Neytendur eru ekki fífl – hvað nú?

Ath.: Þessi grein skráðist eitthvað vitlaust í kerfið svo að ekki var hægt að kommenta. Ég henti henni því út og set hana hér með aftur inn. -KAR

Daði Rafnsson skrifar:

Þetta var ekki það sem ég ætlaði að skrifa um næst hér á þessari síðu en eftir Kastljós gærdagsins verð ég að draga saman atburði síðustu vikna. Þetta verða vonandi mín síðustu orð um málið.

Fyrir nokkrum vikum sátum við nokkrir fótboltaaðdáendur og dyggir lesendur Liverpool-bloggsins og ræddum um það hversu illa okkur væri við þá verðhækkun sem varð á enska boltanum við flutning hans frá SkjáSport yfir á Sýn. Það sem vakti furðu okkar var hversu lítið var rætt um þetta í almennri umræðu. Einar Örn hafði aðeins reynt að vekja máls á þessu fyrr í sumar en væntanlega var tímabilið og fyrsti greiðsluseðillinn of fjærri til að fólk vaknaði.

Daginn eftir skrifaði ég grein sem birtist hér á blogginu og vakti vægast sagt mikil viðbrögð. Þar gagnrýndi ég verðhækkun 365 miðla og ekki síst framsetningu verðskrár Sýnar. Ætla ég ekki að tíunda það hér en læt nægja að minna á að hækkunin á milli ára reiknast fyrir mig og mína á milli 88% og 114% á milli ára.

Strax spruttu miklar umræður á blogginu og það sem kom mér mjög á óvart var það að langflestir komu fram undir nafni og voru mjög málefnalegir. Það hefur hjálpað að gefa þessu máli vigt og ber að hrósa þeim sem lögðu orð í belg fyrir það. Það segir margt um bæði síðuna og lesendur hennar að aldrei fór þetta út í nafnlaust skítkast. Það er alls ekki sjálfgefið á opnum umræðuþráðum á netinu, sérstaklega þar sem tæplega 200 manns segja sitt.

Eftir greinina tók útvarpsþátturinn fótbolti.net málið upp og fékk Pétur Pétursson frá tekjusviði 365 í viðtal einn dag og mig þann næsta. Það var mjög gott mál og enn betra að Pétur mætti í Ísland í dag til að ræða málið. Það var þó galli á umræðunni að Pétur fékk að halda mjög ruglingslegar og villandi ræður hvar sem hann kom án andmæla. T.d. eins og hin frægu 80% sem einn daginn voru áskrifendur Sýn og þann næsta áskrifendur Skjá Sports. Einnig að þetta væri hávær minnihluti og jaðarhópur sem væri að kvarta.

Þá bað Einar Örn fólk um að taka könnun um hvað það væri að borga. Niðurstaðan var alveg á skjön við fullyrðingar 365. En umræðan var ennþá neðanjarðar og eftir Verslunarmannahelgi skrifaði Kristján Atli harðorða grein eftir að við tveir og Einar höfðum rætt um það okkar á milli hversu illa fjölmiðlar hefðu staðið sig í að skoða þetta mál.

Þá fóru menn að vakna til þess að kannski væri framkoma 365 í þessu máli ekki til fyrirmyndar við neytendur. Fólk úti á landi uppgötvaði að það þurfti að borga fullt verð fyrir þrjár stöðvar af fimm, þeir sem vildu high-def urðu að borga meira þrátt fyrir að það var tekið til sem virðisauki frá fyrra ári og þeir sem höfðu verið með Og1 tilboð Sýn í fyrra uppgötvuðu að þeir voru að missa tilboðskjör frá fyrra ári. Nú varð umræðan heitari og Orðið á Götunni benti á grein Kristjáns. Í kjölfarið var fulltrúi Liverpool-bloggsins boðinn af Helga Seljan í Kastljós þar sem Einar Örn mætti Pétri Péturssyni í gærkvöldi.

Sá þáttur virðist ætla að draga dilk á eftir sér fyrir 365 miðla. Nú verður að taka fram að við sem erum að leiða þessa umræðu erum ekki litlir háværir strákar sem tilheyrum jaðarhópum. Við erum sérfræðingar hjá stærstu fyrirtækjum landsins, rekum eigin fyrirtæki, erum allir í kringum þrítugt og erum umfram allt draumaviðskiptavinir enska boltans. Sú sjónvarpsstöð sem hefur réttinn að boltanum á að vilja gera okkur Einari og Kristjáni Atla til geðs. Í staðinn hefur fulltrúi 365 stigið fram og talað niður til okkar.

Pétur Pétursson þarf ekki að kenna mér eitt eða neitt varðandi tölur, kostnað og verðútreikninga. Hann þarf heldur ekki að kenna mér neitt á hagfræði, markaðsfræði eða afsláttakerfi. Hann á ekki að tala niður til Einars Arnar né okkar hinna með einhverjum flugmiðasamlíkingum og því síður að kalla okkur lygara. Ég veit hvað ég borgaði fyrir Skjá Sport og ég veit mætavel hvað 365 vill rukka mig fyrir sömu vöru þremur mánuðum seinna.

Ég sé í gegnum allt bullið sem hann hefur látið frá sér og því harðar sem hann gengur fram verð ég ósáttari við fyrirtæki hans.

Neytendur eru nefnilega ekki fífl.

Í umræðunni undanfarið kom ég með samlíkinguna á eplinu og ávaxtakörfunni og sagði einnig að ef Bónus hækkaði verð á mjólk um 88% á einu sumri myndi ég kaupa mér belju. Sem neytandi geri ég miklar kröfur og læt ekki hafa mig að fífli. Færsla enska boltans af Skjá Sport yfir á Sýn 2 hefur verið að mínu mati eitt allra mesta klúður fyrirtækis gagnvart viðskiptavinum sínum og væntanlegum neytendum í Íslandssögunni.

Hér er lexía í markaðsmálum fyrir Pétur Pétursson og 365; það er hægt að reikna endalaust í krónum og aurum en ímynd og velvild er erfitt að bæta þegar hún er komin í botn.

Var þetta nauðsynlegt fyrir 365 miðla? Ég held ekki. Þessa verðskrá hefði ég lagt til:

 • 3.200 kr. fyrir stakan mánuð
 • 2.600 kr. fyrir þá sem eru með Stöð 2 eða Sýn eða bæði
 • 10% afsláttur fyrir þá sem eru með 10 mánaða bindingu.

365 hefði þurft tæplega 3.000 fleiri áskrifendur, bara að Sýn 2 til að ná upp í kostnað en hversu margir ætla ekki að láta hafa sig að fífli eftir þessar síðustu vikur? Hversu margir eru hættir við eða farnir að segja upp áskrift, ekki bara að Sýn 2 heldur líka hinum stöðvunum og það sem meira er Vodafone og Securitas!!!

Þetta gæti orðið kostnaðarsamt klúður þegar upp er staðið.

Í allri þessari umræðu hafði ég ekki lokað á það að kaupa eina áskrift að Sýn 2 með bróður mínum, frænda og vini. Jú, það er verðhækkun frá í fyrra en samt gæti þetta verið ódýrara en að fá sér disk eða fara á pöbbinn. Eftir viðtalið í Kastljósi erum við allir sammála um að það fari ekki króna frá okkur í vasa þessa fyrirtækis. Við erum komnir með nýtt mottó sem ég er farinn að heyra víðar.

“Sjáumst á pöbbnum.”

Sjáumst við þar?

90 Comments

 1. Frábær grein Daði og viðeigandi lokapunktur um þetta mál frá okkur, að því gefnu að það verði ekki nein alvarleg þróun á málinu á næstunni. Það merkilegasta af þessu öllu er að Pétur, og jafnvel kollegar hans hjá 365 miðlum, skuli ekki bara láta sér nægja að hugsa niður til okkar á þessu bloggi heldur tala niður til okkar líka.

  Hér hafa langflestir skrifað athugasemdir undir nafni þegar menn eru að tjá sig um þetta mál og við þrír sem höfum staðið að pistlaskrifum og umfjöllun erum allir háskólamenntaðir, hátt settir innan okkar fyrirtækja og/eða farsælir fyrirtækjaeigendur. Þú hefur mikla reynslu af markaðs- og sölustörfum, ég hef ítarlega reynslu af ritvinnslu, skáldskap og fjölmiðlastörfum og Einar Örn hefur mikla reynslu af hagfræði- og markaðsstörfum auk þess sem hann er sjálfur að reka og auglýsa sitt eigið fyrirtæki. Það er ekki eins og þetta sé hópur af þrettán ára strákum með sleikjó í munnvikinu, og mér sýnist á flestum þeim ummælum sem ég hef lesið um málið hér á síðunni okkar að þar sé í flestum tilvikum á ferðinni fullorðið fólk sem er nógu gamalt/ábyrgt til að borga sínar eigin sjónvarpsstöðvar og virðist hafa pælt mikið í málinu og hafa mjög upplýsta og þróaða skoðun.

  Svo kemur þessi Kastljós-þáttur og við sendum okkar eigin hagfræðing og fyrirtækjaeiganda, mann sem er örfáum dögum frá þrítugu og mætir prúðbúinn í myndverið en ekki eins og einhver fótboltabulla … og Pétur talar við hann eins og Einar Örn sé hálfviti.

  Viðhorf þeirra til okkar segir bara allt sem segja þarf í þessu máli. Ef mér er ekki sýnd nein virðing, sem borgandi viðskiptavini og/eða sem uppbyggilegum gagnrýnanda, áskil ég mér rétt til að sýna þessu fólki enga virðingu á móti. Við neytendurnir erum nefnilega ekki fífl, þótt sumir haldi það.

  Góð lokaorð Daði, sjáum hvort hægt er að setja punkt fyrir aftan þau og láta hann standa.

 2. Góð samantekt – og já, við sjáumst á pöbbnum.

  Ég var líka að uppgötva að ég er með Vodafone áskrift – en ekki mikið lengur.

 3. Var ákveðinn fyrir viðtalið, en er ennþá ákveðnari eftir það. 365 kemur ekki í mitt hús í náinni framtíð.

  Verð líka að hrósa Einari fyrir að halda skapi sínu, ég var farinn að æsa mig heima hjá mér.

 4. sammála kem ekki nálægt 365 miðlum og er að spegulera í því að hætta að nota fótbolta.net og halda mig bara á erlendum heimasíðum.

 5. Gísli, ég verð að taka fram að Fótbolti.net bauð mér í viðtal fyrir nokkru sem ég þáði. Þeir hafa sýnt viðleitni og er það vel.

 6. Flott samantekt, og ég verð að hrosa ykkur fyrir mjög góða umfjöllun. Ég held að það væri gáfulegt af 365 að láta Pétur taka pokan sinn eða í það minnsta færa hann til í starfi þar sem hann þarf ekki að vera í samskiptum við fólk. Ég kaupi örugglega ekki neitt hjá 365 á meðan þetta er þeirra viðhorf till sinna viðskiptavina.

 7. Ég skoðaði í gamni mínu hvað seinast reikningur fyrir EB var og hann var svona:
  SKJÁRSPORT 1.05.07-31.05.07 1 2.341,80 2.341,80

  Ég vona að Pétur sjái að henn getur ekki kallað fólk lygara og haldið að hann komist upp með það.

 8. Sá það í fréttablaðinu í morgun að Smáís er komið á stað útaf sölu á SkyDigital kortum. Það er ekkert ólíklegt að fjöldi áskrifenda að Sýn 2 séu ekki í samræmi við væntingar 365 og því hafi þeir beðið Smáís um kæra þá sem eru að selja þessi kort.

 9. Ég mun mæta á pöbbinn alveg eins og ég hef gert undanfarin ár þegar Meistaradeildin hefur verið spiluð. Félagi minn er reyndar búinn að fjárfesta í sýn2 og höfum við vinirnir rætt um að hittast bara alltaf allir heima hjá honum. En ætli ég verði ekki mest á pöbbnum. Og svo er ég að hætta með netið og símann og allt það hjá Vodafone. Ekki bara út af þessu máli, það er búið að vera nett vesen með það allt frá byrjun en þetta var bara kornið sem fyllti mælinn.

  Og btw, bara til þess að Pétur fái betri þverskurð af því fólki sem les þessa síðu þá er kannski allt í lagi að segja að ég er 25 ára gamall, með B.A. og M.A. próf frá Háskóla Íslands, giftur, mikill Liverpool aðdáandi (að sjálfsögðu)og starfa hjá einum af stóru viðskiptabönkunum.
  Þeir sem vilja geta skellt inn álíka prófæl um sig… bara svona upp á grínið.

 10. Rétt við erum ekki fífl. En þeir reyna að hafa okkur að fíflum. Ánægður með Einar í gær, hann(þú) átt hrós skilið.

  Verð að setja inn soldið sem Gunnar vinur minn setti inná á arsenal-spjallið, sérsteklega eftir að Pétur sagði frá því í gær að þjónustan væri sú sama.

  “Tilvitnun: Gunnar”
  Ég bjó í Oslo í 10 ár og 8 af þessum 10 árum var ég áskrifandi að Canal+ þá voru þeir með 3 stöðvar sem sýndu nýjustu bíómyndirnar ásamt því að sýna Premier League.
  Fyrir þetta var ég að borga 199 nkr á mánuði.

  Um það leiti sem ég er að gera þau mistök að flytjast aftur til íslands þá er Canal+ að bæta við sig stöðvum úr 3 uppí 5 og nú eru þeir búnir að bæta þetta uppí 7 stöðvar og mánaðar áskrift á öllum 7 stöðvunum er 249 nkr.

  Þið rekið 3 stöðvar, Stöð2, sýn og sýn2 ég tel ekki sýn Extra stöðvarnar með því að það er ekki nein dagskrá send út á dags daglega á þessum stöðvum, en það er full dagskrá á öllum 7 Canal+ stöðvunum.

  En ef ég kaupi Stöð2, sýn og sýn2 með 12 mánaðarbindi tíma þá kostar það 10.711 kr á mánuði og þá fæ ég einhverjar stöðvar með í kaupæti(stöðvar sem annars fáir eða engin mundu vilja borga fyrir).

  En svo kemur Pétur í gær í kastljósið og lýgur því að landsmönnum í beinni útsendingu á ríkissjónvarpinu að 365 sé að veita sömu þjónustu fyrir svipaðan pening!!

  Okey: 365, 3 stöðvar @10.711kr Áskriftarsjónvarp stútfullt af auglýsingum!

  Canal+, 7 stöðvar @ 249 nkr c.a 2750 kr. Áskriftarsjónvarp og þar eru engar
  auglýsingar nema dagskrá auglýsingar eins og allar stöðvar eru með.
  “Tilvitnun lýur”

  Eins og ég sagði á liverpool-spjallinu, ég mu ekki gerast áskrifandi af þessari stöð, eða bara neinu hjá 365.

 11. Allir að kíkja á blaðsíðu 32 í fréttablaðinu í dag, pylsuveisla í boði Vodafone á laugardag í tilefni opnun Sýnar 2, vá frábært eða þannig

 12. Skemmtilegt að hlusta á PP segja að verðið sé lágt og sanngjarnt, en nokkrum sekúndum síðar kenna Skjá Sporti um að hafa þrýst verðinu upp með að samþykkja ekki að þeir skiptu á milli sín þessum A og B pökkum (greyið fórnarlömbin hjá 365 neyddust bara til að hækka verðin og svívirða neytendur). Reyndi svo að malda í móinn með því að segja að þetta væri samt lágt verð. Hann virðist ekki vita hvaða málstað þeir hjá 365 ætla að verja, enda allt í molum í þessum málflutningi. Fín frammistaða hjá Einari og örugglega svakalega erfitt að kappræða gegn svona málóðu bulli og hroka einsog valt uppúr PP. Ég er ekki frá því að maður hafi séð örla fyrir undirliggjandi kraumandi reiði hjá Einari sem hann hélt listavel niðri.
  Að sjálfsögðu verður neytandinn dómari málsins sem tekur að lokum ákvörðun um hvort kaupa skuli aðgang að boltanum eða ekki. Vonandi verða þeir fyrrnefndu sem fæstir.
  Sjáumst á pöbbnum.

  Respect, Biscant

 13. Ég hef ekki kommentað hér áður og vil þakka fyrir frábæra síðu.
  Ég held að mikill fjöldi lesenda þessa bloggs, séu nákvæmlega sammála um að hegðun 365 í áskirftar-rugl-verðskráningu sé fyrir neðan allar hellur, þó það láti ekki allir í sér heyra.
  Ef þeir hjá 365 væru í einhverjum tengslum við viðskiptavini(held þeir skilji ekki merkingu þessa orðs) sína þá myndu þeir taka mark á þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað undanfarið. Á þessari síðu er, að ég held, einmitt þverskurður af fólkinu sem þeir hafa áhuga á að hafa í viðskiptum. Það er alveg ljóst að 365 eru að missa mikinn fjölda “viðskiptavina” og ég er einn þeirra sem sagði áskriftinni upp nú nýlega og hvet menn til þess að sýna það í verki að neytendur eru ekki fífl. Ef ég var í einhverjum vafa um að fá mér Sýn2 fyrir umræðuna í Kastljósi í gær þá gerði Pétur mér þann greiða að eyða þeim efa fyrir fullt og allt.
  Pöbbinn er málið í vetur, skál!

 14. Er ekki málið að mæta og skila afruglurunum í pylsuveislu 365 miðla í tilefni opnunar á Sýn2 á laugardaginn? Ég er með!

  Nú eru síðan lögfræðingar 365 farnir að verja fyrirtækið með því að kæra fyrirtæki sem selja móttökubúnað fyrir Sky! Hversu langt er hægt að leggjast. http://visir.is/article/20070809/FRETTIR01/108090135
  Ég mun aldrei kaupa aftur þjónustu af 365!

 15. Frábær þessi kæra á þá sem eru að selja gervihnetti og móttökubúnað (án þess að selja áskriftarkort SKY). Þetta er eins og að kæra Apple þar sem einhver er að nota tölvur frá þeim til niðurhala ólöglegu efni, frábær brandari.

  Á eitt ár eftir í verkfræði, starfandi hjá stórum viðskiptabanka og ætlaði að gerast áskrifandi að þessu ef ásættanlegt verð og efni yrði í boði en er núna hættur við þar sem hegðun og útskýringar 365 manna er bara ekki boðlegar.

 16. Ætla alls ekki að vera leiðinlegur, en eigum við ekki að fara að snúa okkur að því sem skiptir meginmáli og fær okkur til að kíkja reglulega á þessa góðu bloggsíðu piltar: Liverpool FC 🙂
  Aðeins 2 dagar í mót….ég veit ekki með ykkur en ég er orðinn mjög spenntur!!! Hefur verið í slúðurblöðunum undanfarna daga að brasílíski full backinn Cicinho í smásjánni hjá Rafa. Persónulega væri ég til í hann, þar sem Alves er búinn að játa ást sína fyrir Jose of félögum.

 17. Siggi, upphitun fyrir Villa leikinn kemur á morgun. Cicinho fréttin fannst mér ekki nógu sannfærandi á neinum stað og svo er eina önnur fréttin um Heinze og þær lagaflækjur.

 18. Sammála kommenti Kári, númer 16.

  Hvernig væri það að við öll myndum segja upp áskriftum okkar í “pylsuveislu” Vodafone. Er annars hægt að segja upp áskrift að Sýn hjá Vodafone?

 19. Það væri skemmtilegt Lolli,

  Ég er með hugmynd að útfærslu á slíku. Vandamálið við slíkan gjörning er að það mæti 2 og segji upp áskriftinni.
  Hægt væri að útfæra það þannig að á þessari síðu yrði kennitölum þeirra sem vilja segja upp áskrift hjá 365 safnað saman (t.d. með því að senda tölvupóst á Einar eða Kristján). Þannig gætu þeir safnað saman ákveðnum fjölda (hugsanlega 100 mann með viðskipti við 365 upp á kannski ca 7.000kr á mann sem gerir þá 700.000 kr). Með því að fá aðra hópa með (manutd.is, arsenal.is og chelsea.is) væri hægt að ná enn stærri hóp. Síðan gætu þeir sem vilja, mætt niður í Vodafonebúð á laugardaginn t.d. kl 12:00,þar sem hópuppsögn hjá 365 færi fram.

  Maður gæti jafnvel afþakkað Fréttablaðið í leiðinni og fengið sér pylsu 🙂

 20. Held að það sé skynsamlegra að eyða þúsundköllunum á barnum heldur en í 365, þannig að þeir neyðast kannski til að skipta út einstökum íþróttafréttamönnum.
  Ég allavega held mig heima og horfi á þetta á Kanal 5, TV3 og TV3+. Spænski, ítalski og bara Liverpool leikir frá Englandi þökk sé Daniel Agger! Allt þetta ásamt nokkrum handónýtu stöðvum fyrir 291 DKK á mánuði getur ekki talist mikið – og bjórkassinn á 80 DKK!!

 21. Haha, afþakkað fréttablaðið og fá sér pylsu. Ef það nást allavega 15 manns til að gera þetta á laugardaginn þá má bóka mig með!

  Hvernig væri að eoe.is/liverpool héldi árshátíðina sína á laugardaginn á Vodafone planinu í fjöldauppsögn á Sýn, Stöð 2, Sýn2 og Vodafone.

  Það væri gaman að láta verkin tala. Þá myndi 365 okurmiðlar fara að skjálfa.

 22. Uss, þetta er nú meiri vitleysan öllsömul. Takk fyrir góða pistla og umfjöllun undanfarið. Sjáumst á pöbbnum!

 23. Alveg sammála því sem fram er komið í umræðunni hjá Daða og verð að segja að hér er verið að bera saman epli og epli! Annað er grænt en hitt rautt, af hverju ætti verðmunurinn að vera um 100%. Ég var með EB á Skjá einum en verð ekki með hann í vetur út af verðlagi. Það er takmakað hvað er hægt að láta bjóða sér í verðlagi.

 24. Glæsileg umræða og nauðsynleg. var með enska boltan verð ekki með okur boltan í vetur. það er eitt sem mér finnst vanta í þessa umræðu það eru viðbrögð frá aðdáendarklúbbum á íslandi. mér finnst tækifæri hjá stjórnum LIV. man. o.fl klúbbum að láta í sér heyra og jafnframt að reyna að tala við þá hjá 365 um nýjan PAKKATILBOÐ sér þú í klúbbum á íslandi fáir þú sýn2 á 3000 kall smá pæling.

 25. Er einhver snillingur með upplýsingar um það hvernig áskriftarsöfnun gengur hja Sýn2? Eitthvað ‘inside’ info?

 26. Fyndið að vera blanda Vodafone inní þetta mál… ætlið þið lika að hætta versla við Bónus og skipta yfir í krónuna, þið hættið svo að sjálfsögðu að lesa fréttablaðið..

  Vodafone kemur verðlagningu 365 á enska boltanum lítið við..

  ætli það væri ekki eitthvað leiðinlegra netumhverfið á íslandi ef forveri Vodafone – Íslandssími hefði ekki farið af stað á sínum tíma… núna 10 árum seinna þegar það fyritæki er loks farið að skila hagnaði þá á að “mobba” þá… þið hópist þá kannski allir yfir til símans… þar er nú fyrirtæki sem hefur “aldrei” komið fram við sína kúnna eins og þeir séu fífl

  Annars er það helvíti hentugt að koma saman á Vodafoneplaninu… því það eru bæði seldir heykvíslar og kyndlar í Europris í sama húsi

  Öll þessi umræða bæði hér og annarsstaðar er komin út í svo miklar öfgar að hún er orðin hallærisleg – og ég kaupi eftirfarandi fullyrðingu tæplega

  “Nú verður að taka fram að við sem erum að leiða þessa umræðu erum ekki litlir háværir strákar sem tilheyrum jaðarhópum. Við erum sérfræðingar hjá stærstu fyrirtækjum landsins, rekum eigin fyrirtæki, erum allir í kringum þrítugt og erum umfram allt draumaviðskiptavinir enska boltans. “

  Til þess er allt þetta mál orðið of kjánalegt

  PS: KB banki hækkaði vexti af íbúðarlánum um 1% í síðasta mánuði – spurning að þið takið ykkur saman og farið með kyndlana þangað þegar þið eruð búnir í skútuvogi… þið hagfræðingarnir getið kannski frætt okkur núbbana um það hvað það er mikill aukakostnaður á ári fyrir þá sem eru að leggja af stað útí lífið

 27. Það er eiginlega ekki hægt að bera þetta verð á íslandi saman við verðin hjá Canal+ eins og sumir hafa bent á. Canal+ kaupir þetta efni fyrir nánast alla scandinaviu. Þeir sjá um dreifinguna á þessu fyrir noreg, svíþjóð, finnland og danmörku. Þetta er svo margfalt stærri markaður & áskrifenda hópur. Þar að auki er það mjög takmarkað hversu mikið þeir eru sjálfir í uppbyggingu dreifingakerfis þar sem þeir senda út í gegnum gervihnött og svo áfram til annarra dreifingaraðila í hverju landi fyrir sig (Dæmi um slíkt er GET/UPC í Noregi). Þeir sýna ekki heldur alla leikina í beinni heldur eru þeir með 3 rásir sem þeir senda út leiki á.

 28. Allur samanburður við stöðvar eins og Canal+ og Sky stenst einfaldlega ekki af þeirri einföldu að auglýsingamarkaðurinn sem þau fyrirtæki starfa á eru svo mörgum sinnum stærri en markaðurinn hér heima að því viðbættu að kostnaður við dreifingu hér er mörgum sinnum meiri..

 29. Canal+ er nánast ekki með neinar auglýsingar í sínum útsendingum á enska boltanum. Max 2 örstuttar (ekki meir en 10-15) rétt fyrir leik og svo aftur rétt áður en sá seinni hefst. Annað er ekki þar.

 30. Mér fannst nú vera meira auglýst en þetta þegar ég horfði í gegnum Canal+ á sínum tíma… það er ekki nema ár síðan – var reyndar ekki að spá mikið í því 🙂

  En eitt get ég þó sagt að þjónustan hjá Skjásport var nokkrum númerum fyrir ofan það sem mér fannst ég fá hjá Canal í Danmörku

 31. Ég var með enska boltann í gegnum Canal+ í rúm 6 ár í Noregi. Á þeim tíma voru ekki meiri auglýsingar en þær sem ég nefndi áðan.

 32. Sammála Jóni Bjarna. Þetta algjörlega orðin hallærisleg og óþolandi umræða. Eins og langflestir sem ég þekki eru sammála…. Ætliði frekar eyða þessu í bensín á pöbbann( og menga meira : ), drekka nokkra bjóra og keyra svo heim ? Mjög sniðugt…. Áfram Liverpool

 33. Sælir félagar
  Ég er alfarið sammála þeirri umræðu sem hér hefur farið fram. Aðeins skrif Jóns Bjarna skjóta hér skökku við enda virðist hann halada að “svo megi böl bæta að benda á annað verra”. Barátta ykkar félaganna gegn okrinu hjá 365 er góð og réttlát hvað sem vaxtaokri bankanna líður á því verður Jón Bjarni að átta sig.
  Ég bý úti á landi og á ekki kost á öðru en láta 365 taka mig í r… ef ég vil sjá liðið mitt spila. Hitt hefur samt komið til umræðu hjá mér og mínum félögum að kaupa áskrift að Sýn og Sýn2 saman og horfa á boltan heima hjá einum af okkur. Ef við gerum það munu 365 tapa 5 áskriftum. Þetta er að vísu dálítið önugt því við höldum ekki allir með sömu liðum og erum að vinna í hvernig við eigum að hafa þetta.
  YNWA

 34. Sigtryggur – Það er að sjálfsögðu eins og við manninn mælt að um leið og einhver kemur hér sem segir ekki haleljúa og amen við þessum “áróðri” sem hefur verið í gangi hér þá hlýtur viðkomandi að vera með lausa skrúfu.

  Ef þú getur fengið þig til að lesa aftur yfir það sem ég skrifaði án þess að skeiða algjörlega frá inntakinu sem ég var að skrifa og koma með eitthvað annað en útúrsnúninga á örlitum hluta af því sem ég sagði þá skal ég jafnvel ómaka mig við að svara þér..

 35. Takk fyrir tad Einar, verdur god tilfinning ad sja fyrstu leikskyrslu urvalsdeildartimabilsins 2007-2008 lita dagsins ljos a morgun.
  Einar, langar samt ad segja ad tu komst vel ut i Kastljosinu, varst yfirvegadur og komst tvi ad sem turfti ad raeda.

 36. 365 eru bara gjörsamlega úti á þekju hvað varðar allt þetta mál.

  Td. þarf að borga 2.704.- fyrir Sýn2 ef að maður kaupir einnig Stöð2 í svokölluðum M12 silfur20%…..

  EN maður borgar 2.798.- fyrir Sýn2 ef að maður kaupir Stöð2 OG Sýn í M12 GULL25%

  Verðið hækkar semsagt á Sýn2 við það að bæta við Sýn inní þennan pakka, að vísu er viðbótar 5% afsláttur við að færa sig yfir í Gulláskrift sem gerir þá heildargreiðslu á Sýn2 2658.- sem er 46.-kr í afslátt! Vá!

  Finnst það gjörsamlega ótrúlegt ef að einhver fellur fyrir svona markaðssettningu.

  Neytendur eiga ALLS EKKI að láta 365 komast upp með þetta kjaftæði.

 37. Ísak – það er alltaf gaman að leika sér að tölum… ég borgaði 2995 krónur fyrir enska boltann í fyrra – næsta vetur mun ég borga 2700 krónur

 38. Pét…. nei ég meina Jón Bjarni, þessi dæmi sem þú tekur koma málinu jafnmikið við og flugleiðapælingin hjá Pétri í gær.

  Þú vilt meina að 365 geti komið svona fram við neytendur því þeir hafa svo mikið goodwill frá Íslandssíma?

 39. hvernig má það vera Jón Bjarni ? skv reiknivélinni á ys.is þá er lægsta mögulega verð 3073 kr. fyrir Sýn 2 (og þá ertu að kaupa pakka uppá 12.950 krónur)….

 40. ólafur – ef þú lest vel og vandlega yfir það sem ég var að segja þá sérðu kannski að það sem ég er að gagnrýna er ofstækið í þessari umræðu og þessa tengingu við Vodafone og Securtias

  Vodafone tengist ekki verðlagningu á enska boltanum og securitas var selt úr Teymissamstæðunni fyrir nokkrum mánuðum

  Og svo er það ákaflega ómálefnalegt viðmótið sem maður fær hér sem annarsstaðar – ef maður er ekki sammála þá er maður annaðhvort starfsmaður 365 eða fulltrúi þessi fyrirtækis að skrifa undir dulnefni

 41. Nonni..

  Í fyrra var ég að borga Stöð2 og Sýn hjá 365 – verðið á því er 7912 krónur

  Ofan á það bættist svo skjársport 2995 krónur

  Núna borga ég 10711 fyrir Stöð2, Sýn og Sýn2

  Mismunurinn á 10711 og 7912 er 2799 krónur – hefði reyndar verið réttara hjá mér að segja 2800 krónur en ekki 2700 – biðst afsökunar á því 🙂

 42. Hver er punkturinn með skrifum þínum Jón Bjarni? Verðið á sjónvarpi lækkaði hjá þér. Ekki okkur. Ef það hefði gerst þá hefði Sýn verið uppáhaldssjónvarpsstöðin mín.

  Ef Skjárinn hefði hækkað eins og Sýn gerði hefði ég haft nákvæmlega sömu skoðun. Sama hvað hvort fyrirtæki hefur gert í fortíðinni því það réttlætir ekki eitthvað rangt í nútíð eða framtíð.

  Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara en þætti gaman að heyra það. Við erum að skrifa um þetta og kommenta svo útaf því að þetta skiptir okkur máli. Skrifar þú einhversstaðar um eitthvað sem skiptir þig máli og lætur fólk vita eða ertu bara maður sem fer og nöldrar yfir því sem aðrir skrifa?

  Það eru næstum því allir sem hafa kommentað búnir að vera málefnalegir í þessari umræðu. Ég er 100% sammála þér að það er algjör óþarfi að mæta með heykvíslar og kyndla í Vodafone en að öðru leiti virðist bara að þú sért pirraður á að einhverjir skuli vera að mótmæla einhverju, reyna að gera það málefnalega og fylgja því eftir.

  Eigum við að hætta því útaf því að þú ert leiður á því?

 43. Er að hugsa um að fá mér afruglara bara svo ég geti skilað honum í pulsupartíinu.

  Sjáumst á pöbbnum…enda hefur nú aldrei verið leiðinlegt að taka pöbbarölt

 44. Það sem ég er að segja er að ég er á móti þeirri stefnu sem þessi umræða hefur tekið síðustu daga… það er verið að draga inní þetta fyrirtæki sem koma þessu máli ekkert við og öll umræða finnst mér fara á lægra plan eftir því sem líður á..

  Oftar og oftar finnst mér ég svo sjá comment þar sem ekki er hægt lesa annað úr þeim en að fólk sé lítið búið að kynna sér málið

  Svo fannst mér þessi “umræða” í kastljósinu afar ófullnægjandi (af beggja hálfu)

  Held að flestir málsaðilar ættu að kynna sér söguna af Don Quixote – því það að ekkert komist að í umræðunni annað en hækkun á sjónvarpsefni um 200 til 1500 krónur á mánuði minnir óneitanlega á baráttuna hans Don Quixote við vindmyllur…

  Þegar menn komast svo að þeirri lausn að best sé að eyða bensíni á okurverði og kaupa gos og bjór á verði sem er margfalt kostnaðarverð til þess að berjast gegn óréttlætinu þá ættu menn kannski að staldra aðeins við og hugsa þetta mál yfir einusinni enn

 45. Mér fannst Pétur einmitt vera að halda því fram að neytendur væru fífl með þessu dæmi um flugmiðana. Persónulega finnst mér 365 verðleggja þetta allt of hátt. Það að enska 1. deildin standist sama standard og Ítalski boltinn er náttúrulega rugl.
  Ég mæti á pöbbinn í reyklaust umhverfi í stað þess að kaupa áskrift hjá 365.

 46. Jón Bjarni: Svo fannst mér þessi “umræða” í kastljósinu afar ófullnægjandi (af beggja hálfu)

  Nú? Einar Örn stóð sig mjög vel, held að aðrir hefðu farið að rífast við þennan Pétur þar sem hann var bara að bulla, þvílíkur ****. Championship deildin og Seria A eru nákvæmlega eins, obbinn af blabla…góður!

  Flugmiðadæmið hjá honum var svo náttúrulega brandari, það er nú bara afrek út af fyrir sig að reyna að verja þetta með þessu dæmi. Þetta comment svarar þessu agalega vel.

 47. Jón Bjarni, ég held að þetta sé líka spurning um prinsipp. Mönnum ofbýður verðhækkun 365 og eru þess vegna að hugsa um að sniðganga áskrift að Sýn2 og horfa á leikina á pöbbunum í staðinn. Hvort það verður mönnum síðan dýrara en áskrift að Sýn2 þegar tímabilið er gert upp skiptir ekki öllu máli.

  Síðan er ég hreint ekki viss um að Europris selji heykvíslar 🙂

 48. hafiði tekið eftir auglýsingunni á sýn2 hjá http://www.gras.is hélt að þessi síða væri fyrir fótboltafréttir en ekki auglýsingar. Vildi bara benda ykkur á þetta ef þið hafið ekki tekið eftir þessu..

 49. Championship deildin og ítalski boltinn koma þessu máli ekkert við – enda eru þau í algjöru aukahlutverki í þessu máli – það er EPL sem skiptir máli … sjálfum finnst mér ítalska deildin hundleiðinleg og hef mun meira gaman af þeirri alvöru baráttu sem hægt er að sjá í leikjum frá Championship deildinni – en þetta er bara mat hvers og eins..

  Ég skal hinsvegar fara yfir afhverju mér fannst þessi umræða ófullnægjandi..

  Fyrir það fyrsta þá talaði Einar stöðugt um verð á Skjásport sem var ekki stakt verð án samnings – en það verð er 2995 krónur, ekki 2390 kr – eða 1400 krónum minna en verðið á Sýn2

  Í öðru lagi þá gleymdist alveg að minna á að verðið á Skjásport hækkaði ár frá ári, t.d. um 1000 krónur rúmar á síðasta ári

  Í þriðja lagi fannst mér vanta að minnast á að þegar Enski var á Skjásport var það hluti af símanum sem hafði auka tekjustofn af enska boltanum í formi dýrustu ADSL áskrifar sem er í boði á íslandi

  Eftir stendur að þar sem 50-60 þús heimili eru nú þegar með áskrift hjá 365 mun meginþorri þeirra sem kaupa sér áskrift af Sýn2 borga mjög svipað eða í sumum tilfellum lægra verð fyrir enska boltann en það gerði síðasta ári..

  Mér er farið að finnast sem þessi umræða sé að snúast uppí hálfgert ofstæki.

  Vissulega er Sýn2 dýrara en Skjársport var – munurinn er samt sem áður svo lítill að umfang umræðna og yfirlýsinga um málið eru ekki í neinu samræmi við eðli málsins

 50. kristinn ólafss, gras.is tilheyrir 365 okurmiðlum þannig að… 🙂

 51. Gummi – Það er svo fyndið að við félagarnir vorum í Europris um daginn ( nokkrar vikur síðan reyndar) og sáum þar einmitt bæði kyndla og heykvíslar (þær voru meira segja á tilboði 🙂 og fórum að grínast með það í kjölfarið að við vissum þá hvert við ættum að fara ef við ætluðum að mynda svona mob 🙂

  annars finnst mér frekar furðulegt að tala alltaf um verðhækkun sýnar – þeir hafa aldrei verið með þessa þjónustu áður – fyrir utan það að þeir eru að borga meira fyrir þetta en síminn gerði..

  Og eins og ég kom að hér áður þá var tekjustofn Símans af áhagendum enska boltans meiri en bara sjónvarpsáskriftin

 52. Gummi Halldórs (52) hitti naglan á höfuðið og takk fyrir svarið Jón Bjarni (49).
  Síðast þegar ég heyrði í Don Kíkóta var hann að heimsækja Rafa í Englandi.
  🙂 Þar hækkar áskriftin að SkySports um eitt pund í september skv.t þessu http://www.skykort.com/

  Það er öllum í hag að umræðan sé á málefnalegum nótum og að allar heykvíslir verði bara notaðar til heyskaps um helgina 🙂
  Er ekki annars einhver leikur um helgina?

 53. þetta er nú ekki sambærilegt hjá þér Jón Bjarni… ef þú ætlar að horfa á allt keppnistímabilið þá var hagkvæmast að vera í 10 mán. bindingu = 2.341 kr. hjá Skjásport (það sem ég borgaði fyrir maí s.l.)… er verðið 2995 kr. stakur mánuður í fyrra (ef svo er þá á það verð ekki við) ?

 54. Jón Bjarni:
  Takk fyrir þetta innlegg, ég vil aðeins bæta við. Í afar fáum tilfellum kaupir fólk staka mánuði, heldur skuldbindur fólk sig. Fyrir skuldbindingu hjá Skjánum greiddi fólk 2390, og fékk 600kr afslátt miðað við staka mánuði. Fyrir skuldbindingu hjá 365 fær fólk rúmlega 200 kr afslátt per mánuð. Þannig að miðað við algengustu greiðsluform fyrir fólk einsog okkur sem ekki viljum kaupa helling af öðru sjónvarpsefni, þá erum við að tala um u.þ.b. 1800 króna mismun per mánuð. Í ljósi þess að skuldbinding Skjásins var 10 mánuðir en hjá 365 er það 12 mánuðir, þá erum við að tala um rúmlega 26 þúsund krónur á ári. Pétur faldi ýmislegt bakvið þetta svokallaða vildarkerfi sitt, en mikið svakalega er það aumt tryggðarkerfi miðað við kerfið sem Skjár Sport bauð uppá.
  Flestir okkar hér eigum það sameiginlegt að vera talsvert fjarri því að komast í tekjublað Frjálsrar verslunar og finnum bara ansi vel fyrir þessari upphæð á ári.
  Rétt skal vera að áskriftargjald Skjásins hækkaði milli ára, en um nákvæmlega sambærilega upphæð og t.d. Sýn og Stöð2 og jafnvel RÚV hækkuðu. Ef undanskilið er munurinn milli 1. og 2. árs Skjás1 með boltann, því fyrsta árið FENGU ALLIR ENSKA BOLTANN FRÍTT. Það má því kalla þá hækkun frekar mikla.

  Respect,

 55. Það er alveg rétt Biscant að það að kaupa staka mánuði er ekki algengt greiðsluform..

  Mér finnst bara að vinklarnir sem eru teknir á þetta ekki vera alveg réttir – eða meira að það er ekki litið til allra þátta sem skipta máli..

  Samanburður á 365 og skjásport brenglast þannig alltaf af þeirri staðreynd að stærsti hluti þeirra sem fengu Skjásport voru líka að greiða verð af ADSL straumi til símans.. bæði beint og svo í gegnum sínar Internetveitur ef þær voru aðrar en Síminn – þannig var tekjustofn Símans stærri á meðan 365 hefur bara áskriftargjaldið..

  Ég get svo ekki neitað því að það situr ennþá í mér biturleikinn í garð símans fyrir þetta heila ár sem ég gat ekki horft á enska boltann því að vegna þess að ég var með tengingu sem vinnuveitandinn greiddi af þá gat ég ekki séð enska boltann heima hjá mér í heilt ár :s

 56. Og Nonni – það er rétt, en ég bjó ekki á íslandi haustið 2006 og 10 mánaða binding hefði því verið mér afar óhagstæð 🙂

 57. Hef lesið flest komment á þessari síðu vegna 365 málsins og tek ég undir með flestum hér að verðið er allt of hátt.

  En verðið fyrir sýn2 er ekki bara of hátt heldur er líka búið að hækka verðið á Stöð 2. Þannig að þessi afsláttur sem veittur er með tryggð við þá rétt svo núllar hækkunina. Ég hef greitt stöð 2 síðustu ca 2 árin með hléum og rak því augun í þessa hækkun þeirra. Þetta er svona svipað og ef Einar auglýsti 50% afslátt á mat hjá sér eftir að hafa hækkað verðið um 50% sama dag.

  Einnig hef ég heimildir fyrir því að sýn2 séu komnir með gríðalega sterka styrktar aðila sem nánast dekka þann mikla kostnað sem þeir fóru út í.

  Ps. Gæti verið lygi (eins og Pétur sagði svo skemmtilega) hjá þeim til að láta hlutina líta betur út, veit ekki.

 58. Sæll aftur Jón Bjarni,

  Auðvitað skal engum dyljast að bæði Skjárinn og Sýn eru í þessum leik til að græða á því. Það er alveg hárrétt hjá þér að Síminn var vafalítið að reyna að styrkja sína stöðu á Internetmarkaði, og skil ég vel frústrasjón þína að vinnuveitandi skuli hafa verið á öðrum stað og því enginn bolti á þínu heimili. Ef við lítum á ADSL markaðinn, þá er það svo að það eru u.þ.b. 85% heimila með ADSL, þannig að í fáum tilfellum þurfti fólk virkilega að fá sér ADSL og auka þannig útgjöld sín með því að fá sér Enska boltann.
  Síminn hefur að vísu í gegnum tíðina verið skörinni dýrari en Vodafone, en sá munur er minni en mér finnst ýjað að. Verðlagning meðal þessara fyrirtækja er í rauninni sáralítill.
  Varðandi frústrasjón þína gagnvart Símanum, þá var það nú svo að tveir aðilar deildu í þessu efni. 365 vildu ekki leyfa Símanum að dreifa sínu efni um ADSL og Síminn ekki leyfa 365 að dreifa Enska boltanum um sitt. Ekki veit ég hvor aðilinn byrjaði þessar erjur, en einsog þú manst líklega, þá leystist úr þessari deilu á síðasta tímabili og báðir aðilar fóru að dreifa öllu efni.

  Mér finnst nálgun 365 því vera talsvert önnur og harkalegri en áður þekktist. Síminn og Skjárinn juku ekki útgjöld heimilanna í líkingu við það sem 365 eru að gera með þessari aðgerð sinni með Enska boltann og Sýn2.

  Kveðja,
  Biscant

 59. Þarf þá ekki að sniðganga þessa styrktaraðila líka (krosslengur fingur og vonar að það sé ekki Vífilfell eða ölgerðin) 🙂

 60. Jón Bjarni: Ég bar saman það að binda sig í heilt tímabil í enska boltanum á Skjá Sport og Sýn 2. Geturðu bent mér á það hvernig sá samanburður sé ekki 100% sanngjarn? Ég talaði alltaf um samningsverð hjá Skjá Sporti og í öllum samanburði talaði ég líka um samningsverð hjá 365. Ég nefndi aldrei full verð hjá Sýn 2.

  Fyrir heilt tímabil þá kostaði Skjár Sport (miðað við 7% vsk) 23.410. Þetta tímabil kostar núna 50.052. Þetta er 114% verðhækkun. Ef þér finnst það sanngjarnt, þá er það ágætt mál. Ég hef alveg efni á því að borga þetta, en það réttlætir hins vegar ekki svona breytingar. Þetta virðast vera þær verðhækkanir sem að meirihluti lesenda þessarar síðu (og meirihluti minna vina) standa frammi fyrir.

  Þú berð hins vegar saman verð á stökum mánuði hjá Símanum (2.995) og verð á einhverjum risa-bindingar-pakka hjá Sýn 2 til að fá það að verðið hafi lækkað. Hvernig í ósköpunum er sá samanburður sanngjarn?

  Championship deildin og ítalski boltinn koma þessu máli ekkert við

  Víst gera þau það, því að Sýnarmenn hafa notað Chapmionship sem rök fyrir því að þeir séu að veita betri þjónustu, sem eru að minu mati fráleit rök.

  Í þriðja lagi fannst mér vanta að minnast á að þegar Enski var á Skjásport var það hluti af símanum sem hafði auka tekjustofn af enska boltanum í formi dýrustu ADSL áskrifar sem er í boði á íslandi

  Ég var með net frá Hive og fótbolta frá Símanum.

  Ég er alveg sammála því að umræðan fari útí öfgar með sumum köllum um viðskiptabönn á hin ýmsu fyrirtæki. En hún kemur hins vegar ekki frá okkur og því skil ég ekki þessi skot á okkur þrjá, sem hafa skrifað greinarnar hér.

  Öll þessi umræða bæði hér og annarsstaðar er komin út í svo miklar öfgar að hún er orðin hallærisleg – og ég kaupi eftirfarandi fullyrðingu tæplega

  “Nú verður að taka fram að við sem erum að leiða þessa umræðu erum ekki litlir háværir strákar sem tilheyrum jaðarhópum. Við erum sérfræðingar hjá stærstu fyrirtækjum landsins, rekum eigin fyrirtæki, erum allir í kringum þrítugt og erum umfram allt draumaviðskiptavinir enska boltans. “

  Við erum þrír, sem höfum leitt umræðuna hér – ég, Kristján Atli og Daði. Þessi lýsing á okkur er hárrétt.

  Ég sé að þetta er þitt fyrsta framlag hérna á Liverpool blogginu – 14 komment á einum degi. Vona að þú verðir jafn öflugur að kommenta þegar að spjallið snýst aftur að Liverpool.

 61. Við erum klárlega minnihlutahópur/jaðarhópur og ættum ekkert að vera að rífast þetta. Það mætti halda að við værum einhverjir algjörir ræflar, vælandi yfir 2000 kr. hækkun á mánuði. Ég meina, hvað er 2000 kall á mánuði ?

  Núna fer verð á matvöru og víni fram úr öllu hófi og við minnihluta/jaðarhópurinn vælum yfir fótbolta verði sem er rétt að aukast um 24.000 kall á ári.

  Auðvitað ættum við að gera eins og góðum neyslukindum sæmir, jarma og láta éta okkur inn að beini.

 62. Er sammála þér að mestu Biscant..

  Vantar þó eitt inní þetta dæmi hjá þér sem mér finnst vert að benda á.. 85% heimila voru með ADSL – ca. helmingur þeirra er hjá öðrum netveitum en Símanum… með nálgun sinni á dreifingu enska boltans á sínum tíma þá náðu Símamenn að fá gjaldið fyrir ADSL strauminn frá fólki sem voru ekki þeirra viðskiptavinir fyrir yfir til sín frá minni netveitunum – venjulegir notendur fundu ekki fyrir því en netveiturnar gerðu það svo sannarlega..

  Ég var að vinni hjá einni af minni neitveitunum á þessum tíma og get sagt að í upphafi voru þetta fjölda uppsagnir í stórum stíl, sem síðan voru sefjaðar með því að fólk flutti bara hluta viðskiptanna yfir – Síminn fékk þarna á stuttum tíma gífurlegan fjölda viðskiptavina yfir til sín, viðaskiptavini sem eru að skapa þeim tekjur enn þann dag í dag

  365 koma þó hreint fram að því leyti að þeir eru að bjóða þjónustu og hún kostar þetta – þeir eru ekki að fela aðra tekjustofna inni í alls ótengdum þjónustum

  Enda tók ég fram þá skoðun mína í einum af fyrstu póstunum mínum að með þessum flutningi enska boltans var verið að færa þjónustuna frá einu Skítafyrirtæki yfir til annars 🙂

  Þú segir líka að þar sem 85% heimila séu með ADSL þá sé varla hægt að skilgreina ADSL þjónustugjald sem hluta af sjónvarpsgjaldinu

  Ég spyr þá á móti – skv 365 eru á bilinu 50-60 þúsund heimili með þjónustu frá þeim, ef við gefum okkar að þau séu 55 þús og að það séu 3 í heimili þá eru það 165 þús manns eða 55% – getum svo kannski sagt að þar sem markhópur enska boltans sé fólk á þeim aldri sem er hvað líklegast til að kaupa meira en bara Rúv, að þá séu það 60-65% sem fá þetta á verði sem er alveg sambærilegt við það verð sem manni sýnist að fólki finnist að þessi þjónustu eigi að kosta

  og þó ég miði ekki við annað en það hversu margir á þessum vef ætla að segja upp áskriftum af 365 vegna þessa þá sé sú % jafnvel hærri en það

  annars held ég að við séum nú ekkert ósammála í megin atriðum – þetta verð sem boðið er uppá er í hærri kantinum – en þar sem íþróttagláp er nú nánast mitt eina áhugamál þá get ég fyrir mitt leyti ekki verið mjög óánægður með þann pakka sem 365 býður mér fyrir 7000 krónur

  Skil líka að það sama eigi ekki við um þá sem horfi bara á enska boltann

 63. Einar – þakka fyrir svarið og þú mátt ekki alls ekki skilja mig sem svo að ég sé ósammála öllu því sem þú ert að segja, því ég er það alls ekki – eins og þú getur lesið í svarinu til Biscant hérna fyrir ofan

  Mér hefur fundist þessi umræða um boycuts og annað vera komin í pínu öfgar og ég biðst afsökunar ef ég hef beint þeir “frústrasjon” í ranga átt, fannst eins og hún hafi komið frá stjórnendum hér, fljótfærni í mér og biðst ég afsökunar á því

  Ég var bara í hringiðu þeirra svínslegu viðskiptahátta sem síminn sýndi í upphafi enska boltans hjá sér og hvernig þeir neyddu fólk til að kaupa hjá sér alls ótengda þjonustu til að geta notið enska boltans.. og fyrirgef þeim það seint

  Í þessu máli hefur því að mínu mati skrattinn hitt ömmu sína (eða öfugt) og neytendur eru þar einhversstaðar mitt á milli..

  Það er mín skoðun eftir að hafa rýnt svolítið í þetta mál að miðað við það verð sem 365 er að bjóða og það verð Síminn bauð á boltanum og tengdum þjónustum að innkoman hjá báðum aðilum sé mjög svipuð – henni er bara ekki dreift eins

  Og þar sem þið segist starfa hjá stórum fyrirtækjum eða jafnvel reka þau þá hljótið þið að geta tekið undir þessa skoðun mína að einhverju leyti..

  “Ég var með net frá Hive og fótbolta frá Símanum.”

  Sem þýðir að af þeirri áskrift sem þú greiddir Hive fyrir internetið, fóru tæpar 2000 krónur til símans, þar sem þú varst með enska boltann – það eru þessar tekjur skjássport sem mér finnst hafa gleymst í umræðunni

  “Ég sé að þetta er þitt fyrsta framlag hérna á Liverpool blogginu – 14 komment á einum degi. Vona að þú verðir jafn öflugur að kommenta þegar að spjallið snýst aftur að Liverpool.”

  Verð nú bara að viðurkenna að ég vissi ekki af þessari síðu fyrr en ég sá link á hana af Liverpool.is spjallinu í dag – þar sem ég hef verið virkur í nokkur ár..

  Ég mun hinsvegar án vafa láta sjá mig hér í vetur, málefnalegar og skemmtilegar umræður hér

  Vona bara að mér fyrirgefist þessi uppreisn í mér 🙂

  Með kveðju,

 64. Ég tel að lof sé skilið skyttunum þremur hér á blogginu sem hafa farið mikinn í umræðu sem sjálfsögð er að fari fram enda neytendaumræða alltof oft steindauð á Íslandi. Einnig á Jón Bjarni hrós skilið fyrir að vera afar málefnalegur “fúll á móti” og standa einn gegn kyndilberum frelsins (eða heykvíslastingum) ásamt tölfræðiséníinu Biscant.

  Ég er að miklu leyti sammála mótmælandanum Jóni Bjarna með þá nálgun að einn þrælahaldari sé í raun bara að taka við af öðrum. Þetta er það sem markaður og viðskipti ganga ansi oft útá hérlendis, hið hárfína jafnvægi milli þess að halda lífi í eða ganga að kúnnahópi sínum dauðum. Nú virðist sem 365 sé að klúðra sinni ímynd gagnvart þrítugum háskólamenntuðum púlarabloggurum en eflaust hefur sú réttláta reiði farið fyrir ofan garð og neðan hjá heldri fjölskyldufeðrum sem sjá litla nettó-hækkun hjá sér. Sjálfur mun ég fara í heimsóknir á pöbbinn eða foreldrahús til að horfa á minn enska bolta líkt og síðari ár enda er þar góður félagskapur í kaupbæti og því hef ég varla atkvæði í þessari umræðu. En mér hefur þótt einni spurningu ósvarað : Er verðið fyrir þessa vöru raunverulega of hátt? Í byrjunarpistlinum er Daði með sína hugmynd að sanngjarnri verðskrá en hún byggist auðvitað líka á óskhyggju neytandans og hugsanlega er sanngjarnt að bæta við 1000 kr við þá verðskrá. Hefur ekki einfaldlega verið undirverð á enska boltanum sl. 2 ár (frá 0 kr til 2990) og nú sleiflast pendúllinn í hina áttina með nettu yfirverði? Þegar orrahríðum slotar í bardögum milli risafyrirtækja þá safna þau venjulega kröftum á ný á kostnað neytandans. Stundum étur þú á kostnað markaðarins en stundum étur markaðurinn þig 🙂

  Góðar stundir,
  PB

 65. Þessi pistill hjá þér Daði er eins og talaður frá mínu hjarta. Vanvirðingin og hrokki 365 er alveg ótrúleg í þessu máli. Ef þeir hefðu komið hreint fram og sagt já við keyptum réttin of dýrt. Við getum boðið ykkur upp á þjónustuna á þessu verði. Komið með fram með réttar og heiðarlegar tölur. Tekið tillit til þeirra kröfu fótbolta unnenda að bindi tíman, eða sett fram tilboð sem kemur betur út miðað við bindi tíma en staka mánuði. Sýnt okkur, verð gagnrýendum 365, tilhlíðilega virðingu. Fjölmiðlarnir þeirra fjallað heiðarlega um málið.

  Þá hefði þessi umræða aldrei orðið svona. PR-maðurinn Pétur Pétursson hefur farið komið umræðunni á þennan stað. Þetta er hans PR klúður, kemur skelfilega út sem andlit 365.

  Ég tók þátt í innleiðingar ferli Skjásins á sínum tíma. Sem var umdeild, enda ekki nógu vel undirbúin. Gagrýnin sem Síminn fékk á sig þá var mikil en það er aðeins brota brot miðað við þessa hneysu. Starfsfólk 365 á samúð mína alla með þessum afglöpum Péturs.

  Allar þær kaffistofur sem ég veit eru að tala um þetta mál, að sjálfsögðu sýnist sitt hvað eins og má sjá á svörum Jóns Bjarna. En það sem mest hefur farið í taugarnar á mér í þessu máli er að vera kallaður hávær minnihluti. Hvernig ósköpunum er hægt að finna það út að þeir sem mótmæla þessu hluti af meirihluta eða minnihluta? hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort fólk sé ánægt með hækkanir á enska boltanum.

  Í DV í dag er klifað en á þessum háværa minnihluta í viðtali við Hilmar Björnsson. Ég var virkilega reiður þegar las þetta og ætlaði að senda Benedikt Bóasi tölvupóst til að rökstyðja þessa fullyrðingu sína. Ég hefði væntanlega ekki fengið neitt svar, enda fekk hann fyrirmæli um þetta frá sínum umbjóðendum.

  Reyndar eru lítil eignar tengsl á milli Securitas og 365 lengur, er í eigu Fons.

 66. Niður með okurbáknið 365!
  Sjáumst á pöbbnum.
  Nú þarf ég bara að finna einhvern sem drekkur ekki til að keyra 😀

 67. Strákar, þið eigið hrós skilið fyrir að taka upp þessa umræðu.

  Það er engan veginn ásættanlegt að stórt fyrirtæki eins og 365 ætli að beita svona MÁLÞÓFI eins og reynt er með flóknum áskriftarsamsetningum sem er til þess gerðir að fela þá staðreynd að þeir eru að velta sínu eigin klúðri (kostnaðinum fyrir yfirverð á EPL) yfir á neytendur.

  Ég er die hard Liverpool aðdáandi .. er þrítugur, á ekki börn, er í góðri vinnu og hef vel efni á uppáhalds sjónvarpsefninu mínu, enska boltanum.

  Í fyrra fékk ég mér að sjálfsögðu enska boltann (í gegnum breiðband Símans). Var ekki og hef aldrei verið áskrifandi hjá 365 en hefði að sjálfsögðu fengið mér enska áfram .. en þessi asnalega háa hækkun og hegðun gagnvart áhorfendum enska boltans gerir það að verkum að
  áskriftina kaupi ég ekki nema að lækkun verði á 10 mánaða kaupum á boltanum (án stöð2-, sýn-, M12-, Gulláskriftar- og fjölvarps-málþófs)

  Sjáumst á pöbbnum!

 68. Hvað er “rétt” verð á enska boltanum? Persónulega finnst mér að borga 4-5 þús á mánuði (í 10 mánuði) á hinu verðháa Íslandi í raun vera sanngjörn fjárhæð. Þá er ég að miða við að geta séð ALLA leiki í deildinni. Alla 38 leiki Liverpool og fullt af s.k. stórleikjum, get valið að vild hvaða leiki ég horfi á. Miðað við hvað kostar að fara á einn leik á Anfield, leigja eina vídeóspólu, fara í bío o.s.fr eða bara á einn leik í íslensku deildinni, þá finnst mér ég fá ansi mikið fyrir þessar 4-5 þús krónur.

  Vandi 365 held ég að sé aðallega tvenns konnar. Í fyrsta lagi að verðið hingað til hafi verið í lægri kantinum, heilt ár t.d. ókeypis, og það er alltaf erfitt að hækka verð. Í öðru lagi klúðruðu þeir verðskránni og PR málunum. Verðskráin er augljóslega alltof flókin, ég hef ekki skoðað hana því ég hef ekki og mun ekki kaupa stöð2/sýn/sýn2 en þegar svona margir kvarta er augljóslega eitthvað að. Í PR málum hafa þeir að mínu mati treyst á “að fólk væri fífl”, verið of hrokafullir og minnt mig á leiðinlega stjórnmálamenn en ekki framúrskarandi sölufólk. Vandamálið þeirra er augljóslega það að erfitt er að rökstyðja verðhækkun þegar útboð eru. Þeir fá alltaf í andlitið: “þið buðuð bara of hátt”.

  Umbun til viðskiptavina finnst mér bara jákvætt og í raun fáránlegt að gera það ekki. Enda tíðkast þetta alls staðar. Kjör hjá bönkunum breytast eftir unfangi viðskipta, ég er með afsláttarkort í fatahreinsun því ég fer með jakkaföt reglulega í hreinsun, ég kaupi 10 miða kort í sund, Hvalfjarðagöngin og svona væri hægt að halda áfram. Fyrirtæki reyna að selja okkur sínar vörur og þau EIGA að mínu mati að umbuna góðum viðskiptavinum.

  Að mínu mati gerir 365 þau grundvallarmistök að reyna aldrei að selja okkur enska boltann. Félagið treystir á að fólk muni upp til hópa kaupa efnið sama hvað á dynur og sama hvað það kostar, við Íslendingar gerum það alltaf hvort eð er!

  Þess vegna eru svona margir óánægðir og eigendur þessa bloggs eiga mikið hrós skilið fyrir að halda þessari umræðu á lífi og málefnalegri. Pétur Blöndal “uppgötvaði” Bjarna Ármannsson þegar Bjarni var að prútta á einhverjum mörkuðum í nemendaferð erlendis. Pétur sagði að þetta viðhorf, að sætta sig ekki við hvaða verð sem er, vantaði upp til hópa í Íslendinga. Svo dró hann Bjarni úr tölvugeiranum í fjármálin. Þannig að þið strákar endið allar sem bankastjórar!

  Núna held ég að það sé bara tvennt sem hægt er að gera. Annað hvort er að hætta umræðunni og láta lífið og boltann ganga sinn vanagang, það er hvort eð er búið að segja allt sem er hægt að segja um þetta mál. Hins vegar að grípa til aðgerða sem fælust þá væntanlega einhvers konar fjölda uppsögnum. Safna kennitölum eins og einhver stakk uppá, hópferð með myndlykla til 365 eða bara lista yfir aðila sem vilja kaupa efnið en ætla ekki að gera það vegna verðs og/eða framkomu 365.

  Lokaorð mín læt ég vera að mér finnst efnið í raun ekki dýrt en þið eigið mikð hrós skilið fyrir að sætta ykkur ekki við hvað sem er, standa fastir á ykkar prinsippum.

  Áfram Liverpool,
  Gummi

  e.s.
  Það var stungið upp á að við sem skrifum hér um þetta mál segðum smá deili á okkur. Ég er 30 ára, giftur og á 2 börn. Er með BSc í sjávarútvegsfræðum frá HA og vinn hjá Glitni í markaðsviðskiptum (capital markets en ekki markaðsmálum!). Vann áður á Fiskistofu við að gefa út veiðileyfi og úthluta kvóta!

 69. Djöfull kiknaði Pétur í hnjánum, þegar talið barst að epli og appelsínu umræðunni, því hann veit mæta vel að það er verið að troða upp í mann ávaxtakörfu!!!!!

 70. Hvað með einhvers konar undirskrifalista til 365 manna? Mér sýnist hópskil á afruglurum ekki ætla að ganga upp en áskorun undirrituð af hundruðum eða þúsunum áhugamanna um enska boltann gæti verið málið. Það gæti verið sameiginlegt verkefni stóru aðdáendaklúbbanna og svo væri hægt að leyfa manutd. klúbbnum líka að vera með.

  Sjálfur er ég kominn fast að fertugu, er fjölskyldumaður, á parhús og er með tvær háskólagráður á bakinu, svo ég segi einhver deili á mér.

 71. Mátti til að kasta hérna inn þakklætiskveðju.
  Þið drengið eigið heiður skilið fyrir öfluga vinnu, helst í þágu okkar Liverpool en þetta er engu að síður í mínum huga virkilega gott og þarft hliðarspor. Núna er bara að eftir að sjá hvar maður getur breitt sínum viðskiptum og sniðgengið 365. Langar að enda þetta komment á því að “stela” vel orðaðri auglýsingu en þó stílfæra hana að þessu máli… “Hinn skyni borni maður sýnir virðingu í viðskiptum….. ekki hroka”
  Langar með þessu að sýna mínar efasemdir um hæfni (vill ekki segja gáfnafar) umrædds starfsmanns 365.
  Ekki að það skipti öllu máli en undirritaður er einnig háskólamenntaður og þar utan, ekki al-ílla gefinn.
  Takk aftur fyrir ykkar framlag….

 72. Þó mér þyki leiðinlegt að taka strætó á pöbbinn þá mun ég gera það frekar en að láta taka mig 365 sinnum í óæðri endann!

 73. Væri ekki nær að mótmæla því að þurfa að borga RUV nær 3000 krónur á mánuði til að geta horft á enska boltann hjá 365…HNEYKSLI

 74. Jú ég ætla ekki heldur að láta RÚV taka mig í óæðri endann. Búinn að segja þessu öllu upp!

 75. Agalega fínt núna þegar strætóinn er orðinn ókeypis fyrir okkur námsmenn. Þá er ókeypis á pöbbinn og til baka og maður getur meira að segja fengið sér öllara án þess að hafa áhyggjur, og allt orðið reyklaust 🙂

  Ég get ekki sagt að ég kvíði boltavetrinum á Ölveri, Players eða hinum stöðunum. Gæti jafnvel orðið góður markaður til að opna svona stað með þessu áframhaldi…

  sjáumst á pöbbnum

 76. Vil taka fram við Jón Bjarna að ég hef vel efni á þessu verði en ef Players myndi allt í einu rukka mig 1200 kr. fyrir bjórinn sem ég borgaði 600 kr. fyrir þá myndi hann standa illa í mér. 🙂
  Held að enginn sé hérna að segja að Skjárinn sé algóður, mér er alveg sama hvar enski boltinn er svo lengi sem mér finnst ég fá hann á sanngjörnu verði.

  Líka gaman að sjá Peter Beardsley gera sér ferð hingað inn enda einn af mínum uppáhaldsleikmönnum. Þessi “verðskrá” sem ég setti upp var byggð á lauslegum útreikningum og upphæðir skipta kannski minna máli í henni heldur en skýrleiki og einfaldleiki.

  Svo skemmtilega vill til að í gær fékk ég í hendurnar rit sem er talið biblían í umbunar og vildarmálum. Þar eru þetta talin vera aðalatriði góðs umbunar/vildarkerfis.
  1.Must be a two-way exchange of value.
  Í þessu ber mikið á á milli þess sem menn voru að borga í fyrra fyrir það sem þeir fá í staðinn.

  1. Must be clearly differentiated…
   Ókei, M12 er gamalt og lífseigt vildarkerfi sem er einstakt á fjölmiðlamarkaði.

  2. Must be simple enough to succeed.
   17 mismunandi verð fyrir sama hlutinn er ekki alveg að ná þessu takmarki 🙂

  3. Must encourage the right customers…
   Sem erum greinilega ekki við sem erum svona eldheitir fyrir enska boltanum??? Og hvaða hvatning er það fyrir mig og vini mína að kaupa áskrift að Oprah og bíómyndum sem við erum allir löngu búnir að sjá?

  Bíómyndirnar það er að segja, ekki Oprah.

 77. Ég er einn af þeim sem stend við stóru orðin og er búinn að segja upp Sýn og er ekki búinn að fá mér Sýn 2. Eina leiðin til að stoppa þessa siðlausu andskota er að fá sem flesta til að segja upp áskriftum og sleppa því að fá sér Sýn 2. Það sem mér finnst mest sláandi er að þegar Pétur fékk að leika lausum hala í Íslandi í dag þá sagði hann skýrt að verðið væri ekki hátt út af því að þeir keyptu réttinn of dýrt. Núna talar hann um að þetta hafi verið dýr kaup og gefur í skyn að verðið endurspegli það. 365 hf eru alltaf að tala um að 80% af áskrifendum þeirra séu að fá Enska Boltann á svipuðu verði á þeir fengu hann á Skjá Sporti. Það sem mig langar til að vita er hvort þeir taka með starfsmenn 365 hf í þessi 80%. Samkvæmt mínum heimildum þá eru starfsmenn 365 að borga 3.200 kr fyrir Stöð 2, Sýn og Fjölvarpið. Meðan sótsvartur almúginn borgar 10.583 kr fyrir þennan pakka. Það er gott og gilt að starfsmenn fái góðan afslátt en þá má ekki telja þá með í svona prósentur. Hvað eru margir sem starfa fyrir 365 hf?

  Mér líst vel á færslu 21 þ.e.a.s. safnan saman kt yfir þá sem er búnir að segja upp áskriftum og þeim sem ætla að segja upp áskriftum og afhenda þeim hjá 365 hf og endilega láta fjölmiðla vita. Ég er til.

 78. Jón Bjarni, 67

  Í fyrsta lagi, þá ert þú kominn útfyrir það sem ég fókusa algerlega á. Þ.e. mér er alveg skítsama hvernig barátta milli fyrirtækjanna fer, að fólk segi upp áskrift hjá einu fyrirtæki og færir sig til annars. Ég er algerlega að einblína á hvernig þetta snýr að útgjöldum neytenda, fullkomlega burtséð frá því hvaða fyrirtæki þeir þurfa að skipta við. Auðvitað skil ég að þetta snerti þig verr ef þú varst/ert starfsmaður Hive, en meginþorra fólks skiptir það ákaflega litlu máli.

  Í öðru lagi, þá er vil ég taka fram að þú skekkir myndina mikið í dæmi þínu um mín 85% vs þín 60-65%, því þegar ég segi 85% á ég við allt landið, en þú þrengir þitt við markhópinn. Ef við skoðum markhópinn sem vill sjá enska boltann get ég fullyrt að af þeim sem vilja sjá enska boltann eru mun fleiri með aðgang að ADSL en 85%.

  Með öðrum orðum, þá kemst 365 aldrei undan því að þeir eru að rukka mun hærra gjald en áður fyrir a.m.k. sérstaklega marga sem vilja sjá þetta sjónvarpsefni. Fókusinn ætti kannski frekar að snúa að því sem gamla fallbyssan Peter Beardsley kom að, hvort þetta sé e.t.v. bara sanngjarnt verð. Ég er að vísu algerlega ósammála því, og hafna algerlega þeirri hugmynd að þjónustan hafi verið of lágt verðlögð. Ef fyrirtæki verðleggur eitthvað með einhverjum hætti, og getur það, þá er það gott og blessað. Sá sem tekur við þjónustu og snarhækkar verðlagið verður einfaldlega að taka ábyrgð á sínum gerðum, og þar kemur okkar þáttur inn. Við neytendur höfum vald til að kaupa ekki sjónvarpsefnið, og hvet ég ykkur öll til að stunda iðju Peters Beardsley og fara í foreldrahús eða á pöbbinn ef þið eruð í minnsta vafa um réttmæti verðlagningarinnar. Þið hin sem eruð sátt, endilega fáið ykkur enska boltann heim. Ég fæ þá kannski bara að heilsa upp á foreldra ykkar 😉

  kveðja, Biscant

 79. Þrátt fyrir alla þessa umræðu þá held ég samt sem áður að menn verði að horfast í augu við það að verðið sem hefur verið á þessu efni síðustu ár er í lægri kantinum – verðið sem það er á núna er nær raunverði…

  Annars ætla ég svosem ekkert að röfla meira hér 🙂

  Langar samt að segja frá því að þar sem ég sat á Players í gær að horfa á Fram valta yfir ÍA a la Istanbul þá fékk einn af þeim sem sat með mér símtal frá félaga sínum… ástæða símtalsins var sú að það vantar aukafólk á lagerinn hjá 365 á morgun við að henda út afruglurum .. það er víst svo mikið að gera 🙂

  Ætli Íslendingum sé ekki réttast lýst hér

 80. Þetta átti að sjálfsögðu að vera ÍA að valta yfir Fram 🙂 örlítil þynnka í gangi

Kastljósið (uppfært)

Carson til Villa? (Uppfært)