L’pool 2 – Watford 0


Jæja, okkar menn hófu jólavertíðina með góðum 2-0 sigri á Watford á Anfield í dag, Þorláksmessu. Þetta var kannski erfiðari fæðing en margir áttu von á en að lokum vannst nokkuð öruggur sigur og má segja að liðið hafi forðast það sem hefði hæglega getað orðið óvænt tvö stig töpuð á Anfield. Það er því ástæða fyrir okkur Púllarana að brosa er við höldum inn í jólasteikurnar og dekrið en fyrst skulum við aðeins líta á gang leiksins.

Rafa hóf leik með sama kjarna og hefur verið að undanförnu, en þeir Hyypiä og Gonzalez viku frá því í leiknum við Charlton og í þeirra stað komu Agger og Luis García inní liðið sem var svo skipað:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Alonso – Luis García

Bellamy – Kuyt

BEKKUR: Dudek, Hyypiä, Aurelio, Gonzalez, Crouch.

Leikurinn fór fjöruglega af stað og framan af virtust nýliðarnir hafa í fullu tré við okkar menn. Það verður að hrósa Watford-mönnum fyrir það sem þeir eiga skilið, en þeir mættu ekki á Anfield til að hanga í vörn eins og mörg önnur lið heldur pressuðu okkar menn stíft og hátt uppi á vellinum. Þetta virtist pirra okkar menn sem náðu eiginlega aldrei að detta í gírinn í fyrri hálfleik, en eftir óþægindi fyrsta kortérsins eða svo náðu þeir þó aðeins tökum á boltanum á miðjunni. Þó náðu menn varla að skapa sér nema örfá hálffæri í fyrri hálfleik og góður markvörður Watford, Ben Foster, réði auðveldlega við allt sem að honum kom. Watford-menn á móti fengu besta færi fyrri hálfleiksins en hinn ungi Bangura skaut yfir af markteig fyrir opnu marki.

Leikurinn var hins vegar varla hafinn í síðari hálfleik þegar okkar menn voru komnir yfir. Kuyt vann baráttu um boltann á miðjunni af harðfylgi og skilaði sendingu til Gerrard sem keyrði að vörninni. Einmitt þegar Watford-menn (og ég) voru vissir um að hann myndi skjóta á markið laumaði hann boltanum óvænt inná Bellamy sem var óvaldaður og lagði boltann í hornið. Foster kom engum vörnum við og staðan orðin 1-0 fyrir Liverpool.

Í kjölfarið á þessu marki slökuðu okkar menn á köflum heldur mikið á. Þeir voru nokkrum sinnum nálægt því að bæta við, sérstaklega á 75. mínútu þegar varamaðurinn Gonzalez setti Bellamy í gegn en hann lét Foster verja frá sér og Gonzalez skallaði svo framhjá úr frákastinu, og svo á 84. mínútu þegar næsti varamaður, Crouch, skaut í stöngina úr sinni fyrstu snertingu. Rafa setti einnig Aurelio inná völlinn undir lokin en góð tilþrif hjá honum náðu ekki að skapa mark fyrir Luis García.

Sigurinn var þó innsiglaður á 90. mínútunni þegar Kuyt vann boltann af Watford-manni við eigin vítateig og keyrði upp allan völlinn. Þegar hann kom inní teig Watford-manna reyndi hann að gefa fyrir á Gonzalez en það tókst ekki og hann fékk boltann aftur við vítateigshornið. Í stað þess að reyna aðra fyrirgjöf gaf hann boltann til hliðar á Alonso sem kom aðvífandi og þrumaði upp í markhornið, óverjandi fyrir Foster. 2-0 var staðan orðin og sigurinn í höfn!

MAÐUR LEIKSINS: Liðið í heild sinni átti engan stórleik í dag en skilaði verkinu; hélt hreinu, skoraði tvö mörk og vann annan sigur á heimavelli. Mér fannst Kuyt vera góður í dag og Alonso líka á meðan Gerrard og Luis García höfðu frekar hægt um sig, svo einhverjir séu nefndir, en upp úr stóð hinn síógnandi og sjóðheiti Craig Bellamy. Hann lék vörn Watford-manna grátt í allan dag og fann nær alltaf pláss til að hlaupa í. Hann er einfaldlega sjóðheitur þessa dagana og við sjáum það með innkomu hans hversu mjög við söknuðum þess að hafa eldfljótan framherja framan af vetri. Frábær leikur hjá þeim skapmikla!

Næst leikur liðið svo gegn Blackburn á annan dag jóla og við reynum að sjálfsögðu að fjalla um hann, en þangað til þá ætla ég fyrir hönd okkar sem skrifa á Liverpool Bloggið að óska lesendum síðunnar GLEÐILEGRA JÓLA! 🙂

10 Comments

  1. :smile:Frábær sigur þó fæðingin væri erfið. Nú er ég orðin ánægður með Rafael Benitez! 🙂

  2. Afar þíðingamikill sigur í dag sigur liðsins.
    Og það er bara eins og Bellamy sé skapaður fyrir
    okkur, hvers vegna kom hann ekki fyrr.
    Gleðileg jól allir saman

  3. Mjög mikilvægur sigur en leikurinn var erfiðari en ég bjóst við. En var einhver annar en ég sem sá svipinn á Gerrard rétt áður en seinni hálfleikur byrjaði? Kræst hvað maðurinn var ákveðinn og hungraður í sigur enda tók það hann ekki nema rúma mínútu að splundra Watford vörninni. Mæli með að allir horfi á leikinn aftur bara til að sjá þennan svip!

  4. Ég var frekar stressaður á tímabili yfir þessum leik. Fannst liðið ekki vera að leika jafnvel og í síðustu leikjum. En sigurinn vannst og það var gott. Alltaf gott að vinna síðasta leikinn fyrir jól.

    Núna eru tveir af þeim leikmönnum sem Rafa keypti í sumar búnir að sanna sig: Kuyt og Bellamy. Á tíma var vinsæl setning hérna á blogginu að aðeins einn af þeim leikmönnum sem voru keyptir í sumar væru hæfir Liverpool. Bellamy hefur núna sýnt að hann á fullt erindi í liðið og vonandi að Speedy og Pennant geri það líka.

    Verst að tvennan hjá Heskey dugði Wigan ekki, en við höldum allavegana þriðja sætinu.

  5. Skemmtilegt hvernig Ben Watson tekst alltaf að þvælast inná þetta blogg. Um daginn var það fyrir Ben Thatcher og núna fyrir Ben Foster! 🙂

    Watson kom engum vörnum við og staðan orðin 1-0 fyrir Liverpool.

  6. Strögl en hafðist…það þarf ekki meira til stundum. Og það er bara allt í lagi!!

    Bellamy alveg stórkostlegur. Er ég einn um það..eða finnst fleirum að Bellamy fái á sig ranglega dæmt rangstöður einum of oft??? Hann er með svo mikinn hraða að línuverðir misreikna sig einum of oft…óþolandi. Ég hélt að sóknarmaður ætti að njóta vafans. Mér finnst algjörlega óþolandi að í sterkustu deild í heimi séu svona skussar við dómgæsluna leik eftir leik. 😡

    Það fór aðeins í taugarnar á mér hversu slakur Garsia var í þessum leik en sem betur fer kom það ekki að sök. Frábært að sjá hungrið í Crouch þegar hann kom inn á. Ekki amalegt að hafa svona framherja á bekknum.

    Nú er hrikalega erfiður leikur framundann. Arsenal að niðurlægja Blackburn í dag og mér segir svo hugur að þeir mæti eins og grenjandi ljón til leiks á annann í jólum…úfffff. Verður erfitt. En spennandi… :rolleyes:

    Svo segi ég bara.. Gleðileg Jól kæru félagar..
    Þakka ykkur liverpool bloggarar fyrir þrautseigjuna við skriftirnar og halda úti frábærri Liverpool blogg síðu…

    YNWA

    Jón H. –Redfan(liverpool spjall..sést nú sjaldan þar orðið..:-))

  7. frábært við erum enn í 3 sæti góður sigur en ég verð að nefna eitt ég fer á hverjum degi á liverpool.is og þar eru menn alls ekki nógu fljótir að koma með nýustu fréttirnar blogg er altaf 2-3 dögum á undam með fréttir gleðileg jól

  8. Góð þrjú stig gegn spræku Watford liði. Þetta var alls ekkert auðveldur sigur en samt ekki heldur í neinni hættu.

    Gleðileg jól.

  9. Góð umfjöllun um leikinn, góður sigur, góð síða.

    Vildi bara minnast á eitt sem mér finnst vert að minnast á…. hversu nálægt var Carra að setjann annan leikinn í röð!!!! Aðeins frábær markvarsla Fosters í markinu kom í veg fyrir það.

    Gleðileg jól.

    ninni

Liðið gegn Watford

Liðið okkar í dag