Portsmouth 2 – Liverpool 1

Jæja, okkar menn töpuðu í dag á útivelli fyrir Portsmouth, 2-1, í mjög kaflaskiptum leik. Rafa hvíldi næstum því alla þá sem munu væntanlega byrja leikinn gegn Chelsea á þriðjudaginn og fyrir vikið fengum við að sjá lið sem var blanda af ungum og óreyndum leikmönnum og gömlum reynsluboltum. Það lið þurfti of langan tíma til að samstilla sig í dag og það kostaði okkur þrjú stig.

Dudek

Arbeloa – Paletta – Hyypiä – Insua

Bellamy – Sissoko -Alonso – Zenden – Gonzalez

Fowler

BEKKUR: Padelli, Hobbs, Pennant (Gonzalez, 67. mín), El Zhar (Sissoko, 82. mín), Kuyt.

MÖRKIN: 1-0 Benjani 27. mín., 2-0 Kranjcar 32. mín., 2-1 Hyypiä 58. mín.

ÞAÐ SLÆMA

* Fyrri hálfleikurinn. Einfaldlega versti hálfleikur sem Liverpool hefur spilað í nokkrum leik í vetur. Og þá tel ég með afhroðin gegn Arsenal í janúar, þegar Dudek og Paletta voru síðast í liðinu. Liðið spilaði einfaldlega skelfilega fyrir hlé.

* Jerzy Dudek. Af hverju kom það manni ekki á óvart að sjá Jerzy verja stórvel um miðjan fyrri hálfleikinn en fá svo á sig algjört aulamark? Þegar boltinn kom langur innfyrir frá James og Benjani elti hann hugsaði ég með mér “Reina myndi sparka þessu í innkast,” en Dudek ákvað að bíða eftir að boltinn kæmi innfyrir teiginn til að geta gripið hann, og það gaf Benjani nægan tíma til að stinga sér á undan í boltann og skalla hann svo í tómt markið. Jerzy, þess vegna færðu ekki að spila meira.

* Sami Hyypiä. Þessi gamli snillingur, þessi goðsögn í sögu Liverpool, átti sök í báðum mörkum Portsmouth. Í fyrra markinu var Dudek reyndar algjörlega sekur, en í báðum tilfellum er það Hyypiä sem situr eftir í rangstöðuvörn liðsins og spilar framherjana réttstæða, fyrst Benjani og svo Krancjar í seinna markinu, þar sem hann elti boltann innfyrir og lagði hann svo framhjá Dudek til að koma Pompey í 2-0.

* Gabriel Paletta. Sorrý, en það verður að dæma þennan strák að einhverju leyti. Þegar hann kom til liðsins í haust var hann kallaður ‘óslípaður demantur’ en það er orðið alveg ljóst að hann vantar talsvert uppá til að gera tilkall í aðalliðið. Berið saman frammistöðu hans í dag, í sínum fjórða eða fimmta leik fyrir Liverpool, og frammistöðu Insua í sínum fyrsta leik. Pælið svo aðeins í því að Insua er þremur árum yngri. Annar þeirra er stórefnilegur, hinn þarf að bæta sig talsvert til að eiga séns.

* Craig Bellamy. Jú, hann byrjaði úti á kanti og komst betur inní leikinn í seinni hálfleik þegar hann var færður í framlínuna, en hann er samt sem áður gjörsamlega heillum horfinn þessa dagana. Fyrir tveimur mánuðum þótti það óljóst hvort honum eða Crouch yrði fórnað fyrir nýjan framherja í sumar. Í dag er það alveg klárt mál að ef einhver framherji (utan Fowler) verður látinn fara í sumar til að rýma fyrir nýjum manni, þá verður það Craig. Hann einfaldlega verður að sýna meira en þetta.

* Robbie Fowler. Hugurinn er ennþá til staðar og hann er ennþá einn besti klárarinn í deildinni, en líkaminn er fyrir löngu síðan dottinn niður á lægra plan en hugurinn. Það er hálf pínlegt að horfa uppá þetta, og enn pínlegra að þurfa að segja það, en Robbie Fowler á ekkert erindi í topplið lengur. Kveðjum hann með tár í vanga í vor og horfum svo fram á veginn.

ÞAÐ GÓÐA

* Seinni hálfleikurinn. Eftir hlé var einfaldlega ekki hægt að sjá mun á varaliði Liverpool og heimaliði Portsmouth, sem eru í sjöunda sæti deildarinnar. Rafa hefur lagt mönnum línurnar í hléi því að boltinn vann vel manna á milli allan seinni hálfleikinn og við vorum hreinlega óheppnir að ná ekki að jafna. Ef liðið hefði nú bara spilað af sama krafti frá byrjun værum við að fagna þremur stigum.

* Skotið hans Bolo Zenden. Undir lok fyrri hálfleiks fékk hann boltann talsvert langt fyrir utan vítateig Portsmouth, tók hann á lofti og negldi að fjærhorninu. Boltinn fór hátt yfir David James í markinu og söng í slánni og þaðan niður á grasið í markteignum. Staða hans á vellinum, hvernig hann skaut, þetta var næstum alveg eins og mark Luis García gegn Juventus fyrir rúmum tveimur árum, nema því miður fyrir Bolo fór þessi bolti ekki í netið heldur slána. Hefði verið eitt af mörkum ársins í Englandi, hefði skotið verið tveimur sentímetrum neðar. Því miður fyrir Bolo.

* Emiliano Insua. Fyrsti leikur þessa átján ára Argentínumanns og hann spilaði hreinlega eins og hann væri 27 ára og búinn að spila í tíu ár í liði Liverpool. Þetta er greinilega framtíðarleikmaður, ef þessi leikur er marktækur. Frábær innkoma.

* Momo Sissoko. Momo hefur verið slakur síðan í útileiknum gegn Barcelona, en hann var frábær í dag. Ég fylgdist sérstaklega með honum og hann skilaði öllum sendingum sínum í dag á samherja, auk þess að vera duglegur við sína sterkustu iðn, að vinna boltann framarlega á vellinum og vinna eins og berserkur út um allan völl. Þriggja leikja hvíldin hefur gert honum gott og það er gaman að sjá hann ferskan á ný.

* Á meðan Ballack og Carvalho voru staðfestir sem fjarverandi fyrir leikinn á þriðjudaginn sátu nær allir aðalliðsmenn okkar uppí stúku eða heima í Liverpool og slökuðu á. Þetta er auðvitað okkar mönnum í hag, en það á enn eftir að leggja þann gróða inn. Ég segi bara, það er eins gott að þessi hvíld lykilmanna borgi sig á þriðjudaginn, því Rafa hreinlega fórnaði stigum í dag til að geta komist í úrslit Meistaradeildarinnar.

MAÐUR LEIKSINS: Momo Sissoko og Emiliano Insua deila þessu með sér í dag. Annar þeirra er einn efnilegasti leikmaður klúbbsins og stóð sig stórvel í fyrsta leiknum með aðalliðinu, hinn hefur verið einn mikilvægasti leikmaður liðsins sl. tvö tímabil og hristi af sér slenið í dag. Flottur leikur hjá báðum.

Næsti leikur: Chelsea á Anfield í Meistaradeildinni á þriðjudag. Let the countdown begin …

12 Comments

 1. Þetta verður allt í lagi við verðum fyrir ofan
  Arsenal og við urðum að hvíla allt liðið ef við
  ættlum að vinna á þriðjudag
  kv jkm

 2. Sá ekki leikinn og tjái mig því ekkert um hann…

  En Kristján, sama hvernig leikurinn á þriðjudaginn fer er ég ekkert nema ánægður að Rafa hvíldi menn í dag. “Eins gott að það borgi sig,” veit að þetta er enginn sleggjudómur hjá þér en auðvitað er rétt hjá þjálfara að hvíla alla menn sem hann getur fyrir mikilvægasta leik tímabilsins í leik sem skiptir voðalega litlu máli… 🙂

 3. Hyypia skoraði markið okkar á 59 mín. með skalla eftir hornspyrnu.

  Þetta var já kaflaskiptur leikur og er ég sammála næstum öllu sem Kristján segir.

  Insua stóð sig vel. Rosalega ánægður með drenginn.

  Bellamy var heillum horfinn og pirrar sig á öllu. Hann fer.

  Fowler er gamall en samt betri en Bellamy. Er væntanlega að kára sitt síðasta tímabil með LFC.

  Paletta er einfaldega ekki nógu góður. Lána hann til Sunderland?

  Nenni ekki að ræða Dudek en þetta var klárlega hans síðasti leikur fyrir félagið.

  Ég er ánægður með Rafa að þora að láta ungu strákana spila þótt við töpuðum. Vonandi vinnum við síðan á þriðjudaginn og fleiri ungir strákar fá tækifæri.

  Ég vil líka nefna það að ég var ánægður með Gonzalez í dag, kraftur í honum og sýndi fína takta.

  Pennant átti einnig góða innkomu og hlýtur að vera í byrjunarliðinu gegn Chelsea.

 4. Helv. innsláttarvillur. Búinn að lækka aldur Insua um sex ár og setja inn mörkin. Set inn vídjó af mörkunum fyrir þá sem ekki sáu síðar í dag, eða í síðasta lagi á morgun. 😉

 5. Var einnig að bæta við umfjöllun um rosaskot Zenden í “Það Góða”-hluta leikskýrslunnar. Verst fyrir hann að þetta skot fór ekki inn.

 6. Þessi leikur skipti engu máli. Vonandi taka okkar menn svo Moaninho og félaga í bakaríið á þriðjudag.

  Vil ekki vera að tapa mér í neikvæðni en brá samt í brún þegar ég leit á stigatöfluna og tók eftir því að Liverpool er búið að tapa 9 leikjum í vetur. Þegar tvær umferðir eru eftir hafa okkar menn tapað 25% af deildarleikjum.

  S.s einum af hverjum fjórum sem Liverpool hefur spilað í deildinni í vetur hefur liðið tapað.

  Ég ætla ekki að fara að heimta menn burt og hrauna yfir þá. En að tapa einum af hverjum fjórum finnst mér frekar súrt.

  Til samanburðar: Mótherjar okkar á þriðjudaginn hafa tapað þremur leikjum af 35. Taphlutfallið hjá Chelsea er 8,6%. Sem sagt þeir tapa einum af hverjum rúmlega ellefu leikjum.

  Manchester United hafa tapað fjórum leikjum, s.s. 11,4% af spiluðum leikjum og tæplega einum af hverjum níu.

  Þetta er frekar áhugavert. Hvað finnst mönnum?

 7. Vissulega sat Hyypia eftir í rangstöðunni í seinna markinu, en fyrra markið var algjörlega skrifað á Dudek. Finnst einstaklega ólíklegt að menn hafi verið að spila upp á rangstöðu þegar David James gefur fram boltann.
  En fyrir utan seinna markið þá var þessi maður langbesti maður liðsins. Hann var að hirða alla bolta sem komu í seinni hálfleik, og vann tveggja manna verk þar sem Paletta er gjörsamlega úti á túni. Svo skoraði hann líka flott mark.
  Í þau fáu skipti sem hann hefur fengið að spila upp á síðkastið þá hefur hann alltaf verið traustari en nokkur annar, fyrir utan þessi einu mistök í seinna markinu í gær.
  Ég held því algjörlega fram að betri “þriðji” miðvörður sé ekki til í deildinni.

 8. Hann Móri er nú langt frá því að vera efstur á vinsældalistanum hjá mér en það er óþægilega mikið til í því sem hann sagði að stórliðin væru að berjast á mörgum vígstöðvum og veldu sér ekki bara eina keppni sem þau einbeita sér að.

  Ef það fer þannig að við töpum á morgun fyrir chelskí þá er þetta tap fyrir portsmouth skammarlegra en ella.

  Vafalaust þannig að margir segja þetta skipti ekki máli en fyrir mér er það ekki léttvægt að tapa fyrir Portsmouth. Hver einasti leikur sem við töpum er sorgleg staðfesting á þeim mun sem er á okkur chelskí og scum.

Liðið gegn P’mouth – Insua byrjar!

Craig Bellamy MUN FARA (Uppfært)