“20 marka framherji”

topscorers.png

Tvennan hans Dirk Kuyt í gær varð til þess að ég ákvað að kíkja aðeins á tölfræðina fyrir tímabilið. Listinn hér að ofan er tekinn af vefsíðu BBC og sýnir markahæstu leikmenn deildarinnar. Drogba og Ronaldo hafa verið efstir frá því snemma á tímabilinu en undanfarið hafa McCarthy og Doyle verið að nálgast þá. Nú er Kuyt kominn í þann hóp.

Kuyt er í 5.-7. sæti yfir markahæstu menn deildarinnar, hefur skorað tólf mörk í 33 leikjum (þar af hefur hann verið varamaður sjö sinnum). Það er mark í hverjum 2.75 leikjum, sem mér finnst alls ekki slæmt hjá manni á sínu fyrsta tímabili í nýju landi. Ég býst við fleiri mörkum frá Kuyt á næsta tímabili, en þó finnst mér í lagi að benda á þessa tölfræði til að sýna að þótt hann geti betur hefur hann staðið sig nokkuð vel í vetur.

Til samanburðar má benda á að Benni McCarthy hefur skorað sín fimmtán mörk í 32 leikjum (meðtaltal eitt mark í hverjum 2.13 leikjum), en hann er eini nýkeypti leikmaðurinn í deildinni sem hefur staðið sig betur en Kuyt í vetur. Munurinn er hins vegar sá að McCarthy er nánast sá eini sem skorar í sínu liði (21 í heild, Pedersen og Nonda eru næstmarkahæstir með 8 mörk hver) á meðan talsvert fleiri skora mörkin hjá okkur. Þar að auki er Kuyt ekki einu sinni markahæstur hjá Liverpool í vetur – hann er með þrettán í allt en Crouch er með átján, Gerrard með ellefu, Bellamy níu og Fowler sjö.

Ég er ekki að segja að markaskorun Kuyt í vetur sé stórkostleg. Hann getur betur og ég býst fastlega við að hann geri betur á næsta tímabili, rétt eins og Crouch hefur bætt sig í vetur frá því í fyrra. Mín skoðun er sú að þeir tveir (og Bellamy líka, ef hann verður kyrr) mynda ágætis grunn í markaskorun hjá félaginu, og að ef að Rafa tekst að bæta við einum framherja sem er stærra nafn en allir þessir þrír ættum við að geta bætt enn fleiri mörkum í safnið á næsta ári.

Ég lít á það svo að ef Crouch skorar svipað mikið á næsta ári og í ár en Kuyt kannski 10 mörkum meira (alveg raunhæft, að mínu mati) erum við með tíu mörk í plús á næsta tímabili. Ef Bellamy verður kyrr býst ég fastlega við að hann skori líka meira, þar sem hann hefur mest rúm fyrir framför. Ef við skiptum svo Fowler með sín sjö mörk út fyrir mann sem skorar 15-20 mörk ættum við að geta bætt svona 8-13 mörkum í viðbót við. Þetta er bara líkindareikningur hjá mér, en það þýðir að framherjahópur okkar ætti svona raunhæft séð að geta skorað allt að 18-23 mörkum fleira á næsta ári en í ár, jafnvel meira ef Bellamy verður kyrr og bætir sig.

Þetta er allavega ekki slæmt eins og er. Það er rúm til að bæta sig en ég sé enga ástæðu til annars en bjartsýni fyrir næsta tímabil. Rafa virðist vera, hægt og bítandi, að ná að laga framherjavandamálin okkar. Þeir dagar þegar Owen var sá eini sem kunni að skora eru að minnsta kosti fjarlæg minning eins og staðan er í dag. 🙂

16 Comments

 1. “Ef við skiptum svo Fowler með sín sjö mörk út fyrir mann sem skorar 15-20 mörk ættum við að geta bætt svona 8-13 mörkum í viðbót við.”

  Ég held nú að Fowler væri kominn með fleiri mörk ef hann hefði fengið að spila meira, og er ekkert endilega að sjá einhvern annan, sem spilar jafn lítið og Fowler skora jafn mörg mörk.

  Annars eitt, og algjörlega málinu óviðkomandi, að miðað við skjáskotið hef ég eina spurningu til að svala forvitni minni, Kristján ertu Linux notandi?

 2. Óli – Crouch er með níu í deildinni og sjö í Meistaradeildinni. Kuyt hefur ekki enn skorað í Evrópu í vetur, sem eru vissulega vonbrigði.

  Halldór – ég er ekki Linux-notandi. Af hverju spyrðu?

 3. Má kannski bæta því við að það er verið að ræða akkúrat þessi sömu mál á RAWK.com. Mæli með að menn lesi þessar umræður, þær eru mjög fróðlegar. Samkvæmt tölfræðinni þá hefur Liverpool-liðið verið að skora ca 20 mörkum minna en liðið sem vinnur titilinn á hverju ári þennan áratug. Þannig að það er ljóst að við þurfum fleiri mörk, hvaðan sem þau koma.

 4. Nei bara… skjáskotið virkaði þannig, stafirnir virðast ekki vera “anti-aliased” eins og er gjarnan á Windows tölvum, heldur mýkri.

  Annars finnst mér Liverpool vanta þennan framherja sem maður getur alltaf bókað að skori, svona eins og Drogba hefur gjarnan verið í ár, Nistelrooy á sínum tíma fyrir Man Utd, eða svona draugar eins og Owen sem gera kannski ekkert í 85 mín af leiknum en skora svo 2 mörk.

  Að sama skapi er ég sáttur með framherjana sem við höfum hjá liðinu í dag, en finnst eins og Benitez sé með þá tilskipun (a.m.k. til Kuyt og Bellamy) til framherjanna að þeir eigi að hlaupa a.m.k. 12 km í leik og djöflast, sem ég veit ekki.

 5. Vildi forðast að tvítaka ummæli, en þarna átti að koma “en ég veit ekki, kannski er það bara ég” í stað “sem ég veit ekki” 🙂

 6. Má kannski benda á að við vitum allir að að Benitez hefur spilað með kuyt, sem framliggjandi miðjumann en ekki striker. Allavegana í mörgum leikjum. Kannski segir það eitthvað til um að mörkin eru bara ekki fleiri.

 7. Halldór – ég nota heldur ekki Windows. Ég er Mac-maður. Það skýrir gæðin. 😉

  Annars er ég sammála því að við þurfum 20 marka striker. Ég er bara ekki til í að útiloka að Kuyt eða Crouch séu sá maður. Þá er vert að benda á það að Didier Drogba er sá eini á þessu tímabili sem virðist ætla að ná 20 mörkunum í deildinni (nema Ronaldo fari að skora fjögur í þremur leikjum). Það skekkir þetta að Henry hefur verið meiddur í mestallan vetur (samt með 10 mörk) því hann er vanur að fara yfir 20 mörkin, en þá væru þeir samt bara tveir í vetur. United eru að vinna titilinn án þess að vera með 20 marka striker, til dæmis.

  Þá er líka allt í lagi að eyða þessari goðsögn um Owen sem 20 marka striker. Hann fór reglulega yfir 20 mörkin í öllum keppnum en hann náði mest 19 mörkum á tímabili í deildinni, tímabilin 2001-2 og 2002-3. Ef við skorum markaskorun hans í öllum keppnum er það aðeins þau tvö tímabil (28 heildarmörk tvö tímabil í röð) sem hann skorar eitthvað að ráði meira en t.d. Crouch hefur gert núna eða Gerrard og Cissé gerðu í fyrra.

 8. Rafa tjáir sig um Kuyt, sem er fyrsti leikmaðurinn undir stjórn hans hjá LFC til að skora meira en 10 mörk í deildinni. Greinin nefnir líka að Kuyt er þá búinn að skora tveimur mörkum meira en markahæsti maðurinn í ár, Drogba, skoraði á sínu fyrsta tímabili fyrir Chelsea. 🙂

 9. Ég er alls ekki að setja út á Fowler, sem hefur staðið sig frábærlega síðan hann sneri aftur til Liverpool. En ástæðan fyrir því hvað hann spilar lítið er sú að hann er orðinn of hægur fyrir flesta leiki. Rafa myndi t.d. aldrei velja hann úr hópi fjögurra framherja til að spila gegn Chelsea eða United. Nýr maður myndi væntanlega skora meira en Fowler af því að það væri maður sem getur gert tilkall til fleiri leikja sökum líkamsforms og (vonandi) hraða.

  Fowler mun alltaf skora þegar hann spilar. Hann er bara því miður kominn á þann aldur og orðinn það hægur að það er ekki hægt að láta hann spila meira en raun ber vitni.

 10. Ég veit að Owen var aldrei 20 marka striker í deild, þótt hann hafi stundum farið yfir þann múr. Persónulega sakna ég Owen ekkert rosalega, en mér finnst þessir Liverpool framherjar aldrei beinlínis eiga þessa leiki þar sem þeir virðast vera heillum horfnir en skora svo kannski 1-2 mörk sem tryggja liðinu sigur.

  Annars er líka athugavert að sjá að það eru eiginlega engir framherjar reglulega að fara yfir 20 marka múrinn í deildinni svona þessi síðustu ár, nema Henry, Nistelrooy og Shearer.

 11. Ágæt umræða um framherjana. Kyut og Grouch eru komnir til að vera. Það er kominn maður fyrir Fowler frá Þýskalandi og hann er ekki mikill markaskorari, verður okkar 4 framherji. Svo ef að á að styrkja sóknarlínuna á að selja Bellamy að mínu mati og kaupa alvöru markaskorara.

 12. Jújú. Mikið rétt Fowler er hægur. En á móti þá hefur hann aldrei á þessu tímabili fengið tækifæri til að koma sér í leikform. Ef hann hefði fengið nokkra leiki í röð…

  Það sem Fowler hefur er afbrigðilega gott markanef. Hann skorar þegar hann spilar. Frekar vill ég hafa senter sem er týndur allan leikinn og skorar eitt en senter sem er vinnusamur en skorar ekki nema í fimmta hverjum leik.

  Útaf hverju segirðu samt að það sé ekki hægt að spila honum meira en raun ber vitni? Af því hann þarf mánuð til að jafna sig á einum leik? Eða af því honum er ekki treystandi til að skora gegn miðlungsliðum?

  Það er enginn að tala um að hann eigi að spila hvern einasta leik og ég skil það fullkomlega að hann spili ekki gegn toppliðunum. Hinsvegar ætti hann að hafa spilað miklu meira. T.d. í markaþurrðinni þegar við vorum ekki búnir að skora mark í nokkrum leikjum í röð? Af hverju fékk hann ekki sénsinn? Eða á móti Middlesboro? Seinni leikinn á móti PSV?

  Til að menn skori þá þurfa þeir einfaldlega að fá tíma. Málið með Fowler er í fyrsta lagi að hann skorar úr þeim færum sem hann fær og annarsvegar að hann kemur sér í færi sem hinir koma sér ekki í.

  Málið með hraðan hans Fowler er að það taka allir eftir því hvað hann er hægur. Þess vegna er hann auðveldur skotspónn. En þegar hinir senterarnir ná ekki að gera sér mat úr einhverju sem virðast vera hálffæri. T.d. vegna lélegrar staðsetningar gerum við okkur ekki grein fyrir að ef til vill hefði Fowler náð þessum bolta – og skorað.

  ..og ef staðgengill Fowler er ætlað að spila meira en Fowler, verður að taka það með í reikninginn að hinir munu þá spila minna. Og þar með skora minna.

  En ef maður lítur á þessi framherjamál útfrá aðeins víðara samhengi þá er ég ekkert viss um að Bellamy sætti sig við að vera sóknarmaður númer 4. Voronin taldi ég vera hugsaðan sem allsherjarbakköpp á köntunum, sem sóknartengiliður og frammi þannig að ég tek hann ekki með.

  EN eins og staðan lítur út fyrir mér núna verður goggunarröðin kannski þessi:
  1. Sumarkaup (Villa)?
  2. Kuyt
  3. Crouch
  4. Voronin

  Verða menn sáttir við þau skipti Voronin vs. Robbie Fowler? Þetta verður þá í annað sinn sem Robbie Fowler verður hent frá Liverpool fyrir sóknarmann sem getur ekki skorað mörk. Svekkjandi.

  Annars vill ég aftur hvetja menn til að skoða þessa statístík á:
  http://lfchistory.net/redcornerarticlesview.asp?article_id=1960

  Hún kemur á óvart. Jafnvel fyrir veruleikafirrtan Fowler fanatíker eins og mig.

 13. Við skulum nú alveg slaka á fullyrðingum um að Voronin “geti ekki skorað mörk” fyrr en hann kemur til liðsins og fær sína sénsa. :rolleyes:

  Ég vil bara benda á að Fowler er búinn að skora þónokkur mörk úr vítaspyrnum. Síðan eru þetta aðallega pot af stuttu færi hjá honum. Hann er ekki að skora í ár með skotum langt utan úr teig líkt og hann gerði fyrir okkur í fyrra, t.d. sigurmarkið mikilvæga gegn Bolton.
  Það að hafa Fowler þarna kitlar auðvitað gamlar Liverpool-taugar en hann er alveg dottinn úr formi kallinn og hefur ekki þann hraða sem þarf í nútímafótbolta.
  Ef við gæfum honum meiri sénsa myndi Liverpool mjög líklega skora meira en við myndum að sama skapi missa oftar tökin á miðjunni.
  1 vandamál leysist og annað blasir við í staðinn. Verður fínn sem 5.Striker.

  Held að Bellamy verði mjög líklega seldur. Fannst hann svo yfirtjúnaður gegn PSV í að vilja sanna sig að hann veit hversu hratt styttist í veru hans hjá Liverpool. Ekkert nema stórleikir í CL og þrennur í deild held ég að geti bjargað honum.

  Í sumar verður ungur heimsklassa sóknarmaður keyptur sem hefur hraða og skorar reglulega. Hann ásamt góðum vinstri kantmanni munu færi Liverpool langþráðan Englandsmeistaratitil næsta ár.

 14. Ég vil nú benda mönnum á að Crouch hefur alltof sjaldan verið í byrjunarliðinu í deildinni.

  væri klárlega búin að skora meira ef svo væri.

  Er með mark í öðrum hverjum leik ef maður tekur bara leikina sem hann hefur verið í byrjunarliðinu.

  Bellamy er bara því miður ekki nógu góður fyrir Liverpool. En annars finnst mér að framherjarnir eru að vinna allt of mikið aftur.T.d. Morientes í fyrra…hann var að hlaupa allt of mikið og hafði þá ekki þrek í að klára færin inn í teig og var stundum ekki einu sinni á svæðinu.Eitthvað sem maður hefur oft séð í vetur maður hefur oft spurt sig þegar kemur fyrirgjöf hvar framherjarnir séu eiginlega.

  en áfram Benitez
  ÁFRAM LIVERPOOL

  kv stefano

Nýr haus á síðunni

Tveir miðar á Liverpool – Chelsea í boði!