Arsenal á morgun!

Á morgun heimsækja okkar menn hinn glænýja Emirates Stadium í London í fyrsta skipti og mæta heimamönnum í Arsenal í Úrvalsdeildinni. Það er athyglisvert að bera saman gengi liðanna í undanförnum leikjum og stöðu þeirra í deildinni fyrir þennan leik því margt er líkt með þeim. Í upphafi móts hikstuðu bæði lið en á meðan okkar menn töpuðu fyrir Chelsea á Stamford Bridge í september unnu Arsenal óvæntan útisigur á Man U og þeirra tímabil fór á fullt fyrir vikið. Okkar menn töpuðu fleiri leikjum á meðan Arsenal-liðið fór á kostum og vann fimm leiki í röð. Síðan þá hafa þeir hins vegar ekki unnið leik og þar á meðal gert þrjú jafntefli í röð í deildinni, og svo töpuðu þeir um síðustu helgi gegn West Ham þar sem Arsene Wenger og Alan Pardew slógust eins og frægt er orðið. Á sama tíma og þeirra tímabil snarstöðvaðist eftir gott gengi fór okkar tímabil í gang eftir slæman septembermánuð og eru okkar menn nú búnir að vinna fimm leiki í röð, þar af þrjá í deildinni.

Fyrir þennan leik eru okkar menn í áttunda sæti með sautján stig, jafnmörg og Everton sem eru að tapa í dag, en Arsenal eru í því sjötta með átján stig og leik til góða á önnur lið í kringum sig. Chelsea voru að fara í 28 stig í dag á meðan United geta farið í 31 stig á eftir. Þannig að leikur morgundagsins verður áhugaverður fyrir mjög sérstakar aðstæður: það er ekki aðeins búið að stilla öðru liðinu upp við vegg í titilbaráttunni, heldur báðum. Ef Liverpool tapa á morgun er þeirra titilbarátta endanlega úr sögunni, og í raun gildir það sama um Arsenal þótt þeir eigi leik til góða. Að missa Chelsea og United einhverjum 10-14 stigum fram úr sér er einfaldlega of mikið, bæði fyrir Liverpool og Arsenal. Þannig að á meðan bæði lið geta tæknilega séð lifað af með jafnteflið mun sigur dæma annað liðið úr leik í titilbaráttunni en veita hinu liðinu að sama skapi mikinn styrk.

Hjá okkar mönnum er það náttúrulega helst í fréttum að Momo Sissoko er frá vegna meiðsla í öxl og kemur væntanlega ekki inn fyrr en í janúar, í fyrsta lagi. Harry Kewell er þá enn meiddur og Fabio Aurelio er ekki alveg orðinn heill heilsu en aðrir eru heilir. Í fjarveru Momo finnst mér augljóst að Steven Gerrard fyrirliði komi inn á miðjuna og Luis García taki stöðu hans á kantinum, þar sem García hefur verið duglegur að skora gegn Arsenal á síðustu árum. Ég held að Rafa stilli liðinu upp svona á morgun.

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Luis García – Gerrard – Alonso – Gonzalez

Crouch – Kuyt

Bekkur: Dudek, Agger, Zenden, Pennant, Bellamy.

Persónulega myndi ég vilja sjá Agger inni frekar en Hyypiä, þar sem Arsenal er fljótasta sóknarliðið í deildinni, en ég treysti Hyypiä samt alveg þótt hægur sé og ég held að karlinn velji reynslu Finnans fram yfir öryggi og hraða Danans.

Hjá Arsenal eru einnig meiðsli, en Tomas Rosicky missir af leiknum vegna smávægilegra meiðsla, auk þess sem Freddie Ljungberg og Julio Baptista eru enn ekki orðnir heilir. Ég hef verið að lesa nokkrar Arsenal-síður og þar vilja menn meina að Wenger muni selja sig dýrt og stilla upp 4-4-2, sókndjörfu kerfi á morgun. Liðið hjá Nöllurunum gæti því litið einhvern veginn svona út:

Lehmann

Eboue РTour̩ РGallas РClichy

Hleb – Fabregas – Gilberto Silva – Van Persie

Adebayor – Henry

Bekkur: Almunia, Senderos, Flamini, Walcott, Aliadiere.


MÍN SPÁ: Í fyrsta lagi, þá vill ég segja að ef spá mín varðandi byrjunarlið gengur upp ættum við að eiga klassískan knattspyrnuleik í vændum. Bæði lið að spila mjög sókndjarft 4-4-2 leikkerfi með hraða og léttleikandi menn í öllum stöðum? Bæði lið í bráðri þörf á að hirða þrjú stig úr þessum leik til að missa toppliðin ekki of langt frá sér? Bæði lið í þeirri stöðu að mega alls ekki tapa? Arsenal-menn að koma úr mikilli jafnteflahrinu og slagsmálaleik gegn West Ham, okkar menn að koma úr fimm sigurleikjum í röð og með fullt sjálfstraust? Ég slefa við tilhugsunina … 🙂

Það er samt ómögulegt að spá því hvernig þessi leikur fer. Hann gæti endað hvernig sem er, en ég ætla samt að vera bjartsýnn. Rafa hefur hingað til tapað báðum leikjum sínum á útivelli gegn Arsenal en það stóð tæpt síðast, aðeins hræðileg varnarmistök Gerrards gáfu Thierry Henry sigurmarkið á Highbury í febrúar sl. Ég held að okkar menn standi undir stóru orðunum – loksins! loksins! – á morgun og vinni 3-2 sigur í stórskemmtilegum leik þar sem okkar menn skori á undan, Arsenal komist í 2-1 og okkar menn hirði þetta svo með tveimur mörkum undir lokin. Ég vona bara svo innilega að þessi leikur standi undir öllum þeim væntingum sem maður gerir til hans, því á pappírnum er ljóst að þetta gæti orðið algjör bomba … B-O-B-A! 🙂

Áfram Liverpool!

17 Comments

 1. Við höfum nú ekki verið að raða inn mörkum á útivelli og Arsenal menn ekki að nýta færin. Liðin verða að vinna en passa sig nú samt. Ég spái 0-1 sigri. Crouch skorar.

  Vona Garcia verði í byrjunarliðinu. Honum virðist skemmtilegra að spila gegn góðum leikmönnum.

  Annars gaman að fá upp líklegt byrjunarlið Arsenal í leikskýrsluna.

  Áfram Liverpool

 2. Útileikurinn gegn Arsenal í fyrra var í mars Kristján, 11. mars ef mig misminnir ekki. Ég allavega var á Highbury þennan dag og ég er handviss um að það var ekki í febrúar :tongue: …eða ég held ekki, annars getur fyllerí í útlöndum með Sigurði Hjaltesteð farið alveg með tímaskynið hjá manni :laugh:

  Annars spái ég þessum leik 1-3. Gerrard setur hann ásamt Hyypia og Kuyt.

 3. ég spái því að Zenden verði á miðjunni með Alonso. Gerrad á hægri og Garcia á vinstri annars sammála Kristjáni

 4. Hólmar – þú sem sagt heldur að Alonso verði á bekknum? Ég verð að viðurkenna að mér finnst það mjög ólíklegt.

  Benni Jón – mig minnir að þessi leikur hafi verið spilaður í febrúar, og ef ég segi það ÞÁ ER ÞAÐ SATT! 😡 :tongue:

 5. Ég er nervus, en ég hlakka til. Það eru allar tilfinningar að blandast hjá mér … ég spái 1:2 og Kuyt skorar bæði!

 6. Þetta verður rosalegur leikur.. 2-3 Gerrard 1 og Kuyt 2 Crouch með 2 stoðsendingar 🙂

  Kristján, aðeins að róa sig.. Hólmar talar um Zenden á miðjuna MEÐ Alonso.. 😉

 7. Úffff….leikur sem hægt er að sökkva tönnunum í!!!

  Það er algjörlega ómögulegt að spá í þennan leik.
  En eitt er víst að þetta verður baráttuleikur með stórum stöfum.

  Nú er bara komið að okkar mönnum að borga stuðningsmönnum fyrir niðurlægjandi jafntefli gegn Sheff.Unt. og tap gegn Everton og Bolton á útivelli.

  Það er komið að því. Á morgun mun Liverpool standa undir væntingum og sigra Arsenal á þeirra eigin heimavelli með tveggja marka mun.

  Koma svo Liverpool…..

 8. Í fyrsta lagi þá vann Arsenal sex leiki í röð (ekki fimm), og einnig síðasta leik, en það skiptir svo sem ekki miklu máli 🙂

  Er ekki nokkuð hæpið að RB smelli tveimur latino gaurum á hvorn kantinn (þ.e. Speedy og H&M), í staðinn fyrir að byrja með Pennant ásamt Garcia?

  Annars held ég að nái Arsenal að komast yfir snemma (segjum fyrstu 30 mín) þá myndi ég telja sigurlíkur þeirra miklar, m.a. vegna þess að:
  a. Þeir eru orðnir frekar þéttir varnarlega með Gallas í varnarlínunni (búnir að fá 6 mörk á sig, Liverpool 12).
  b. Liverpool gæti þá ekki tekið þann pakka að spila þennan varkára fótbolta eins og þegar gera gjarnan gegn stóru liðunum, sérstaklega þegar Sissoko er ekki með til að drepa niður allt spil Arsenal-manna, heldur þyrftu þeir að sækja, sem hentar Arsenal ágætlega.
  c. Liverpool hefur fengið 1 stig á útivelli á þessu tímabili, gegn Sheff Utd (verma 19.sætið í útileikjadeildinni).

  Nái Arsenal hins vegar ekki að skora snemma þá eiga þeir það til að pirrast og gætu tapað leiknum á því.

  Núna megið þið kalla mig hálfvita og vitleysing eins og venjulega fyrir skoðanir mínar 🙂

 9. Hálfviti og vitleysingur, eins og venjulega. 🙂

  Ég er reyndar sammála þér með Arsenal. Þeir hafa átt í vandræðum með markaskorun í deildinni undanfarið, og því gæti það skipt sköpum fyrir okkar menn í þessum leik að passa að Arsenal skori ekki snemma. Ef þeir ná því gætu flóðgáttirnar opnast og þeir raðað mörkum á okkur, en ef við náum að halda hreinu fyrsta hálftímann gætu þeir pirrast og við gengið á lagið.

 10. Vonandi mætum við þeim með gömlu houllier taktíkinni. Verjumst og reynum svo að grísa inn einu marki eða svo. Í den var það Heskey sem nikkaði honum áfram til Owen þannig að ég spái því að Crouch komi Kuyt í færi (ekki í fyrsta skipti) og leikurinn sigrist þrátt fyrir að Arsenal muni sækjat mikið mun meira…….

 11. Óttast mjög að Zenden komi til með að fylla skarð Sissoko. Spái 2-0. v.Persie með mörkin …

 12. Leiðinlegt að vera svona svartsýnn. Spá til vara glæstum 4-1 sigri okkar manna. Gerrard með þrennu 😉

 13. “ég held að karlinn velji reynslu Finnans fram yfir öryggi og hraða Danans.” … shiii ég þurfti að lesa þetta tvisar þar sem ég hugsaði um Finnan en ekki Hyypiä 🙂

  Ég hins vegar vill Daggerinn inn á! Hann hefur bara verið frábær í síðustu leikjum.

  spái 1-2 fyrir okkur!

 14. Xabi Alonso telur að Englandsmeistaratitillinn sé runninn okkur úr greipum. Ég verð að vera sammála honum þar því miður.

  Ég hef fulla trú á að við töpum ekki þessum leik í dag á móti Arsenal en við náum aldrei titlinum.

 15. Byrjunarliðið komið, Garcia ekki í hóp:

  Kristján Atli sannspár, nema að Zenden á miðjunni með Alonso.

Liverpool gegn Arsenal í deildarbikarnum

Byrjunarliðið komið gegn Arsenal.