Chelsea á Anfield á morgun!

Jæja, Kristján, anda rólega … það er komið að því … sá leikur tímabilsins sem skiptir nánast jafn miklu máli og allir hinir til samans fer fram á morgun á Anfield, þar sem Liverpool munu taka á móti Chelsea í síðari leik undanúrslita Meistaradeildarinnar árið 2007. Chelsea leiða einvígið eftir 1-0 sigur á okkar mönnum á miðvikudag í síðustu viku og ég hugsa að bæði lið geti verið sátt og ósátt við þá stöðu. Til að orða það á sem einfaldastan hátt, þá hangir þetta einvígi á bláþræði fyrir bæði lið. Chelsea-menn leiða en vita að 1-0 forysta getur verið fljót að fara á Anfield, á meðan Liverpool-menn vita að útimark getur kálað einvíginu.

Bæði lið munu væntanlega stilla öðruvísi upp en þau gerðu fyrir viku síðan. Hvað Chelsea-liðið varðar kemur Michael Essien aftur inní liðið eftir leikbann, en þeir urðu fyrir blóðtöku um helgina þegar Ricardo Carvalho meiddist á hné. Þá hefur verið staðfest að Michael Ballack missir einnig af þessum leik, en hann var líka meiddur í síðustu viku.

Það er pottþétt að Essien kemur inn í liðið, spurningin er bara fyrir hvern. Fer hann í miðja vörnina við hlið Terry, í stað Carvalho, eða fer hann á miðjuna og Boulahrouz í vörnina? Og hverjum fórnar Mourinho þá?

Mín ágiskun er sú að Mourinho muni fórna Andriy Schevchenko fyrir Michael Essien á morgun. Portúgalinn er klókur og veit að umfram allt þarf hann að halda hreinu á morgun, með möguleikanum á skyndisóknum. Því held ég að við munum sjá bæði Boulahrouz og Essien koma inn og þétta miðjuna og vörnina allsvakalega, á meðan Joe Cole og Didier Drogba fá það verkefni að sækja hratt á Liverpool og nýta alla sénsa.

Lið Chelsea á morgun verður svona, samkvæmt minni spá:

Cech

Ferreira – Boulahrouz – Terry – A. Cole

Essien – Mikel – Makelele – Lampard
J. Cole
Drogba

Hvað Liverpool snertir verður athyglisvert að sjá hvernig Rafa Benítez stillir upp á morgun. Leikurinn við Portsmouth um helgina gaf ýmsar vísbendingar, þar sem fjölmargir aðalliðsmenn voru eftir í Liverpool á meðan hópurinn ferðaðist suður til Portsmouth, og því getum við gefið okkur sem víst nokkrar stöður. Að mínu mati er eina spurningin sú hvort Gerrard verði úti á kanti eða inná miðju. Ef hann mannar miðjuna verður það væntanlega á kostnað Alonso, sem lék allan leikinn um helgina, en ef hann spilar á kanti verður það á kostnað Pennant.

Ég held í öllu falli að Rafa muni stilla upp eftirfarandi liði á morgun:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Arbeloa

Gerrard – Alonso – Mascherano – Riise

Kuyt – Crouch

Ég verð að viðurkenna að persónulega myndi ég vilja sjá Pennant þarna inni, og þá væntanlega á kostnað Mascherano, þar sem liðið þarf að taka sénsa og reyna að skora mörk gegn ógnarþéttum varnarmúr Chelsea á morgun, en mér finnst það bara ekki líklegt. Þá verður að hafa það í huga að menn eins og Gerrard, Alonso og Riise þurfa mann við hlið sér sem sér um að láta þá hafa boltann og Mascherano er betri í því en flestir, auk þess að vera með betri sendingagetu en Momo Sissoko. Þannig að ég held að Rafa kjósi að byrja svona, með þá Riise og Finnan sérstaklega sókndjarfa upp vængina og Gerrard í sinni venjulegu frjálsu stöðu út frá hægri kantinum, og vilji eiga möguleikann á Pennant, Zenden, Gonzalez og/eða Bellamy ef hann þarf að fríska upp á þetta þegar líður á leikinn.

ANFIELD

Áður en við spáum í spilin verðum við að minnast á tvö lykilatriði fyrir morgundaginn, og þetta er annað þeirra. Að segja að Anfield sé tólfti maðurinn er oftast við hæfi, en í sumum leikjum er eins og völlurinn sé þrettándi maðurinn líka. Ég upplifði í eigin persónu síðasta stóra Evrópukvöld á Anfield, gegn Barcelona í marsbyrjun, og get sagt ykkur að það er ekki hægt að líkja þeirri upplifun við neitt annað sem ég hef séð á fótboltavelli. Það er eins og völlurinn sameinist um að framkalla eins mikinn hávaða og hægt er og þetta smitar út frá sér til leikmanna beggja liða.

Leikmenn Chelsea lentu í þessu fyrir tveimur árum og ættu því kannski að vera betur viðbúnir þessu í ár, en þeir hafa talað mikið um að þetta muni ekki hafa áhrif á þá sem sýnir kannski best að þeir eru að hugsa um þetta. Chelsea-liðið hefur verið að berjast á öllum vígstöðvum í vetur og verið að keyra á óvenju smáum hópi, auk meiðsla, svo að menn eru orðnir sjáanlega þreyttir. Það sást um helgina gegn Bolton. Ofan á það bætast meiðsli lykilmanna á slæmum tíma, og þá sjáið þið að þetta ógnarsterka lið Jose Mourinho er ekki ósigrandi á morgun. Ef einhver getur stöðvað þetta lið þá er það Rafa Benítez, með hjálp ellefu knattspyrnumanna og hins óviðjafnanlega Anfield Road Stadium.

Rafa vs. Jose

Það er satt sem blöðin hafa verið að segja, að þetta einvígi mun að vissu leyti ráðast utan vallar. Rafa Benítez og Jose Mourinho eru taktískir snillingar sem hafa oft ráðið úrslitum í leikjum við önnur lið. Oft hefur mér fundist skiptingin þeirra á milli vera sú að Mourinho hafi betur í deildinni en Rafa hafi yfirhöndina í útsláttarkeppnum, en á miðvikudag í síðustu viku fannst mér Mourinho vinna taktískan sigur á Rafa. Vonandi leiðréttir okkar maður það á morgun, það er algjörlega krítískt að hann velji rétt byrjunarlið. Ef Mourinho sér við honum á morgun og Rafa setur út lið sem nær ekki að brjóta niður varnarmúr Chelsea til að byrja með verður sama hversu mikil stemning er á Anfield, Chelsea fara áfram. Þannig að hugsið hlýtt til Rafa Benítez í kvöld, hann þarf á okkur að halda ekki síður en leikmennirnir. 🙂

MÍN SKOÐUN: Ég verð að viðurkenna að þetta einvígi hefur ekkert lagst neitt gríðarlega vel í mig. Fyrir leikinn á Stamford Bridge var ég mjög stressaður en það var ekki beint tilhlökkun, heldur hreinlega óttaðist ég stórtap. Ég horfði á þann leik og beið eftir einhverju sem myndi afsanna hræðslu mína, en þegar Joe Cole skoraði eftir hálftíma leik slaknaði á mér öllum og ég hálf bjó mig undir að taka á móti slátruninni. Hún kom þó aldrei og eftir leik var mér hálf létt, ég hugsaði með mér að 1-0 tap væri allavega betra en 3-0 tap og í fyrri hálfleik stefndi pottþétt í eitthvað slíkt.

En nú er komið að leiknum á Anfield og það er ljóst að bæði lið eru í frábærum séns á að komast í úrslitin. Ég held að þetta snúist á endanum um eitt atriði og aðeins eitt: útimark. Ef Pepe Reina heldur hreinu á morgun fáum við allavega vítaspyrnukeppni, því ég er sannfærður um að okkar menn geta skorað allavega eitt mark á móti Chelsea á Anfield. Hins vegar, skori Chelsea útimarkið geri ég fastlega ráð fyrir að þeir fari í úrslit. Vonum að það gerist ekki.

Ég ætla að fylgja maganum og spá eins og þetta leggst í mig. Ég er hins vegar alræmdur fyrir slappa spámennsku svo að við vonum að ég hafi rangt fyrir mér á morgun. Ég held að Liverpool muni sækja og sækja allan leikinn, skora snemma og halda áfram að pressa en svo muni helvítið hann Didier Drogba læða sér fram með boltann og smella einu í fésið á okkur. Ég segi að leikurinn á morgun endi í 1-1 jafntefli og að þetta sé árið sem Chelsea komist í úrslit. En að því sögðu þá vona ég innilega að ég hafi rangt fyrir mér.

Bottom line: Anfield, seinni leikur, undanúrslit, f**king Chelsea. COME ON YOU REDS!!! Þetta verður rosalegt! Og að lokum er ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvernig okkur leið fyrir tveimur árum … það er ALLT HÆGT á Anfield … 🙂

Koma svo Liverpool! Oohhh þetta verður rosalegt!!!

35 Comments

 1. Það má reyna að hafa gaman að þessu en það verður erfitt. Ég held að við höldum hreinu en veit ekki með markið, jú ætli Crouch skori ekki á 80 mín og málið er dautt..

 2. Þessi leikur verður svo einum of rosalegur… ég get ekki beðið. Ég hef trú á þinni slæmu spámennsku.. þ.e. liverpool vinnur 2-0 í framlengingu 🙂

  Þetta video er líka með því svakalegra sem ég hef séð, var með gæsahúð allan tímann þegar ég horfði á þetta.

 3. Ég er mjög sammála flestu þarna. Ég vona að miðja verði eins og þú spáir henni (Ég bara treysti ekki Pennant alveg í þetta ennþá) og þá er ég viss um að Reina verði að eiga jafn vel betri leik heldur en í fyrri leiknum.

  Spá: Því miður skora þeir snemma.. en við náum að skora tvö mörk, setjum á þá pressu en það dugar ekki til. Svekkjandi 2-1 sigur.

 4. hahahaah Kristján – hvað ertu búinn að sitja á þér lengi með að skella þessari upphitun inn 🙂

  3-1!

 5. Ég veit ekki afhverju en að sjá Chelsea menn vera nálæt því að tárast gleður samstundis mitt litla saklausa hjarta.

  Ég verð þó að játa það að leikurinn á morgun leggst frekar illa í mig. En vonandi er það eitthvað bull í mér.

  YNWA!

 6. Mourinho hefur álíka mikla trú á Boulahrouz þessa dagana og Benitez hefur á Djibril Cissé.

  Essien verður miðvörður,
  Miðja og sókn verður því eflaust á þessa leið

  Mikel – Lampard – Makelele
  J.Cole – Drogba – Shevchenko/Robben

 7. Vel mælt Kristján.

  Ef við miðum við síðasta leik okkar gegn þeim þá er ég ekkert alltof bjartsýnn EN ég trúi því heldur ekki að við spilum aftur jafn illa gegn þeim og þá. Rafa var hundóánægður með leikinn sem og örugglega allir leikmenn liðsins.

  Ef við dettum út þá hljótum við að láta Chelsea í það minnsta hafa verulega mikið fyrir því.

  Vandamálið er þetta: Chelsea mun skora mark og það þýðir að 2-1 sigur nægir okkur ekki. Þess vegna verðum við að skora 3 mörk og það verður erfitt verkefni. Er það hægt? Já það er allt hægt á Anfield.

  Ég er afslappaður og hlakka til leiksins því ég hef trú á leikmönnum okkar sem og Rafa.

  Áfram Liverpool.

 8. Djöfull er stutt í svartsýnismanninn í mér fyrir þennan leik. Er nokkuð viss um sigur en er skíthræddur við mark frá Chelsea. Sé fyrir mér 2-0 og Drogba skorar síðan á lokamínutum leiksins. Eða endurtekningu á Olympiacos dæminu þar sem þeir skora í byrjun leiks og Liverpool að reyna að skora 3.

  Veit ekki alveg en á erfitt með að sjá fyrir mér Liverpool skora 3 mörk á móti Chelsea jafnvel á evrópukvöldi á Anfield en hey, hvað veit ég svosem. :tongue:

 9. Ef Carvalho verður ekki með á morgun (enn ein taktíkin hjá Moaninho?) þá er vörnin náttúrulega ekki sú sama og ef Essien fer aftur í vörnina þá verður miðjan veik og við lendum væntanlega í sama dólinu á þriðja hluta vallarins og venjulega.

  Ég er sammála Kristjáni með svartsýnina því eitthvað segir mér að ef við ÞURFUM að vinna að þá fáum við kalda vatnsgusu úr einni af skyndiskóknum Chelsea og Joe Cole/Drogba gera mark, og ef það gerist er ekki fræðilegur að við gerum 3 mörk gegn Chelsea nema eitthvað virkilegt kraftaverk gerist. Það er eflaust ekki á leiðinni þetta árið…því miður. Væri til í að eyðileggja drauma Moaninho enn eitt árið en það verður þá bara AC eða UTD sem gerir það.

 10. Ég sagði fyrir fyrri leikinn að mig hefði dreymt 0-2 … kannski var það 2-0 og munaði viku !!!! :biggrin:

  vonandi !

  áfram LFC

 11. Mig dreymdi þetta í nótt (reyndar svolítið steiktur draumur sem ég ætla ekkert að fara út í nánar) og leikurinn fer 3-1. Liverpool kemst 1-0 yfir, Chelsea jafnar 1-1 og svo bætum við tveimur mörkum við og förum til Aþenu.

 12. Jááá verður svakalegur leikur. Gæti trúað að Mourinho stilli ekki upp í 4-4-2 heldur 4-3-3 og Mikel, Essien og Makelele myndir gífurlega þéttan múr. Svo munu Drogba, Cole og Lampard breika á okkur í skyndisóknunum.

  Það er nánast enginn veikur blettur á þessu Chelsea nema Paulo Ferreira. Af hverju ekki að stilla bara Gerrard upp á vinstri kantinum á móti Ferreira til að fá alvöru hættu upp vinstri kantinn þar sem Stevie myndi bara eiga pöntunarferðir þarna upp í gegnum Ferreira ?! Þá myndi einnig myndast pláss fyrir annað hvort Sissoko til að hemja þá Drogba og stöðva skyndisóknirnar eða Pennant á hægri og stilla þá bara upp almennilegri sóknarlínu.

  Svo veit maður aldrei nema að hann hafi einn framherja upp á topp og hafi Momo, Xabi, Mascherano og Gerrard alla inn á með Gerrard fyrir aftan striker og Pennant jafnvel úti hægra megin.

  Margir og spennandi möguleikar en ég vona samt að Momo verði inn á, þetta er leikur fyrir hann og hann er sennilega sá eini sem hefur eitthvað í líkamsburði Drogba að gera.

 13. Kristján:

  Sky: Essien ready for Crouch

  Hann væri varla að segja þetta ef hann myndi spila á miðjunni.

  Vísa í fyrri ummæli mín um miðju og sókn, en úr því að Shevchenko er meiddur má gera ráð fyrir að Kalou verði í byrjunarliðinu, eða Wright-Phillips. Ólíklegt að Robben verði skellt beint í byrjunarliðið.

 14. Halldór, ég sá þessi ummæli og þau benda vissulega til þess að hann verði í vörn. Þau gætu þó verið hluti af sálfræðistríðinu, hann gæti verið að blöffa.

  Michael Essien er stórkostlegur leikmaður sem getur spilað nær hvaða stöðu á vellinum vel. En ef Mourinho velur frekar lágvaxinn, heimsklassamiðjumann til að dekka Peter Crouch á morgun mun ég vera talsvert sigurvissari en ég er í dag. Það yrðu einfaldlega stórgóðar fréttir fyrir okkur.

 15. Díses Stjáni…þú ert að drepa mig.

  (By the way, þú ættir kannski að íhuga að slökkva bara á símanum þínum á morgun…. ;))

 16. … hvað, og missa af öllum 150 smáskilaboðunum frá þér? Þar sem þú spyrð spurninga eins og, “en hvað ef hann skorar EKKI?”

  Þau eru ómissandi! :laugh:

 17. Þetta myndband er aðeins of gott.

  Er sammála Kristjáni um byrjunarlið Liverpool og þakka honum fyrir góða upphitun. Þetta verður mjög spennandi – ég hef trölla trú á að Crouch og Kuyt, sérstaklega Crouchy.

  Ef það gengur illa að skapa færi fyrir framherjana þá á Pennant eftir að koma sterkur inn fyrir Arbeloa og við náum að skora eitt mark og tryggja okkur framlengingu. Við megum ekki fá á okkur mark!!!

  Góðar stundir

 18. Skil aldrei hvernig menn geta spáð tapi. Ég er alltaf jafnsigurviss fyrir leiki. Sama hvort það er Liverpool eða eitthvað annað þá hef ég alltaf trú á að allt gangi upp og mitt lið vinni. Fyrir þá sem halda að við megum ekki fá á okkur mark þá segi ég bara Olympiakos!

 19. Sko, Kristján Atli er versti spámaður allra tíma. Það hefur verið skjalfest hér margoft og engin ástæða til að deila um þann stórkostlega skort á spámannshæfileikum sem hann á við að etja.

  En hann er hins vegar lúmskur á sér og ætlar að vonast til hann sé í raun alveg ófær um að spá rétt – og því spáir Kristján okkur tapi í von um að það þýði Liverpool sigur. Af því að honum er ekki sama.

  Annars er ég búinn að vera fúll í allan dag. Það er hreinlega skylda Liverpool liðsins að koma mér í gott skap aftur.

 20. >Sko, Kristján Atli er versti spámaður allra tíma.

  Við skulum nú ekki alveg tapa okkur. Mætti ekki frekar standa ‘samtímans’, eða ‘Íslands í dag’? Er ekki ‘allra tíma’ frekar sterkt til orða tekið? :confused:

 21. I resent that Stjáni. En ég skal samt taka þessu sem hrósi og þar með gleðja þig með því að segja þér að spurningarnar sem munu dynja yfir þig á morgun verða í miklu menningarlegri og alvarlegri kantinum. Eins og t.d. “Vaxa þeir á sér lappirnar fyrir leiki?” og “Finnst þér ekki líka að fótboltamenn ættu að vera í svona þröngum stuttbuxum eins og hjólreiðamenn?” Svo ekki sé minnst á mikilvægustu spurninguna sem verður ALDREI toppuð: “Af hverju eru Crouch og Gerrard ekki að heyja vítaspyrnukeppni um hylli mína?!”

  Ahh, ég mun skemmta mér vel á morgun, sama hvað gerist. :tongue:

 22. Kristján Atli er fyrsti maður til að vonast eftir röngum spádómi. Ástæðan fyrir því að ég var oft missandi af sigri í getraunakeppninni á gamla vinnustaðnum mínum var einföld: ég gat ekki spáð Fram – mínum mönnum í íslenskum fótbolta – ósigri í neinu og þar af leiðandi gekk mér illa 🙂

  Liverpool er uppáhaldslið mitt í hvaða íþrótt sem er. Það er ekkert sem er stærra íþróttalega séð en Liverpool. Kannski hef ég gert það einhvern tíma, en ekki núna … þessi misseri get ég bara ekki fengið það af mér að spá Liverpool tapi. Það bara gengur ekki.

  2:0 sigur okkar manna á morgun (Agger og Gerrard skora), … ég vil allt gera til að Einar verði ekki í fýlu lengur :biggrin:

  Áfram Liverpool!!!!

 23. Jæja stærsti leikur og ég segi síðasti leikurinn líka. Hugrið í chelsea er einfaldlega of mikið þetta árið, og að mæta chelsea og þurfa að skora er ennþá erfiðara. Ég læt einhvern pening á jafntefli á þennan leik svona í sárabót ef maður skildi ekki komast áfram, sem ég hef enga trú á ég spái 1-1 og gerrard skorar.

 24. Ég var staddur á ókunnum stað í nótt og ætlaði að horfa á leikinn í sjónvarpi, í stað hans komu alltaf útsendingar frá hinum og þessum leikjum en aldrei birtist Liverpool – Ch. á skjánum. Ég var net- og tölvulaus og textavarpið í rugli, loksins birtist staðan 3-1 en ég var í vafa – skömmu síðar kom upp staðan 1-3. Ég vaknaði sveittur…

 25. Frábær upphitun, frábært myndband og þetta verður frábær dagur. Við þurfum að vísu á því að halda að allir spili frábærlega en ef menn ná ekki að keyra sig upp í undanúrslitaleik á móti Chelsea á Anfield þá er eithvað að. Hef fulla trúa á því að áhorfendur gefi mönnum þann kraft sem til þarf. Chelsea skorar tvö á Anfield en það dugar ekki þar sem Liverpool skorar 4. Spái þessu sem sagt 4-2 fyrir LFC. Mörkin koma frá Crouch-Agger-Pennant-Gerrard

 26. Ég er orðinn spennnturuuuruuuuuuurrrr :rolleyes:

  Ég er hrikalega hræddur við þennan leik. Er hægt að ætlast til þess af okkar mönnum að endurtaka leikinn frá því 2005????? Það var einstakt..bara einstakt …myndbandið hér að ofan sannar það. Ég er ennþá með gæsahúð um allann líkamann og ég hlustaði á þetta í gærkvöldi. Ævintýrið frá því 2005 var stórkostlegt og ég hef einhvern á veginn á tilfinningunni að stuðningsmenn Liverpool verði minntir á það í kvöld…og Chelsea hefur betur í þetta skipti…en guð minn góður ef vinnum!! Anfield mun sleppa sér..SLEPPA SÉR!!!!

  You will never walk alone

  Ég elska Liverpool og ég er stoltur af því að geta kallað mig stuðningsmann Liverpool..Stoltur… 🙂

 27. Við vinnum þennann leik hvaða væll er í mönnum. Í minni bók þýðir stuðningsmaður, maður sem styður lið sitt – til sigurs. Þess vegna skil ég ekki svona “ég held að við töpum” dæmi. Þetta er ekki beint að neinum hérna, ég á svona vini sjálfur. Er ég stressaður, já. Er ég viss um að við vinnum, nei. En þegar ég sest niður til að horfa á leikinn þá er ég viss um að þetta mun takast.

 28. Logi og Hemmi spá 1-0 fyrir lfc. leikurinn fer í Vítakeppni þar sem reina tryggir lfc sæti í úrslitum.
  Mín spá: 2-0 fyrir rauða herinn með gerrard í broddi fylkingar.

 29. Ég verð núna að taka orðrétt upp úr Blaðinu í dag: “Sóknarlína liðsins [Liverpool] ber þunga byrði og liðið þarf helst tvö mörk enda vilja menn Rafa væntanlega ekki lenda í vítakeppni á móti hinum gallharða Petr Cech sem er töluvert betri markvörður en Pepe Reina hjá Liverpool.”

  Í fyrsta lagi virðist blaðamaðurinn ekki hafa fullan skilning á útivallamarkareglunni og í öðru lagi þá er þetta fréttamennska sem er langt í frá hlutlaus. Menn geta deilt um hvor sé betri í markinu en svona afgerandi orðalag á ekki heima á síðum dagblaða. Auk þess kæmi mér ekki á óvart að statistic Reina yfir varin víti sé töluvert betri en Cechs án þess að ég þori að fullyrða um það. Ekki minnist blaðamaðurinn einu orði á það.

  Vitið þið annars hver skrifaði fréttina?

 30. Ég var búinn að gleyma þvi að Mourinho klappaði fyrir aðdáendum Liverpool og tók í hendina og faðmaði flestalla leikmennina. Gott að sjá það.. en held einhvernvegin að það eigi ekki eftir að gerast í kvöld ef við vinnum 😉

 31. Óli, Reina var einmitt sérstaklega þekktur á Spáni fyrir að verja vítaspyrnur.

  Annars er orðalagið “töluvert betri” auðvitað fráleitt.

 32. Það er alveg á hreinu að þessi leikur vinnst í kvöld með einum eða öðrum hætti og ég segi bara ÁFRAM RAUÐIR 🙂

 33. Vitiði hvort leikurinn sé í opinni dagskrá ?
  Er veikur heima sko 🙁

 34. Shiiit hvað þetta var æðislegt.

  Ég segi bara hvar fæ ég miða á leikinn????

Auglýsing: Diagon á netinu!

Kewell spilar með varaliðinu!