L’pool 2 – PSV 0

Okkar menn unnu í kvöld góðan og öruggan 2-0 sigur á PSV Eindhoven í mjög einhliða leik á Anfield. Fyrir vikið erum við búnir að tryggja okkur sigur í riðlinum, þrátt fyrir að einn leikur sé til góða og það verður áhugavert að sjá hverjir fá að spila útileikinn gegn Galatasaray í síðustu umferðinni.

Rafa stillti upp nær óbreyttu liði í kvöld, eina breytingin var sú að Bellamy vék fyrir Crouch. Sú breyting átti eftir að borga sig. Liðið var sem hér segir:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Riise

Pennant – Gerrard – Alonso – Gonzalez

Kuyt – Crouch

BEKKUR: Dudek, Hyypiä, Paletta, Zenden, Luis García, Fowler, Bellamy.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill, knattspyrnulega séð, en einkenndist fremur af meiðslavandræðum okkar manna. Eftir um fimmtán mínútna leik lenti Xabi Alonso í samstuði við leikmann PSV og fékk högg á lærið. Hann þurfti að fara útaf fjórum mínútum síðar og Bolo Zenden kom inná í hans stað. Fimmtán mínútum síðar spratt Speedy Gonzalez upp vinstri kantinn og gaf hættulegan bolta fyrir sem PSV-menn björguðu í horn, en það kostaði sitt því að Gonzalez tognaði aftan á læri og þurfti einnig að fara útaf. Inná fyrir hann kom Luis García. Að öðru leyti var Liverpool með öll völdin á vellinum í 45 mínútur en gekk illa að opna vörn PSV-manna, sem lágu með alla ellefu leikmenn sína aftarlega á eigin vallarhelmingi í allt kvöld og reyndu að halda hreinu.

Í síðari háfleik gekk ekki mikið betur að opna vörn Hollendinganna og á tímabili var maður farinn að óttast að þetta myndi enda í öðru markalausa jafnteflinu í röð. Það átti þó ekki að verða. Á 66. mínútu gaf Reina boltann upp völlinn á Finnan sem framlengdi hann upp að vítateig PSV á Kuyt. Kuyt sneri manninn sinn af sér með flottri snertingu og lagði boltann innfyrir vörnina þar sem Steven Gerrard stakk sér inn og lagði boltann í nærhornið. Staðan orðin 1-0 fyrir Liverpool og leikurinn meira og minna innsiglaður, svo slappir voru Hollendingarnir í kvöld.

Nú, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum rann Jermaine Pennant úti við hægri kantinn og kveinkaði sér einnig aftan í læri, að því eð virtist með svipuð meiðsli og Gonzalez. Hann þurfti einnig að fara útaf og Craig Bellamy tók stöðu hans á hægri kantinum.

Á 89. mínútu kom svo góð sókn. Bolo Zenden braut sér leið upp völlinn og sendi góðan bolta á Luis García inní vítateig PSV. Sá bolti var aðeins of langur og García þurfti að elta hann niður að endamörkum, þaðan sem hann gaf hann strax fyrir á fjærstöngina. Þar mætti Kuyt honum en í stað þess að skalla að marki skallaði hann til baka á nærstöngina þar sem Peter Crouch var óvaldaður og setti boltann í netið. 2-0 fyrir okkar mönnum og sigur í riðlinum gulltryggður!

MAÐUR LEIKSINS: Dirk Kuyt á hrós skilið fyrir kvöldið, þrátt fyrir að hafa ekki leikið neitt sérstaklega vel á heildina litið. Hann vann ötullega allan leikinn en lítið gekk upp hjá honum fyrr en hann lagði upp markið fyrir Gerrard. Hann skilaði þó af sér tveimur stoðsendingum í kvöld og fær fyrir það prik í kladdann.

En menn leiksins voru tveir, þeir Peter Crouch og Steven Gerrard. Saman sáu þeir um að stjórna sóknarleik Liverpool og voru allt í öllu á vellinum. Ég held að Crouch hafi skilað hverjum einasta bolta af sér á samherja í kvöld á meðan Gerrard minnti okkur á það hversu dóminerandi hann getur verið á miðjunni þegar hann nennir því. Það var engin tilviljum að þeir skoruðu mörk liðsins í kvöld og eru vel að því komnir að vera valdir menn leiksins.

31 Comments

 1. Vó, það er ekki oft sem ég spái einhverju rétt:

  >Gerrard skorar fyrsta markið, svo Crouch (sem byrjar inná) og svo Kuyt.

  Þetta sagði ég fyrir leikinn. Ég reiknaði náttúrulega með aðeins lengri uppbótartíma, sem hefði dugað fyrir markinu hans Kuyt 🙂

  Annars fínn leikur, við miklu betri og PSV í vörn mestallan leikinn. Frábært mark hjá Gerrard og auðvitað skoraði Crouch. Mikið var gaman að geta aftur glaðst yfir góðum sigri og góðum leik.

  Og við UNNUM riðillinn okkar í Meistaradeildinni og enn ein umferð eftir! :biggrin2:

 2. Það var magnað að sjá Gerrard í leiknum. Hann var ótrúlega duglegur, hljóp fram og tók þátt í sóknum og tæklaði menn eins og óður værri aftarlega. Var líka góður að hvetja menn áfram. Loksins sjáum við manninn eins og við viljum hafa hann! Vinnandi allan tímann og skila sínu.

  Verst bara að missa Xabi, Speedy og Pennant meidda, vonandi verður það ekki lengi. Held að við þurfum á þeim að halda í komandi jólatörn!

 3. Gonzalez sleit vöðva aftan á læri, frá í sex vikur. Alonso er víst alvarlega meiddur á ökkla og verður lengi frá, en Pennant er sennilega bara tognaður, og ætti að verða leikfær fljótt aftur. En það er samt annars nokkuð ljóst að miðjan verður ansi skrautleg í næstu leikjum.

  Annars fínn leikur hjá liðinu, stjórnuðu honum algjörlega frá upphafi til enda, hefðu kannski mátt vera aðeins beittari fram á við, en náðum samt að skora tvö fín mörk. Frábært líka að sjá Pepe Reina sýna það sem við vitum að hann getur, hann dílaði við allt sem hann þurfti að díla við, og náði einni frábærri markvörslu í uppbótartíma. Maður leiksins.

 4. Reina var kannski ekki maður leiksins – Gerrard var maður leiksins án nokkurs vafa í mínum huga, en ég minntist akkúrat á það við vin minn sem var að horfa á leikinn með mér að það væri allt annað að sjá til Reina núna. Hann er einsog nýr maður, uppfullur af sjálfstrausti. Gott mál.

  Veit ekki hvar þú færð það út að Speedy verði frá í 6 vikur. [Rafa tala um a.m.k. 2 vikur](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N154170061122-2232.htm). Þarna er umtalsverður munur.

 5. Er Arnar Björnsson hálfviti?

  “Liverpool þarf að gera miklu betur.” – Liverpool voru að enda við að klára frekar auðveldlega sterkasta lið riðilsins fyrir utan þá sjálfa og vinna riðilinn með einn leik til góða.

  Loksins sagði Heimir eitthvað að viti þegar hann sagði: ” Já en Arnar, þeir voru að vinna riðilinn…”

  Þversagnakenndasta tal sem ég hef orðið vitni að.

 6. Já, Liverpool eru búnir að fá 13 stig af 15 mögulegum í riðlinum.

  Og Peter Crouch er fjórði markahæsti maður Meistaradeildarinnar, með einu marki minna en markahæstu mennirnir þrír.

  Ég er sammála, þetta gengur náttúrulega ekki. :biggrin2:

 7. Ég er mjög sáttur við úrslit leiksins, og Steven Gerrard í fyrri hálfleik var frábær. En eins og þulirnir á Sýn sögðu, þá sást hann lítið í seinni hálfleiknum, fyrir og eftir markið sitt. Liðið var alls ekki nógu grimmt fram og stundum voru þessar sendingar fram pínlegar. Kuyt var vinnusamur sem fyrr og á hrós skilið, enda leggur hann upp bæði mörkin, en já … sammála því að yfir það heila var hann ekki að spila mjög vel. Við áttum einu fleira skot í kvöld, bæði liðin áttu 3 skot á rammann … mér fannst yfirburðir Liverpool virka meiri. Skrýtið að sjá þessa tölfræði.

  Ég vil sjá þessa grimmd fram á við og baráttu eins og Steven Gerrard sýndi í fyrri hálfleik og þegar liðið skoraði fyrra markið, því sannarlega var það eitt af mörkum kvöldsins. Eflaust erfitt að tjúna liðið saman eftir slysaáföll fyrri hálfleiksins, en stórlið eins og Liverpool á að geta það.

  Öruggur og mjög sanngjarn sigur hjá okkar mönnum, en ég veit að liðið getur miklu meira. Eru þetta ósanngjarnar kröfur? Ég held ekki.

  Riise olli mér vonbrigðum og Pennant var ekki góður. En þrátt fyrir að Steven Gerrard hafi verið frábær í fyrri hálfleik og skorað í seinni, þá fannst mér yfir heildina litið Peter Crouch vera einn maður leiksins.

 8. Hjartanlega sammála að Crouch og Gerrard hafi verið saman menn leiksins.

  Annars er dálítið fyndið ef horft er á það sem Snorri segir um tal þeirra sýnarmanna að LFC var að bæta stigamet sitt í meistaradeildinni og á enn eftir að spila einn leik.

  01/02- 12pts, 7pts
  02/03-8pts
  04/05- 10pts
  05/06-12pts
  06/07-13pts

 9. Við vinnum þessa helvítis Meistaradeild bara aftur – Er ekki örugglega stemning fyrir því 🙂

 10. Frábært að komast á sigurbraut aftur.

  Ég er að horfa á leikinn núna í óbeinni og ég verð bara að lýsa hneykslun minni á lýsendunum.

  Núna rétt áðan þegar Xabi Alonso meiddist þá sagði Arnar Björns að honum fyndist Alonso ekki vera nógu góður fyrir Liverpool, að hann ætti að vera miðjumaður nr.2 á eftir Gerrard og þá væntanlega Sissoko líka (þó hann nefni það ekkert).
  Þá fylgir Logi á eftir og segir að hann hafi verið góður þegar við urðum Evrópumeistarar, en eftir það bara ekki nógu góður.

  Ég spyr bara, hafa þessir menn ekki horft á leik með Liverpool? Sjá þeir virkilega ekki hversu góður Xabi er?
  Hálfvitar, og þetta eiga að vera sérfræðingar.

  Já, svo er Benitez varfærinn framkvæmdastjóri ekki ósvipaður Houllier. Og Gerrard á alls ekki að vera hægramegin á miðjunni. Það er greinilegt að þeir hafa ekki horft á marga leiki með LFC þar sem hann er á hægri.Það vita allir sem vilja vita að hann er ekki klíndur á vænginn heldur er hann að freerola um allan völl (Annars nenni ég ekki að fara í þær umræður núna).

  Nóg í bili, ég ætla að láta þá pirra mig aðeins meira. En ég kalla engu síður eftir professional lýsendum næst og að menn viti hvað þeir eru að tala um.

  Áfram Liverpool!!

 11. Mér finnst nú samt ansi margt til í því sem Arnar var að segja. Okkar menn voru ekki góðir í kvöld og hafa, eins og væntanlega allir þeir sem lesa þessa síðu vita, ekki verið góðir að undanförnu. Ég er þeim Arnari og Loga hjartanlega sammála með að Liverpool liðið vantar sárlega betri bakverði og ég vil líka meina að það vanti betri vængmenn.

  Þeir Finnan og Riise eru eflaust ágætir til síns brúks en alls ekki meira en það. Finnan er góður varnarmaður og myndi nýtast vel í liði sem liggur til baka og verst heilu og hálfu leikina, en í liði eins og Liverpool þar sem maður vill sjá meiri sóknarbolta spilaðan og þá sérstaklega meiri þátttöku frá bakvörðunum, þá er Finnan langt frá því að vera nógu öflugar fyrir Liverpool.
  Riise er náttúrulega bara eitt stórt spurningamerki í mínum huga. Hann getur átt fína leiki þar sem hann kemur vel fram og á góðar sendingar fyrir markið, en þeir eru of fáir. Alltof oft finnst mér að hann sé að spila leiki eins og í kvöld þar sem hann gerði alltof margar skissur, átti lélegar sendingar og fyrirgjafir og það sem mér finnst kannski vera hans helsti galli er að í mínum huga er hann afleitur varnarmaður. Honum tókst meira að segja að gera gloríur í kvöld á móti þessu arfa máttlausa PSV-liði, t.d. í lokin þegar hann missti boltann yfir sig og PSV gaurinn komst í dauðafæri sem Reina varði. Riise er eiginlega svona “hvorki né” leikmaður í mínum huga, hvorki nógu góður varnarlega né nógu “solid” og stöðugur sóknarlega.

  Pennant og Gonsalez eru að mínu viti ekki nærri nógu góðir leikmenn til að bera uppi vængspil Liverpool. Í rauninni finnst mér þeir ekki nógu góðir leikmenn fyrir Liverpool yfir höfuð. Ég er þó til í að sýna Gonsalez smá þolinmæði vegna þess að hann er enn ungur og er að spila sína fyrstu leiki í ensku deildinni, en samt finnst mér hann ekki hafa sýnt nokkurn skapaðan hlut til þessa í búningi Liverpool. Ég minnist þess ekki að hann hafi komið boltanum fyrir markið og hvað þá átt sæmilega fyrirgjöf sem skapaði einhverja hættu.
  En enn pirraðari er ég útí Pennant og kaupin á honum. Mér finnst hann bara ekki skila nokkrum sköpuðum hlut til þessa liðs. Hann á aldrei þátt í neinni uppbyggingu sem á sér stað í liðinu (þá sjaldan sem það er eitthvað í gangi!!!!) og þegar hann er að reyna að taka menn á eða að koma boltanum fyrir markið þá finnst mér alltaf eins og meðalmennskan sé í fyrirrúmi. Mér finnst það liggja í augum uppi að með þessa menn í stórum hlutverkum þá verður Liverpool aldrei í neinni toppbaráttu á neinum vígstöðum.
  Mér fannst líka augljóst í kvöld þegar Luis Garcia kom inná þá bara einhvern veginn breyttist allt. Ég er ekkert sérstakur stuðningsmaður hans en í fyrsta sinn í kvöld gerði ég mér ljóst hversu rosalega mikilvægur hann er fyrir þetta lið. Ég held að hann sé einn af mjög fáum í þessu liði sem spilar með höfðinu, þ.e. hann þefar uppi möguleika og glufur á vörnum andstæðinganna og er alltaf tilbúinn að taka smá áhættu. Spilar ekki eins og vélmenni sem gerir bara það sem því er sagt að gera og þorir ekki að gera neitt óvænt af ótta við að gera mistök. Með tilkomu hans í kvöld færðist miklu meiri ró yfir aðra leikmenn liðsins og hann er líka þannig leikmaður sem vill alltaf fá boltann og er alltaf tilbúinn að reyna eitthvað óvænt. Mér er í rauninni sama hvort hann er að spila hægra eða vinstra megin á vellinum, mér finnst að hann verði að vera í liðinu þegar hinir vængmennirnir eru ekki betri en raun ber vitni.

  Ég gæti eflaust setið í klukkutími í viðbót og látið reiði mína og pirring bitna á lyklaborðinu. Ég gæti líka talað um margt annað í leik liðsins sem hefur farið í taugarnar á mér að undanförnu, en það sem ég er búinn að segja hérna er í rauninni það sem mér finnst standa liðinu helst fyrir þrifum. Þetta er alveg burtséð frá því hvernig lykilmenn í öðrum stöðum hafa verið að spila að undanförnu, því mér finnst alveg ljóst að liðið er nógu vel mannað á miðjunni, í miðvörðunum og í sókninni til að það geti náð langt og orðið að “alvöru fótboltaliði” þó svo að það megi lengi gott bæta.

  Ég er hins vegar ekkert búinn að gleyma því að Liverpool vann í kvöld, og mér finnst frábært að þeir séu búnir að vinna riðilinn en ég er samt ekki sáttur!!!!

  Góðar stundir

 12. >Ég gæti eflaust setið í klukkutími í viðbót og látið reiði mína og pirring bitna á lyklaborðinu.

  Jesús fokking Kristur!

  Við vorum að vinna okkar riðil í Meistaradeildinni og höfum fengið 13 stig af 15.

  Við unnum í kvöld Hollandsmeistarana (sem unnu deildina með yfirburðum), sem virtust vera ákveðnir í því að liggja í vörn allan tímann.

  Við settum félags-stigamet í Meistaradeildinni með einn leik eftir.

  Og samt ert þú þunglyndur og reiður. Í alvöru talað, þetta er ekki hægt. Já, það var ekki allt fullkomið í kvöld, en hvenær gerist það eiginlega?

  Hvernig nenna menn að standa í því að fylgjast með Liverpool ef menn geta ekki glaðst yfir sigurleikjum og ákveða að líta aðeins á neikvæðu hliðarnar eftir leiki. Ég bara get ekki skilið svona hluti.

  Hver er tilgangurinn með því að horfa á fótbolta ef menn njóta ekki sigranna? Hvernig varstu eftir Istanbúl, Atli? Varstu að svekkja þig á því að Traore væri ekki nógu góður bakvörður, Baros ekki nógu sterkur framherji og að Dudek klúðraði nokkrum markvörslum í fyrri hálfleik? Jafnvel á besteu stundum er alltaf hægt að finna neikvæðar hliðar ef menn bara nenna.

 13. Ég gæti eflaust setið í klukkutíma í viðbót og látið reiði mína og pirring bitna á lyklaborðinu. Þá er ég ekki að meina vegna liðsins, heldur svona ótrúlegra ummæla eins og félagi Atli lætur hér í ljós. Ætla hér með að draga pistil minn um “sérfræðinga” tilbaka, þetta snýst ekki lengur um tilfinningar þegar menn geta komið og hraunað gjörsamlega yfir liði sitt eftir afar sannfærandi öruggan sigur og nýtt met í stigasöfnun í Meistaradeild Evrópu. Damn.

  Það er eitt að finna punkta sem hægt er að bæta, en Come On, get real.

 14. Rólegur Atli. Ég er sjálfur búinn að gagnrýna Liverpool mikið undanfarið en finnst þessi pirringur þinn vægast sagt ekki koma á réttum tíma.

  Liverpool vann í kvöld og vertu ánægður með það. Við unnum riðilinn og megum vera sæmilega ánægðir með árangurinn í Champions League það sem af er í ár, ég er síðan viss um að Liverpool verður komið á fullt flug þegar keppnin byrjar aftur í febrúar og allir verða komnir úr meiðslum.
  Það að vera voða neikvæður eftir leikinn í kvöld er bara ekki réttlátt – við vorum vængbrotnir að spila gegn liði sem er með mikla reynslu í Meistaradeildinni, eru klókir og kunna að verjast. Það voru PSV en ekki Liverpool sem pökkuðu í vörn.

  Gerrard loksins að spila eins og fyrirliði 🙂 ,frábært að sjá þessar tæklingar hjá honum og skoraði gott mark eftir glæsilegt touch frá Dirk Kuyt. Svona samvinna og skilningur þeirra á milli er vísir að einhverju mjög góðu.

  Gonzalez er sko góður leikmaður, það hef ég séð og er viss um að hann spili mun betur þegar hann er kominn inní enska boltann og liðið. Hann hefur mikinn hraða og skotkraft, ákveðinn x-factor svipað og Garcia. Þú segist ekki muna eftir því en hann átti allavega eina mjög fasta og stórhættulega lága sendingu inní teig í fyrri hálfleik sem skapaði næstum mark.
  Sjáum hinsvegar til með Pennant, ekki jafn viss um hann nái sér á strik með Liverpool en það er samt kannski ekki rétt að afskrifa hann alveg strax.

  Að lokum spáði ég hárrétt um að Agger, Crouch og Gonzalez myndu byrja inná, Garcia myndi hafa úrslitaáhrif kæmi hann inná og spáði einnig 2-1 fyrir annaðhvort liðið, (líklega)Liverpool. Sá auðvitað fyrir að PSV myndu fá dauðafæri í lokin þegar okkar menn myndu missa einbeitinguna 2-0 yfir eins og Riise gerði en hélt að PSV myndu nú drullast til að skora! :tongue:

  Áfram Liverpool!

 15. Þessi pistill Atla tengdist nú ekki endilega þessum leik né þessum frækna sigri í riðlinum. Meira svona framtíð klúbbsins. Leyfiði manninum að svekkja sig á ákveðnum mönnum svo lengi sem hann rökstyður sitt mál. kom sér kannski illa fyrir hann Atla okkar að skrifa þetta eftir jákvæð úrslit.

  Annars ágætis sigur, verst að ég hef meiri trú á að við sigrum meistaradeildina ef við lendum í meira basli. Hefur eiginlega sýnt sig síðustu ár.
  Nú er bara að vona að meiðsl okkar manna séu minni háttar og fyriliðinn okkar kominn í stuð og fari að brosa inn á milli.

 16. Til hamingju með sigurinn poolarar…

  Jæja núna fengum við Gerrard á miðjuna og hvernig leik átti nú fyrirliðinn okkar í kvöld?
  Jú fyrri hálfleikur brilliant, góð hreyfing á honum með og án bolta stjórnaði spilinu og var sannur fyrirliði. En hvað gerðist þá í seinni hálfleik?? Eins góður og hann var í fyrri hálfleik þá var seinni hálfleikurinn frekar daufur. Hann týndist algjörlega, enginn bolti fór í gegnum hann og á tímabili var hann kominn svo djúpt á völlinn að það lá við að við værum með fimm manna vörn. Svo kom markið og það verður ekki tekið af honum hlaupið var eðal hjá honum. Reyndar var þetta mark snilld frá byrjun… Reina með langa sendingu á Finnan sem sendir á Kyut sem snýr af sér varnarmann og inn á Gerrard sem klárar mjög vel. En það sem verra var Gerrard týndist aftur!!!

  Hvað veldur því að Gerrard týndist svona?? Hugsanlega af því að Zenden var þarna með honum og Gerrard hafi þá þurft að taka að sér hlutverk varnarmiðjumannsins. En sem slíkur hefði hann átt að geta fengið boltann djúpt á vellinum og komið með sendingar út á kantana.

  Heilt á litið var þetta fínn leikur hjá okkar mönnum, slæmt að missa þrjá leikmenn í meiðsli. Mér hefur fundist Alonso vera að koma til, nú Gonzalez er skruggu fljótur og þegar hann venst enska boltanum held ég að hann eigi eftir að eiga vinstri kantinn, Pennant þarf að læra það að boltinn er fljótari í förum en hann sjálfur…

  En nú ætla ég að fá að pirrast smá 🙂 Hvað er málið með það að menn sem eru að fá 20þ+ pund á viku geti ekki tekið á móti bolta??? Það er sendur einfaldur jarðarbolti á menn og þeir eru að missa hann tvo til þrjá metra frá sér eða að missa boltann upp í loftið. Það eru kannski tveir menn sem geta tekið á móti bolta og það eru Garcia og Alonso. Allir aðrir þurfa 2-3 snertingar áður en þeir eru komnir með boltann undir control og geta farið að hugsa um hvað þeir ætli að gera næst við boltann.

  Á meðan þetta er í ólagi þá fáum við aldrei fljótandi og hraðan leik hjá Liverpool. Sjáið lið eins og arsenal, united, barcelona þar geta allir tekið á móti boltanum og komið honum í spil með einni snertingu, fyrir utan nokkra varnarmenn og einn boxara kannski 🙂

  Fyrra markið okkar er dæmi um hvað gerist ef menn geta tekið á móti bolta og komið honum strax frá sér… Reina sendir langan á Finnan sem tók hann niður í fyrsta, dripplar honum tvisvar sendir á Kyut sem snýr og í næsta skrefi sendir hann á Gerrard sem skorar með fyrstu snertingu. Í það heila kannski 7 snertingar á bolta.

  Annars var þetta góður sigur og vonandi að sjálfstrausið aukist við þetta og að meistari Benitez fari að æfa tæknina hjá okkar liði 🙂

  Áfram Liverpool

 17. Frábær sigur hjá okkar mönnum. Við sýndum karakter í kvöld. Þrátt fyrir að missa menn út af þá hélt liðið haus og kláraði þetta frábærlega.

  Mér finnst frábært að koma á þetta blogg og lesa umræður. Það er afar sjaldan að ég er ónægður með stjórnendur Liverpool-bloggsins!! En ég verð að segja að ég er óánægður með að sjá Einar Örn og SStein að vera amast eitthvað út í Atla og fleiri sem vilja tjá sig um veikleika í liðinu. Stundum er hægt að vera óánægður með menn og ákveðna þætti í liðinu þrátt fyrir sigur..!!

  Mér fannst gagnrýni Atla vera óvenju vel ígrunduð og varlega orðuð. Ekki þar með sagt að ég sé honum sammála í öllu.

  Aftur….magnað að sjá okkar menn vinna í kvöld. Nú reynir á Gerrard í næstu leikjum. Ég er satt best að segja dálítið forvitinn að sjá “hollinguna” á okkar liði nú þegar Gerrard verður auljóslega að taka að sér stjórnina á miðjunni. Vonandi er þetta ekki of stór biti fyrir okkar menn að kyngja að vera bæði án Sissoko og Alonso.

  Áfram Liverpool…..

 18. En Jón H, ættir þú þá nokkuð að vera að amast út í okkur fyrir að tjá okkur um, það sem okkur finnst vera ósanngjarna (á þessum tímapunkti) gagnrýni á liðið? Um þetta snýst þetta í heild sinni, tjá sig.

  Btw. Ég er ekki einn af stjórnendum bloggsins, skrifa pistla og hugleiðingar hérna inn.

 19. >Mér fannst gagnrýni Atla vera óvenju vel ígrunduð og varlega orðuð. Ekki þar með sagt að ég sé honum sammála í öllu.

  Já, en umræðurnar hérna undanfarnar vikur hafa verið stanslaust á neikvæðum nótum. Ég var ekki að setja útá innihald gagnrýninnar, heldur einfaldlega að furða mig á því að menn skuli vera reiðir og pirraðir *líka* þegar við vinnum leiki og setjum stigamet í Meistaradeildinni.

  Málið er að eftir alla leiki er hægt að finna neikvæða hluti, líka eftir Istanbúl. Það leika afar sjaldan 11 leikmenn fullkominn leik. Atli var ekki bara að gagnrýna liðið, heldur sagðist geta setið í klukkutíma og pirrað sig yfir liðinu. Og það eftir sigurleik. Ég bara skil ekki svona.

  Ég spyr mig einfaldlega hvað menn fái þá útúr því almennt séð að fylgjast með fótbolta.

 20. Þetta var afar sannfærandi sigur okkar manna í gær þar sem við gerðum það sem þurfti og erum búnir að vinna riðillinn.

  Vissulega getum við verið ósáttir við gengi liðsins í deildnni en ég minni á þetta:

  Man U er ekki öruggt áfram.

  Barcelona er ekki öruggt áfram.

  Roma er ekki öruggt áfram.

 21. Arsenal heldur ekki öruggt áfram… Verða án Henry í erfiðum útileik gegn Porto þar sem þeir verða að ná jafntefli til að vera öruggir…

  Vildi að ég hefði séð leikinn svo ég gæti tjáð mig eitthvað af viti! 🙂

  Góð orð hjá Einari samt sem áður að það er nánast ALLTAF hægt að finna neikvæða hluti eftir leiki, það er bara þannig…

 22. Góður leikur, Crouch besti maður vallarins, er hjartanlega ósammála þeirri hörðu gagnrýni sem Pennant hlýtur hér, hann átti nokkrar flotta crossa, einn eftir að hafa farið fram hjá þremur, auk þess sem hann átti glæsilega sendingu sem sleppti Gerrard einum í gegn eftir þríhyrning. Ég er ekki að segja að hann hafi átt stórleik en mér þykir það stóryrði að hann skili engu til liðsins, það sást meira segja til hans í varnarleiknum, eitthvað sem Rafa er að laga hjá honum. Þetta er náttúrulega bara mín skoðun en ég stend við þá skoðun mína að Gonzalez og Pennant muni þegar upp er staðið báðir reynast góðir leikmenn fyrir Liverpool, verða komnir í gírinn um jólin vonandi.

  Eigum við ekki að segja að þetta sé fyrsti leikurinn í góðu runni sem Liverpool er að byrja á.

  Red4Life

 23. Ég get nú bara tekið undir gagnrýnina af mörgu leiti. Mér fannst við spila virkilega illa í gær. Sóknarleikurinn hjá okkur er eins og sýndur hægt(vantar bara “R” merkið efst í hornið), ég man bara aldrei eftir að hafa séð jafn hægan og tilviljunarkendan sóknarleik hjá Liverpool í mörg mörg ár…þetta er verra en undir stjórn GH, í það minnsta ekki mikið betra. Í ofanálag þá bökkuðum við alveg eftir fyrra markið og gáfum eftir öll svæði á miðjunni sem mér finnst óásættanlegt á heimavelli gegn liði eins og PSV, með fullri virðingu fyrir þeim.

  Rafa þarf að fara skoða sóknarleik liðsins alvarlega, þetta er bara ekki mönnum bjóðandi. Vissulega skoruðum við tvö góð mörk í gær og auðvitað gleðst maður yfir sigrinum, að vera búnir að vinna riðilinn og allt það, en það breytir því ekki að spilamennskan í gær var langt undir því sem viðunnandi er…til allrar hamingju léku PSV enn verr en við.

  Ég hef nú hingað til varið Rafa og hef svo sem fulla trú á honum ennþá, en hann verður að fara gera eitthvað. Þegar maður horfir á hin stórliðin þá virðist sem þau geti alltaf sett í einhvern túrbógír og sett allt á fullt, legið á andstæðingunum og þjarmað vel að þeim. Hjá okkur er þetta svona “hægt en(vonandi)örugglega”.

  Bottom line: Góð þrjú stig og frábært að sigra riðilinn, en spilamennskan þarf að batna ef vel á að vera.

  PS: Aggi, okkar spilamennska var alveg jafn slæm þó þessi lið sem þú nefndir séu ekki örugg áfram 😉

 24. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með Atla hér að ofan. Vel orðaður pistill og ég er sammála honum um hvaða stöður eigi fyrst að bæta til að styrkja liðið.

  Ég skil svo sem pirring spjallstjórnenda á því að menn skuli gagnrýna þegar góður sigur vinnst en vil samt benda á að eins og Logi Ólafs benti á í lýsingunni í gær þá vantar ýmislegt í leik liðsins. Ég tek sérstaklega undir með honum þegar hann sagði að bakverðir liðsins væru ekki nógu góðir fyrir Liverpool.

  Varðandi Crouch þá get ég bara ekki tekið undir með þeim sem vilja tilnefna hann mann leiksins. Ég held að það sé einna helst tilkomið vegna þess að Arnar tók það allt í einu upp hjá sjálfum sér að dásama manninni í lok leiksins.

  Crouch átti góðan leik ef við berum hann saman við þær væntingar sem gerðar eru til hans sem leikmanns. Þær eru bara of litlar að mínu viti. Mér fannst tvö atvik í leiknum í gær besta dæmið. Það fyrsta var þegar hann fékk sendingu fram, missti boltann of langt frá sér, en náði að koma honum (með skriðtæklingu) á Pennant á kantinum. Þetta fansta Arnar frábærlega vel gert en mér fannst hann hefði einfaldlega ekki átt að missa boltann svona langt frá sér.

  Annað var þegar Crouch náði að sóla vinstri bakvörðinn og komst einn upp að endamörkum. Síðan skaut hann í varnarmann og fékk horn í stað þess að koma boltanum inn í. Í fyrsta lagi hljótum við að gera þær kröfur til leikmanna að þeir geti a.m.k. sólað einn leikmann í leik og í öðru lagi hefðum við gert þær kröfur til allra annarra leikmanna að þeir komi boltanum fyrir markið.

  Svo skil ég bara ekki af hverju menn hrósa honum þegar hann dettur langt til baka fær boltanum og sendir hann til baka á vörnina. Auðvitað fylgir hafsent honum ekki svona langt til baka. Maður sér t.d. Drogba og Nistelrooy aldrei gera þetta og svo myndu þeir aldrei frá kredit fyrir það.

  Ég vil samt taka fram að Crouch er fínn leikmaður og á meðan hann skorar mörk er í sjálfu sér ekkert út á hann að setja. Þá finnst mér hann vissulega eiga sæti í 11 manna byrjunarliði Liverpool.

  Ég vil svo taka fram að ég var mjög ánægður með leik liðsins í gær. Sérstaklega mörkin sem komu bæði eftir einstaklingsframtak. Fyrst hjá Kuyt og svo hjá Zenden.

  Svo var Gerrard frábær á miðjunni. Mér finnst þessu umræða um hvar hann eigi að spila oft undarlega. Gerrard getur spilað hvar sem er á vellinum og er einn fárra leikmanna í heiminum sem getur það. Ef allir eru heilir finnst mér betra að vera með hann á hægri kanti því Alonso og Sissoko eru einfaldlega betri leikmenn og liðið sterkara með þá innanborðs en Pennant og Gonzales. Reyndar væri best ef Kewell væri heill en þá myndi ég spila Garcia á hægri og láta annað hvort Sissoko eða Alonso víkja fyrir Gerrard eins og menn hafa verið að spila í vetur. Annars væri Garcia á vinstri.

  ér finnst umræðan því miður oftast snúast um það hvar Gerrard eigi að spila þegar hún á að snúast um hvar henti besta að láta hann spila fyrir liðið.

  Ég endurtek að það var frábært að vinna þennan riðil sem fyrirfram átti að vera mjög erfiður. Það sem stendur upp úr er reyndar hvað Bordoux var með ömurlegt lið manna sem hentu sér í gríð og erg í jörðina. Ég man bara ekki eftir að hafa séð jafn ömurlegt lið á velli áður. Þá finnst mér mjög mikilvægt að hafa unnið riðilinn. Mér finnst alltaf takmarkið að ná í 8 lið úrslit því eftir það getur allt gerst.

  Áfram Liverpool!

 25. >Ég held að það sé einna helst tilkomið vegna þess að Arnar tók það allt í einu upp hjá sjálfum sér að dásama manninni í lok leiksins.

  Ertu að segja að Kristján Atli velji Peter Crouch mann leiksins af því að *Arnar Björnsson* dásami hann? :laugh:

  >þá vantar ýmislegt í leik liðsins

  Já, við vitum það. Það hefur *enginn* reynt að halda öðru fram. En þurfum við alltaf að tala um sömu hlutina, bæði eftir sigur og tapleiki? Þurfa menn alltaf að sjá glasið hálftómt?

  >Crouch átti góðan leik ef við berum hann saman við þær væntingar sem gerðar eru til hans sem leikmanns. Þær eru bara of litlar að mínu viti.

  Maðurinn er fjórði markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar og skoraði án efa fallegasta markið í keppninni á þessu tímabili! Það er nógu gott fyrir mig og ef Kuyt hefði gert það sama, þá væru allir að tapa sér yfir því hversu góður hann væri.

 26. Jæja

  Góður sigur, er það ekki ?

  Þið vitið að það er aldrei hægt að spila fullkominn leik, því að liðin sem vinna eru þau sem vinna best úr mistökum sínum, í flestum tilfellum.

  En vonandi fara allir að vera jákvæðir, því að þetta er allt að koma hjá okkur.

  Þeir sem geta ekki verið jákvæðir ættu að hlustið á lagið okkar og reynið að skilja textann, þá munuð þið kannski skilja hvað Liverpool stendur fyrir.

  Áfram Liverpool

 27. Liverpool er með 13 stig eftir fimm leiki. Aðeins tvö önnur lið með sama stigafjölda, Valencia og Lyon. Miðað við stöðu í riðli eigum við auðveldasta leikinn eftir (við botnliðið). Verður Liverpool með besta árangurinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar?

  Liverpool er með sjö mörk í plús, aðeins Lyon með betra markahlutfall en Bayern og Valencia eru einnig með sjö. Liverpool hefur skorað 9 mörk, fjögur lið hafa skorað meira (en aðeins tvö þeirra eru á toppi síns riðils) og tvö önnur hafa skorað 9. Liðið hefur fengið á sig fæst mörk: aðeins 2 þó þrjú önnur lið séu jöfn með sama árangur. Er gagnrýnin ekki kominn framúr hófi?

  Ekki rugla saman árangri í æfingarmótinu heima við keppni þeirra stóru!

  Liverpool – Kings of Europe

 28. Æi ég er svo einfaldur eitthvað. Horfði á leikinn í gær. Fínn leikur. PSV átti ekkert í honum. Við unnum 2 núll. Ég bara brosti hringinn og leið vel í allt gærkvöldi. Er meira að segja ennþá glaður!
  Eins og ég sagði þá er ég náttúrulega svona einfaldur. Mér nægir að við vinnum. Öðrum nægir það greinilega ekki.
  Ég vil bara benda þeim á eitt. Ef við höldum áfram að vinna alla leikina í þessari keppni með svona “ömurlegum leik” þá skilst mér að við vinnum keppnina. (Þið leiðréttið mig bara ef það er vitlaust.) Og fyrir mér er það nóg.

 29. Kannski ekki besti fótbolti í heimi en tel þetta frábær úrslit, sérstaklega í ljósi árangurs PSV undanfarið auk þess sem 2 meiðsli í fyrri hálfleik skemma talsvert fyrir.

  Vörnin var þétt og átti PSV í raun aðeins 1 hættulegt færi.. Gerrard sterkur á miðjunni þó aðeins hafi dregið af mönnum í leiknum.

  13 stig og sigurinn tryggður í riðlinum!!

 30. allt annað að horfa á Liverpool tvo síðustu leiki eftir að Steven Gerrard kom inn á miðja miðjuna..

Byrjunarliðið gegn PSV!

Argentískur unglingur á leiðinni?