L’pool 0 – P’mouth 0

Ja hérna. Í kvöld tóku okkar menn á móti Portsmouth á Anfield í Úrvalsdeildinni og þrátt fyrir að hafa haft yfirburði á vellinum nær allan leikinn og sótt án afláts tókst okkar mönnum ekki að skora og niðurstaðan því grátlegt 0-0 jafntefli.

Eftir meiðsli miðjumanna á undanförnum dögum gerði Rafa það sem flestir bjuggust við og setti Jamie Carragher á miðjuna. Liðið í dag var sem hér segir:

Reina

Finnan – Hyypiä – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Carragher – García

Crouch – Kuyt

Bekkur: Dudek, Paletta, Guthrie, El Zhar, Fowler.

Í fyrri hálfleik fannst mér okkar menn spila virkilega góða knattspyrnu. Við vorum að sækja upp báða kantana og sérstaklega var Jermaine Pennant að fá gott pláss upp hægri kantinn. Oft var þó eins og síðasta sendingin væri óvönduð eða að kæruleysi einkenndi leik liðsins upp við vítateig Portsmouth-liðsins. Gestirnir stilltu upp svipað og við höfum verið að sjá aðkomulið stilla upp á Anfield nýlega, með einn framherja og svo mjög varnarsinnaða miðju þar fyrir aftan. Þeir voru sterkir líkamlega og náðu að trufla sóknarspil okkar manna allan leikinn.

Mér fannst liðið okkar spila vel í fyrri hálfleik en vera helst til of þolinmóðir varðandi markaskorun. Það er eins og menn hugsi með sér að það liggi ekkert á þótt eitt færi klúðrist, þetta komi á endanum. En í kvöld bara gerðist það ekki. Í síðari hálfleik þéttu Portsmouth-menn vörn sína og í raun fjaraði sóknarleikur okkar manna út fljótlega eftir hlé. Ef ykkur finnst ég vera að sleppa því að tala um dauðafæri leiksins, þá er það af því að þau voru svo til engin. García átti góðan skalla í hliðarnetið í fyrri hálfleik og Gerrard annan slíkan undir lok leiks, en að öðru leyti var lítið í leik okkar manna – þrátt fyrir alla yfirburðina á vellinum – sem benti til þess að þeir væru að fara að skora mark.

Sem sagt, markalaust jafntefli staðreynd og það verður að teljast mikil vonbrigði. Arsenal, Everton, Bolton og Aston Villa töpuðu öll sínum leikjum í kvöld, ef okkar menn hefðu bara náð að skora eitt helvítis mark hefðu þeir farið upp í þriðja sætið í deildinni, tveimur stigum á undan Arsenal sem ættu þó leik til góða. En allt kom fyrir ekki og í staðinn jöfnuðum við Arsenal að stigum í 6.-7. sætinu.

Það er ekki við miklu meira að bæta eftir þennan leik. Dirk Kuyt og Peter Crouch náðu sér aldrei á strik í sókninni í kvöld og þótt Luis García hafi verið næst því að skora hjá okkar mönnum vantar enn töluvert uppá leikformið hjá honum. Jermaine Pennant heldur áfram að njóta góðs pláss á kantinum en það veldur vissulega áhyggjum hversu lítið kemur út úr öllum hans tækifærum. Kannski kemur þetta hjá honum, hann er enn nýkominn til liðsins, en það er oft ansi frústerandi að bíða eftir að hann hrökkvi í gang.

Eini bjarti punktur kvöldsins var sá að þeir Nabil El-Zhar og Danny Guthrie spiluðu sína fyrstu leiki fyrir Liverpool í kvöld. Hvorugur þeirra sá reyndar mikið af boltanum en þetta var þó byrjun og það er vonandi að þeir fái frekari tækifæri í næstu leikjum, í meiðslaveseninu á miðjunni.

Að lokum koma fimm fullyrðingar sem liggja mér á hjarta eftir að hafa horft á Liverpool spila þrjá heimaleiki, halda hreinu í þeim öllum en ná bara að skora þrjú mörk í tveimur þeirra:

1. Agger, Hyypiä og Carragher hljóta að vera meira með boltann við fæturna en allir aðrir leikmenn Liverpool til samans. Það er áhyggjuefni hversu keimlíka aðferð öll lið nota gegn okkur, eins og menn viti hvernig auðveldast sé að stoppa þetta lið okkar.

2. John Arne Riise þarf að hætta að reyna að senda boltann upp kantinn í gegnum klofið á andstæðingum. Ég legg til að Rafa sekti hann í hvert sinn sem hann reynir þetta, þetta hefur ekki gengið síðan fyrir páska. Árið 2002.

3. Reina hefur núna haldið hreinu í fjórum leikjum í röð. Fyrir ykkur Pollýönnurnar þarna úti (og mig líka) þýðir þetta bara eitt: YESSSSSS!!!!!!!

4. Robbie Fowler er að klárast sem knattspyrnumaður hjá toppliði. Því miður, en svona er þetta bara. Kallinn er á sínu síðasta tímabili hjá Liverpool og ég hreinlega efast um að hann fái fleiri leiki með liðinu eftir að Bellamy kemur til baka eftir réttarhöldin sín. Eigum við að kalla á Sinama-Pongolle tilbaka í janúar?

5. Pennant, þegar þú ert kominn framhjá manninum er engin þörf á að sóla hann aftur. Og aftur, og aftur, og aftur … líttu bara upp, sjáðu hvar Kuyt er, og gefðu svo helvítis boltann þangað. Í níu af hverjum tíu skiptum sem hann gefur boltann fyrir er hann búinn að mála sig út í horn og þarf að senda fyrir í blindni, þegar hann hefði getað gefið fyrir í góðu rými örskömmu áður. Þetta er fáránlega pirrandi upp á að horfa.

Maður leiksins: JAMIE CARRAGHER. Það er sama hvar goðsögn er látin spila, hún spilar alltaf eins og goðsögn.

46 Comments

 1. Ég get ekki annað en hrósað Portsmouth, þeir fóru á Anfield til að ná í stig, skiljanlega, og það gerður þeir mjög vel. Vissulega er áhyggjuefni að liðið sé ekki að ná að skora, hvað þá að skapa sér færi….

  Alonso kemur væntanlega inn í næsta leik og ég bið til æðri máttarvalda að Aurelio sé að verða klár í vinstri bakvörðinn…

 2. Er maður ekki að verða dáldið þreyttur á þessu? Meðan nánast elliært gamlmenni er að brillera með erkifjendurna.

 3. Held að margir hafi einfaldlega verið með tóman tank í seinni hálfleik. Þetta er 4 leikurinn á 11 dögum og menn einfaldlega búnir á því.

 4. Ég held að ég ætli að gera einsog þú síðast og sleppa því að lesa kommentin við þessa færslu.

  Miðað við hvað ég er hroðalega neikvæður akkúrat núna, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig tónninn verður á hinum kommentunum.

  Þetta var agalegt. Skelfilegt. Það er afar fátt jákvætt hægt að pína útúr þessu.

  Ég leyfi mér að halda því fram að engir leikmenn í ensku deildinni séu með boltann jafnmikið og miðverðirnir okkar tveir. Það er pínlegt að horfa uppá hugmyndaleysið.

  Það vita allir sem hafa fylgst með ensku deildinni undanfarin ár að Jermaine Pennant **er** góður leikmaður. En mikið skelfingar ósköp er hann slappur með okkur. Og Garcia!? Jesús! Mér finnst Garcia frábær, en Jesús hvað hann var slappur í kvöld.

  Úff.

 5. Já, og hvar er Aurelio? Hann var ekki nógu góður í haust. En Jesús almáttugur, Stig-Inge Björnebye lék betur fyrir Liverpool en Riise hefur leikið í síðustu leikjum.

  Æ, núna er ég hættur.

 6. Ég veit ekki hvort ég grét meira þegar (eins og þú minnist á) Riise gaf boltann á andstæðing í 150 skipti eða þegar Pennant klúðraði 17 fyrirgjöfinni…í röð!

  Eina jákvæða við þennan leik er að ungu strákarnir fengu tækifæri. Og það að Carra stóð sig vel. En í alvöru, þegar það klikkaði að svindla á 3 prófinu í röð sá ég að það var ekki að ganga. Sjá menn virkilega ekki eftir u.þ.b 3076 langar sendingar sem klikka að það er ekkert að fara að ganga ?!

 7. Já, og tókuði eftir því hvað Anfield var algjörlega steindauður. Ég var e-ð að skipta yfir á Arsenal leikinn og lætin þar voru ærandi miðað við þögnina á Anfield. Jafnvel þótt Craven Cottage sé minni, þá var munurinn alveg fáránlegur.

 8. Það sem mér fannst stóra vandamálið við þennan leik var ekki hvað þessi eða hinn var lélegur, Riise að reynað klobba, Pennant að sóla, Fowler að fitna eða hvaðeina. Vandamál þessa leiks var þetta ginnungagap sem var á milli miðju og sóknar. Það var rosalegt.

  Mikið sem maður saknaði Xabi og Sissoko, sérstaklega Xabi.

  Hversu oft er maður búinn að spá því í vetur að botninum sé náp og haft svo rangt fyrir sér?

  Ég þori ekki að spá núna. Ég held að núna, núna sé þetta búið. Hingað til hef ég alltaf verið bjartsýnn, ekki eftir þennan leik. Ekki eftir Portsmouth á heimavelli.

 9. Já Einar, hættu að Jesúsast þetta :tongue:

  Annars segir fimmta fullyrðingin hans Kristjáns allt sem segja þarf hvað mig varðar, og niðurlagið er svoooo satt !
  Ég trúði því varla á þriðju mínútu þegar að Carra tók þríhyrningin við Kát (að mig minnir) og negldi svo á markið !
  Það var skemmtilegasta mómentið í þessum annars ömurlega leik.

 10. Ég segi það enn… hugmyndasnautt lið…
  Ég er hjartanlega sammála Kristjáni og Einari að það er mikið áhyggjuefni fyrir Liverpool hvað miðverðir okkar eru mikið með boltann og bera hann upp og það gerir andstæðingum okkur mjög auðvelt fyrir.
  Jæja þá erum við komnir með tvo eins leikmenn á kantana.. Garcia og Pennant góðir leikmenn en mikið djöfull er ég orðinn pirraður á þessum hælsendingum og að þurfa að sóla varnarmanninn að minnsta kosti þrisvar.
  Sama hver önnur úrslit kvöldsins voru þá var þetta mjög slappt hjá okkar mönnum P’mouth reyndi ekki að sækja og okkur skorti hugmyndir til að brjóta þá á bak aftur.
  Besti maður vallarins Carragher og synd að Gerrard skyldi ekki geta nýtt sér það betur að hafa DEFENSIVE midfielder sér við hlið.
  Og að lokum því miður þá er liverpool bara ekki nógu vel mannað til að geta barist um titilinn.

 11. Þetta var leikur kattarins að músinni. Við gleymdum bara að drepa músina. 😡

 12. jam frekar dauður leikur.. éð fullri virðingu fyrir carra þá hefði ég nú vilja sjá Agger á miðjuni… miklu skotvissari maður en Carra..

 13. Það er afar sjaldan sem maður er farinn að biðja dómarann um að spjalda sína eigin menn!!! En það brjálaður var ég orðinn út í Pennant..hann málar sig út í horn hvað eftir annnað og er svo með einhver fáranleg pirringsbrot þegar boltinn er hirtur af honum…Arrrrrrgggggggggggggggggg 😡
  Eitthvert verður pirringurinn að fara yfir hundleiðinlegu jafntefli.

  Alveg grátlegt að fá þetta leyfi til að byggja upp sóknir en skapa svo enga raunverulegu hættu í 90 mínútur. Við eigum að vera það góðir að geta refsað liðum grimmilega fyrir að spila svona varnarsinnað á móti okkur.

  Er ég eini maðurinn sem finnst akkúrat ekkert koma út úr hornspyrnum hjá okkur???? Alveg ótrúlega pirrandi. Annað hvort er fyrirgjöfin of nálægt markverði eða hornspyrnan er tekin stutt og rennur út í sandinn. Er ekki hægt að hafa fyrirgjöfina utarlega í pakkann og láta eitthvað af þessum risum okkar koma á ferðinni og skallhamra þessa bolta á rammann??? Ég bara spyr.

  Jæja..best að bíta bara í þetta súra epli sem steindautt jafntefli er. Og þetta epli er líka hálfúldið á bragðið þar sem, ekki bara eitt lið fyrir ofan okkur tapaði heldur þrjú..einmitt liðin sem við erum í keppni um 3-4 sæti. Hundfúlt. Fari það bara í kolmyglaðar krabbaflær eins og dáður Kafteinn myndi orða það.

 14. Ég veit ekki af hverju, en ég hafði aldrei neinar áhyggjur – ég var alveg handviss um að sigurinn myndi koma. Ég hafði ekki áhyggjur … ég hafði ekki áhyggjur … en svo dundu þær yfir mann, svona síðari hluta fyrri hálfleiks. Piri piri kjúklingurinn sem ég hafði eldað mér og byrjaði að borða í byrjun leiks … hann varð fljótt kaldur og allt varð einhvern veginn svo vont. Ég vildi alltaf trúa að markið kæmi, því mér fannst við eiga það skilið … en svo komu vonbrigðin. Það var líka einsog væri verið að reyna að gefa okkur extratíma til að skora (2+5 mínútur í extra tíma, sem mér fannst persónulega svolítið mikið!) en þess lengri varð þá bara þjáningin.

  Það pirraði mig rosalega hvað Portsmouth menn voru lengi að taka sum innköst (í gamla daga sagði ég alltaf: “einköst” … ), einnig hrundu þeir átakanlega niður í nokkrum tilfellum og það fór í taugarnar á mér. En það fór samt meira í taugarnar á mér að þolinmæði og skipulag var gjörsamlega horfin hjá okkur, Pennant við það að fjúka út af vegna skapsins og pirringur og trúleysi einhvern veginn ráðandi ríkjum í liðinu. Portsmouth voru leiðinlegir en spiluðu sinn leik virkilega vel – þeir gerðu það sem þeir ætluðu að gera.

  Besti punktur leiksins fannst mér samt sá þegar ég gargaði (með kjúklingaleifar í kjaftinum – kaldar) á sjónvarpið á Sol Campbell fyrir að tefja tímann og fara viljandi úr skónum … og þegar enski þulurinn sagðist ekki hafa séð annað eins og kommentaði: “Sol has lost his sole…”, þá fannst mér sá fimmaurabrandari bara svo fyndinn og ég hló upphátt.

  Ég ætla samt að Pollýannast núna og segja: Hey, við töpuðum þó ekki! … Hver veit nema andstæða Pollýönnu birtist síðar í kommentunum? :confused:

  Klukkan tíu í morgun sagði ég í vinnunni að þetta væri greinilega svona dagur að hann myndi enda á því að Liverpool myndi ekki vinna í kvöld (ég hafði fest bílinn í snjónum, ég hafði áður hellt niður mix-morgundrykknum mínum út um allt eldhúsgólf … og nokkrir smáhlutir féllu ekki fyrir mér, sennilega kemst kærastan ekki til mín um helgina sökum veðurs … o.s.frv.)

  Just one of those days …
  ég er bara feginn að hann er búinn!

  Áfram Liverpool!

 15. Mér fannst þetta bara að Portsmouth var ekki komið til að gera neitt nema fara með það stig sem þeir byrjuðu með. Þvílík einstefna í fyrri hálfleik, skammast menn ekki sín að halda með svona liði.

  Portsmouth er með góða vörn og færin okkar samanstóðu af hálffærum og vantaði því miður almennileg færi. Það kom mér svolítið að Portsmouth hafi verið svona slappt, margir leikmenn meiddir í Liverpool og tækifæri á að ná sigri á Anfield. Ónei, algjört metnaðarleysi og minnti mig mikið á Man.City leikinn þar sem svipað metnaðarleysi var í gangi. Vonandi er þetta ekki framtíðin hjá þessum meðalklúbbum sem við eigum eftir að mæta.

 16. Getur jafngóður stjóri og Rafa Benítez er ekki tekið fyrir SÓKNARLEIK á æfingum!!!

  Ég hef sagt oft áður og segi enn, alltof fáir menn sem kunna fótbolta í liðinu. Riise? Carra? Þessir menn eru svosem ágætir, en þeir eru ekkert nema stopparar. Sérðu þá taka þríhyrning, skæri og senda fyrir? Nei, og að vera með Carragher á miðju er ávísun á að skora ekkert mark.

  Það þarf bara að taka næstu vikuna í að æfa sóknarfærslur hjá liðinu. Sem stendur er sóknarleikurinn okkar: Reina->Carra->sent fram, mögulega nær Crouch að skalla eitthvað út í buskann og Gerrard kannski að hlaupa og tækla boltann út á Pennant sem missir hann... Sorgleg staðreynd.

  Bakverðir koma ekkert með í sóknina, sækjum á alltof fáum mönnum. ARG! Alltof mikið að sóknarlega 😡 😡

 17. Hate to say I told you so but I told you so.

  Sama hversu miklar Pollýönnur menn geta verið þá er ekki hjá því komist að segja að þetta lið er ekkert nema miðlungs miðað við spilamennskuna í dag. Þá skipta engir Evrópubikarar fyrir tveimur árum eða 82 stig í fyrra neinu máli. Heldur ekki að nokkrir séu meiddir, Liverpool var langt í frá að vera með glatað lið á pappírnum.

  Í dag er þetta lið grútslappt. Eru menn núna að taka eftir þessum vonlausu hornspyrnum??? Hafið þið spáð í löngu innköstunum hans Riise? Kemur eitthvað útúr þeim nema að boltinn er þurrkaður og stelpurnar í Noregi fá einn skammt af magavöðvum?

  Það er hægt að bölsótast út í okkur sem erum að benda á vandamálin, en hver leikurinn á fætur öðrum líður og hvergi bólar á neinni snilld.

  Fyrirsjáanlegt, steingelt! Alveg glatað.

  Ég sakna Alonso.

 18. Eini almennilegi leikurinn sem ég man eftir á tímabilinu var gegn Tottenham á Anfield. Þegar við vorum komnir 3-0 yfir var almennilegur bolti spilaður og menn afslappaðir. Varnarmennirnir þorðu að spila í lappirnar á Gerrard og Meistara Xabi(Ég sakna hans 🙁 ) og boltinn gekk manna á milli og framherjarnir voru vaðandi í færum.

  En við þurfum að spila þannig líka í 0-0!!! Ekki bara þegar við erum komnir yfir en þá get ég lofað ykkur að það er EKKERT lið sem getur unnið okkur.

 19. Sá ekki leikinn en vill samt kommenta á einn hlut sérstaklega sem margir hérna hafa tekið undir.

  >Ég leyfi mér að halda því fram að engir leikmenn í ensku deildinni séu með boltann jafnmikið og miðverðirnir okkar tveir. Það er pínlegt að horfa uppá hugmyndaleysið.

  Öll bestu lið veraldar reyna að láta bakverðina bera boltann upp völlinn. Það er oft gert þannig að t.d. hægri bakvörður fær boltann og kemur honum annað hvort á kantmanninn og kemur svo með overlappið eða á annan senterinn sem reynir að liggja eins framarlega og hann getur, helst upp við vítateigshornið og kemur svo með overlappið.

  Þetta er í raun ekki flókið en maður sér t.d. manu og Arsenal reyna þetta oft í leik. Takmarkið er alltaf að koma annað hvort bakverði eða kanntmanni upp að endamörkum til að senda fyrir. Í augnablikinu man ég helst eftir Nevill, Beckham og Nistilrooy sem náðu að mastera þetta. Okkur tekst þetta því miður sjaldan aðallega að mínum mati vegna þess að við erum ekki með nógu sterka leikmenn í þetta.

  Eins og kemur fram hér að ofan eru miðverðirnir okkar tveir afar mikið með boltann. Ég vil meina að getuleysi bakvarðanna okkar sóknarlega sé hluti af vandamálinu. Hversu oft í leik sér maður t.d. Finnan fá boltann á kantinum horfa fram og senda´nn svo á miðverðina án þess að reyna hitt. Allt of oft.

  Kannski er svo líka því um að kenna að sá leikmaður sem á að spila sem stór senter og vera eins framarlega og hann getur er ekkert sérstakur í að halda bolta ofarlega á vellinum og því oft erfitt að finna hann í lappirnar. Hann er jú ágætur þegar hann dettur til baka, enginn miðvörður eltir hann, og hann sendir aftur á miðverðina. Stór senter á að liggja frammi. Halda boltanum þar með miðvörð í bakinu og senda svo boltann á kantmann eða bakvörð sem kemur í overlappið.

  Þetta er kannski einföld greining á knattspyrnuleik en kannski á leikurinn ekki að vera svo flókinn.

  Annars skelfileg úrslit í keppninni um fjórða sætið.

  Áfram Liverpool!

 20. Ljótt er það.

  50% Р50% ball possession er or̡in einstefna a̡ marki!
  Færin voru, æi nei engin færi!

  Og jú vissulega náðum við núna 15 skotum að marki, en guð minn góður, ég á ekki til orð.

  Þegar stig fara að tapast líka á heimavelli; er það svart, kolsvart.

  Sol Campell var einmitt líka að tefja þegar skórinn hans slitnaði. Hann er klár strákurinn, lætur skóinn sinn slitna á 90 mín +. Hrein snilld!!!!! Doddi kommon. Þeir töfðu nú frekar lítið í leiknum.

  Lítum á þetta einsog það er. Liverpool spilar slakan bolta. Og við erum með of slakan hóp. Og höfum keypt of marka slaka leikmenn, gegn alltaf fáum gæða kaupum.

  En það sem var samt verst í dag, langverst. Ég hef aldrei horft á leik sem fer fram á Anfield þar sem stemningin er í -. Og fólk farið áður en leikurinn klárast meira að segja. Shit, við erum í SLÆMUM málum.

  En fólk fer þegar því leiðist. Við leikum svo leiðinlega og kunnum ekki að sækja. Svo fólk gefst upp á að horfa á þetta, fer!

  Ég horfði, en vá hvað þetta er nú sorglegt.

 21. Ætliði að segja mér að það eina jákvæða við þennan leik hafi verið hárið á David James 😯

 22. Haha hver var að lýsa yfir að sigurganga hjá Liverpool væri hafin.

  Við eru msvo getulausir og spilum án ef leiðinlegasta boltan í deildiinni

 23. Ég hrósaði Rafa Benitez fyrir að þora loksins að nota 3-5-2 í leiknum gegn Man City. VIÐ UNNUM.

  Núna liggur enn eitt liðið í vörn á móti okkur á Anfield. Við förum aftur í 4-4-2. VIÐ GERUM JAFNTEFLI.

  Er ekki augljóst að þegar svona marga menn vantar á miðjuna hjá Liverpool þá erum við alveg bitlausir frammá við. Hvernig dettur Benitez í hug að sóknarleikurinn batni ef bæði Carragher og Pennant eru á miðjunni. Einn sem kann ekki að sækja og hinn sem missir boltann frá sér í annaðhvert helvítis skipti, gjörsamlega ekkert jafnvægi. Carragher stóð sig samt vel en maðurinn kann ekki að bera upp hraðar sóknir frekar enn amma mín.

  Að sjálfsögðu áttum við að halda áfram með 3-5-2 eða hreinlega 3-4-3, maður þarf fjandakornið ekki 4 varnarmenn til að stoppa 1 sóknarmann andstæðinganna, sérstaklega þegar svona metnaðarlaus skussalið pressa Liverpool ekki fyrr en við nálgumst miðjuna. Önnur lið eru gjörsamlega löngu búin að lesa okkar leik og þessi endalausa passífni í Rafa Benitez er farin að fara mjög mikið í taugarnar á mér. Það er engin furða að við töpum alltaf á útivöllum þegar við hugsum fyrst og fremst um að verjast andstæðingunum. Jafntefli var sama og tap í svona leik.
  Algerlega til skammar að fara ekki í all-out attack enda sárvantar okkur sigra og sjálfstraust til að draga hin liðin uppi. Rafa fær mikla skömm frá mér fyrir þessa hræðslu. 😡

  Pennant er pulsa. PUNKTUR.
  Riise ræður ekki ríkjum, hann ***** rækjum …

  Þetta eru hræddir aumingjar allt saman. Líka Rafa Benitez.

 24. Hafið þið spáð í löngu innköstunum hans Riise? Kemur eitthvað útúr þeim nema að boltinn er þurrkaður og stelpurnar í Noregi fá einn skammt af magavöðvum?

  Ahhhhh já, eftir að Forlan fór úr enska boltanum eru magavöðvarnir hans óneitanlega þeir bestu!

  Sorglegt að það eina sem maður kommenti á eftir þennan leik sé þetta :confused:

 25. Já, og Hjördís ímyndaðu þér hvað þetta er erfitt fyrir okkur. Við fáum ekki einu sinni neina ánægju útúr því að sjá magavöðvana á Riise. 🙂

  Held samt að Riise sé í bol innan undir treyjunni.

 26. Þetta er það sem koma skal hjá þeim liðum sem mæta á Anfield, fyrir utan (ars, man, che). anfield er það sterkt vígi að lið eru auðvitað ánægð með að hanga á jafntefli. Að lið skuli spila með einn frammi, fimm á miðju og massíva 4 mann vörn gegn Liverpool á Anfield á ekki að koma neinum á óvart.

  Því spyr ég , afhverju er ekki meiri fjölbreitni í sóknarleik okkar? Meiri hraði ?

  Liverpool sækir svo hægt upp völlin að mótherjar þeirra ná alltaf að koma sér í varnarstöðu og loka svæðum. Eins og menn sáu í kvöld.

  Á heimavelli gegn liði sem spilar upp á jafntefli verða bakverðir okkar að taka mjög virkan þátt í sóknarleiknum, það er mun erfiðara að verjast kantmönnum okkar ef bakverðirnir eru alltaf að bjóða sig í overlappið.

  Allt tal um að Pennant þurfi að aðlagast er með ólíkindum, þessi leikmaður er búinn að spila í úrvalsdeildinni í 5-7 ár að ég held. Vandamálið snýr ekki að aðlögun heldur er þetta spurning um getu. Eins og ég hef marg oft sagt þá er Pennant ekki nógu góður fyrir Liverpool. Það hlakkar ekkert í mér að sjá hann svona slakan eins og hann var í kvöld, því það bitnar á liðinu.

  Fowler er kominn yfir það besta, rosalega er kappin slakur, hann hefur ekkert að segja í þessa sterku varnarmenn úrvalsdeildarinnar. Skiptingin á honum og Crouch í kvöld voru mistök að mínu mati, því slakur Crouch er betri en slakur Fowler. Mikið hefði verið gaman að sjá Bellamy spila þar sem allan hraða vantaði í sókn Liverpool.

  En stærsta vandamál Liverpool í dag er hugmyndasnauður sóknarleikur.

  Krizzi

 27. “Það vita allir sem hafa fylgst með ensku deildinni undanfarin ár að Jermaine Pennant er góður leikmaður. ”

  -Ég get ómögulega verið sammála þessu. Það hefur e.t.v. borið á honum í fallliði (skemmtilegt orð) Birmingham en hann virðist ekki líklegur til að verða neitt í líkingu við það sem Arsene Wenger sá í honum á sínum tíma.

 28. Það er hræðilega sorglegt þegar menn koma hér inn á borðið á segja “haha, hver var að lýsa því yfir að sigurganga Liverpool væri hafin…” eins og það sé eitthvað gott á þá sem voguðu sér að segja það!!! Fjárinn hafi það, við erum öll hérna aðdáendur Liverpool og væntanlega þykir okkur öllum leikurinn í kvöld hafa verið vonbrigði. En að hía á aðra sem vildu taka pollýönnu-vinkilinn á þetta … er bara sorglegt!

  Auðvitað vissi Sol hvað hann var að gera – tefja – en ég hef bara aldrei séð skó fara svona! 🙂 Og auðvitað reyndu Portsmouth menn að tefja sem mest þeir gátu, þeir töfðu ekki lítið, en þrátt fyrir þeirra tafir, langan tíma í útspörk og innköst, þá fengum við þó 97 mínútur rúmar til að gera eitthvað … sem við gerðum ekki.

  >Pompey unashamedly time-wasted and wore Liverpool down. Steven Gerrard tried to be the one-man hero, but not even his Captain Marvel act could rescue anything for Liverpool in this one.
  >In that spell Campbell had to go off with a split boot and, as Pompey staff searched for a replacement they were on the brink of sending on Andy O’Brien before a spare boot was found for Campbell. That bout of comedy just about summed up Liverpool’s night.

  Ágætis setningar úr teamtalk.com …

  — Tek undir með Þórði að það hræðilegasta í kvöld var stemmningsleysið á vellinum. Ömurlegt að sjá það.

 29. Sorry … setningin:

  >In that spell …

  átti ekki að koma í beinu framhaldi … þetta voru tvær setningar teknar úr sömu grein en ekki á sama stað.

  Áfram Liverpool!

 30. >Það er hræðilega sorglegt þegar menn koma hér inn á borðið á segja “haha, hver var að lýsa því yfir að sigurganga Liverpool væri hafin…” eins og það sé eitthvað gott á þá sem voguðu sér að segja það!!!

  Takk, Doddi. Þetta var akkúrat það sem ég vildi segja eftir að hafa lesið sum kommentin.

  >Annars skelfileg úrslit í keppninni um fjórða sætið.

  Það merkilega við gærkvöldið var þó að staða okkar í baráttunni um **þriðja sætið** batnaði.

 31. Held að stemningsleysið á Anfield lýsi ástandinu best. Því miður er ekki gaman að horfa að Liverpool núna, amk ekki í deildinni. Og hvað er með Pennant? Vill hann ekki sanna sig hjá klúbbnum? Hann átti að vera fokinn út af í leiknum. Var endalaust að biðja um spjald með einhverjum fávitaskap. Fowler var hetja en ég held að menn verði að sætta sig við að hann á ekkert erindi í Liverpool í dag. Hann er algjörlega búinn.

 32. Veit ekki á hvaða leik menn voru að horfa. Segja að við hefðum spilað vel. Þessi spilamennska er kannski nothæf í reitabolta. Þetta var hörmung frá upphafi til enda helmingurinn þeim leikmönnum sem voru inná hafa ekki getu til þess að klæðast Liverpooltreyjunni. Merðalmennskan er allsráðandi þessa stundina á Anfield. Kaupinn á pennant eru klárlega ein verstu kaup sumarsins í enska boltanum. Hvernig ætla menn að ná árangri þegar við ætlum að byggja upp lið á vandræðagemsum úr slökum liðum. Svo voru menn að tala um slakt gengi í fyrra. Ekki hefur það skánað. Kannski er árangurinn ágætur í meistaradeildinni skulum samt átta okkur á því að sennilega erum við í slakasta riðlinum. Vonandi birtir til með hækkandi sól

 33. >Segja að við hefðum spilað vel

  Ég trúi þessu ekki. 😯

  Orðið “vel” var notað einu sinni í leikskýrslu um eitthvað varðandi Liverpool. Það er náttúrulega neyksli! :rolleyes:

 34. Hárgreiðsla David James gaf tóninn fyrir þennan leik. Hún var ömurleg, leikmenn voru ömurlegir og áhorfendur voru hreinlega bara sofandi. Gott ef ég heyrði ekki einhvern áhorfanda í Kop stúkunni reka við því svo mikil var þögnin!

 35. Þar sem ég næ ekki að sætta mig hversu slakur Pennant er og hversu ósáttur ég er með kaupin á honum, hef ég ákveðið að taka saman smá pistil um gaurinn (til að losa gremju mína).

  Jermaine Pennant er fæddur 1983 sem gerir hann 23 ára gamlan í dag. Hann komst í sviðsljósið 15 ára gamall þegar Wenger keypti hann frá Notts County á 2 milljónir punda, sú upphæð gerði Pennant að dýrasta unglingi Bretlands á þeim tíma. Þetta var árið 1999.

  Á sex árum hjá Arsenal náði Pennant aldrei að sanna sig og var aðalega í sviðsljósinu utan vallar. Á þessum tíma spilaði hann 26 leiki fyrir Arsenal og skoraði í þeim 3 mörk, þau komu öll í sama leiknum gegn Southampton á tímabilinu 2002/2003.

  Arsenal lánaði Pennant fjórum sinnum á þessum 6 árum:

  Fyrst var hann lánaður til Watford sem spilaði þá í 1. deildinni, það var tímabilið 2001/2002. Pennant spilaði 9 leikir og skoraði í þeim 2 mörk, ekkert mark lagt upp. Tímabilið 2002/2003 lánaði Arsenal hann aftur til Watford sem voru en í 1. deildinni, þar náði hann að spila 12 leiki en engin urðu mörkin og ekki náði hann heldur að leggja upp nein mörk.

  Tímabilið 2003/2004 er sennilega besta tímabil Pennants, á því tímabili var hann í láni hjá Leeds. Hlutur Leeds var samt dræmur þar sem þeir féllu um vorið niður í 1. deild. Pennant spilaði 33 leiki fyrir Leeds og skoraði í þeim 2 mörk og lagði upp 7 mörk.

  Tímabilið 2004/2005 fór Pennant í láni til Birmingham, hann spilaði 12 leiki fyrir þá, skoraði ekkert mark en lagði upp 3 mörk.

  Í júlí 2005 keypti svo Birmingham Pennant á 3 milljónir punda frá Arsenal.

  Á tímabilinu 2005/2006 spilaði Pennant 35 leiki í deildinni og skoraði í þeim 2 mörk, auk þess lagði hann upp 5 mörk. En með deildarbikar og FA bikar urðu leikirnir samtals 45, 3 mörk skoruð og 10 lögð upp. Um vorið féll síðan Birmingham niður í 1. deild.

  Sumarið 2006 í júlí ákveður Liverpool að kaupa Pennant á 6,7 milljónir punda (munið að árinu áður hafði Birmingham greitt 3 milljónir fyrir hann). Ekki skil ég hvernig Pennant gat verið meira en helmingið dýrari ári síðar. Ég skil heldur ekki afhverju Liverpool var tilbúið að borga yfirverð á honum (er ekki meira en 4-5 milljón punda maður) þegar yfirlíst stefna LFC er að borga ekki yfirverð og láta ekki draga sig út í neina vitleysu í kaupverðum leikmanna.

  Á þessu tímabili hefur lausn LFC við “vandræðum á hægri kanti” spilað heila 13 leiki í deildinni án þess að skora né leggja upp mark. Í það heila hefur Pennant nú spilað 22 leiki án þess að skora mark, að vísu er hann búinn að leggja upp 3 mörk, en 2 þeirra voru í deildarbikarnum gegn mjög svo slökum andstæðingum.

  Annað sem ég skil ekki er afhverju Benitez kaus að taka Pennant, mann sem er einn ólíklegasti leikmaðurinn á vellinum til að skora mark, þar sem Benitez leggur mikla áherslu á að fá mörk af miðunni. Hjá öllum betri liðum boltans í dag eru kantmenn þeirra að skora 10-20 mörk á tímabili. Að fá mörk af köntunum er svo gríðarlega mikilvægt, tekur pressuna af sóknarmönnum okkar, meiri hætta af fleiri leikmönnum og skilar liðinu mun fleiri mörkum. Í fyrra skoraði “hægri kantmaður” okkar 23 mörk, auk þess sem Cisse setti meirihluta sinna marka sem hægri kantmaður.

  Er von að maður sé svekktur með kaupinn á Pennant, leikmanni sem er klárlega enginn Winner og gefur liðinu ekkert Extra. Ástæða þess að ég tala svona mikið um deildina er sú að Pennant var fyrst og fremst keyptur til að bæta gengi okkar í henni. Hann þekkir vel til hennar og hefur spilað gegn öllum þeim liðum sem við mætum í vetur, því er ekki um aðlögun að ræða hjá honum (harkan, hraðinn, veður ofl.) eins og fyrir t.d. Gonsalez.

  Eins og hægt er að sjá í yfirferð minni þá er Pennant góður leikmaður í slöku liði og en miðlungs leikmaður í góðu liði eins og Liverpool er og á að vera.

  Krizzi

 36. Krizzi. Munurinn á kaupverðinu á Pennant frá Arsenal til B’ham og frá B’ham til L’pool er sá að Wenger vildi losna við hann og var því ekki að spá í verðinu, einnig átti hann ekki mikið eftir af samningi sínum, ef mig misminnir ekki. En B’ham vildi ekki missa hann svo Liverpool varð því að borga meira.

 37. Elías, B’ham keypti líka Emile Heskey af Liverpool (sem vildi losna við hann) á 6,25 millj punda en seldi hann í sumar á 5,5 milljónir punda til Wigan. Þeir vildu heldur ekki selja Heskey en engu að síður borgaði Wigan ekki 6,25+.

  Annað varðandi kaupin á Pennant, það voru engin önnur lið að berjast við Liverpool um kaup á honum. Það af leiðandi enn síður ástæða til að bjóða yfirverð.

 38. Fatta ekki umræður um að þetta hafi verið daufur leikur. Sáuði ekki hárið á D. James? Og skórinn hjá S. Campell? Hápunktur leiksins var þegar þulurinn tók sérstaklega fram að “ekki hefði eitt hár færst úr stað” á James til vitnis um sóknartilburði Liverpool.

  Leikurinn var alls ekki alslæmur. Helst gaman að sjá tvo nýja leikmenn, sem gátu reyndar ekki neitt en samt gaman. Og Carragher var frábær á miðjunni, svo að maður saknar Hamann aðeins minna. Fowler var alls ekki jafn slæmur og sumir halda fram. Hvað í ósköpunum átti hann að gera, reyndi allavega. Eina sem var ömurlegt og ófyrirgefanlegt var hversu hrikalega leiðinlegt þetta var á að horfa. Spurning hvort breyta þurfi stigagjöfinni aftur (0 stig fyrir jafntefli og tap, tvö fyrir sigur?). Annars eitt stig í hús, aldrei í hættu og þriðja sætið á sínum stað. Liverpool aðdáendur eru langstærsti kaupandi enska boltans, gangi Sýn vel að selja þessi leiðindi næstu árin til að borga upp milljarðinn.

  Tökum Meistaradeildina enda nýtur snilligáfa Benitez sín þar. Gleymum bara deildinni heima þar til Moore/Parry drulla sér burt rekstrarformið hefur verði nútímavætt.

 39. Eitt fór alveg óstjórnlega í taugarnar á mér þarna í þessum leik. Það var undir lok hans, mig minnir að það hafi verið komið inn í uppbótartíma og við fengum hornspyrnu. Í svona aðstæðum myndi maður halda að allir myndu hópast inn í teig í þeirri von um að einhver næði að stanga boltann í netið. Nei, það er tekin enn ein stutt hornspyrna og ekkert verður úr neinu. Ég gjörsamlega tapaði mér í reiði þegar ég sá þetta. 😡

 40. Jamm, SSteinn þetta fór óheyrilega í taugarnar á mér. Það er eins og menn hafi bara áttað sig á því á æfingasvæðinu að það drífur enginn leikmaður inná teig úr horni, þannig að þess í stað eru þeir að taka þessar glötuðu stuttu spyrnur.

 41. Nú er Rafa Benitez í miklum metum hjá mér enda hefur hann sýnt mátt sinn í þessu starfi. En föst leikatriði, eins og hornspyrnur, eru ekki hans sterka hlið svo vægt sé til orða tekið.

  Hvað ætli Liverpool sé búið að skora mörg mörk upp úr hornspyrnum síðan haustið 2004? Svo væri gaman að sjá samanburð við Liverpool undir stjórn Gérard Houllier hvað hornin varðar.

  Ég tek það fram að með þessu er ég ekki að bera Houllier og Benitez saman sem stjóra heldur einungis er ég forvitinn um þennan eina tiltekna þátt.

 42. SSteinn og Einar Örn, ég held að þeir hafi tekið stutta hornspyrnu þarna í lokin til að halda Sol Campell útaf og gefa þeim ekki tíma til að skipta út af.

  Annars er þetta andleysi Liverpool fram á við alveg að gera útaf við mig. Alveg óþolandi að stjórna hverjum leiknum á eftir öðrum án þess að klára þá af öryggi.

 43. Auðvitað eigum við að kalla Pongolle til baka í janúar! Þetta rugl í Benitez að skilja ungu frakkana svona út úr hópnum (og lána þá svo) er óskiljanlegt, sérstaklega þar sem við erum ekki með svona svakalega breiðan hóp. Pongolle átti góða innkomur þegar hann fékk að spila og lenti í “refsingar” kerfnu hjá Benitez rétt eins og Crouch. Crouch fór að skora og var þá settur á bekkinn. Cissé gerði hið sama og fékk aldrei sama séns bara af því að Benitez vildi hann ekki.

 44. >sérstaklega þar sem við erum ekki með svona svakalega breiðan hóp.

  Pongolle hefði verið framherji númer 5 hjá Liverpool. Og jafnvel neðar. Segjum að Crouch, Kuyt, Fowler og Bellamy hefðu verið meiddir. Þá hefði Rafa væntanlega byrjað á því að setja Garcia eða Kewell í framherjann (að því gefnu að þeir væru heilir).

  Heldur þú virkilega að Pongolle hefði nennt að standa í því? Le Tallec hefði verið númer 6 í röðinni

 45. Ég sé ekki hvað hægt er að græða meira á því að hafa Sol útaf en einmitt að senda helvítis hornspyrnuna inn á teiginn… það er einmitt í loftinu sem Sol er hvað sterkastur. Fyrir utan það að Liverpool hefur engann mann í liðinu sem getur sólað einhvern þá ætluðu þeir valla að fara að sóla sig í gegnum vörnina með Sol útaf.

  Pennant er alveg frá A-Ö murlegur í alla staði, sorry, bara mín skoðun og ég skal glaður kyngja því að ég hafi rangt fyrir mér, en fyrst þarf mikið að breytast. Rafa leifði honum að vera inn á í ruglinu sínu örugglega bara til að hann fengji rautt og lærði eitthvað, en dómarinn og P’mouth menn vildu bara ekki að hann yrði rekinn útaf, betra fyrir þá að hafa hann inná, sérstaklega þar sem gæjinn getur ekki gefið fyrir með vinstri. Hef aldrei skilið hvernig atvinnumenn í fótbolta geta verið svona einfættir, hafa allan daginn til að æfa sig! Á klassa launum, fá nánast meira á viku en ég á ári. Vorkenni þeim ekkert þó maður setji þá kröfu að þeir geti sparkað aðeins með verri löppinni.

  Var búinn að ákveða að næsta komment mitt hér yrði á jákvæðunótunum og horfði ég á leikinn með því hugarfari… og þetta er afraksturinn

Liðið gegn Portsmouth

Samningaviðræður við Reina