Arsenal á morgun

Best að æfa sig að skrifa þetta, “Arsenal á morgun”, “Arsenal á morgun”, “Arsenal á morgun”.

Það er oft ótrúlegt hvernig þessir bikardrættir geta þróast. Undanfarið höfum við oft dregist gegn Chelsea og menn hreinlega orðnir leiðir á að skrifa upphitanir fyrir slíka leiki. Nú þegar hafa verið gerðar tvær upphitanir á þessu tímabili fyrir leiki gegn Arsenal, og lágmark þrjár eftir (með þessari). En hvað um það, alltaf gaman að mæta góðum liðum og þetta lið flokkast svo sannarlega í þann hóp. Ætli stuðningsmenn þeirra verði samt ekki orðnir dauðleiðir á að ferðast alltaf til Liverpool á tímabilinu. Þeir fóru þangað til að spila við Everton í deildarbikarnum í nóvember, fóru fýluferð þangað til að horfa á leikinn gegn okkar mönnum í desember. Fara núna tvisvar á nokkrum dögum til að sjá Arsenal sækja okkur heim í FA bikarnum og deildarbikarnum og fara svo tvisvar til borgarinnar í mars til að sjá deildarleikina gegn Liverpool og Everton. Þetta eru sem sagt að lágmarki 6 skipti sem þeir ferðast til þessarar frægu fótboltaborgar.

Það kæmi mér svo bara ekkert á óvart þótt liðin myndu svo dragast saman í Meistaradeild Evrópu á einhverjum tímapunkti (til þess að það geti gerst, þurfa þó bæði lið að komast áfram að sjálfsögðu). En hvað um það, nóg af þessu og best að snúa sér að sjálfri upphituninni.

Arsenal í heimsókn á Anfield. Menn eru ennþá sárir í botninum eftir viðureign þessara liða á Emirates Stadium. Nú hafa menn tækifæri til að leiðrétta þau mistök og sýna af hverju það var Liverpool sem stóð uppi sem bikarmeistari á síðasta tímabili, sæti ofar en Arsenal í deildinni það tímabilið og sú staða að liðið er fyrir ofan félaga sína frá London í deildinni á þessu tímabili. Síðan við steinlágum gegn Arsenal hefur liðið fengið á sig heil 3 mörk í 12 leikjum. 2 af þeim komu í tilgangslausum leik gegn Galatasaray á útivelli í Meistaradeildinni. Eina markið í deildinni skoraði Blackburn á annan dag jóla. Það er því nokkuð ljóst að mikið hefur breyst hjá Liverpool síðan 12. nóvember. Vörnin hefur smollið saman og hefur sýnt að hún er ein sú albesta í Evrópu, Pepe Reina hefur öðlast sitt sjálfstraust að nýju og síðast en ekki síst þá hafa leikmennirnir fundið leið inn í mark andstæðinganna. Þetta hefur sem sagt skilað markatölunni 23-3 í þessum tólf leikjum.

Það er ekkert alltof traustvekjandi fyrir leikinn að sjá að Thierry Henry kom tilbaka um síðustu helgi með miklum krafti, úthvíldur og í topp standi. Maður vill þó ávallt sjá liðið sitt sigra mótherja sína örugglega og það með sína bestu menn heila. En þó Henry sé kominn aftur, þá er ennþá eitthvað um meiðsli hjá Arsenal. Maður hefur nú svo sem séð það hjá Wenger blessuðum að hinir og þessir séu meiddir og verði svo og svo lengi frá vegna meiðsla og svo birtast þeir allt í einu inni á vellinum. Aðdragandinn að endurkomu Henry var ekki langur, en samt kom hann inn í tipp topp formi. Allavega, þá eru þeir Baptista, Walcott, Djourou, Adebayor, Eboue, Ljungberg, Gallas og Diaby skráðir meiddir. Sá síðast nefndi verður pottþétt ekki með, en ég myndi nú ekki útiloka neinn af hinum. Auðvitað koma þeir ekki allir tilbaka, en ég er sannfærður um að einhverjir þeirra verði í liðinu eða á bekknum. Talað er um í dag að Eboue sé orðinn leikfær, en allir hinir tæpir. Hvað verður, kemur einfaldlega í ljós. Það er samt alveg ljóst að þeir Van Persie og Fabregas verða ekki með á morgun. Þeir eru báðir í leikbanni og því morgunljóst að Arsenal verður án þeirra.

Á góðum degi þá standast fá lið Arsenal snúning. Það sama er reyndar líka alveg hægt að segja um okkar menn. Mér finnst persónulega oft á tíðum ákaflega skemmtilegt að fylgjast með þessu Arsenal liði, en stundum finnst mér þeir gera hlutina allt of flókna. Oft á tíðum hefur maður á tilfinningunni að þeir ætli að spila tuðrunni inn í markið með 8.567 sendingum. Þeir eru hreint út sagt óútreiknanlegir. Þeir hafa verið að tapa fáránlegum leikjum og vinna síðan sannfærandi þess á milli. Það er annað hvort í ökkla eða eyra hjá þeim.

Varðandi okkar menn þá er lítið nýtt að frétta á þeim bænum. Enn eru það bara Kewell, Momo og Bolo sem eru fjarverandi vegna meiðsla. Bellamy er klár í slaginn á ný, eftir að hafa verið hvíldur gegn Bolton og gefur það Rafa ákveðinn hausverk, þar sem Crouch var að koma sér í góð færi í síðasta leik og skoraði glæsilegt mark, ásamt því að Kuyt átti stórleik og skoraði líka. En eins og oft hefur verið sagt, þá er þetta ákaflega “góður” hausverkur.

Eitt fer ég þó fram á fyrir leikinn á morgun. Riise, láttu ekki fífla þig svona gjörsamlega upp úr skónum eins og í síðasta leik þessara liða. Hleb þurfti varla að gera neitt sérstakt til að láta Norðmanninn líta út eins og algjöran aula. Þannig kom einmitt fyrsta markið í þeim leik. Vörnin hefur þó tekið sér taki síðan og vonandi að það haldi áfram í næstu leikjum. Ég hef einmitt talsvert verið að velta því fyrir mér hvað nákvæmlega hafi breyst er varðar varnarleikinn undanfarið og hver sé í rauninni breytingin. Það eru reyndar nokkrar ástæður sem koma til. Reina er kominn á ný með sjálfstraustið í botn og skiptir það miklu máli. Önnur ástæða er sú að vegna meiðsla í upphafi tímabilsins, þá þurfti Rafa að rótera vörninni oftar en hann vildi. Agger, Riise, Finnan og Carra misstu allir úr leiki vegna meiðsla í byrjun. Ákveðin ástæða, en ekki sú stærsta. Það sem mér finnst vera stærsta ástæðan er endurkoma Xabi Alonso. Það hefur verið hrein unun að sjá varnarvinnuna hans undanfarið. Hann er að loka svæðum frábærlega, hann er að tímasetja tæklingar vel og er að halda boltanum hjá sér. Hann er reyndar ekki jafn afgerandi þegar kemur að löngum hárnákvæmum sendingum, en hann hefur þess í stað byrjað að skýla vörninni betur og er meira í stutta spilinu. Þetta tel ég vera eina ástæðuna fyrir þessari bætingu á varnarleik liðsins. En auðvitað spila allir þessir þættir stóra rullu í þessu og einnig margir aðrir.

En hvernig verður liðinu stillt upp? Stóra spurningin er reyndar hvernig Rafa stillir upp kantmönnum og framherjum. Hann hefur ekki verið að rótera öðru mikið, nema kannski þeim Agger og Hyypia. Ég ætla að giska á að Agger verði í vörninni við hlið Carra, bara vegna þess að hann hefur mun meiri hraða en Sami og mun ekki veita af því í þessum leik. Ég ætla líka að giska á að Pennant fái tækifæri til að halda áfram á beinu brautinni og þar með að mæta sínum gömlu félögum. Þá kemur að vinstri kantinum og er ég eiginlega alveg á gati þar. Þrennt kemur til greina og allir kostir eitthvað sem Rafa gæti kýlt á. Hann gæti spilað svipað og í síðasta leik og stillt Aurelio upp þar. Finnst það samt ólíklegast, vegna þess að hann á eftir að breyta liðinu eitthvað. Þá er það spurningin um þá Gonzalez og Garcia. Garcia er maður stórleikjanna og bikarleikja og því ætla ég að giska á að hann byrji á vinstri kantinum. Hvað framherjana varðar þá vona ég svo innilega að þeir Kuyt og Bellamy fái að halda áfram að þróa sitt samstarf. Þrátt fyrir frábært mark hjá Crouch í síðasta leik, og það að hafa komið sér í góð færi, þá einfaldlega vil ég sjá hina tvo byrja frammi. Simple as that. Svona ætla ég því að tippa á liðið:

Reina

Finnan – Carra – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Xabi – Garcia

Kuyt – Bellamy

Bekkurinn ætti því að vera á þessa leið: Dudek, Hyypia, Aurelio, Gonzalez og Crouch.

Ég vil sjá liðið byrja leikinn eins og það gerði gegn Bolton um síðustu helgi. Frá fyrstu mínútu þá settu menn í gír og gáfu andstæðingunum engan frið. Síðari hálfleikur í þeim leik var frábær og það gegn sterku liði. Nú vil ég sjá svipað uppi á teningnum, sendum út skilaboð um að liðið sé komið á beinu brautina og stefnan sett á að vinna bikara í ár og að FA bikarinn sé heima hjá sér í dag og sé ekki á leiðinni neitt annað. Ekkert flókið eða hvað? 2-0 er það sem ég spái og það verða Kuyt og Pennant sem skora mörkin (spáið í því hvað það væri ljúft fyrir Pennant að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool gegn sínum gömlu félögum í Arsenal)

6 Comments

 1. Þetta verður rosalegur leikur, 1-0 fyrir okkur og Aggerinn setur hann stöngin inn á 84. mínútu eftir að Arsenalmenn voru að gera sig líklega til að stela sigrinum eftir einstefnu Liverpool manna…

 2. Þetta verður erfiður leikur líkt og allir leikir gegn Arsenal. Við spilum við Arsenal á morgun og síðan aftur 9. janúar í deildarbikarnum. Ég leyfi mér efast um að við vinnum þá tvisvar í röð og vonast því frekar eftir sigri á morgun en í deildarbikarnum.

  Sammála SStein með byrjunarliðið en ég tel alveg eins líklegt að Aurelio starti í vinstri bakverðinum (kannski óskhyggja…)

 3. Sammála með að Agger komi inn fyrir Hyypia. Það var fullkomlega eðlilegt að Hyypia kæmi inn gegn set-piece liðinu Bolton og einnig frábært að fá Agger inn gegn Arsenal. Hyypia og Carra léku í fyrri leiknum og voru hræðilegir. Held að Agger passi miklu betur gegn Arsenal sókninni.

  Svo varðandi Riise, þá hefur hann að vera að bæta sig í síðustu 2-3 leikjunum, en hann var gjörsamlega hræðilegur í tímabili í nóvember og desember. Vonandi að það tímabil sé búið.

  Við vinnum þennan leik á miðjunni. Víst að Fabregas er ekki með, þá er Arsenal (að mínu mati) ekki með neinn miðjumann, sem kæmist í lið hjá Liverpool. Og já, ég er að telja Gilberto í sínu góða formi með.

 4. þetta verður hörku leikur og er ég farin að hlakkka mikið til að sjá þennan leik, Vona að Henry verði ekki í svaka stuði eins og um árið þegar hann lét carra lýta út eins og skólastelpu. En annarrs frábær upphitun hjá þér og vonandi mun liverpool vinna 2-0 og við munum halda þessari vörn áfram sem næst Heimsklassa.

 5. Þessi leikur leggst einfaldlega mjög vel í mig, verð að viðurkenna það. Ég held að við verðum of sterkir á Anfield fyrir þetta Arsenal-lið, sérstaklega þar sem þeir eru án Van Persie og Fabregas.

  Vonandi reynist hugboð mitt rétt, en við vinnum auðveldan sigur á morgun. Það held ég. 🙂

 6. Ég vil skora á Friðgeir Ragnar vin minn til að spá fyrir um úrslit leiksins…. Feikilega sannspár.

Mascherano til Liverpool eða ekki?

Sagan endalausa….