Sabrosa, Malouda, Bellamy, o.sv.frv.

Fréttir dagsins herma að Rafa Benítez sé að stilla mið sitt í aðrar áttir eftir að Jean-Michel Aulas, formaður Lyon, sagði að Florent Malouda myndi kosta að minnsta kosti 17m punda. Liverpool Echo skýra frá því í dag að þetta þýði að Rafa Benítez muni frekar reyna að kaupa Simao Sabrosa á u.þ.b. 11m punda en að borga umframverð fyrir Malouda.

Miðað við það sem maður les á netinu virðist fólki þykja þetta fáránleg vinnubrögð hjá Aulas, en nýleg saga af leikmannamálum Lyon bendir til annars. Þeir hafa síðustu tvö sumur selt sína heitustu leikmenn á vel yfir markaðsverði; sumarið 2005 seldi hann Michael Essien til Chelsea fyrir 26m punda og í fyrrasumar seldi hann Mahamadou Diarra til Real Madrid fyrir u.þ.b. 17m punda. Þá hefur hann í gegnum tíðina selt leikmenn á borð við Steve Marlet, Steed Malbranque, Edmilson og Olivier Bernard á talsvert háum verðum, þannig að hann veit greinilega hvernig á að fá gott verð fyrir leikmenn og hefur tölfræðina sér til stuðnings. Það er vitað um áhuga Arsenal og Chelsea á honum, auk Liverpool, og því þykir manni nokkuð ljóst að Aulas fær sennilega þessar 17m fyrir kauða, eða í öllu falli ekki mikið minna.

Hvað þetta þýðir fyrir Liverpool veit ég ekki alveg. Ef Sabrosa kemur í staðinn fyrir minna fé er erfitt að vera mjög svekktur, þar sem hann er ekki síðri leikmaður en Malouda að mínu mati og jafnvel reyndari ef eitthvað er, en samt situr eftir í manni súrt bragð sem maður losnar ekki við. Þetta súra bragð stafar af því að þvert á öll loforð nýju eigenda Liverpool virðist sem við eigum ekki fyrir 17m punda kantmanni. Og ef það er staðreynd held ég að menn geti gleymt því að liðið sé að fara upp í 20m+ fyrir framherja.

Það er mikið verið að giska út í loftið á spjallsvæðum netsins þessa dagana. Menn tala um allt frá 35m punda fyrir Eto’o og niður í 9m punda fyrir Owen, allt frá 17m punda fyrir Malouda og niður í 7m punda fyrir Mancini hjá Roma. Hvað verður og hverjir koma verður að skýrast með tímanum og ég ætla fyrir mitt leyti ekki að panikka eða byrja að gagnrýna menn áður en sumarið er úti. En Tom Hicks og George Gillett skulu hafa það á hreinu að þeir verða vissulega dæmdir af verkum sínum þann 1. september næstkomandi og ef niðurstaða sumarsins, hvað varðar kaup á leikmönnum sem Rafa vill fá, verða eitthvað annað en ásættanleg verður allt vitlaust í Liverpool-borg og víðar (þ.m.t. á þessari síðu).

Ég hef undanfarið verið að gæla við þann möguleika að Liverpool bæti engum fleiri framherjum við sig í sumar, eftir að Andriy Voronin kemur. Hvað myndum við segja ef Bellamy yrði kyrr í stað þess að víkja fyrir manni eins og Eto’o, Tevez, Torres eða Milito eins og menn hafa verið að gæla við? Nú hefur John Williams, formaður Blackburn Rovers, bætt sínum fimm sentum í hattinn. Hann segist ekki hafa hugmynd um hvort Bellamy sé til sölu eða ekki en að hann hafi áhuga á honum ef svo sé, án þess þó að geta tryggt að hann eigi fyrir honum.

Við vitum um áhuga fleiri liða á Bellamy, svo sem Aston Villa, Newcastle og West Ham sem eru kannski það lið sem er líklegast til að borga uppsett verð fyrir hann ef ákveðið verður að selja hann. Það er þó eins og stendur ekkert víst að hann fari. Ef við rifjum upp hvað Rafa sagði daginn eftir úrslitaleikinn í Aþenu þá staðfesti hann strax að Bolo Zenden og Mark Gonzalez mættu fara, en hann sagði ekkert um Bellamy. Blöðin leiddu líkum af því í kjölfarið að hann væri falur fyrir 12m punda og ég held að hann fái að fara fyrir svo háa upphæð, en eins og ég segi þá bendir orðleysi Rafa í garð Bellamy (samanborið við Gonzo og Bolo) til þess að það sé ekkert öruggt að hann fari.

Ég held persónulega að Rafa sé að bíða með að leyfa Bellamy að ræða við önnur lið eftir því að hann tryggi sér nýjan framherja fyrst. Ef Rick Parry nær samningum um kaup á framherja fljótlega gætum við séð Bellamy skunda í viðræður við önnur lið strax í kjölfarið, en ég held samt að Rafa vilji halda Bellamy þangað til allt er orðið öruggt. Þannig að ef þetta sumar breytist í einhverja martröð og Rafa fær engan af þeim framherjum sem hann hefur væntanlega sett á óskalista kæmi mér ekkert á óvart ef Bellamy væri ennþá í rauðri treyju þegar septembermánuður gengur í garð.

Spurningin er, hvernig myndi manni líða með slíka niðurstöðu? Burtséð frá þeirri gagnrýni sem nýjir eigendur myndu fá fyrir brotin loforð, hvað myndum við gera ef Voronin, Lucas og Leto væru einu mennirnir sem kæmu inn í sumar? Væri slíkt lið líklegt til stórverka á næsta ári? Ég er til dæmis sannfærður um að Bellamy á miklu meira inni en hann sýndi á síðasta tímabili, en myndi hann hafa geð í sér til að leggja allt í sölurnar fyrir velgengni á næsta ári vitandi að hann er þarna bara af því að Rafa gat ekki fengið betri mann í hans stað?

Þetta verður allt að koma í ljós. Enn eru yfirgnæfandi líkur á því að Bellamy fari, auk Bolo, Gonzo, Dudek og Fowler, og ég bara trúi því ekki að Rafa fái ekki allavega einn kantmann og svo þann framherja sem hann leggur mesta áherslu á að fá. Ég lofa ykkur því allavega að ef nýju eigendurnir svíkja Rafa (og stuðningsmennina) og ganga á bak orða sinna um fjárstuðning í sumar verður allt vitlaust á þessari síðu, sem og alls staðar annars staðar.

En það verður vonandi ekki. Örugglega ekki. Ég bara trúi því ekki.

24 Comments

  1. Simao er ágætiskostur fyrir kantmann, en er hann ekki aðallega titlaður sem hægri kantmaður? Þurfum við ekki að fjárfesta í vinstri kantara, t.d. Malouda eða Silva. Bara pæling, getur vel verið að hann sé jafnfættur.

  2. Simao Sabrosa er jafnfættur, getur spilað báðum megin og skotið með báðum fótum en ég held að hann sé aðallega réttfættur samt. Þetta er svona svipað og hjá t.d. Luis García, sem er aðallega örfættur en getur neglt á mark með báðum og því spilað báða kantana jafnvel. Þannig að ef Sabrosa kemur til okkar væri hann kannski fyrst og fremst hugsaður sem vinstri kantmaður en getur leyst aðrar stöður líka, svo sem hægra megin og frammi.

    Malouda hins vegar er frekar einfættur vinstrifótarmaður. Ekkert verri fyrir vikið, en hann er ekki jafn fjölhæfur og Simao.

  3. Já, við verðum að vona það besta.

    Ég verð samt að viðurkenna það að ég fer að verða pínu stressaður ef ekkert fer að gerast. Að Benitez þurfi að sætta sig við 2-3 val á leikmönnum enn eitt sumarið vegna peningaskorts. Ég bara vona svo innilega að það verði ekki niðurstaðan. Okkar allra vegna og ekki síst fyrir Gillet og Hicks, það verður allt brjálað ef þeir eiga ekki eins mikinn pening eins og lofað var til kaupa leikmenn.

    Maður verður víst að anda rólega, en þessi bið og óvissa er alveg að fara með mig.

  4. ef mig minnir rétt þá var talað um að hr.Benitez fengi 40 miljón punda til leikmannakaupa!!!!!!!

  5. Enn og aftur þarf Liverpool Football Club að sætta sig við annað en þeirra fyrsta kost!

    Ef þetta verður niðurstaðan að menn séu ekki tilbúnir að bæta við 3-5 milljónum fyrir manninn sem þeir vilja númer 1 þá verð ég brjálaður.

    Þetta segir kannski allt sem segja þarf um hvernig staðan er í dag ef menn geta ekki borgað 17 milljónir fyrir leikmann sem er gríðarlega þarftur fyrir liðið af því að hann kostar einhverjum 3-5 milljónum of mikið!

    Ætli það hafi kannski bara verið best að hafa Moores áfram eftir allt saman? Alla vega virðist fátt vera að breytast frá hans tíð og hann mun alltaf hafa það fram yfir þessa Kana að hann elskaði klúbbinn eins mikið og hægt var. Ef að kanarnir koma ekki með meiri pening inn í þetta en þetta þá græt ég Liverpool stuðningsmanninn Moores mikið.

  6. Rafa er allavegana ekki búinn að segja upp, þannig að hann hlýtur að hafa fengið loforð um eitthvað. Bascombe veit ekki allt. Hann hefur haft rangt fyrir sér sirka milljón sinnum.

    Ég var nú alltaf að gæla við það að við myndum kaupa Malouda OG Simao.

    Ég er að reyna að panic-a ekki, en þetta er voðalega erfitt. Verst að það er enginn HM keppni til að róa mann niður í sumar. En við sjáum reyndar að Chelsea, Arsenal, Real Madrid, Barcelona, AC Milan, etc etc hafa ekkert gert ennþá á markaðinum.

    Eina sem hefur gerst er að Man U hefur keypt tvo unglinga sem geta orðið góðir eða geta floppað og miðjumann, sem enginn Liverpool aðdáandi myndi vilja sjá í Liverpool liðinu. Þannig að maður þarf varla að panic-a enn.

  7. Já og það verður líka að hafa í huga tvennt: fyrst, þá geta leikmannasamningar verið tímafrekir og því er vel hugsanlegt að vinnan sé þegar komin á fullt en taki bara tíma, og svo hitt að tímabilið á Spáni er ekki einu sinni búið, en eðlilega má búast við að Rafa vilji herja fyrst á þann markað í leikmannakaupum. Kannski vill hann t.d. reyna fyrst við Daniel Alves, David Villa, Diego Milito eða Samuel Eto’o og er að bíða eftir að boltinn á Spáni hætti að rúlla?

    Málið er bara að við vitum ekkert, og svo virðist sem enginn af fréttamönnunum ytra (Bascombe þarmeðtalinn) viti neitt meira en við hin. Það er biðin sem er að fara með fólk.

  8. ?Skil þessi læti ekki alveg? Hvað vita menn nema að það sé búið að ganga frá kaupum á leikmönnum úr spænsku deildinni? Það gerist ekkert fyrr en sú deild klárast og það er væntanlega vegna þess að Benitez er að skoða möguleikana þar. Benitez hefur ekki verið mikið fyrir það að gaspra um þá leikmenn sem hann vill og hver segir að Malouda sé númer 1 á listanum? Það er líka hárrétt sem Einar Örn bendir á; ManUtd er eina liðið sem hefur eitthvað gert í leikmannakaupum og það er ekki eins og þeir hafi keypt einhverjar stórstjörnur – þeir eru allavega ekkert líklegri til að spara sig í ensku deildinni en Lucas og Leto. Owen H er svo að mínu mati bara meðalmiðjumaður.

    Ég hugsa að ef Benitez hefði ekki fengið loforð um að stuðning í leikmannamálum þá hefði hann aldrei verið áfram – Mér finnst því algjör óþarfi að fara á taugum strax, ætla ekki að pirra mig á aðgerðaleysi fyrr en i fyrsta lagi viku eftir að spænsku deildinni líkur

  9. Nákvæmlega, Kristján. Það er nefnilega það sem kemur manni á óvart að undanförnu, það er að Bascombe hefur í raun enga hugmynd um hvað er að gerast. Ég man nokkra leikmenn sem komu án nokkurs fyrirvara og svo sannarlega án þess að Bascombe kæmi með grein um þá: Lucas, Voronin, ungversku strákarnir og Leto.

    Semsagt allir sem við höfum keypt í sumar hafa komið án nokkurs fyrirvara og án þess að við höfum verið að spá í þeim.

    Það sem gerir biðina erfiða er yfirlýsingagleði Rafa og eigendanna um að von væri á einhverjum stjörnum innan nokkurra daga og svo framvegis. Þeir hafa byggt upp væntingarnar.

  10. Ég held að við getum algerlega afskrifað flesta þá leikmenn sem hafa verið í umræðunni. Rafa er búinn að sýna það margoft að hann kaupir leikmenn sem aldrei hefur verið minnst á.

    Held að það sé taktík hjá honum að “leka” út einhverjum nöfnum til að villa um fyrir öðrum liðum og líka til að sýna raunverulegum seljendum að hann hafi kosti í stöðunni.

    Allevega vona ég það :-S

  11. Tek undir þetta með Bascombe. Hann virðist bara vera í copy-paste rugli þessa dagana. Samanber slúðrið um Diego Forlan. Greinin hans um það mál var nákvæmlega eins og sú sem kom út á vef Times deginum áður.

    Keep the faith 😀

  12. Ég tel enga ástæðu til að vera hellast í geðdeyfð í dag vegna hluta sem eru tómar vangaveltur og mjög líklega ekkert til í.
    Eins og áður hefur komið fram mun lítið sem ekkert gerast fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi og jafnvel ekki einusinni þá.
    Ég hef fulla trú á að við verðum meira en sáttir eftir sumarið : )
    En ég var að velta fyrir mér, er ekki Michael Owen laaangbesti kosturinn fyrir LFC ?
    Algerlega dýrkaður af stuðningsmönnum, þekkir liðið og allt í kringum það og svo í bónus yrði Geirharður fyrirliði gríðarlega hamingjusamur strákur !
    Og er það ekki einmitt eins og við viljum hafa hann ?
    Ég segi kaupum Owen á 9 mills, það er varla hægt að gera betur.

  13. Mér finnst einhvern veginn eins og það sé búið að ganga frá 2-3 kaupum og það verður ekki tilkynnt fyrr en í 1. lagi eftir helgi og jafnvel ekki fyrr en að menn mæta til æfinga á Melwood. Rafa hefur ekkert verið að flíka því þegar að hann hefur verið að kaupa menn, ef að hann veit að málin eru klár að þá er hann alveg rólegur og er ekkert að auglýsa það fyrr en honum hentar.
    Hef svo sem ekkert fyrir mér í því en eigin tilfinningu um það en ég allavega er kominn í sumarfrí og ætla mér að vera rólegur í því, treysti því að fréttaleysið frá Anfield sé af hinu góða:-)

  14. Ég reyni af bestu getu að panikka ekki, en ég get ekki gert að því að mér líður smá pínu illa yfir því að ekkert skuli vera “nokkuð traust” með okkar leikmannakaup. Nýju eigendurnir lofuðu peningum, þeir segjast styðja plana Benitez, en svo þegar maður heyrir komment eins og að það eigi ekki að eyða peningum eins og “drunken sailor” … þá er jú gott að vita af því að þar fari ekki peningahálfvitar á ferð, en til að ná árangri þá verðum við að fá okkar fyrstu kosti, þá kosti sem Rafa vill, án þess þó að um himinháar upphæðir sé að ræða (eins og t.d. 35 milljónir fyrir E’too – persónulega kysi ég Owen miklu frekar á 9 millur). En ef 17 millur fyrir góðan kantmann eru taldar of há upphæð, ef Rafa eða nýju eigendurnir telja að viðkomandi einstaklingur sé ekki þess virði … þá mun Liverpool aldrei ná Che og Man.

    Peningar eru auðvitað ekki allt … hjartað er langstærst hjá Liverpool og ég er svo stoltur út af því. En hjartað hefur ekki fleytt okkur í almennilega baráttu um enska meistaratitilinn í alltof langan tíma … þá verðum við að hugsa til buddunnar.

    Auðvitað verður sumarið spennandi og leikmannakaupin áhugaverð í sumar. En vitur maður sagði fyrir skömmu, að það væri eins gott að klára sem mest af leikmannakaupunum strax, svo þetta færi ekki út í hið ömurlega kapphlaup undir lok frestsins og á endanum missum við að manni, vegna hækkunar á verði um örfáar millur (var ekki einhver að tala um Simao)?

    Maður vitnar auðvitað bara í Lebowsky : “Calmer than you are … ” (en ætli maður sé ekki ögn spenntari samt 🙂 )

  15. Var ekki einhver mjögsvo áreiðanlegur Liverpoolbúi að gera það í skóna um daginn að kaup á Henry væru frágengin? Já og að allt væri að verða vitlaust þar í borg vegna þess orðróms? Var sú saga bara úr lausu lofti gripin og blásin út af einhverjum vitleysingum, eða var eitthvað til í því?

  16. Það sem menn líka gera sér grein fyrir er að ef við aðdáendur fáum fréttir frá liðinu um að nóg sé til af peningum, þá heyra það öll önnur lið í heiminum líka – og þá sérstaklega gaurar einsog Lyon stjórnarmaðurinn, sem hefur náð gríðarlega háu verði fyrir sína leikmenn.

    Allar tölur um sumareyðslu eru ágiskanir, því að Liverpool menn hafa aldrei gefið neitt út um það.

  17. Þetta er með ólíkindum. Við seljum og seljum (gefum og gefum) en lítið kemur í staðinn. Ef Bellamy verður líka látinn fara tel ég að við getum bara hætt við að reyna að vinna þessa dollu heimafyrir á næsta tímabili. Lausnin er EKKI að fylla liðið af einhverjum samba-leikmönnum heldur að reyna að fá eitthvað af enskum leikmönnum til að fylla upp í hópinn. Kevin Nolan og Bent eru þeir leikmenn sem ég vil sjá og svo getur Benitez farið á suðrænt Samba-flipp með restina. En eins og staðan er í dag erum við að berjast um 3ja til 4ða sætið við Arsenal og í raun komnir í 4.sætið.

  18. Og þetta með gaurinn hjá Lyon…það er rétt að sjálfsögðu rétt hjá honum að fá sem mest fyrir sína leikmenn ef menn eyða eins og vitleysingar. Ég myndi gera það sama í hans sporum. En það reynist vera erfiðara fyrir Benitez að kaupa í sumar því hann virðist vera með ákveðið stóra ávísun sem hann má eyða fyrir og hann vil fá fleiri leikmenn en hann hugsanlega getur fyrir þá upphæð. Það voru SAMT mistök…STÓR MISTÖK að láta Gonzalez fara verandi með ekkert cover öruggt (Kewell orðinn góður?)

  19. Við seljum og seljum

    Við erum engan búinn að selja. Það er ekki einu sinni búið að selja Gonzalez, væntanlega vegna þess að spænska deildin er ekki búin.

  20. 🙂 Spurning um að fara í jóga og læra slökun

    Finnst ótrúlegt hvað margir (ekki kannski hérna inni) eru að fara á taugum yfir því að ekkert sé að gerast í leikmannamálum. Við erum nú þegar búnir að ganga frá 4 samningum við núverandi leikmenn, sem eru btw okkar mestu stjörnur (tveir í viðbót á leiðinni), við erum búnir að ganga frá kaupum á ungum leikmanni sem var nýlega valinn besti leikmaðurinn í brasilísku deildinni, við erum búnir að ganga frá samning við Voronin (burtséð frá því hvort menn séu fúlir yfir því eða ekki), við erum búnir að ganga frá kaupum á afar efnilegum vinstri kantmanni sem búist er við að berji á dyrnar hjá aðalliðinu á næsta tímabili og svo er búið að ganga frá kaupum á tveimur efnilegustu leikmönnum Ungverja.

    Ef nú er ástæða til að panikka, þá er eitthvað skrítið. Hvað eru önnur lið búin að gera? Man utd eru búnir að kaupa tvo efnilega gutta og einn mann sem kæmist ekki á miðjuna hjá okkur, og eru búnir að eyða í þetta 50 milljónum punda. N.B. þá eru þeir búnir að vera í meira en ár að tryggja sér þennan miðjumann, þannig að talandi um að hlutirnir gangi hægt fyrir sig á leikmannamarkaðnum.

    Eigi talar um að það sé bara vitleysa að kaupa ekki enska leikmenn (afar fáir slíkir til af einhverjum standard), en segir svo í næsta kommenti að það séu MISTÖK að láta Gonzalez fara?? Við erum ennþá með Luis Garcia, Harry Kewell, John Arne Riise, Aurelio og núna Leto sem spila þessa stöðu (tveir reyndar bakverðir að upplagi).

    Nei, held að við ættum að bíða með að dæma þá kappa Gillett og Hicks þangað til við sjáum útkomuna eftir kaup sumarsins. Eins og fram hefur komið, þá eru flest lið að halda að sér höndum og bíða eftir að allar deildir klárist, því þá fer skriðan væntanlega af stað (væntanlega margir að víla og díla á bakvið tjöldin núna, bara ekki hægt að tilkynna neitt).

  21. Gonzalez

    Mark Gonzalez could be on his way back to Liverpool.

    Click Here!
    The Chile international will join Real Betis this summer, however said yesterday: “If they are relegated, I will not go.”

    Betis are only a point above the dropzone going into the final week of the Spanish Liga season.

    On his time at Liverpool, Gonzalez said: “I was happy, because I adjusted to a very difficult level of football. I would have liked to have continued there, but I am at an age when I need to be playing regularly
    sko ekkert víst að hann fari

  22. Vil taka undir orð SSteins og í raun gera hans orð að mínum. Setjum hlutina aðeins í samhengi og slökum aðeins á (segi ég sem skoða Echo og fleiri miðla á klukkutíma fresti a.m.k.).

    Skil samt þessa óþolinmæði, það væri kannski frekar sanngjarnt að tala um hina óþolinmóðu sem hina spenntu. Menn eru eðlilega spenntir fyrir því sem framundan er, hver svo sem kaupin verða.

    YNWA

  23. Einhver sérstök ástæða fyrir því að það er ekki hægt að kommenta við færsluna um leikjaniðurröðunina?

    Annars er ég fyllilega sammála því að menn þurfi aðeins að slaka á í óþolinmæðinni. Að taka eyðslu manutd á síðustu vikum sem eitthvað merki um vanmátt Liverpool er bara fyndið. Hargreaves er búinn að vera á leiðinni til utd. í rúmlega ár og búinn að lýsa því nokkrum sinnum yfir í vetur að hann langi þangað svo allt tal um að það hafi verið gengið hratt og örugglega frá þeim kaupum er bara rugl. Það sama má að vissu leyti segja um Nani, félagi minn og utd. maður sem fylgist álíka mikið með sínu liði og ég með liverpool (sem sagt a.m.k. 2 tímar í slúðurlestri á dag ;)) er búinn að vera að röfla um sögusagnir um nani til utd frá því fyrir áramót svo þau kaup komu ekkert sérstaklega á óvart heldur auk þess sem þau eru, eins og SSteinn bendir réttilega á, kaup á óreyndum en efnilegum leikmanni, eitthvað sem liverpool eru búnir að vera að gera í massavís. Ef liðið hefur ekki bætt við sig frambærilegum kantmanni í byrjun júlí þá fer ég að ókyrrast aðeins en þangað til sef ég alveg rólegur.

    Og þá að stóru spurningunni frá Kristjáni Atla, myndi maður sætta sig við það ef enginn leikmaður yrði keyptur í sumar umfram það sem þegar er frágengið? Ég yrði ekki ánægður en ég er ekki á því að það yrði eins mikil katastrófa og sumir virðast halda. Pennant var farinn að sýna fína takta á hægri kantinum undir lok tímabilsins og ef hann kemur jafnsterkur inn í haust þá er hægri kanturinn alls ekkert í slæmum málum. Ef (og þetta er stórt ef) Kewell heldur sér heilum erum við með fínan kost vinstra meginn og svo má maður náttúrulega alltaf vona að Leto geti eitthvað og komi til með að fá allavega nokkra leiki til að sýna hvað hann getur. Gerrard getur svo séð um hægri kantinn í hallæri og svo eru menn virkilega að gleyma Luis Garcia sem ætti að koma nokkuð ferskur inn í næsta tímabil og getur séð um báðar kantstöðurnar ef á þarf að halda. Auðvitað vill ég sjá nýjan kantmann koma og helst einn á hvorn sinn kant því það er alls ekki hægt að treysta á Kewell og þó Pennant sé góður er hann ekki alveg í þeim toppklassa sem ég vil sjá hjá Liverpool en ég sé það bara ekki sem neinn heimsendi þó það gerist ekki. Ekki gleyma því að manutd bætti bara við sig einum manni á síðasta tímabili en leikmennirnir sem fyrir voru spiluðu sig bara betur saman, lærðu betur inn á hvorn annan og uppskáru eftir því. Það sama gæti alveg gerst hjá Liverpool næsta vetur, en ég skal þó alveg viðurkenna að ég myndi frekar vilja sjá Simao og Malouda eða Silva sjá um kantana heldur en Pennant og Kewell.

  24. Þessi athugasemd mín kemur kannski seint, þar sem þessi frétt er orðin gömul, en varðandi orð fréttaritara um að eigendurnir séu ekki að standa sig, þá finnst mér nú bara að það sé kannski spurning um að láta ekki ráðskast með sig.

    Það er eitt að eiga pening, og annað að leyfa öðrum félögum að nýta sér það og hafa af manni fé. Eigendurnir eru greinilega að reyna að gleypa það að lið hækki verðmiðann á leikmönnum um okkar millur, sbr. það þegar menn töluðu um að það (þegar Abramovich var milljarðamæringurinn á bak við lið í ensku) að það væri eitt verð fyrir Chelsea, og annað verð fyrir önnur lið.

Síðuvesen og fréttir

Leikjaprógram EPL 2007-08 komið! (uppfært)