Gúrka

Ég er búinn að hugsa um það frá því að leikurinn á laugardaginn var blásinn af, hvað maður ætti nú að skrifa um næstu dagana og vikurnar. Núna er runnið upp enn eitt landsleikjahléið. Ég verð bara að viðurkenna það að það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér sem snýr að boltanum, heldur en þessi landsleikjahlé. Sérstaklega í upphafi leiktíðar á hverju ári. Þetta er örlítið skárra núna þar sem um undankeppni er að ræða, en ég er samt fúll yfir þessu. En það er bara ég, sumir hafa afskaplega gaman að þessu, og svona er bara munurinn manna á milli. Það eina sem ég hugsa um þegar kemur að þessum hléum, er að leikmenn Liverpool komi heilir tilbaka.

Það sem er einna verst við þessi hlé er að það eru afar fáir leikmenn að æfa með Liverpool. Fréttirnar eru af afar skornum skammti og svo maður tali nú ekki um eftir miðvikudaginn, þegar leikmannaglugganum verður lokað. Þá er varla hægt að skrafa um neitt (sérstaklega þar sem engir leikir eru framundan). Einu viðtölin sem birtast eru yfirleitt í kringum hringleikahúsið sem þetta blessaða enska landslið er. Ég fæ stundum æluna upp í háls þegar sá sirkus byrjar. Ég er svo dauð feginn því að Stevie G var ekki settur sem landsliðsfyrirliði, því tilhugsunin um að fá hann í svipaðan sirkus og hefur verið í kringum David Beckham, og er nú hafinn í kringum John Terry, er hreinlega óbærileg. John Terry hefur varla farið í viðtal síðan hann var settur í stöðuna, án þess að þurfa að minnast eitthvað á landsliðið. Ég er á því að þetta geti ekki annað en haft áhrif á fókus manna á sitt lið. Sumir vilja meina að menn bæti sig með því að fá þessa ábyrgð, en ég held að það eigi bara við um landsliðið og mér er eiginlega nokk sama hvernig okkar menn spila með landsliðum sínum, svo framarlega að þeir skili sínu með Liverpool.

Það eina jákvæða við þetta hlé sem er að byrja, er að Jamie Carragher, John Arne Riise og Momo Sissoko missa af færri leikjum í deildinni en ella. Á móti kemur þó að liðið var byrjað að spila vel saman á köflum í síðasta leik, en núna fara menn út um hvippinn og hvappinn og Rafa nær ekki að slípa menn enn betur saman og koma sínum áherslum á framfæri. Það er einfaldlega ekki hægt þegar meirihluti aðalliðsins getur ekki verið með honum á æfingasvæðinu. Hverjir verða þar í þessari viku og allt þar til 2 dögum fyrir leikinn mikilvæga við Everton? Jú, það eru menn eins og Gabriel Paletta (ef hann verður orðinn góður af meiðslunum), Fabio Aurelio, Bolo Zenden, Mark Gonzalez, Jermaine Pennant og Robbie Fowler. Þeir gætu kannski spilað 3 á 3 🙂 Auðvitað er svo fyllt upp með strákum úr varaliðinu og mönnum eins og Mellor, Flo og sjálfum snillingnum Salif Diao. Þetta er samt vonlaust mál með að koma einhverju skipulagi inn í liðið. Það eina sem maður getur gert er að vonast eftir því að menn komi heilir heim og taki upp þráðinn frá því síðast.

3 Comments

  1. Það er þó fínt að það skuli ekki vera jafnmikið slúður/stress einsog síðasta daginn í fyrra hjá Liverpool. Bara [svona til að rifja það upp](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/08/31/index.php) – hér er svo [pistill frá Kristjáni](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/09/01/10.30.43/).

    Það er þægilegt að Liverpool skuli vera búið að öllum kaupunum og næstum allir sáttir við kaup sumarsins. Það er mikil breyting frá því í fyrra. 🙂

  2. Hvað landsliðin varðar þá er ég ekki svo öfgafullur að vilja leggja þau niður eins og sumir. Ég er Íslendingur og styð íslenska landsliðið í leikjum og skil vel að aðrar þjóðir vilji gera það sama fyrir sína leikmenn.

    Það er hins vegar tímasetningin sem ég set út á. Síðasta tímabil var meira og minna öllu hliðrað að vild fyrir landsliðin af því að það er HM-ár og þau koma bara á fjögurra ára fresti. Ágætt, hugsaði maður með sér og lét yfir sig ganga, og í sumar spiluðu menn þetta mót svo og lögðu augljóslega glaðir á sig aukna þreytu og slíkt. Fyrir vikið snúa margir leikmenn til baka til félagsliða sinna í ágúst þreyttari en venjulega og eru lengur að koma sér í form. Við erum að sjá þetta hjá öllum liðum – Thierry Henry er ennþá eins og hann sé að spila æfingaleiki í júlílok, svo dæmi sé tekið.

    Svo kemur að liðunum. Menn þurfa að þola að fá leikmenn seint og í misfersku ástandi til baka frá HM en kvarta ekki, það kvartar enginn því það er draumur allra að spila á HM með þjóð sinni.

    En var þá ómögulega hægt að gefa landsliðunum frí í ágúst? Mátti ekki bíða þangað til í októberbyrjun, að minnsta kosti, og hafa þá þriggja vikna landsleikjahlé þar sem menn hefðu getað haft vináttuleik til að koma sér í gang og svo 2-3 leiki í undankeppnum Álfukeppnanna?

    Nei, það var ekki hægt. Þess í stað er mönnum kippt ekki einu sinni heldur TVISVAR frá liðum sínum í ágústmánuði, fyrst í viku og svo nú í tæpar tvær vikur. Þetta er mjög viðkvæmur tími fyrir öll lið í öllum efstu deildum Evrópu; menn eru að samstilla liðin sín, þau eru að samspila sig og menn eru að vinna sér inn leikform. Að mönnum skuli vera kippt út úr því umhverfi á þessum tíma ekki einu sinni heldur tvisvar er fáránlegt og gerir ekkert annað en að auka á ferðaþreytu og líkamlega þreytu leikmanna sem eru nú þegar örþreyttir eftir að hafa spilað knattspyrnu margir hverjir í allt sumar líka.

    Virðingarleysið sem klúbbunum er sýnt nú í haust finnst mér bara fyrir neðan allar hellur, og það gildir fyrir öll knattspyrnusambönd í öllum löndum. Þetta er ekkert eitthvað Liverpool-væl, ég er að kvarta yfir þessu fyrir hönd allra klúbba í öllum efstu deildum Evrópu. Þetta er algjörlega óviðunandi en samt spólar UEFA bara áfram með sitt prógram og hlustar ekkert á kvartanir klúbbanna.

    Varðandi leikmannamálin hins vegar verð ég að segja að það er vissulega mjög hressandi að þau skuli vera kominn í góðan farveg með góðum fyrirvara. Eftir að Kuyt kom var bara spurningin hvort að Kromkamp færi og/eða Lucas Neill komi í staðinn eins og einhverjar slúðursögur hafa verið að segja en það er ekkert sem hefur úrslitaáhrif á hópinn og virðist ekki líklegt að svo stöddu, tveimur dögum fyrir lokun gluggans.

    Rafa var einfaldlega búinn að versla sitt snemma sem bendir til þess að hann hafi verið með mjög ákveðna menn í huga og að flestir hlutir hafi gengið upp (Daniel Alves-sagan er þar undantekningin). Kuyt kom síðastur til okkar manna fyrir tveimur vikum tæpum síðan og með því var hópurinn eiginlega orðinn fullformaður. Það er hressandi tilbreyting að þurfa ekki að svitna á fréttavaktinni á lokadegi gluggans, það er á hreinu. 😉

    En þessi landsleikjahrina er bara móðgun og ekkert annað. Það hefði verið svo auðvelt að gera þetta öðruvísi með tilliti til klúbbanna og Evrópudeildanna, það hefði t.d. enginn kvartað yfir því að missa leikmenn sína í þrjár vikur í októberbyrjun ef það hefði þýtt að menn hefðu getað fengið að hefja tímabilið ótruflaðir í staðinn. Enginn!

  3. Ég er hjartanlega sammála þér með Gerrard og fyrirliðasirkusinn varðandi enska landsliðið. Ég var að vonast til að hann yrði ekki valinn því að það myndi alls ekki vera gott fyrir hann að vera með enska landsliðið á bakinu og LFC lika. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að sá sem tekur við fyrirliðabandinu er undir gífurlegri pressu og oftar en ekki gengur það ekki eftir. Terry byrjaði allavega vel með bandið…..flott fyrir hann.

Lið vikunnar

Kuyt leikmaður ársins í Hollandi