Fulham á morgun (í dag)

Ég verð að byrja á að biðjast velvirðingar á hversu seint þessi upphitun kemur inn (verður eflaust ekki búin fyrir eftir miðnætti og því setti ég “í dag” innan sviga). Óafsakanlegt, ég veit það, en því miður verður maður stundum að taka vinnuna fram yfir áhugamálið. En hvað um það, Fulham er það á morgun. Það er erfitt að leiða hugann að einhverju öðru en Aþenu þessa dagana, en reynum nú samt. Síðasti útileikurinn á leiktíðinni (nema auðvitað Aþena…Aþena…Aþena…Aþena…oh sorry). Nú þarf ekkert að hvíla menn. Við getum tryggt okkur endanlega þriðja sætið í deildinni á morgun, þ.e.a.s. ef við sigrum og Arsenal tapar svo fyrir Chelsea. 3 sig á morgun væru því afar kærkomin og nú ættu menn að geta spilað sinn bolta því stressið er lítið. Fyrst og fremst ættu menn að vilja sýna sig og sanna til að gera tilkall til sætis í úrslitaleiknum í Aþenu. Já talandi um Aþenu, sá leikur fer fram þann…

Ok, ok, ég skal halda áfram að reyna. Þetta er samt erfitt. Bæði fyrir mig að halda huganum við leikinn á morgun og eins verður þessi leikur engin léttavara fyrir okkar menn. Svona allavega ekki fyrirfram. Fulham eru að berjast upp á líf og dauða fyrir sæti sínu í deildinni, flóknara er það ekki. Þeir þurfa svo nauðsynlega á stigum að halda. Hvað er með þetta Fulham lið? Ég hef hreinlega aldrei myndað mér skoðun á því. Þetta er svona grátt lið. Það er hvorki hvítt né svart og flestum virðist vera nokk sama um þá. Þeir eru bara þarna og hafa verið þar að veltast í nokkur ár. Oft alveg ágætir leikmenn þar inná milli, en hafa hvorki verið í topp- né botnbaráttu. Þeir eru bara á miðjunni. Nema í ár, og þá fyrst og fremst núna alveg í restina. Þeir eru aðeins einu stigi fyrir ofan West Ham, sem eru í fallsæti ef það hefur farið framhjá einhverjum. En að leiknum.

Lawrie Sanches er nýtekinn við liðinu og hefur ekki ennþá náð að sigra með sínum mönnum. Þessi stjóri fer í taugarnar á mér. Þekki hann ekkert og veit ekkert til hans starfa. Þessi vanþóknun mín á honum nær aftur til Wimbledon daga hans sem leikmanns og þá sérstaklega vegna eins leiks. Tölum ekki meira um það. Líkaði líka alltaf afar vel við Chris Coleman, en hann er víst á braut. Lawrie hefur aðeins náð einu stigi út úr sínum fyrstu þremur leikjum með liðið. Ekki góður árangur þar og efast ég um að árangurinn hefði verið verri ef Chris hefði ennþá verið með liðið. Spurningin er hvort Heiðar Helguson taki þátt í leiknum. Eflaust skrítið að vera í hans sporum, því eftir því sem ég best veit þá er hann mikill Poolari. Hef hitt hann allavega tvisvar á The Park fyrir leiki (þá lék hann með Watford í næst efstu deild). Ég ætla rétt að vona það að ef hann spilar, þá haldi hann sig á mottunni og slasi allavega engann af okkar mönnum 🙂

En þá að okkar mönnum. Ég vona svo sannarlega að það verði sett á full force og reynt að klára þetta sem fyrst. Jermaine Pennant VERÐUR á hægri kantinum, mér finnst sá drengur vera að vaxa gríðarlega undanfarið eða alveg frá áramótum. Ég vil líka sprengikraft vinstra megin og þar vona ég svo sannarlega að Speedie Gonzalez verði hlaupandi upp og niður kantinn. Finnan í bakverðinum, því það er oft unun að sjá samvinnu hans og Pennant hægra megin. Riise verður svo vinstra megin og þeir Carra og Agger í miðvörðunum. Samt smá spurning um Sami, þar sem að Fulham eru með líkamlega hrausta framherja sem eru ekki fljótir en sterkir í loftinu. Þarf ekki einu sinni að nefna Superman í markinu (held samt að Supermaðurinn í náttgallanum hafi ekki verið jafn stæltur og okkar og alls ekki jafn snöggur). Miðjan? Ég ætla að giska á Xabi og Stevie. Reyndar er ég með einhverja tilfinningu fyrir því að Momo verði þar með Javier, en þetta er afar erfitt að velja úr þessum fjóru frábæru miðjumönnum. Frammi giska ég á að Crouch og Bellamy byrji.

Bekkurinn: Dudek, Sami, Zenden, Javier og Kuyt.

Jæja, það er ekkert annað að gera en að mæta til leiks með það að leiðarljósi að tryggja sér þetta þriðja sæti, enda er það besta mögulega sæti sem við eigum séns á. Það væri ekki verra að tryggja það með hagstæðum úrslitum og fara inn í síðasta leikinn með það í fyrirrúmi að gefa “minni” spámönnum tækifæri á að sýna sig og sanna. Stóra spurningin gæti verið Kewell. Er hann klár í slaginn? Verður hann surprise helgarinnar og byrjar inná? Mikið lifandis skelfing væri ég til í það. Hef saknað hans mikið í vetur og væri frábært að fá hann í smá form ef við þyrftum á honum að halda í Aþenu. Ahh, já Aþena vel á minnst. Leikurinn við Milan verður spennuþrunginn…ok, ok ég skal hætta. Tókst næstum því að klára án þess að hugsa til Aþenu.

Spá? 3-0 útisigur. Bara berja á þessum köllum, mér er nokk sama þótt þær barsmíðar séu að reka naglann neðar í kistu Fulham manna (Sorry Heiðar).

14 Comments

 1. Reyndar sé ég að Dudek er meiddur, þannig að ungi Ítalinn verður þá á bekknum.

 2. Þessi leikur leggst ekkert allt of vel í mig. Við höfum átt það til að tapa gegn Fulham á útivelli síðustu 3-4 tímabil, og í öllu falli lenda í erfiðleikum þar. Við þetta bætist að það er nánast engin spenna í okkar mönnum fyrir þennan leik, hann skiptir minna en engu máli nema bara til að halda Arsenal fyrir neðan okkur (og jafnvel þá gæti þessi leikur reynst óþarfur, því Asnl tapa líklega fyrir Chelsea á sunnudag) um leið og Fulham eru að berjast fyrir lífi sínu undir stjórn nýs þjálfara.

  Það er ljótt að segja það, en ég verð hissa ef við töpum þessu ekki svipað og við gerðum gegn P’mouth um síðustu helgi. Vonandi ekki þó. Mín forgangsröð fyrir þennan leik er þessi:
  1. Engin meiðsli.
  2. Engin meiðsli.
  3. Engin meiðsli.
  4. Innbyrða sigur eða jafntefli.
  5. Leyfa Insua og félögum að spreyta sig, ef hægt er.

  Verður í öllu falli áhugavert að sjá hvort að Rafa keyrir á sínu sterkasta liði, en hvort sem hann gerir það eða ekki spái ég 1-1 jafntefli á morgun í frekar daufum leik.

 3. Dudek Meiddur
  Gerrard verður ekki í hópnum
  Insúa verður kannski með
  El Zahr verður kannski með
  Padelli verður hugsanlega í marki
  Óvíst með rest

 4. 3-1 fyrir liv.Er stjórinn hjá milan að feta í fótspor stjórans hjá chelsia ?með skítkast það veitir ekki á gott( liv ekki með menn sem vita hvað þeir eiga að gera við boltann þegar þeir fá hann )vá

 5. Ég verð að segja að mér líst ekki vel á þennan leik þar sem hann er jú fyrsti leikur eftir leik í evrópukeppninni. Það boðar oftar en ekki slæm úrslit og svo er tvennt sem telur inní að þessu sinni.

  1) Fulham VERÐUR að vinna til að halda sæti sínu og munu þeir berjast sem ljón allan leikinn….eða eins og þeirra þunnskipaði hópur getur barist
  2) Leikmenn LFC eru kannski ennþá í skýjunum og jafnvel ekki alveg með hugann við þennan leik. Það gæti verið að Benitez hvíli einhverja en ég stórefast um að margir stórjaxlar detti út í dag lengra en á bekkinn tilbúnir til að koma inná. Benitez vil ná 3.sætinu og líka ekki lenda í neinu óþarfa kjaftæði frá hinum fallbaráttuliðunum um að Fulham hafi fengið “léttan” leik gegn varaliði LFC. Aldrei skilið það rugl. Ef liðin eru svona neðarlega í deildinni að þá er það ekki einum leik að kenna að þeir séu þar…en það er önnur ella.

  Mín uppstilling í dag verður:

  MARK: Reina
  VÖRN: Arbeloa, Hyypia, Carragher, Riise
  MIÐJA: Pennant, Gerrard, Alonso, Gonzalez
  SÓKN: Fowler, Bellamy
  BEKKUR: I don´t care.

  Mér finnst það verulega slakt ef Benni ætlar að hvíla leikmenn því þess þarf ekki. Síðan á þriðjudag hafa leikmenn fengið 3 heila daga til að pústa út og jafna sig og er það kominn tími á að við neglum 3ja sætið for good. Það er nægur tími í úrslitaleikinn.

 6. Ég held að þetta gæti orðið hættulegur leikur en samt að við munum aldrei tapa honum til þess eru gæði liðanna of mikil og skiptir þar engu þótt við séum með unga óreynda leikmenn innanborðs. Við spilum ekki aftur jafn illa og gegn Portsmouth í fyrri hálfleiknum.

  Líklegt byrjunarlið er væntanlega:
  Mark: Padelli
  Vörni: Finnan – Hyypia – Paletta – Insua
  Miðja: Pennant – Alonso – Sissoko – Gonzalez
  Sókn: Crouch – Bellamy
  Bekkur: Reina, Arbeloa, Zenden, Fowler, Anderson.

  Arbeloa, Anderson og Fowler koma síðan inná. Við vinnum 1-2 sigur þar sem Paletta skorar eftir hornspyrnu og Fowler úr víti rétt fyrir leikslok.

  Í næsta leik (gegn Charlton) mun síðan Kewell vera með og Anderson í byrjunarliðinu.

 7. Ég er virkilega ósammála að við eigum að stilla upp sterku liði í þessum leik. Við höfum að nákvæmlega engu að keppa í deildinni, það skiptir mig nákvæmlega engu máli hvort við endum í 3. eða 4. sæti í deildinni og ég hugsa að Rafa og leikmennirnir séu á nokkurn veginn sama máli. Menn kvarta allan veturinn yfir að sjá ekki fleiri unga menn í hópnum vera að fá séns en heimta svo sterkasta liðið á völlinn þegar að nákvæmlega engu er að keppa. Við eigum að nota þessa 2 síðustu leiki til að gefa ungum mönnum reynslu í úrvalsdeildinni, ef ekki núna þegar að engu er að keppa, hvenær á þá að gefa þeim séns?

  Ég verð mjög vonsvikinn ef Insua verður ekki aftur í liðinu og þó Palletta hafi verið langt frá því að heilla mig vil ég samt sjá hann halda áfram að fá sénsa. Ekki væri verra að leyfa Padelli að spreyta sig, það er ekki ólíklegt að hann verði varamarkmaðurinn á næsta tímabili og hann þarf að fá leiki til að sýna sig aðeins. Ég hef sagt það áður og segi enn, ég vil sjá Gonzales spila alla deildarleikina sem eftir eru, hann hefur kanski ekki verið neitt sérstaklega góður á tímabilinu, en ég sé möguleika í honum og því fleiri leiki sem hann fær til að aðlaga sig að enska boltanum því betra. Aðrir krakkar eru kanski ekki nægilega góðir til að gera tilkall til sætis í hópnum en ég hugsa samt að Rafa komi til með að skella 1-2 í viðbót á bekkinn og ef vel gengur fá þeir tækifæri.

  Geymum stóru kallana heima í liverpool, gefum þeim hvíld í a.m.k. einn leik, þeir hafa unnið fyrir henni.

 8. Veit einhver um góðan liverpool klúbb í köben eða um einhverja poolara sem ætla að horfa á úrslitaleikinn í meisataradeildinni þann 23.
  frúin var að panta helgarferð til köben akkúrat þann dag 🙁

 9. Það var ansi sveitt stemmning á Shamrock við Axeltorv á bikarúrslitaleiknum í fyrra. Shit hvað það var gaman og shit hvað það var mikið drukkið þá.

 10. John Bull á Löngangstræde, rétt hjá Ráðhústorginu, var alltaf troðfullur af púllurum fyrir nokkrum árum. Mæli eindregið með þeim stað ef hann er ennþá til. Svo var líka hægt að ganga að púllurum vísum á The Globe á Nörregade.

 11. það á að gefa lykilmönnum frí þegar að stutt er í mikilvægan leik en það má ekki gefa of langt frí ég held að 70% af aðalliðinu spili með þremur skiptingum en við verðum að passa það að lykilmenn meiðist ekki ,menn verða að spila reglulega eins og oft hefur komið framm í þessum þætti

 12. Það er búið að leggja niður john bull. Besti sportsbarinn er sennilega olearys á hovedbanegården (aðalbrautarstöðinni) en það er orðið upppantað í sæti á hann, ætti ekki að skipta öllu máli þó því nóg er af sjónvörpum og myndvörpum þaning að hvar sem þú stendur ætti að vera fínt útsýni á leikinn. Stemmningin þar á bikarúrslitunum í fyrra var líka ótrúleg, sennilega það næsta sem maður kemst að vera á leiknum sjálfum. The Globe við nørreport er líka góður, frekar lítill en stemmningin þar á úrslitaleiknum fyrir 2 árum var svakaleg og ekki spillir fyrir að eigandinn er púllari. Hann tekur líka bara frá sæti fyrir mjög fáa útvalda vini sína þannig að ef maður mætir snemma ætti að vera góður möguleiki á að sitja yfir leiknum. Fínn matur þar líka svo það er ekkert að því að mæta 3 tímum fyrir leik og gera bara góðan dag úr þessu.

  Aðrir staðir sem ég hef prófað eru shamrock við axeltorv sem er bara með 1 skjávarpa og ekkert sjónvarp (síðast þegar ég var þarna allavega) en af einhverjum ástæðum hafa íslendingar gert mikið í að hittast þar og horfa á leiki, sennilega vegna þess að hann er lítið sóttur og því auðvelt að fá sæti þótt stutt sé í leik. Pub og sport við ráðústorgið er svo fínn líka, var þar á CL úrslitum í fyrra og fékk ágætis sæti þó við værum 5 og mættum bara um klukkutíma fyrir leik. Var mjög góð stemmning þar og fullt út úr húsi þegar leikurinn byrjaði.

 13. Ég spái 2:1 sigri okkar manna.

  Aftur lendi ég í því að sjá að síðan hérna kemur eðlilega út en heima hjá mér kemur gamla síðan frá 2. maí upp og gamla útlitið – ég hef sem sagt ekki séð síðustu tvo daga heima … af hverju sé ég bara gamla útlitið heima? Cookies? Slöpp tölva? hva?

  Áfram Liverpool!!

Rauðir í Aþenu, Pongolle til Huelva og nýjir samningar.

Fulham 1 – L’pool 0