Chelsea 1 – L’pool 0

“Þeir eru með einstaklinga sem klára leiki.”
-Willum Þór

Okkar menn fóru á Stamford Bridge í dag og **töpuðu 1-0** fyrir ríkjandi Englandsmeisturum Chelsea, og þótt þessi tapleikur svona snemma á tímabilinu þýði alls ekki að titilbaráttan sé þegar töpuð þýðir þetta vissulega það að það verður fáránlega erfitt að ætla að eiga séns í vetur og að miklu betur má ef duga skal. Miklu, miklu betur.

Báðir þjálfarar stilltu upp nokkurn veginn þeim liðum sem menn bjuggust við, þó með örfáum undantekningum. Rafa Benítez stillti liði Liverpool í dag svo upp:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Warnock

Pennant – Alonso – Sissoko – Gerrard

Bellamy – Kuyt

**BEKKUR:** Dudek, Hyypiä, Aurelio, Zenden, Crouch.

José Mourinho stillti Chelsea-liði dagsins svo upp:

Cech

Boulahrouz – Carvalho – Terry – A. Cole

Essien – Makelele – Ballack – Lampard

Drogba – Schevchenko

**BEKKUR:** Cudicini, Ferreira, Robben, Kalou, Obi Mikel.


Fyrri hálfleikurinn spilaðist nákvæmlega eins og maður átti von á – þessi lið hafa leikið svo oft á undanförnum tveimur árum að þau eru farin að gjörþekkjast og því eru leikir þessara liða aldrei mjög opnir. Þetta var mjög taktískt, bæði lið lögðu ofurkapp á að loka svæðum andstæðinganna og gefa ekkert færi á sér og reyna svo að nýta alla sénsa til skyndisókna. Liverpool-liðinu gekk öllu betur að halda boltanum og reyndu að beita löngum sendingum í svæði á fljótu mennina, sérstaklega þá Bellamy, Kuyt og Pennant.

Á 15. mínútu kom fyrsta dauðafæri leiksins þegar Alonso sendi boltann innfyrir á Kuyt sem skaut hörkuskoti einn gegn Cech en okkur til mikilla vonbrigða söng boltinn í þverslánni. Þetta var besta færi leiksins og ef Kuyt hefði skorað hefði þetta eflaust spilast öðruvísi en því miður fyrir okkar menn féll þetta ekki okkur í hag.

Eftir þetta gerðist fátt markvert annað en taktískt miðjuspil beggja liða þangað til á 42. mínútu. Þá fékk **Didier Drogba** háa fyrirgjöf til móts við vítateig Liverpool. Hann var með Jamie Carragher í bakinu og tók boltann á bringuna út úr teignum, enda undir pressu, en svo um leið og boltinn lenti á hálfboganum sneri Drogba upp á líkamann og skaut viðstöðulaust með vinstri fæti þessu þvílíka bylmingsskoti sem söng í markhorninu hjá Liverpool. Óverjandi fyrir Reina og í raun er hálf djöfullegt að hafa tapað fyrir marki sem var engum að kenna, en Drogba á mikið hrós skilið fyrir þetta mark. Okkur Púllurum er sérstaklega illa við hann en honum þykir greinilega gaman að spila gegn Liverpool og þetta mark var einfaldlega í algjörum heimsklassa. Frábært mark.

Í kjölfar marksins fékk Momo Sissoko gult spjald og braut svo aftur í kjölfarið klaufalega af sér á Lampard og Mike Reilly hefði alveg getað rekið hann útaf. En hann kaus að gefa honum tiltal og róa hann niður og maður óttaðist hreinlega þegar liðin gengu til leikhlés að við myndum enda leikmanni færri fljótlega eftir hlé. Annað átti þó eftir að koma á daginn.

Síðari hálfleikur var vart byrjaður þegar Michael Ballack var rekinn útaf með beint rautt spjald. Momo Sissoko vann af honum boltann á heiðarlegan hátt en eitthvað virtist Ballack pirrast yfir því, því hann skaust á fætur og stökk á Sissoko og steig harkalega ofan á lærið á þeim síðarnefnda. Reilly var vel staðsettur og gaf Ballack beint rautt fyrir þetta fólskubrot.

Við tóku fjörutíu mínútur þar sem okkar menn voru einum fleiri og í sókn nær allan tímann. Rafa setti þá Aurelio, Zenden og Crouch inná fyrir Warnock, Sissoko og Bellamy til að reyna að bæta sóknarleikinn en allt kom fyrir ekki.

Á 65. mínútu fékk Steven Gerrard dauðafæri, aleinn inni í teig Chelsea-manna en hann skaut beint á Cech. Nokkrum mínútum síðar gerðist umdeilt atvik þar sem Aurelio gaf fyrir og Gerrard féll í teignum eftir viðskipti við Frank Lampard. Mike Reilly dæmdi ekkert og mér fannst erfitt að sjá á endursýningum hvort þetta var brot eða ekki þannig að ég læt það vera. Kannski vorum við rændir, kannski ekki, ég get ekki dæmt um það. En í kjölfarið á þessu broti fékk Craig Bellamy boltann óvaldaður í teignum og skaut föstu skoti en aftur fór boltinn beint á Cech sem varði.

Á 75. mínútu gaf Pennant háan bolta fyrir á Peter Crouch sem skallaði hann niður fyrir fætur Kuyt, sem var enn og aftur óvaldaður í teignum en hann hitti boltann illa og skóflaði honum yfir þegar það virtist auðveldara að hitta á rammann.

Á 92. mínútu kom svo síðasta færi leiksins þegar Crouch fékk gott skallafæri óvaldaður í teig Chelsea-manna við markteig … en skallinn hans var máttlaus og fór beint í hendur Petr Cech og þar með var sigur þeirra bláklæddu innsiglaður.

Þetta tap er náttúrulega alveg ferlegt. Við spilum betur en þeir ef eitthvað er í jöfnum fyrri hálfleik en erum samt marki undir. Kuyt skýtur í þverslánna úr dauðafæri, Drogba skorar glæsimark upp úr engu. Í síðari hálfleik lenda þeir í því að missa mann útaf og einfaldlega þétta vörnina sína og halda markinu hreinu, á meðan við fáum hvert dauðafærið á fætur öðrum en skjótum alltaf beint á markvörðinn.

Og þar liggur munurinn á þessum liðum í hnotskurn. Við erum með leikmannahóp sem jafnast alveg á við hóp Chelsea-manna, við erum með jafn sterka vörn, miðju og sókn á pappírnum og þeir en munurinn er einfaldlega sá að í þessum leikjum við stórliðin í deildinni höfum við einfaldlega ekki það sem þarf til að innbyrða sigur. Því virðist vera öfugt farið í bikar- og Evrópukeppnunum, einhverra hluta vegna, en í deildinni vantar okkur þetta bit í sóknina sem þarf til að sigra stórleikina. Í dag höfðum við öll tækifæri á að skora allavega eitt mark og ná því í að minnsta kosti jafntefli, það eina sem vantaði var það að menn skytu boltanum í markið en ekki aftur, og aftur, og aftur, og aftur beint í hendurnar á Petr Cech.

Eins og Willum Þór sagði í lýsingu sinni á SkjáSport – og hafði aldrei þessu vant mikið til síns máls – þá eru Chelsea einfaldlega með leikmenn sem klára leiki. Við getum haft þá skoðun sem við viljum á Didier Drogba sem knattspyrnumanni en hann er þó leikmaður sem klárar sín færi í stórleikjunum. Arsenal, Man U og Liverpool eru öll til vitnis um það. Hvað gera Peter Crouch, Dirk Kuyt og Craig Bellamy? Skjóta beint á markvörð andstæðinganna.

Þetta tímabil er langt því frá að vera búið, en við erum núna átta stigum á eftir Chelsea og Man U – sem eru að spila við Arsenal í þessum töluðum orðum – og eigum leik til góða. Þetta verður feykilega erfitt en það er ljóst að ef menn eru að gera sér einhverjar vonir um að berjast um titilinn erum við komnir í þá stöðu að við hreinlega verðum að vinna meira og minna alla deildarleiki okkar næstu 2-3 mánuðina. ALLA! Við getum ekki tapað fleiri stigum og því síður megum við við fleiri tapleikjum fyrir áramót ef við ætlum okkur að vera með í þessari baráttu.

**MAÐUR LEIKSINS:** Liðið lék ekki illa en það lék heldur ekkert frábærlega vel. Mér fannst Pennant skila sínu á vængnum þrátt fyrir að hafa verið eilítið mistækur en enn og aftur fannst mér **Daniel Agger** bera af í annars þéttu og vel skipulögðu varnarteymi okkar manna. Hefði ekki verið fyrir töframark Drogba hefðum við getað fagnað algjörri lokun á hann og Schevchenko í dag, en þetta er í annað sinn í röð sem Agger hreinlega pakkar Andryi Schevchenko saman. Það er ekki lítið afrek.

Næsti leikur: Newcastle í deildinni á miðvikudag og svo Tottenham á laugardag. Báðir þessir leikir eru á heimavelli og það er ljóst að ef við eigum ekki að afskrifa titilinn strax í septemberlok (rétt eins og í fyrra) einfaldlega verðum við að hirða sex stig úr þessum leikjum. Ekkert annað dugir!

29 Comments

 1. 😡 Ég get ekki sagt að mér finnist RB vera í neinu sigurstuði með liðið. Tapar 1 – 0 fyrir liði sem fékk aldrei alvörufæri í öllum leiknum meðan L´pool fær amk 2 dauðafæri og slatta af hálffærum. Það er semsagt ekki sigurvegaralykt af RB og ekki var ég mjög hrifinn af því að taka Bellamy útaf og halda Pennant inná sem var mestallan leikinn í einhveju dúlli og kom lítið útúr honum. Semsagt tap sem á góðum degi gat verið sigur ef einhver sigurlykt og stemming er á svæðinum. Stöðugar hræringar opg bull með liðið gengur ekki lengur og RB verður að fara að dr… til að stilla upp þeim kjarna liðsins sem á að verða í vetur 😡 😡 😡

 2. Vissulega. Stjórinn spilaði með Gerrard á vinstri kantinn! Manninn sem stjórinn ætlaði að byggja liðið í kringum. Ég er gjörsamlega farinn að hata þetta krabbamneinsæxli í hausnum á Benites, af hverju lætur hann ekki besta mann liðsins spila þar sem hann nýtur sín best? Hefur Xabi Alonso verið að réttlæta það að Gerrard er færður út á kant? Það sáu allir hvað leikurinn snarskánaði eftir að Gerrard var settur í sína stöðu.

  Einnig þótti mér undarlegt að Pennant fékk að leika allan leikinn. Luis Garcia skilar meiri vinnslu en hann.

  Ljósi punkturinn var samt Daniel Agger. Ég er alveg viss um að næstu leikir munu vinnast, eiginlega verða þeir að vinnast.

 3. Ég held að fyrst og fremst að þá þurfi að láta Steven Gerrard hætta vera að þessu andskotans flakki út um allan völl og spila honum á miðri miðjunni þar sem að hann er lang bestur og sennilega besti miðjumaður í heimi þessa dagana.

  Það segir sig sjálft finnst mér að hann nær sér ekki í gang almennilega þegar að það er verið að flækjast með hann frá hægri kanti yfir á þann vinstri og svo einstaka sinnum á miðri miðjunni. Það skiptir engu máli hvað þú heitir eða hvað þú ert góður, ef að þú færð ekki tíma til að spila í þinni stöðu og eigna þér hana að þá nærðu engum eða litlum takti í þinn leik eins og mér finnst vera að koma í ljós með Stevie. Hann er lykillinn að velgegni í vetur, notum hann því þar sem að hann er bestur.

  Mér finnst reyndar í haust að þá hafi verið full mikið af róteringum með liðið og að það hefur einhvern veginn ekki komist í þann gír sem að við vitum að það á til. Finnum fyrst jafnvægi í liðinu og róterum svo í mesta lagi 2 leikmönnum á milli leikja, það má svo nota skiptingarnar líka til að hvíla menn ef að þess þarf.

 4. Ég sá ekki leikinn en fylgdist með á netinu og fékk upplýsingar frá fólki sem sá leikinn. Ég verð að viðurkenna að þessi miðja hjá Liverpool er bara ekki að fúnkera þegar Gerrard er ekki inn á miðjunni. Er sammála Sigtryggi Karlssyni með að það sé “ekkert sigurstuð hjá RB” með þetta lið. Við erum dálítið staðnaðir og það virðist ekki vera nein þróun eða allavega svo lítil. Svo veldur það endalausum áhyggjum hversu varnarlega þenkjandi Rafa virkilega er. Það kemur svo oft í ljós hjá honum hversu varfærnislega hann lætur liðið oft spila. Þegar við fáum að spila sóknarleik erum við líka góðir en það er ekkert að fara að gerast á næstunni miðað við síðustu leiki.

 5. …og já. Steven Gerrard er meira og meira að stimpla sig sem “ALLT LIÐIД miðað við þá staðreynd að þegar við fáum færi eru þau 90% í gegnum Gerrard.

 6. ….og eitt í viðbót….sammála Willum Þór svona einu sinni. Chelsea kunna að refsa mótherjunum….við höfum ekki lært það ennþá og kenni ég stjóranum um mikinn hluta af því þar sem liðið fær ekki að spila á styrk sínum…..sóknarbolta.

 7. Varðandi Gerrard, er það ekki bara skortur á vinstri kantmönnum, sem færði hann á kantinn? Kewell er meiddur og Rafa virðist ekki treysta Gonzalez 100% – þannig að ég ætla ekki að tapa mér yfir því.

  Annars er Tiger Woods bjáni.

  Og mikið djöfulli var þetta sárt. Hvernig í ósköpunum gat Gerrard klúðrað þessu færi? Haaaa?

 8. Afar svekkjandi að tapa þessu.

  Ég vil kenna Rafa um hvernig fór og þessu endalausu róti á liðinu. Mér finnst eins og undirbúningstímabilið sé enn í gangi og að verið sé að prófa hinar og þessar uppstillingar. Lið sem ætlar sér að vinna titla verður að fá tækifæri að spila sig saman og þá um leið kemur sigurviljinn, baráttan og samstaðan sem einkennir öll sigurlið. Menn einfaldlega verða að fá að vita hver staða þeirra er í liðinu svo þetta fari að fúnkera allt saman.

  Annars vil ég hrósa liðinu fyrir góðan leik. Með smá heppni, örlítið meiri sigurvilja og trú á því að við gætum unnið Chelsea í deildinni – á þeirra heimavelli – þá hefðum við unnið leikinn. Helv. vandamálið var að við máttum ekki tapa þessum leik. Nú verður þetta heldur betur á brattan að sækja. Við nánast verðum að vinna allt sem eftir er.

  Áfram Liverpool!

 9. Glatað !
  Ég er ekki sammála ykkur sem eruð að gangnrýna Pennant í leiknum, mér fannst hann skila sinni vinnu vel að öllu leiti nema mögulega varnarvinnunni, hann dældi boltum inn í teig og ekki er hægt að kenna honum um að ekkert hafi komið út úr því.
  Annars er ég sammála öllu sem kemur fram í pistli Kristjáns nema því að mér fannst færið sem Gerrard fékk hættulegasta færi leiksins og alveg týbíst fyrir leik LFC þessa dagana að klúðra þessu færi !
  Eina góða við þennan ömurlega dag er sigur Arsenal á Manure !

 10. Ooo … arggg 😡 🙁

  Ég var svo innilega að vona að okkar menn myndu smella í gírinn í dag. Ég óttaðist þennan leik. Puffffffff….og fýlusvipur er eiginlega það sem ég hef til málanna að leggja núna.

  Mér varð að ósk minni með Pennant. Hann byrjaði inn á. En hin óskín mín….Gerrard á miðjuna gekk ekki eftir. Ég misti andlitið þegar ég sá Gerrard á vinstri kannti.. Ég er bara ekki alveg að fatta Rafa núna. Ef hann vill endilega halda Momo og Alonso báðum inn á. Spila þá bara með einn með framherja. En nú er mál að linni og hætta þessari vitleysu. Gerrard á að vera heilinn í þessu liði. Hvern grefilinn er Rafa að pæla. Við höfum þvílika möguleika á kanntana núna. Hætta þessari hörmungas vitleysu og fara að standa við stóru orðin að byggja liðið upp í kring um fyrirliðann.

  Nú er staðan bara sú að við verðum að vinna næsta leik. VERÐUM. Annars eru yfirgnæfandi líkur á því að við náum ekki inn í toppslaginn á þessari leiktíð..svo einfalt er það. Auðvitað getur allt gerst..en guð minn góður..ég er sko ekki í neinu pollýönnu skapi núna.

 11. Nonni, hann klappaði þegar að Drogba skoraði, hann er bjáni en samt svo mikill scnillingur !

 12. Horfði á leikinn á SKY og þeir voru að benda á að Rafa hefur ekki byrjað með sama liðið tvo leiki í röð, síðustu 90 leiki.
  Annars var grátlegt að ná ekki að minnsta kosti jafntefli í þessum leik, bæði Kuyt og Gerrard hefðu átt að leggja boltann frekar en að negla eins fast og þeir gátu, einir á móti markmanni.
  kv

 13. Ég var ekki að skilja þetta með Tigerinn…… og fannst þetta með ólíkindum að menn síðunnar skildu vera gagnrýna áhorfanda !

  Hvað leikinn varðar (og þá með ummæli EÖ til viðmiðunar) þá er þetta $$$$$ lið ótrúlegt. Þrátt fyrir að vera leikarar upp til hópa þá eru framherjarnir þeirra einsog “PGA-meistarar”, á meðan okkar hópur virðist enn vera að berjast við að losna við “forgjöfina” :biggrin2:

  Þarna mættum við ofjörlum okkar…. sumir geta sagt að þetta hafi ekki verið okkar dagur (einsog svo oft áður þegar við mættum C$$$$$i)

  JP var flottur á kantinum ekkert við hann að hafast eins er hægt að segja með “Dörkarann” ! Maður hefði á góðum degi séð Gerrard setja hann inn……. En svona eru nú bara hlutirnir og við verðum að taka þessu með ró og vera bjartsýnir á framhaldið 🙂 – Áfram Liverpool !

 14. Þetta var virkilega sárt … og ekki besta þynnkumeðalið að sjá svona leik tapast. 🙂 En hverju sem því líður, þá hef ég áhyggjur af sókninni. Þessir þrír síðustu leikir hafa verið markalausir hjá okkur. Ég verð bara að trúa því að þegar markið loksins kemur, þá opnist flóðgáttir. Ef við vinnum ekki næstu tvo leiki, þá fer þetta að verða ansi ansi ansi erfið barátta. En við munum vera í toppbaráttuni, ég er viss um það! Eða eins og Willum sagði í lýsingunni líka: liðið á eftir að smella saman og vera í toppbaráttunni.

  Ég vil bara fara sjá þennan smell – sem fyrst.

  Mér fannst Pennant ekki góður í dag og hefði frekar tekið út hann heldur en Bellamy. Maður leiksins var að mínum dómi Agger og … hann hefur bara virkilega heillað mig.

  Stjórarnir heilsuðust í lokin – fínt mál. Hver mun rjúfa marrkaþurrð okkar? Ég spái því að það verði Kuyt…

 15. Einkunnir leikmanna:

  Reina 7
  Finnan 7
  Carra 7
  Agger 8
  Warnock 7
  Pennant 5
  Alonso 7
  Sissoko 6
  Gerrard 6
  Bellamy 6
  Kuyt 7

  Subs
  Zenden 6
  Crouch 6
  Aurelio 7

 16. Ég verð nú bara að segja að ég skil ekki alveg þessa umræðu. Það má vel vera að það sé hægt að gagnrýna Rafa fyrir rót á liðinu og fyrir það að vera varnarsinnaður. Mér fannst Liverpool vera að spila mun betur en Chelsea í dag, Chelsea fékk ekkert færi fyrir utan það sem markið kom úr á meðan LFC fékk 3-4 dauðafæri. Þessi leikur tapaðist ekki á taktík heldur því að menn voru aular að nýta ekki færin sín.

 17. Og er Tiger bjáni af því hann klappaði fyrir stórkostlegu marki?

  Rólegir á því að vera bitrir.

 18. Nei, hann er bjáni fyrir að halda með Chelsea.

  Þú líka. Ef þú vilt málefnalegar umræður um Chelsea aðdáendur daginn eftir tap fyrir Chelsea þá geturðu farið eitthvað annað. Ég sé þig allavegana ekki hérna þegar að Chelsea tapa leikjum.

 19. Þetta var að mörgu leiti fínn leikur hjá okkur, eina sem vantaði var að nýta eitt af þessum færum sem við fengum. Mér leið asnalega eftir leikinn því ég var pirraður en samt ekki ósáttur því miðað við leikina í deildinni í fyrra þá var þessi leikur mikil framþróun.

  Agger átti frábæran leik sem og Kuyt. Eina sem Dirk vantaði í sinn leik var að setja mark.

 20. Sammála Bjarka, skil ekki þessa ummræðu um taktík og róteringu. Það sáu allir að Pool var miklu betra liðið í dag, Chelsea fékk ekkert færi en skoraði samt! Ótrúlegt en satt. Svona er þetta bara, betra liðið vinnur ekki alltaf. Rafa stillir upp því liði sem hann telur henta hverju sinni og KLÁRLEGA stillti hann upp liði sem var mun betra en Chelsea í dag.
  “Ég vil kenna Rafa um hvernig fór og þessu endalausu róti á liðinu” segir Hössi og svo þetta “Annars vil ég hrósa liðinu fyrir góðan leik” ????
  Þetta tap er ekki heimsendir, Rafa er ekki með æxli í hausnum og Tiger er klárlega einn besti íþróttamaður heims!

 21. Chelsea áttu ekki sigurinn skilið út af því að markið hjá Drogba var flott. Þeir skoruðu mark en við ekki, af þeim sökum áttu þeir sigurinn skilið. Hví að draga Crouch inn í þetta eiki? Þú sást ekki leikinn, og svona þér að segja, þá spilaði Crouch ekki langan tíma inni á vellinum. Það voru menn eins og Gerrard sem klikkuðu og gerðu það að verkum að við náðum ekki stigi eða stigum. Fengu dauðafæri sem ekki voru nýtt, simple as that. Við vorum að spila með Bellamy og Kuyt frammi og þeir skoruðu ekki. Hvernig menn fá þetta út með Drogba er ofar mínum skilningi. Hann hefur sett nokkur mörk núna, en miðað við markaskorun hans undanfarin tímabil með Chelsea, þá sé ég nú ekki að hann hefði veitt okkur neitt extra miðað við sem við höfum fyrir. Það hafa nú menn hjá okkur skorað glæsimörk, en þau telja eins og “ljótu” mörkin.

  Persónulega finnst mér ekkert að uppstillingu Rafa, allt í góðu þar og það sem klikkaði var að nýta helv… færin. Meira að segja áður en Ballack var rekinn útaf, þá vorum við betri aðilinn, vorum að skapa okkur fleiri og betri færi. En það þarf að nýta þessi færi, og ekki gerir Rafa það.

  Mér fannst Pennant eiga ágætis leik, nema mér fannst hann oft of seinn af stað og vera heldur aftarlega oft á tíðum. Fannst hann einmitt vera full varnarþenkjandi. Það er oft svo stutt á milli hláturs og gráturs. Það er alltaf hægt að segja “ef” og “hvað ef” í boltanum. Skotið hjá Kuyt nokkrum millimetrum neðar og við værum væntanlega allir í skýjunum í dag yfir snilli liðsins. Það gekk þó ekki eftir, og því fór sem fór. Ég stend við það sem ég sagði í upphituninni, þetta Chelsea lið er ekki nándar nærri jafn gott og síðustu tvö árin. Tímabilið er langt því frá að vera búið. Nú þarf bara að girða sig í brók og taka heimaleikina sem framundan eru. Það er ótrúlegt að skoða það að síðan deildin hófst, þá erum við búnir að spila 6 leiki í CL og PL og þar af eru 5 útileikir. Nú er lag að nota heimaleikina til að koma sér á svolítið “rönn” og byrja að þjarma að toppnum. Þetta er svo fljótt að breytast svona í upphafi tímabilsins. Nú reynir á.

  Skil ekki að menn fái það út að miðjan sé ekki að fúnkera eins og eiki talar um (samt sá hann ekki leikinn), því mér fannst hún einmitt mjög fín í leiknum. Chelsea pökkuðu inn á miðjuna og mér fannst okkar menn einmitt vinna hana.

  Agger fær svo enn eitt prikið í kladdann. Hann er bara að verða sjúklega góður varnarmaður þessi strákur.

 22. Miðjan virkaði vel og það var gaman að sjá loksins gamla Alonso aftur kominn í gang. Sissoko var æstari en oft áður og er greinilega með stærra hlutverk heldur en í fyrra í liðinu.

  Gerrard getur spilað hvar sem er og í þessum leik þá var það hans hlutverk að vera vinstra meginn á miðjunni. Hann leysti það vel.

  Pennant átti ágætisleik og vonandi heldur hann áfram að bæta sinn leik og þá mun hann nýtast okkur vel.

  Ég saknaði svolítið Garcia í þessum leik. Hefði verið gott að eiga hann á bekknum því hann getur gert óvæntu hlutina.

  Núna er mikilvægt að vinna Newscastle á miðvikudaginn… og við gerum það ef við spilum eins og við gerðum gegn Chelsea.

 23. Það var leiðinlegt að sjá Tigerinn fagna þessu marki, en þarf það endilega að þýða að hann sé Chelsea maður?

  Er ekki möguleiki að hann sé hlutlaus, og hafi bara verið að klappa til að vera með?

  Mig langar allavega að trúa því.

 24. ég trúi ekki öðru en að hann sé að falla fyrir peningum Roman :rolleyes:

 25. Ég held að menn séu að taka ummæli Einars of bókstaflega. Tiger er mjög líklega hlutlaus hvað enska boltann varðar og hefur verið að horfa á stórleik úr því hann var í London, ekkert annað. Við sáum til dæmis glöggt að Abramovich var ekki á sama stað á vellinum og hann, þannig að ekki var hann þar í boði þess rússneska. Hann hefur svo sennilega bara brosað og klappað yfir markinu sem hlutlaus áhorfandi, ekkert að því.

  Sem Púllara finnst manni það hins vegar súrt að sjá jafn frægan mann og Tiger fagna Chelsea-marki. Það pirrar mann, þótt hann eigi enga gagnrýni skilið sem slíka. Einar hefur eflaust meint það þannig, að það hafi pirrað hann að sjá Tiger fagna.

 26. Ég var á leiknum og Tiger var í boði Shevchenko. Þeir hittust á golfvelli og Shevchenko bauð honum á leikinn. Tiger þáði það og þetta var bara kurteisisklapp hjá honum. Efa stórlega að hægt sé að kalla hann Chelsea mann þótt hann hafi klappað “golfklappi” þegar markið kom. Annars gaman að minnast á Chelsea bullurnar sem ætluðu að berja okkur fyrir að vera “Scouser Cunts” eins og þeir orðuðu það svo smekklega. Heppnir að sleppa út í heilu lagi þarna. Vitleysingar eru þetta….

Liðið gegn Chelsea:

Gerrard: hvar á hann að spila?