Janúarglugginn 2007

Í dag er annar janúar, og ég þykist vita að ég er ekki sá eini sem kíkir ögn oftar á netsíðurnar næstu vikurnar í leit að fréttum af liðinu mínu, Liverpool, og hugsanlegum leikmannakaupum og sölum. Eins og venjulega er stórra tíðinda að vænta í janúar árið 2007, en boltaspekingar í Englandi hafa verið að spá því að þessi janúargluggi gæti orðið með þeim stærstu síðan sá fyrsti slíki opnaði fyrir hálfum áratug síðan.

Samt er eitthvað ekki eins og það á að vera. Ég er búinn að skima reglulega yfir vefsíðurnar í gær og í dag … og það er lítið sem ekkert að frétta. Einu fréttirnar sem ég hef séð nefndar eru sem hér segir:

* Búist er við að Liverpool kaupi Lucas Neill nú í janúar, en einhverra hluta vegna er lítið um fréttir af þeim málum. Það er þó eflaust eitthvað í gangi á bak við tjöldin.

* Dauft slúður heyrist þessa dagana um að Liverpool ætli að bjóða David Beckham samning í janúar, en ég stórefa það. Slík kaup yrðu svo flókin og mögulega óhagstæð fyrir bæði Liverpool og Beckham að ég efa að nokkur hafi áhuga á því. Þannig að þetta er 99% slúður.

* Sunderland eru víst að reyna að kaupa Stephen Warnock. Hvort það tekst veit ég ekki, og hvort hann er reiðubúinn að droppa niður um deild veit ég ekki, en ég útiloka ekkert því með tilkomu Fabio Aurelio hljóta möguleikar Warnock að vera færri en ella.

Meira hef ég ekki séð sem vit er í. Jú, fyrir svona tíu dögum fór slúður um fyrirhugaða sölu á Peter Crouch í janúar til að fjármagna kaup á David Villa af stað, en sú saga var svo vitlaus frá A til Ö að ég pældi varla í henni. Af hverju ættu Liverpool að selja sinn markahæsta mann í vetur í janúar? Og það til að kaupa mann sem væri ekki gjaldgengur í Meistaradeildina í vor? Og af hverju í ósköpunum ættu Valencia að selja sinn markahæsta mann í janúar? Og sitja uppi ráðalausir í baráttunni heima fyrir og í Meistaradeildinni? Af hverju ætti Crouch að samþykkja að fara til Newcastle á miðju tímabili? Þessi saga var bara svo vitlaus að ég pældi ekkert frekar í henni, og nú virðist hún vera dauð í vatninu … í bili.

Málið er bara það að Liverpool er nokkuð vel statt í ár, hvað leikmenn varðar. Ólíkt fyrri árum janúargluggans er ekki þörf á að breyta neinu stórkostlegu í ár. Við erum ekki með neina menn sem eru svo lélegir að við hreinlega verðum að losna við þá, og við erum ekki með neinar stórar holur í leikmannahóp okkar sem er nauðsyn að fylla. Rafa er með breidd í hverri stöðu, nema kannski hægri bakverðinum en ég geri ráð fyrir að Neill mæti á svæðið á næstu vikum og auki samkeppnina þar.

Eigum við þá nokkuð að vera að stressa okkur á þessum glugga? Það er lítið um slúður, hvað þá staðfestar fréttir, og það kæmi mér ekki á óvart ef kaupin á Neill yrðu einu viðskiptin sem Liverpool stundaði næsta mánuðinn. Þ.e.a.s., að því gefnu að hann komi, og ekki einu sinni það er 100% öruggt eins og er.

Hafið í huga að ég er ekki að segja að hópur Liverpool sé fullkominn og hvergi hægt að bæta hann. Við getum eignast betri framherja en Crouch, svo að dæmi sé tekið, en það er erfitt að fá mann í janúar sem getur bætt liðið. Allir bestu framherjar Evrópu eru enn á fullu í Evrópu- og heimadeildum sinna liða þannig að það er sjaldgæft að slíkir menn séu til taks í janúar.

Þá verð ég að viðurkenna að þótt enginn þeirra hafi skorað neitt mikið af mörkum í vetur, þá hefur þríeykið Crouch, Kuyt og Bellamy heillað mig nóg til að ég vilji halda þeim öllum. Ég hef viðrað þessa skoðun mína áður, en Robbie Fowler er framherji sem er að öllum líkindum á sínu síðasta tímabili með Liverpool. Ég vona að hann fái stöðu sem þjálfari eða eitthvað slíkt við lok ferils síns, því hann á heima hjá klúbbnum, en ef liðið vill bæta framherjahóp sinn næsta sumar á það að gera svo með því að kaupa toppklassaframherja – eins og David Villa – í stað Robbie Fowler, ekki í stað Peter Crouch eða Craig Bellamy.

Það sem þessir þrír sem spila mest fyrir okkur í vetur bjóða upp á er gríðarlega mikið, svo einfalt er það. Bellamy býr yfir ógurlegum hraða og mikilli grimmd, Crouch heldur bolta langbest af þeim og spilar miðjuna mjög vel inn í sóknarleikinn og Kuyt berst eins og ljón út um allan völl. Allir hafa þeir skorað sæmilega vel miðað við fjölda leikja í vetur – Crouch 10, Kuyt 7, Bellamy 6, samanlagt 26 mörk með þremur frá Fowler – en það er fyrst og fremst í eiginleikum þeirra sem spilarar fyrir liðið sem við græðum. Kuyt virðist til dæmis vera þeim kostum gæddur að hann fær aðra í kringum sig til að spila betur, auk þess að spila vel sjálfur, og því höfum við séð bæði Crouch og Bellamy blómstra við hlið hans. Bellamy vinnur hraðavinnuna sem við höfum ekki séð hjá Liverpool síðan Owen var hjá okkur (Cissé var fljótari en bæði Owen og Bellamy en skorti leikskilninginn til að ógna jafnmikið og þeir gera) á meðan við höfum í Crouch mann sem heldur bolta vel þegar liðið er undir pressu.

Með þessa þrjá leikmenn sem skora reglulega, vinna allir vel fyrir liðið og bjóða upp á mismunandi en jafngóða kosti fyrir Rafa til að velja úr, sé ég enga ástæðu til að selja neinn þeirra. Tímabil hjá toppliði eins og Liverpool er jafnan um 55-70 leikir og það er ekki hægt að velja einhverja tvo súperframherja og láta þá spila alla þessa leiki. Það þarf að rótera og til að gera slíkt þarf helst að hafa fjóra gæðaframherja sem geta skipst á yfir heilt tímabil.

Gott dæmi um þetta er hvernig Crouch hefur verið notaður. Hann var mikið í liðinu framan af leiktíð en hefur dottið út sl. tvo mánuði. Það stafar bæði af því að Bellamy og Kuyt hafa náð vel saman og líka af því að Rafa er að horfa til alls tímabilsins, ekki bara desembermánaðar. Crouch er ferskur í dag, annan janúar, og gæti komið sterkur inn á vormánuðum, á meðan annar hinna gæti fengið ögn meiri hvíld og svo komið aftur ferskur inn. Þetta er ekki spurning um að Rafa meti Kuyt og Bellamy meira en Crouch heldur bara það að hann róterar þeim, hvílir þá til skiptis svo að hann sé ætíð með ferska framherja til að velja úr.

Ég veit ekki með ykkur en ég er sáttur við Kuyt, Crouch, Bellamy og Fowler í vetur, og að því gefnu að Lucas Neill komi inn og fullkomni breiddina í vörn liðsins þá verð ég himinlifandi með hópinn okkar út þetta tímabil. Svo er spurning hvað gerist næsta sumar, þegar meiri peningar til leikmannakaupa verða á lausu og Rafa getur eytt þeim í 2-3 stór nöfn frekar en að þurfa að bæta upp í mörg smærri göt á hópnum. Ef við fáum t.d. Lucas Neill núna í janúar og svo Daniel Alvés, David Villa og Simao Sabrosa næsta sumar (svo að dæmi sé tekið, ég er að skjóta út í loftið hérna) yrðum við með í höndunum stórkostlegan hóp.

Þetta verður rólegur janúarmánuður hjá okkar mönnum, býst ég við. Vonandi verður hann lognið á undan storminum, bæði hvað varðar baráttu um titla á vormánuðunum og komu örfárra heimsklassaleikmanna sumarið 2007. Framtíðin er björt og það sannast í því hversu lítið er að frétta. 🙂

26 Comments

 1. nokkuð sammála þér… það vantar í raun ekki leikmann í neina stöðu, nema til að dekka hægri bakvörðinn…

  en það er alltaf spurning um leikmenn sem koma úr fjarlægari deildum… þeir þurfa oft lengri tíma til að aðlagast Englandi og því verið talið betra að fá þá í janúar, svo þeir verði tilbúnir fyrir næsta tímabil…
  er enginn slíkur í sjónmáli???

 2. Ég verð að segja að ég er fullkomlega sammála þessum pistli.

  Þegar við förum að fá meira út úr kantspilinu hvort sem það eru leikmennirnir sem eru núna hjá Liverpool eða ekki, þá ættu Sissoko, Xabi og Gerrard að geta skipt miðjustöðunni á milli sín næsta tímabil. Gerrard hefur spilað á kantinum einfaldlega af því að það hefur ekkert annað verið í stöðunni fyrir Benítez.

 3. Mér finnst helst vanta sterkari vinstri bakvörð í byrjunarliðið – finnst Riise ekki verið sterkur í vetur og hef efasemdir með Aurelio.
  Hins vegar finnst mér Finnan eiga hægri bakvörðinn og komið mjög sterkur í síðustu leiki. Þó mætti eiga annan í stöðuna svo það verði einhver samkeppni við Finnan.
  En vona að Riise og Aurelio fari að sanna sig og að við þurfum engann í janúar.

 4. Sælir félagar og gleðilegt nýár.
  Ég vil taka undir það að það vantar eitthvað betra á vinstri hjá okkur. Riise ætti ekki að vera fyrsti kostur í bakvörðinn, til þess er hann ekki nógu góður og aðrir sem þar hafa komið að hafa ekki náð að skila sínu ennþá. Þó finnst mér augljós batamerki á Gonzales en Aurelio er bara slakur enn sem komið er. Því eru þetta góðar fréttir sem Einar er með hér fyrir ofan. Annars er svo sem ekkert að gera nema skrifa undir þennan góða pistil Kristjans. 🙂

 5. Ég er bara 100% sammála þér Kristján. Fá Neill núna og geyma “stóru kaupin” þar til næsta sumar.

 6. Jamm, ég er að mestu leyti sammála. Það sem maður vill helst sjá er að liðið haldi sér í 3. sætinu og geri atlögu að Meistaradeildinni. Ef við komumst í gegnum Barca, þá er allt hægt.

  Sé einfaldlega ekki hvaða leikmaður ætti að geta hjálpað okkur í Meistaradeildinni. Augljóst að menn einsog Villa eru gagnslausir sökum þess að þeir eru ólöglegir. Það er einna helst Neill sem gæti verið góður kostur.

  Hvernig er það annars, léku Blackburn ekki í UEFA? Væri hann þá löglegur?

 7. Jú, jú, mikið rétt. Lucas Neill lék fimm leiki í UEFA keppninni og er þar með kolólöglegur í meistaradeildinni.

  Annað nafn sem hefur verið linkað við okkur er Javier Mascherano. En það virkar meira eins og einhver umboðsmaður að reyna að vekja athygli einhverra stórliða og Mascherano hefur nú einhverja allra skítugustu umboðsmennina í bransanum. En ég hefði nú haldið að það væri allt í lagi að horfa á einhverja skammtímalausn inn á miðja miðjuna. Gerrard og Alonso eru búnir að spila ansi marga leiki þar og væri ekkert verra að fá einhvern sem gæti hvílt þá í einhverja leiki.

 8. Neill er ólöglegur í Evrópukeppnum út tímabilið ef hann kemur, en koma hans myndi samt hjálpa okkur í Meistaradeildinni því hann er vel skólaður í ensku deildar- og bikarkeppnunum og því væri auðveldara að hvíla Steve Finnan fyrir stóru leikina í Evrópu. Það er mest þörf á að fá inn mann í þá stöðu svo Finnan geti fengið hvíld, en hann hefur leikið mest allra á tímabilinu, á meðan við höfum menn í öllum öðrum stöðum til að rótera.

  Svo ætla ég að leyfa mér einn Rafaisma og segja að það að fá Momo Sissoko og Harry Kewell inn aftur í febrúar verður bara alveg eins og að kaupa tvo nýja leikmenn. :laugh:

 9. Vel mælt Kristján Atli. Ég tel vel líklegt að við kaupum einhverja unga tittlinga í janúar líkt og þennan vinstri bakvörð Emiliano Insúa. Lucas Neill myndi styrkja hópinn og einnig kæmi á hagstæðu verði þar sem samningurinn hans rennur úr í vor. Ég myndi einnig vilja sjá reynslubolta á miðjuna þar sem okkur klárlega vantar “back up” fyrir Alonso, Gerrard og Sissoko. Zenden er oft meiddur sem og alls ekki nógu góður í stóru leikina. Hvað með td. Barry Ferguson, ólíklegt að hann spili aftur undir stjórn Le Guen hjá Rangers. Við hljótum að geta keypt hann ódýrt og hann er klárlega leikmaður sem getur hjálpað okkur í deildinni.

  Síðan væri gaman að sjá stór nöfn koma inn í sumar, leikmenn sem færa liðið uppá næsta “level”.

 10. Steve Finnan þreytist ekki. Sjáið hann bara, hann spilar alla leiki og alltaf jafn vel. Það sést ekki á honum, hann blæs ekki úr nös. Hann verst vel og kemur svo boltanum fyrir markið hinu megin. Og núna þegar Pennant er ná sér á strik er sá kantur ekkert vandamál þó síður sé. Ef Neill bætist svo við erum við í góðum málum. Held líka hann búi yfir karekter sem ætti að hjálpa Pennant að halda sér við efnið.

 11. Ég held samt að Finnan veiti ekkert af samkeppni. Mér fannst hann til dæmis vera hálf slappur til að byrja með hjá Liverpool, en hann fór virkilega að blómstra þegar að Josemi kom og menn töldu að hann gæti ógnað sæti hans í liðinu.

 12. Blackburn eru ennþá með í UEFA þannig að Neill yrði ekki löglegur í CL 🙁 Neill hefur leikið 5 leiki þar

 13. Einar Örn, var Finnan ekki bara slappur til að byrja með því hann var mest megnis að spila á hægri kantinum? Mér fannst hann alltaf góður þegar hann fékk að spila í sinni stöðu í bakverðinum.

 14. Ég vill ekki sjá Barry Ferguson, mann sem skeit illa á sig hjá Blackburn 😯

 15. Sammála þér Kristján.

  Janúar glugginn er ekki neitt sem hægt er að stóla á til að tryggja eitt né neitt. Eina sem ég sé í þessu er að okkur vantar cover fyrir hægri bakvörð, af því það tókst ekki í haust, og í rauninni ekkert annað en það. Með því að versla “góðvin” minn hann Neill, þá erum við að fá mann með mikla reynslu úr deildinni, sem þarf litla aðlögun og gæti fallið beint inn í hópinn.

  Lets face it, stórstjörnukaup á þessum tímapunkti eru afar hæpin. Lið vilja ekki vera að veikja sig á þessum tímapunkti, þar sem tíminn sem hægt er að nota til að fylla skörðin, er skammur og önnur lið ekki tilbúin til að láta mennina. Eins hafa menn sem eru keyptir á þessum tímapunkti oftar en ekki átt í erfiðleikum með að koma inn í liðin og ekki gert það af neinu viti fyrr en á tímabilinu á eftir (í fyrsta lagi). Sjáum bara nokkur dæmi: Reyes, Morientes (kom reyndar aldrei til), Pellegrino (sama og með Nando), Vidic, Evra, Agger, Kromkamp og Parker svo einhverjir séu nefndir.

  Auðvitað kaupa menn ef réttir leikmenn verða til sölu, en líkurnar á því eru afar litlar. Þetta eru helst leikmenn sem eru að renna út á samningum, eða hjá liðum sem ekki spila í þessum stærstu deildum eða hreinlega þegar um er að ræða algjörar yfirborganir í kaupverðum.

  Við munum í mesta lagi kaupa Neill og svo kannski einhverja kjúklinga sem spottaðir hafa verið.

  Það væri engu að síður óskandi að maður hefði rangt fyrir sér og einhver sem væri efstur á óskalista Rafa væri á lausu og til í að koma og fengi tíma til næsta tímabils að koma sér í gírinn.

 16. Gleymdi að minnast á Warnock og Beckham.

  Væri ekkert hissa þótt Warnock hyrfi á braut. Lets face it, hann er ekki efnilegur lengur, hann er kominn á þannig aldur að hann telst ekki lengur til slíkra. Væri reyndar alveg til í að halda honum áfram, leggur sig fram þegar hann fær tækifæri og er ekki nema þriðji í röðinni þegar kemur að vinstri bakvörðum. Held að hann sætti sig samt varla við það.

  Beckham! No go. Vil ekki sjá hann á Anfield, simple as that. Menn tala um aukaspyrnur og hornspyrnur hjá honum. Sá enginn HM? Ekki ein hornspyrna sem var í lagi og hvað þá aukaspyrnur. Held að hann sé afar mikið downhill núna og miðað við laun sem svona kappi tekur, þá vil ég ekki sjá hann. Ekki misskilja mig þó með það að hann er ennþá ágætis leikmaður, en ekki sá sami og áður og við vitum líka um upprunann sem hjálpar honum ekki blessuðum. Bolton væri líklega góður áningarstaður fyrir hann :biggrin:

 17. Þakka þér, það var afar notalegt að slíta sig út úr sveitamennskunni í henni Reykjavík og fara í alvöru stórborgarfíling á Hornafirði :biggrin:

  Friðurinn er sem sagt úti, það er langt í Páskafrí

 18. Æ já, ég var búinn að gleyma að þú býrð einhvers staðar útí rassgatai í RVK, fjarri siðmenningu Vesturbæjarins. 🙂

 19. Eins og Kristján kemur inná þá er fátt sem bendir til annars en að Liverpool versli bara hægri bakvörð í janúar. Lukas Neill væri mjög góður kostur enda mikill karakter og sterkur varnarmaður.

  Annars væri ég alveg til í óvænta frétt um kaup á Simoa núna í janúar, því ég er mjög hræddur um að C$$$$$$$$ muni bjóða í hann næsta sumar.

  Krizzi

 20. 🙂 Alltaf gaman þegar menn lenda út í svona útlistanir á hugtökum og orðum, sönnum og svo skelfilega ótrúverðugum :tongue:

  Það er gott að vera dreifbýlistútta :biggrin:

L’pool 3 – Bolton 0

Staðan í ensku