Newcastle á morgun

Þeir koma nú í röðum leikirnir og er ekkert nema gott um það að segja. Við fáum sem sagt strax tækifæri á að leiðrétta síðustu deildarleiki, sem því miður hafa skilað inn akkúrat engu stigi. Leikirnir hafa raðast upp þannig núna í upphafi móts að við höfum spilað einu sinni á heimavelli í deildinni og einu sinni í Meistaradeildinni, annars höfum við spilað heila sex leiki á útivelli. Fjöldi útileikja er engin afsökun fyrir stigaskortinum, en núna koma nokkrir heimaleikir í runu og því gefst hreinlega ekki betra tækifæri á að rétta hlut liðsins í deildinni. Liðið hreinlega verður að komast á sigurbraut, ætli það sér að berjast um titilinn. Það er orðið nokkuð ljóst að toppliðin eru að tapa stigum fyrr á tímabilinu en áður, þannig að það er alls ekkert eins og að allt sé búið og það strax í september. En þetta ástand sem hefur varið síðustu tvo leiki, má hreinlega ekki halda áfram. Núna þarf nokkra sigurleiki í röð.

Það er erfitt að koma auga á það hvað þarf nákvæmlega að gerast innan liðsins til að þetta megi ganga eftir, nema jú það þarf að nýta þessi helv… færi. Við höfum verið að skapa okkur fín færi, og stundum rúmlega það. Við erum bara ekki að troða þessum knetti inn fyrir marklínuna. Vörnin hefur verið að braggast til muna síðustu tvo leikina, eitt mark á okkur úr þeim og það kom hreinlega upp úr engu. Miðjan hefur að mínu mati líka verið að standa sig og sóknarmennirnir að koma sér í réttar stöður. Núna þarf bara að setja boltann nokkrum sentimetrum lengra til hliðar (í rétta átt) og fá fyrsta markið inn. Oft er það einmitt þannig að það þarf að brjóta einhvern ósýnilegan ís til að flóðgáttir opnist og menn fái fulla trú á því sem menn eru að gera fyrir framan markið.

Shay Given hefur oft reynst okkur erfiður ljár í þúfu en verður fjarri góðu gamni núna. Þetta Newcastle lið er hreinlega alveg óútreiknanlegt. Við gætum séð blússandi sóknarlið sem afar erfitt er við að eiga. Við gætum líka séð lið sem hreinlega getur akkúrat ekki neitt. Þeir virðast sjaldnast vera í stuðinu sem liggur þarna á milli. Það eru nokkrir hættulegir leikmenn þarna, Duff er góður og eins hafa þeir einn besta miðjumanninn á Englandi í dag, að mínum dómi, Scott Parker. Hann er prímus mótorinn í liðinu og sá sem ég hef mestar áhyggjur af. Þetta lið á samt ekki að vera nein fyrirstaða ef okkar menn ef menn spila af eðlilegri getu. Við erum með margfalt betri mannskap á pappírunum en þeir, en vandamálið er bara að pappírar vinna ekki knattspyrnuleiki, leikmennirnir verða sjálfir að sjá um það.

Þá að liðinu. Enn eru það einungis Harry Kewell og John Arne Riise sem eru meiddir, að minnst kosti sem maður veit af. Það er spurning hvort Rafa fari ekki að koma smá stöðugleika í valið á liðinu og velji svipað lið og gegn Chelsea, enda voru menn að spila hreint fínan fótbolta í þeim leik. Þó kæmi mér ekkert á óvart þótt hann myndi stilla Peter Crouch upp í framlínunni. Ég ætla þó að tippa á að hann haldi óbreyttri framlínu, skipti Warnock út fyrir Aurelio (Warnock fékk víst eitthvað högg í síðasta leik og er tæpur) en annars verði liðið óbreytt. Ég spái þessu sem sagt svona:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Aurelio

Pennant – Sissoko – Xabi – Gerrard

Kuyt – Bellamy

Bekkurinn: Dudek, Hyypia, Gonzalez, Zenden og Crouch

Ég ætla mér að vera bjartsýnn fyrir leikinn. Ég spái því að Reina haldi hreinu og við setjum 2 kvikindi. Stevie bætir fyrir afbrennsluna í síðasta leik og Crouch kemur inná og setur hitt. 3 stig í sarpinn og mótið hefst formlega hjá okkur. Ef ekki, þá verður bara sama fýlan hjá manni áfram daginn eftir leiki.

17 Comments

  1. Sko!!

    Aðeins eitt kemur til greina…SIGUR.

    Ég verð að segja að fyrir þennan leik er mér bara næstum því slétt sama um allar liðsuppstillingar….ég vil bara sigur.

    Ég ætla að spá því að Kuyt opni markareikninginn annað kvöld.

    Leikurinn fer 4-0 og ekki orð um það meir.

    YNWA

  2. Mér líst ílla á það ef Gerrard verður settur á vinstri kantinn.Hvað hefur hann að gera þar? Væri ekki nær að taka Alonso út úr liðinu fyrir þennan leik og hafa Gerrad á miðjunni? Þessar eilífu stöðubreytingar á besta miðjumanni evrópu eru fyrir löngu orðnar óþolandi. Mér þætti mjög spennandi að fá að sjá meira af Mark Gonsalez og vona því að hann verði látinn spila vinstra meginn á morgunn. En þetta verður allt að koma í ljós en Gerrard nýtur sín ekki best á vinstri kantinum svo mikið er víst.

  3. Ég hélt að menn hefðu séð það í síðasta leik að það er nánast sama hvar Gerrard er stillt upp í upphaflegri stillingu, vinstri, hægri miðja eða where ever. Hann fær frjálst hlutverk og þannig hefur það verið, hann er ekkert njörvaður niður á kantinum. T.d. í síðasta leik, þá voru framherjarnir duglegir að svissa, bjóða sig og draga sig út á vinstri kantinn, og Gerrard spilaði hreinlega þar sem hann vildi.

    Ég myndi telja það algjöra firru að taka Xabi út úr liðinu núna, einmitt loksins sýndi hann að hann sé að koma tilbaka í sitt gamla góða form. Það kemur einfaldlega liðinu best að mínu mati að hafa þá Momo og Xabi inni á miðjunni og leyfa Stevie að leika lausum hala. Vil alls ekki sjá hann bundinn í of miklum varnarskildum.

  4. Meðan ég man, er að lesa bókina hans Steven Gerrard þessa dagana. Hann kallar stöðuna á hægri kantinum “The graveyard shift”. Spurning hvað vinstri kanturinn er þá….

  5. Ég vil sjá Fowler að minnsta kosti á bekknum. Hefði verið gott að henda honum inn á móti Chelsea t.d. þegar við vorum að pressa og þeir lágu aftarlega.

  6. Ekki sammála þér með liðsuppstillinguna.

    Vil sjá hana svona:

    Reina Finnan Carra Agger Aurelio
    Garcia Gerrard Sissoko Gonzales
    Crouch Kuyt

    Subs; Dudek, Hyypia, Pennant, Alonso, Bellamy

    Þessi leikur verður einfaldlega að vinnast, spá samt 1-1 jafntefli. Gerrard með markið fyrir okkur en Ameobi fyrir Newcastle.

  7. ég er nú farinn að sakna Garcia. Skil ekki af hverju hann fékk ekki séns á móti Chelsea. Eini maðurinn sem getur skorað þegar það virðist ómögulegt.

  8. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir framhaldið i deildinni. Það skal vera sigur í þessum leik og ekkert annað. Ég er alveg sammála SStein um uppstillingu á liðinu. Fyrir mestu að liðið sé að mestu óbreytt og að Gerrard fái frjálsara hlutverk.

    Gæti ekki verið meira ósammála Óskari Barnes. Við ættum ekki einu sinni að vera að hugsa um Fowler. Við spilum með Kuyt og Bellamy/Crouch frammi, það er nú bara ekki flóknara en það. Fowler hefði lent í hrömmum Terry og ekkert komist áfram. Það eina sem vantaði í síðasta leik var smá heppni. Það sem virkar núna er að berjast eins og grenjandi ljón og komast á sigurbraut.

  9. ég held nú að þú,(Mgh), hafir misskilið SStein–hann var að segja að SG væri með frjálst hlutverk núna, hann er út um allt fyrir framan alonso og sissoko. annars er mér alveg sama hvar hann spilar—ég ætla ekki að þykjast vita betur heldur en Benitez um hvað er best fyrir liðið

    ég treysti honum fullkomlega fyrir þessu

  10. Ég hika ekki við að krefjast sigurs í kvöld. Á heimavelli og með stöðuna og pressuna eins og hún er í dag, þá kemur ekkert annað til greina. Allt annað en sigur mun gera mann að fýldari manni en oft áður. Markaþurrðin er hrikaleg en flóðgáttirnar bresta í kvöld. Ég ætla að pollýannast og segja að við setjum fjögur: Kuyt tvö, Crouch eitt og Agger það fjórða. Mun Newcastle skora? Veit ekki – en alla vega færri en við!

    Spái liðinu svona: Reina í marki, Finnan – Carra – Agger – Aurelio, García – Momo – Alonso – Gerrard, Kuyt – Bellamy. (Crouch kemur inn á fyrir Bellamy sem átti stoðsendingarnar á Kuyt, Pennant kemur inn á fyrir García og mun vera með ótrúlega flotta stoðsendingu á Crouchinn einmitt, og einhvern tíma um miðbik síðari hálfleiks mun Zenden koma inn á … ) – Agger skorar með skalla eftir hornspyrnu.

    Áfram Liverpool!

  11. Það sem ég átti við Helgi, er að þótt hann sé sagður á vinstri eða hægri kannti, er hann alls ekki njörvaður niður þar. Hann er í mjög frjálsu hlutverki þótt hann sé sagður á öðrum hvorum kanntinum. Ég er þó alveg sammála að það skipti ekki öllu máli hvaða stöðu hann spilar á miðjunni, þótt best væri að sjá hann fyrir aftan einn eða tvo framherja.

  12. Vill sjá liðið svona:

    Reina
    Finnan – Carr’Agger – Aurelio
    –Sissoko
    Pennant – Alonso — Gonzalez
    —-Gerrard
    —-Kuyt

  13. eitthvað brenglaðist þetta en þetta átti að vera svona

    4-1-3-1-1

  14. ég vil fara að sjá meira af Gonzalez og vafnvel taka bara pennant útúr liðinu og gerrard á hægri!!

Gerrard: hvar á hann að spila?

L’pool 2 – N’castle 0