Nabil El Zhar til Liverpool (staðfest)!

nabilelzhar.jpgVaralið Liverpool spilaði leik við varalið Newcastle í gær, sem væri svo sem ekkert sérstaklega fréttnæmt nema af því að með liðinu lék leikmaður sem ég, og flestir greinilega, hafði ekki hugmynd um að væri kominn til Liverpool. Hann heitir Nabil El Zhar og er tvítugur sóknarmaður frá Morokkó. Hann lék áður með St Etienne í Frakklandi og við vorum orðaðir við hann stuttlega í sumar, en engar fréttir fylgdu í kjölfarið til að styðja það slúður að við hefðum áhuga á honum.

Nema hvað, í dag var það svo staðfest að hann er orðinn Liverpool-leikmaður, en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við okkur eftir að FIFA gaf honum leyfi til að skipta um lið. Það var víst eitthvað vesen í gangi með St Etienne – hann sagðist vera með lausan samning en þeir heimtuðu borgun fyrir hann – en þótt enn sé verið að deila við franska klúbbinn um borgun hefur hann fengið leyfi til að skrifa undir hjá Liverpool.

Sjálfur sagði El Zhar þetta um málið:

“St Etienne buðu mér atvinnusamning en ég hikaði við að skrifa undir því ég var ekki sannfærður um að það væri mér fyrir bestu að vera kyrr hjá þeim. Þegar ég svo mætti til þeirra við upphaf undirbúningstímabilsins í haust til að æfa með aðalliðinu var augljóst að þeir bjuggust ekki við mér og höfðu ekki gert ráð fyrir mér. Þannig að ég ákvað að pakka frekar niður og fara eitthvert þar sem ég á bjartari framtíð, og það er hjá Liverpool.

Þeir eru stór klúbbur en ég er sannfærður um að ég valdi rétt í að koma hingað. Ég ætla að slá í gegn hérna, ég stefni á að komast í aðalliðið á endanum. Ég vill sanna mig, ég veit að ef ég stend mig vel hér mun ég fá tækifæri.”

Svo mörg voru þau orð. El Zhar er víst mjög hátt skrifaður hvað varðar unga og efnilega leikmenn í Evrópu og það er því aldrei að vita nema við höfum verið að næla í algjöran gullmola. En við leyfum tímanum að leyfa það í ljós, ég á allavega erfitt með að tapa mér í spenningi þar sem við höfum of oft orðið fyrir vonbrigðum með unga og stórefnilega leikmenn. En ég er forvitinn, því er ekki að neita.

Ef þið hafið ekkert séð til El Zhar er hér rúmlega þriggja mínútna myndband á YouTube með tilþrifum kappans.

7 Comments

 1. Kristján :

  Þar sem ég veit að þú ert mjög vel skrifandi á íslensku fannst mér leiðinlegt að sjá þig skrifa Marokkó einsog þú gerðir. Ég trúi því að þú lagir þetta, takk fyrir 🙂

 2. Þetta er langt utan við efnið, en ég verð að benda á að þetta ágæta land heitir ekki Morokkó á íslensku heldur Marokkó (að ég held dregið af franska orðinu Maroc). Á ensku er nafn landsins vissulega skrifað með “o” í stað “a”, en upphaflegur ritháttur Kristjáns virðist vera merki um að hann sé undir minni áhrifum frá ensku en Nonni.

  Ég bið afsökunar á því að þessi athugasemd kemur Liverpool ekkert við. Þar sem fyrri athugasemd breytti réttu í rangt fannst mér ég samt verða að senda þetta inn.

 3. Finnst reyndar skrítið að þetta sé fréttaefni í dag 🙂

  Hann spilaði nú reyndar sinn fyrsta leik fyrir varaliðið þann 28. september gegn Sunderland og hefur verið hjá okkur í rúman mánuð. Hann staðfesti sjálfur að hann væri kominn til Liverpool í lok ágúst. Þannig að ég fatta ekki alveg hvað var í rauninni að breytast með hann 🙂

  Er þetta bara endanleg, endanleg staðfesting að hann sé orðinn Liverpool maður?

 4. Steini, hvaða heimildarmenn hefur þú eiginlega? Ég verð að viðurkenna að ég hef ekkert séð af því að hann sé kominn fyrr en í dag. En allavega, hann er kominn. 🙂

  Og þið hinir, ég er að spá í að laga ekki þessa flýtivillu mína. Leyfi henni að fara í taugarnar á ykkur fram eftir degi … :tongue:

 5. Bara hann sjálfan :biggrin:

  Það var einmitt frétt um málið þann 1.sept. á hinni frægu síðu liverpool.is, þar sem vitnað er í heimasíðu kappans. Hann er sem sé búinn að vera við æfingar hjá okkur í meira en mánuð og spilaði sinn fyrsta leik gegn Sunderland núna fyrir um viku síðan. Hægt er að sjá það staðfest á opinberri heimasíðu Liverpool.

 6. En gaurinn er alveg eins og Karate Kid í útliti. Veit ekki hvort það er gott eða vont 🙂

 7. Þessi kappi virðist hafa hæfileikana, þetta myndband lofar allavega góðu 😉

2005 versus 2006

Inn í landsleikjahlé