Sýn2 og fjölmiðlaþögnin

Ath.: Greininni hefur verið breytt lítillega frá upprunalegri mynd. Sjá innskot í grein. (Kristján Atli)


Fyrir þremur vikum skrifuðum við á Liverpool Blogginu pistil sem olli talsverðu fjaðrafoki. Sá pistill fjallaði um verðlagningu 365 miðla á nýju sjónvarpsstöðinni sinni, Sýn2, sem ætlað er að bera uppi sýningar á enskri knattspyrnu á komandi tímabili. Í kjölfar pistilsins sátu Pétur Pétursson, tekjustjóri 365 miðla, Skarphéðinn Guðmundson, upplýsingafulltrúi 365 miðla og Hilmar Björnsson sjónvarpsstjóri Sýnar, fyrir svörum á nokkrum stöðum og endurtóku að mestu leyti sitt fyrirfram ákveðna sakrament:

 •  Það eru langflestir áskrifendur Sýn2 að fá lægsta mögulega verð.
 • Þeir sem kvarta yfir okri 365 miðla í þessu máli eru “hávær minnihluti”.
 • Verðið er réttlætanlegt vegna þjónustu, svo sem High-Definition útsendinga og erlendrar þáttagerðar. Menn þurfa samt sérstaka myndlykla fyrir HD-útsendingar.
 • 80% áskrifenda Sýnar í fyrra voru líka áskrifendur SkjáSports (Fréttablaðið, 30. júlí)
 • 80% áskrifenda SkjáSports í fyrra voru líka áskrifendur Sýnar (Fréttablaðið, 1. ágúst)
 • SkjárSport hefðu alveg örugglega hækkað verðið ef þeir hefðu verið áfram með boltann, þannig að verðið í fyrra er ekki sambærilegt.

Yfirleitt þegar hitamál koma upp á yfirborðið í þjóðfélaginu er viðbúið að fjölmiðlar taki á því máli og reyni að komast til botns, spyrja erfiðu spurninganna. Það var því í besta falli grátbroslegt fyrir okkur á Liverpool Blogginu, og fleiri sem höfðu mótmælt, þegar við okkur blasti þögn fjölmiðla í öllu sínu veldi:

 • Ríkisfjölmiðlarnir nefndu málið ekki einu orði.
 • 365 miðlar brugðust við eftir ábendingu frá mér; Steingrímur Sævarr mætti Pétri Péturssyni í stuttu samtali í Ísland í dag þar sem Pétur fékk að halda sínu sakramenti fram algjörlega óáreittur.
 • Útvarpsþátturinn Fótbolti.net fékk þá Pétur og Hilmar Björnsson í viðtal og enn deildu þeir sakramenti sínu með okkur viðtakendunum. Óáreittir.
 • Fréttablaðið gerði þessu máli skil í einni eða tveimur stuttum fréttum en eins og hjá öðrum leyfðu þeir Pétri að segja sitt án þess að spyrja erfiðu spurninganna.

Við skulum sleppa því að reyna að komast til botns í augljósu spurningunni: 80% áskrifenda Sýnar eða SkjáSports? Hvort er það, Pétur, eða ertu búinn að vaða svo djúpt ofan í eigið kjaftæði að þú veist varla í hvaða átt þú snýrð lengur? 

Allir sem þekkja mig vita að ég er manna síðastur til að hrópa “Úlfur, úlfur!” þegar kemur að einhverjum samsæriskenningum þarna úti. En umfjöllun sú sem Fréttablaðið, Fótbolti.net og Stöð 2 gáfu málinu var að mínu mati stórfurðuleg. Það skal reyndar tekið fram að umsjónarmenn Fótbolta.net höfðu samband við okkur á Blogginu og buðu okkur að svara fyrir orð Péturs degi eftir viðtalið við hann, en þó við þökkum þeim það boð stendur eftir að við hefðum viljað fá að mæta Pétri í beinni útsendingu og spyrja hann erfiðu spurninganna sem enginn virtist þora að spyrja.

Skortur á “Íþróttaljósi” hins annars gallharða fréttamanns Henry Birgis á Fréttablaðinu var hjákátleg og maður komst ekki hjá því að spyrja sjálfan sig hvers vegna einn grimmasti blaðamaður landsins, maður sem hefur fengið á sig orð fyrir að ganga jafnvel of langt frekar en eitthvað í gagnrýni sinni á ýmis mál innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, skuli ekki hafa séð ástæðu til að taka á þessu máli. Að sama skapi gat ég ekki annað en brosað þegar Steingrímur Sævarr var gerður að nýjum fréttastjóra Stöðvar 2 örfáum dögum eftir “viðtal” sitt við Pétur Pétursson. Ég er ekki að gefa í skyn að “fjölmiðlaþögn” hans í þessu máli hafi haft bein áhrif á stöðuhækkunina, en það veit hver heilvita maður að þú ruggar ekki bátnum þegar hann nálgast land.

Innskot (Kristján Atli): Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að fella setningarnar tvær hér á undan út úr pistlinum. Það var ekki mín ætlun að veitast að persónu Steingríms Sævarrs né að gefa það í skyn að hann hefði þagað þetta mál niður til að öðlast stöðuhækkun. Enda má Steingrímur Sævarr eiga það að hann tók minni ábendingu, fjallaði um málið í beinni og endurtók þær spurningar sem við höfðum viðrað í upphaflega pistli okkar. Þannig að ég biðst hér með afsökunar á að hafa vegið að persónu Steingríms Sævarrs, en um leið stend ég við gagnrýni mína á þá ákvörðun hans og annarra fjölmiðla að leyfa hvergi ásökurum að mæta hinum ásökuðu.

Ef þetta mál hefur kennt okkur eitthvað þá er það að ástand fjölmiðla á Íslandi er frekar bágborið. Fyrir utan ríkismiðlana – sem sýndu í þessu máli sem og öðrum fyrr hversu langt frá púlsi þjóðarinnar þeir eru með fingurinn – standa 365 miðlar eftir eins og risi sem getur hreyft sig án nokkurra hindrana. Þar eru menn greinilega þaulæfðir í fyrirtækjarútínunni og hika ekki við að tvöfalda jafnvel verð á vöru sinni, öruggir í þeirri vitneskju að einu eftirmálar slíkra viðskiptahátta verða nokkrar bloggfærslur útí bæ sem gleymast jafnharðan og þær eru skrifaðar, og í versta falli eitt eða tvö “drottningarviðtöl” við sjónvarpsfólk og/eða blaðamenn sem þiggja laun hjá sama fyrirtæki og hinir ásökuðu.

Hafið það bara í huga, lesendur góðir, þegar þið lesið næsta rannsóknarpistil blaðamanna hjá Fréttablaðinu, eða horfið næst á fréttamenn Stöðvar 2 hakka í sig einhvern misgjörðarmanninn í beinni útsendingu, að það er ekki sama hvort menn heita Jón eða Séra Jón.

Hvað varðar hinn margumtalaða “háværa minnihluta” sem Pétur Pétursson talaði iðulega um í fjölmiðla”umfjöllun” þessa máls, þá er ekki úr vegi að ljúka þessum pistli á niðurstöðum könnunar sem við framkvæmdum vegna þessa máls. Í könnuninni spurðum við fólk einfaldlega hvað það þyrfti að borga á mánuði fyrir Sýn2 á komandi vetri og niðurstöðurnar voru sem hér segir:

 • Hæsta verð: 248 atkvæði eða 58% aðspurðra.
 • Lægsta verð: 30 atkvæði eða 7% aðspurðra.
 • Önnur verð: 151 atkvæði.

Alls tóku 429 manns þátt í könnuninni sem var græjuð þannig að hver tölva gat aðeins kosið einu sinni, þannig að úr varð þátttaka sem myndar að mínu mati góðan þverskurð af áhorfendum enskrar knattspyrnu. Og tæplega 60% aðspurðra þarf að borga hæsta verð! Þetta, gott fólk, er allt annað en hávær minnihluti. Þetta er hávær meirihluti, og hann var hundsaður af fjölmiðlum.

Hvað stendur þá eftir? Jú, 365 miðlar virðast hafa náð sínu fram og fólk er sennilega búið að beygja sig undir járnhælinn og kaupa áskrift, þrátt fyrir óánægju. Við erum jú háð þessu efni og þótt við vitum að verið sé að okra á okkur verðum við að borga samt sem áður. Það vissu menn hjá 365 miðlum vel og nýttu sér til hins ítrasta. Það eina sem við hin getum gert er það sem ég gerði sl. sunnudag þegar ég horfði hálfgrátandi á leik Chelsea og Manchester United í hinni árlegu keppni um Samfélagsskjöldinn. Ég horfði á þann leik í beinni útsendingu, á Sýn, í ólæstri dagskrá.

Já, áskriftarborgun fyrir Sýn2 í ágústmánuði var sannarlega vel varið.

73 Comments

 1. Skil ekki þá sem að kvarta endalaust undan þessu verði og kaupa svo áskrift. Eina sem þessir gæjar skilja er það þegar engin kaupir sér áskrift. Ég er örugglega jafn háður enska boltanum og hver annar lesandi þessarar síðu en ég ætla bara að kíkja á lókal pöbbinn og glápa þar, alveg eins og ég hef gert á Meistaradeildarleikjum síðastliðin ár.

 2. Mjög góður pistill Kristján. Þögnin er yfirþyrmandi í fjölmiðlum…og m.a.s. Mogginn og Eyjan.is sem þykjast vera með púlsinn á puttanum velta sér ekkert uppúr þessu. Kannski eru þeir of nærri sjálfir? Maður spyr.

  Það kemur ekkert á óvart að menn fái að sitja óáreittir með sinn áróður í sjónvarpi og útvarpi. Þessir menn mæta ekki í viðtöl ef þeir þurfa að mæta einhverjum andmælanda. Og það ber að hrósa lesendum þessarar síðu fyrir vel á þriðja hundrað af kommentum á færslurnar um daginn þar sem þær voru nær allar sem ein mjög málefnalegar.

  Það er mjög óvenjulegt á netinu þar sem nafnlaust skítkast tekur oft yfir. Fjölmiðlar þegja en í kringum mann heyrir maður fólk mæla með gervihnattadiskum og sportpöbbum. Og þetta mál virðist ætla að verða enn eitt klúðrið í hnappagat 365 miðla.

  Það sem mér fannst fyndnast voru samt þessar tvær greinar í Fréttablaðinu þar sem einn daginn er haldið fram að könnun hafi sýnt fram á að 80% áskrifenda Sýn hafi verið með SkjáSport og þann næsta að 80% áskrifenda SkjáSports hafi verið með áskrift að Sýn.

  Kæri Pétur Pétursson. Þú útskýrir kannski brandarann fyrir okkur hinum, hvort var það?

 3. Afar góð grein! En hvaða erfiðu spurningu vilduð þið spyrja Pétur, Kristján?

  Er ekki hægt að fá svör við þeim?

 4. Mæli með að fólk kaupi ekki áskrift af þessu og fari frekar á pöbbinn í staðinn (minni á að maður kemur ekki heim, af pöbbnum, angandi einsog öskubakki lengur).
  Fyrir mitt leyti þá mun ég ekki kaupa áskrift af neinu því sem 365 eru að bjóða upp á. No more bending over !

  Stöndum nú einu sinni saman og GERUM það sem við segjum !

  YNWA

 5. Ég hvet alla til að gera það sama og félagi minn gerði, segja upp öllum áskriftum hjá 365, þær eru nógu háar fyrir að ekki sé verið að láta fólk borga að lágmarki tæpar 2500 kr í viðbót…
  Og ekki dettur mér í hug að byrja að versla við þá.

 6. Sama hér. Sagði upp stöð 2 í sumar og ekki séns að ég endurnýji áskriftina. Maður hafði í huga að kaupa áskrift af Sýn og bjóst við að fá góðan pakka með Enska boltanum og Meistaradeildinni en þetta verð er út úr öllu korti. Pöbbinn fær mína peninga í vetur.

 7. Djöfull er ég ánægður með þá sem að eru búnir að segja upp.

  Ég sagði upp minni áskrift af sýn strax eftir úrslitaleikinn í meistaradeildinni og ef ég væri ekki að flytja út myndi mér samt sem áður ekki detta í hug að kaupa mér áskrift, frekar færi ég á pöbbinn á leikina í vetur.

 8. Stöðvar 2 áskrift til yfir 10 ára var sagt upp í sumar og í staðinn fjárfest í gervihnattardisk. Djöf… er boltinn flottur í HD 0)

 9. Svo má ekki gleyma því að uppsetningin á verðskránni er svo ‘glæpsamleg’. Þeir tala um að það kosti eingöngu u.þ.b. 2800 til að fá SYN2 miðað við M12 og eina aðra stöð (t.d. SYN).

  Sannleikurinn er sá að ef þú ætlar að fá þér SYN2 á 2837 krónur þá þarftu að kaupa SYN fullu verði (4500kr). Þeir eru færa afslátt af öðru yfir á annað til að láta þetta lýta vel út.

  Annars er ástæða fyrir þessarri fjölmiðlaþögn sú að menn innan fjölmiðlabransans vilja ekki gagnrýna hvorn annan, vegna mögulegs skorts á atvinnutækifærum. Það er vegna þess að þetta er svo lítill bransi og fólk er alltaf að skipta á milli fyrirtækja. T.d. eru MARGIR sem hafa farið frá RUV til 365 og öfugt. Þetta á einnig við um blöðin.

 10. Þeir segja svo að maður sé að borga fyrir meiri gæði en ef maður vill sjá þetta í HD þá þarf maður að borga meira fyrir leigu á nýjum afruglara. Verður fróðlegt að sjá hvaða verð þeir setja á hann.

 11. Gervihnattadiskurinn minn verður settur upp í vikunni. Einnig stend ég í því núna að færa öll mín viðskipti frá 365 (Vodafone, Securitas, Sýn).

  Viðskipti sem slaga upp í 500.000 kall á ári.

 12. Þetta er vissulega dýrt, en fyrir mig þess virði. Ég hringdi um helgina og pantaði mér Sýn2. Ég er með OG1 hjá Vodafone og hef því verið með Sýn á rúmar 2000 krónur. Sýn2 kostar mig 2800 krónur til viðbótar, þannig að fyrir mig er þetta c.a. 500 króna hækkun sem er ásættanlegt.

 13. Góður pistill Kristján og alveg sorglegt að sjá hversu lítið er tekið á þessu máli í fjölmiðlum, það vakti meiri viðbrögð hjá pressunni á sínum tíma þegar að Enski Boltinn á Skjá Einum var sendur út með enskum þulum !
  Annars horfði ég líka á samfélagsskjöldinn og Liverpool leikinn í beinni í stofunni heima hjá mér, bara ekki með aðstoð 365 Viðurstyggða og þess vegna ekki með skítabragð í munninum : )

 14. Þorsteinn, hvað ertu þá að borga á mánuði til 365 ef ég má forvitnast ?

 15. Ætlaði að vera með Sýn2 í vetur, en eftir yfirlegu yfir heimilisfjármálunum, sá ég að það var hreinlega ekki ásættanlegt. Hef aldrei verið með neina áskrift hjá 365 og hefði því þurft að taka allan 4.400 kr. pakkann, sem er hreinn viðbjóður… Pöbbinn fær þá mitt atkvæði í vetur, því miður. Reykleysið gerir það þó án efa ásættanlegra.

 16. Þið piltar sem eruð að fá ykkur gervihnattadisk, þ.e. sky sports pakkann, þá munið þið missa af öllum þeim leikjum sem eru spilaðir á laugardögum kl. 15. Það tel ég vera mjög mikinn mínus. Þar af leiðandi, eins og hefur margoft verið minnst á hér á þessari fínu síðu, þá mun Sýn 2 sýna mun fleiri leiki en Sky Sports. Aftur á móti má deila um gæðin, en magnið er meira hjá Sýn 2.

  PS. Sky pakkinn hér í UK kostar á mánuði 34 pund (um 4500 kr), að vísu er meistaradeildin og aðrir íþróttaviðburðir innifaldir í þessu verði (svipað og Sýn).

  En auðvitað er skiljanlegt að maður sé ósáttur við þessa miklu hækkun frá Skjásport yfir til Sýnar 2.

 17. Er búin að vera að fylgjast með umræðunni hérna og ákvað að kommenta. Vil byrja á að þakka fyrir þarfa umræðu hérna. Við á mínu heimili erum í Og1, eins og hann Þorsteinn (14) og ég var búin að hringja í þjónustuverið í júlí til að bæta Sýn2 við áskriftina að Sýn. Stelpan reiknaði verðið út fyrir mig, við áttum að fá einhvern afslátt út á að vera með Sýn (sem kom á rúmlega 2þús. vegna Og1 tilboðs). Þrátt fyrir að vera dýrt, sáum við fram á að ráða við bæði. Nema hvað, nokkrum dögum eftir símtalið mitt fengum við bréf heim, um að Og1 tilboðið á Sýn væri að hætta og Sýn myndi því hækka aftur í venjulegt verð, sem sagt um 2þús. Þar með sagði ég Sýn upp, en verð að viðurkenna að við tókum Sýn2, meika ekki pöbbinn allar helgar. Það gekk þó ekki þrautalaust, kostaði mig 3 símtöl að losna við Sýn og fá bara Sýn2 og alltaf var reynt að pranga inn á mann Stöð 2. Þetta er dæmi um vinnubrögðin hjá þessu fyrirtæki og maður skammast sín fyrir að láta bjóða sér þetta…..

 18. ástæðan fyrir verðlagningu 365 er vegna þess að menn eins og þú pistlahöfundur greiða fyrir vöruna

 19. Það er rétt að benda á að það er ekki einsdæmi að “fréttaflutningur” fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar af íþróttaviðburðum taki fyrst og fremst mið af hagsmunum fyrirtækisins. Ef maður fengi allar sínar fréttir þaðan hefði maður t.d. ekki vitað af því að síðustu vetrarólympíuleikar hefðu farið fram, þótt frammistaða Íslendinga þar hefði verið óvenju góð. Ólympíuleikarnir voru einfaldlega þagaðir í hel, að því er virðist vegna þess að 365 hafði ekki sýningarrétt af þeim.
  365 virðist haga umfjöllun sinni (alla vega um íþróttir) með þessum hætti, og enski boltinn er því miður bara nýjast adæmið um þetta. Það skýrir auðvitað ekki þögn annarra fjölmiðla, ekki síst í ljósi gúrkutíðarinnar þar sem maður hefði haldið að blaðamenn hefðu tekið “alvöru” frétt fagnandi.
  Í þessu máli eru auðvitað mörg atriði sem hefðu verðskuldað að vera frétt. Auk þeirra atriða sem margrædd hafa verið hér á síðunni er ekki síst sú staðreynd að 365 auglýsir verð í heilsíðu blaðaauglýsingum sem ekki er raunverulega hægt að fá samkvæmt heimasíðu þeirra. Ef þetta er ekki beinlínis ólögleg auglýsing er þetta a.m.k. á mjög gráu svæði (samkvæmt digitalisland.is er lægsta verð sem hægt er fá Sýn 2 á 3073 krónur, sem er hærra en auglýst verð).

 20. Þorsteinn, þú ert að fá önnur svör en ég. Mér var tjáð að Og1 tilboðið á Sýn væri hætt og að ég þyrfti að borga Sýn á fullu verði (til þess að fá Sýn2 á tæpan 3.000 kall).

  Siggi, ég veit að 15:00 leikirnir á laugardögum eru ekki sýndir á Sky. En ég er hins vegar ennþá með óbragð í munninum eftir að 15:00 leikirnir á laugardögum voru sýndir á Stöð 2 (síðast þegar 365 voru með enska boltann). Ég nenni ekki lengur að púkka upp á svona vinnubrögð.

  Því vel ég gervihnattaáskrift.

  Ekki endilega af því að það er ódýrara. Þetta er einfaldlega spurning um prinsipp.

 21. Ég verð að játa að ég hefði haldið að þeir sem væru að selja gervihnattadiskana myndu nýta sér tækifærið og vera meira áberandi á auglýsingamarkaðnum. Ef til vill hafa þeir meira en nóg að gera og sjá ekki þörfina í að auglýsa diskana.
  Ég er einn af þeim sem er á báðum áttum hvort ég eigi að hefja viðskipti við 365 og taka enska boltann, aðgangur að boltapöbbum úti á landi eru af skornum skammti, þannig að ef maður vill sjá einhvern fótbolta á maður ekki marga kosti í stöðunni.

 22. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að ég hef ekki greitt fyrir Sýn2 og ætla mér ekki að gera það. Ég er ekki með samning við ogVodafone, né aðra 365 miðla. Í pistlinum hér að ofan gerði ég hins vegar ráð fyrir því að ansi margir myndu láta sig hafa það að borga fyrir Sýn2 þrátt fyrir óánægju, af því að fólkið í kringum mig virðist flest vera á þeim nótum.

 23. Kallinn (20) segir það sem ég kunni ekki við að segja : )
  einare (23) ég hef fullan skilning á þinni stöðu þar sem ég er af landsbyggðinni sjálfur þó að ég hafi búið í Rvk s.l. 12 ár en ég á fjölskyldu á landsbyggðinni og veit að margir eiga ekki margra kosta völ, en það er hægt að setja upp gervihnattadiska á landsbyggðinni líka ; )

 24. Spurning um að ráða “atvinnumótmælendur” í þetta verk þar sem svo ótrúlega margir virðast vera tilbúnir í þessa rasstöku 365 Viðurstyggða !

 25. Eftir að hafa lesið svörin hér að ofan, fór mig að gruna að ég hefði fengið rangar upplýsingar hjá þjónustufulltrúa hjá 365. Hringdi aftur og það er eins og Margeir segir hér að ofan að OG1 tilboðið er að hætta í lok þessa mánaðar, þannig að Sýn + Sýn2 kostar c.a. 6800, sem er orðið alltof mikið. Þannig að það verður aðeins Sýn2 þennan veturinn. Kannski ég fari bara að fjárfesta í disk eins og margir hér að ofan.

 26. síðan er líka eitt bullið… er með Sýn í gegnum Síma-afrugla, en þeir setja ekki Sýn+ inná Síma-myndlykilinn einhverra hluta vegna þrátt fyrir að sú stöð eigi að vera inní M12 bindingu (samt eru þeir með Sirkus+ og Stöð2+ inná Símamyndlyklinum)

  Það sem mér finnst slappast hjá 365 í Stóra EnskaBoltaMálinu er:

  +Að bjóða EKKI uppá bindingu eingöngu út keppnistímabilið (ætti að vera nóg pláss á Sýn fyrir æfingaleiki, auk þess sem ekki er brennandi eftirspurn eftir þeim…. hvað þá OLD BOYS fótbolta!!!)

  +Verðblekkingarnar, þ.e. að auglýsa viðbótargreiðslu fyrir Sýn2 í stað rétta verðs vörunnar

  +Verðið?? nú veit ég ekki hvað þeir borguðu fyrir boltann, né hversu marga áskrifendur þarf til að covera þann kostnað… þannig að það er erfitt að deila á verðið sem slíkt. En ef kaup á ‘gömlu efni frá Premier League’ eins og Hilmar Bjöss kallar þetta + OldBoys fótbolta hækkaði verðið mikið þá finnst mér það óásættanlegt, enda efast ég stórlega um að eftirspurnin eftir stöðinni aukist vegna einhvers uppfyllingarefnis.

 27. Sammála Stebba (færsla 21). Fréttir af úrslitum í enska boltanum komu yfirleitt ekki fram í íþróttafréttum á stöð 2 fyrr en 365 fékk réttinn. Sama með formúluna. Í þokkabót er erfitt að kalla þetta fréttatíma, þar sem fréttatíminn er sponsoraður.

 28. Hörður Magnússon,

  Hvernig er það, nú gekkst þú mjög hart fram á sínum tíma og gagnrýndir Skjá Einn fyrir að ætla að vera með enska þuli á leikjum. Sagðir svo að þarna væri verið að hverfa til baka til fornaldar og fá menn (t.d. Andy Gray) sem vissu ekkert meira um enska boltann og þú og fleiri.
  Hvernig verður þessu háttað hjá Sýn2? Ætlið þið einungis að hafa íslenska þuli? Eða ætlið þið, eins og mér skilst, að hafa enska þuli lýsandi sumum leikjanna??

  Endilega svaraðu mér þar sem ég veit að þú lest þetta. Þið væruð svolítið mikið að skjóta ykkur í fótinn ef þið ætluðuð einnig að “vanrækja” íslenska tungu eins og þið sögðuð sjálfir.

 29. Ég er rétt eins og Nonni með þetta í gegnum símaafruglara (breiðbands). Ég ákvað að kaupa einn mánuð til prufu og vá gæðin. Það var varla hægt að horfa á leikinn í gær hann var svo óskýr. Nú er ég bæði með Plasma og LCD skjái á mínu heimili og þetta var hreint út sagt ömurlegt.

  Sem dæmi var varla hægt að lesa hvaða lið væru að spila og algerlega ómögulegt að sjá hvaða tala væri þarna fyrir aftan nöfn liðana, 0,1 eða 3 ?

  Var þetta líka svona hjá þeim sem eru með digital ísland ruslið ?

 30. Þorsteinn Gunnarsson var sá sem gekk harðast gegn ensku þulunum á Skjáeinum og meðal annars kærði þá fyrir þetta. Nú virðast 365 menn ætla að gera slíkt hið sama og væri gaman að vita skoðanir íþróttadeildar 365 á því. Það er nokkuð ljóst að það er eina vitið til þess að sýna 5 leiki í einu að hafa enska þuli á allavega fjórum leikjum og því voru þeir eingöngu að búa til vesen til þess að reyna að skemma fyrir samkeppnisaðilanum og hafa af okkur áhorfendum enska boltann.
  En varðandi kommentið sem kom t.d. frá Hödda Magg á þessum tíma að ensku þulirnir væru engu fróðari en þeir íslensku þá var ekki annað hægt en að brosa þar sem allir íslenskir þulir eru með þá ensku í eyrunum þegar þeir lýsa leikjum. Hvers vegna ætli það sé:)
  Þetta er leiðinlegt komment og ég biðst afsökunar en mér fannst bara fyndið að rifja þetta upp þar sem menn voru að tala um þetta.
  Ég sjálfur er einn af þeim sem borga bara uppsett verð og þegi. Nenni ekki að fá mér disk og finnst þess virði að borga þessa áskrift jafnvel þó að ég láti frá mér hendi og fót. Verð svo sáttur ef ég fæ boltann í HD.

 31. Auðvitað er þetta hækkun og það er mjög súrt. Sjálfur er ég þó töluvert ánægðari með að þetta sé komið yfir á 365 heldur en þegar þetta var hjá Símanum. Ef ég hefði viljað fá Enska boltann á sínum tíma þar þá hefði ég þurft að taka líka ADSL-áskrift hjá Símanum því að breiðbandið var ekki í hverfinu mínu og ég sem tiltölulega ánægður OG1 viðskiptavinur hjá Vodafone var ekkert sáttur við það.

  Mér fannst það líka hrikalega subbulegt þegar fólk var búið að binda sig í 10 mánaða áskrift hjá SkjáSporti á ákveðnu verði tóku þeir allt í einu upp á því að hækka verðið vegna þess að þeir byrjuðu útsendingar á ítalska boltanum. Mér finnst eðlilegt að þegar þú skrifar undir 10 mánaða samning þar sem samið er um ákveðið verð sé það látið standa út þann samningstíma sem er skrifað upp á. Ég get því ekki séð að það sé mikill munur á kúk og skít í þessu dæmi.

  Svo finnst mér frekar skrýtið þegar menn eru að gagnrýna 365 fyrir það hvernig þeir stóðu að málum síðast þegar þeir voru með sýningarrétinn. Sannleikurinn er samt sá að það var stórbylting í þjónustu við okkur áhugamenn um enska boltann. Muna menn í alvörunni ekki þegar menn gátu séð 1 leik í viku á RÚV?

  Svo finnst mér það frekar fyndið þegar menn eru að segja að menn eins og Andy Gray hafi verið að lýsa leikjum hjá SkjáSporti. Ég sá nokkuð flesta leiki Liverpool að undanförnu og nokkrir þeirra voru með enskum þulum en aldrei Andy Gray. Málið er að Andy Gray lýsir yfirleitt stærstu leikjunum og það eru einmitt leikirnir sem íslensku þulirnir taka, eðlilega. En þetta eru kannski hártoganir.

  Ég er að nokkru leyti sammála því að fréttaflutningur að þessu efni hefur verið frekar farsakenndur. Hins vegar er ég ekki viss um að það sé svo mikið fréttefni að verð á enska boltanum sé hátt. Mér finnst það miklu meiri frétt að kílóverð á kjúklingabringum skuli vera yfir 2000 krónur og fín nautasteik kosti sjaldan undir 3500 krónur kílóið út úr búð nema að því gefnu að hún sé innflutt frá Nýja Sjálandi. Einnig finnst mér það furðulegt að við skulum vera eina Evrópuþjóðin sem getur ekki keypt sér þokkalega vínflösku undir 1000 krónum eða að geta ekki fengið eitt bjórglas undir 500 krónur á pöbb og svo framvegis.

  Ég vil þó taka það fram að ég er ekki 100% ánægður með þetta. Mér finnst það til dæmis mjög skrýtið að ég sem er búinn að vera M12 viðskiptavinur að bæði Stöð2 og Sýn í nokkur ár og OG1 viðskipavinur hjá Vodafone í nokkur tíma skuli þurfa að binda mig í 12 mánuði að Sýn2 til þess að geta fengið Sýn2 á skítsæmilegu verði. Einnig hefði ég haldið að (eins og hefur komið fram hér áður) fyrir venjulegan viðskiptavin væri nóg að binda sig í 10 mánuði til að fá þetta með þessum auma 5% afslætti sem fæst við 12 mánaða bindingu.

  Ég bý ekki svo vel að geta gengið á pöbbinn og því eina leiðin að keyra og því ekki kostur á að leyfa sér þann munað að fá sér bjór yfir leiknum. Ég kýs því að borga áskrift að Sýn2 á 3293 krónur eða 2799 krónur eins og þeir 365 menn setja þetta fram á sinn vafasama hátt og get fengið mér bjór að eigin vali heima hjá mér sem ég borga u.þ.b. 200 krónur fyrir sem nóta bene er líka allt of dýrt. Mér finnst það hreinn og klár dónaskapur þegar ráðist er á menn eins og mig sem hafa þann kostinn skástan að greiða þessa áskrift og kennið okkur um að verðið sé svo hátt.

  Takk fyrir.
  Kveðja,
  Þröstur Erlingsson

  P.s. og áður en þið byrjið að kenna mig við 365 miðla þá vinn ég ekki þar og á engra hagsmuna að gæta í framgangi þess fyrirtækis. Ég er bara einn af þeim lágværa minni/meiri-hluta (maður veit ekki lengur hver er í minnihluta:-) ) sem er “tiltölulega” sáttur við það fyrirkomulag sem er á málunum núna.

 32. Þröstur: “Svo finnst mér frekar skrýtið þegar menn eru að gagnrýna 365 fyrir það hvernig þeir stóðu að málum síðast þegar þeir voru með sýningarrétinn.”

  Finnst þér skrítið að ég skuli hafa gagnrýnt það að laugardagsleikirnir voru á sínum tíma sýndir á Stöð 2? Og hvað sýndu þeir á Sýn á meðan? Hvort var það æsispennandi golfmót eða stillimyndin? Skiptir svo sem ekki máli því að mínu mati er hvoru tveggja álíka spennandi sjónvarpsefni.

  Af hverju var ekki einfaldlega ekki hægt að sýna laugardagsleikina á báðum stöðvum? Það hefði kallast góð þjónusta. Markmiðið með þessu var augljóst – að fá sem flesta áskrifendur Sýnar til að kaupa Stöð 2 líka. Svo sem ekkert út á það markmið að setja – en ég sem neytandi hef val. Mitt val er að hætta að kaupa fótbolta (og ýmislegt annað reyndar) af þessu fyrirtæki.

  Og btw, síðasta vetur gastu verið Og1 viðskiptavinur OG séð boltann í gegnum ADSL hjá Símanum.

 33. Þröstur, ég held að gagnrýnin hafi einkum beinst að þeim sem lýsa verulegri óánægju með verðlagninguna en ákveða samt að borga áskrift, frekar en þá sem borga upsett verð sáttir.

  Ég skil ekki alveg hvað fólk hefur að gera með aðgang að öllum leikjum í enska boltanum. Horfa ekki flestir aðallega á sitt lið spila og lítið meira (nema kannski ef aðalkeppinautarnir spila innbyrðis)? Hvers vegna í ósköpum ætti fólk að borga þetta svínslega verð ef það getur valið þá leiki sem því hentar og séð þá á næsta boltabar?

  Ef menn borga bara og þegja, þó drulluósáttir, eru þeir ekki að gera neitt annað en að leggja blessun sína yfir verðið. Hið eina rétta er að 365 fái þetta beint í hausinn aftur. Þeir borguðu yfirgengilegt verð fyrir sýningarréttinn til þess að hafa betur en Síminn í samkeppninni. Það er algjör óþarfi að ósáttir neytendur leggi blessun sína yfir það með því að kaupa áskrift af þeim.

 34. Ef þið væruð að reka fyrirtæki þá hljótið þið líka að vilja fá viðskiptavinina til að kaupa sem mest af ykkur. Það er eðli fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Þetta eru fyrirtæki sem eru að basla við að skila hagnaði (og gengur yfirleitt frekar erfiðlega) en ekki góðgerðastofnanir. Ég veit að auðvitað hefði fólk viljað á þeim tíma hafa alla leikina á sömu stöðinni en þeir sáu hag sinn í því að snúa þessu svona. Ef við lítum á það hvernig þetta byrjaði þá byrjaði Stöð2 bara á því að sýna einn leik í viku alveg eins og RÚV hafði gert áður. En svo var þjónustan bætt enn frekar og fleiri leikir voru sýndir á Sýn. Að sjálfsögðu kostaði það meira en menn þurftu bara að velja og hafna. Svona var staðan bara þá og mér finnst ekkert athugavert við það.

  Og btw, síðasta vetur gastu verið Og1 viðskiptavinur OG séð boltann í gegnum ADSL hjá Símanum.

  Já, en samkvæmt því sem mér var sagt hefði ég þurft að flytja línuna yfir til Símans og þar með að taka á mig þrefalda minnkun á hraða, úr 6MB tengingu í 2 MB tengingu og það var bara annað sem ég sem stór netnotandi gat ekki sætt mig við.

 35. “Muna menn í alvörunni ekki þegar menn gátu séð 1 leik í viku á RÚV?”
  Hvernig málaflutningur er þetta Þröstur, bæta bölið með því að benda á eitthavð annað ?
  Það er margt að hér á landi og við getum öll verið sammála um að verð á áfengi og kjúlla er fáránlegt, en það bætir samt ekkert verðlagningu Sýnar2 !
  Auðvitað er eðlileg þróun í þessu öllu, alveg eins gæti ég spurt þig hvort þú munir virkilega ekki eftir því gríðarstökki sem varð þegar að boltinn fór yfir á Skjá Einn frá Sýn ?
  “Mér finnst það hreinn og klár dónaskapur þegar ráðist er á menn eins og mig sem hafa þann kostinn skástan að greiða þessa áskrift og kennið okkur um að verðið sé svo hátt”
  Hvar var verið að ráðast á þig ?
  Auðvitað er frábært að það séu til menn sem geta sætt sig við svona verðlagningar en ég er ekki einn af þeim : )

 36. Guðmundur Friðrik: Ég er ekki bara að tala um það sem hér hefur skrifað. Afsakið ef það kom ekki fram. Maður hefur lesið ýmislegt, m.a. á hinu háæruverðuga spjallborði Liverpoolklúbbsinns þar sem menn sem ganga að þessum afarkostum “365 mafíunnar” eru kallaðir svikarar við málstaðinn og annað álíka broslegt.

  Ég get alveg sagt fyrir mig að ég kem til með að horfa á miklu fleiri leiki en bara Liverpool leikina. Sennilega eins mikið og kona og barn leyfa 🙂 Við sjáum til hvernig þær samningaviðræður en það hlýtur að gefa augaleið að ég verð að fá eins mikið fyrir peninginn og ég mögulega get 😀

 37. Þröstur segir: “Mér finnst það miklu meiri frétt að kílóverð á kjúklingabringum skuli vera yfir 2000 krónur og fín nautasteik kosti sjaldan undir 3500 krónur kílóið út úr búð nema að því gefnu að hún sé innflutt frá Nýja Sjálandi. Einnig finnst mér það furðulegt að við skulum vera eina Evrópuþjóðin sem getur ekki keypt sér þokkalega vínflösku undir 1000 krónum eða að geta ekki fengið eitt bjórglas undir 500 krónur á pöbb og svo framvegis.”

  Alveg hjartanlega sammála þér Þröstur. Og við gerum aldrei neitt í þessu sem neytendur. Þess vegna er þetta svona.

  Svo loksins þegar einhverjir segja nóg komið við einhverju þá dissarðu það? Það er rosalega skrýtið. Eigum við þá sleppa því að kvarta yfir þessu útaf því að það er svo margt annað sem er fáránlega verðsett?

  Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að bjór og matur er dýr ef ég fer út að borða. Ég get þó valið um fjöldan allan af misdýrum veitingastöðum eða kosið að versla í Bónus og eldað heima.

  Ég skil ekki þessa röksemdafærslu þína að mótmæla engu vegna þess að það er svo margt annað til að mótmæla.

  Svo vill nú svo skemmtilega til að eigendur Bónus eíga jú líka ákveðna sjónvarpsstöð 🙂 Ef verðið á mjólk hefði hækkað 88% í Bónus í sumar hefði ég án vafa kvartað við verslunina og íhugað strax að kaupa mér belju.

 38. Hafliði: Ég ætla alls ekki út í nein leiðindi hérna og ekki að svara öllum sem kommenta á þetta sníkjublogg mitt 🙂 Einnig geri ég mér grein að það eru ekki allir sammála mér. Ég vil bara koma fram til að sýna að það eru ekki allir hundóánægðir með þetta nýja fyrirkomulag. Vissulega hefði ég viljað hafa verðið lægra en mér finnst varla hægt að gagnrýna Ríkissjónvarpið eða Morgunblaðið fyrir að hafa ekki flutt fréttir af því hvað þessi þjónusta sé dýr.

  Það sem ég er bara að benda á er að það sem Sýn gerði á sínum tíma var bylting í þjónustu við okkur boltaunnendur á sínum tíma. Auðvitað veit ég að það sem SkjárSport svo gerði var önnur bylting en ég get ekki séð að Síminn/SkjárSport sé þessi æðislega góðgerðastofnun sem mér finnst sumir vera að gera hana að 🙂

  Mér finnst líklegt að þetta verði mitt síðasta komment á þessa færslu. Ég bara vona að ég hafi ekki sært neinn, enda var það ekki markmiðið heldur eins og ég hef áður sagt sýna fram á að við erum nokkrir sem eru bara þokkalega sáttir við þetta nýja fyrirkomulag.

 39. Það er ekki hægt að skrifa svona pistil og kaupa sér svo samt áskrift eins og pistlahöfundur gerir. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn, menn rukka það verð sem þeir telja að skili sér hámarkshagnaði. Ef menn væla en borga samt gengur það upp. Ef menn væla og borga ekki gengur það ekki upp. Svo einfalt er það.

 40. Daði: Sorrý, ég var búinn að lofa að hætta en verð að fá að svara Daða. Þetta var mjög skemmtilegt komment hjá þér Daði 😀 Ég skil hvað þú ert að fara en bara til að ítreka, ég er ekki að gagnrýna þá sem eru að mótmæla, síður en svo. Eins og ég hef áður sagt hefði ég mjög gjarnan viljað hafa verðið lægra. Ég er bara að segja það að mér finnst hæpið að þetta sé eitthvað sérstakt fréttefni á ríkisfjölmiðli eða öðrum fjölmiðlum sem vilja halda einhverjum standard.

  Ég er farinn að sjá lausnina núna. Ég þarf að kaupa mér bruggverksmiðju 😀

 41. Þröstur, ef þú selur bjórinn á 100 kr þá panta ég hérmeð 20 kassa fyrir veturinn 🙂

 42. Spyr sá sem ekki veit, munið þið nokkuð hvort Sýn hafi lækkað verðið þegar þeir misstu enska boltann? Bara velta því fyrir mér því þeir tala um það að það hafi verið eðlileg þróun á milli ára að hækka verðið. Hvað með að lækka verðið á milli ára ef þú getur ekki boðið lengur uppá vöruna sem þú varst að borga fyrir?

  Mér finnst eðlilegt að gagnrýna hæsta verðið sem 365 bjóða uppá. Og nota bene það er eina verðið sem hægt er að tala um því það er ekki hægt að gefa sér forsendur fyrir öðru skv skoðunarkönnuninni sem framkvæmd var á þessari síðu. Háværi meirihlutinn langar í appelsínu en ekki ávaxtakörfu. En eins og staðan er í dag þá var 365 tilbúið að borga “yfirsprengt” verð fyrir sýningarréttinn á þessu frábæra sjónvarpsefni. En í dag er vald neytendans meira en oft áður með tilkomu internetsins. Og staðan í dag er einnig sú að núna situr neytandinn í dómarasætinu og á eftir að fella dóm sinn. Hversu örvæntingarfullir eru neytendur að fá að horfa á boltann? Eitt er víst, ef neytandinn segir NEI, þá er 365 í djúpum skít!

  Kannski erum við Íslendingar orðnir svona ríkir að við getum leyft okkur þetta en fyrir mitt leyti þá þarf ég að kreista veskið ansi mikið til að finna aur fyrir þessa neyslu.

  BTW ég er ekki búinn að ákveða mig ennþá :Þ

 43. Ég vil vekja athygli á að greininni hefur verið breytt frá sinni upprunalegu mynd. Við hér á Liverpool Blogginu höfum sett okkur það mottó að vera alltaf sanngjarnir og að halda okkur við rök en ekki óstuddar dylgjur eða jafnvel ósannindi í gagnrýni okkar, og eftir vandlega íhugun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég fór yfir þá línu í málsgrein þeirri er varðar Steingrím Sævarr. Til að við hér á Blogginu getum með góðri samvisku gagnrýnt aðra verðum við að sýna gott fordæmi og því viðurkenni ég hér með að ég hafði rangt við og bið Steingrím Sævarr afsökunar. Ég stend hins vegar við restina af greininni.

 44. Nei hæ!

  Gaman að vita til þess að Kristján Atli sé að gera alla vitlausa á meðan maður er í rólegheitunum í Skotlandi. Ég var að koma heim.

  Allavegana, hérna er bloggað um þessa færslu og þar eru tvær skemmtilegar vitleysur. Fyrir það fyrsta er Kristján Atli sagður vera “Guðmundsson” og svo segir í endann:

  Það verður spennandi að sjá hvort 365-menn svara Kristjáni en bloggsíða Liverpool-aðdáendanna fær að sögn yfir 10.000 heimsóknir á dag og nú þegar hafa 31 ummæli verið skrifuð við bloggfærsluna.

  10.000 á dag eru nú fullmiklar ýkjur. 15.000 á viku væri nær lagi. 🙂

 45. Þar sem menn hafa verið að halda því fram að (áframhaldandi) hátt verð á kjúkling og nautakjöti sé meiri frétt en “stóra Sýn 2 málið” verð ég að benda á eftirfarandi (sem er þó ekki tæmandi listi):

  1. Um er að ræða umtalsverða hækkun á verði í “stóra Sýn 2 málinu” á meðan verðlag landbúnaðarafurða er gömul frétt. Breytingin er frétt. Ef verð landbúnaðarafurða myndi hækka svona mikið væri það líka frétt. Fréttin væri ennþá meiri ef framleiðendur væru að reyna að breiða yfir hækkunina með blandi af hálf-sannleik og blekkingum.

  2. Sýn 2 selur vöru sem er aðeins til í 10 mánuði með skuldbindingu um greiðslu fyrir 12 mánuði. Það er frétt. Ef kjötframleiðendur færu að selja nautakjöt með sama fyrirkomulagi, t.d. að taka upp þá reglu að afhenda bara 10 kíló fyrir hver seld 12 kíló væri það frétt líka. Í slíku tilviki myndu væntanlega allir blaðamenn landsins sjá að raunverulegt verð væri 20% hærra en það verð sem kynnt væri og átta sig á að slík framsetning er frétt.

  3. Sýn 2 auglýsir verð sem stendur engum raunverulega til boða. Það er frétt. Ef kjötkaupmaður auglýsir 2.700 króna kílóverð á úrvalskjöti, en er þegar á reynir einungis að selja kílóið á mun meira er það líka frétt. Sérstaklega ef hann fer raunverulega lægst í 3.100 krónur og þá aðeins ef menn borga fyrir 12 kíló þótt þeir fái aðeins 10 (sem myndi þýða að raunverulegt lágmarksverð væri ca. 3.700 krónur) auk þess sem þeir þyrftu að kaupa einnig alls 36 kíló af öðru kjöti til að fá það verð.

  Það er enginn að halda því fram að “stóra Sýn 2 málið” sé stæsta frétt ársins. En að enginn blaðamaður sjái ástæðu til að skoða málið í algerri gúrkutíð, þegar “hjón á Akureyri borðuðu fisk í kvöldmat” er 2 mínútna frétt, er auðvitað stórfurðulegt.

 46. Pabbi fékk símtal í síðustu viku frá 365 þar sem honum var boðin áskrift af sýn 2. Honum var boðin sýn 2 á 2800 kr þar sem hann er að borga fyrir stöð 2 í rvk og sýn og stöð 2 út á landi. ‘i rauninni eru þetta 3 stöðvar, sýn og stöð 2 út á landi og stöð 2 í rvk. hann fær hins var ekki afslátt af þessum 3 stöðvum.
  365 segja að hann borgi bara fyrir 2 stöðvar.

 47. Ég hef sagt hér áður að ég hef ekki áhuga að láta taka mig í görnina af 365 miðlum og ætla því ekki að kaupa áskrift af þeim til að horfa á enska boltann, ég finn líka í kringum mig að fjölmargir hafa sagt upp sínum áskriftum en aðrir (eftir viðbrögðum hér að dæma) virðast ætla að láta troða á sér hvað þetta varðar.

  En mig langar til að spyrja – hefur engin/n tekið eftir auglýsingum Sýnar2 þar sem þeir bjóða 30% afslátt af fyrsta mánuðinum, ótrúlega bíræfið þar sem tímabilið (deildin) byrjar ekki fyrr en 11. ágúst.

 48. Skilaboð til þeirra sem tuða um hátt verð en kaupa sér síðan áskrift hjá 365: ???????

 49. Mér finnst þetta verð fyrir neðan allar hellur. Einnig finnst mér vert að benda á eitt atriði í þessari umræðu, en ég hef fengið það staðfest að t.d. á austurlandi muni áskrifendur aðeins sjá þrjár stöðvar (af fimm í RVK td.) en borgi samt sem áður sama uppsprengda verð og er hjá þeim sem búa í höfuðborginni.

  Alveg hreint fáránlegt að mínu mati, skert þjónusta ætti að kalla á minna verð.

 50. Ég mun ekki vera áskrifandi að 365, sýn eða sýn 2 til þess að sjá boltan í vetur.. ég mun notfæra mér þjónustu pubbana í bænum í reyklausu umhverfi með bjórglas í hönd og vera félagslyndur í leiðinni.. Ég læt ekki okra á mér !

 51. Góður pistill. Sammála öllu.
  Það er augljóst og þjóðinni ekki til frambúðar að hafa alla fjölmiðlana á einni hendi.

 52. Er ekki einn meðlimur Liverpool-bloggsins starfsmaður 365 og var Kristján Atli ekki þar í hlutastarfi í fyrra? Þið hljótið nú að geta spurt einhvern innanbúðarmann hvers vegna enginn þorir að tjá sig? Afsakið ef ég fer með rangt mál.

 53. Hvernig væri að allir sem eru ósáttir hittist og skili inn afruglurum og segi upp áskrift af öllu hjá 365 á sama tíma til að mótmæla hvort sem þeir eru búnir að borga eða ekki og eru bara mjög ósáttir við þessa verðnauðgun. Er það eitthvað?? Myndu menn mæta??? Góður pistill annars og um að gera að láta þetta ekki kjurrt liggja.
  YNWA

 54. Rakst inn á þessa umfjöllun í gegnum nokkra hlekki frá Mogga blogginu.
  Góð og tímabær umræða og frábært að sjá hvað menn hér á þessu bloggi eru málefnalegir í athugasemdum.
  Leyfi mér að benda á blogg mitt um þetta mál hér: http://karlol.blog.is/blog/karlol/entry/273723/ þar sem ég bendi á hugsanlega ástæðu þess að 365 fékk þá niðurstöðu út í könnun sinni að afsláttarverð myndu gilda um 80% áskrifenda. Ég sé ekki að sá punktur hafi komið fram í umræðunni hér á undan, en hefði áhuga á að vita hvort það hafi ekki verið fleiri en ég sem voru á þessum tíma bara með Sýn vegna bindingarákvæðis í samningi til þess að fá HM 2006 á viðráðanlegu verði?
  Ég fyrir mitt leyti mun sakna Enska boltans í vetur og mun afar lítil viðskipti eiga við 365 (kaupi reyndar einhverjar bíórásir með gamlar myndir fyrir frúna 🙁 ; gæti alveg eins keypt þetta hjá Símanum, en þá þarf líka net-afruglarann sem kostar sitt líka).

 55. Sammála Símon í kommenti 61. Ég er til í að segja upp allri áskrift við 365, Sýn og Vodafone. Ef fleiri eru til í þetta þá má bóka mig með. Svona gjörðir virka miklu betur en smá tuð á netinu sem verður gleymt á föstudaginn næsta.

  Hvernig er þetta með gervihnattabúnað, ég bý í leiguhúsnæði og má því ekkert bora í veggi innan né utandyra. Er einhver möguleiki fyrir mig að fá mér gervihnattabúnað?

  Annars eignast ég mér bara minn uppáhalds Liverpool pöbb annan en Players.

 56. Góður punktur í kommenti 53.

  Hver er ekki til í að fá 30% afslátt af ágústmánuði þegar deildin byrjar ekki fyrr en…jú 11. ágúst 🙂

 57. Hefur engum dottið í hug að fara með þessi mál í Neytendasamtökin? Þessi auglýsingaherferð er a.m.k. á gráu svæði þar sem er auglýst verð sem enginn getur fengið.

 58. Mér er ekkert farið að litast á blikuna…. það getur orðið að maður verður orðinn hinn versti alki við að fara á pöbbinn 1-2 í viku 😉
  Læt mig þó hafa það í staðinn fyrir að láta taka mig upp í þurrt enn eina ferðina enda orðinn helaumur í þann enda eftir áratuga reynslu við þetta fyrirtæki
  Lolli (63) ekki bíða eftir fleirum heldur taktu af skarinu… það að bíða eftir einhverjum öðrum að gera þetta er helber vitleysa…
  sama á við alla sem eruð að hugsa um þetta (hvort sem þið ætlið að fá ykkur enska boltann eður ei)… það þýðir ekkert að bíða eftir hinum og sjá hvað gerist… gerðu upp hug þinn við sjálfan þig og staddu við þá ákvörðun… mamma þín er ekki hjá þér til að sjá um þetta 🙂

 59. 62 Karl Ó skrifaði:
  “…..en hefði áhuga á að vita hvort það hafi ekki verið fleiri en ég sem voru á þessum tíma bara með Sýn vegna bindingarákvæðis í samningi til þess að fá HM 2006 á viðráðanlegu verði?”

  Ég veit um marga einstaklinga sem einmitt voru með Sýn síðasta vetur vegna bindingarákvæðisins vegna HM2006. Ég var einmitt einn af þeim. Skyldu þessir herramenn hafa haft það í huga?

 60. Hvernig væri að spila á þetta:
  Leiga á bílskúr: kr. 20.000 á mán. (0 kr ef þú bakkar bara frúarbílnum út)
  Áskrift Sýn 2 og Sýn 7.112 á mánuði.
  Topp 42″ plasma skjár 300.000.
  Þrír sófar úr góða hirðinum, 15.000.
  Stofnkostnaður og rekstur í ár: um 650.000.
  Tuttugu gestir tvisvar í viku borga 500 kall “pay pr. view”; koma sjálfir með popp og bjór, gerir 800.000 í tekjur á tíu mánuðum.
  Niðurstaðan frítt gláp, góður félagsskapur, frítt plasmatæki, og 150.000 fyrir ferð á Anfield…
  Ef ég ætti bara bílskúr…

 61. Sælir félagar.
  Ég tók sýn í gegnum OG1 á sínum tíma og borgaði 1990.
  Einhverjum mánuðum síðar var mér tilkynnt um hækkun uppí 2200.
  Sætti ég mig mið það og hélt áfram að horfa á meistaradeildina.
  Hringt var í mig um daginn af þjónustufulltrúa 365 og tilkynnt að OG1 tilboðið myndi senn ljúka, og bauð mér þetta “frábæra” tilboð í staðinn.
  “Ef ég kæmi strax yfir í sýn2 þá myndi ég fá heilar 5% í afslátt og greiða einungis 4170 og binda mig auðvitað í 12 mánuði”.
  Bað ég kauða vel að lifa og tilkynnti honum það að ég læti ekki taka mig þurrann í rassgatið, þetta væri rán og sagði upp sýn um hæl. Og bað hann að segja sínum yfirboðurum að þeir væru ræningjar.
  Ég get ekki séð betur en að þetta sé rán um hábjartann dag og því miður virðast flestir horfa í hina áttina.

  Það er morgunljóst að Allinn fær minn aur í vetur 😉

  Hafið það gott félagar og segjum upp allir sem einn áskriftunum hjá 365 miðlum

 62. Ég bý í Noregi en þar sem ég er “bilaður” Liverpool aðdáandi þá kíki ég oft inn á hinar ýmsu síður um liðið. Eftir að ég flutti út fyrir 10 árum hef ég oft undrast hvað landar mínir virðast viljugir til að láta okra á sér, oftast án þess að segja eða gera neitt. Það er auðvitað það sama í gangi í Noregi og á Íslandi, að ein sjónvarpsstöð er með einkarétt á enska boltanum. Munurinn er bara sá að hér þarf annað hvort að vera með gervihnattamóttakara eða kapalsjónvarp (mögulegt í öllum stærri borgum). Hins vegar er verðið mjög ásættanlegt. Það kostar ca 2300 ISK á mánuði að fá enska boltann, en til viðbótar kemur ársleiga á afruglara sem ekki er mjög há. Ef þú þarft disk, þá eru ávallt í gangi tilboð á þeim, t.d. að þú kaupir disk á eina krónu gegn bindingu í 12 mánuði. Nú búa auðvitað fleiri í Noregi en á Íslandi en það er bara ein skýring á lægra verði. Canal Digital, rétthafi enska boltans, brenndi sig nefnilega mjög illa á HM í Japan/Kóreu 2002. Þá keyptu þeir sýningarréttin og seldu aðgang að leikjunum í sér pakka. Verðið var alveg út úr kortinu og til viðbótar voru leikirnir snemma á morgnana. Í stuttu máli sögðu norskir neytendur þeim að hoppa upp í rassgatið á sér, hrúguðu sér frekar á pöbba og stöðin tapaði stjarnfræðilegum upphæðum. Eftir þetta hafa þeir ALDREI gert knattspyrnuglápurum lífið leitt, verið með þessa fáránlegu pakkadíla eða verðgildrur. Þeir gera það með ýmislegt annað en EKKI enska boltann.

  Ég vildi bara benda ykkur á þetta þarna heima. Þetta þarf í raun bara að gera einu sinni. Segið upp öllu draslinu hjá þessu fyrirtæki og horfið á boltann á pöbbnum í nokkra mánuði. Þá eru endurskoðendurnir komnir í málið og búnir að útbúa sorglegt Excel skjal með öllu tapinu. Þetta er það eina sem þetta lið skilur og trúið mér að það mun ekki prófa svona nokkuð aftur.

 63. Ég er sammála flestu sem sagt hefur verið hér, jafnvel þó talsmenn 365 reyni að haldi því fram að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Þegar 365 kálaði eina samkeppnisaðila sínum með því að ná enska boltanum vöknuðu strax grunsemdir um að þegar 365 mundi nota einokunaraðstöðu sína á íþróttaefni til að hækka pakkann. Ari Edvald sjónvarpsstjóri, neitaði því fyrir nokkrum mánuðum svona til að lægja öldurnar en þessar grunsemdir reyndust auðvitað á rökum reistar.

  Sjálfur væri ég gjarnan til í að horfa á enska boltann heima hjá mér í vetur, en sem eini áhorfandi íþróttaefnis á minu heimili get ég ómöglega réttlætt þennan kostnað og ég veit að það á við um marga fleiri. Forsvarsmenn 365 virðast vita upp á sig skömmina með þvi að búa til torskildan verðlista þar sem menn þurfa að gera bindandi samning um að borga fullt verð fyrir heilt ár, jafnvel þó deildin standi aðeins í níu mánuði. Af fyrri reynslu að dæma má síðan gera ráð fyrir því að hluti af enska boltanum (bikarkeppnir) verði sýnt á Sýn.

 64. “Í dag voru staðfestir samningar um kostun Sýnar 2 til næstu þriggja ára. Kostunaraðilar eru Vodafone, 10-11, Iceland Express og vátryggingafélagið Vörður. Ari Edwald, forstjóri 365, sagði við þetta tækifæri að kostendur tryggðu að Enski boltinn bærist um land allt á hagstæðum kjörum, að því er segir í tilkynningu.” Þetta er óþolandi. Þessi útsending var í boði…………Af hverju þarf að kaupa áskrift ef þetta eða hitt er í boði einhvers? Af hverju eru ekki nöfn áskrifenda lesin upp líka?

 65. Úrlið farið, orðstír deyr /
  enska á Sýn þó tórir /
  en hversu lengi þrauka þeir /
  364?

4 Pings & Trackbacks

 1. Pingback:

 2. Pingback:

 3. Pingback:

 4. Pingback:

1-1 jafntefli við Feyenoord í síðasta æfingaleik

Úrvalsdeildarspá: Hin Liðin