Hvar eru veikleikar okkar?

Ég er ennþá frekar pirraður eftir tapið gegn Newcastle og þá aðallega vegna þess að við ÁTTUM alls ekkert að tapa þessu. Við vorum betri aðilinn í þessum leik en nú sem áður þá erum við ekki að nýta þau færi sem við fáum til að klára leikina. Bellamy átti að ósekju að skora þrennu í þessum leik og Kuyt eitt en skoruðum aðeins eitt mark og uppskárum ekkert stig. Mig grunaði að þetta gæti orðið erfiður leikur sérstaklega í ljósi þess að við vorum með þá Zenden og Sissoko inná frá upphafi en þeir hafa ekki verið með síðan í nóvember vegna meiðsla og það sást klárlega í leiknum. Sissoko var orðinn mjög þreyttur í lok leiksins og Zenden var horfinn þegar honum var skipt útaf.

Ég og vinur minn, Rúnar, gerum okkur stundum ferð á hverfiskránna hérna í borginni við höfnina og ræðum um Liverpool. Þá eru spurnningar líkt og: Hvaða stöður séu vandamál? Hvar við séum vel mannaðir? Hverja við getum keypt o.s.frv. oft bornar á borð og þær rökræddar út í hið óendanlega. En veltum þessu aðeins fyrir okkur.

Hvar eru okkar helstu veikleikar? Að mínu viti er okkar veikasta staða ennþá hægri kanturinn þar sem þeir Pennant og Garica hafa helst spilað. Gerrard stóð sig vel í þeirri stöðu í fyrra en hann er fyrst og fremst miðjumaður. Pennant hefur átt ágætis spretti inná milli en er ekki og verður ekki lykilmaður í liði sem er að berjast um titla. Garcia er frábær varamaður og getur komið inná og breytt leikjum. Einnig er hann gríðarlega fjölhæfur og getur leyst báðar kantstöðurnar, verið í “holunni” og spilað sem framherji. Ég held að Rafa hjóti að leggja gríðarlega áherslu á að kaupa heimsklassa kantmann sem getur bæði tekið varnarmenn á og gefið góðar sendingar fyrir markið. Ekki er síðan verra að hann gæti sett eitt og eitt mark. Hver þessi leikmaður er veit ég ekki en ég treysti því að þeir njósnarar sem Liverpool er með á sínum snærum séu fullfærir um að finna þennan leikmann einhversstaðar í heiminum.

Hins vegar er ljóst að þótt Rafa finni þann leikmann sem passar þá er langur vegur í að hann komi til okkar. Kannski vill hann ekki spila á Englandi og hvað þá búa í Liverpool. Það eru margir þættir sem þurfa að smella þegar leikmenn utan Englands eru keyptir og þá sérstaklega þeir sem tala ekki málið. Til að allt gangi upp þarf einnig fjölskylda viðkomandi leikmanns að aðlagast vel nýja umhverfinu og er oft vandamál.

Þurfum við nýja framherja? Er Bellamy nógu góður fyrir Liverpool? Hvað þá Crouch? Og jafnvel Kuyt? Ég met stöðuna sem svo að eins og staðan var þegar Bellamy var fenginn þá var hann góður kostur og sama á við Pennant. Hins vegar hefur Rafa sýnt það að hann er tilbúinn að viðurkenna sín mistök og selja leikmenn eftir eina leiktíð. Ef t.d. David Villa er á lausu fyrir raunhæfan pening þá er hann klárlega betri en Bellamy og Crouch. Ég tel að Kuyt hafi alla burði heimsklassa framherja og eftir ákveðinn aðlögunartíma þá muni hann sýna það.

Önnur vandamálastaða er vinstri kanturinn en þar taldi ég okkur vel mannaða fyrir tímabilið en vegna tíðra meiðsla Kewell, Aurelio og Gonzalez þá eru við alls ekki vel mannaðir þar. Hægt er að setja raunhæft spurningamerkið við Kewell í dag en hann er búinn að vera meiddur meira og minna allan sinn ferill hjá Liverpool. Þegar hann er spilklár þá hefur hann staðið sig fantavel og er oft sá leikmaður sem gerir út um leiki með góðri sendingu og fallegu marki. Gonzalez er ennþá ungur drengur og mun taka sinn tíma fyrir hann að aðlagast Englandi og að spila í stóru félagi. Hann þarf í það minnsta eitt tímabil sem “back up” áður en hann mun láta taka til sín af einhverju viti en hæfileikana hefur drengurinn. Það sýndi hann á Spáni bæði með Albacete og Sociedad. Aurelio var oft meiddur hjá Valencia og heldur uppteknum hætti hjá okkur. Ef það gengur ekki yfir þá getum við alveg eins selt hann til liðs hefur efni á að hafa lykilmenn meidda. Hæfileikarnir leyna sér ekki hjá drengnum en alltaf þegar hann er að ná góðu skriði í byrjunarliðinu þá meiðist hann. EN hvaða leikmaður getur leyst þessa stöðu betur en þeir sem fyrir eru? Ég hef ávallt verið hrifinn af Duff en hann er engu betri en Kewell hvað meiðslin varðar. Ég á því von að Rafa taki púlsinn á öllum vinstri kantmönnum okkar eftir tímabilið og út frá því meti hvort þörf sé að liðstyrk hérna.

Það er auðvelt að pirrast yfir Riise og sérstaklega í ljósi liðinna atburða þá er Normaðurinn oft auðvelt skotmark. Hann er ótrúlega mikill “basic” knattspyrnumaður, duglegur en alls ekki hæfileikaríkur. Er gríðarlega skotfastur en ekki skotviss og er bestur þegar hann ofmetur ekki sína eigin getu (sem hann því miður gerir of oft). Þrátt fyrir þetta þá er Riise með gríðarlega reynslu og líklega þyrftum við að punga út fullt af milljónum punda til að fá leikmann sem væri betri en Riise. Kostir Riise eru þeir að hann er búinn að vera lengi í Liverpool, veit til hvers er ætlast af honum og hann meiðist næstum ALDREI. Það er kostur. Hins vegar væri náttúrulega frábært ef Aurelio myndi ná að vera heill í fleiri en tvær vikur í einu og gæti þá sett smá pressu á hann.

Úr einu yfir í annað… núna er framundan leikur gegn Barcelona á Camp Nou. Strákarnir okkar eru nú á leið til Portúgals þar sem þeir munu undirbúa sig sem best fyrir átök gegn Eiði og félögum. Okkur hefur nú ávallt liðið best sem “under dogs” í átökum okkar í Evrópukeppnunum og á ég ekki von á því að þessi leikur verði nein undantekning frá því. Ég hlakka til leiksins og vonandi sjáum við okkar menn í stuði á miðvikudaginn eftir viku.

Góðar stundir.

17 Comments

 1. Þetta eru fínar pælingar. Stóra vandamálið er það að allt eru þetta góðir leikmenn en … eins og þú segir um Pennant … þá eru nokkrir byrjunarliðsmenn ekki og verða ekki lykilmenn í liði sem er að berjast um titla. Samt mjög frambærilegir og geta átt góða leiki.

  Mitt mat í haust væri að við gætum stillt um frábæru liði en ef lykilmenn myndu meiðast þá væri því miður of mikill getumunur á þeim og þeim sem myndi leysa þá af.

  Ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir leikinn gegn Barca og spái að við komumst áfram. Er farinn að hlakka til leiksins.

  Áfram Liverpool”

 2. Ég held að aðal veikleikinn okkar á móti Barcelona sé klárlega Riise. Hann er að selja sig oft á tíðum dýrt á móti meðalmönnum í ensku deildinni. Hvernig ætli það verði þegar að leikmenn eins og Giuly og Messi taka á móti honum í leiknum á Nou Camp. Honum verður pakkað saman!!

  Mascherano fær leikheimild hjá Liverpool líklegast á morgunn. Má hann spila með okkur þá eða?

  Ég vona innilega að við náum hagstæðum úrslitum á Nou Camp. 0-0 væri frábært og svo tækjum við þá 1-0 eða 2-0 heima!!

  YNWA Áfram Liverpool!! 🙂

 3. Já þetta eru allt góðir punktar, en eitt finnst mér gleymast í umræðu almennt á síðunni. Fyrir janúargluggann var alltaf verið að tala um að okkur vantaði backup í hægri bakvörðinn. Að mínu mati vantar okkur líka aðalmann í vinstribakvörðinn.

  Ég vil sjá aðallega sjá Aurelio á kantinum og bara sem backup í bakvörðinn. Riise er góður squadplayer og er flottur backup í bæði bakvörð og kant, alls ekki aðalmaður í bakkarann þar sem hann er mesti snillingur í deildinni í að spila andstæðinginn réttstæðan.

  Að mínu mati erum við ekki með toppbakvörð vinstra megin og því vil ég sjá kippt í liðinn í sumar. Halda hópnum eins og hann er ef við höfum efni á því, góð breidd, og síðan bæta við toppmönnum í hægri, vinstri og síðan einhvern markasjúkling. Síðan er aldrei að vita hvað kemur upp úr kjúklingabúinu. Það er bara hamingja framundan til lengri tíma litið.

  Bring on Barca, bring those fu#%ers on!

 4. Góður pistill og aldrei þessu vant er ég nánast alveg sammála höfundi hans. Þar sem skeikar er það svo lítið að ég sé ekki ástæðu til að tíunda það :tongue:

 5. Þetta er mjög góður pistill hjá þér Aggi, er mjög sammála þér í flest öllu.

  Riise er leikmaður sem er ekki nógu góður fyrir liverpool, það er svo einfalt með það. hann skýtur ef hann sér glita í markið og hittir það svona 3/10 (sem er ekki gott) Væri til að fá einn góðan ungan, er þessi Bale ekki helvíti góður?????

  Pennant er að vaxa en er sammála ekki nógu góður fyrir að vera lykilmaður fyrir þetta blessaða lið. Hef alltaf verið mjög hrifinn á Simao, hann er leikmaður sem mundi leysa þetta langa vandamál og gera það 100 prósent.

  Svo er það Gonzalez!! Mér finnst þessi leikmaður alveg ömurlegur, margir örugglega ósammála mér núna….. En hann er ungur og getur kannski vaxið eitthvað og mér finnst hann þurfa að gera það nokkuð mikið, til að geta spilað fyrir liverpool. Ég meina liverpool á bara skilið leikmenn sem eru meira en góðir. Mér finnst hann VARLA efnilegur. Greiðslan er betri en fótboltinn hjá honum, svo einfalt finnst mér það.

  Framherjar, bakverðir, kanntmenn núna vill ég að menn beri þessar stöður við Man utd, já það er súrt að segja það þeir eru með miklu betri leikmenn í þessum stöðum, nema finnan minn, þeir eru svona mjög svipaðir.

  Það eru kannski margir ósammála mér en hvað væri gaman af lífinu ef allir væru sammála????

 6. Það mætti bæta flestar stöður liðsins – og þá aðeins með leikmönnum af hæsta gæðaflokki.

  Miðvörð í stað Hyypia

  Hægri bakvörð sem er samkeppnishæfur við Finnan (nema Arbeloa sé það).

  Vinstri bakvörð sem er betri en Riise og meiðist minna en Aurelio.

  Sókndjarfan miðjumann í stað Zenden.

  Hægri kant sem er áreiðanlegri en Pennant og García.

  Vinstri kant, nema Kewell hætti að meiðast og Gonzalez verði góður.

  Tvo sóknarmenn. Frá því Crouch var keyptur hef ég haldið því fram að hann yrði seldur sumarið 2007 og geri það enn. Fowler spilar varla meira. Þá myndi ég vilja sjá Pongolle koma aftur og einhvern sem er á hæsta kalíber.

  Mér er það hinsvegar alveg ljóst að það verða varla keyptir 6 heimsklassa leikmenn næsta sumar. Þetta kemur allt í ljós.

 7. Verð að játa að mér finnst Steve Finnan sleppa ansi vel frá þessari gagnrýni.
  Líkt og Riise þá hefur hann verið að gera full af mistökum í vörninni í vetur en það virðist vera sem menn eru frekar tilbúnir að fyrirgefa honum en Riise. Einn helsti styrkleiki Finnan í gegnum árin er að hann hefur verið stöðugur og gert fá mistök, en málið er að hann kemur ekki með neitt extra.

  Það má þó segja Riise það til hróss án þess að hann á það til að setja og leggja upp eitt og eitt mark en það gerir Finnan mjög sjaldan. Myndi vilja sjá Finnan miklu öflugri við að koma í overlap við hægri kantmanninn og má jafnvel segja að lítil aðstoð frá Finnan hafi komið niður spilamennsku Pennant. Hann á það til að taka spretti fram en þó ekkert í líkingu við bestu bakverði deildarinnar.

  Væri alveg til í að Finnan fengi verðuga samkeppni á næsta tímabili enda fer Finnan að komast af léttasta skeiði og því alveg kominn tími til að fara finna einhvern framtíðarleikmann í þessa stöðu.

 8. Aggi, finnst þér Liverpool borg virkilega svona hræðilegur staður??
  Hef tekið eftir því að þú talar oft um það að þú sért ekki viss um að menn vilji ekki koma til LFC vegna þess að borgin er svo glötuð. :rolleyes:
  Ég hef sagt það að okkur vantar allavega 4 leikmenn, vinstri og hægri bakverði (hef reyndar ekki séð neitt að ráði til Insunia eða Aberola) hægri kantur og svo framherja, jafnvel svo vinstri kant líka ef Kewell er ekki laus við vandamálin núna eftir þessar aðgerðir.

 9. >Aggi, finnst þér Liverpool borg virkilega svona hræðilegur staður?? Hef tekið eftir því að þú talar oft um það að þú sért ekki viss um að menn vilji ekki koma til LFC vegna þess að borgin er svo glötuð.

  Ég held að hann hafi aldrei haldið því fram að Liverpool borg sé hræðilegur staður. Þetta er fín borg. En með fullri virðingu fyrir borginni þá ef menn standa frammi fyrir vali á því hvort þeir vilji búa í Madrid, Barcelona, London eða Liverpool þá kemur Liverpool ekkert sérlega vel út, enda eru hinar borgirnir með þeim mest spennandi í heimi.

 10. Ég held að Einar hafi svarað þessu varðandi Liverpool borgina.

  Hvað varðar Finnan þá get ég ekki séð að hann hafi gert svo mikið fleiri mistök í ár en undanfarin eða fá. Hann ásamt Carra hefur verið einn sá traustasti hjá okkur og veit ég um fáa bakverði í ensku deildinni sem eru með jafnmargar stoðsendingar líkt og Finnan. Þá er rétt að hann skorar sjaldan en hann á mun fleiri stoðsendingar heldur en Riise. Ennfremur gerir hann sig sjaldan sekan um að ofmeta hæfileika sína og reyna að sóla á furðulegum augnablikum. Það er hins vegar alveg rétt að Finnan verður ekki yngri og þess vegna verður að bregðast við því nema að nýi leikmaðurinn sé þess verðugur.

 11. Þetta eru alltaf skemmtilegar pælingar Aggi, menn vilja auðvitað alltaf þá bestu og hingað til hefur það verið fjarlægur draumur.

  En með tilkomu nýrra eigenda þá held ég að óhætt sé að gera sér vonir um 2-3 stjörnur í sumar, leikmenn á heimsmælikvarða sem færa Liverpool FC upp á hæsta plan. Ef ég man rétt þá var Benitez líka að tala um það að liðinu í dag vantaði 3 klassa leikmenn til að ná upp á hæstu hæðir.

  Það er klárt mál að nokkrar stöður eru veikari en aðrar, að mínu mati eru það báðar bakvarðarstöðurnar, hægri og vinstri kantur (geri þá ráð fyrir að Kewell nái sér aldrei heilum) og svo myndi það vera sterkur leikur að bæta einum gæða manni í sóknina.

  Mér þætti ekki óeðlilegt að Benitez gerði aðra tilraun til að ná Alves eða Simoa í sumar. Nú hefur hann þessa 1-2 milljónir sem vantaði uppá síðast.

  Með tilkomu Alves værum við komnir með framtíðar mann í hægri bakvörðinn, plús mjög svo frambærilegan hægri kantmann.

  Simoa er í miklu uppáhaldi hjá mér og að mínu mati gæti hann orðið okkar svar við Ronaldo hjá manu. Kosturinn við Simoa er sá að hann er jafnvígur á hægri og vinstri kant. Því gæti það dugað Rafa að kaupa hann í sumar og gefa svo Kewell og Gonzalez næsta vetur til að sanna sig.

  EF hann ákveður að Liverpool vanti vinsti kantmann þá kemur bara einn upp í hugan strax, Florent Malouda hjá Lyon. Frábær kantmaður með mikla tækni og mikin hraða, og spilar á hverju ári meðal þeirra bestu í meistaradeildinni, auk franka landsliðsins. Ég er klár á því að þessi kappi myndi færa liðinu aukin gæði.

  Einnig gætum við klárlega haft not fyrir liðsfélaga Malouda, vinstri bakvörðin Eric Abidal. Stór og sterkur strákur sem hefur virkað vel á mig þegar ég hef séð hann spila. Annars er vinstri bakvaðarstaðan erfið því það eru mjög fáir afgerandi góðir vinstri bakverðir í heiminum.

  Nú er mál að klára þennan vetur með stæl, því aðdráttarafl LFC verður minna ef meistaradeildarsæti er ekki tryggt.

  Krizzi

 12. Krizzi, eftir því sem tíminn líður, þeim mun ólíklegra er að Sevilla selji Alves. Þá mun verðið á honum eflaust vera enn hærra en í fyrra, þar sem að Sevilla eru í titilbaráttu og hann hefur verið með betri leikmönnum liðsins (hef ég heyrt). Man ekki sjálfur hvað Sevilla vildi fá mikið fyrir hann í fyrra (10-13m?) en sú tala hefur eflaust hækkað umtalsvert á þessu tímabili.

  og einare: “Myndi vilja sjá Finnan miklu öflugri við að koma í overlap við hægri kantmanninn og má jafnvel segja að lítil aðstoð frá Finnan hafi komið niður spilamennsku Pennant.”

  Held að þú verðir kannski að eiga það við Benitez frekar en Finnan. Hann er hugsanlega að fara að ráðum stjórans og sækir því mjög lítið upp sjálfur.

 13. Vil bara taka undir með einarie hér að ofan. Finnan hefur þó verið að standa sig ágætlega upp á síðkastið en nú eru því miður aðrar stöður sem þarf að laga fyrst.

  Einar – ég held að við verðum að bera Finnan saman við leikmenn þeirra liða sem eru betri eða jafn góð og Liver. en ekki úrvalsdeildina alla. Þá er líka hægt að bera hann saman við Babbel þegar hann var upp á sitt besta með Liver. eða aðra góða fyrrv. hægri bakverði. (Ekki samt Song og Kvarme :smile:)

  Varðandi Riise og Finnan þá er Finnan klárlega skárri í dag þó ég sé alltaf hrifnari af mönnum sem geta gert út um leiki upp á sitt einsdæmi. Maður gæti rifjað upp nokkur atvik með Riise en ég bara man ekki eitt einasta með Finnan. Kannski af því að það er ekki til.

  Það verður svo gaman að sjá hvernig Finnan reyðir af gegn Ronaldinho. Ég vona að hann pakki honum saman eins og Alves gerði í meistarar meistaranna leiknum í haust. Frábær leikmaður sem mér finnst sangjarnt að bera Finnan saman við.

  Ég lofa því svo að hætt að minnast á Finnan ef hann jarðar Ronaldinho. Fram á vor a.m.k. 😉

  Áfram Liverpool! 🙂

 14. Það fyndna við þetta allt saman og það sýnir kannski erfiðleikana sem að Rafa glímir við, er að það geta fáir bent á augljósa kosti sem myndu bæta liðið verulega.

  Ég er sammála að Riise er ekki besti bakvörður í heimi, en spurningin er hver kemur í staðinn fyrir hann. Mestum vandræðum er ég samt í með hægri kants-stöðuna. Ég er dálítið hrifinn af Pennant, en ég geri mér grein fyrir að hann er ekki allra besti kostur í stöðunni. En þá er bara spurning hver er betri kostur? Menn nefna nánast alltaf sömu nöfnin yfir þá leikmenn sem þeir vilja: Simao, Alves og Villa. Af þessum leikmönnum er Simao einna líklegastur, en það má þó benda á að Simao verður 28 ára á þessu ári.

  Alves verður líklega gríðarlega dýr næsta sumar og það sama má segja um Villa. Það er líka erfitt að segja hver forgangsatriðin eru því maður veit ekki almennilega hvað gerist.

  Sem dæmi: Vinstri kanturinn er augljóslega forgangsatriði, *nema* að Harry Kewell verði í lagi. Hægri kanturinn er forgansatriði *nema* að Rafa sjái (einsog var talað um í grein um Mascherano) Xabi og Javier sem miðjupar og Gerrard á kantinum.

  Eina sem maður veit með vissu er að vinstri bakvörðurinn er forgansatriði einsog Riise hefur verið að spila á þessu tímabili. Svo má einnig segja að það losni klárlega um eina framherjastöðu og það verður gaman að sjá hvort að Rafa kaupir backup framherja, eða hvort hann kaupi toppmann og færi hina framherjana neðar í goggunar-röðina.

 15. Ok það er ljóst að Finnan, Riise, Pennant, Bellamy o.s.frv. eru ekki heimsklassaleikmenn. Það vita allir. En líkt og Einar bendir á þá hlýtur Rafa að forgangsraða þe. hvaða staða erum við í mestum vandræðum með og út frá því fikra sig áfram með þá leikmenn sem hann getur fengið í stöðurnar.

  Ég sé þetta svona:
  1. Hægri kantur
  2. Framherji
  3. Vinstri kantur/bakvörður
  4. Hægri bakvörður

  Hvaða leikmenn þetta verða er erfitt að ráða í. Rafa er vanur að koma á óvart og er 100% að skoða leikmenn í Evrópu sem okkur dettur ekki í hug í dag. Holland, Belgía, Þýskaland og Skandinavía eru alveg eins líklegir staðir eins og Frakkland, Spánn, Portúgal og Ítalía.

  Ég vil ennfremur fá Pongolle tilbaka og gefa honum sénsinn sem 3/4 framherji hjá okkur á næsta tímabili. Ég er viss um að hann myndi hafa staðið sig jafnvel/illa (menn ráða) líkt og Bellamy hefur gert í vetur. Ennfremur gæti Pongolle vel leyst af hendi kantstöðurnar.

  Höfum líka eitt á hreinu, það er aldrei gott að skipta út of mörgum leikmönnum í einu. Þetta tekur allt saman tíma og núna með meiri pening til leikmannakaupa þá mun Rafa geta keypt fyrsta kostinn í stað þess að sætta sig við kost nr. 2 eða 3 jafnvel.

 16. Ef við röðum forgangi í leikmannakaupunum eins og Aggi setur þetta niður þá eru menn eins og Bastian Schweinsteiger, Philip Lahm og Miroslav Klose vonandi líklegir kandidatar, einnig Lokas Podolski (fór reyndar til Bayern síðasta sumar).

  Maður vonar bara að Rafa líti til Þýskalands einnig í leit að leikmönnum, því þar er spilaður þónokkuð hraður og harður bolti.

Sagan endalausa

Tveir leikmenn Liverpool í Evrópuúrvalinu.