Barcelona 1 – Liverpool 2

Hvað sem það er hægt að segja um þá lífsreynslu að vera Liverpool aðdáandi, þá mun ég ALDREI segja að það sé leiðinlegt.

Þetta Liverpool lið hefur einstakt lag á að koma manni á óvart. Þegar að allt virtist vonlaust, þegar að sögurnar um liðið fjölluðu um það að Bellamy var að berja Riise með golfkylfu, þegar að við erum að mæta Evrópumeisturunum á Camp Nou og maður heldur að allt sé vonlaust…

Þá vinnum við! Og ekki nóg með það heldur skora Craig Bellamy og John-Arne Riise mörkin. Og seinna markið var einsog úr Twilight Zone þætti. Bellamy leggur upp fyrir Riise, sem dúndrar viðstöðulaust með **hægri löppinni** í markið.

Ja hérna.

Allavegana, Rafa byrjaði með þetta svona:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Arbeloa

Gerrard – Alonso – Sissoko – Riise

Kuyt – Bellamy

Þegar ég sá liðið hélt ég að Arbeloa væri í hægri bakverði og Finnan á kantinum, en reyndin var sú að Arbeloa var í vinstri bakverði og Riise á kantinum. Alvaro Arbeloa var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði Liverpool og það á móti Leo Messi á Camp Nou… og hann stóð sig frábærlega.

Barcelona var svona:

Valdes

Belletti – Puyol – Marquez – Zambrotta

Xavi – Motta – Deco

Messi – Saviola – Ronaldinho

Liverpool byrjaði leikinn betur, héldu boltanum vel og sóttu. En smám saman komst Barca inní leikinn og þeir áttu nokkrar fínar sóknir. Ein þeirra endaði svo með marki. Gerrard missti boltann klaufalega á hægri kantinum, Zambrotta náði honum og gaf frábæra sendingu fyrir, sem fór yfir Arbeloa og á kollinn á **Deco** sem skoraði með góðum skalla. 1-0 eftir 14 mínútur og fór eflaust um marga Liverpool aðdáendur.

Það sem eftir lifði hálfleiks var Barca hiklaust sterkara liðið. Þeir voru miklu, miklu meira með boltann en eyddu furðulega miklum tíma á eigin vallarhelmingi. Oft juku þeir þó hraðann og nokkrum sinnum tókst þeim að spinna sig í gegnum vörnina. Besta færið fékk Deco, en Reina varði vel frá honum. Einnig átti Saviola skot á markið en það var slappt.

Kaflaskipti urðu svo í leiknum aðeins 3 mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Boltinn barst til Steve Finnan (sem er snillingur!!!), sem gaf frábæra sendingu fyrir markið og á fjærstöng var **Craig Bellamy** frír og hann skallaði að marki. Valdez varði en hélt boltanum ekki fyrir framan línuna og því var dæmt mark. Valdez reyndi í örvæntingu að blaka boltanum út en þar var Dirk Kuyt mættir og hann setti boltann í netið, en Bellamy á þó auðvitað markið.

Þannig að í hálfleik var staðan orðin 1-1 og staða Liverpool vænleg. Í seinni hálfleik var Liverpool svo eiginlega betri aðilinn. Barca reyndu að sækja, en miðjan hjá Liverpool var gríðarlega sterk með Xabi Alonso og hinn ótrúlega magnaða **Momo Sissoko**. Meira um hann síðar.

Barca náði lítið að skapa sér af almennilegum færum, en Liverpool fékk eiginlega betri færin. Liverpool fékk óbeina aukaspyrnu inní teignum hjá Barca þegar að Valdez tók upp baksendingu frá Guily. Gerrard átti gott skot á markið, sem að Valdez varði en boltinn barst útá vinstri kantinn þar sem að Arbeloa átti frábæra sendingu fyrir markið þar sem Kuyt var í dauðafæri en hann skallaði í slána.

Stuttu seinna náðu Liverpool menn svo boltanum á hægri kantinum. Gerrard gaf frábæra sendingu inná Kuyt, sem brenndi af í dauðafæri. Boltinn barst á Marquez, sem reyndi af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að skalla boltann aftur fyrir sig en boltinn rataði á Craig Bellamy. Hann rúllaði á perluvin sinn **John-Arne Riise**, sem að dúndraði boltanum með hægri í þaknetið.

Eftir þetta fékk Saviola ágætt færi, sem að Reina varðist vel með vel tímasettu úthlaupi en fyrir utan það þá gerðist lítið að ráði og niðurstaðan var frábær útisigur hjá Liverpool.

Liðið lék allt frábærlega og það þrátt fyrir að dómarinn væri alveg úti að aka í leiknum.

**Maður leiksins**: Sko, það væri hægt að halda langa tölu um þetta. Agger og þá sérstaklega Carra voru frábærir. Bakverðirnir Finnan og Arbeloa voru magnaðir og héldu sóknarmönnum Barca algjörlega niðri. Ronaldinho og Messi hafa ekki verið minna áberandi í langan tíma.

Á miðjunni var Gerrard góður sem og Xabi Alonso. Riise skoraði svo frábært mark sem tryggði okkur sigurinn og Kuyt barðist vel frammi.

Næstmesta hrósið fær Craig Bellamy. Hann notaði greinilega atvikið í Portúgal á réttan hátt og svaraði gagnrýnendunum á hárréttan hátt með því að skora frábært mark og leggja svo upp mark fyrir Riise.

Eftir leikinn fékk ég SMS frá Kristjáni Atla: *”Ef þú kýst ekki Momo mann leiksins þá þurfum við að tala alvarlega saman”*. Þetta SMS var óþarfi. Við sögðum það fyrir einhverjum vikum að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir Liverpool að fá Momo inn fyrir leikinn á Camp Nou. Það var rétt ályktað.

**MOMO SISSOKO** er maður leiksins. Á því leikur enginn vafi. Hann sýndi okkur svo sannarlega í kvöld af hverju við elskum þennan leikmann. Hann er ekki sá leiknasti, skotvissasti eða með bestu sendingarnar. En þegar að þarf að verjast góðri miðju einsog hjá Barca þá er ENGINN LEIKMAÐUR Í HEIMI betri en Momo Sissoko í að ná boltanum af andstæðingunum.

Hann vann boltann sirka þúsund sinnum í leiknum. Það væri einsog hann væri alltaf í boltanum. Dómari leiksins gerði sitt besta í því að eyðileggja fyrir Momo með því að dæma alltof oft á hann, en hann lét þetta ekki á sig fá og hélt sínu striki. Þvílíkur leikmaður!!! Momo var reyndar borinn af velli í lokin (Zenden kom inn) en vonandi er hann ekki meiddur alvarlega.

Auka hrós fær svo maðurinn á hliðarlínunni, **Rafa Benitez**. Að undanförnu hefur hann þurft að þola fáránlega gagnrýni hér og á fleiri stöðum. En það er einfaldlega þannig að ef ég gæti valið úr öllum þjálfurum heims fyrir liðið mitt í Meistaradeildinni þá væri enginn sem ég vildi sjá þar frekar en Rafa Benitez. Í kvöld sýndi hann enn einu sinni snilli sína með því að stöðva algjörlega þetta frábæra Barcelona lið og það sem meira er, við skoruðum tvö mörk og unnum leikinn.

En allavegana, þetta var frábært kvöld. 2-1 útisigur gegn Barca er betra en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Frábær leikur og frábær sigur. Ég get ekki beðið eftir því að mæta á Anfield eftir 13 daga.

**Ég elska þetta lið!!!** 🙂

42 Comments

  1. Þetta er yndislegt líf!!!!

    uuuuuuuuussssssssssssss

    Hver hefði trúað þessu fyrir leikinn? hehehe Bellamy og Riise skora og Bellamy leggur upp markið fyrir Riise…

    Sådan der!

    Ég bíð spenntur eftir leikskýrslunni frá KAR.

  2. vá hvað maður er ánægður… … og ég vill bara þakka guði (ekki fowler) fyrir það að megnið af ykkur lesendum hér séu að stýra þessu indislega liði….. því þá hefði Rauðhærði normaðurinn ekki verið inn á vellinum til að skora þetta mmark 🙂

    fór vel á því að Happy gilmor og kilfusveininn skildu skora mörkin í dag 😉

    Lengi lifi liverpool og koma svo á anfield 😉

  3. Rafa má eiga eitt.

    Hann kann að vinna Evrópuleiki!!!

    Hola í höggi…

    Hver vill losna við Bellamy??? Ekki ég.

  4. Skrítið að hann setti Mascerano ekki inn í stað Zenden…
    Kannski er hann bara að leyfa honum að fá vatn í munninn… 🙂

  5. ronaldinho hvað?? það þurfti bara eitt stykki Finnan til að stoppa svona trúða!!!… en hversu agaleg var dómgærslan!??…

  6. Frábært, okkar baneitraða dúó sá um snillingana i Barca. Frábær taktík, frábær leikur.
    Takk Rafa og co!!

  7. Oooooog…. hversu góður var Sissoko!!?? en er það ekki eftir öllu að hann sé frá í 1-2 mánuði!

  8. Þetta var náttúrulega gargandi snilld. Bellamy og Riise virtust bara ná ágætlega saman og ég held að þetta agamál sé úr sögunni. Einhverjir leikmen fá sekt og borga hana og málið dautt.

    Nú er bara að halda haus um helgina og halda áfram á þessari sigurbraut.

    Hrikalega er gaman að halda með Liverpool á svona kvöldi.

  9. Tek undir það, Sissoko var frábær í leiknum, annars fannst mér eins og Liverpool hafi átt miklu meir inni en þeir sýndu.

    en ok þetta var á Camp Nou…

    Til hamingju félagar

  10. Myndin með fréttinni á sky er náttúrulega algjör snilld. Hvað ætli hann sé með í forgjöf?

    Sjá frétt hér.

  11. Geggjað!!!! Skynsamlega og frábærlega leikinn leikur hjá mínum mönnum:D Ég er svakalega ánægður með nýja leikmanninn Arbeloa hélt Messi niðri nánast allan leikinn og gerði bara nánast engann “feil”.

    Vá hvað þetta toppaði leikinn þegar Bellamy tók golfsveifluna í fagninu:D hahaha

    Rosalega fannst mér samt sumir leikmenn þeirra detta alltof auðveldlega, smá stroka eða klapp á bakið þá hnígféllu þeir einnig datt Ronaldinho of oft mjög auðveldlega. Ég vona að meiðslin hjá Sissoko séu ekki alvarleg. Ekki gott að missa hann aftur eftir að hann hafði verið FRÁBÆR þar til að hann fór útaf. Glæsilegur sigur!!

    Á eftir að búast við svakalegum leik á Anfield:D Þar verður mögnuð stemming og Barcelona eiga eftir að mæta grimmir til leiks. Þá er bara að telja niður þessar 2 vikur;)

    YNWA!!
    Áfram LIVERPOOL!!!!!!

  12. Yahúúú!!!

    Fyrst langar mig að fjalla örstutt um Barcelona, nokkrir punktar:

    1. Í upphitun gærdagsins var ég kallaður vitleysingur fyrir að stinga upp á því að Xavi, Deco og Iniesta gætu spilað saman á miðjunni. Þeir byrjuðu ekki saman inná í kvöld en þegar Börsungar voru í vandræðum með sóknina sína í seinni hálfleik … tók Rijkaard Tiago Motta út fyrir Iniesta og í um 15 mínútur (þangað til Xavi fór útaf) voru þeir þrír einmitt saman á miðjunni. Þannig að fyrir þá sem héldu að ég væri vitlaus fyrir að stinga upp á þessu – #”!”#$ YKKUR!

    2. Að því sögðu, þá skoraði Rijkaard að minnsta kosti tvö sjálfsmörk með liðsuppstillingu sinni í kvöld. Í fyrsta lagi valdi hann Saviola fram yfir Eið Smára, sem þekkir Liverpool best allra Börsunga og hefur skorað þó nokkur mörk gegn okkur í gegnum tíðina. Í öðru lagi þá tók hann Iniesta, besta mann Barca í vetur, út úr byrjunarliðinu og setti í hans stað Leo Messi sem var greinilega ekki í leikformi í kvöld. Frank, hvað varstu að spá?!?

    Jæja, að gleðilegri málefnum, Liverpool-punktar:

    1. Segið það með mér og segið það hátt: Momo is BOSS! Ekki bara maður leiksins í kvöld, heldur sennilega betri en allir hinir 21 leikmaður vallarins til samans! Fokk hvað það er gott að fá hann aftur í liðið!!

    2. Hversu ruglaður var þessi dómari í kvöld? Ég var að flippa á tímabili yfir þessu rugli í honum, hann dæmdi 28 aukaspyrnur á Liverpool í kvöld og svona 20 af þeim voru bara bull og vitleysa. Ég er bara fegnastur því að hann fékk ekki tækifæri til að hafa of mikil áhrif á leikinn – ef einhver Börsungurinn hefði látið sig detta inní teig hefði pottþétt verið dæmd vítaspyrna, sama hversu mikill leikaraskapur hefði verið. Rugldómari og það segir mikið að ég var á svona 60. mínútu farinn að öskra á Rafa að taka Sissoko – langbesta mann vallarins – útaf, því ég var svo viss um að þessi dómari myndi reka hann útaf við fyrsta tækifæri.

    3. Enn og aftur vinnur Rafael Benítez taktískan stórsigur. :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin:

    4. Hvað er málið hjá Sýn að hafa tvo United-aðdáendur sem geta ómögulega verið hlutlausir sem gesti yfir Liverpool-leik? Ef ég væri að stjórna þessu hjá Sýn og ætti að fara að sýna United-leik myndi ég aldrei bjóða SSteini að vera gestur yfir þeim leik, því ég veit að hann gæti aldrei verið hlutlaus yfir United-leik. Óli Þórðar og Maggi Gylfa geta ekki talað fallega um Liverpool og það þurfti Gylfa Orrason fyrrv. dómara til að skafa þunglyndið af andlitum þeirra. Hvers konar djöfulsins, endemis vitleysa er það að bjóða Liverpool-áhorfendum upp á tíu mínútna United-tengt þunglyndiskast í kjölfar frábærs sigurs á Nou Camp?

    5. Segið það aftur, því það er satt: MOMO IS FUCKING BOSS!!!

    6. Craig Bellamy og Johnny Riise skoruðu, sá seinni eftir stoðsendingu frá Bellamy. Og sáuð þið fagnið hjá Bellamy í fyrra markinu? Hola í fokking höggi!!! Stundum er sannleikurinn lyginni líkastur …

    7. Vildi bara benda mönnum á að ég, SSteinn, Einar Örn og Hjalti erum á leiðinni á seinni leikinn á Anfield. Það verður sko karnivalstemning við bakka Mersey í þeirri ferð! 🙂

  13. Ok. svo þið eruð að fara á Anfield. Hættiði að monta ykkur af því aular.

  14. Af hverju í ósköpunum? Þetta er okkar síða, ef við megum ekki minnast á það hér, hvar þá? Þú átt ekkert með að kalla okkur aula eða skipa okkur fyrir á þessari síðu, ef þér líkar ekki það sem hér er skrifað geturðu bara lesið eitthvað annað!

  15. Kristján Atli, þið megið monta ykkur eins og þið viljið, og ef ég væri ekki fátækur námsmaður (FUCK) þá væri ég að koma með ykkur.

    Ef að Momo er heill þá á Barcelona ekki SÉNS á Anfield. Hvílíkur leikur hjá stráknum í kvöld. Finnan var rosalega góður líka.

    Hver ætli að stuðullinn hefði verið á það fyrir leikinn að Bellamy og Deco ættu báðir eftir að skora með skalla og RIISE með HÆGRI????!?!

    Missti einhver annar úr slagi þegar boltinn fór í stöngina hjá Deco?

  16. Ég vil benda á það til að það sé á hreinu þá eru þeir Kristján Atli, Hjalti, Einar Örn og Sigursteinn allir á leið á Anfield og munu sjá seinni leikinn gegn Barcelona… 🙂 Njótið!

  17. “Ég ætla að spá því að Dirk Kuyt og Gerrard skori í kvöld. Eigum við ekki bara að segja að við vinnum þennan leik 2-1..”

    Í mínum villtustu draumum hefði ég ekki geta spáð því að Riise myndi skora og það með hægri…

    :biggrin:

    Þessi leikur var náttúrulega bara snilld. Mikið óskaplega er gaman að vera Púllari núna. En þetta er bara hálfleikur!… 🙂

    Ég samgleðst ykkur Kristján, Einar og SSteinn að vera fara á Anfield eftir tvær vikur….Stemmingin verður örugglega engu lík og partý um alla borg ef Liverpool klárar nú dæmið og fer í 8 liða úrslit.

    YNWA….

  18. Ég er farin að halda að þessi læti öll milli Bellamy og Riise hafi verið búin til í herbúðum Liverpool til að reyna að rugla Börsunga í ríminu og láta þá halda að sundrung væri í liðinu :blush:

    Var búin að spá golfsveiflufagni og finnst Bellamy algjör töffari fyrir að láta það eftir sér!

  19. Váááá ! Ég hef bara eitt orð Jesus Bobby !

    Þvílíkur leikur ! Og Momo ?! Hvað fær sá kappi sér í morgunmat ?!

    Ekkert meira um þetta að segja, Einar einfaldlega búinn að gera það fyrir mann, frábær skýrsla á betri síður !

    Megum samt ekki gleyma að leikurinn er aðeins hálfnaður og það er nóg eftir. Fyrir lið eins og Barca eru 2 mörk nákvæmlega ekki neitt og megum alls ekki halda að þeir séu eitthvað búnir að gefast upp.

    …og svona án gríns, ég myndi drepa fyrir miðann á seinni leikinn og synda svo til Bretlands !

  20. Ætli ég verði þá ekki líka að monta mig á því að vera að fara á seinni leikinn. Í fyrsta skipti á Anfield og gæti ekki hugsað mér betri leik til að byrja á.

    En maður veit bara ekki hvað á að segja um þennan leik, ekki nema….þvílík snilld

  21. Flottur sigur, flottur leikur. Til hamingju Púllarar – nú er bara að klára þetta með stæl eftir 13 daga!

    H.C. Andersen hefði ekki getað skrifað fallegra ævintýr en þetta: Bellamy og Riise, golfarinn og kylfusveinninn … bara ótrúlegt. Svona á að koma til baka, eftir viku af “veseni” og blaðri … svona á að gera þetta.

    Ég var ótrúlega hrifinn af Carra í kvöld – og ætla að útnefna hann mann leiksins. Eftir að einhvers staðar birtist gömul mynd af Eika Hauks þar sem hann er ótrúlega líkur Riise í útliti … þá glumdi (án gríns!) í mér í leiknum eftir mark Riise: “Ég ætla að fara alla leið …” – Bara ótrúlegt handrit! Veruleikinn er oft ótrúlegri en skáldskapurinn!

  22. Þessi pistill er greinilega skrifaður í mikilli geðshræringu…..og svo er líka þetta komment :biggrin:

    Bara snilld!!! það verður ekki tekið af Liverpool að þeir komu sáu og sigruðu. Þeir gjörsamlega tóku Börsunga í bakaríið…..og uppskriftin er lýginni lýkust. Riise og Bellamy!!!

    Held að bresku slúðurblöðin (og mbl.is) þurfi að kyngja stórum bita ofan í sig núna….In your face!!

    Legg til að Bellamy noti Driverinn næst á Riise, virðist virka vel á kappann þar sem að hægri löppin er farin að virka líka.

    Best að njóta augnabliksins þar sem að það er bara hálfleikur og ef það er eittvað lið fyrir utan Arsenal sem getur skorað 2-3 eða 4 mörk á Anfield þá er það Barcelona….Skal alveg játa að ég myndi gefa ansi margt til þess að vera á þeim stað eftir tvær vikur.

    Maður leiksins….Rafa Benitez!

  23. Já þetta var sannarlega frábær sigur og er ekki nóg fyrir börsunga að koma á Anfield og skora 1 mark, því þeir verða allaveganna að setja 2 ef þeir ætla að eiga einhverja von um að komast áfram.

    En liðið lék mjög vel og vonar maður að þeir stoppi Ronaldinho jafn vel og þeir gerðu í kvöld. Annars fannst mér Barcelona eiga mun meira inni og má ekki vanmeta þá. Það fór líka sérstaklega í mig hvað þeir “duttu” auðveldlega mátti ekki einusinni snerta Puyol og þá var hann dottinn. Enda var það skemmtilegt þegar carra ýtti í hausinn á honum eftir hornspyrnu þar sem hann hafði hlaupið á carra. Enda er Carragher einstaklega harður gaur.

  24. Vill bara óska öllum Liverpool mönnum nær og fjær til hamingju með þennan sigur.
    Þess má til gamans geta að einn veðbankinn var með stuðulinn 1:100 að Bellamy myndi skora og taka golfsveiflufagnið, djöfull hefði ég viljað setja 10000 kall á það :confused:

  25. Þvílík og önnur eins fokking djöfulsins sniiiiiiiilllllld.

    1-1 voru draumaúrslit og er ég fullkomlega sammála Einari í sinni skýrslu. Var hreinlega orðinn leiður á sjálfum mér að hrósa Momo yfir leiknum (kom reyndar á óvart hve fáir tóku undir það, en sýnir hversu sameinaðar sálir við Liverpoolbloggararnir erum). Hreint út sagt stórkostlegur leikur hjá kappanum og hvort sem menn trúa því eður ei, þá átti hann varla feilsendingu í leiknum.

    En núna að gagnrýninni á Kristján Atla (sem ég btw þoli ekki eftir skítkastið út í mig er varðar ferðina okkar :biggrin: Ef hann bara vissi að hann fær endurgreitt í næstu viku og þriggja ára gamall sonur minn fær hans miða :laugh:)

    Í fyrsta lagi valdi hann Saviola fram yfir Eið Smára, sem þekkir Liverpool best allra Börsunga og hefur skorað þó nokkur mörk gegn okkur í gegnum tíðina.

    Eiður Smári hefur ekki getað jack shit undanfarna mánuði og skiptir engu hvers lenskur hann er. Saviola hefur verið mörgum víddum yfir hann hafinn í getu undanfarið, þannig að Rijkaard gerði akkúrat engin mistök þar. Var reyndar að vona að Eiður kæmi inn og myndi klúðra algjöru dauðafæri sem réði úrslitum á síðustu sekúndunum :biggrin2:. Eiður hefði orðið mjög Leiður ef hann hefði spilað frá upphafi í kvöld.

    Momo is BOSS

    Totally fokking CORRECT.

    Hversu ruglaður var þessi dómari í kvöld?

    Ótrúlegt en satt, við unnum engu að síður. HÖRMULEGUR dómari sem var í algjörum dúkkulísuleik og ef kjóllinn fauk af þeim, þá var dæmt.

    Enn og aftur vinnur Rafael Benítez taktískan stórsigur

    Hann snýtti Rijkaard í kvöld og það með annarri nösinni. Þetta er langt frá því að vera búið, en það verður að viðurkennast að Barca á heimavelli fyrir framan 98 þúsund manns, áttu hreinlega að gera meira. Hversu mörg færi sköpuðu þeir sér. Þetta mesta sóknarlið seinni tíma? Þessi leikur var ekkert í líkingu við leikinn þegar við gerðum jafntefli við þá í UEFA árið 2001.

    Hvað er málið hjá Sýn að hafa tvo United-aðdáendur sem geta ómögulega verið hlutlausir sem gesti yfir Liverpool-leik? Ef ég væri að stjórna þessu hjá Sýn og ætti að fara að sýna United-leik myndi ég aldrei bjóða SSteini að vera gestur yfir þeim leik, því ég veit að hann gæti aldrei verið hlutlaus yfir United-leik. Óli Þórðar og Maggi Gylfa geta ekki talað fallega um Liverpool og það þurfti Gylfa Orrason fyrrv. dómara til að skafa þunglyndið af andlitum þeirra. Hvers konar djöfulsins, endemis vitleysa er það að bjóða Liverpool-áhorfendum upp á tíu mínútna United-tengt þunglyndiskast í kjölfar frábærs sigurs á Nou Camp?

    Ég er núna harðákveðinn í að skrifa pistil sem mig hefur lengi langað að skrifa. Hvernig var þetta í gær. Tveir móðursjúkir Man.Utd stuðningsmenn voru látnir “greina” leik Lille og ManYoo. Hemmi Gunn og Logi brandarakall. Ég sagði við félaga minn þegar ég hlustaði á þá: “Hversu miklar líkur telur þú á því að tveir Poolarar “greini” leik okkar manna á morgun?”. Svarið? Enginn. Tveir Fokking ManYoo hálfvitar að reyna að ausa úr sínum tómu viskubrunnum. Ég get orðið svo reiður út í þessa amatöra á Sýn að það hálfa væri nóg. Af hverju hafa þeir ekki samband við félaga minn Rikka Garðars? Hann hefur sparkað bolta á sinni lífstíð, reyndar bara í 2-3 deild, en hann er meiri “sparksérfræðingur” en þessir vitleysingar. Ég verð næstum róttækur femínisti á þessum tímum og heimta “jákvætt” jafnrétti til að koma þessum viðvaningum út af skjánum.

    MOMO IS FUCKING BOSS

    Damn right. MOMO IS FUCKING BOSS.

    Vildi bara benda mönnum á að ég, SSteinn, Einar Örn og Hjalti erum á leiðinni á seinni leikinn á Anfield. Það verður sko karnivalstemning við bakka Mersey í þeirri ferð!

    Damn Right og það mun EKKERT toppa það (nema kannski Istanbul Kristján :laugh:)

  26. Momo klárlega maður leiksins, hann var út um allt og vann alla bolta!

    Annars flott skýrsla Einar, er alveg sammála henni… Arbeola stóð sig mjög vel, hvar voru Messi og Ronaldinho???

    Mér fannst sigurinn verðskuldaður og ég er svoooo þakklátur fyrir að fá að vera á Anfield eftir tæpar tvær vikur! 🙂

  27. Barcelona mun vinna liverpool á anfield. Þetta verður fíluferð. Sjáið bara til.

  28. Hvaða helvítis kjaftæði er þetta…. djöfull mundi ég monta mig af því að vera fara til Mekka og á þvílíkan stórleik ef ég gæti…

    Á maður ekki bara að fara panta miðann til Athens í Grikklandi :biggrin:…

    Hef sagt það áður og segi það aftur MOMO er snillingur… hann er ekki nema 22 ára :biggrin: :biggrin: … og á bara eftir að verða betri (ef það er hægt) :biggrin2: :biggrin2:

  29. Hva! Enginn að kvarta yfir því að hafa Gerrard hægra megin og enginn að kvarta undan Riise!

    Magnað :biggrin2:

  30. Bellamy er snillingur.

    Bellamy hefur verið hart gagnrýndur undanfarið. Jú maðurinn er snarbilaður og það telst nú seint heilbrigt að heimsækja félaga sína með golfkylfur.

    En hann kann að spila fótbolta kappinn sá. Alveg eins og Rafa benti á með Crouch kemur Bellamy með nýja vídd í sóknarleikinn. Lítill, snöggur og banvænn. Ég hef allavegana verið mjög ánægður með framlag kappans í vetur.

    Hvað geðsveiflur og golfsveiflur varðar þá verð ég að segja fyrir mitt leyti að ég elska að horfa á Liverpool-leikmann með augun útúr hausnum af bræði allan leikinn, alla leiki. Aldrei ánægður, alltaf að reyna meira og ótrúlega pirrandi fyrir varnarmenn. Þessi gæji er að mínu mati með winner-attitude og stundum þurfa þannig menn að taka upp níuna og berja keppnisskapið inn í félaga sína. Það eru nú frægar sögur af Keane og Souness þar sem þeir liggur við ganga í skrokk á samherjum til að ná árangri. Ég fíla það í botn að lesa viðtal við Hemma Hreiðars þar sem hann vælir hálft viðtalið undan Bellamy og kallar hann ógeð. Eitthvað sérstakt þarf til að varnarmenn á borð við Terminatorinn fari að grenja.

    Til samanburðar þá var Barcelona með helling af litlum, snöggum og banvænum heimsklassaleikmönnum í gær. Messi sem nennti ekki að elta sendingar, Saviola sem kláraði ekki sín færi og leiðinlegasta fótboltamann jarðar, Deco sem gerir ekkert betur en að taka 10m spretti að dómaranum til að biðja um gul og rauð spjöld. Giuly og Iniesta voru heldur ekki að kljúfa nein fótboltaatóm þegar þeir komu inná.

    Hefðuð þið viljað skipta á þeim og Bellamy í gær?

  31. Frábær úrslit og núna er mikilvægt að við séum tilbúnir til þess að klára þetta dæmi. Óþolandi að spila vel í 45 mín. og klúðra því síðan á næstu 45 mín.

    Liðið allt á hrós fyrir geðveika baráttu og góða samvinnu.

    Þetta Barcelona lið er í vandamálum (innbyrðist erjur) og okkar að nýta það.

    Yndislegt….

  32. Algörlega yndislegt.

    Carrager var algjörlega meiriháttar í vörninni. Held að hann hefði getað staðið vaktina einn slík var baráttan hjá kallinum.

    Arbeloa fannst mér líka frábær. Greinilega byrjunarliðsmaður þar á ferðinni.

    Úff maður – Sissoko – vá hvað hann var góður. Ég hef bara ekki séð svona yfirferð hjá miðjumanni áður. Það lá við að hann coveraði alla miðjuna aleinn. Þetta er akkúrat ástæðan fyrir því að ég vil hafa Gerrard á kantinum. Liðið er einfaldlega miklu betra þannig.

    Bellamy, frábær.

    Riise, hvað getur maður sagt. Hann er nógu góður til að byrja nánast alla leiki annað hvort í bakverðinum eða á kantinum en samt fer hann ofboðslaga í taugarnar á mér sem leikmaður. Og svo skorar hann markið og réttlætir tilveru sína í liðinu. Á meðan Kewell er frá og aðrir ekki nógu góðir til að slá Riise út úr liðinu ætla ég að hætta að blóta honum.

    Svakalega var dómarinn slakur.

    Yndislegt að mæta í vinnuna og benda manu mönnum á að þeir geta aldrei unnið heiðarlega. Alltaf einhver skítafíla af sigrunum þeirra. 😉

    Dauðöfunda ykkur að fara á Anfield en ætla að skella mér á Liver vs Arsanel í lok mars. Þá væri nú fínt að vera ennþá með í CL.

    Áfram Liverpool!

  33. Til lukku allir !
    En eru engar fréttir af manni leiksins ?
    Ég er búinn að vera scanna netmiðla í morgun og það er hvergi minnst á að Momo hafi meiðst.
    Kannski var þetta bara smávægilegt, eða það að hann eigi eftir að undirgangast nákvæma skoðun.
    Any way, frábær úrslit og ég get montað mig af því að hafa haft þessi úrslit rétt á lengjunni í gær 🙂

  34. Momo átti algjörlega frábæran leik, hann vann hvern boltann á fætur öðrum og gaf miðjumönnum Barca ekki sekúndufrið. Yfirferðin og vinnusemin í drengunum er með ólíkindum og það hlýtur að vera algjör martröð að spila gegn honum. Ég fullyrði að þegar hann hefur lagað hjá sér sendingarnar og sóknarleikinn þá verður hann einn af 5-10 bestu leikmönnum í heimi.

    Að lokum, takk fyrir frábæra síðu og góða ferð til mekka.

  35. Frábær sigur og lygilegt að golffélagarnir skulu hafa skorað sitt hvort markið, missti mig þegar ég sá markið hans Riise!
    En þetta er bara fyrri leikurinn, gætum hæglega tapað seinni leiknum ef menn missa einbeitinguna!

  36. Tek undir ástarjátningar. Minni á að eftir Arsenalruglið sagði ég að við myndum klára Barca. Ég stend við þá fullyrðingu.

  37. Frábær sigur í gær og þvílík liðsheild og stemmning!

    Momo maður leiksins ekki spurning. Ég öskraði ósjaldan yfir hræðilegum dómara leiksins í gær, nota bene þó það hafi klárlega hallað á okkur í gær var þetta á báða bóga, horn sem Kuyt fékk og nokkrar linar aukaspyrnur sem Momo fiskaði (when in Rome….)

    Eftir á hugsað held ég samt bara hreinlega að við höfum grætt á þessari lélegu dómgæslu (hear me out here), því að þökk sé flautukonsertinum náði Barca aldrei neinum rythma eða flæði í leik sinn og það var einmitt það sem hefði reynst okkur hættulegast.

    Vil í lokin minnast á fáranleg skrif Henry Birgis á Fréttablaðinu í dag. Vá hvað ástandið á íslenskum fjölmiðlum er sorglegt þegar menn sem skrifa svona endemis vitleysu fá laun fyrir að starfa sem íþróttafréttamenn:

    (Bellamy)…lagði upp annað fyrir manninn sem hann lamdi með golfkylfu á föstudag,

    Neðar í fréttinni skrifar hann:

    …og gerði hann þar með grín að umræðu síðustu daga en hann lamdi Riise félaga sinn með níu járni á dögunum

    Eftir að ég las þessa golfkylfufrétt fyrst tók það mig um 15 mínútur á netinu að rekja mig til baka í gegnum uppgefnar heimildir og sjá að fréttin var bull. Henry Birgir vinnur við að fylgjast með íþróttafréttum en er ekki búinn að sjá í gegnum þetta núna viku eftir “atburðinn”. Síðan hefði maður nú haldið að hver heilvita maður gæti sagt sér það sjálfur að ef knattspyrnumaður hefði lamið liðsfélaga sinn í lappirnar með gólfkylfu rétt fyrir leik í 16-liða úrslitum CL þá myndi sá hinn sami ekki spila þann leik. Mig langar að nota orðið heimska, en læt vítaverð ófagmannleg vinnubrögð nægja.

    YNWA

  38. Sammála, Palli G – þetta er með ólíkindum. Ég vildi ekki fjalla um þetta í leikskýrslunni þar sem ég vildi ekki láta það skyggja á gleðina, en ég bíð spenntur eftir pistli frá SSteini um þetta.

    Þessi skrif Henrys eru auðvitað fáránleg.

  39. Stórkostlegt alveg hreint en áhyggjur mínar liggja hjá Sissoko… veit einhver hver staðan er á honum og hvort hann verði frá í einhvern tíma?

  40. Chris Bascombe segir um Momo:

    >Liverpool returned to Merseyside this morning. Momo Sissoko?s shin injury is not considered too serious.

Byrjunarliðið komið!

Myndir