Real Madríd Spánarmeistarar 2007

Síðustu tvær umferðir spænsku Úrvalsdeildarinnar hafa verið eins og ferskur andardráttur meðal áhorfenda stóru deildanna þriggja í Evrópu. Það er einfaldlega langt síðan maður hefur horft á jafn spennandi og dramatíska lokaleiki efstu liðanna. Fyrir viku, þegar um mínúta var eftir af leikjum, voru Barcelona-menn með aðra hönd á titlinum en misstu unninn leik niður í jafntefli um leið og Real Madríd jöfnuðu sinn leik. Í kvöld voru Barcelona með aðra hönd á bikarnum í um 78 mínútur, þökk sé yfirburðasigri gegn botnliði Gimnástic á meðan Real Madríd voru að tapa á heimavelli gegn Real Mallorca. En aðeins fimm mínútum síðar voru Real komnir í 3-1 og fögnuðurinn var hafinn á Bernabeau.

Sem sagt, spænska leiktímabilinu lauk í kvöld, ef frá er skilinn bikarúrslitaleikur Sevilla og Getafe um næstu helgi. Kvöldið í kvöld var ekki bara hápunkturinn fyrir alla unnendur spænsku knattspyrnunnar, heldur er óhætt að segja að flest stórlið Evrópu hafi beðið eftir að þessi dagur kláraðist. Í kjölfarið á lokum spænsku Úrvalsdeildarinnar mun væntanlega allt fara af stað um víða Evrópu og ef eitthvað er að marka gulu pressuna í Englandi og víðar verða væntanlega mörg stór nöfn á ferðinni til nýrra liða.

Börsungar töpuðu titlinum sem þeir hafa hampað síðustu tvö ár og það mun væntalega kosta einhverjar blóðsúthellingar í sumar. Real Madríd unnu en missa samt sem áður menn á borð við Roberto Carlos og David Beckham, þannig að þeir verða í kauphug. Villareal, Valencia, Sevilla og fleiri stórlið munu berjast við að halda í sína bestu menn, á meðan allt bendir til að Milito-bræður yfirgefi Real Zaragoza. Gabriel Milito er að sögn á leiðinni til Juventus í sumar og eftir jöfnunarmark sitt gegn Recreativo de Huelva í kvöld lyfti framherjinn Diego Milito upp treyju sinni svo að í ljós kom bolur sem á stóð, “Bless Zaragoza!”

Það mun allt fara á fullt á morgun og það er ljóst að Liverpool verða í hringiðunni á því öllu, sérstaklega öllu slúðri um framherja frá Spáni. Eto’o, Forlán, Villa, Dani Alvés, Milito, og fleiri verða allir í fréttunum og væntanlega verður Liverpool talið mögulegur kaupandi að þeim öllum. Hver niðurstaðan verður, og hver þeirra er líklegastur (sjálfur veðja ég á Diego Milito) verður svo tíminn að leiða í ljós.

En sem sagt, einni mest spennandi deildarkeppni Evrópu í mörg ár er lokið. Real Madríd unnu og fráfarandi meistarar Barcelona geta bara sjálfum sér um kennt. Mikið óskaplega væri gaman ef maður gæti upplifað svipaða spennu á Englandi eftir ellefu mánuði, og enn skemmtilegra væri það ef Liverpool væru í titilbaráttunni fram á síðustu mínútu eins og þrjú lið Spánar voru í kvöld.

Það verður fróðlegt að lesa fréttasíðurnar á Englandi í fyrramálið. Sofið vel, á meðan þið getið, mig grunar að rússíbaninn sé við það að detta fram af hengifluginu.

25 Comments

 1. Real átti þetta skilið, engin spurning, voru besta liðið. Börsungar með einhverja hrokagikki innanborðs, með enga liðsheild. Það gekk upp í fyrra, en ekki í ár, sem betur fer. Held að við verðum að gefa Capello stórt kredit, hann sannar sig enn og aftur sem besti þjálfari sinnar kynslóðar. Maðurinn vinnur hvar sem hann stígur fæti niður.

 2. Ég varð ekkert svakalega fýldur þó svo að ég þoli ekki Real Madrid. Ég hef trú á Börsungum sterkari næsta ár. Menn verða jú að trúa því alltaf að besta liðið hafi átt skilið sigurinn, en hvar annars staðar í Evrópu eru það innbyrðis viðureignir liða sem skipta máli varðandi stöðu liða í deildum, en ekki markatalan? Skv. þeirri tölfræði sem ég er vanur þá var markatala Barcelona miklu betri og í öðrum deildum hefðu þeir unnið.

  En það verður jú fróðlegt að fylgjast með leikmanna-pælingum næstu daga! …

 3. Yndislegt að sjá Real Madrid vinna titilinn. Ég hata ekkert lið meira en Barcelona! Yndislegt segi ég…yndislegt!!

 4. Frekar rich að tala um Barca sem hrokagikki á sama tíma og menn fagna sigri Real Madrid…
  Á endanum átti hvorugt þeirra skilið að vinna, Valencia og Sevilla voru bæði betri og hefðu átt að vinna en aðeins ótrúleg meiðslaóheppni (Valencia) og óskiljanleg ákvörðun að spara menn fyrir UEFA leiki (Sevilla) kom í veg fyrir það.

 5. Barca þarf að hreinsa út núna og þá eru meiri möguleikar á að þeir selji Eto !

 6. Segðu mér Kjartan hvaða hrokagikkir eru í Real Madrid? Börsungar eru með menn einsog Eto’o og Messi, need I say more? Ljúft að sjá að stuðningsmenn Real létu Eto’o heyra það í miðborg Madrid í gærkvöldi.

 7. Af því að þú ert að gefa í skyn með kommentinu þínu að það séu engir hrokagikkir í Real Madrid.

  Ég gæti byrjað að nefna menn einsog Guti, Roberto Carlos, etc. Sé ekki hvernig menn einsog Eto’o og Messi eru eitthvað verri en þeir.

 8. Hvernig eru Guti og Roberto Carlos hrokagikkir? Við vitum vel hvað Eto’o og Messi hafa gert (ef þú veist það ekki, þá skal ég upplýsa þig ef þú biður um það).

  Annars erum við greinilega ósammála, þú hatar Real Madrid einsog þú lýstir hér yfir, ég styð Real Madrid en hata ekki Barcelona. Mér finnst hins vegar vera hrokagikkir í Barcelona-liðinu og hef góða ástæðu fyrir því.

 9. Ég myndi reyndar segja að Real Madrid sem stofnun sé mjög hrokafullt lið. Af leikmönnum er nóg að nefna Guti, Carlos, Helguera, Casillas + Calderón, Capello, Mijatovic og Butragenho [sic].
  Eto’o er vissulega frekar hrokafullur enda snargeðveikur en ég veit ekki alveg hvað Messi hefur sér til saka unnið fyrir utan að vera besti knattspyrnumaður í heimi.

 10. Viltu fara aftur til fortíðar Kjartan? Ég var nú bara að tala um Barcelona-liðið í dag. Við getum alveg minnst á menn einsog Stoichkov, Maradona og Romario til að nefna þá nokkra, en til hvers?

  Það sem fer í taugarnar á mér eru þessir tveir einstaklingar (Eto’o og Messi) sem hafa hegðað sér einsog fífl og réttlæta það að vera kallaðir hrokagikkir. Ég væri til í að sjá réttlætingu á því að einhver meðlimur Real Madrid í dag sé meiri hrokagikkur en þeir tveir.

  Barcelona-liðið er frábært og hefur verið það svo lengi sem ég man eftir mér og ekki vil ég því neitt illt, nema bara að þeir slái ekki við mínum mönnum í Real Madrid.

  Þú segir að Real Madrid sem stofnun sé mjög hrokafull? Þér má vel finnast það, en hver eru rökin? Öfund? Þeir eru sigursælasta lið Evrópuknattspyrnunnar, hvorki meira né minna, þeir eru sigurvegarar, hafa verið það og verða það áfram.

 11. Það er nú alltaf svoleiðis að annað hvort styður þú liðið eður ei !
  Þar sem að þetta var sett hér inn get ég ekki annað en tekið undir það að ég hreint út sagt elska þetta REAL lið og ekki skyggir á að þeir kunna að bæta við sig leikmönnum (ekki það að þær fjárfestingar séu allar góðar… 😉 ) Þeir kunna hreinlega að eyða í leikmenn !!
  Tökum þeirra stefnu til fyrirmyndar og kaupum Milito (báða bara), D.Alaves, Mancini og Simao og leggjum svo til atlögu að enska titlinum 🙂

  Til hamingju Real aðdáendur, nær og fjær (og “up-yours” Barca fans) !
  YNWA

 12. Ehh, ef menn myndu vita eitthvað um sitt lið þá myndu þeir vita að Mijatovic og Butragenho eru báðir í forsvari fyrir Real Madrid. Ég var ekki að nefna þá sem random fyrrv.leikmenn.
  Tek þessu síðasta kommenti sem kaldhæðni, innkaupastefna Real hefur verið skelfileg síðustu tímabil. Láta Redondo, Morientes, Makelele, Hierro alla fara og kaupa svo hóp af dofnandi stórstjörnum ekki af neinum knattspyrnulegum ástæðum heldur viðskiptalegum. Má ég þá frekar biðja um lið sem kaupir Mark González og Bolo Zenden fyrir hvert tímabil.
  Ítreka samt að mér finnst hvorki Real né Barca átt þennan titil skilinn enda Real sennilega lélegasta lið til að vinna deildina síðan Depor 99/00 sem tapaði 10 leikjum á því tímabili.
  Vil líka lýsa yfir ánægju minni að Athletic Bilbao hafi haldið sér uppi! Aupa Athletic! 😀

 13. Ég fýla bæði Real og Barca en ef þið eruð að efast um hrokan í Messi þá hafið þig greinilega ekki séð seinna markið hans í gær, þar STAL hann boltanum bókstaflega af tánnum á Deco (sem er líka leiðinda hrokagikkur) þegar hann var að pota boltanum af marklínunninni… !

 14. Að sjálfsögðu veit ég að Predrag er í forsvari fyrir klúbbinn auk þess að vera fv. leikmaður, það sama má segja um Gamminn, en hann er núna hættur, hætti þegar Perez fór. Ég verð því að viðurkenna á mig þau mistök að ég misskildi þennan ‘+’ til að aðskilja leikmenn frá stjórnarmönnum (þó að þú gerir þau mistök að telja Gamminn sem slíkan). Verð ég þá ekki að væla yfir því að menn eigi að vita hverjir séu stjórnarmenn eða ekki?

  Ég get vel verið sammála þér í því að stefna Florentino Perez gekk ekki upp, árangurinn sannar það.

  Aftur bið ég þig um að sýna fram á að einhverjir af núverandi leikmönnum Real Madrid séu meiri hrokagikkir en Messi og Eto’o.

  Og hvaða lið átti þá skilið að vinna þennan titil ef hvorugt tveggja efstu liðanna (með jafn mörg stig) átti að vinna? Liðið í 3. sæti með 5 færri stig, eða Valencia með 10 færri stig (sbr. komment þitt að ofan)? Þú hlýtur að vera grínast, ég tek því allavega sem slíku. Ef Real Madrid var svona lélegt og átti ekki skilið að vinna titilinn, hvað réttlætir þá að Sevilla eða Valencia ættu titilinn frekar skilið með miklu færri stig? Það liggur í augum uppi að liðin voru slakari en Real Madrid, annars hefðu þau innbyrt fleiri stig. Ég trúi því hreinlega ekki að ég sé að eyða orðum í jafn augljósa hluti. Þú hlýtur að geta gert betur en þetta Kjartan?

 15. Valencia lenti í miklum meiðslum á miðjum vetri og unnu á meðan ekki í einhverjum 6-7 leikjum í röð en fóru svo á run, þeir spiluðu betur í vetur en Real og Barca.
  Sevilla var að berjast í 3-4 keppnum og komust í úrslit í tveimur stærstu og tóku þá furðulegu ákvörðun að hvíla menn í deildinni fyrir UEFA-keppnina. Þeir voru mun betri en Real og Barcelona.
  Barcelona og Real áttu ekki einn leikmann á milli sín sem stóð upp úr á tímabilinu (fyrir utan mögulega Messi) á meðan að Silva, Villa (Valencia) og Alvés, Navas og Kanouté (Sevilla) voru setting the league alight.
  Við getum nöldrað í hvorum öðrum þar til við fáum blöðrur á puttana. Real og Barca voru slök í vetur og eiga ekki eftir að fara lönd né strönd næsta vetur nema þau stokki upp í hópnum. Vörnin hjá Real sérstaklega minnir á Liverpool-vörnina þegar Ruddock, Bjornebye, Babb og félagar voru hlægja fótboltaáhorfendur hér á árum áður.

 16. Ég get alveg tekið undir það að Real og Barca voru slök í vetur, en það þýðir ekki að vera með einhverjar afsakanir um meiðsli og aðrar keppnir hjá hinum liðunum. Það eru stigin sem telja og þó svo að Real og Barca hafi verið slök þá voru þau samt betri en liðin fyrir neðan. Það eru 38 leikir í deildinni og ef Sevilla og/eða Valencia voru betri þá áttu þau að sanna það á stigatöflunni, næg voru tækifærin.

  En nú er ég hættur að væla 🙂

2 milljónir

Bellamy, Mancini og Milito (uppfært)