Charlton 0-3 Liverpool

Okkar menn unnu sigur á Charlton í dag, 3-0. Xabi, Bellamy og Gerrard sáu um markaskorun. Við höfum þar með skorað ellefu mörk í síðustu þremur deildarleikjum og ekki fengið á okkur mark í deildinni síðan gegn Arsenal þann 12.nóvember.

Rafa byrjaði leikinn svona:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypia – Riise

Pennant – Gerrard – Xabi – Gonzalez

Bellamy – Kuyt

Bekkurinn: Dudek, Agger, Garcia, Crouch og Aurelio.

Það byrjaði ekkert sérstaklega fyrir Djimi Traore, okkar gamla vin sem fór frá okkur í sumar. Strax á 2. mínútu gerðu leikmenn Charlton sig seka um fáránleg mistök þegar þeir ætluðu að hreinsa fram völlinn frá endalínunni, boltinn fór á Mark Gonzalez sem sendi gu frábæra sendingu á Pennant sem skallaði að marki en um leið sparkaði Traore í andlitið á honum!

Vítaspyrna, Xabi Alonso tók hana og skoraði örugglega í mitt markið. Kristján Guðmundsson bauð þá upp á heimskulegasta komment í heimi: “Ef hann hefði staðið kyrr (Myhre markmaður) hefði hann gripið boltann”. Jahá!!

Við byrjuðum leikinn frábærlega, sýndum gott spil og Craib Bellamy átti svo sannarlega að skora annað markið á 6. mínútu þegar hann komst einn í gegn, sólaði markmanninn en skaut svo í varnarmann sem var á línunni. Dapurt að klára það ekki fannst mér. Spilið okkar var eins og áður sagði frábært í byrjun leik! Pennant fékk gott færi eftir magnað spil en Traore bjargaði á línu.

Línuvörðurinn var svo heppinn að Hermann Hreiðarsson skoraði ekki úr dauðafæri þegar ekki var dæmd augljósasta rangstaða í heimi jafnvel, Reina varði skot, Hermann tók frákastið og var fyrir opnu marki en skaut yfir.

Þetta Charlton lið leit út eins og fjórðudeildarlið fyrstu mínúturnar. Þetta lið mun bókað falla ef það gerist ekki eitthvað róttækt í spilamennsku þeirra. Þeir eru með ágætlega mannað lið, reyndar leit Andy Reid nokkuð sjoppulega út, en Darren Bent er góður framherji. Ef hann fer í janúar er Charlton í vondum málum en hann reyndar sást ekkert í dag, ekki frekar en Hasselbaink.

Þeir bitu þó aðeins frá sér í fyrri hálfleiknum en sköpuðu ekkert af viti í raun. Við vorum áfram hættulegir og hefðum átt að vera að minnsta kosti 3-0 yfir í hálfleik. Það tókst þó ekki og fannst mér það minna soldið á gamalkunnið vandamál, að skapa nóg af færum og spila vel en takast bara ekki að skora.

Gerrard og Xabi stjórnuðu miðjunni algjörlega. Við vorum að spila nokkuð vel í þessum leik en eins og áður sagði, þetta Charlton lið, ég skil alveg af hverju þeir eru þarna á botninum. Þeir misstu mikið í Alan Curbishley sem vonandi gerir okkur greiða í sínum fyrsta leik með West Ham sem er gegn Man U á morgun.

Kuyt skaut í stöngina í seinni hálfleik og bæði Gerrard og Xabi áttu fín skot sem Myhre varði. Maður var einhvernveginn aldrei hræddur um að Charlton myndi skora enda fóru þeir varla yfir miðju í seinni hálfleik, og gáfu þá boltann oftar en ekki bara beint útaf!

Það jákvæðasta við þennan leik, fyrir utan stigin þrjú, var samvinna Bellamy og Kuyt, að mínu mati. Þeir virðast vera að ná betur saman með hverjum leiknum og eru augljóslega fyrsti valkostur Benítez sem framherjapar. Crouch og Fowler eru svo góðir kostir utan byrjunarliðsins en Crouch er auðvitað líka að spila mjög vel.

Stærsti gallinn við þennan leik er að við áttum að afgreiða þetta skelfilega dapra Charlton lið á fyrstu tuttugu mínútunum, en gerðum það ekki. Það er stór galli, mjög stór. Við eigum að klára svona lið strax, það þarf ekki nema eitt horn, smá mistök og búmm, þeir búnir að jafna.

En við kláruðum ekki færin og vorum heppnir að halda fengnum hlut. Þeir fengu tvö dauðafæri í seinni hálfleik, Ambrose skaut yfir og Bent svo framhjá.

Sem betur fer kláruðum við leikinn samt á 82.mínútu þegar Bellamy fékk sendingu innfyrir vörn Charlton og skoraði gott mark úr teignum. Mjög vel klárað hjá Bellamy og leikurinn búinn.

Auðvitað kom síðan þriðja markið og ætti það sérstaklega að gleðja Gunnar vin minn að Crouch gerði mjög vel í að skalla boltann niður til Steven Gerrard sem var með boltann í teignum, stillti sér upp og setti boltann snyrtilega í fjærhornið.

Leiknum lauk semsagt 3-0.

Maður leiksins: Ég ætla að velja Craig Bellamy. Hann var síógnandi og hraði hans skapaði miklar hættur oft á tíðum. Skoraði svo þetta góða mark og virðist vera í fínu formi um þessar mundir.

Við erum þar með komnir upp í þriðja sætið, í bili, og Arsenal og Portsmouth leika innbyrgðis í dag. Það er gott fyrir okkur… Næsti leikur er gegn Arsenal á þriðjudaginn í Deildabikarnum, næsti leikur í deildinni er gegn Watford á Þorláksmessu.

20 Comments

 1. Það má benda á að af þessum ellefu mörkum í þremur síðustu leikjum hafa sjö þeirra komið á útivöllum.

 2. En svo maður kommenti á leikinn – þá var þetta verulega gott. Hefðum vissulega átt að klára færin, en við yfirspiluðum þetta Charlton lið í 80 mínútur á **útivelli**.

  Gott mál. Núna er bara að vona að Portsmouth geri jafntefli eða vinni Arsenal.

 3. Ekkert nema gott um þetta að segja… Vona bara að Charlton falli ekki, Hemmi Hreiðars verður að afsanna fyrir fullt og allt að hann sé hinn marg um talaði falldraugur í mannsgervi, hefur fallið allt of oft þessi herramaður.

  Áfram Liverpool og Hemmi Hreiðars

 4. Flottur en áreynslulítill sigur, fannst Liverpool alltaf eiga eitthvað inni til að gera útum leikinn. Alveg sammála þeim sem segja að Liverpool eigi að vera búnir að ganga frá svona slöku liði eftir 15-20 mínútur, fengu allavega færin til þess.

  Mér fannst Alonso bestur okkar manna í dag, stjórnaði öllu og var klárlega heilinn í leik liðsins.

  En þrjú stig og 3 – 0 sigur á útivelli er alveg ástæða til að gleðjast…

 5. Já það sem mér finnst jákvæðast við þennan leik er að menn eru loksins að njóta þess að spila og gera það með sjálfstraustinu. Hafði engar áhyggjur af markatölunni í leiknum. Maður bara vissi að þetta myndi koma á endanum og það sjálfstraust mann sem er að skila þessu. Meira segja Riise (…sem lét Rommedahl líta út fyrir að vera teknískur, hvað gerir hann gegn Ronaldinho ?!) þó að hann væri oft sólaður hélt bara áfram og átti nokkur skot.

  Og djö**** eru Bellamy og Kuyt að ná frábærlega saman ! Snilld. Vil líka koma með eitt komment á lýsendurna á Skjásport…þegar menn eru orðnir leiðinlegri en Spegillinn á Rás2 er það virkilega slæmt !

  …og hverjum datt í hug að borga Djimi Traore fyrir að spila fótbolta ?! Þessum manni á að halda sem lengst frá fótboltavelli !! 🙂

 6. Mjög jákvæður leikur og skyldusigur. Xabi Alonso hreint út sagt frábær undanfarið. Mér fannst hann bestur gegn Fulham og hann hélt uppteknum hætti í dag.

  Eitt er þó mikið að í mínum huga. Mér finnst hann Riise blessaður vera gjörsamlega á hælunum. Menn reyna ekki að fara upp vinstri kantinn þar sem Finnan er, en Riise á í vandræðum með nánast hvaða hægri kant sem er þessa dagana. Hann lét meira að segja danann líta hörkuvel út þarna hjá Charlton. Svo koma þessi skot hans, sem jú stundum heppnast, en eru oft út úr kú. Það sem mér finnst þó mest vera að hjá honum er það hvernig hann skilar bolta frá sér.

  En góður sigur og virkilega gaman að sjá hversu liðið er farið að smella saman. Hefði átt að vera mun stærri sigur í dag. Bellamy fær einnig stóran plús í kladdann, sem og Pennant, sem mér finnst vera sífellt að koma betur inn í þetta.

 7. Virkilega áreynslulítill sigur, sem er ánægjulegt fyrir komandi jólatörn. Taka saman það sem mér fannst:

  Reina: Hefði getað sleppt því að mæta. Reyndi ekkert á hann

  Riise: Jesús hvað maðurinn er búinn að vera að leika illa uppá síðkastið. Hann er gersamlega heillum horfinn og þarf að taka rækilega til í sínum málum. Þarf að kippa honum úr liðinu til þess að rífa hann upp.

  Carragher: Reyndið lítið á hann en þegar kom smá pressa virtist hann óöruggur

  Hyypia: Sjá Carra

  Finnan: Ört vaxandi í sóknarleiknum, stöðugur í vörninni fyrir utan smávegis dekkningar mistök í bestu færum Charlton (hjá Hemma og Ambrose)

  Pennant; Ekki góður leikur og ekki lélegur, má segja að hann hafi skilað einhverju en kannski ekki alveg sínu,

  Gonzalez: Sjá Pennant

  Gerrard: Vann vel, mátti koma meira með í sókninna á köflum en gerði sitt og skoraði sem er mikilvægt fyrir hann og liðið.

  Alonso: Vá!! Maðurinn er kominn aftur eftir HM núna. Hann er betri núna en hann var síðasta sumar og það sem gaman er að sjá að hann var í þessum leik að vinna jafnvel fleiri bolta heldur en Hamann og Sissoko hafa verið að gera. Þegar þú blandar þeim hæfileikum með sendingarhæfileikum hans þá ertu kominn með fullkominn sammiðjumann með Gerrard. Mann sem getur stoppað sóknir og mann sem getur dreift spili. Mínu mati maður leiksins.

  Kuyt: Aðeins búinn að missa taktinn. Skapar fullt af færum bæði fyrir sig of fyrir aðra. Vinnusemin var til staðar sem áður og vantar bara herslumuninn upp á markið.

  Bellamy: Frábær leikur. Gerði nákvæmlega það sem ég held að Benitez hafi fengið hann til að gera þegar hann keypti hann. Var sífellt að skapa usla fyrir varnarmenn, sífellt að stinga sér og samvinna hans og Kuyt var upp á heimsklassa.
  Hefur sýnt á sér hliðar sem ég vissi ekki að hann ætti með mikilli óeigingirni. Virtist að minnsta kosti alltaf vera að reyna að finna samherja fyrst áður en hann skaut. Klassa leikur og eiginlega líka maður leiksins.

  Arsenal leikurinn verður auðveldur, því lofa ég.

 8. Aurelio kom aðeins inná og mun væntanlega gera kröfu í næsta leik um byrjunarliðssæti þar sem Riise er ekki að dansa.

  Gott að halda hreinu og ljóst að Agger er klárlega sterkari alhliða varnarmaður en bæði Carra og Hyypia.

  Bellamy byrjaður að skora… sem er gott og Kuyt úff hvað hann er duglegur. Um leið og hann verður aðeins heppnari þá hrynja mörkin inn eins og hjá Shearer um árið (Dong!)

  Crouch er einnig að standa sig vel þegar hann kemur inná og lagði vel upp markið fyrir Gerrard! Hann á skilið að fá fleiri mínútur.

  Líka jákvætt að Portsmouth náði jafntefli gegn Arsenal, reyndar komust þeir í 0-2 en Arsenal var snöggt að jafna!

  við erum því sem stendur í 3.sætið, stigi á undan Arsenal.

  Síðustu 3 leikir í deildinni 0-4, 4-0 og 0-3!

 9. Alveg merkilegt. Afhverju geta menn ekki haldið sig við efni færslunnar? Greinilega mjög erfitt fyrir SStein að vera Liverpool maður, sér ekkert nema það slæma hjá liðinu. Afhverju getur þú ekki bara glaðst þegar liðið vinnur góðan 0-3 sigur á ÚTIVELLI??? Afhverju þarftu endilega að fara tala um hversu Riise var slakur(en shit hvað ég er þó sammála þér)???…ótrúlegt að menn skuli ekki bara getað glaðst þegar liðið spilar vel!!! Ég er viss um að þó Riise myndi gera þrennu, þá myndir þú sjálfsagt skammast yfir fögnunum hans!!!

  😉 :tongue: :laugh:

 10. Sælir og til hamingju,
  það er margt gott um þennan leik að segja en það var slæmt að skora ekki fyrr mark númer 2. Hins vegar er leikur liðsins alveg frábær núna. Ég var orðinn hræddur um að þeir myndu jafna í lokin en sem betur fer kláruðum við þetta sjálfir. Gott mark hjá Bellamy, gott fyrir hann og liðið og sama með Gerrard, gott fyrir hann og liðið.

  Hins vegar verð ég að hrósa Finnan. Hann er alltaf að, góður fram á við og hann lagði upp annað mark liv í leiknum alveg frábærlega. Snilldarsending með vinstri inn fyrir á bellamy.

  bara gaman og nú er maður farinn að þekkja gaurana. Það er upplagt að taka 12 leiki í röð núna í deildinni.

 11. Tökum því aðeins rólega að fagna því að Liverpool hafi unnið leik á útivelli. Þetta Charlton lið er ööömurlegt, svo ekki meira sé sagt. Taki menn því ekki sem sjálfsögðum hlut að vinna Charlton á útivelli, þá getum við allt eins farið að berjast um UEFA Cup sæti við Tottenham og Aston Villa.

  Góður leikur engu að síður. Einhverjir hérna eru að rakka niður Riise, en mér finnst ég verða að koma honum til varnar, þar sem að Rommedahl er alls ekki lélegur leikmaður, auk þess sem að hann er með fljótari leikmönnum deildarinnar. Aurelio mætti svo fá fleiri mínútur. Held að þeir gætu verið góðir saman á vinstri vængnum hann og Gonzalez 🙂

 12. smá pæling eftir að sissoko meiddist hefur liv unnið alla leiki þótt að hann sé duglegur og út um allan völl kemur kanski ekkert út úr því eða hvað en smá pæling góður sigur í gær

 13. >Tökum því aðeins rólega að fagna því að Liverpool hafi unnið leik á útivelli.

  Hvað í ósköpunum fær þig til að skrifa svona? Fannst þér það svo hræðilegt að menn væru að fagna sigri? Eigum við bara að fagna sigrum þegar það er gegn stóru liðunum?

  Það er ENGINN að tapa sér yfir því að við höfum unnið Charlton, en við höfum unnið þrjá leiki í röð með markatölunni 11-0. Við megum gleðjast pínkulítið.

  Hversu gaman er að styðja lið ef við tökum flestöllum sigrum sem “sjálfsögðum hlut”?

  Og ég er sammála SSteini. Ég hef oft varið Riise, en hann hefur verið pínlega slappur í síðustu leikjum, sérstaklega varnarlega. Það er mesta furða að það hafi ekki bitnað á liðinu meira en það hefur gert.

 14. Halldór…þú ert í bullandi mótsögn. Byrjar á að verja Riise og segja hvað hann er góður leikmaður (…og nei Rommedahl er ekkert nema ennþá verri útgáfan af Cissé) og stingur svo upp á því að Aurelio taki sæti hans í liðinu.

  Riise er búinn að vera alveg óhemjuslakur í síðustu leikjum og eins og Einar sagði er það mesta furða að það skuli ekki hafa bitnað meira á liðinu. Það gæti þó komið honum til góða þar sem við vitum öll að hann er fantagóður og traustur spilari sem á að eftir að rífa sig úr þessu.

  Fínt fyrir hann að taka út slæma kaflann sinn án þess að það bitni á liðinu.

  Og af hverju að taka sigri gegn Charlton sem sjálfsögðum hlut ?! Lið í þeirri stöðu sem Charlton er í eru oftast þú hættulegustu og svo er það auðvitað þannig að enginn leikur er sjálfsagður sigur (…nema auðvitað Barca leikirnir í 16-liða :biggrin2:). Tapaði t.d. Chelsea ekki um daginn fyrir Boro ?! …og í fyrra ?! Gerðum við sjálfir ekki jafntefli við Sheffield Utd. sem eru aðeins einu sæti ofar en Charlton ?!

  Hvað sérð þú svona sjálfsagt við að vinna þennan leik bara ?!

 15. Plús það að í fyrra töpuðum við 2-0 fyrir Charlton á útivelli og gerðum 0-0 jafntefli á Anfield.

Byrjunarliðið gegn Charlton

Sunnudagspælingar