Hef sjaldan verið jafn ofurreiður yfir knattspyrnuleik.

  20. Já, þessi Styles er fáviti. En, við ættum að einbeita okkur að því jákvæða. Liverpool voru frábærir í dag. Gerrard er þessa dagana u.þ.b. 2x sprækari en á sama tíma í fyrra, baráttan í honum var yndisleg að horfa á, t.d. þegar hann bjargaði vörninni okkar úr vandræðum með frábærri tæklingu á Kalou, og glæsileg sending á Torres. Talandi um hann, skorar í fyrsta leik á Anfield, vonandi sjáum við meira af þessu. Ég er líka sammála Zúra, fannst Arbeloa mjög traustur í vörninni í dag, gafst aldrei upp, og stóð sig vel sóknarlega, náði í fyrra spjald af tveimur á Essien, sem Styles fattaði ekki að senda útaf.

    Annar jákvæður punktur er að þarna vorum við að spila við sennilega sterkasta liðið á Englandi núna (fyrir utan okkur náttúrulega :), það lið sem verður að teljast líklegast í titilbaráttunni sem stendur, og við yfirspiluðum þá gjörsamlega. Áttum reyndar að vera komnir í 2-0 og búnir að tryggja þetta að mínu mati, en það breytir ekki því að Rob Styles rændi okkur tveimur stigum í dag, og gaf Chelsea eitt. Ég fyrir mitt leyti verð að segja að ef Chelsea vinna titilinn þremur stigum eða minna fyrir ofan okkur verð ég brjálaður í maí.

  21. Miðjunni okkar sem hélt uppi tempóinu í fyrri hálfleik var ýtt of aftarlega í seinni hálfleik. Alonso var of þreyttur í seinni hálfleik og það hefði verið fínt að fá “étarann” Mascherano þarna inn til að ýta liðinu ofar. Þó að Pennant hafi verið á gulu var hann samt að strekkja á vörn Chelsea, draga þá í sundur og skapa hættu allan tíman.
    Já, það er annars gott fyrir mann að sitja í hægindastól í Reykjavík. 🙂
    Við vorum klárlega betri aðilinn en það var ekki eins og við hefðum sundurspilað Chelsea allan leikinn. Þetta víti…meistaraheppni???

  22. Confronted with questioning over his team’s alleged gamesmanship and constant questioning of referee Rob Styles’ decisions during a 1-1 draw at Anfield, Chelsea boss Mourinho claimed: ‘We are a naive and pure team.
    ‘I have a naive team, they are naive because we do not have divers, we do not have violent people we do not have nasty tackles. We do not have people diving into swimming pools, Chelsea is a naive team. It is a pure team, that is my opinion.’ – Af soccernet.com

    Ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha ha 🙂 🙂 🙂
    Er þetta ekki annars djók?

  23. er nokkuð viss um að hann ætli að sleppa því að segja orðið “not” þarna, portúgalinn greinilega ennþá að læra enskuna 😉 en já slá rob styles utanundir og reka hann niður í coco-cola deildina, svona mistök eiga ekki að sjást í úrvalsdeild.

  24. Ég bara sé ekki hvað er að því hjá Chelsea að fara alltaf beint í dómarann yfir ÖLLU sem dæmt var á móti þeim!!! Ég meina þetta svínvirkaði hjá þeim og það skipti engu máli hvað þeir röfluðu mikið, þeir fengu bara eitt gult á mann (allavega sem var fært í bók).

    Ég beið bara eftir því að hann byrjði á því að reka menn útaf í tvær mínútur.

    sammála Kristjáni Atla, ég hef sjaldan verið eins reiður yfir fótboltaleik, ekki gera svona stór mistök einmitt í þessum leik!!!

  25. Þetta var týpískt Chelsea. Þeir áttu ekkert skilið úr þessum leik en 13. maður þeirra kom og bjargaði því. Annars fannst mér Liverpool liðið spila fantavel fyrsta klukkutímann en ,,gjöf” Hr. Styles sló menn algjörlega út virtist vera. Hefði viljað sjá Babel koma inn fyrir Riise. Þótt Pennant hafi verið með gult var hann mjög ógnandi. Hann er að verða æ mikilvægari partur af liðinu. Hefði viljað sjá Crouch mun fyrr inná fyrir Kuyt. Arbeloa virðist vera nýr Finnan. Mjög traustur og solid leikmaður. Flott mark hjá Torres, ég skal éta hatt minn ef hann skilar ekki 20 mörkum í vetur.

  26. Svo dinglaði Terry hausnum í Torres og reif kjaft án þess að fá spjald. Terry virðist á sér samning þar sem hann má stöðva bolta í teig með höndum og skalla menn án dóms og laga.

  27. Það hljómar mjög traustvekjandi þegar dómari segir að hann sé “sannfærður” um að hafa ekki gefið, ekki bara einum, heldur tveimur leikmönnum gult spjald. Hef heldur aldrei heyrt eins afdráttalausa lýsingu eins og hjá Andy Gray á vítinu. Margendurtók að þetta væri “a ridiculous decision”. Og það komandi frá Everton-manni!

  28. Þetta er skandall að dæma víti á þetta. Reina gat svo sem ekkert gert í vítinu enda mjög góð vítaspyrna.

    Reina: Reyndi voða lítið á hann.

    Finnan: Gerði lítið en það sem hann gerði var vel gert.

    Carragher: Góður.

    Agger: Góður.

    Arbeloa: Góður.

    Pennant: Kom lítið útúr því sem hann gerði og hefði mátt koma með betri fyrirgjafir.

    Gerrard: Sterkur eins og alltaf.

    Xabi Alonso: Ég hefði viljað sjá Mascherano byrja en klárlega unnu Gerrard og Alonso miðjuna.

    Riise: Var mjög hættulegur og óheppinn að skora ekki einu sinni.

    Kuyt: Mjög duglegur en kom lóitið útúr honum.

    Torres: Sást lítið nema í markinu.

    Babel (kom inná): Kom mjög sterkur, er til alls líklegur og gaman verður að fylgjast með honum í vetur.

    Crouch (kom inná): Ekki hægt að segja neitt um hann því hann kom svo seint inná.

    Maður leiksins: Vörnin, hún var mjög örugg.

    P.S. ÆTLAÐI BARA AÐ LÁTA VITA ESSIEN VAR Í HÆGRI BAKVERÐI, EN EKKI Á MIÐJUNNI.

  29. Mig grunar hreinlega að títtnefndur Styles sé að þyggja mútur frá Chelsea. Tel það einu ástæðuna fyrir frammistöðu dagsins. Þarna var dómari að gera eitthvað meira/minna en að vinna vinnuna sína.

    Annars vona ég bara að okkar menn láti þessa vitleysu ekki trufla sig í næstu leikjum.

  30. Styles fór gjörsamlega á taugum eftir að hann gaf vítið….eins og Gerrard sagði þá einfaldlega brotnaði hann undan pressunni. Hann var reyndar ekki að sýna Essien spjald því hann var með spjaldið þvert í hendinni….það var eins og hann væri að gefa honum til kynna að hann þyrfti tíma til að skrifa spjaldið á Terry. Mjög klaufalegt samt sem áður og hann náði mér í smá stund og líka Essien sem hélt að hann væri að fara út af.

    Jákvætt: Liverpool líta betur út en þeir hafa nokkurtíman gert síðan Benítez tók við.
    Neikvætt: Xabi byrjaði vel en það er eins og hann haldi ekki út heilan leik og dalaði eftir því sem leið á leikinn. Persónulega finnst mér áhyggjuefni að hann er farinn að missa boltan á hættulegum stöðum á miðjunni og hann er líka gjarn á að gefa hættulegar aukarspyrnur eins og í þessum leik þegar hann braut klaufalega af sér fyrir framan teiginn í þessum leik.

  31. Burtséð frá þessum leik í dag er gjörsamlega óskiljanlegt að Styles skuli ennþá fá að dæma Chelsea leiki. Ég er mest hissa að hann skuli ekki hafa rekið Finnan út af fyrir “brotið”.

  32. Það má eiginlega segja að þetta sé bara jafnt hjá ykkur eftir fyrstu 2 leikina; áttuð að fá þrjú stig í dag en eitt gegn Villa, því það var aldrei brotið á Gerrard þegar hann skoraði úr aukaspyrnunni gegn þeim. Svona er bara boltinn og það þýðir ekkert að væla.

    Annars eru þið að spila besta boltann í byrjun og ég sé ykkur jafnvel vinna titilinn.

  33. Það var jú reyndar brotið á Gerrard og Chelsea eru búnir að sýna að það gefi bara mjög góða raun að væla eins mikið og maður getur!!!!!!

  34. Var að lesa þessa grein: http://www.timesonline.co.uk/tol/sport/football/premier_league/article2289187.ece
    Ég nenni svo sem ekki að eyða fleiri orðum í Styles en ljóst er að FA mun fara vel yfir hans þátt í leiknum og ég tel ljóst að hann fái ákúrur eða verði sendur niður um deild. Ekki fyrir vítið en ljóst er að hann gaf Eissien og BEN TAL báðum gul spjöld sem voru báðir á gulu en endaði a því að skrifa nafn Terrys niður.
    Annað sem verður svo að taka á er að þessir Chelsky gaurar komist ekki upp með þetta sífellda væl og hjarðhegðun um dómaran og jarm um hitt og þetta til að halda honum við efnið að þeirra mati.
    Leikurinn var góður, Liverpool átti leikinn með húð og hári. Núna er að halda áfram á þessari braut og landa titilinum.
    YNWA !!!

  35. Þessi dómgæsla var náttúrulega spaug aldarinnar… sást greinilega þegar hann dæmdi þessa frábæru vítaspyrnu að maðurinn væri búinn að missa öll tök á leiknum !

    Ef einhvern tímann mætti sekta menn fyrir að gera eins afdrífa eins mistök þá mætti dæma Rob fokking Styles niður í áhugamannadeild til að dæma… efast um að menn vildu fá hann þar til starfa….. “#%$#$%”#$&$&$&”$#%%#&$//#$%#$””! Leikmenn hafa verið sektaðir fyrir minna… í löng bönn !
    Svona lagað á ekki að sjást í bestu deild veraldar. Þetta var ekki gjöf aldarinnar… þetta var…. jaa… maður á bara ekki orð….(by the way, ég kom hér að tölvunni stuttu eftir leik en ákvað að kæla mig aðeins niður…. það má sjá á skrifum mínum hversu vel ég hef kælt mig)

    Það helst sem var jákvætt við okkar leik, var þetta… okkar menn börðust einsog ljón, allstaðar á vellinum… þetta rússahyski átti ekki von í okkur þrátt fyrir að þeirra helsti sóknarmaður hafi heitið Rob Styles (spurning hvað hann kosti… svona fyrir næstu leiktíð )

    YNWA

  36. Ég vil nú ekki núa salti í sárin, en fyrir einni viku þá vann Liverpool Aston Villa á aukaspyrnu sem þeir áttu ekki að fá. Sama hvað gerðist fyrir tveimur árum, þegar Nolberto Solano skoraði úr aukaspyrnu sem Villa átti ekki að fá, þá átti Liverpool ekki að fá þá aukaspyrnu.

    Það sem ég meina með þessu er… shit happens, deal with it.

  37. “Ég vil nú ekki núa salti í sárin, en fyrir einni viku þá vann Liverpool Aston Villa á aukaspyrnu sem þeir áttu ekki að fá. “

    Ekki reyna þetta. Bara … ekki. Þetta var þaulrætt eftir þann leik; Petrov steig fyrir Gerrard og var með hendur á honum = aukaspyrna. Þetta var kannski ekki gróft brot en samt leikbrot samkvæmt reglum, það skiptir engu þótt Gerrard hafi kryddað það aðeins.

    Og ekki reyna heldur þessa klisjukenndu “shit happens”-umræðu. Auðvitað fá öll lið dæmt bæði sér í hag og í móti yfir tímabilið en menn eiga samt rétt á því að vera reiðir þegar þeir eru rændir tveimur stigum vegna óskiljanlegrar ákvörðunar. Það er ekki eins og Malouda hafi látið sig falla til að fiska víti … hann stökk yfir boltann til að Drogba fengi hann og var svo jafn hissa og leikmenn Liverpool þegar dómarinn flautaði víti, enda hvarflaði aldrei að honum að þetta væri brot.

    Menn fá bæði dæmt með sér og á móti reglulega yfir tímabilið … innköst, aukaspyrnur, spjöld og jafnvel umdeildir vítaspyrnudómar. En vítaspyrnudómurinn í gær var ekki umdeildur, hann var uppspuni af hálfu dómarans og kostaði okkur klárlega tvö stig og gaf Chelsea eitt stig. Það er einfaldlega sjaldan sem maður sér jafn skýrt dæmi um áhrif lélegrar dómgæslu og í gær.

    Þannig að plís, ekki reyna að segja okkur að hætta að væla vegna þess að “shit happens”. Það er munur á skít og S-K-Í-T eins og við sáum í gær.

  38. Hvers vegna má ekki reyna þetta? Vegna þess að það fer í taugarnar á þér? Þó þú sért ekki sammála því að L’pool hafi fengið gefins aukaspyrnu á móti Aston Villa þá maðurinn alveg tjá sig. Liverpool er með 4 stig eftir 2 leiki en hefði átt að vera á hinn veginn, þ.e. 1 stig gegn Villa og 3 gegn Chelsea. Eini munurinn er sá að Chelsea er með aukastigið en Villa ekki og það gæti reynst drjúgt í leikslok.

  39. Að fá gefins víti og gefins aukaspyrnu er ekki sambærilegt, þó að niðurstaðan í þessum tilfellum hafi verið hin sama (s.s. mark). Lumar einhver á tengli í “vítið” góða?

  40. Finnur, ég var ekki að banna manninum að tjá sig. Ég var einfaldlega að segja skoðun mína á því sem hann sagði. Ég má tjá mig alveg jafnt og hann.

  41. Daði : Rétt að aukaspyrna og vítaspyrna er ekki sami hluturinn. Engu að síður réðu báðir þessir dómar úrslitum.

    Kristján : Þú gerir lítið úr hans (Halldórs) orðum (að mínu mati nota bene) með að segja : “Ekki reyna þetta”. Auðvitað má maðurinn reyna hvað sem hann vill svo lengi sem hann er kurteis og málefnalegur, eða er ekki svo?

    Einar : Þín skoðun, ég er ekki sammála þér og er það bara hið besta mál.

  42. Þetta snýst ekkert um skoðanir, Finnur. Það var brotið á Gerrard. Það má vel vera að þér finnist það ósanngjörn regla að dæmt sé á hindranir, en það breytir því ekki að það er regla.

  43. Það er alveg óskiljanlegt hvernig menn fá það út að brot Petrov á Gerrard hafi ekki verið aukaspyrna. Ekki nema menn hafi aldrei nokkurn tíman horft á fótbolta og hafi haldið að þeir væru að horfa á rugby. Sjáið t.d. vítið sem Arsenal fékk um síðustu helgi, nákvæmlega eins brot og enginn kvartar.

    Petrov steig fyrir Gerrard þegar hann er að komast í skotfæri, punktur basta! Ef hann hefði ekki gert það þá hvort eð er HEFÐI ÞAÐ EKKI RÉTTLÆTT VÍTIÐ Í GÆR!

    Það er ekkert við því að gera, því miður. En Rob Styles þarf að taka á sig ábyrgðina fyrir þessa vitleysu. Og ef menn mega ekki svekkja sig á þessu þá veit ég ekki hvað má svekkja sig á.

  44. “Kristján : Þú gerir lítið úr hans (Halldórs) orðum (að mínu mati nota bene) með að segja : “Ekki reyna þetta”. Auðvitað má maðurinn reyna hvað sem hann vill svo lengi sem hann er kurteis og málefnalegur, eða er ekki svo?”

    ath ég væri til í að gera líka lítið úr orðum Halldórs!!

    og Brotið á Gerrard var þá í mestalagi umdeildur dómur….sem gaf aukaspyrnu, vítið í gær var ekkert umdeildur dómur, það var bara kjaftæði.

  45. Í tilefni þess að Motormouth talar um að Chelsea séu óheppnir með dómgæslu gegn Liverpool þá tók ég saman nokkur stór og áhrifamikil atriði í leikjum liðanna síðan hann og Rafa tóku við liðunum.

    nýársdagur 2005: Lampard með fólskubrot á Xabi og tvö augljós víti ekki dæmd á Chelsea.
    CL 2005: fyrri leikur: Xabi fékk bann þegar Eiður Smári fiskaði spjald á hann.
    seinni leikur: Ef markið hefði ekki staðið rautt á Cech og víti en markið stóð og 6 mínútum bætt við sem enginn skildi nema dómarinn.

    1. okt 2005 (1:4) Ekki dæmd (augljós) hendi á Drogba áður en hann fékk (réttmætt) víti sem leiddi að sér fyrsta markið í leiknum.
    2. des 2005: Essien reynir að drepa Hamann en fékk aðeins gult.
    3. feb 2006: Reina rautt fyrir að “slá til” Robben og tækla Eið Smára
    4. maí 2007 (CL): löglegt mark dæmt af Kuyt í framlengingu

    bara fyrir utan atriðið í gær.

  46. Sammála EÖE.

    Rafa er ekki sáttur við ummæli Mourinho og skil ég það mæta vel. Hann segir við SkySports m.a.

    If that’s the case then I’m Little Red Riding Hood! You can check his team and I think how many times they do and say the things they say they don’t do.There have been a lot situations in the last three years. The players were talking to the ref the whole time. I want to have respect for the referee but only he can explain – but he will not be able to explain properly.There were 45,000 people here and they could not see a penalty. That is why Jose Mourinho could not see it.”

    Mikið er ég sammála Rafa og núna er komið að því að hann segir nákv. hlutina eins og þeir eru.

    Þetta var rán og Liverpool spilaði jákvæða og góða knattspyrnu í gær. Mikil framför ef við spilum alla leiki líkt og í gær. Torres leit vel út sem og liðið náði oft upp þrusu samspili.

  47. Mikið rosalega getur maður orðið svekktur, ég hélt bara að þetta væri ekki hægt, sjálfsagt heimsmet í svekkelsi. Miklu miklu betri, töpum stigum útaf dómara asna. Leikaðferð Chelsea síðustu 25 mín sorgleg miðað við hvað er búið að eyða í leikmenn, markmaðurinn playmaker eins og oft áður, dúndra fram á Drobga, sorglegt!! Legg til að við næstu útgáfu íslensku orðabókarinnar að skýringin við orðið ASNI verði tvær myndir, önnur af Jose raðbullara og hin af Rob styles!!

  48. Jæja, víst búið að droppa Styles – og hann búinn að viðurkenna mistök, skv. opinberu heimasíðunni. Enda ekki annað hægt svosem…

  49. Hahahaha! Þeir sem reyna að halda því fram að það hafi verið brotið á Gerrard eru á nákvæmlega réttum stað; að lesa þessa síðu!

  50. Daði segir:
    Sjáið t.d. vítið sem Arsenal fékk um síðustu helgi, nákvæmlega eins brot og enginn kvartar.

    Reyndar var talað um þetta, en Fulham áhangendahópurinn er ekki sérstaklega stór á Íslandi svo umræðan verður ekki jafn löng og hatrömm. Varla hægt að segja að þetta hafi verið brot hjá Fulham manninum, hvað átti hann að gera? Láta sig hverfa? Ég hefði allavega verið brjálaður ef Arsenal hefði fengið svona víti á sig. Poolarar hefðu verið brjálaðir ef Chelsea hefði fengið svona víti á sig. Jafnframt hefðu Poolarar verið brjálaðir ef Gerrard hefði “brotið” á Drogba eins og Petrov gerði við Gerrard og Chelsea skorað úr aukaspyrnunni.

  51. Ég er Liverpool maður en ég viðurkenni samt að aukaspyrnan sem Gerrard fékk á móti Villa var ekki neitt…… En þetta var ekki víti hjá Chelsea það er allveg á hreinu

3 Pings & Trackbacks

  1. Pingback:

  2. Pingback:

  3. Pingback:

Liðið gegn Chelsea

Argentínskir varnarmenn