Titilvonir

Yfirleitt er ég gæjinn sem skrifar hérna inn með glasið hálffullt, og sem slíkur hef ég oft átt fullt í fangi með að verja liðið og aðstandendur þess fyrir því sem mér hafa þótt vera frekar óverðskuldaðar og/eða ýktar gagnrýnisraddir. Í dag ætla ég hins vegar, að gefnu tilefni, að venda kvæði í kross og benda mönnum á hve mikið vantar uppá annars hálffullt glasið.

Um helgina vann Liverpool nokkuð auðveldan, mjög sannfærandi og algjörlega frábæran sigur á Chelsea í deildinni. Í kjölfarið vann Arsenal sigur á Man U svo að forskot þeirra síðastnefndu á Liverpool fór úr fjórtán stigum niður í ellefu, á meðan forskot Chelsea minnkaði úr átta niður í fimm. Arsenal eru sem fyrr heilu stigi á eftir okkur, en við úrslit helgarinnar gerðist það að bilið á milli tveggja efstu liðanna annars vegar og næstu tveggja liða minnkaði um þrjú stig.

Þegar Liverpool tapaði tvisvar fyrir Arsenal fyrir hálfum mánuði síðan (virðist langur tími í dag, er það ekki?) kepptust menn bæði á þessari síðu og um víða veröld við að úthrópa allt sem sneri að klúbbnum. Rafael Benítez var búinn að “missa’ða” á meðan annar hver leikmaður liðsins var ómerkilegri en skíturinn undir skóm netspjallara. Dagana eftir þessa tapleiki kepptist ég við að benda mönnum á að liðið væri ekki fullkomið, en samt langt því frá að vera jafn stórkostlega lélegt og sumir vildu meina.

Tvær vikur eru langur tími í knattspyrnu. Tæpum fjórtán dögum eftir að Thierry Henry innsiglaði vandræðalegan sigur á okkar mönnum á Anfield mætti þetta sama rauðklædda lið útá sama völlinn og hreinlega skúraði gólfið (grasið?) með Englandsmeisturum Chelsea. Bæði lið voru án jafn margra lykilmanna en þó vantaði alla miðverði Chelsea, en það eitt og sér skýrir ekki getumuninn á liðunum á laugardaginn.

Þannig að í kjölfarið hafa menn reynt að útskýra þetta. Er Liverpool virkilega svona gott lið? Er liðið best í heimi? Er Rafael Benítez hinn eini sanni “The Special One,” og José Mourinho bara aumingi? Svarið við þessu öllu er: róið ykkur og leyfið fótunum að snerta jörðina á ný. José Mourinho, sami maður og hefur rúllað Úrvalsdeildinni upp sl. tvö tímabil, varð ekki ömurlegur þjálfari um helgina. Hann er enn frábær þjálfari, en eins og allir aðrir þjálfarar er hann að upplifa lægð á sínum ferli sem stjóri Chelsea. Ekkert virðist ganga honum í hag og eins og hann hafi ekki um nóg að hugsa innan vallar er allt í uppnámi utan hans líka, og enska pressan er fljót að gera sér mat úr honum.

Síðastliðið sumar var það Sir Alex Ferguson sem var búinn að vera. Þá var það Arsene Wenger, sem gerði alltof mörg jafntefli í haust, og svo kom röðin að okkar manni sem var alveg ómögulegur. Nú skyndilega virðist José Mourinho vera til þess eins nytsamlegur að gera grín að. Hve fljótt hlutirnir breytast, og ef menn vilja missa allt samband við raunveruleikann er nóg að láta ginnast af fyrirsögnum athyglissjúkra blaðamanna í Englandi.

Dæmi: Benítez leggur ráðin á titilsigur (Guardian)

Já, ég veit og ég man. Ég veit að Rafa Benítez er þjálfari sem gefst aldrei upp, og ég man að tvisvar á þremur árum stýrði hann Valencia-liðinu á Spáni til ótrúlegs endaspretts í baráttunni um titilinn þar í landi. Ég veit, og ég man. Ég veit líka að hann var margsinnis afskrifaður með Liverpool í Evrópu vorið 2005, og ég man hversu vel hann tók sig út með hendur á “Big Ears” í Istanbúl.

En þetta er ný keppni, nýtt ár og ný tækifæri. Tækifæri til að skapa nýjan kafla í glæsta sögu klúbbsins, en um leið tækifæri til að klúðra öllu. Línan á milli er stundum hárfín, en hún er þarna.

Bjartsýnismaðurinn í mér segir að það sé vel hægt að ná Man U og Chelsea og sigra Úrvalsdeildina vorið 2007. Það er hægt, og annað eins hefur nú gerst. Og Rafa hefur algjörlega, óumdeilanlega rétt fyrir sér í því að á meðan það er stærðfræðilegur möguleiki á liðið hans alls ekki að gefa upp vonina.

En hvað með okkur hina? Eru menn farnir að hugsa um þetta sem titilbaráttu, eða erum við enn bara að setja stefnuna á Chelsea í öðru sætinu?

Arsenal eru stigi fyrir aftan okkur, Chelsea fimm á undan og United ellefu á undan. Málið er að leiðin til að halda Arsenal fyrir aftan okkur er sú sama og leiðin til að ná Chelsea og United. Til að eitthvað jákvætt gerist í þessum málum þarf liðið að halda áfram að vinna sigra. Og til að sigra í fjórtán leikjum af fjórtán þarf að taka hvern þeirra fyrir sig og meðhöndla viðkomandi leik sem algjöran úrslitaleik.

Rafa hefur oft rétt fyrir sér, en sjaldan hefur hann verið jafn spakur og þegar hann tönnslast á því að hann sé bara að hugsa um næsta leik. Við erum öll að horfa á blessaðan Englandsmeistaratitilinn, þann sem hefur verið í sautján ára útlegð frá Merseyside. Leikmennina dreymir hann, Rafa þráir hann og við hin lifum fyrir að sjá hann snúa aftur í hendur fyrirliða Liverpool. Og hver veit, kannski gerast kraftaverkin enn? Kannski er það árið í ár?

Líklegast ekki, samt. Það er einfaldlega ómögulegt um að segja á þessu stigi málsins. Það eina sem hægt er að gera er að taka fyrir einn leik í einu og vinna þann leik. Næsti úrslitaleikur Liverpool er eftir rúma viku gegn West Ham, á útivelli, og hann verður að vinnast.

Þið hin megið, ef þið viljið, láta ykkur dreyma um titilinn í vor. Það er ekkert óhollt við að láta sig dreyma, eins lengi og draumarnir hafa ekki óraunhæf áhrif á raunverulegar vonir og væntingar manna. Ég ætla að halda fótunum á jörðinni og minna sjálfan mig á að þetta sama lið og vann Chelsea um helgina tapaði tvisvar fyrir Arsenal fyrr í sama mánuði. Þetta tímabil getur vissulega brugðið til beggja vona, eins og leikir mánaðarins hafa sýnt okkur.

Einn leikur í einu. Ég hlakka til næsta leiks, og svo sjáum við til.

10 Comments

  1. Auðvitað er alltaf sjens. ManU á erfitt prógram eftir og Chelsea menn eru eins og skugginn af því liði sem hefur dominerað úrvalsdeildina síðustu 2 ár. En allar þessar s.k. titilvonir standa og falla með því að liðið vinni helst alla sína leiki og spurning hversu raunhæft er að ætla liðinu það. Kannski álíka raunhæft og að Ísland gæti ekki bara unnið heldur rúllað upp Frökkum á HM í handbolta 😯

    Ef liðið dettur í eitt almennilegt run núna og tekur 12 stig úr næstu 4 leikjum (WestHam, Everton,Newcastle,Sheff Utd) áður en við fáum Man Utd í heimsókn á Anfield og liðin 2 fyrir ofan okkur lenda í basli í einhverjum af sínum leikjum þá gæti það alveg orðið ansi hreint athyglisverður leikur og úrslit hans jafnvel haft töluvert að segja um hverjir verða meistarar.

    En allar þessar “titilvonir” standa og falla með því að liðið vinni helst alla sína leiki.

  2. Góður pistill Kristján – ég er sammála þér að við eigum að stilla væntingum til tímabilsins í hóf m.v. stöðuna í dag og einbeita okkur að einum leikí einu. Fyrsta markmiðið á að vera 3 sætið því annað er ekki í okkar höndum. Að ná Chelsea og lenda í öðru sæti yrði frábær árangur. Að ná manutd og vinna deildina yrði kraftaverk og rúmlega það.

    Ég hef verið að pæla í einu undanfarið (og haft af því talsverðar áhyggjur). Hvernig mun Rafa bregðast við því þegar Sissoko verður klár í slaginn. Xabi og Gerrard hafa spilað mjög vel undanfarið, liðið er ekki að fá á sig mikið af mörkum (fyrir utan 2 slys :smile:) og við erum beittari fram á við heldur en á fyrstu 3 mánuðum þessa tímabils, góðum marktækifærum hefur fjölgað. Með tilkomu Sissoko er hætt við að sóknarþunginn verði minni og spilið ekki eins gott og undanfarið því það flæðir að mestu í gegnum Gerrard og Xabi.

    Sissoko er algjör lykilmaður í sumum leikjum (eins og hann verður í fyrri leiknum gegn Barca ), en hans leikstíll hentar því miður ekki alltaf.

  3. Ég er alltaf bjartsýnn en einnig raunsær. Ef við náum góðu skriði núna og ma. vinnum West Ham sannfærandi í næsta leik á Upton Park væri góð byrjun.

    Tökum einn leik í einu! Það er allt hægt í íþróttum, íslenska landsliðið sýndi það svo um munaði í gær gegn Frakklandi!

    Það er mjög gott að fá Sissoko tilbaka en hann verður, að ég held, eingöngu back-up fyrir Gerrard og Alonso til að byrja með. Sérstaklega þegar vel gengur með 4-4-2 og Pennant að spila þokklalega vel. En það þarf einnig að hvíla Alonso og Gerrard annað slagið og þess vegna eru það mjög góðar fréttir þegar hann kemur tilbaka.

  4. Held langflestir aðdáendur með einhverju viti eru alveg raunsæjir varðandi stöðuna í dag. Hef allavega ekki séð marga sem eru farnir að fagna einhverjum titlum. Þessi leikur um helgina gaf alveg jafnmörg stig og hver annar sigurleikur, kannski sætari af því leitinu til að hann var gegn Chelsea.

    Það vita líka allir að Liverpool er gríðarlega sterkt á Anfield, þar sem ekkert minna en 3 stig er viðunandi. Veikleikarnir liggja eins og flestir vita í leik liðsins á útivelli og þar vantar mikið upp á Liverpool leiki með einhverjum meistarabrag.

    Ég geri mér alveg grein fyrir að Liverpool þarf kraftaverk til þess að vinna titilinn á þessu ári, en vona þó að liðið geti gert alvarlega atlögu að titlinum á næsta ári. Það gæti tekist með kaupum á öflugum leikmönnum á komandi sumri.

    Sammála þér að menn ættu að hætta að drulla yfir Ferguson, Benitez, Wenger og Mourinho. Þessir menn hafa allir unnið fyrir launum sínum og eru framúrskarandi knattspyrnustjórar með frábært record á bakvið sig. Efast um að nokkur maður hér á spjallborðinu hafi meira vit á knattspyrnu að þeir geti verið að tala niður til þessara manna. Vissulega er hægt að vera ósammála þeim þá má maður láta það í ljós með málefnalegum hætti.

  5. Ég veit ekki alveg hvernig á að skilja þetta með hálffulla og hálftóma glasið. Ég held að við sem erum óhressir með gengi liðsins í vetur séum ekki bölsýnismenn eða niðurrifsseggir. Við erum einfaldlega óánægðir með gengi liðsins þegar síðasti vetur gaf tilefni til mikilla væntinga fyrir þetta tímabil.

    Það er alveg á hreinu að liðið mun vinna 70-80% af öllum leikjum sínum. Liðið mun einnig vinna flest ef ekki öll liðin á heimavelli. Mér finnst mjög ósanngjarnt að við sem vorum óánægðir með að falla úr tveim keppnum á einni viku fyrir liði sem er neðar en við á stigatöflunni og það á heimavelli séum með glasið hálftómt. Ég sem leyfi mér að sveiflast tilfinningalega með gengi liðsins ætla bara að fá að vera óánægður í friði þegar við töpum og sæll og glaður þegar við vinnum.

    Gengi liðsins hingað til hefur verið vonbrigði. Við getum allir verið sammála um það. Ég hins vegar vona innilega að við sláum Barcelona út úr CL og gerum harða atlögu að enska titlinum.

    Við erum með frábært lið sem getur unnið allt á góðum degi. Vandamálið er að 2-3 önnur lið eru með sterkari mannskap en við. Líkurnar á að þau lið vinni eru því meiri en okkar.

    Af því að ég er maður með hálffult glasið ætla ég að leyfa mér að gera miklar væntingar til liðsins. Nú vinnum við nánast rest og vinnum enska titilinn. Síðan kjöldrögum við Barcelona á heimavelli eftir 1-0 tap á Spáni.

    Í lífinu er ég raunsær maður með báðar fætur á jörðinni en þegar kemur að Liverpool læt ég tilfinningarnar ráða för. Þannig verður það bara.

    Áfram Liverpool!

  6. :rolleyes:Eins og allavega sumir vita þá finnst mér að Benitez eigi eftir að sanna sig í enska boltanum. Súmmering Kristjáns er góð og ég er henni að flestu leyti sammála. Og auðvitað eru allir þessir menn góðir stjórar ekki nokkur vafi á því. En fótboltahefðir landa og svæða eru mismunandi og fótbolti landa getur því legið mismunandi vel fyrir þeim hverjum og einum. Eins er ekki útilokað að þessir menn geti lært inná mismunandi hefðir og stíla í knattspyrnu þeirra svæða sem þeir eru að stjórna á. Þess vegna er ekki útilokað að Benitez verði einn af þeim stóru á Englandi í framtíðinni. Og ef til vill var tapið gegn Arsenal merki um það að hann er farinn að spila of mikið eins og tjalli og útlendingahersveit Gunners því tekið hann og liðið úr takti. Hver veit. En vonandi verður 2. sætið okkar í lok leiktíðar og við farnir að krafsa í hæla ManU af því afli að það verði þeim áhyggjuefni. :tongue:

  7. á Liverpool.is spjallinu var ég að skoða þá leiki sem liðin eiga eftir og gerði mér glaðan dag og spáði fyrir um úrslit.

    hérna er linkur
    http://www.liverpool.is/forum/tm.asp?m=329329

    annars er þetta mín spá um lokastöðu

    1.Man. Utd 38 83 Stig
    2.Chelsea 38 82 Stig
    3.Liverpool 38 80 Stig þriðja á markatölu
    4.Arsenal 38 80 Stig

  8. Bara af því þetta eru pínku pollýönnuleg skrif í dag og allir eru enn glaðir með góðan sigur á Chelski um helgina þá er gaman að velta fyrir sér hvað það stutt á milli feigs og ófeigs í Ensku úrvalsdeildinni.

    Tökum eitt dæmi. Ef, (ok veit ef en samt, látum þetta eftir okkur!) við hefðum náð jafntefli við Chelski í september s.l. þegar við vorum síst slakara liðið og það var bara (stórglæsilegt) mark Drogba sem skildi liðin að og ef (ok aftur ef) hefðum unnið Blackburn, nóg fegnum við af færum í leiknum til að klára hann, þá værum við í 2. sæti með 50 stig en Chelski í því 3. með 49.

    Auðvitað veit ég manna mest að svona er hægt að halda endalaust áfram og allir geta fundið ámóta dæmi fyrir sín lið en mér finnst þetta sýna vel hvað þetta er hörð keppni þar sem ekkert má fara úrskeiðis.

    Og í lokin má í þessu samhengi minnast á bestu fyrirsögn allra tíma þegar þáverandi formaður Skíðasambands Íslands sagði eftir vetrarolympíuleikanna í Calgary, Kanada: ?Ef sex eða sjö bestu þjóðirnar hefðu ekki mætt þá hefðum við átt möguelika á verðlaunasæti?

  9. Ég er ekki búinn að gleyma hvernig Arsenal niðurlægði okkar menn …ekki bara einu sinni ..heldur tvisvar í röð. No way að ég gleymi því í bráð.

    Ég er algjörlega á jörðinni. Það er bara óraunhæft að vera með einhverjar titilvonir eins og staðan er í dag. Bara óraunhæft. Og ég tek heilshugar undir orð Kristjáns Atla að taka nú bara einn leik í einu.

    Það er eitthvað sem segir mér að við sækjum ekki svo auðveldlega gull í greipar West Ham næstu helgi. West Ham eru að berjast fyrir lífi sínu í Úrvalsdeildinni og koma til með að mæta eins og grenjandi ljón í hvern leik sem eftir er, ef einhver karakter er í þeim.

Warnock til Blackburn (STAÐFEST)

Ungur Hollendingur til Liverpool (Staðfest)