Mun Sheva spila á Anfield?

Sú var eitt sinn tíðin að Andryi Shevchenko var mest óttaði framherji heimsins. Og nei, ég er ekki að tala um síðustu öld heildur meira svona fyrir átta mánuðum síðan eða svo. Hjá AC Milan hafði risinn fundið sér kastala af sinni stærð og Sheva hafði í betri part áratugs verið einn helsti framherji heimsins. Ef okkur finnst erfitt að trúa því í dag er nóg að rifja upp vantrúna á andlitum allra Púllara (og allra hinna, sennilega) þegar hann skaut að marki undir lok framlengingarinnar í Istanbúl 2005 gegn Liverpool og Dudek varði.

sheva_mourinho.jpgSíðasta sumar skipti Shevchenko svo um lit og klæddist bláu treyju Chelsea. Slíkur hafði ferill hans verið að maður efaðist aldrei um að hann myndi gera neitt annað en raða mörkum fyrir Englandsmeistarana líka en það hefur heldur betur ekki orðið raunin. Í dag er staðan víst orðin svo slæm innan klúbbsins að þetta virðist vera orðin spurning um hvort Mourinho eða Shevchenko fari frá Chelsea. Og því miður fyrir Mourinho eru þeir Shevchenko og Roman Abramovich, eigandi félagsins, perluvinir.

Independent tala um það í dag að José Mourinho gæti neyðst til að velja Sheva í byrjunarlið sitt gegn Liverpool á laugardag hreinlega til að halda starfi sínu fram yfir helgina. Þótt sögur af krísu Chelsea-liðsins inná vellinum séu stórlega ýktar (það eru fleiri en Rafa sem þurfa að verjast hysteríu þessa dagana) er ljóst að það er eitthvað mikið að innan æðstu raða klúbbsins. Ágæta grein um ástandið má finna hér á SoccerNet.

Hvað gerist á laugardaginn? Þetta mál varðar okkar menn í Liverpool þó nokkuð, því vegna þessa innanbúðarástands hefur skapast óvissa bæði í kringum lið Mourinho á vellinum og framtíð hans hjá klúbbnum og það skilar sér í óstyrkari spilamennsku en menn eiga að venjast frá þessum ríkasta klúbbi veraldar. Hverjir eru möguleikarnir í stöðunni? Ef Mourinho gerist hugrakkur og hefur Sheva á bekknum og tapar svo, verður hann þá látinn hætta í næstu viku eins og Independent-greinin virðist ýja að? En ef hann hefur Sheva á bekknum og vinnur örugglega? Er framtíð Sheva þá ráðin?

Þetta er bara enn einn spennandi póllinn í annars margpóla hæð þegar þessi leikur er annars vegar. Bæði lið eru í þeirri stöðu að verða að vinna, hvorki Benítez né Mourinho geta sætt sig sérstaklega vel við jafntefli miðað við gagnrýni og pressu á störf sín undanfarið og staða liðanna í deildinni er slík að hætta er á að Arsenal og/eða Man U nái forskoti á annað hvort liðið ef illa fer.

Í haust eftir að við töpuðum 1-0 á Stamford Bridge (fjandinn hafi þig, Drogba!) var ég orðinn svo þreyttur á að sjá okkar menn keppa við Chelsea að ég vonaði helst að við þyrftum aldrei að mæta þeim aftur. En nú finn ég spenninginn byggjast upp á ný og mig hlakkar reglulega til laugardagsins, þvert á eigin væntingar. Auðvitað er stór séns á að við töpum þessum leik eins og reglulega gegn stóru liðunum, en kannski … kannski … er komið að okkur að brosa í deildarleik gegn Chelsea. Þetta verður allavega mjög fróðlegt, og hvort sem hann spilar eða ekki getið þið bókað að Andryi Shevchenko verður eitt aðalumræðuefnið eftir þennan leik!

Þrír dagar.

6 Comments

 1. Vel mælt.
  Bara svo að það sé alveg á hreinu, ef Shev spilar á móti okkur eru stórar líkur að hann brilleri !

 2. Já, tek undir með síðasta ræðumanni,,væri mjög í anda þessa tímabils og eftir allt sem hefur gengið á innan herbúða Chelsea undanfarna daga að þeir nái brilliant leik og Shev skorar eitt eða tvö mörk.

 3. Djöfull geta menn verið fokking neikvæðir og leiðinlegir, bring on the Blues og minnkum bilið. 😡

 4. Rólegir á neikvæðninni gagnvart “neikvæðninni”.

  Þetta verður spennandi og skemmtilegur leikur spái ég, það yrði þá í fyrsta skiptið í 8-9 viðureignum. Oft hefur verið spenna en sjaldnast skemmtilegur fótbolti. Nú vil ég sjá Liverpool taka í hnakkadrambið á Lundúnardúkkunum og vinna stórt, sannfærandi og skemmtilega. Einnig vil ég sjá hörku og “attitude”, vil sjá menn sparka í Lampard frekar en að vera með eitthvað hálfkák og hálfbrot. Vil sjá aðra leikmenn sýna sama attitude og sjálfstraust og Bellamy sýnir í hverjum leik. Já, hann kvartar undan öllu og rífur kjaft en það hefur bara vantað hjá okkur, við höfum verið alltof “nice”.

  Hlakka til að sjá þennann hjálm sem Cech ætlar að vera með. Koma svo, glaðir og rauðir allir saman!

  YNWA

 5. Rólegur á neikvæðninni gagnvart neikvæðni á neikvæðni. 🙂

  Við áttum að vinna það á Stamford Bridge og ég er sannfærður um að við klárum þá á Anfield. En ég er líka bjartsýnn að eðlisfari.

 6. Ég hef nú ekki verið mikið fyrir það að tala um Chelsea og Jose Mourinho en ég get ekki sagt annað en að ég styðji hann í þessu máli. Þjálfarinn á að ráða liðinu svo einfalt er það. Ef einhver leikmaður á að ganga fyrir bara út af því að hann er vinur eigandans þá er eitthvað mikið að.
  Það er náttúrulega bara vonandi að þeir reki hann því þá á leiðin bara eftir að liggja niður.
  LeBig

Liverpool búið að hafa samband við Fifa vegna Mascherano.

Ungverskur táningur