Gerrard: hvar á hann að spila?

Í síðustu þremur leikjum hefur Steven Gerrard haft hlutverk sem margir vilja meina að sæmi honum ekki sem fyrirliða Liverpool og langbesta leikmanns liðsins. Gegn Everton fyrir rúmri viku hóf hann leik á hægri kanti, gegn PSV í Meistaradeildinni byrjaði hann á bekknum og kom svo inn á miðja miðjuna og gegn Chelsea í gær spilaði hann úti vinstra megin.

Svo virðist sem Rafa Benítez sé búinn að gera það upp við sig að Xabi Alonso og Momo Sissoko séu sitt aðal miðjupar, og í kjölfarið geti Steven Gerrard aðeins leikið þar ef spila á með þrjá miðjumenn eða ef annar hvor þeirra er fjarri góðu gamni. Hins vegar, í stærri leikjum þar sem bæði Momo og Xabi geta spilað, virðist Gerrard vera settur í það að fylla upp í aðrar vandamálastöður liðsins, og þá aðallega á vængjunum þar sem þeir Pennant, Gonzalez og Aurelio eru kannski ekki orðnir klárir í að spila alla leiki.

Eftir þessa síðustu viku spyrja margir sig hvort þetta sé að virka. Rökin með þessari aðferð Rafa eru þó nokkur; til að mynda spilaði Gerrard flesta leiki úti á hægri kanti á síðasta tímabili og sú taktík skilaði okkur í 82 stig í deildinni og sigur í FA bikarkeppninni, auk þess sem Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englendinga, virðist styðja Rafa í þessu og nota Gerrard einnig úti á kanti.

Á móti kemur hins vegar augljósasta gagnrýnin af þeim öllum: Steven Gerrard er einn af þremur bestu miðjumönnum í heimi, ef ekki sá besti, og hann er vissulega sá langmest alhliða af þeim öllum. Hans hæfileikum er einfaldlega sóað ef þeim eru settar þær skorður að þurf að spila á kantinum. Til að Gerrard nýtist best þarf hann að fá að spila framarlega á miðjunni, í nokkuð frjálsri stöðu, þar sem hann hefur leyfi til að sækja upp báða vængina, berjast á miðri miðjunni og jafnvel gerast framherji ef honum hentar það í leik. Hann þarf frelsi til að taka eigin ákvarðanir á velli og svæði til að nýta sér þetta frelsi sitt og augljóslega er framliggjandi miðjumaður eina staðan sem hentar honum.

Eða hvað?

Mig langar til að taka tvö önnur dæmi um alhliða frábæra miðjumenn sem eru í sama klassa og Gerrard en blómstra í þessum skorðuðu stöðum sem kantstöðurnar eru, þrátt fyrir að vera hvorugur alvöru kantari. Ég er að tala um Brasilíumennina Ronaldinho hjá Barcelona og Kaká hjá AC Milan. Báðir menn spila aðallega upp annan kantinn og hafa meira og minna frjálst sóknarhlutverk, að öðru leyti en því að þeir fara ekki oft á milli vængja. Kaká spilar upp hægra megin hjá AC Milan og Ronaldinho vinstra megin hjá Barca, en þrátt fyrir að hvorugur þeirra sé kantmaður í líkingu við Ryan Giggs eða Joaquín, eða það sem maður hugsar sér sem hinn týpíska kantmann, þá blómstra þeir í þessari stöðu að sækja upp annan vænginn aðallega.

Af hverju virkar þetta þá ekki fyrir Steven Gerrard? Vissulega hefur hann átt frábæra leiki sem kantmaður – það er engin tilviljun að hann skoraði 20+ mörk á síðasta tímabili sem hægri vængmaður, hann naut frelsisins þar – en það sem af er af þessu tímabili virðist þetta ekki vera að ganga.

Ég er sjálfur persónulega á þeirri skoðun að Gerrard sé einfaldlega í óstuði þessa dagana. Í fullkomnum heimi gæti Gerrard alltaf spilað fremstur í þriggja manna miðju, með þá Xabi og Momo fyrir aftan sig, en ef Rafa myndi alltaf spila þeim þremur saman yrði hann gagnrýndur fyrir að nota aðeins einn framherja í hverjum einasta leik. Og ef hann ætti að taka annað hvort Momo eða Xabi út úr liðinu fyrir Gerrard og halda tveimur framherjum yrði hann sömuleiðis gagnrýndur. Þannig að Rafa er vissulega í erfiðri aðstöðu, hann er gagnrýndur hvernig sem hann snýr sér í þessu máli. Eins lengi og liðið tapar stigum hlýtur hann gagnrýni, sem er vitaskuld eðlilegt.

Persónulega held ég að Rafa þurfi að finna eina stöðu fyrir Gerrard og halda sig við hana. Ef hann er miðjumaður á Rafa ekki að bíða með að koma honum fyrir á miðjunni strax í næsta leik, sama hvaða fórnir þarf að færa til að svo geti verið. Ef Rafa ætlar að nota hann sem hægri kantmann og Pennant sem varaskeifu þarf það að gerast líka strax í næsta leik, og svo framvegis. Gerrard er einfaldlega okkar besti leikmaður, sama hvar á miðjunni hann spilar, og því þurfa aðrir einfaldlega að víkja að mínu mati svo að hann geti spilað sína bestu stöðu – en þó með þeim fyrirvara að það henti liðinu.

Því spyr ég ykkur, lesendur góðir: hver er besta staða Gerrards í dag og hvar þjónar hann liðinu best? Á Rafa að fórna framherja til að setja hann inn sem þriðja miðjumann? Eða á hann að setja Xabi eða Momo á bekkinn? Eða á hann að hafa hann áfram úti á vinstri kantinum, á kostnað Mark Gonzalez og Fabio Aurelio, eða þeim hægri á kostnað Jermain Pennant?

Hvað finnst ykkur? Hvar á Gerrard að spila?

24 Comments

 1. Fórna Alonso ekki spurning. Momo er að spila glimrandi vel þessa dagana þvílíkar framfarir og barátta í honum. Hefði verið gaman í leiknum í gær að hafa Speedy á bekknum og henda honum þarna á vinstri og keyra svolítið á mannætuna hann var kominn með spjald. En ekki spurning Gerrard á miðjuna og það ekki seinn en strax. Sást um leið þegar að Bolo kom inn á í gær hvað hann er magnaður á miðjunni.

 2. 1) mér finnst að hann eigi að vera á miðjunni með Sissoko/Alonso með honum sem val nr. 1. þar sem hann er meiri sóknar-miðjumaður en þeir tveir.

  2) mér finnst að hann megi taka að sér kantinn ef það eru meiðsli eða Pennant sé ekki að spila vel. Hann hins vegar hefur verið að sýna ágætis takta og ég held að við þurfum á honum að halda á hægri kant sóknarlega séð … ekki það að Gerrard sé eitthvað verri á hægri kant.

  Ég vill sjá 2 framherja þannig að því miður þarf annað hvort Momo eða Alonso að víkja og í augnablikinu er það Alonso þar sem hann er langt á eftir í líkamlegu formi og ekki líkur sjálfum sér. Momo skilar alltaf sínu og er nauðsynlegur varnarlega séð.

  niðurstaða= … Gerrard á miðjuna með hægri kant með sér til að fá MAXIMUM sóknarleik. Við höfum fengið færi en það er bara ekki nóg þegar þau eru ekki nýtt, þannig að þangað til þurfum allan þann sóknarþunga sem við getum framleitt.

 3. Góður póstur…

  Ég held að það kæmi best út að hafa Gerrard annaðhvort á hægri eða fyrir framan Sissoko og Alonso. Með Dirk Kuyt frammi og Gerrard fyrir aftan hann þá held ég að þeir myndu sprengja varnir andstæðingana, með því gefnu að Pennant og Gonzales séu á köntunum því þeir hafa verið að spila mjög vel og að mínu mati Pennant rosalegur á móti Chelsea, tók Ashley Cole í nefið… en eins og ég segi þá vil ég sjá hann í holunni á milli miðju og striker vegna þess að þá getur hann líka hamrað á markið þegar hann kemst í þá stöðu. Einnig gæti þá Bellamy verið góður fyrir framan hann þar sem Gerrard er klókur á að stinga boltanum inn fyrir. Annars er ég sammála þvi að það þarf að finna stöðu fyrir besta miðjumann evrópu og það ekki seinna en strax!!

 4. Gerrard á að vera á miðjunni í 4-4-2 gegn lakari liðum. Sissoko og Alonso verða bara að skiptast á að spila með honum þar.

  Svo á hann að vera fremstur á miðjunni í 4-5-1 gegn sterkari liðum, líklega með Kuyt fyrir framan sig, þá á kostnað hinna þriggja framherjanna.

  Við erum með nóg af góðum kantmönnum og Gerrard á ekki að spila annarsstaðar en á miðjunni nema kantmennirnir séu meiddir!

 5. Gerrard á auðvitað að vera á miðjunni því það kemur mest út úr honum þar. Alonso eða Sissoko verða þá að víkja og þegar allt er eðlilegt þá yrði það væntanlega Sissoko sem yrði á bekknum en á meðan Alonso er enn að komast í form er ekki óeðlilegt að Rafa byrji með Momo og Stevie Me á miðjunni. Eina ástæðan fyrir að ég myndi vilja hafa Gerrard á hægri kannti væri til að losna við Pennant úr liðinu, hann var eins ömurlegur og frekast er hægt á móti Chelsea og drap flestar sóknir liðsins niður.

 6. Þetta er góð spurning og að mín mati er það ekki svo auðvelt að henda Momo og Xabi út eins og menn vilja gera. Það má ekki gleyma því að Xabi er frábær miðjumaður, hann er feikilega duglegur og með magnaða sendingagetu. Hann hefur ekki verið upp á sitt besta í byrjun móts en ég held að það sé ekki rétta leiðin að frysta hann á bekknum. Momo er að mínu mati fyrsta val á miðjuna og á klárlega að vera þar. Ég er á því að Gerrard eigi að vera á miðjunni en ekki í 4-4-2, heldur í 4-3-3/4-5-1 þar sem hann liggur í holunni á milli miðju og sóknar. þegar við erum með eins duglega framherja og Kuyt og Bellamy þá ætti þetta ekki að vera vandamál varnarlega. Þessi staða gæfi Gerrard líka möguleika á að sækja meira út á báða kantana, eftir því hver þriðji framherjinn væri,(Pennant/Garcia/Gonzales) og ef Crouch spilar er ekki mikið mál að henda Bellamy út á báða vængina.

  Finnan-Carra-Agger-Aurelio

  Momo-Xabi
  Gerrard

  Pennant Bellamy
  Kuyt

  Með þessari uppstillingu væri Gerrard alltaf að spila sömu stöðu, hvort sem það er verið að spila 4-3-3/4-5-1.

 7. Man einhver eftir 1-3 útisigrinum á Newcastle í fyrra? Ef ég man rétt þá spilaði Rafa með Agger, Carra og Sami alla í miðverði, Warnock og Kromkamp voru “wingbacks”, Alonso var djúpur á miðjunni, Crouch var einn frammi en með Kewell, Gerrard og Cissé alla í frjálsum stöðum fyrir aftan sig. Einhvers konar 3-3-3-1.
  Mér fannst þetta virka frábærlega. Í dag kæmi Riise eða Aurelio í stað fyrir Warnock og Finnan í stað fyrir Kromkamp. Kewell, Gerrard og Cissé voru allir í frjálsum stöðum og mjög hreyfanlegir. Til að rúma Sissoko í þessu plani væri hægt að færa einn af þeim aftur á miðjuna, sem vissulega myndi skerða sóknarleikinn en aftur á móti þétta miðjuna. Ég væri til í að sjá Rafa prófa þetta aftur, þá með Riise og Finnan sem “wingbacks”, Alonso og Sissoko á miðjunni, og svo Crouch eða Kuyt frammi með Gerrard og Bellamy fyrir aftan sig í frjálsum stöðum.

 8. Góð og málefnaleg umræða.

  Ég segi að Gerrard eigi að spila á hægri kanti.

  1) Staðreyndirnar tala sínu máli. Gerrard átti frábært tímabil síðasta vetur auk þess að skora 20+ mörk sem verður að teljast frábært af miðju- kantmanni.

  2) Besti hægri kantmaður í heiminum í dag að mínu mati.

  3) Staða miðjumanns er öðruvísi en kantstaðan að mínu mati. Miðjumaður verður að sinna jafnt varnar- og sóknarhlutverki. Á miðjunni myndi Gerrard því nýtast mun minna í sókn en á kantinum.

  4) Mér fannst fullreynt í HM á sumar að spila með Gerrard á miðjunni. Gerðist það sama með Ronaldihno að mínu mati sem spilaði mun aftar á vellinum á HM en hann er vanur.

  5) Liðið er sterkara með Gerrard úti á hægri kanti. Ef við berum saman þá Alonso og Pennant þá er augljóst að mínu mati hvor er betri fyrir liðið. Annar átti frábært tímabil í fyrra og vann sér sæti í landsliðinu sínu auk þess sem stórlið á borð við Real Madrid voru að falast eftir honum. Hinn ekki og hefur að mínu mati ekki náð að sanna sig á efsta leveli þótt sé góður leikmaður. Alonso mun betri kostur að mínu mati – hann þarf bara að spila sig í form.

  6) Ferguson sagði í ævisögu sinni að hann hefði einu sinni beðið Giggs að spila meiri varnarleik. Um leið missti náttúruhæfileikann til að sækja og sóla leikmenn. Mér finnst að Gerrard eigi að fá tækifæri til að sækja að villd án þess að þurfa að vera að velta varnarleiknum fyrir sér. Hann er einn af fáum leikmönnum í heiminum sem getur unnið leik upp á eigin spýtur og sá hæfileiki verðu að fá að nýta sér til fulls. Ég er ansi hræddur um að náttúruhæfileikar hans myndi minnka ef hann spilaði á miðjunni.

  7) Gerrard hefur sjálfur sagt að honum líki vel að spila á kantinum og að sú staða henti honum vel.

  8) Ég vil ekki að Gerrard spili sem annar senter. Hæfileiki hans er að koma djúpur af miðjunni og stinga sér í holur sem myndast í vörnum andstæðinganna. Mér finnst þetta henta honum mun betur en t.d. það að spila með bakið í mark andstæðingana eins og Drogba masteraði í leiknum á sunnudaginn.

  9) Rafa setur hann á kantinn og treysti honum alla jafna þó ég sé ekki alltaf sáttur við ákvarðanir hans. En – það sem meira er þá setur McLaren hann líka á kantinn og það jafnvel þó Englendingar eigi meira en nóg af frambærilegum kantmönnum á borð við Lennon, Beckham og Pennant.

  10) Góð samlíkinging hjá þér Kristján Atli með þá Ronaldinho og Kaka. Segir allt sem segja þarf. Ég held líka að hvorugur myndi henta sem annar senter þótt báðir séu frábærir sóknarmenn.

  Stóra vandamálið finnst mér ekki vera hvar Gerrard sé að spila þessa dagana. Mér finnst miklu frekar þessi rótering á honum slæm – bæði fyrir hann og fyrir liðið í heild sinni. Um leið og hann kemst í þá stöðu sem hann verður í í vetur mun hann aftur taka við sér og verða okkar besti maður. Drengurinn er bara svo fáránlega góður að það er alveg sama hvaða staða það yrði. Hann væri alltaf bestur.

  Með Gerrard og Kewell á köntunum og Kyut og Bellamy frami erum við með frábært sóknarlið og með þá Sissoko og Alonso á miðjunni frábæra, massíva miðju sem afar erfitt væri að brjóta niður. Því miður virðast Gonsales og Garsia ekki alveg vera að finna sig því ég hélt að annar hvor þeirra myndu spila á vinstri kantinum í fjarveru Kewell. Sóknarmennirnir okkar finnst mér hins vegar lofa góðu.

  Áfram Liverpool!

 9. Ofangreindur póstur var að sjálfsögðu skrifaður með það í huga að Rafa spili með fjóra varnarmenn og fjóra miðjumenn. Ég væri reyndar alveg til í að sjá liðið spila 4-3-3 eins og Bjarki og Snorri benda á.

  Það fer að sjálfsögðu eftir þeim leikmönnum sem við erum með en kannski erum við með þannig lið núna. Ekki vitlaus hugmynd.

 10. Mér finnst að Kuyt og Bellamy eigi að vera frammi og Gerrard fyrir aftan þá og svo Mark G. á vinstri kantinum, Alonso og Sissoko á miðjunni og svo myndu Gerrard og Bellamy skiptast á að draga sig út á hægri kantinn þegar þess er þörf.

 11. Þú ert að rugla kerfum saman.

  Liverpool spila 4-4-2.

  Gerrard-Alonso-Sissoko-Einhver
  KyutCrouch—-

  Barcelona spila 4-3-3.

  –Edmilson–
  Xavi–Deco—
  —-Messi—-Ronaldinho
  —-Eto’o

  Að vera vængmaður í 4-3-3 kerfi er allt annað en að vera vængmaður í 4-4-2 kerfi.

  Engu að síður flottur póstur.

 12. Svona vil ég sjá liðinu uppstillt!

  — Kuyt

  Bellamy — Gerrard – Garcia/Pennant

  —- Sissoko — Alonso

  Aurelio/Riise — Agger — Carragher — Finnan

  Ég hugsa þetta þannig að með því að hafa Bellamy á vinstri kantinum, Gerrard í holunni og svipaða ógn frá Garcia/Pennant á kantinum erum við að fá extra options sóknarlega til að styðja við bakið á Kuyt frammi. Alonso og Sissoko éta svo allt upp fyrir aftan sem og vörnin. Spurning að opna þetta aðeins upp, Rafa, og gefa mönnum meira sóknarhlutverk á kostnað varnarkerfisins.

 13. Þetta lítur vel út svona. Það væri hægt að rótera mönnum eins og Kewell og Gonzales, Aurelio og Warnok(Riise), Garcia og Alonso og þá sissoko á miðjuna og Garcia hægramegin á kanntinn..

  Finnan Carra Agger Aurelio

  Sissoko Alonzo Kewell
  Gerrard
  Kuyt Bellamy

 14. Þetta á að vera svona !!
  – Reina—-
  Finnann–AggerCarragherRiise/Aurelio

  —Sissoko
  Pennant-Alonso
  —Gerrard

  —Kuyt–Bellamy

 15. What?? Gerði þetta ekki svona, átti að vera tígulmiðja, Sissoko aftastur, pennant og alonso fyrir framan og svo Gerrard fremstur á miðjunni

 16. Mér varð að ósk minni með Pennant. Hann byrjaði inn á. En hin óskín mín….Gerrard á miðjuna gekk ekki eftir. Ég misti andlitið þegar ég sá Gerrard á vinstri kannti.. Ég er bara ekki alveg að fatta Rafa núna. Ef hann vill endilega halda Momo og Alonso báðum inn á. Spila þá bara með einn með framherja. En nú er mál að linni og hætta þessari vitleysu. Gerrard á að vera heilinn í þessu liði. Hvern grefilinn er Rafa að pæla. Við höfum þvílika möguleika á kanntana núna. Hætta þessari hörmungas vitleysu og fara að standa við stóru orðin að byggja liðið upp í kring um fyrirliðann.

 17. Bellamy hatar að spila á kantinum. Ef það yrði gert þá myndi hann verða fúll, líkt og þegar hann var hjá Newcastle.

  Ég held að með því að hafa Gerrard vinstra megin hafi félagi Benitez í raun verið að hafa hann svona semi sem þriðja miðjumann, og leitast eftir því að hann myndi koma inn á miðju og skjóta á markið.

  Kaka sækir samt nánast alltaf upp miðjuna og kemur jafnan alveg flatt á varnarmenn sem vita oftar en ekki sitt rjúkandi ráð. Það má líka benda á að ítölsku liðin spila gjarnan leiki án þess að hafa nokkra kantmenn, sbr. Milan með þá Kaká, Seedorf, Pirlo og Gattuso.

  Að lokum vil ég segja eins og pennar síðurnar hafa margoft sagt. Benitez er stjórinn og veit þetta allt miklu betur en við, þannig að við ættum bara að loka á okkur þverrifunni
  🙂

 18. Góður grein Kristján.

  Ég er sammála Hössa, Gerrard á að vera á hægri kantinum með frjálsa stöðu eins og hann spilaði á síðasta tímabili. Þannig fáum við mesta stöðuleikann á miðjuna. 20 mörk skoruð(Gerrard) og 82 stig í deildinni tala sínu máli.

  Það sem Liverpool saknar mest í byrjun tímabilsins er Kewell. Það er ekki til betri miðja en Kewell,Alonso,Sissoko,Gerrard (í deildinni).

  Enda hefur vinstri kanturinn verið vandamálið sem af er tímabilinu, Gonzales hefur ekki náð að sanna sig, Aurelio er of varnarsinnaður enda bakvörður og Garcia hefur einfaldlega verið slakur í þeim leikjum sem hann hefur spilað.

  Þetta gæti verið orsök þess að Gerrard var látinn spila á vinstri kantinum gegn C$$$$$$$.

  Kannski eigum við eftir sjá Gerrard spila á vinstri kantinum þangað til að Kewell nær sér af sínum meiðslum. Það er á hreinu að Benitez fer ekki að fórna Alonso eða Sissoko svo að Gonzales/Aurelio/Garcia geti spilað á vinstri kantinum.

 19. Mjög góð umræða og þörf. Að mínu mati verður RB að fara að koma sér niður á hinn fasta kjarna liðsins og er það aðalmálið. Hvernig hann ákveður að skipa miðjuna er hlutur sem endalaust er hægt að deila um. Hinu um hinn fasta 9 til 10 manna kjarna, verður að fara að koma á hreint og hætta að djöflast með þennan mannskap fram og aftur endalaust. Það er nú þannig

 20. Pétur, Steven Gerrard hatar líka að vera á bekknum og hann verður eflaust fúll ef hann situr þar. Leikmenn eiga ekki að ráða því hvar þeir eru látnir spila ef þjálfarinn ákveður það. Þeir fá jú hundruðir milljóna á ári fyrir þennan pakka ekki satt?

 21. Vissulega eikifr… en það má líka benda á að Benitez stillir upp liði sínu eftir því sem hann telur mesta möguleika liðsins á að vinna leiki, ekki til að halda Gerrard glöðum. Veit reyndar ekki alveg hvað þú ert að reyna að fara með því að segja að Gerrard sé fúll með að vera á bekknum. Ég veit um fáa atvinnumenn í knattspyrnu sem finnst fátt skemmtilegra en að sitja á tréverkinu í leikjum 🙂

 22. Tek undir með Pétri í einu… það væri hægt að búa til svona 100 fréttir á dag með því að spyrja 100 knattspyrnumenn hvernig þeim fimmist það að sitja á varamannabekkjum þegar það kemur að leikjum. Það væri eitthvað að þeim sem svöruðu “Það er bara fínt sko, alltaf fínn mórall þar,” eða eitthvað…

  Auðvitað finnst Gerrard ömurlegt á bekknum, rétt eins og Bolo Zenden og fleirum. Menn hafa mismikinn rétt á því að kvarta yfir því aftur á móti, en það er engin stórfrétt að Gerrard leiðist á bekknum…

  Ég væri alveg til í að sjá Bellamy draga sig út til vinstri, með Pennant hægra megin, og leyfa Gerrard þá að spila á milli Alonso og Sissoko og Kuyt til dæmis. Þá værum við að spila svipað kerfi og Barcelona, þar sem Ronaldinho er vinstra megin og Samuel Eto´o einn frammi.

  Segi samt enn og aftur að ég treysti Rafa betur en mér fyrir þessu 🙂

 23. Gerrard gæti spilað sem miðvörður og verið besti maður liðsins. Hann er einfaldlega sá eini sem getur spilað allar stöður og þarf að líða fyrir það.
  Ef hann er sáttur við það að spila þar sem vantar menn er hann bestur og við getum ekki kvartað. :biggrin2:

Chelsea 1 – L’pool 0

Newcastle á morgun