Watford 0 – Liverpool 3

bellamy_crouch_watford.jpgOkkar menn hristu í dag af sér slenið eftir erfiða viku og unnu auðveldan 3-0 sigur á Watford á útivelli í dag. Þessi sigur var allan tímann öruggur og óhætt að segja að okkar menn hafi sjaldan eða aldrei haft jafn lítið fyrir þremur stigum á útivelli. Fyrir vikið eru okkar menn komnir í 43 stig, aðeins fimm stigum á eftir Chelsea sem koma á Anfield um næstu helgi, en þeir eiga þó leik síðar í dag við Wigan.

Rafa Benítez gerði sex breytingar á liðinu í miðri viku gegn Arsenal og stillti upp mjög sterku og reyndu liði. Liðið spilaði lengst af í 3-4-3 leikkerfi sem manni fannst fyrir leikinn geta verið áhætta en annað kom á daginn. Rafa var gagnrýndur fyrir að hafa klúðrað uppstillingu sinni á þriðjudag gegn Arsenal en hann má líka fá hrós þegar vel tekst til og í dag var liðsuppstillingin hárrétt.

Liðið var sem hér segir:

Reina

Carragher – Hyypiä – Agger

Finnan – Gerrard – Alonso – Aurelio

Kuyt – Crouch – Bellamy

Bekkur: Dudek, Riise, Guthrie, Pennant, Fowler.

Leikurinn fór frekar hratt af stað og Watford-menn virtust ætla að reyna að ná marki snemma. Þeir spiluðu boltanum mjög hátt og reyndu að vinna skallabolta gegn vörn okkar manna sem stóðst áhlaupið og eftir því sem leið á byrjunina kom boltinn oftar niður á jörðina og þá fór gæðamunurinn að skína. Okkar mönnum gekk almennt séð illa að láta boltann ganga í fyrri hálfleiknum, þökk sé háloftatennis Watford-manna, en náðu þó að ógna marki heimamanna nokkrum sinnum.

Daniel Agger skoraði mark á tólftu mínútu sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu, á meðan Hameur Bouazza átti ágætt skot rétt framhjá mínútu síðar, en Reina hefði sennilega haft þann bolta ef hann hefði verið á rammann. Samt, þótt maður sæi augljósan gæðamun á liðunum var þetta leikur sem gæti hæglega farið illa ef svo færi að þeir næðu fyrsta markinu.

Á 34. mínútu kom svo fyrsta markið. Peter Crouch fékk boltann inní teig og lék í gegnum vörn Watford-manna og inná markteiginn hægra megin. Þar stökk Ben Foster markvörður Watford að boltanum og sló hann frá um leið og Crouch sparkaði til hans en Steve Finnan fékk frákastið og gaf hnitmiðaðan bolta beint inná markteig þar sem Craig Bellamy þurfti aðeins að stýra honum í netið. 1-0 fyrir okkar menn. Mark Clattenburg, góður dómari leiksins, hefði getað dæmt hættuspark á Peter Crouch fyrir að sparka að höfði Ben Foster í klafsinu á markteig en mat þetta greinilega sem sanngjarna baráttu um boltann og því fékk markið að standa. Kvörtum ekki yfir því. 🙂

Nú, vindurinn var allur úr Watford-mönnum við markið og okkar menn gengu á lagið og voru fljótlega komnir tveimur yfir. Á 40. mínútu vann Craig Bellamy skallabolta á miðjum vellinum og tók strikið innfyrir, á meðan Dirk Kuyt skallaði innfyrir á hann. Bellamy mætti boltanum vel og skaut föstu skoti að marki sem Foster varði stórvel í markinu en Peter Crouch náði frákastinu og skallaði boltann í tómt markið. 2-0 og það var staðan í hálfleik.

Það er oft sagt að þriðja markið í leik sé mikilvægt og okkar menn hefðu getað lent í óþarfa pressu við upphaf síðari hálfleiks. Þá fékk Bouazza gott skotfæri rétt utan teigs en Pepe Reina sá við honum og varði gott skot hans örugglega. Liverpool fóru í kjölfarið í sókn og eftir að Aurelio hafði sent Bellamy óvaldaðan upp í vinstra hornið gaf sá velski góða fyrirgjöf á Peter Crouch sem mætti fyrirgjöfinni og skaut viðstöðulausu skoti í vinstra hornið, óverjandi fyrir Foster og framherjinn risavaxni kominn með tvö mörk í dag og þrettán á leiktíðinni!

Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins. Watford-menn virtust sætta sig við tapið og okkar menn stjórnuðu leiknum í hægagangi. Þó skall hurð nærri hælum á 64. mínútu þegar Jordan Stewart átti frábært skot sem small í þverslánni, óverjandi fyrir Pepe Reina, en inn vildi boltinn ekki og okkar menn innbyrtu öruggan 3-0 sigur í þessum leik.

Á síðustu tuttugu mínútunum skipti Rafa svo öllum framherjunum útaf, fyrst Crouch fyrir Pennant, þá Kuyt fyrir Riise og loks Bellamy fyrir Fowler, þannig að þeir verða allir ferskir og til í slaginn eftir viku gegn Chelsea.

ASHLEY YOUNG: Mér finnst rétt að minnast aðeins á framherja Watford-liðsins, þar sem hann hefur verið orðaður við okkar menn í þessum glugga. Fyrir það fyrsta skal það tekið fram að það er erfitt að dæma hann of hart af þessum leik, þar sem Watford-liðið í heild sinni gat ekki rassgat í dag og ber með sér öll einkenni þess að vera á leiðinni beint niður um deild aftur í vor. Þetta er með skelfilegri liðum sem ég man eftir að hafa séð Liverpool spila gegn.

Að því sögðu, þá gat Young ekki neitt í þessum leik. Ég hef séð hann spila betur í vetur, sérstaklega gegn Man U í haust á Vicarage Road, og hann er vissulega ungur og hver veit hvað hann getur í betra liði, en ef við eigum að vera harðir getum við sagt að miðað við frammistöðu hans í dag er hann ekki nærri því 7m punda virði eins og enska pressan hefur verið að tala um sl. daga.

MAÐUR LEIKSINS: Lið okkar manna var í hlutlausum gír í dag, innbyrti þennan sigur án þess að nokkur maður ætti svo sem stórleik. Áður en ég útnefni mann leiksins vil ég minnast sérstaklega á markvörðinn okkar, Pepe Reina. Með fullri virðingu fyrir Jerzy Dudek, þá var það algjörlega ljóst í dag hver gæðamunurinn á honum og Reina er. Að horfa á Reina spila eftir að hafa horft á tvo leiki í röð með Dudek er sláandi. Reina er svo öruggur í öllu sem hann gerir og réði við þetta allt saman með talsverðu öryggi. Frábær markvörður sem hélt enn einu sinni hreinu í dag og ég vona að hann eigi eftir að spila hvern einasta leik sem liðið á eftir á þessu tímabili.

En maður leiksins var að sjálfsögðu Peter Crouch. Það var forvitnilegt að sjá alla þrjá aðalframherjana okkar byrja saman inná í dag og á meðan þeir léku allir vel og Bellamy skoraði eitt og átti tvær stoðsendingar var það Crouch sem stal senunni með góðri tvennu. Hann er okkar markahæsti maður í vetur og eftir mörkin tvö í dag er hann búinn að skora jafn mikið fyrir Liverpool og hann gerði allt síðasta tímabil. Ef hann heldur þessu áfram nær hann tuttugu mörkunum í vetur, en við höfum ekki átt framherja sem skorar tuttugu mörk síðan Michael Owen var uppá sitt besta í byrjun áratugarins.

Næst: Chelsea á laugardag eftir viku. Vonum að Wigan geri okkur greiða í dag, bara jafntefli í þeim leik myndi gera leikinn eftir viku töluvert forvitnilegri. 🙂

24 Comments

  1. Skemmtileg tölfræði í boði Eurosport

    Þurfið að ýta á hnappana sem eru staðsettir fyrir ofan Match Report á vinstri hönd.

  2. Ég vel Bellamy mann leiksins.

    Annars er þetta algjör snilldarmynd með þessari færslu.

  3. Við skulum aðeins róa okkur í “Slátrum Dudek” herförinni þar sem það er alveg rétt sem Dudek talar um eftir Arsenal-leikina. Það er erfitt að hoppa inn í aðalliðið og ætla að mynda eitthvað svakalegt varnarteymi með Gumma í sjoppunni á horninu, Stebba í vídeóleigunni, Kjartani götusópara og Sami Hyypia í gegnum tvo leiki. Dudek er bara þessi venjulega týpa sem þarf að spila oft til að ná upp sjálfstrausti rétt eins og Pepe Reina. Þeir eru ólíkir að því leytinu til að annar sópar fyrir vörnina en hinn fer ekki af línunni sem má sauma saman við persónuleika viðkomandi. Dudek er á leiðinni í burtu og ég mun vera honum þakklátur fyrir það sem hann hefur gert (væmni bla bla osfrv.).

  4. :tongue: Þrátt fyrir að þetta hafi verið skyldusigur þá léku leikmenn Liverpool þannig að full ástða er til að hæla þeim fyrir. Eftir fyrsta markið sem var dálítið erfitt í fæðingu þá var aðeins spurning um hve sigurinn yrði stór. Aldrei þessu vant var ég ánægður með uppstillinguna hjá Benitez og finnst reyndar að stilla upp til sóknar sé alltaf besta vörnin. Ég vil þakka leikskýrsluna og hefi svo sem engu við hana að bæta nema mér fannst bæði Kyut og Bellamy betri en Crouch. Vinnusemi þessara manna setur miklu meiri svip á leikinn en heppnismörk Crouch og mér finnst reyndar að Kyut hafi verið jafnabesti leikmaður liðsins fram að þessu. Bellamy með hraða sínum og vinnusemi er að verða sífellt betri og betri og þessir tveir menn eru að skapa vörnum andstæðinganna ótrúlega erfiðleika og vinnu. Sem þýðir að þeir eru þá um leið að búa til tækifæri bæði fyrir hvorn annan og aðra leikmenn. Þar kemst Crouch ekki í hálfkvisti við þá nema ef til vill ef hann fer að skalla fyrir fætur samherja í stað þess að setja þessa drullulinu skalla á markið :rolleyes:

  5. >Við skulum aðeins róa okkur í “Slátrum Dudek” herförinni þar sem það er alveg rétt sem Dudek talar um eftir Arsenal-leikina.

    Hér er engin “slátrum Dudek herför”. Kristján bendir einfaldlega á þá staðreynd að Pepe Reina er miklu, miklu betri markvörður en Jerzy Dudek. Mér fannst það vera augljóst af þessum leik.

    Annars var þetta rólegur og fínn sigur. Reina var sterkur og framherjarnir léku vel, sérstaklega Bellamy og Crouch. Svo finnst mér vera mikill munur á Aurelio í dag og þeim sem við sáum í upphafi tímabilsins.

    Koma svo Wigan!!!

    Hversu típískt væri það svo að bæði Cech og Terry væru orðnir heilir akkúrat í leiknum gegn Liverpool.

  6. Því miður þá hefur það legið í loftinu undanfarna daga að Cech og Terry væru að fara að ná leiknum gegn okkur. Þótt ég voni ekki. Það verður bara skemmtilegra að vinna þeirra sterkasta lið :biggrin2:

  7. Eg verd ad vera osammala med mann leiksins. Litid gekk upp hja Crouch i dag fyrir utan morkin en Craig Bellamy var hinsvegar siognandi. Bakverdirnir attu einnig godan dag.

  8. Já öruggur leikur alveg í gegn Watford liðið er einfaldlega ekki með klassan í ensku úrvalsdeildina flott úrslit eftir þessa slöppu viku:S! En já nýjasti leikmaðurinn orðaður við Liverpool enginn annar er Raúl SkySports hvernig líst mönnum á það :smile:?

    Áfram Liverpool! 😉

  9. Góður og sannfærandi sigur. Þetta var akkúrat það sem allir þurftu eftir slæm töp í vikunni gegn Arsenal. Byggjum á þessu og mætum tilbúnir í leikinn gegn Chelsea.

    Áhugaverð uppstilling hjá Rafa og gekk fullkomlega upp. Sérstaklega þótti mér gaman að sjá Aurelio í þessum leik, hann fer að sýna styrk núna.

  10. Hilmario, ég var búinn að skrifa færslu um þetta – en svo var Raúl strax búinn að draga þetta tilbaka og segist vilja vera á fram hjá Real Madrid og blah blah blah.

  11. Hilmario, ég var búinn að skrifa færslu um þetta – en svo var Raúl strax búinn að draga þetta tilbaka og segist vilja vera á fram hjá Real Madrid og blah blah blah.

  12. Fínn sigur.

    Ashley Young var nú ekkert spes, frekar en neinn leikmaður Watford. Hins vegar hlýtur hann nú að geta eitthvað fyrst að Boothroyd var að segja að eitthvað liðið hefði verið að bjóða 8 milljónir í hann. Kannski er hann bara “unsettled” núna eins og Bretarnir segja og spilar eftir því.

    Og Einar, Liverpool leikurinn verður víst fyrsti leikurinn hjá Cech. Minnir mann á það þegar Rio Ferdinand kom akkúrat til baka í leikinn gegn Liverpool eftir keppnisbannið fræga.

  13. Bellamy var frábær í þessum leik og átti þátt í öllum mörkum liðsins í dag. Annars var það liðsheildin sem skóp sigurinn, boltinn rúllaði vel og við gáfum Watford fáa sénsa. Koma svo, verðum að taka Chelsea næstu helgi, væri gaman að enda fyrir ofan þá í vor!:)

  14. Ég kommentaði þetta samt áður en að þú skrifaðir færsluna en það skiptir engu:P

  15. Já, HIlmario, ég skrifaði færsluna og vistaði en ætlaði svo að hætta við að birta hana. Ákvað að birta hana núna eftir kommentið þitt 🙂

  16. Góður sigur á slöku liði. Gott mál eftir dapra leiki við Arsenal. Svo væri nú gaman að taka Chelsea um næstu helgi.

    Svo langar mig að kommenta á tvennt, Raúl orðaður við Liverpool er vonandi bara bull enda höfum við ekkert að gera við hann, reyndar bara 30 en búin að vera útbrunninn í nokkur ár. Við eigum betri framherja fyrir en Raúl og höfum ekkert að gera við afganga frá Real Madrid.

    Svo varðandi Dudek þá tek ég undir með eikafr að við eigum nátúrulega fyrst og fremst að þakka honum góða þjónustu í gegnum árin og eitt stykki meistaradeildardollu sem hann á stóran þátt í að landaðist, þó er ég sammála að Reyna er hörkumarkmaður og betri en Dudek.

    Áfram Liverpool.

  17. jæja góður dagur… við unnum og alt það… en ég var nú samt vonsvikinn með eitt… hvað var málið að pakka í vörn á móti watford… ég átti bara ekki til orð… ok 3-4-3 í byrjun.. og allar skiptingarnar voru 3 framhverjar útaf… og 1 inná í staðin… og 1 kantmaður og einn varna/kantmaður… var ekki alveg farinn að skilja hvernig hann var að spila undir lokin..

    –reina—
    Finnan-carra-hyppia-agger-rise-arilio
    penant-alanso
    —-gerard
    Fowler

    rólegir að pakka í vörn…
    en flottur sigur.. 3-0 það er það sem telur…

    Til hamingju með 70 ára afmælið Amma 😉

  18. jæja góður dagur… við unnum og alt það… en ég var nú samt vonsvikinn með eitt… hvað var málið að pakka í vörn á móti watford… ég átti bara ekki til orð… ok 3-4-3 í byrjun.. og allar skiptingarnar voru 3 framhverjar útaf… og 1 inná í staðin… og 1 kantmaður og einn varna/kantmaður… var ekki alveg farinn að skilja hvernig hann var að spila undir lokin..

    –reina—
    Finnan-carra-hyppia-agger-rise-arilio
    penant-alanso
    —-gerard
    Fowler

    rólegir að pakka í vörn…
    en flottur sigur.. 3-0 það er það sem telur…

    Til hamingju með 70 ára afmælið Amma 😉

  19. úps.. mistókst að setja þetta upp..
    en kerfið 6-2-1-1 átti þetta að vera
    kanski 5-3-1-1 ef við færum rise á kantinn

  20. Mér finnst það móðgun við Bellamy að útnefna Crouch mann leiksins. Bellamy var langbestur þó svo liðið spilaði allt vel.

  21. Jónas og aðrir, það var engin stórkostleg pæling á bak við mann leiksins að þessu sinni. Það voru margir komnir að því og á tímabili ætlaði ég að veita Reina heiðurinn en fannst að það hefði gefið ranga mynd af leiknum að verðlauna markvörðinn.

    Ég hefði getað útnefnt Bellamy fyrir mark og tvær stoðsendingar, ég hefði getað útnefnt Finnan eða Aurelio sem áttu góðan dag á vængjunum, og ég hefði getað apað eftir .tv og útnefnt Alonso. Ég ákvað einfaldlega að útnefna Crouch því hann skoraði tvennu. Ekkert flóknara en það, en ég er alls ekkert að segja að hann hafi verið yfirburðamaður á vellinum.

Liðið gegn Watford

Raúl slúðrið snýr aftur