Arsenal á morgun

Flokkurinn sem þetta ætti að lenda í ætti frekar að heita upphysjun en upphitun. Ég vona allavega að það sem ég er að fara að setja á prent hérna sé upphitun fyrir upphysjun. Okkur sveið mjög þegar liðið okkar datt út úr tveimur bikarkeppnum fyrir Arsenal á mjög svo stuttum tíma. Það sveið enn meir að báðir leikirnir voru háðir á Anfield. Nú er kominn tími til að sýna það að við getum unnið þetta lið. Reyndar verð ég að viðurkenna það að þetta Arsenal lið er líklegast það lið sem hentar okkur verst að spila gegn. Áður en úrslit voru ljós í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar, þá var ég búinn að segja það við félaga mína að Arsenal væri það lið sem ég vildi helst forðast af öllum þessum liðum. PSV sá um að ósk mín rættist.

Rafa þarf ekki að eyða miklum tíma í að mótivera leikmenn fyrir leikinn á morgun. Hann þarf einungis að hengja upp á vegg úrslitin úr leikjunum tveimur. Það ætti að vera yfirdrifið fyrir það, því ef menn vilja ekki bæta fyrir þau mistök, þá eiga þeir ekkert heima í þessu liði. Simple as that. Ég er harður á því að við erum með talsvert betra lið en Arsenal. Þeir eru með afar ungt lið og virðast stundum ekki alveg vita það hvenær á að hætta að senda boltann og byrja að skjóta. Það er aftur á móti oft á tíðum afskaplega skemmtilegt að sjá þetta spil þeirra sem er algjör andstæða við harðjaxlabolta. Arsene Wenger er einfaldlega einn allra besti stjórinn í heiminum. Hann gerir samt mistök eins og aðrir, og ég held að stærstu mistök sem hann hefur gert, var að byggja ekki betur úr liðinu sem virtist algjörlega ósigrandi fyrir ekki svo löngu síðan. Að mínum dómi þá yngdi hann alltof fljótt upp og missti ákveðinn balance og reynslu.

Það má líka gagnrýna okkar menn um margt og þá helst að nýta ekki þessi færi sem við erum að skapa okkur í leikjum. Oft látum við markverði andstæðingana líta út eins og heimsklassa, þó svo að þeir séu það engan veginn. Við þurfum að slútta betur. Við spiluðum virkilega vel á móti Man U og Barca, en vantaði slútt á öll færin okkar. Við spiluðum aftur á móti skelfilega á móti Villa um daginn. Hvernig mætir liðið til leiks núna?

Það má eiginlega segja að þessi leikur á morgun sé nánast eins og bikarleikur. Bæði lið munu vilja vinna leikinn og tryggja stöðu sína í topp 4 sætunum. Arsenal mega meira við jafntefli, en vilja eflaust tryggja sig með sigri. Ég trúi hreinlega ekki öðru en við séum að fara að sjá skemmtilega viðureign.

Hjá Arsenal eru þeir Thierry Henry, Robin Van Persie og Theo Walcott frá vegna meiðsla. Adebayor kemur tilbaka úr banni og þeir Gael Clichy og Emmanuel Eboue hafa náð sér af meiðslum. Babtista hefur verið okkur erfiður og mun væntanlega byrja frammi. Annars býst maður ekki við neinu óvæntu hjá þeim, sér í lagi þar sem þeir þurfa ekkert að spá í að hvíla menn fyrir Meistaradeildina.

Þá að okkar mönnum. Hvernig ætli Rafa setji þetta upp núna. Leikur við PSV á þriðjudaginn, sem er mun mikilvægari en þessi. Mun hann hvíla einhverja? Peter Crouch ætti að vera klár í slaginn að nýju, en ég efast samt stórlega um að hann taki sénsinn með hann strax. Ég reikna með því að Kuyt og Bellamy muni því halda áfram saman í framlínunni og Fowler bíði á bekknum. Ég reikna með að við sjáum Gerrard enn og aftur á hægri kantinum og að Sissoko verði inná miðjunni til að brjóta upp spil Arsenal. Stóra spurningin er hvort það verður Mascherano eða Alonso sem spili með honum. Sissoko verður í banni gegn PSV, þannig að það styrkir enn meira þessa skoðun mína. Ég ætla að tippa á að Alonso verði við hlið hans. Vinstri kanturinn er svo aftur alltaf stórt spurningamerki. Riise? Aurelio? Gonzalez? Zenden? eða jafnvel Gerrard og Pennant á hægri? Ég ætla að spá því að við leggjum upp með hraða á kantinum og Gonzalez byrji þar. Þetta er reyndar bara skot út í loftið, en hvað um það. Vörnin mun svo verða hin venjulega vörn, Finnan, Carra, Agger og Riise. Ég ætla bara að vona að Riise taki samt ekki upp á því að láta mann eins og Hleb fífla sig upp úr skónum aftur.

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Gerrard – Sissoko – Xabi – Gonzalez

Kuyt – Bellamy

Bekkurinn: Dudek, Hyypia, Aurelio, Pennant og Fowler

Nýjir eigendur verða á vellinum í fyrsta skipti sem eigendur félagsins og ég trúi ekki öðru en að leikmenn vilji sýna þeim að þeir hafi keypt gott lið og ætli sér að vera innan herbúða þess til frambúðar. Ég ætla að spá því að við vinnum Arsenal í fyrsta skipti á tímabilinu og að leikurinn fari 2-1. Eigum við ekki að segja að Gerrard og Bellamy skori mörkin fyrir okkur.

17 Comments

 1. Sammála þessari upphitun, þessi leikur er eins og bikarleikur fyrir bæði liðin. Það væri okkur stórlega í hag að vinna, bæði sem lyftistöng fyrir PSV-leikinn í næstu viku og til að taka pressuna af liðinu í baráttunni um 3. sætið í deildinni.

  Ég er eiginlega sannfærður um að Pennant mun byrja þennan leik og hugsa að við gætum séð sama lið og þú spáir, nema Pennant inni fyrir Sissoko og Gerrard á miðjum vellinum. Þó veit maður aldrei þegar Rafa er annars vegar, en gleymum því ekki að hann hefur haft menn eins og Pennant, Gonzalez, Sissoko og Mascherano alla vikuna til að undirbúa þennan leik á meðan Gerrard og Alonso komu bara til baka í gær.

  Þetta leggst ágætlega í mig. Við fáum í það minnsta fjörugan leik og þetta gæti ráðist af því hverjir skora fyrsta markið. Í janúarleikjunum tveimur byrjuðu Liverpool á að pressa stíft en Arsenal náðu í bæði skiptin að komast yfir gegn gangi leiksins, og í kjölfarið hrundi allt hjá okkar mönnum. Ef við ætlum að eiga einhvern séns á morgun má þetta ekki gerast aftur.

  Mín spá: 2-0 fyrir Liverpool í taktískum baráttuleik. Við skorum í sitt hvorum hálfleiknum.

 2. Ég er reyndar á því að hann muni ávallt stilla upp annað hvort Xabi eða Javier í öllum leikjum liðsins. Sé hann ekki skilja Stevie eftir fyrir utan liðið og þess vegna setti ég þetta upp svona. Get hreinlega ekki ímyndað mér að sjá Stevie og Momo saman á miðjunni. Hann vill greinilega alltaf hafa einn passívan sendingarmann (holding role) fyrir aftan til að covera vörnina. Áður var það Didi, Igor og Xabi. Núna hefur hann Javier og Xabi.

  Átti einmitt í virkilegum vandræðum með að stilla upp miðjunni út af Penntant. Kannski bara Gerrard vinstra megin? :rolleyes:

 3. Fín spá, en það er spurning hvort hann hvíli ekki Gerrard fyrir PSV leikinn, þar sem Gerrard er búinn að spila 2 leiki með landsliðinu, og það útileiki, þannig mikil ferðalög fyrir hann?! Carra að vísu líka, en hann spilaði eingöngu fyrri leikinn.

 4. Er hræddur um að Sissoko verði í liðinu eins og Steini segir og Gerrard verið kastað útá kant. Sérstaklega í ljósi þess að Momo verður í banni á þriðjudaginn. Við byrjuðum tímabilið illa með Momo í liðinu og Gerrard á kantinum. Momo meðist, Gerrard fer á miðjuna og okkur gengur betur. Momo kemur til baka, fer í liðið og Gerrard er kastað á kantinn og við byrjum að hikksta…tilviljun? …tja, er von að maður spyrji sig?

  Ég myndi þó helst vilja sjá Gerrard/Alonso miðju með Gonzales og Pennant á könntunum. Þurfum ekkert Sissoko til að þétta miðjuna, eigum að vera mun betri en þetta blessaða Arsenal lið, sérstaklega á heimavelli!

 5. Benni, ég veit að Momo hefur átt nokkra slaka leiki undanfarið en hann hefur varla verið sá eini. Er það nokkuð? Er ekki óþarfi að tala um “hræðslu” við að hann spili? Hann á betra skilið, þótt hann sé í lægð núna.

  Annars var ég búinn að gleyma því að hann er í banni á þriðjudag. Þá verður hann pottþétt í liðinu á morgun, og eins og Siggi segir er spurning hvort Gerrard verður ekki hreinlega hvíldur á morgun, hafður á bekknum til vara en ekkert meira en það.

  Mín endurskoðaða spá er sem sagt þessi:
  Pennant – Alonso – Sissoko – Gonzalez.

  🙂

 6. Ég ætla að vera bjartsýnn og segja 3-1 fyrir LIVERPOOL eftir að við lendum 0-1 undir.
  Gerrard með tvö og alonso eitt

 7. Ég segji “hræddur” því mér finnst liðið veikjast mikið sóknarlega þegar Momo kemur inn og Gerrard er færður útá kannt. Ég er aðdáandi Momo Sissoko, finnst hann góður leikmaður, en vil hann samt ekki í mitt lið. Ég veit að þetta hljómar kjánalega, en þegar við erum betra liðið þá finnst mér Momo ekki njóta sín og við hreinlega spila leiðinlegri bolta með hann innanborðs. En þegar við erum veikara liðið, t.d. gegn Barcelona um daginn, þá er frábært að hafa leikmann eins og hann. Læri hann hinsvegar að sparka á markið og gefa boltann, þó ekki væru nema bara 2m-4m sendingar, þá skal ég endurskoða afstöðu mína.

 8. Ég skil þitt point að vissu leyti, Benni, og tek undir að það getur stundum verið hömlun að hafa Momo inni gegn liðum sem leggjast í vörn gegn okkur af þeirri ástæðu að hann er ekki jafn sterkur sóknarlega og Gerrard eða jafn góður skotmaður og Alonso.

  Á morgun er liðið hins vegar að etja kappi við Arsenal, og rétt eins og Barcelona munu menn Wengers ekki liggja í vörn á Anfield heldur leitast við að spila sinn hraða sendingabolta. Það getur verið lykill að sigri á morgun gegn Arsenal að stöðva miðju Arsenal, og þá sér í lagi Cesc Fabregas, í að vaða uppi með boltann við fætur á miðjum vellinum.

  Ég er á þeirri skoðun að ef við hefðum haft Momo gegn Arsenal í janúar hefðum við aldrei tapað báðum leikjunum, og jafnvel hvorugum, því án hans gátu menn eins og Tomas Rosicky, Cesc Fabregas, Aleksandr Hleb og Julio Baptista rölt vandræðalausir og nær óáreittir um völlinn fyrir framan vörn okkar manna. Ef Momo hefði verið þarna til að hrella menn út um allan völl hefðu þeir ekki haft sama frelsi og ekki náð að skapa sér jafn mikið.

  Þess vegna held ég að Momo byrji inná og morgun. Það, og það að hann verður í banni á þriðjudag og því kjörið að hvíla annað hvort Alonso eða Gerrard á morgun fyrir þann leik.

 9. verð brjálaður ef þetta verður liðið!!! Að Gerrard skuli vera settur út á kant svo að maður sem kann ekki að senda 1 m bolta geti verið þar er algjörlega GLATAÐ!! Þetta er orðið alveg óþolandi! Sisokko er bara ekki á Liverpool-klassa og það sjá það allir, PUNKTUR!

 10. “Sissoko er bara ekki á Liverpool-klassa og það sjá allir, PUNKTUR!”

  Ég er greinilega staurblindur og þú fullur alhæfinga. Mér finnst Momo í Liverpool klassa og virkilega mikilvægur í ákveðnum leikjum gegn ákveðnum liðum. Þú getur haft þína skoðun, en vinsamlegast hafðu það þá bara þína skoðun. Ég vil áfram fá að tala fyrir mína hönd.

 11. Fyrir mér er þetta bara leikur upp á “bragging rights”, því að fyrir okkur Liverpool-menn skiptir í raun engu máli hvort við lendum í 3. eða 4.sæti nema upp á það, að hafa lent í 3.sæti en ekki 4.sæti (betra upp á mont seinna meir). Breytir því ekki fyrir mér að auðvitað vill maður að Liverpool lendi í 3.sæti frekar en 4.sæti.

  Og sérstaklega í ljósi þess að þeir eiga leik á þriðjudaginn, þá leyfi að spá því að Benitez smelli Gerrard á bekkinn. Svo ef Arsenal skyldu nú skora þá lætur hann Gerrard inn á sem reddar málunum eins og sönn ofurhetja 🙂

 12. Mitt gisk:

  Reina
  Finnan-Carra-Agger-Riise
  Pennant-Alonso-Gerrard-Gonzales
  Bellamy-Fowler

 13. Ég ætla að spá því að hvorki Xabi né Gerrard verði í liðinu á eftir. Rafa er búinn að hafa góðan tíma til að berja Momo og Mascherano saman og ég held að þeir verði á miðjunni í dag þrátt fyrir skelfilegan leik á móti Villa síðast. Pennant og Aurelio/Gonzales verða svo á köntunum. Það kæmi mér svo ekkert á óvart ef Arbeloa byrjaði í bakverðinum.

  Það væri hins vegar gaman að sjá Rafa taka smá séns í þessum leik og spila 3-5-2 og hafa þá Gerrard-Xabi-Mascherano á miðjunni. Mín skoðun er sú að sú taktík henti mun betur en 4-4-2 á móti Arsenal.

  Spái þessu 4-3 fyrir Liverpool. Pennant, Kuyt, Agger og Mascherano með mörkin.

 14. Í 7 leikjum sem Momo hefur spilað gegn stærri liðunum á þessu tímabili hefur Liverpool einungis unnið 2. Það kalla ég ekki að virka vel fyrir liðið :rolleyes:

 15. Þrælgóður pistill, vona að við tökum loksins Arsenal á þessu timabili. Til þess þurfum við að nýta færin. Fróðlegt að sjá hvernig Rafa stillir upp út af PSV leiknum, eflaust verða einhverjir hvíldir en vonandi ekki of margir. Þá vona ég að Gerrard verði inni og þá á miðjunni en ekki á kantinum. Væri líka snilld að sjá Fowler kallinn setja hann í þessum leik.

 16. Í 7 leikjum sem Momo hefur spilað gegn stærri liðunum á þessu tímabili hefur Liverpool einungis unnið 2. Það kalla ég ekki að virka vel fyrir liðið

  nákvæmlega…þetta er meðalmiðjumaður sem kann að tækla en er hlægilega lélegur þegar kemur að boltatækni og sendingum…

Luuuuuuis Garciiiia…

Liðið gegn Arsenal komið!