Sunnudagshugleiðingar

Eftir alla biðina og uppsafnaða spennu lauk fyrsta leik okkar manna í gær með 1-1 jafntefli á útivelli gegn **Sheffield United**. Þessi úrslit voru vissulega vonbrigði fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool, sér í lagi eftir góðan sigur á Chelsea fyrir viku síðan, og eflaust eru einhverjir frekar pirraðir yfir þessu í dag, en ég vil benda á nokkur atriði sem vöktu athygli mína varðandi þennan leik:

1. Stemningin á Bramall Lane. Það eru tólf ár síðan Sheffield United voru sendir í viðjar neðrideildanna til að leika knattspyrnu sína og eftir að hafa nokkrum sinnum verið nálægt því að komast upp aftur tókst það loksins í vor. Hitt Sheffield-liðið, Wednesday, hefur mátt þola enn verri örlög og sitja nú í fyrstu deildinni, þannig að skiljanlega var gærdagurinn stór fyrir borgina. United-liðið var komið aftur á meðal þeirra bestu og aðdáendur þess svöruðu kallinu með stæl; 32.000 manns pökkuðu Bramall Lane og sköpuðu stemningu sem var hreinasta unun á að horfa í sjónvarpi. Sean Bean skartaði sínu fegursta í stúkunni og í góða veðrinu gat maður skynjað æsinginn í aðdáendum. Frábær stemning og heimamönnum til sóma – svona ætti þetta að vera á öllum leikjum!

2. Ég hef nefnt það nokkrum sinnum áður hér að okkar helsta von í deildinni fælist í því að ná góðri byrjun í fyrstu leikjunum og ná að nýta okkur það ef Chelsea-menn skyldu þurfa smá tíma til að aðlagast nýjum leikmönnum og nýju leikskipulagi. Í einfeldni minni horfði ég svo einblýnt á þennan möguleika að ég reiknaði hreinlega ekki með því af alvöru að það sama gæti komið fyrir hjá okkar mönnum. En í gær sást það glögglega; Finnan og Alonso voru fjarri góðu gamni og þegar Riise og Carragher voru farnir útaf meiddir um miðjan fyrri hálfleik sátum við eftir með vörn og miðju sem hafði spilað sáralítið saman í rauðri treyju. Agger og Kromkamp hafa spilað innan við tíu leiki fyrir félagið hvor á meðan Aurelio var að spila sinn fyrsta leik í bakverði. Ásamt Hyypiä vorum við því með fjóra varnarmenn sem þekkjast lítið sem ekkert og það sást vel í markinu sem við fengum á okkur, þar sem skortur á samhæfni hjá Agger og Aurelio varð til þess að Rob Hulse náði óvaldaður skalla að marki. Á miðjunni voru Sissoko og Zenden að spila aðeins sinn annan leik saman sem miðjupar, á meðan Gerrard var settur út til hægri og Gonzalez var að spila sinn fyrsta deildarleik með liðinu. Ég hefði persónulega sjálfur haft Gerrard með Sissoko á miðjunni, þar sem þeir þekkjast aðeins betur, en það er auðvelt að vera vitur eftir á.

3. Ef það er ávísun á aðlögunartíma hversu margir nýir leikmenn eru að venjast aðstæðum og hverjum öðrum þessa dagana þá er það líka ávísun á bjartsýni að rifja upp hverjir léku ekki leikinn í gær. Crouch og Dudek sátu á bekknum allan leikinn á meðan menn eins og Finnan, Warnock, Paletta, Luis García, Kewell, Alonso, Sinama-Pongolle og Kuyt voru ekki í hópi af ýmsum ástæðum. Kuyt og Paletta eru nýir leikmenn en hinir eru allir orðnir vanir leikmenn Liverpool og því fleiri af þeim sem við fáum inn í liðið á ný því meiri verður samkeppnin og því stöðugra/öflugra verður liðið. Ég er til að mynda sannfærður um að ef Alonso og Finnan hefðu verið með í gær hefðum við unnið þennan leik, sem og ef við hefðum ekki misst Carragher og Riise útaf snemma vegna meiðsla. Tvær innáskiptingar snemma leiks eru þungur baggi á herðum þjálfarans, því þótt tveir gæðaleikmenn hafi komið í þeirra stað þá þýddi það að Rafa hafði bara eina skiptingu eftir til að reyna að knýja fram sigur undir lok leiks. Fyrir vikið fékk Crouch ekki að spila, en ef Rafa hefði átt fleiri en eina skiptingu eftir hefði sá stóri nær pottþétt komið inná.

4. Framherjamálin. Í gær stillti Rafa upp þeim Fowler og Bellamy í fremstu víglínu og þeir áttu fremur dapran dag. Fowler bjó til færið fyrir Gerrard sem vítið kom upp úr og skoraði sjálfur úr vítinu með öruggri spyrnu, á meðan Bellamy var sívinnandi allan leikinn og komst tvisvar í góð færi en náði ekki að nýta þau. En á heildina litið voru þeir báðir frekar daprir í gær, miðað við það sem við vitum að þeir geta. Að hluta til var frammistaða þeirra eflaust nýjabruminu fyrrnefnda um að kenna, því bæði þeir og leikmennirnir fyrir aftan þá eru að venjast því að spila saman og maður sá fyrir vikið mikið af misskilningi og feilsendingum í gær. Þetta lagast eftir því sem leikjunum fjölgar. En Fowler og Bellamy vita það báðir að samkeppnin er í hámarki og ef þeir ekki hrökkva í gang strax í næsta leik sínum gætu þeir misst stöður sínar til Crouch og Kuyt, og ef þeir byrja tímabilið af krafti er ekkert víst að það verði auðvelt fyrir hina að fá leik. Við höfum beðið um hágæðasamkeppni í framlínuna árum saman og nú er hún loks komin. Ég hlakka til að sjá Kuyt spila um næstu helgi.

5. Ef Rafa hefði getað nálgast þennan leik sem stakan leik án nokkurra eftirmála er ég nánast sannfærður um að hann hefði stillt liðinu öðruvísi upp. Að byrja með Crouch, Pennant og Gonzalez utan vallar var nær örugglega gert með Evrópuleikinn á þriðjudag í Kænugarði í huga, auk þess sem við getum gert ráð fyrir að Luis García leiki stórt hlutverk í þeim leik úr því hann var hvíldur í dag. Hvort snemmbær innkoma Gonzalez og Agger í þessum leik breyti plönum Rafa fyrir leikinn á þriðjudag eitthvað verður að koma í ljós, en það er ljóst að hann er að nýta sér breidd hópsins þegar í upphafi tímabils til að geta haldið mönnum ferskum frá einum leik til annars.

6. Það er erfitt að taka einhvern einn leikmann út eftir frekar slaka frammistöðu, en ég tek undir með Hjalta sem valdi Fabio Aurelio sinn mann leiksins í leikskýrslu sinni í gær. Aurelio hóf leikinn sem skeinuhættur kantmaður og var allt frá fyrstu mínútu okkar helsta ógn upp við vítateig United-manna, en jafnvel eftir að Riise fór útaf og hann færði sig niður í bakvörðinn hélt hann áfram að ógna upp vænginn. Vinnslan í honum er frábær og þótt hann sé brasilískur er gaman að sjá að hann er til í að láta finna fyrir sér. Þá er glöggt að sjá að hann er fjölhæfur; í gær átti hann fyrirgjafir, lék á menn, átti góðan þríhyrningssamleik með Gonzalez sem gaf gott færi af sér í fyrri hálfleik og svo er hann hörkuskotmaður sem hefði hæglega getað komið okkur yfir með góðri aukaspyrnu í gær. Riise meiddist í gær svo að ég tel víst að Aurelio fái allavega næstu tvo leiki sem byrjunarmaður í sinni bestu stöðu, vinstri bakverðinum, svo að það verður athyglisvert að sjá hvernig hann nýtir það tækifæri og hversu auðvelt/erfitt Riise mun eiga með að vinna sig aftur inn í liðið þegar hann nær heilsu. En það er ljóst að breiddin okkar á vinstri hlið vallarins er ótrúleg.

Að lokum gróf ég upp þrjár umfjallanir frá bloggmiðlum erlendis. Mér leiðist oftast að lesa leikskýrslur opinberra miðla, svo sem heimasíðna liðanna og stærri tímaritanna, þar sem menn eru helst til of diplómatískir og öruggir í orðum sínum. Þú myndir t.d. aldrei sjá vafaatriði í leik túlkað Liverpool í óhag á opinberu síðunni, né hjá öðrum liðum, og stóru blöðin verða að passa sig að móðga engan. Við bloggararnir erum frjálsir frá slíkum hlekkjum og getum sagt nákvæmlega það sem okkur finnst.

Þannig að hér eru þrjár greinar sem ég myndi mæla með öðrum fremur sem gefa fína innsýn í leikinn í gær. Ein er frá Sheffield United-aðdáendasíðu, önnur frá Liverpool-aðdáendasíðu og sú þriðja frá óháðri, enskri fótboltabloggsíðu:

Sheff-Utd.co.uk: “Liverpool couldn?t be described as anything but sloppy in the first half with Gerrard amongst the guilty parties for over-hit passes going into touch.”

TLW Blog: “I?m really disappointed with the result, but it hasn?t shaken my belief that this is going to be a hell of a season for us. Today was a bad day at the office, but it?s an away point picked up on a day when we played dreadfully. If complacency was at the heart of the problem, then this result won?t do us any harm as it will make the players realise that just turning up isn?t enough, no matter how superior they are on paper to the opposition.”

Soccerlens.com: “I wrote earlier that Liverpool had quite a lot to prove and expectations to match, and while I don?t think this result means that they?re a bad side, it does mean that Liverpool have some way to go before they live up to the title-challenging that the media has made them out to be.”

Sem betur fer þurfum við ekki að bíða lengi eftir að koma tímabilinu á fullt skrið; okkar menn leika gegn Maccabi Haifa á þriðjudag í Kænugarði og svo er fyrsti deildarleikur á Anfield um næstu helgi gegn West Ham. Seinna í dag leika Man U og Chelsea sína fyrstu leiki í deildinni, en eftir að Arsenal og okkar menn gerðu óvænt jafntefli í gær verður athyglisvert að sjá hvernig þeim reiðir af. Vonandi gera Heiðar Helguson og Didi Hamann okkur greiða. 😉

7 Comments

 1. Sæl öll,

  og til lukku með að tímabilið skuli vera farið af stað. Mitt umhugsunarefni núna eru hornspyrnunar hjá okkar mönnum í gær, háir boltar sem virtust detta niður í fallhlíf inní teig. Ég horfði svo aðeins á kvennalandsleikinn í gær og ég verð að segja að hornin hjá Margréti Láru voru miklu betri en hjá Liverpool mönnum í gær. En þetta er ekkert nýtt vandamál hjá okkur, var þetta ekki svona allann síðasta vetur, afskaplega légleg nýting á föstum leikatriðum, ef ég man rétt að þá fengum við 12 hornspyrnur í gær og ég man ekki eftir að nein veruleg hætta hafi skapast af neinni þeirra, ég vil fá fasta “lága” bolta inní teig sem þarf ekki annað að reka hausinn í til að skapa hættu, kannski eru þeir hræddir um að rota Crouchinn ef boltinn kemur of fastur til hans. 🙂

 2. Stjáni – þú hefur þá misst af því þegar Hyypiä skallaði í stöng eftir hornspyrnu skömmu eftir mark Sheffield-liðsins. Eða þegar þeir björguðu á línu eftir góðan en lausan skalla Daniel Agger úr hornspyrnu í fyrri hálfleik.

  Hornspyrnurnar voru fínar í gær, rötuðu flestar á hausinn á Agger eða Hyypiä á fjær eins og lagt hafði verið upp með. Þaðan átti svo að skalla boltann til baka inn á markteiginn á mann í færi og það klikkaði oftar en ekki. Þannig að ég myndi frekar kenna sköllurunum um en þeim sem tóku spyrnurnar í gær.

 3. Sælir

  Ég veit að þetta kemur þessari umræðu ekkert við en verð samt að koma með eitt komment varðandi Chelsea.

  Benitez hefur verið duglegur að benda á að það sé peningum Abramovich að þakka að Chelsea hafi orðið meistarar síðustu 2 tímabil, ekki Mourinho. Ég tek undir þau orð með Benitez.

  Þeir sem ekki eru sannfærðir ættu að skoða verðmiðan á byrjunarliðið þeirra í dag á móti City. Þeir 11 leikmenn sem byrjuðu leikinn kostuðu C$$$$$$ heilar 163 MILLJÓNIR PUNDA.

  Til að átta sig betur á upphæðinni þá er gott að bera saman kaup Benitez, hann hefur keypt 29 leikmenn síðan hann tók við Liverpool og borgað fyrir þá 79,5 milljónir punda.

  Hver segir svo að ekki sé hægt að kaupa sér árangur.

 4. Jamm Krizzi!

  Hugtakið peningaþvottur kemur strax upp í huga manns þegar þessar tölur hjá rússanum ríka eru skoðaðar.

 5. Rétt eins og ég hef sagt áður. Allt þetta tal um að við séum nógu góðir til að keppa um titilinn er bull.

  Það er morgunljóst að við eigum eftir að tapa fleiri stigum en Chelsea í leikjum við lið sem við eigum að vinna og þar liggur munurinn. Því miður.

 6. Arnar ó minn. Taktu stigaskor síðasta tímabils, að undanskyldum fyrsta mánuðinn og skoðaðu það vel. Bættu síðan við að Liverpool hefur skyrkt sig mjög vel í sumar. Reyndu síðan að sannfæra mig um að við getum ekki keppt um titilinn.

 7. Ég skal glaður éta þetta ofaní mig í lok tímabils.

  En það er ekkert hægt að heimfæra einhvern árangur frá einhverju vissum hluta síðasta tímabils yfir á þetta tímabil. Nú er hafið nýtt tímabil og þótt við höfum styrkt okkur hafa önnur lið líka gert það. Fyrir utan að þó svo að leikmannalega séum við kanski betur settir enn í fyrra þurfa nýju mennirnir tíma til að aðlagast nýju liði og jafnvel nýrri deild.

  Þegar öllu er á botninn hvolft, met ég þetta þannig að við eigum bara því miður ekki séns í mulningsvélina hjá Chelsea.

  Annars þarf ég ekkert að sannfæra aðra um mína skoðun, en get samt bætt við að þeir sem halda að við getum unnið þetta hljóta að teljast óraunsæjir. Nú þýðir ekkert að segja , já en Gerrard sagði það … auðvitað væri fáranlegt af leikmönnum og þjálfara liðsins að halda öðru fram en þó svo það sé útgefin skoðun þarf hún á engan hátt að endurspegla raunverulega skoðun þeirra.

  En eins og ég sagði vonandi er þetta rangt, því auðvitað vil ég sigur í deildinni…

Sheffield United 1-1 Liverpool

Maccabi Haifa á morgun!