Reading á morgun

Okkar menn mæta Reading á morgun en þessi sömu lið mættust fyrir rúmri viku síðan, þá í enska deildabikarnum. Liverpool fór þar með 4-3 sigur af hólmi í leik sem varð alltof spennandi þegar uppi var staðið.

Rafa breytti EKKI liðinu í síðasta leik en hann mun væntanlega breyta liðinu á morgun. Á BBC segir að Luis Garcia verði ekki með, en Rafa segir á opinberu síðunni að það komi ekki í ljós fyrr en á morgun. Þar er aftur á móti staðfest að Xabi verður með, öfugt við það sem sagt er á BBC. Bellamy er ekki kominn í form og spilar ekki en Mark Gonzalez er til í slaginn. Hann gæti því komið inn í liðið fyrir Garcia…

Ég sé ekki fyrir mér neitt annað en öruggan sigur í þessum leik. Eftir góða sigra gegn Aston Villa og Bordeaux er liðið komið í gang og er hægt og sígangi að hefja sig til flugs. Vonandi heldur það áfram á morgun…

Eitt lykilatriði þarf að komast í lag ef við ætlum okkur á verulegt skrið, við verðum að fara að halda markinu hreinu. Það eru svosem ekkert ný fræði, ekki frekar en að það sé mikilvægt að skora mörk, en ég held að við þyrftum að taka eins og fimm leiki í röð þar sem við höldum markinu hreinu.

Við þurfum að ná okkur á almennilegt flug og passa okkur að detta ekki niður í meðalmennskuna á ný. Það er ekkert sjálfgefið að komast inn í Meistaradeildina, en ég held að titillinn sé ansi fjarlægur draumur eins og staðan er í dag.

Ég held líka, að eins og Aggi benti á í færslunni hér fyrir neðan, að Steven Gerrard sé að komast í sitt gamla góða form. Hann var “settur” út á hægri kantinn gegn Bordeaux en hann færði sig mikið inn á miðjuna, þar sem hann á auðvitað heima, þar er hann bestur (já ég veit að hann spilaði mikið á kantinum á síðasta tímabili og var frábær), og vonandi heldur hann áfram að sanna það að hann er besti miðjumaðurinn á Englandi í dag.

Með Gerrard í formi, trausta vörn og Reina fullan af sjálfstrausti held ég að við séum að fara inn í góða hrinu af sigurleikjum. Kannski draumórar í mér en ég er sannfærður um að Gerrard rífi liðið upp og Liverpool sýni að þeir eru stórveldi sem á heima með hinum stóru liðunum við topp deildarinnar. Meðal liða fyrir ofan okkur í töflunni eru Bolton, Portsmouth, Aston Villa og jú, Everton. Þannig á það að sjálfsögðu ekki að vera, með fullri virðingu fyrir hinum liðunum. Eða flestum hinum liðunum.

Byrjunarliðið á morgun… Hmmmm… nú er Rafa endanlega orðinn óútreiknanlegur eftir að hafa beytt liðinu 99 sinnum í röð, og svo beytir hann allt í einu bara ekki neinu! Hvað á maður að halda? Jæja, en ég held að Garcia verði semsagt ekki með og ég spái því að Momo verði hvíldur. Ég tippa á þetta byrjunarlið, en auðvitað er erfitt að spá eins og venjulega:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Pennant – Alonso – Gerrard – Mark Gonzalez

Kuyt – Crouch

Bekkur: Dudek, Agger, Aurelio, Zenden, Fowler.

Mín spá: Ég er að velta því fyri mér hvort ég eigi að koma með stór orð, og stóra tölu, en ég ætla að láta 3-0 sigur á Anfield duga. Lið eins og Reading á ekki að taka neitt stig af okkur þar og þeir eiga heldur ekkert að ná að skora. Crouch skorar eitt, Kuyt annað og Fowler úr víti á lokamínútunum eftir að hafa komið inn af bekknum 🙂

YNWA

10 Comments

 1. Ég er nokkuð sammála byrjunarliðinu en ég held samt að Agger komi inn en ég þori ekkert að spá fyrir um hvor þeirra Hyypia eða Carragher fær að víkja og svo spái ég því að Fowler byrji inná, hann skoraði jú gott mark á móti Reading um daginn og gæti tekið upp á því aftur og ég ætla að halda því fram að Kuyt byrji bekknum og komi svo öflugur inn snemma í seinni hálfleik, 4-0 fyrir okkar mönnum 🙂

 2. Mikið er mér skítsama hvort að við höldum markinu hreinu eða ekki svo lengi sem við skorum mörk. Frekar kýs ég 3-1 en 2-0 til dæmis. Mikilvægt hins vegar að vörnin sé traust og örugg með sig en að halda hreinu er ekkert keppikefli finnst mér.

 3. Fyrr í vikunni var ég viss um að Fowler myndi byrja þennan leik, þar sem hann skoraði gegn þeim fyrir níu dögum síðan. En nú bendir allt til þess að Kuyt og Crouch fái að byrja saman þriðja leikinn í röð, sem er bara jákvætt að mínu mati.

  Ég sé fyrir mér að allavega tveir af Agger, Pennant og Gonzalez komi inn í liðið. Einna helst gæti ég þá trúað að Agger fái að spila, svo að Hyypiä fái smá hvíld fyrir tvo útileiki í næstu viku.

  Ég held að við sigrum þennan leik alveg örugglega, en þetta verður ekki jafn auðvelt og menn halda. Reading-menn skoruðu þrjú mörk á okkur fyrir níu dögum síðan og því ættu þeir að vera kjarkaðir fyrir morgundaginn. Vonandi mæta þeir til að sækja og við fáum skemmtilegan leik.

  3-1 fyrir okkur og “Kát” skorar fyrstu þrennuna fyrir félagið. 🙂

 4. Ég hef lesið að Alonso sé tæpur, en ekkert frétt að nokkuð ami að Sissoko. Hissa á að sjá hann ekki í hópnum í þessari færslu. Ég spái allavega að Sissoko og Gerrard spili saman á miðjunni. Engin ástæða að nota Alonso sé hann ekki 100% fit, enda spilar hannheldur aldrei vel nema hann sé í sínu besta formi.

 5. Bjartsýniskvarðinn er að hækka hjá púllurum þessa dagana.. 🙂

  Ég þarf fyrst að sjá sigur á útivelli..helst gegn Arsenal svo ég fari að fyllast von að nýju.

  Ég spá jafntefli gegn Reading. Þeir eru búnir að sýna það að þeir geta svo sannarlega staðið í “stóru” liðunum og það munaði minnstu að Þeir stæðu allhressilega í barkakýlinu á okkar mönnum ekki svo fyrir löngu. Enginn andstæðingur Liverpool þessa leiktíð hefur skorað jafn mikið á Anfield og Reading!!!

  YNWA

 6. Hann var “settur” út á hægri kantinn gegn Bordeaux en hann færði sig mikið inn á miðjuna, þar sem hann á auðvitað heima, þar er hann bestur (já ég veit að hann spilaði mikið á kantinum á síðasta tímabili og var frábær)

  Frá því hann spilaði með Gerrard í fyrsta sinn á hægri kanti þá hefur pælingin verið sú að hann færi sig inn á miðjuna. Ef menn líta á flest þessi mörk sem hann skoraði í fyrra að þá var hann ekki að koma inn af hliðarlínuni og taka frákast af skoti eða eitthvað eins og mörk Aaron Lennon fyrir Tottenham, heldur fékk hann boltann svona miðsvæðis (miðað við kantmann a.m.k.) og þrumaði honum í markið.

  Kristján Atli… “Kát”… mig rámar í að lénsmaðurinn (eoe) hafi sagt að Hollendingarnir segðu “Kæt”… er það bull í mér eða ? Spyr sá sem ekki veit :confused:

 7. Eg held að þessar breytingar hjá Rafa á leikmönnum séu að hann vilji að sem flestir spili eitthvað,þá verður minna um röfl í mönnum(cisse spilaði ekki mikið var alltaf að hóta að hætta osf.)Gott er að þekkja leikmenn( ef einhver meiðist) fyrir þann sem kemur inná,held að þettað verði skemtilegur leikur og mikið af mörkum mín spá 4-1 lifið heilir PÚLLARAR

 8. Er einmitt staddur í Rotterdam núna og hef fengið það endanlega staðfest frá heimamönnum að það er “Kájt” :biggrin:

  Líklega það næst því sem við komum að bera nafn hans rétt fram er því “Kát”. Það er ekki séns að við náum þessum hollenska framburði.

  Hef alveg verið off núna lengi, en er Momo meiddur?

 9. >Kristján Atli… “Kát”… mig rámar í að lénsmaðurinn (eoe) hafi sagt að Hollendingarnir segðu “Kæt”… er það bull í mér eða ? Spyr sá sem ekki veit 🙂

  Fyrir það fyrsta, þá finnst mér “lénsmaður” afskaplega skemmtilegt viðurnefni. Jafnvel að ég væri kallaður “lénsherra” hér 🙂

  Og nei, ég sagði “Kát” einsog SSteinn staðfestir.

 10. :smile:Sælir félagar. Gott er ef framburður á nafni framtíðarframherja okkar kemst á hreint. Þeir sem lýsa leikjunum eru ekki vissari en við og enskir eru ekkert betri. En Kát(ur) er ekki verra en Kít eða Kjúít eða hvað sem menn hefa verið að reyna að pína út úr sínum íslensku eða ensku framburðartúlum. Vonandi vinna vinna okkar menn sinn þriðja? sigur í röð og eiga þá ekki eftir nema sjö til að gera mig verulega ánægðan. Líkurnar á breyttu liði eru miklar, eiginlega 99 á móti 1. Hvað um það RB er á skilorði hjá mér og má ekki mikið brjóta af sér til að fá lífstíðardóm. :tongue: Vonandi spila okkar menn bullandi sóknarleik því það hefur sýnt sig í haust að vörnin hefur ekki haft þann styrk sem þarf til að halda hreinu og því er sókn besta vörnin og sigur vinnst ef við skorum fleiri en andstæðingurinn :blush: merkilegt nokk. Veðja á 4-2 og Gerrard setur eitt og öllum að óvörum Carra annað og Kátur 2. 🙂

Leikmennirnir hafa brugðist þjálfaranum og stuðningsmönnum.

Liðið gegn Reading komið