PSV 0 – Liverpool 0

Okkar menn léku í kvöld fyrsta leik sinn í Meistaradeild Evrópu þetta tímabilið og gerðu **0-0 jafntefli á útivelli** við hollenska liðið PSV Eindhoven. Leikurinn var yfir heildina nokkuð jafn en tíðindalítill og á endanum er ekki hægt að segja annað en að jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða.

Eftir slæman tapleik um helgina gegn nágrönnunum í Everton gerði Rafa Benítez heilar sex breytingar á liði okkar manna fyrir leikinn í kvöld. Crouch, Fowler, Gerrard, Alonso, Hyypiä og Luis García misstu allir stöður sínar í byrjunarliðinu og í þeirra stað komu þeir Warnock, Agger, Pennant, Zenden, Bellamy og Kuyt. Liðið í heild sinni var því sem hér segir:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Warnock

Pennant – Sissoko – Zenden – Aurelio

Kuyt – Bellamy

**Bekkur:** Dudek, Hyypiä, Gerrard, Alonso, Luis García, Gonzalez, Crouch.

Fyrri hálfleikur fór frekar hægt af stað. Stemningin á vellinum var gríðarleg og myndaði kannski frekar stressandi andrúmsloft fyrir okkar menn, en fyrsta kortérið sá maður greinilega að þeir voru enn með skjálfta eftir útreið helgarinnar og var því ofurkapp lagt á þéttan varnarleik framan af. Eftir því sem líða tók á náðu okkar menn þó tökum á leiknum og þeir Sissoko og Zenden réðu algjörlega yfir miðjunni. Samt var hálfleikurinn tíðindalítill, þeir Bellamy og Kuyt fengu sitt hálffærið hvor en hinum megin átti Farfan hættulegasta færi PSV-manna í leiknum (og nánast það eina almennilega í leiknum) þegar hann komst í gott færi fyrir utan teig, Carragher var of langt frá honum til að loka á hann og hann negldi í slána. Þar voru okkar menn heppnir að lenda ekki undir en eftir það ógnuðu heimamenn frekar lítið og voru ekkert sérstakir í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik snerist þetta eilítið við, þar sem PSV-menn voru betri aðilinn á heildina litið og náðu upp góðri spilamennsku á köflum, en okkar menn fengu hættulegri færin. Kuyt átti gott skot um miðjan hálfleikinn sem fór rétt framhjá á meðan Bellamy var tvisvar nærri því sloppinn í gegn en fékk í bæði skiptin mjög slappa sendingu frá Pennant sem rataði ekki alla leið.

Þegar líða tók á hálfleikinn setti Rafa svo þá Alonso, Gerrard og loks Gonzalez inná fyrir Sissoko, Bellamy og Aurelio en allt kom fyrir ekki. Gerrard fékk svo undir lok leiksins besta færi okkar manna þegar Kuyt gaf á hann í góðu færi utan teigs og hann skaut góðu bogaskoti yfir markvörð PSV og í innanverða stöngina en þaðan skoppaði hann þvert fyrir opið markið og út úr markteignum. Einn sentímetri til hægri og við hefðum unnið þennan leik en stundum einfaldlega falla hlutirnir ekki með manni.

Á heildina litið var þetta mjög mikilvægur leikur fyrir Liverpool. Þetta er í fyrsta sinn á tímabilinu sem okkar menn halda hreinu og það gerir bæði vörninni og Pepe Reina í markinu gott fyrir næstu leiki, á meðan liðið virkaði aðeins rólegra og yfirvegaðra á boltanum en um helgina gegn Everton.

Hins vegar fannst mér liðið ferlega bitlaust fram á við. Eftir slappan sóknarleik á laugardag vildu menn meina að Rafa ætti að gefa mönnum eins og Luis García, Fowler, Crouch og Alonso frí en þeir voru allir fjarri góðu gamni í dag og ekki gátu þeir Kuyt, Bellamy, Pennant, Aurelio og Gonzalez skapað neitt meira en hinir gerðu í síðasta leik. Á sterkum grunni byggir maður gott hús og eftir að Rafa hefur vonandi náð að skapa smá öryggi í vörninni í þessum leik hlýtur næsta forgangsverkefni að vera að koma flæði á spilamennskuna í sókninni og stefna á að liðið fari að skora fleiri mörk í næstu leikjum.

Nú, hinn leikur riðilsins á milli Bordeaux og Galatasaray endaði einnig með markalausu jafntefli þannig að þessi riðill er einfaldlega galopinn fyrir næstu umferð og verður spennandi að sjá næsta leik á Anfield gegn Bordeaux.

**MAÐUR LEIKSINS:** Það stóð svo sem enginn sérstakur upp úr fyrir einhvern stjörnuleik en í jöfnu, þéttu en óspennandi Liverpool-liði í kvöld fannst mér Daniel Agger og Dirk Kuyt fremstir meðal jafningja. Agger er einfaldlega búinn að vera okkar besti leikmaður það sem af er tímabili og sýndi enn og aftur í kvöld að han ner að mínu mati fyllilega tilbúinn að vera bara áfram fastamaður í byrjunarliðinu, allavega um sinn, á meðan Kuyt var síógnandi og óheppinn að ná ekki að skora eins og eitt mark í heimalandi sínu í kvöld. Það verður gaman að sjá hann spila þegar flæðið á liðinu fyrir aftan hann verður orðið betra.

Næsti leikur: Chelsea. Hlakkar menn til? 😉

19 Comments

 1. Er ég einn í því að hneykslast á þeim “sérfræðingum” hjá Sýn með uppstillingu liðsins. :biggrin: Hvaða frost var í gangi efra þar? Eiga þetta virkilega að heita “sérfræðingar”? Guðni Bergsson, Heimir Karlsson, Ólafur Þórðarson og Gaupi!!!!

  Give me a break. Þeir fengu upplýsingar um byrjunarliðið og héldu virkilega (og tuðuðu yfir vanmætti Rafa) að Zenden yrði frammi, Warnock á hægri kanti, Pennant á þeim vinstri og þar með Aurelio í bakverði. Samt í raun hvorugur þeirra Warnock og Pennant á köntunum, heldur áttu þeir að mynda þriggja manna miðju með Momo :laugh:

  Hvert 5 ára barn sem fylgst hefur með boltanum hefði getað sagt sér það að liðið yrði ekki svona. Réttir menn inná, en c.a. 2 mínútum síðar (þegar skipt var yfir á ensku stöðina á Players) þá komu upp sömu menn upp stilltir en í réttum stöðum á vellinum. Orðið “fótboltasérfræðingar” fékk hreinlega nýja merkingu í mínum huga. Þvílíkir snillingar. Hverjum finnst skrítið þótt menn vilji fá enska þuli á leikina þegar okkar “sérfræðingar” hafa ekki meira vit á því sem þeir eru að segja, heldur en sonur minn (sem er btw. þriggja ára)?

 2. Þetta var uppstilling sem birtist á uefa.com í Match centre þar. Þeir hafa væntanlega haldið að Rafa væri bara genginn af göflunum.

  En skv. uefa var PSV líka að spila með tvo hægri bakverði og nánast engan á hægri kanti.

  Annars undrar maður sig ekkert á því að þeir hafi ekki vitað þetta á Sýn. Bölvaðir vitleysingar allir sem einn.

 3. Var að skoða úrslit kveldsins og rak augun í að Morientes skoraði þrennu í kvöld fyrir Valencia………..núna getur hann skorað helvískur !

 4. Rólegur Ssteini minn 🙂

  Eins og Pétur bendir á þá fá þeir þetta svona frá UEFA, Sýn setur ekki upp spjöldin með byrjunarliðunum. Ég tók líka eftir þessu rúmum klukkutíma fyrir leik og hugsaði hvað strákarnir á UEFA.com hefðu fengið sér í hádegismat…

  Sá reyndar ekki byrjunina en Óli Kristjáns og Gaupi leiðréttu þetta vitaskuld strax og leikurinn byrjaði, þannig að ég sé ekkert athugavert við þetta.

  Ég er reyndar kannski ekki alveg hlutlaus en engu að síður… :biggrin2:

 5. Var það ekki Kone sem átti sláarskotið? 🙂
  Annars er ég ánægður með þetta stig. Erfiður útivöllur og PSV hafa bara tapað hvað, 2-3 leikjum af 55 þarna.

  Agger frábær. Hann er stórkostlegur leikmaður, leið og hann kemur í vörnina róast allt og hann tekur þátt í uppbyggingu sókna.

  Kuyt og Bellamy góðir, þeir eiga eftir að verða aðallinn hjá okkur. Kuyt magnaður, leikmaður sem kann fótbolta. Ekkert sparka, hlaupa bomba í gegnum net(vitið hvern ég meina) :laugh:

  Þá er það bara að taka Chel$ki kallana á sunnudaginn. Get ekki beðið!

 6. Alveg hreint ótrúlegt að vera að hvíla fyrirliðann og okkar stærstu stjörnu. Já menn tala um að það sé ekki búið að vera bit í sókninni í síðustu 2 leikjum. Flestir sem horfa á fótbolta vita að St.Ger. er einn mest ógnandi miðjumaður evrópu en samt fattar Benites ekki hvað þarf til þess að bæta bit sóknarinnar, lætur St.Ger. vera úti á kanti eða á bekknum. Af hverju þurfa Barcelona og Chelsea ekki að hvíla sína sterkustu menn en bara Liverpool. Þetta er alveg með ólíkindum, velja 11 sterkustu menn liðsins fyrir hvern leik og ekkert kjaftæði.

 7. Mér fannst Bellamy reyndar betri en Kuyt í leiknum. En það er bara mín skoðun. Samt sammála flestu, sem kemur fram í skýrslunni.

 8. Sammála Einari, fannst Bellamy vera betri… Vel Agger mann leiksins 🙂

  Já og Nonni, það geta ekki allir spilað alla leiki. Ronaldinho spilaði ekki með Barcelona í fyrsta deildarleiknum, fékk svo frí í öðrum landsleik Brasilíu og spilaði svo einhvern grín vináttulandsleik við Wales. Hann spilaði svo í kvöld og hann er besti leikmaður Barcelona.

  Steven Gerrard spilaði tvo leiki með enska landsliðinu, annan gegn Makedóníu á erfiðum útivelli, svo erfiðan leik um helgina gegn Everton og svo er leikur gegn Chelsea á sunnudaginn… Álagspunktarnir eru bara misjafnir.

  Þess má geta að Gerrard byrjaði líka á bekknum í fyrsta leiknum í CL í fyrra gegn Real Betis…

 9. Agger og Kuyt góðir að mínu mati.

  Annars var ég hvorki sáttur við byrjunarliðið né þetta róterings system hjá Rafa. Nú vil ég fara að sjá besta byrjunarliðið spila nokkra leiki svo menn fái tíma til að byggja sig upp sem lið. Glötuð stig í september – október geta gert útslagið í vor.

  Annars slæm úrslit að mínu mati. Að öllu jöfnu hefðum við átt að vinna þetta lið á útivelli. Hefði gert framhaldið auðveldara.

  Áfram Liverpool!

 10. Einfalt fyrir mér:

  1. Sæmilega ánægður með stigið
  2. Frábær vörn – dapurt framávið
  3. Barcelona leikurinn miklu skemmtilegri
  4. Agger er hiklaust maður leiksins

  Áfram Liverpool!

 11. Alveg hreint ótrúlegt að einhverjir leyfi sér að gagnrýna liðsvalið fyrir þennan leik. Að sjálfsögðu stokkar þjálfarinn liðið verulega upp eftir 3-0 tap gegn miðlungsliði Everton. Annað væri einfaldlega ósanngjarnt fyrir þá sem ekki fengu að byrja þann leik. Einhverjir verða að taka út refsingu og fyrirliðinn er ekkert háheilagur frekar en aðrir í þessu liði. Benitez getur aldrei vitað nákvæmlega fyrirfram hvaða menn henta best í hvern leik svo þetta verður alltaf smá áhætta.

  Liðið sem byrjaði þennan leik stóð sig alls ekki illa í fyrri hálfleik (sem ég sá) og var frekar óheppið að skora ekki. Þetta datt ekki alveg með Liverpool í dag, en 0-0 eru ásættanleg úrslit á útivelli gegn PSV.

 12. Aurelio er leikmaður sem ég er ekki að heillast af. Það er margt í enska leiknum sem hann virðist ekki vera að skilja. Hann er oft illa staðsettur og á margar undarlegar sendingar.

  Í dag fékk hann kjörið tækifæri til að sanna sig sem kantmaður en sóknarlega séð var hann alveg lamaður. Það gerðist ekkert á vinstri kantinum.

  Vissulega sakna ég Riise og Kewell… en vinstri vængurinn er ekki illa mannaður með Gonsales og Warnock, sem gætu verið framtíðarmenn í liðinu. En það sem mér líkar við þá er baráttuandinn,,, báðir gríðarlega duglegir á meðan Aurelio virðist svolítið værukær.

 13. Btw. góð skýrsla Kristján Atli.

  Hjalti, þú ert ekki að ná punktinum hjá mér. Vitanlega hefur einhver kvartvitinn gefið þetta úr, en maður með minnsta vit á fótboltanum, vissi strax að þessi uppstilling var “far from it” alveg sama hvort Gaupi og co. leiðréttu þetta rétt á eftir, þá hraunaði hann yfir þetta hugsunarlaust þegar þeir stilltu þessu upp. Come on, meira að segja Everton menn hefðu fattað að þetta var ekki rétt uppstilling. :laugh:

 14. Tek undir með Ssteina, góð skýrsla!

  En já Ssteini, ég kveikti ekki á hljóðinu fyrr en svona mínúta var búin af leiknum og þá voru þeir að segja að “maður sér strax að þessi uppstilling sem við fengum gefna upp var bara bull.”

  Ekki fyrir mitt litla líf nennti ég að hlusta á Guðna, Heimi og co fyrir leikinn. Sérstaklega ekki með Óla Þórðar á kantinum! 🙂

 15. Óli Þórðar var nokkuð nettur. Gaf lítið fyrir möguleika Chelsea á þeim forsemdum að hann bara þoldi ekki Cheslea. Aðspurðum um hvernig Ballack myndi passa inní Chelsea liðið gaf hann ekki mikið fyrir Ballack af þeirri einföldu ástæðu að hann þoldi ekki Ballack :laugh: Þarna er allavega maður sem þorir að segja það sem hann meinar.

 16. Þetta var ekki skemmtilegur leikur en jákvætt að við fengum ekki mark á okkur og töpuðum ekki fyrsta leiknum í CL.

  Agger stóð sig fanta vel sem og öll vörnin. Hins vegar set ég spurningamerki við að nota Zenden með Sissoko á miðjunni. Miðjuspilið breyttist mikið þegar Alonso og Gerrard komu inná.

  Kuyt sýndi að hann verður okkar framherji númer eitt í vetur. Hörkuduglegur og skapar mikið fyrir samherja sína.

 17. Fannst ykkur ekkert athyglisvert að dómarinn skyldi ekki áminna Franfran þegar hann ýtti Carragher á Reina, sem var að koma á fleygiferð út úr markinu. Þetta er stórhættulegt og Reina hefði getað meiðst mjög illa.

  Þetta hefði meira að segja verið rautt spjald í handbolta!

 18. Var ánægður með okkar menn í leiknum en fannst RB full varnarsinnaður. En allt í lagi að halda stiginu og vinna svo heima. Ég verð þó að viðurkenna að ég kvíði fyrir leiknum á Brúnni en vona hið besta. Í raun er komið mál til að vinna Rúblurnar þar.

Byrjunarliðið gegn PSV – Gerrard á bekknum!

DAGGER