Sheff Utd á morgun!

Ég þykist vita hvað flestir Púllarar eru að hugsa. Eftir stórleikinn á Nou Camp á miðvikudag vildum við flest helst geta hraðspólað tímann fram um tvær vikur og spilað seinni leikinn á Anfield strax. Það er eitthvað svo óaðlaðandi við það að spila við nýliða í Úrvalsdeildinni eftir að hafa þreytt kappi við Barcelona í Meistaradeild. Meira að segja leikurinn við Man U í deildinni eftir rúma viku mun sennilega falla í skuggann af seinni leiknum við spænsku meistarana.

Hvað sem því líður þá verður að taka leikina í réttri röð, og á morgun spila okkar menn við Sheffield United á Anfield í 28. umferð Úrvalsdeildarinnar. Það þýðir að það eru ellefu leikir eftir af deildarkeppninni og margt vatn á eftir að renna til sjávar. Við mættum nýliðum United í fyrstu umferðinni í haust á Bramall Lane og þá varð niðurstaðan 1-1 jafntefli í leik sem okkar menn voru hreinlega heppnir að tapa ekki.

Síðan þá hefur gengi liðanna verið ólíkt, en þó gæti ég trúað að United-menn séu glaðari með sinn árangur en við með okkar. Okkar menn sitja sem fyrr í þriðja sætinu með 50 stig, tíu stigum á eftir Chelsea í öðru sætinu en fyrir neðan okkur eru Arsenal aðeins stigi á eftir og með leik til góða. Sheffield United sitja hins vegar í fimmtánda sætinu með 30 stig, heilum tíu stigum frá fallsæti og því verður að teljast yfirgnæfandi líklegt að þeir verði enn í Úrvalsdeild á næstu leiktíð. Það verður að teljast stórgóður árangur hjá þeim.

Samkvæmt Sky Sports mun vanta einhverja 4-7 fastamenn í lið United á morgun. Leigh Bromby og Keith Gillespie eru í leikbanni og nokkrir aðrir frá vegna meiðsla. Það er ljóst að lið United má ekki við að missa svo marga menn út í svona erfiðum útileik og því verður lið þeirra að teljast mjög veikt fyrir á morgun.

Hjá okkar mönnum er talið líklegt að Momo Sissoko hvíli vegna hnjasksins sem hann varð fyrir á miðvikudag og menn eru jafnvel að spá því að Javier Mascherano fái sinn fyrsta leik í byrjunarliði í hans stað. Ég reyndar efa það en mig grunar þó að Rafa muni rótera liðinu talsvert á morgun, hvíla menn eftir Nou Camp og stilla kannski upp sókndjarfara liði.

Eins og venjulega er nær ómögulegt að spá fyrir um hverjir munu spila en ef ég pæli aðeins í því hvaða leikmenn hefðu gott af hvíld getur maður kannski stillt upp liði. Ég spái því að Steve Finnan, Jamie Carragher, Momo Sissoko og Dirk Kuyt verði hvíldir á morgun og að liðið muni líta svona út:

Reina

Arbeloa – Hyypiä – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Alonso – Gonzalez

Crouch – Bellamy

Svo gæti ég trúað því að Mascherano og Fowler spili nokkuð stóra rullu sem varamenn á morgun. Ég hefði allavega ekkert á móti því að hvíla lykilmenn liðsins og við ættum að geta nýtt breiddina í leikinn á morgun án þess að tapa stigum.

MÍN SPÁ: Hjartað í mér segir það sama og heilinn fyrir þennan leik. Sheffield United-liðið er þegar búið að ná þeim árangri sem þeir ætluðu sér í deildinni í vetur og því verða þeir ekkert sérstaklega grimmir á morgun, á meðan okkar menn mæta til leiks með sjálfstraust á við gjósandi eldfjall eftir sigurinn á Spáni. Jafnvel þótt Rafa róteri liðinu ætti klassamunur þessara tveggja liða að skína í gegn og ég geri ráð fyrir að við innbyrðum skyldusigur í þessum leik.

Lokatölur: 3-0 fyrir Liverpool. Koma svo!!

10 Comments

  1. Þar sem ég fer án Sigga Hjalt á þennan leik er klárt mál að um stórsigur verður að ræða :laugh:

  2. Damn Benni, ert þú að fara á leikinn? 😯

    Ég sem var svo bjartsýnn á góð úrslit um helgina. En það var nú greinilegt á Barca leiknum að lukkuTRÖLLIÐ var ekki með þig sér við hlið. :laugh:

  3. Eru menn ekkert hræddir við euro hangover í þessum leik ?? :confused:

    Er það ekki alveg ekta okkar menn að taka Barca á camp nou en missa svo stig á móti Sheffield Utd. En vonandi ekki og þetta ættu að vera 3 nokkuð örugg stig.

  4. Sælir félagar. Það hljóta allir að vera sælir eftir Evrópuleikinn sem sýndi svo ekki er um að villast að Rafael Benitez er einhver almesti taktíkerinn í Evrópuboltanum í dag. Ég vildi óska að hann næði sama peppi og skipulagi á sína menn í deildinni eins og hann hefur sýnt í Evrópuleikjunum. En vonandi kemur það hjá kallinum og enskur titill verður vonandi í húsi eftir rúmt ár. En vegna þess sem Einar segir um fáránlega gagrýni á Benitez þá verð ég að benda á að RB hefur átt skilið gagnrýni fyrir ýmislegt í ensku deildinni en það kemur þessu Evrópumáli nákvæmlega ekkert við. Það er bara ástæða til að þakka honum og liðinu fyrir frábæra frammistöðu í Barcelona. :laugh:

  5. Sigtryggur!!!
    Ég hef bara eitt að segja.
    Oh mæ god að nenna þessu.
    Við unnum Barcelona. En þú varðst að koma hérna til að setja útá eitthvað pínkulítið smáatriði!

  6. Ég er farinn að halda að karlinn ætli að setja Mascherano beint í byrjunarliðið á móti Sheffield. Og verð að viðurkenna að ég er orðinn mjög spenntur að sjá hann spila. Þetta er náttúrulega gríðarlega efnilegur leikmaður. Hugmyndin hlýtur að vera að hann leysi Alonso af – en hann hefur eiginlega fengið litla hvíld. Ég held þvi að byrjunarliðið verði:
    Reina
    Finnan, Hyypia, Agger, Aurelio
    Pennant, Gerrard, Mascherano, Gonzales
    Bellamy, Crouch

  7. Það er tvennt sem ég er að spá:

    1) Ég vona að Rafa breyti liðinu mikið frá síðasta leik og láti menn spila sem eru virkilega hungraðir í það eftir að hvíla gegn Barca.

    2) Sheffield Utd. á eftir að pakka í 11 manna vörn og þessi leikur verður jafn leiðinlegur og erfiður og leikurinn ömurlegi gegn Sunderland hérna um árið. Amk. spái ég 30 – 3 í marktilraunum og vona að Crouch skori… best væri ef það væri snemma leiks, þá endar leikurinn kannski ekki 1-0 eins og ég held…

    3) It’s Carlsberg time!

    (Já, þetta var í raun þrennt)

  8. Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef, þá hafa United unnið okkur 2x, 2x jafntefli og við aðeins unnið 1x í síðustu 5 leikjum…

    Segjum þetta 2,2,2 eftir morgun daginn, 2-0. Mascherano og Crouch setja hann.

Myndir

Spekingar spjalla um markaskorun framherja Liverpool (uppfært)