Toulouse 0 – L’pool 1

Okkar menn unnu í dag **góðan 1-0 sigur** gegn franska liðinu Toulouse á útivelli í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Seinni leikurinn er á Anfield á þriðjudegi eftir hálfan mánuð en það er ljóst eftir sigurinn í dag að það þarf eitthvað skelfilegt að gerast til að okkar menn tryggi sér ekki farseðilinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á Anfield.

Eins og búist hafði verið við gerði Rafa Benítez nokkrar breytingar á liði sínu í dag og notaði breiddina vel, enda stórleikur við Chelsea eftir fjóra daga og hann hefur eflaust tekið tillit til þess. Liðið sem hann stillti upp í dag var sem hér segir:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa

Benayoun – Gerrard – Mascherano – Babel

Crouch – Voronin

**BEKKUR:** Itandje, Agger, Riise, Sissoko, Alonso, Kuyt, Torres.

Í síðari hálfleik skipti Rafa Riise inná fyrir Benayoun, Sissoko inná fyrir Gerrard og Torres inn fyrir Voronin.

Þessi leikur var leikinn í rúmlega þrjátíu stiga hita og steikjandi sól í suður-Frakklandi þannig að það var ekki við hröðum og spennandi leik að búast. Það kom líka á daginn að þetta var einhver tíðindaminnsti og hreinlega leiðinlegasti Evrópuleikur sem Liverpool hefur spilað í mörg ár. Það var nánast ekkert um færi í þessum leik, bæði liðin um sig fengu nokkur hálffæri en mestallan tímann gekk báðum liðum illa að fá flæði í leik sinn og skipulagður varnarleikur var því í fyrirrúmi. Liverpool-menn voru meira með boltann og sóttu ögn meira, en náðu lítið að skapa sér, á meðan þeir Carragher og Hyypiä voru í stuði á hinum endanum og héldu hinum heita Johan Elmander niðri í liði Toulouse.

Það fór á endanum svo að einn nýju framherjunum okkar gerði gæfumuninn í þessum leik. Þegar 43 mínútur voru liðnar af leiknum vann Peter Crouch skallabolta á miðjum teignum og skallaði boltann á **Andriy Voronin** sem lagði hann fyrir sig og sendi boltann svo af um 35 metra færi upp í markhornið, óverjandi fyrir markvörð Toulouse. Sannarlega glæsilegt mark og ekki ónýtt fyrir Voronin að stimpla sig inn í lið Liverpool með þessum hætti.

Í síðari hálfleik drógu okkar menn sig aðeins aftar á völlinn og héldu stjórn á leiknum úr hæfilegri fjarlægð, ef svo má segja. Maður hafði á tilfinningunni að liðið væri að innbyrða sigur í þessum leik í hlutlausum gír, bæði vegna hitans og líka sennilega með auga á leiknum við Chelsea um helgina, þannig að það er vart hægt að gagnrýna menn fyrir að hafa ekki leikið neitt sérstaklega vel. Crouch, Benayoun og Babel voru til dæmis ekkert sérstakir í dag en þeir, eins og aðrir, kláruðu sínar skyldur í dag og það er vart hægt að biðja um meira í þessum hita.

Sem sagt, skyldusigur og mjög prófessjónal verk sem okkar menn unnu í dag. Nú er bara að hlaða upp öllum skotvopnum í næstu tvo deildarleiki og klára þetta Toulouse-lið svo á Anfield eftir þrettán daga.

**MAÐUR LEIKSINS:** Andriy Voronin. Var jafn en ekki stórkostlegur, eins og aðrir í liðinu, en stórflott mark hans gerði gæfumuninn og fyrir það fær hann verðskuldað hrós. Þetta mark hans er sennilega með þeim dýrari sem hann hefur skorað, en með því færði hann Liverpool fleiri milljónir punda fyrir að komast í riðlakeppnina, nánast einsamall. Ekki slæmt dagsverk það. 🙂

22 Comments

  1. Glæsilegt!! Verst að maður sá ekki leikinn…
    Er einhver með link þar sem maður getur séð markið?

  2. Ég sá leikinn einnig og hjartanlega sammála KAR í einu og öllu. Munurinn á Liverpool í dag og undanfarin ár er að við erum að skipta leikmönnum út og þeir sem koma inn eru jafngóðir. Það er ótrúlega mikilvægt. Hvaða lið myndi ekki vilja hafa leikmann eins og Hyppia á bekknum (eða jafnvel ekki í hóp) en þegar kallið kemur þá stendur hann sig ávallt vel.

    Vel gert og solid leikur. Allir unnu vel og komu sér aldrei í vandræði. Núna er það Chelsea og það er mikilvægur leikur….

  3. Þetta var samt sem áður alveg skelfilega leiðinlegur leikur. En mér fannst maður leiksins vera Javier Mascherano sem var eins og eldflaug á miðjunni og barðist eins og ljón.

    Voroinin og Carra fá líka +.

  4. En eftir leikinn í dag get ég nánast séð hvernig liðið verður um helgina.

    Reina
    Finnan Carra Agger Arbeloa
    Pennant Alonso Gerrard Riise
    Kuyt Torres

    Spurning samt með Voronin, Babel, Mascherano og Kewell. Einn eða tveir af þeim gætu komið í liðið þá líklega á kostnað Riise/Arbeloa og Pennant/Alonso.

  5. Sælir félagar
    Yfirburðir Liverpool algjörir og Frakkarnir ollu vonbrigðum. Javier Mascherano maður leiksins, tvímælalaust. Magnað hjá West Ham að geta ekki notað þennan mann???? Heimaleikurinn er formsatriði.

  6. Ég er svo sammála ykkur drengir með Javier Mascherano, maðurinn er skrímsli og að mínu mati besti varnarsinnaði miðjumaður í Evrópu!!! Úff, hvað það er gott að hafa svona mann í liðinu sem lokar öllum svæðum og hreinsar alla þá uppbyggingu sem andstæðingur er að reyna að búa til. Frábær, í einu orði sagt.

  7. Frábært mark hjá Voronin, þessi gæi er ekki mættur til að vera 4. framherji liðsins, ónei. Hann er tilbúinn til þess að svitna blóði fyrir að fá reglulegan spiltíma.

    Sammála með Crouch og Youssi B, þeir voru hreint ekki sérstakir. Fannst þó R. Babel öllu skárri, átti nokkra spretti sem heilluðu mig, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sé hellings potential í honum. Hann á bara eftir að verða betri, more to come.

    Vinnum svo raðbullarann og félaga á sunnudaginn og fáum fljúgandi start og mikla trú til að afreka eitthvað sérstakt í ár.

  8. Ég sá ekki nema síðasta korterið og greinilegt að hitinn setti sitt mark á leikinn því það var ekki heil brú í leik liðanna og lítið fyrir augað.

    Glæsilegt mark hjá Voronin sem fór langt með að greiða launin sín á samingstímanum ef þetta mark kemur til með að fleyta liðinu inn í riðlakeppnina.

  9. gott gott… sá ekki leikinn þar sem ég vinn á daginn 🙂

    en var að sjá markið í fréttunum og vel gert hjá vorin…

    en veit einhver afhverju við vorum án auglýsingar á búningnum.. er það venga bans á bjór auglýsinga?

  10. Ég velti því fyrir mér hvort það bann hafi ekki bara jákvæð áhrif fyrir Carlsberg. Auglýsingin er orðin partur af búningnum – þegar hana vantar skapar það umtal og eftirtekt.

  11. Sá á sammarinn.com frétt um skemmtilegan leik. Snýst um að giska alltaf á hvernig byrjunarliði Benitez stillir upp. Virkar kannski ekki svo erfitt en í síðustu umferð giskuðu t.d. 5 af 1414 á rétt byrjunarlið.

    Slóðin er http://www.fantasyrafa.com/

    Hvernig væri að liverpool-bloggið myndi stofna deild eins og í fantasy.premierleague.com

  12. Alveg rólegur á að fullyrða að LFC sé komið áfram, það þarf ekki nema svosem eitt slysamark og vító til að detta út.

  13. Verð nú að segja að þetta var frekar dapur leikur en gott hjá okkar mönnum að setja mark. Var gullfallegt þetta mark og tek ég undir að hann á maður leiksins. Bene spilaði þetta safe. Var aldrei nein alvarlega hætta að markinu hjá okkur en Toulouse áttu nú nokkrar sóknir með Elmander í aðalhlutverki. En trúi ekki öðru en að þetta er nokkuð tryggt á Anfield.

  14. markið hjá Voronin var líklega nær því að vera af 25 metra færi en 35 metrum 🙂 eins og stendur í umsögninni um leikinn

    engu að síður góður sigur við erfiðar aðstæður í leiðinlegum leik, vona bara að Stevie G verði klár í slaginn gegn Chelsea á sunnudaginn

Liðið gegn Toulouse komið:

Gerrard með brákaða tá