Barcelona á morgun!

Þetta verður með lengri upphitunum – en þegar svona mikið er í húfi er um margt að skrifa.

barcelona_glory.jpg

Þegar dregið var í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í upphafi desembermánaðar lentu meistarar síðustu tveggja tímabila saman. Ég man að það kom mér einhvern veginn ekkert á óvart þegar Liverpool dróst gegn Barcelona, ég hafði bitið það í mig vel fyrir dráttinn að þetta væru örlög og nú væri komið að því sem ég hef lengi hlakkað til, að sjá þau tvö lið sem ég held mest með takast á í útsláttarfyrirkomulagi Meistaradeildarinnar.

Mér varð að ósk minni og annað kvöld taka Evrópumeistarar Barcelona á móti Liverpool á hinum stórfenglega Nou Camp-leikvangi í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitunum. Þrettán dögum síðar munu liðin svo mætast í síðari leik rimmunnar á Anfield í Liverpool og það gleður mig óstjórnlega að segja að ég verð staddur á þeim leik. Ég hef skrifað á þessa Liverpool-vefsíðu í þau þrjú ár sem hún hefur verið opin og er Púllari fyrst og fremst, þannig að ég kem til með að halda með mínu liði í þessari rimmu, en ég er einnig mikill Barcelona-maður og fyrir vikið verð ég að viðurkenna að persónulega mun ég ekki vera jafn svekktur ef Liverpool fellur út og ég yrði ef mótherjarnir væru Real Madrid, Chelsea eða annað slíkt lið. Ég vonast bara eftir að fá skemmtilega rimmu.

Ef við skoðum liðin og gengi þeirra undanfarið er margt í gangi sem gerir þessa rimmu athyglisverða:

Bæði lið hafa síðustu vikuna lent í fréttum fyrir rangar sakir, þ.e. það sem gerist utan vallar. Á meðan Samuel Eto’o afhjúpaði klíkuskap og slæman móral innan leikmanna- og þjálfarahóps Barcelona brutu leikmenn Liverpool reglur Rafa Benítez í æfingaferð í Portúgal, auk þess sem Craig Bellamy og Johnny Riise rifust. Afleiðingar þessara hneykslismála beggja klúbba eiga eftir að koma í ljós en menn eru þegar byrjaðir að leiða líkum að því að framtíð bæði Samuel Eto’o og Craig Bellamy liggi annars staðar en hjá sínum liðum í sumar. Slíkt verður að koma í ljós, en ljóst er að allt þetta umtal hefur komið á slæmum tíma fyrir bæði lið.

Bæði lið töpuðu síðustu deildarleikjum sínum fyrir stórleik morgundagsins. Fyrir níu dögum síðan töpuðu Liverpool 2-1 fyrir Newcastle á útivelli í leik sem þeir voru hreinlega aular að vinna ekki. Síðan þá hefur liðið haft eins og áður sagði níu daga til að einbeita sér að Barcelona, en hvort það þýðir aukinn ferskleika eða skort á leikæfingu verður að koma í ljós á morgun. Liðið verður þó allavega vel undirbúið. Á móti kemur að Börsungar, sem sitja sem fyrr á toppi La Liga á Spáni, töpuðu 2-1 á útivelli fyrir Valencia um helgina í leik sem einkenndist af andleysi í leik meistaranna og spjaldagleði dómarans.

Þá er vert að minna á að í herbúðum Liverpool eru þrír leikmenn sem hafa leikið fyrir Barcelona á ferlinum, þeir Bolo Zenden, Pepe Reina og Luis García, og geta þeir gefið hinum leikmönnunum góð ráð varðandi það að leika á Nou Camp. Rafael Benítez er sjálfur ekki ókunnugur spænska stórliðinu og þá hafa þeir Jamie Carragher, Sami Hyypiä og Steven Gerrard leikið þar tvisvar áður með Liverpool í Evrópukeppni, árin 2000 og 2001.

gudjohnsen_glory.jpg Hinum megin tjaldsins eru þrír leikmenn sem á móti geta undirstrikað mikilvægi þess að Börsungar nái góðum úrslitum á morgun. Og trúið mér, þeir munu gera það. Eiður Smári Guðjohnsen lék fyrir Chelsea í undanúrslitaleiknum fræga fyrir tveimur árum, þegar stemningin á Anfield var slík að jafnvel elstu menn störðu á í undrun, auk þess sem þeir Lilian Thuram og Gianluca Zambrotta voru í liði Juventus sem guggnaði gagnvart stemningunni í 8-liða úrslitunum sama ár. Þessir þrír leikmenn vita betur en flestir hversu hættulegt það er að leika á Anfield og munu því brýna fyrir samherjum sínum mikilvægi þess að sigra á morgun.

Aðdragandinn að þessum leik hefur verið hálf skrýtinn. Þegar drátturinn átti sér stað í desemberbyrjun vildu flestir Púllarar meina að þetta yrði nánast ómögulegt og hlutlausir miðlar töluðu réttilega um Barcelona sem líklegra liðið. Síðan þá hafa meistararnir á Spáni hikstað aðeins í deildarkeppninni en eru þó enn efstir, á meðan Liverpool hefur verið liða heitast í ensku Úrvalsdeildinni. Einhverra hluta vegna hefur álitið samt aðeins snúist og maður finnur fyrir því núna á umfjöllun, sérstaklega í Englandi, að menn nánast búast við því að Rafa Benítez og Liverpool-liðið muni slá Börsunga út. Sérfræðingarnir keppast við að vara Barca við hættulegu liði Liverpool og spá því nú skyndilega flestir að úrslitin muni ráðast á Anfield, þar sem Liverpool hafi yfirhöndina.

Þannig að mig langar bara til að minna menn aðeins á eitt: líklegt lið Börsunga á morgun:

Valdes

Oleguer – Puyol – Marquez – Zambrotta

Deco – Xavi – Iniesta

Messi – Guðjohnsen/Eto’o – Ronaldinho

Og ef þetta lið gengur eftir verða á bekknum menn eins og Saviola, Motta, Giuly, Esquerro, Edmilson, Van Bronckhorst, Belletti, Sylvinho og Thuram.

Þetta, dömur mínar og herrar, er lið sem er líklegri aðilinn gegn nánast hvaða knattspyrnuliði sem er í heiminum.

Um helgina lék Barca mjög illa gegn Valencia, en skoruðu samt gott mark úr aukaspyrnu og var þar snillingurinn Ronaldinho á ferð. Ef Samuel Eto’o – einn besti framherji heims – spilar á morgun verður sókn þeirra stórhættuleg en jafnvel í fjarveru hans er vert að minna á að Eiður Smári þekkir mjög vel til Liverpool og á að vissu leyti harma að hefna gegn okkar mönnum í Evrópukeppni. Þá geta menn eins og Deco, Iniesta, Messi, Giuly, Saviola og hinn skotfasti Marquez unnið leiki fyrir þetta lið upp á eigin spýtur.

Spurningin er að mínu mati tvíþætt: hvernig mætir heimalið Barcelona stemmt til leiks annað kvöld, og hvaða taktík beitir Rafa Benítez gegn Evrópumeisturunum? Ef við gerum ráð fyrir að Barcelona-liðið verði í stuði á morgun (og að ætla annað er óþarfa áhætta) þá er ljóst að okkar menn verða að vera á tánum, og Rafa verður að stilla upp hárréttu liði til að ekki fari illa.

Ég hef pælt í því nær stanslaust í rúma viku núna hvernig hann muni stilla þessu upp og ég hef komist að niðurstöðu. Auðvitað getur maður aldrei giskað nákvæmlega á lið Rafa, hann hefur sérstakt lag á að koma okkur öllum á óvart með liðsvali sínu (Le Tallec á miðjunni gegn Juve? Óvænt, en svínvirkaði) og því getur maður lítið annað en giskað og vonað. En ef við beitum almennri skynsemi held ég að við getum verið sammála um að liðið verður sem hér segir:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Gerrard – Alonso – Sissoko – Aurelio/Gonzalez

Kuyt – Bellamy/Crouch

Fyrir mér eru tvær vafastöður í liðinu. Ég velti því lengi fyrir mér hvort Rafa myndi fara í þrjá miðverði á morgun og setja Sami Hyypiä inn í liðið en ég held ekki því hann þarf að hafa góða breidd á vellinum til að þrengja að þeim Ronaldinho og Messi. Þá er þetta spurningin um það hver mannar vinstri vænginn fyrir framan eða aftan Johnny Riise. Reynslu sinnar vegna verður Aurelio sennilega fyrir valinu ef hann er heill en annars býst ég við að sjá Mark Gonzalez þarna inni, sem hefur einnig leikið á Spáni. Það er þó verst að Luis García er ekki heill heilsu, hann hefði verið sjálfvalinn í þessa stöðu ef hann væri spilafær.

Svo er það blessuð framherjastaðan. Við vitum að Dirk Kuyt verður inni, hann er orðinn fyrsti kostur Rafa og mun spila burtséð frá því hvaða taktík við beitum. Þá er það bara spurningin um Crouch eða Bellamy. Mun Rafa nota Crouch til að halda bolta og færa menn eins og Gerrard, Gonzalez og Kuyt inn í sóknarleikinn eða mun hann liggja djúpt með liðið og treysta á hraða Bellamy til að beita skyndisóknum?

Persónulega hallast ég að því að hann hafi Craig Bellamy þarna á morgun. Sá velski hlýtur að iða í skinninu eftir slúður helgarinnar og ég held að Rafa sleppi honum lausum á Börsungana strax á morgun, auk þess sem ég held að við munum einfaldlega liggja of djúpt á Nou Camp til að Crouch nýtist nógu vel.

Hvað sem verður um aðrar stöður er samt ljóst að þessi rimma mun ráðast á miðjunni. Hjá Barcelona eru þeir Xavi, Deco og Iniesta allt í öllu og þeir Alonso, Sissoko og Gerrard munu þurfa að eiga frábæran leik til að stoppa spilavél Börsunga annað kvöld. Þá er einnig mikilvægt að ná að gera sem minnst úr hættu þeirra Ronaldinho og Messi. Þetta eru snillingar með boltann og þeir munu hafa betur gegn Finnan og Riise maður á mann, þeir eru bara það flinkir, en það er hægt að gera lítið úr hættu þeirra með því að gefa þeim lítið pláss til að athafna sig. Þess vegna mun Gerrard spila fyrir framan Finnan, til að aðstoða hann við að loka plássinu sem Ronaldinho hefur til að athafna sig, á meðan Aurelio mun væntanlega aðstoða Riise á sama hátt með Messi á hinum vængnum.

MÍN SPÁ: Eins og ég sagði í upphafi þessarar færslu á ég miða á seinni leik liðanna á Anfield eftir hálfan mánuð, og mér þætti fátt jafn leiðinlegt og að fara á þann leik ef úrslitin í rimmunni væru þegar ráðin og sá leikur aðeins formsatriði. Og trúið mér, það getur alveg gerst; ef Arsenal gátu unnið okkur 3-0 á Emirates Stadium í nóvember geta Börsungar það alveg á Nou Camp annað kvöld. Slíkt bara má ekki gerast.

Ef okkar menn mega illa við því að tapa með tveggja marka mun eða meiru er alveg ljóst að jafntefli er sama og tap í augum heimamanna á morgun. Þeir hafa heyrt sögurnar og hlustað á aðvaranir Eiðs Smára, Zambrotta og Thuram. Þeir vita að sé rimman í járnum þegar liðin mæta á Anfield í seinni leikinn verður ansi margt Liverpool í hag og því munu þeir mæta grimmir til leiks á morgun og gera allt til að innbyrða góðan sigur.

Ég ætla að spá stórskemmtilegum leik á morgun þar sem Barcelona vinnur 2-1 sigur, en á endanum þá á útimarkið eftir að vega þungt þar sem við tökum þá á Anfield í seinni leiknum og sláum Evrópumeistarana út. Hvort sem ég hef rétt fyrir mér eða ekki er ljóst að leikur morgundagsins er stærsti leikur tímabilsins fyrir bæði lið og ég get ekki beðið eftir að upplifa þá flugeldasýningu sem þessi leikur verður!

Áfram Liverpool!

46 Comments

 1. Vá, ég fæ fiðrin í magann við að lesa þetta. 🙂

  Vandamálið er vissulega vinstri kanturinn. Ef að Aurelio er ekki heill, væru ekki alveg eins líkur á að Gerrard myndi fara á vinstri kantinn og að Arbeloa myndi koma inn hægra megin með Finnan – þar sem hann hefur reynslu af að spila gegn Liverpool???

  En einsog Kristján sagði – þá er ómögulegt að ætla að spá fyrir um liðið á morgun. Ég ætla samt að tippa á að Crouch fái tækifærið á morgun í staðinn fyrir Bellamy.

  Og einsog Kristján sagði – jafntefli eða eins marks tap væru ágætis úrslit, en það er erfitt að treysta á mark á útivelli gegn liði einsog Barcelona – þar sem þeir geta skorað hvar sem er uppúr nánast engu.

 2. Þú meinar að Arbeloa hafi reynslu af að spila gegn Barcelona. 🙂

  En já, hann gæti allt eins spilað þennan leik en ég held að ef Rafa geti muni hann frekar velja Aurelio eða Gonzalez fram yfir. Arbeloa er það nýkominn til liðsins að hann verður held ég aldrei nema á bekknum á morgun.

  Svo er náttúrulega einn kostur til viðbótar sem ég þorði varla að nefna í upphituninni. Rafa gæti náttúrulega alltaf spilað Bolo Zenden vinstra megin – þá væri hann með alla fjóra miðjumennina sína í mjög þéttum pakka á miðsvæðinu, auk þess sem Zenden hefur spilað fyrir Barca og er leikreyndur í Evrópukeppnum. En hann er náttúrulega bara miðlungsleikmaður og því fásinna að halda að hann komi við sögu. :rolleyes:

 3. Klárlega Crouch. Við viljum pressa á Barca og reyna að halda boltanum sem mest á móti þeim. Það er sjálfsmorð að ætla að leggjast í vörn og beita skyndisóknum á móti næst besta liði í heimi. Síðan kæmi mér ekki óvart að Aurelio verði í liðinu sökum spyrnugetu sinnar og skallagetu Kuyt og Crouch (meira hæðar Crouch en skallagetu!). Aurelio leggur upp þetta dýrmæta útivallarmark sem við þurfum svo á að halda.

  Besta lið í heimi Liverpool vinnur þessa rimmu!

 4. Frábær upphitun. Ég er allavega orðinn mjög heitur fyrir þessa rimmu. Shitturinn titturinn mellan og hóran. 😯

 5. Við munum tapa þessum leik 1-0 með marki frá Ronaldinho beint úr aukaspyrnu. Þetta verður frekar lokaður leikur og fátt um tækifæri. Bæði liði fara sér varlega og taka fáar áhættur. Eto´o, Messi og Eiður byrja allir á á bekknum hjá Barca.

  Getur ekki verið að við spilum með einn framherja og Sissoko, Javier og Alonso alla á miðjunni?

  uuuussssss þetta er spennandi…

  1-0 tap á útivelli gegn Barcelona er alls ekki slæmt og við getum unnið hvaða lið sem er í Evrópukeppninni á heimavelli.

 6. Eitt varðandi liðið hjá Barca þá er ákaflega ólíklegt að miðjan varði Deco – Iniesta – Xavi. Fyrir það fyrsta hefur Barca aðeins einu sinni spilað án Thiago Motta á miðri miðjunni í mestaradeildinni í vetur, og það var þegar hann var í banni og þá kom Edmilson inn á miðjuna. Í raun hefur Barcelona ekki spilað leik á heimavelli í vetur án Edmilson eða Motta á miðri miðjunni, ekki einu sinni á móti Badaling sem er mig minnir í 4. deild á Spáni.

  Rijkaard vill spila með varnarsinnaðann miðjumann í Evrópu, og ólíklegt að hann setji jafn sókndjarfa miðju á völlinn ef við lítum á síðustu tvö ár í meistaradeildinni eða deildina í vetur.

 7. Sorrí strákar en ég er svartsýnn fyrir þennan leik og spái 2 eða 3-0 tapi. Ekki að Barcelona muni valta neitt yfir okkur heldur munum við fara mjög illa með dauðafærin sem við fáum í leiknum en Barcelona mun skora nokkur heppnismörk án þess að spila vel.

 8. Held ef að Liverpool ætli sér áfram þá verður liðið að skora mark á útvelli. 1-0 tap á útivelli væru mjög slæm úrslit fyrir Liverpool, þar sem að Barcelona þyrfti þá einungis eitt mark á Anfield sem myndi þýða að Liverpool myndi þurfa setja þrjú. Sama staða kom upp á móti Benfica í fyrra og reyndist Liverpool liðinu of stór biti.

  Liverpool liðið ætti að spila með tvo sentera, Crouch og Kuyt. Hef ekki nokkra trú á öðru en að Benitez spili til sigurs á morgun, sérstaklega eftir ummæli sín gegn Everton

 9. Frábær upphitun Kristján,

  Þeir sem halda að það sé sjálfsmorð að leggja upp með að spila í vörn og beita skyndisóknum ættu að rifja upp viðureign Chelsea og Barcelona fyrir tveim árum síðan. Þar léku Chelsea með einn mesta varnarmúr sem ég hef séð í fótbolta. Tvær línur allan leikinn og skoruðu svo úr skyndisóknum. Hverju skilaði það? Jú þeir slógu þá út.

  Ég held að Rafa komi til með að byggja á mjög sterkum varnarleik. Það þarf þó ekki nema eitt mark snemma leiks frá Barca, þá þarf að breyta um taktík. Að sama skapi, ef Liverpool nær (eins og Chelsea gerði) að setja mark snemma, þá verður gjörsamlega pakkað í vörn. Ég er nánast viss um að Bellamy byrji leikinn og ég ætla hreinlega að spá því að bæði Crouch og Kuyt verði inná. Kuyt yrði þá úti vinstra megin (þ.e.a.s. ef Aurelio er meiddur), Crouch uppi til að halda boltanum og skila honum á skotfljótann Bellamy.

  Er alveg hrikalega stressaður fyrir þennan leik og jafntefli í honum væri hreinlega draumur í dós. Treysti mér hreinlega ekki til að spá um úrslit.

 10. Sammála Daða með miðjuna hjá Barca….

  Það eru akkúrat 0% líkur á því að þessir þrír verði saman á miðjunni hjá þeim. Fyrir það fyrsta eins og hann segir þá virðist Rijkaard alltaf vilja hafa einn passífan miðjumann og svo eru þessir þrír alltof líkir leikmenn til að geta spilað saman á miðri miðjunni.

  En þetta verður rosalegt, djöfull hlakkar mig til…!!!!!

 11. Þetta verður allsvakalegur leikur og djöfull er maður spenntur. Horfði á dráttinn í beinni og man að þegar þetta varð ljóst hugsaði maður bara: “Auðvitað”

  Ef Aurelio er ekki leikfær held ég að Zenden yrði fínn á miðjuna, því ég held að lykillinn að góðum úrslitum í þessum leik sé að okkar miðjumenn “bully-i” þessa boltaklappara hjá þeim. Helst myndi ég vilja sjá Kyut og Crouch frammi og þá þessa miðju:

  Zenden/Aurelio – Sissoko – Alonso – Gerrard

  Ekki væri verra ef Mascherano kæmi inn í þetta, þá ef hann spilar bara með einn uppi, finnst þó líklegra að þá verði bellamy/pennant hægra megin og Gerrard á miðjunni.

  Lykillinn, að mínu mati, verður hæfilegt líkamlegt og andlegt ofbeldi gagnvart Deco,Xavi og Ronaldinho og co, þá getum við náð hagstæðum úrslitum.

 12. Daði – ég íhugaði vandlega hvaða miðja væri líklegust hjá Barca og komst að þessari niðurstöðu. Ég þekki mjög vel til liðsins og veit að Xavi og Deco eru sjálfvaldir svo að þetta er bara spurning um þriðja miðjumanninn. Algengast væri að annað hvort Edmilson eða Motta spiluðu þar, og það er enn líklegt, en af því hvernig Riijkard hefur talað fyrir leikinn er eitthvað sem segir mér að hann reyni að stjórna spilinu og kæfa miðjuna okkar í sóknarþunga, og því skaut ég á að Iniesta verði þarna.

  Það er vissulega annar möguleiki í þessu, að Messi byrji á bekknum (nýkominn inn úr meiðslum) og Iniesta spili þá framar í hans stað með Motta eða Edmilson á miðjunni. En ef Messi er í byrjunarliðinu á morgun er ljóst að Iniesta verður einhvers staðar að vera, hann hefur verið besti maður Börsunga í vetur og Riijkard einfaldlega getur ekki sett hann á bekkinn í þessum leik.

  Það getur vel verið að þetta reynist rangt hjá mér, en ég skýt allavega á þessa miðju og stend við það. 🙂

 13. Ég vona að Eiður byrji á bekknum og komi ekki inn á.

  Svona held ég að liðið verði.

  Reina
  Carra, Hyppia, Agger, Riise
  Gerrard, Alonso, Sissoko, Zenden
  Kuyt og Bellamy.

  Einfaldlega sterkasta liðið sem við eigum í dag.

  Svo vinnum við þennan leik og ekkert múður.

  Áfram Liverpool!

 14. Sammála einu hjá þér Hössi, og það er með þetta ekkert múður 🙂

  En ef þú tekur niður anti Finnan gleraugun, finnst þér þá í alvöru miklar líkur á því að einn af okkar traustustu mönnum varnarlega, verði ekki í byrjunarliðinu? Ég yrði persónulega afskaplega hissa ef það yrði raunin. Hann hefur verið gagnrýndur af mörgum fyrir að vera ekki nógu sókndjarfur, en það sem skiptir mestu máli með varnarmenn okkar gegn liði eins og Barca á útivelli, það er að gera ekki mistök varnarlega og þar hefur Finnan verið sterkari á svellinu en nokkur annar varnarmaður á þessu tímabili.

 15. Jú það er rétt að Finnan hefur staðið sig vel í vetur.

  Ég er hins vegar hræddur við Ronaldinho og hugsaði með mér að fyrst við myndum lítið sem ekkert sækja á bakvörðunum á morgun þá væri hægt að setja Carrager á manninn. Hann myndi pakka honum saman. Svo hefur Hyypia yfirleitt staðið sig vel í stóru leikjunum og ég valdi reynslu hans og hæð fram yfir Finnan.

  Ef við þurfum að liggja til baka þá er Hyypia einfaldlega einn besti varnarmaður í heimi til þess. Ef við þurfum hins vegar að sækja þá er hann að verða of þungur kallinn til að spila framarlega á vellinum.

  Ok ég skal ekki gera upp á milli Agger og Finnan í þessu dæmi en vil hafa Hyypia inn á. Verð samt ekkert fúll ef hann verður það ekki. Hinir eru alveg nógu góðir til að standa vaktina.

  Áfram Liverpool!

 16. Ef einhverjum fannst vanta fleiri vitna við…
  Rir Sobby Bobson í viðtali í El Mundo Deportivo að tala um hvað Anfield í Evrópuleikjum sé stórkostlegur og að Barca eigi að passa sig þar. Segir m.a. orðrétt að Old Trafford og St.James’ séu fínir en Anfield sé í sérflokki og það að þeir leikir séu það mest “intense” sem hann hefur séð í fótbolta, hvorki meira né minna.

  http://www.elmundodeportivo.es/20070220/OPINION252201465.html

 17. Er Mascherano löglegur á morgun?
  Hvernig er sú staða? hann var fyrst skráður í LFC í dag og því líklega ekki með leikheimild í CL??

  Anybody??

 18. Ég veit ekki hversu mikið mark er takandi á því, en BBC listar upp hópinn svona:

  Liverpool (from): Reina, Finnan, Agger, Hyypia, Carragher, Riise, Aurelio, Pennant, Gerrard, Sissoko, Alonso, Zenden, Bellamy, Crouch, Kuyt, Fowler, Gonzalez, Arbeloa, Dudek.

  Semsagt, Arbeloa í hópnum en enginn Mascherano.

 19. Kristján Atli – Ég set stórt spurningamerki við þá kenningu þína að leið Rijkaard til að vinna miðjuna sé að hafa þrjá litla, flinka og létta leikmenn á miðjunni á móti miðjumönnum Liverpool. Ég held að Rijkaard sé einfaldlega ekki svo vitlaus að halda að það sé leiðin til að ná tökum á miðjunni í þessum leik. Ég er alveg 130% viss um að Motta eða Edmilson verða í liðinu á morgun og annaðhvort Iniesta eða Xavi þurfi að víkja. Kannski hann setji Iniesta á hægri kant eins og hann hefur gert nokkrum sinnum undanfarið, en ég hef samt meiri trú á að Messi verði þar.

  Ef þetta reynist allt rétt hjá þér Kristján Atli skal ég éta hattinn minn:)

 20. Svo ég svari mér sjálfur:

  [“They have now decided to sanction the move, and Mascherano is eligible to play in Liverpool’s UEFA Champions League clash against Barcelona.”]

  Tekið af http://www.skysports.com

 21. Ég hef nú reyndar meiri trú á því að Xavi verði látinn víkja, en ef ekki hann þá Iniesta. Þeir verða allavega ekki allir þrír inná miðjunni! En svo náttúrulega eins og ég sagði, þetta gæti verið þannig að Messi byrji á bekknum og Iniesta þá hægri kanti og þá leysist þetta að sjálfu sér:)

 22. Ég held að það sé mikilvægast að stefna á því að skora mark í þessum leik, 1-0 eða 0-0 jafntefli eru slæm úrslit en ekki 2-1 3-2,, 1-1 eða 2-2 tap/jafntefli.

 23. Daginn drengir
  Frábær síða að venju,
  Er einhver sem hefur hugmynd um hvar er hægt að horfa á leikinn í downtown NY?
  Þetta verður frábær skemmtun!
  kv,

 24. Viðar segir:

  >”Ég held að Rijkaard sé einfaldlega ekki svo vitlaus að halda að það sé leiðin til að ná tökum á miðjunni í þessum leik.”

  Það er óþarfi að vera með dónaskap. Ég ætla ekki að senda inn það svar sem ég var upphaflega búinn að vélrita, en læt mér í staðinn nægja að segja að þú verður bannaður ef þú kallar mig aftur heimskan.

 25. >Það er óþarfi að vera með dónaskap. Ég ætla ekki að senda inn það svar sem ég var upphaflega búinn að vélrita, en læt mér í staðinn nægja að segja að þú verður bannaður ef þú kallar mig aftur heimskan.

  Já, ég ætlaði að kommenta á þessi ummæli Viðars, en bjóst við að einhverjir aðrir myndu minnast á þetta.

  Kristján skrifar 2000 orða frábæra upphitun og heldur því fram að Iniesta verði í byrjunarliðinu í staðinn fyrir Motta.

  Og fyrir það uppsker hann að vera kallaður heimskur. Ég á ekki til orð yfir svona dónaskap. Ég myndi allavegana ekki nenna að halda úti þessari sjálfboðaliðavinnu ef að fleiri komment væru í þessa átt.

 26. Strákar mínir, voðalega eruð þið viðkvæmir. Það er nú engin argasti dónaskapur að segja að Rikjaard sé ekki vitlaus. Hann Viðar tók nú örugglega bara svona til orða, það eru ekki allir jafn elegant pennar og þið 🙂 Ekki verða eins og Ingibjörg Sólrún og Villi Vill og fara að banna allt og alla sem þið fílið ekki í botn. Það kann aldrei góðri lukku að stýra.

 27. Ég er ekki að tala um að banna þá sem ég fíla ekki í botn. Það hafa margir verið mér ósammála áður og það er í besta lagi. En við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Það að segja óbeint að ég sé svo vitlaus að stinga upp á þessari miðju Börsunga flokkast í mínum bókum undir móðgandi ummæli.

  Veist þú um einhverja fleiri sem hafa skrifað 2,000 orð um þennan leik á íslensku í dag? Og það án endurgjalds? Ég er ekki að segja að fólk dýrki jörðina sem ég geng á, en mér finnst lágmark að mér sé sýnd smá kurteisi. Ég skrifaði þessa upphitun til að menn gætu rætt hana og skipst á skoðunum, ekki til að vera kallaður vitlaus fyrir að segja mína skoðun.

 28. Fullkomlega sammála Kristjáni Atla. Ummæli Viðars hrein og klár móðgun.
  YNWA

 29. Kristján… þessi vignir á örugglega svona konu sem ræður öllu og hann getur aldrei rifið kjaft við neinn, því þá er drullað yfir hann.. þannig honum líður kannski betur í hjartanu núna eftir þessa gríðalega barnalega framkomu, svona menn eiga bara að sleppa að commenta….

  En maður er nú samt ekki bjartsýnn á morgun…. en get ekki spáð mínu liði tapi. en ég held að við skorum allavega 😡

 30. Það fer orðið of mikil orka í leiðindi manna á milli nú orðið..

  Þetta fer 0-2…:) ótrúlegur leikur og loks brillerar Kuyt.

 31. Jæja Eto´o verður ekki með, nokkuð viss um að Messi byrji ekki inná, enda hefur Iniesta verið að spila mjög vel í hans stöðu þarna hægramegin.
  Marquez verður afturliggjandi á miðjunni með Xavi og Deco framliggjandi miðjumenn. Þannig að Edmilson verður miðvörður með Puyol, svo að lokum verður Eiður smári þarna frammi en á ekkert eftir að sjást.. 🙂

  Þetta er allavega mín spá um uppstillingu Barcelona. :biggrin2: :biggrin2:

 32. Jæja…stóra stundin runnin upp…. :biggrin2:

  Þetta er ekkert annað en gaman. Náttúrulega er alltaf smá hrollur fyrir svona leiki. Og eftir bikara martröðina gegn Arsenal í janúar, þá er kannski ekkert skrýtið að maður fari með einhverjar rosa vonir í þennan leik. Eftir það reiðarslag sagði ég, að eina sem fengi mig til að gleyma þeim hörmungum væri að slá út Barcelona!!!
  Eitthvað sem segir mér, að það bara rætist.

  Lykilinn að því að eiga einhvern möguleika að slá út Barcelona er að skora í kvöld og alls ekki að tapa með meiru en einu marki!!! Við þurfum útivallarmark/mörk í kvöld.

  Ég ætla að spá því að Dirk Kuyt og Gerrard skori í kvöld. Eigum við ekki bara að segja að við vinnum þennan leik 2-1..

  :blush: :blush:

  Áfram Liverpool…

 33. Athyglisvert að blaðamður Guardian [heldur því fram](http://football.guardian.co.uk/championsleague200607/story/0,,2017763,00.html) sem ég var að spá í:

  >Benítez will endeavour to starve Ronaldinho of service and space in an attempt to nullify the Brazilian’s obvious threat, most likely offering his recent £2.6m signing Alvaro Arbeloa a full debut with Steve Finnan shifted further into midfield.

  >Arbeloa was excellent against Ronaldinho earlier this term, when Deportivo de la Coruña held the reigning European champions at the Riazor in La Liga

  Og þetta er líka mögnuð staðreynd ef rétt reynist:

  >The captain will make his first start tonight on foreign soil in this competition proper since that staggering evening in Istanbul, most likely in a supportive attacking role to a lone striker, with an evening of feverish work ahead.

 34. Eitt sem vinnur með ykkur. Barcelona getur ekkert þessa dagana. Ekki neitt. Hafa ekki verið lélegri núna í tvö ár.

 35. Heyrði að Edmilson sé ekki í hópnum svo það verður væntanlega Motta aftarlega á miðjunni og Márquez í vörninni eða Oleguer færður í miðvörð og Belletti í hægri bakvörðinn.

 36. Og þetta er líka mögnuð staðreynd ef rétt reynist:

  The captain will make his first start tonight on foreign soil in this competition proper since that staggering evening in Istanbul, most likely in a supportive attacking role to a lone striker, with an evening of feverish work ahead.

  Var að kíkja á þetta og þetta er rétt, hann hefur ekki byrjað í leik utan Englands síðan í Istanbul ef forkeppnin er ekki talin með.

 37. Hvernig getur pistlahöfundur haldið með liverpool og Barcelona?

  annað liði með fallegan sóknarbolta en hitt með þessa týpísku sparka og hlaupa taktík.

 38. Hvernig getur einhver kallað sig doddi pönk á opinberum vettvangi? :rolleyes:

 39. “1-0 tap á útivelli gegn Barcelona er alls ekki slæmt”

  Jú samt… sbr. Arsenal í gær. Það er ekki hægt að vera öruggur með sig þótt vel gangi í seinni leiknum nema staðan sé 3-0, því í stöðunni 2-0 kann mótherjinn að skora og þá er allt búið.

  Verðugar pælingar hjá bæði Einari og blaðamanni Guardian að Alvaro Arbeloa verði í hægri bakverði og Finnan á hægri kanti, en er það ekki dálítil áhætta að leyfa Arbeloa að fá sinn fyrsta leik í byrjunarliði Liverpool á útivelli gegn Barcelona?!?

  Þessi leikur verður annars annað af tvennu:
  a. Opinn og skemmtilegur eða
  b. Keimlíkur leiknum tímabilið 2000-2001 (sem verður að teljast líklegra).

 40. Ég er algjörlega ósammála Dodda **Pönk** að Barcelona spili “týpíska sparka og hlaupa taktík.”

  Greining hans á Liverpool er hins vegar hárnákvæm.

 41. Kristján Atli – Ég vona nú að þú hafir ekki tekið illa upp ummælin mín, ég hef alltaf gaman að lesa skýrslurnar ykkar en þar sem ég fylgist mjög mikið með Barcelona fannst mér ákaflega ólíklegt að Motta yrði ekki í liðinu.

  Iniesta er búinn að vera frábær í vetur en Rijkaard vill yfirleitt að bakverðirnir séu með í sókninninni þar sem overlab er notað rosalega mikið. Það þýðir að þegar þeir fara í sókn þurfa þeir að geta farið í 3 manna vörn (Motta – Puyol – Marques) eða þegar Marques skiptir við varnarsinnaða miðjunni manninn og tekur boltann upp (Sást á köflum á móti Valencia þegar Edmilson fór í miðvörðinn).

  Ég var einfaldlega að segja mína skoðun á leikskýrslunni, ekki draga úr gildi hennar eða sýna vanþóknun heldur eingöngu að vera ósammála 10 af þeim 2000 góðu orðum sem voru þar skrifuð.

  :confused:

Rafa um Voronin.

Mascherano löglegur!