L’pool 2 – Charlton 2

Jæja, Úrvalsdeildartímabilinu á Englandi lauk í dag með tíu leikjum og var það helst að frétta að Chelsea jöfnuðu met Liverpool frá áttunda áratugnum er þeir léku 63. heimaleik sinn í röð án taps, á meðan Sheffield United féll á dramatískan hátt eftir tap á heimavelli gegn Wigan, á meðan West Ham Carlos Tevez vann 1-0 útisigur á Man U og tryggði þátttöku sína í Úrvalsdeild að ári.

Já, og okkar menn í Liverpool tryggðu sér víst þriðja sætið í dag með stórglæsilegu … eeeh … jafntefli á Anfield gegn botnliði Charlton Athletic. Leikurinn endaði 2-2 eftir að Charlton komust tvisvar yfir en þeir Xabi Alonso og Harry Kewell björguðu okkar mönnum fyrir horn. Það varð okkur til happs að Arsenal nenntu ekki heldur að spila sinn leik í dag og rétt meikuðu jafntefli gegn grútlélegu liði Portsmouth á Fratton Park í dag. Nei, bíddu, Portsmouth unnu okkur um daginn …

Ég sat fyrir framan sjónvarpið í dag og reyndi að afsaka spilamennsku okkar manna. “Það rignir” var vinsæl afsökun meðal sessunauta minna, “allir að reyna að gefa á Fowler” var önnur. “Þetta er þýðingarlaus leikur” var líka vinsæl setning … þangað til við föttuðum að Charlton-liðið er fallið og þessi leikur var enn þýðingarlausari fyrir þá. Og við vorum á fokking Anfield!

Liðið: Padelli, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Arbeloa, Gerrard, Mascherano, Zenden, Kuyt, Guð. Bekkur: Einhver markvörður, einhver varnarmaður, Alonso, Kewell, Crouch.

Sko, mörkin voru varla Padelli að kenna. Í fyrra markinu gefur Mascherano boltann beint inná miðjuna þar sem Charlton-maður tekur hann og hefur skyndisókn, þeir leika allt of auðveldlega upp í gegnum Riise og Agger vinstra megin og svo er Finnan steinsofandi í fyrirgjöfinni. Maður gat lítið annað en vorkennt þeim ítalska sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool og fyrsta snertingin var að hirða boltann úr netinu eftir tæpar tvær mínútur. Það var Matt Holland sem skoraði auðveldasta mark helgarinnar.

Eftir það fengu bæði lið svona sautján dauðafæri en náðu ekki að skora. Sérstaklega var Zheng hjá Charlton mistækur í dauðafærum en Fowler, Kuyt, Gerrard og Arbeloa voru líka sekir. Sér í lagi Arbeloa sem klúðraði dauðafæri áratugarins í fyrri hálfleik … var kominn einn í gegn og með Fowler með sér, hefði getað gefið á manninn sem að ALLIR vildu sjá skora í dag en þess í stað skaut hann langt framhjá. Ótrúlegt.

Allavega, í síðari hálfleik komu Kewell og Alonso snemma inná fyrir Zenden og Arbeloa og leikur liðsins batnaði strax. Kewell var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn; hann fékk boltann úti á vinstri kanti, tók tvöföld skæri framhjá Luke Young og gaf boltann fyrir. Þaðan skallaði Kuyt hann út í teiginn og Alonso kom aðvífandi og skoraði. Adam var þó ekki lengi í paradís því nokkrum mínútum síðar skilaði enn meiri aulaskapur í vörn okkar manna, þar sem Carragher og Agger sérstaklega voru sofandi, því að Hughes fékk skot sem Padelli varði vel og Darren Bent skoraði í tómt markið.

Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka kom svo heiðursskiptingin; Crouch kom inná fyrir Robbie Fowler sem fékk mikið klapp frá áhorfendum á Anfield. Hann náði ekki að skora markið sem hann langaði svo mikið að fá í kveðjugjöf en virtist þreyttur og sáttur þegar hann fór af velli. Kaldhæðni örlaganna getur verið grimm, því mínútu eftir að hann fór útaf fengu okkar menn vítaspyrnu þegar einhver Charlton-lolli handlék boltann í svona fjögurra metra hæð í eigin vítateig (sniðugur) og Harry Kewell tók vítið og skoraði. 2-2 og þar við sat í dag.

MAÐUR LEIKSINS: Harry Kewell. Steven Gerrard og Dirk Kuyt virtust á köflum vera þeir einu sem nenntu að spila þennan leik, þeir einu sem lögðu sig eitthvað fram um að búa til eitthvað fyrir Fowler, en um leið og Harry Kewell kom inná fann maður hvernig leikur liðsins batnaði til muna. Þótt Bolo Zenden hafi staðið sig ágætlega í síðustu leikjum var gæðamunurinn á þeim tveimur augljós um leið og sá ástralski kom inná. Ég segi þetta ekki oft, en ómægawd hvað við höfum saknað hans gífurlega mikið!

Allavega, hreint út sagt grútlélegri leiktíð í Úrvalsdeildinni er lokið. Okkar menn innbyrtu 68 stig, fjórtán minna en í fyrra en það dugði okkur samt í þriðja sætið. Hef svo sem ekki meira um það að segja í bili, það er á leiðinni pistill frá mér um gengi liðsins í Úrvalsdeildinni sérstaklega en ég segi bara í bili að ég er feginn að þetta er búið og að við getum farið að einbeita okkur að sjálfum gleðigjafanum; stærsta leik Evrópuboltans.

Góða helgi.

7 Comments

 1. Alveg sammála þér nafni með hvað það var gaman að sjá Kewell spila í dag og hvað hann lyfti liðinu uppá hærra plan í sókninni eftir frekar dapran dag. Sífelld ógnun og ég er ekkert frá því að hann hafi farið langleiðina með að spila sig inn í byrjunarliðið á móti Milan, sérstaklega ef að hann er kominn í sitt besta form eins og maður les af netinu.
  Og já það var nokkuð augljóst hvernig átti að kveðja Fowler í dag á Anfield en það verður bara gert í Aþenu í staðinn eftir marka leik 🙂

 2. Gaman að sjá Kewell aftur. Ættum að hafa efni á því að taka áhættuna á því að hann sé kominn yfir meiðsli og verði með okkur næsta tímabil. Eini spilandi maðurinn sem við höfum í þessari stöðu. hafa hann í samkeppni við þann sem keyptur verður í stöðuna í sumar. annars á Voronin að vera liðtækur á þeim vinstri.

  Gonzalez er farinn aftur til spánar. PUNKTUR

  Eins sýndi Alonso fram á það afhverju Liverpool sleppir honum ekki næsta tímabil. Allt annað flæði á spilamennsku liðsins eftir hann kom inn. Yfirvegun.

  Liðið er oft á tíðum ekki spilandi án hans.Eins hefur hann bætt sig stórkostlega varnarlega séð síðan hann kom. vaxandi leikmaður sem á mikið inni.
  Sissoko,gerrard,Javier eru ekki miðvallarmenn sem stjórna spili liðs á þeim gæðastaðli sem Liverpool vill miða við. Hafa ekki burði til að dreifa boltanum og brjóta niður lið sem liggja aftur.
  Þeir hafa aðra kosti sem ég nenni ekki að rekja.
  20 ára brasílískur tittlingur er ekki að leysa af þá reynslu sem Alonso hefur eða hægt sé að ganga að því vísu að hann aðlagist Enskumbolta sem og Liverpoolliðinu á fyrsta tímabili.

  Það væru skrýtinn skilaboð að selja einn af okkar bestu mönnum.
  Þetta er bara ekki að fara að gerast. PUNKTUR

  Spennandi að sjá hvaða spekingar verða ráðnir til klúbbsins á næstu mánuðum

  Góðar stundir

 3. Satt er það, Fowler mun skora sigurmarkið í Aþenu(5.spyrna) ef leikurinn fer í vítaspyrnukeppni!

  Annars sér maður strax hvað liðið hefur saknað Kewell (og Garcia) hrikalega mikið í vetur. Andstæðingar okkar hafa getað einbeitt sér að því að tvöfalda á Gerrard og hægri kantinn.
  Leikur Liverpool verður stundum ótrúlega þurr og fyrirsjáanlegur þegar við höfum alls enga ógnun upp vinstra megin.

  Ég er reyndar á því að Xabi Alonso sé ekki ómissandi enda finnst mér hann alltof hægur fyrir enska boltann, of mikið af þversendingum og getur ekki tekið menn á og skotið. Hann er frábær skotmaður en er of passívur oft og kemst lítið í skotfæri.
  Frábær leikmaður en hentar líklega bara ekki í ensku deildina.

  Held að Rafa sé sama sinnis og reyni að nota hannuppí í möguleg kaup á toppstriker frá Spáni.

 4. Hermann Hreiðarsson var með hendinni sem leiddi til vorar vítaspyrnu.

  SSSSSSSSSSSIIIIIIGGGGGGGGGGGGGGGIIIIIII!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 5. Þetta var ósanngjarnt jafntefli af okkar hálfu. Virkilega slakur leikur þangað til Xabi Alonso og Harry Kewell komu inná.

  Javier, Finnan, Arbeloa, Riise, Carragher, Agger, Zenden og Fowler voru slakir og Charlton hefði átt skilið að taka 3 stig þar sem þeir opnuðu vörnina okkar ítrekað á einfaldan hátt.

  Hins vegar frábært að sjá Harry Kewell koma aftur og gaman fyrir hann að skora mark. Alonso er minn maður leiksins þar sem miðjuleikurinn okkar gjörbreyttist við komu hans.

  Núna er 110% ljóst að við erum “underdogs” fyrir leikinn gegn Milan eftir slaka leiki gegn Porstmouth, Fulham og Charlton. Vonandi að það hafi borgað sig að hvíla alla lykilmennina fyrir LEIKINN!

  já og Fowler hefði átt að skora í það minnsta eitt mark. Hann fékk nokkur dúndur færi en AF HVERJU Arbeloa gaf ekki á hann er mér óskiljanlegt. Hann er kominn í svörtu bókina hjá mér!

 6. Jæja, ég gerði greinilega rétt með að nýta tímann frekar í að sofna aftur og losna við þynnkuna. Takk fyrir að redda skýrslunni fyrir mig, Kristján. Þú ert hetja dagsins. 🙂

 7. Fyrir mér er Kewell maður leiksins, alveg ótrúlegt hvað munar um að hafa hann í liðinu.
  Kannski verða einhverjir fúlir útí mig en Bolo Zenden verður að fara í sumar, kannski er ég bara blindur en ég sé bara ekki hvað hann er að gera gott fyrir okkur.
  Arbeloa var mjöög lélegur en honum er fyrirgefið, eins Fowler og er honum einnig fyrirgefið en hann er greinilega búinn.
  Ég skil eiginlega ekki hvernig Arsenal fór að því að taka ekki af okkur þriðja sætið, en þeim er líka fyrirgefið : )
  Mínar mestu áhyggjur eru núna snúast um hverzu svakalega við verðum flengdir af Milan í Aþenu, auðvitað er ekkert að marka þessa síðustu leiki í deildinni en miðað við hvernig Milan fór með Manure þá er engin ástæða til bjartsýni af okkar hálfu.
  En hvað veit ég ?
  Ég veit bara það að þegar að við mættum Milan síðast í úrslitaleik þá fór ég ekki heim í hálfleik…..og sá ekki eftir því : )

  Enn eitt vonbrigða tímabilið í deildinni búið, og enn einu sinni en maður viss um að það næsta verður seasonið okkar í deild.
  Annars langar mig bara að þakka stjórnendum síðunar fyrir óþrjótandi elju við að matreiða í okkur oft vanþakkláta lesendur góða pistla, og tryggja með því að Liverpool Bloggið er á daglega rúntinum og oftar en ekki oft á dag.
  Takk fyrir mig : )

Charlton á morgun.

Breytingar á eoe.is