Landsleikjahlé

Eftir flottan sigur á Chelsea í gær gætu menn kannski haldið að Rafa Benítez væri sem stendur á fullu við að undirbúa lið sitt fyrir næsta leik, fyrsta deildarleikinn gegn Sheffield United á útivelli eftir fimm daga. Menn gætu haldið að það væri mikilvægt fyrir þjálfara liðs sem ætlar sér að vinna titilinn í ár að nýta þessa fimm daga í að gera menn andlega og líkamlega tilbúna í slaginn sem framundan er, auk þess að geta unnið í taktíkinni fyrir komandi leik og/eða leiki.

Ef menn myndu halda það myndu þeir hafa rangt fyrir sér. Rafa Benítez er sem stendur að láta þessa örfáu leikmenn Liverpool sem voru ekki valdir til að leika með landsliðum sínum spila reitabolta og borðtennis, á meðan landsliðsþjálfararnir njóta góðs af því sem ég get eiginlega bara lýst sem ótrúlegri frekju og yfirgangi landsliðanna!

Í alvöru, það eru fimm dagar í að fyrsta umferð í flestum deildum Evrópu hefjist. Og mönnum er kippt út úr undirbúningstímabilinu sínu og látnir spila tilgangslausa landsleiki? Hvað í fjandanum eiga þessir landsleikir að gera?! Mönnum verður kippt aftur frá liðum sínum til að leika landsleiki eftir tæpar þrjár vikur, og munu þá verða í rúma viku með landsliðum sínum og spila tvo leiki. Var ekki hægt að láta það nægja? Flest stærri liðin voru að spila í HM fyrir ekki svo löngu síðan, þurfa menn virkilega æfingaleik núna til að samstilla sig?

Þetta er svo mikið kjaftæði að það nær ekki nokkurri átt. Og það versta er að stærri liðin tapa öll á þessu. Á meðan Liverpool, Chelsea, Man U og Arsenal missa 80% af mannskap sínum í landsleiki eru lið eins og Sheffield United með nánast fullan mannskap þessa vikuna til að búa sig undir leik við … jú, akkúrrat, Liverpool! Og samt búumst við við að Liverpool vinni skyldusigur gegn Sheff Utd næstu helgi? Ég er bara hreint ekki svo viss.

Helvítis landsleikjahlé. Ég hef nákvæmlega ekkert á móti landsliðum og finnst frábært að fá að sjá löndin berjast, en þessar aukapásur vegna æfingalandsleikja fara óendanlega mikið í taugarnar á mér. Hvernig væri að taka bara þrjár tarnir yfir veturinn þar sem landsliðin fá að njóta sín í svona þrjár vikur? Þar væri hægt að spila tvo æfingaleiki og svo 3-4 leiki í undankeppnunum, og svo gætu menn bara farið og einbeitt sér að félagsliðum sínum næstu fjóra mánuðina án þess að vera truflaðir? Ekki þetta stanslausa bull … við fáum 2-3 umferðir í deild og svo þurfa menn aftur að fara aftur til að spila með landsliðum sínum?

Rugl. Ekkert annað en rugl. Þeir sem halda að leikmenn landsliða græði eitthvað á æfingaleik sem er spilaður þremur vikum fyrir fyrsta landsleik, eigandi svo eftir að spila 2-3 leiki með félagsliðum sínum áður en þeir spila aftur saman sem landslið, eru geðveikir.

15 Comments

  1. Vá hvað ég er sammála þér ! Þetta er óþolandi og þessi tímasetning núna er svo þvílikt vanhugsuð að það hálfa væri nóg, og eins og þú segir þá verður leikurinn næstu helgi fyrir vikið mun erfiðari, bæði ferðaþreyta plús almenn þreyta sem fylgir leikjunum, auk þess sem liðið getur ekki undiðbúið sig nógu vel fyrir leikinn næstu helgi á meðan Sheff.United menn geta stillt saman strengi sína og verið 200% klárir í leikinn eins og þú komst inná.

  2. Þótt ég sé sammála og þoli ekki landsleikjahlé (fyrir vináttuleiki) þá er tvennt sem má nefna til mótvægis. Í fyrsta lagi leggjast landsleikjahléin jafnt á öll toppliðin eins og þú skrifar svo í raun eru áhrifin engin (sanngjörn?) á innbyrðis slag þeirra. Og í öðru lagi þá hjálpar þetta minni liðunum eins og þú sömuleiðis bendir á. En er ekki jákvætt að minnka bilið milli stóru klúbbanna og hinna?

  3. Seðill – ég kaupi þessi rök þín tæpast, því miður. Það er ekki hægt að rökstyðja það að láta stærri liðin líða til að jafna út keppnina einfaldlega af því að þau eru stærri og með betri leikmenn. Það er álíka gáfulegt og að segja að Michael Schumacher og Fernando Alonso megi bara stýra með annarri hendi í næstu Formúlu-keppni, svona til að jafna þetta út aðeins fyrir alla hina …

    Þetta gengur ekki svoleiðis. Burtséð frá því hvort við erum að tala um Liverpool eða Sheff Utd, Chelsea eða Watford eða hvað, þá skal jafnt ganga yfir alla. Og það er bara klárlega ekki staðan fyrir þessa fyrstu umferð deildarinnar.

    Og jafnvel þótt svona landsleikjahlé kæmi jafnt niður á öllum liðum, þá er þetta SAMT fáránleg tímasetning fyrir landsleiki! Ég meina, spænska landsliðið á að spila hér á Íslandi á morgun en Barcelona og Espanyol eru að spila í Ofurbikarnum á fimmtudag! Þeir urðu að gefa Puyol, Xavi og Iniesta frí og Eiður Smári verður ekki með okkur!

    Þetta er einfaldlega fáránleg tímasetning. Punktur.

  4. Það er nú ekki rétt að það séu fimm dagar í að flestar deildir Evrópu hefjist. Enska deildin er nú til dæmis sú eina af þeim fimm stærstu sem hefjast um næstu helgi.

  5. Mikið er ég hjartanlega sammála þér Kristján. Þetta er algjörlega út úr korti. Menn eru ekki ennþá komnir í form (vegna HM) og það á að fara að draga þá út og senda þá í algjörlega tilgangslausa landsleiki.

    Mér finnst líka alltaf jafn ótrúlegt þegar ákveðnar prímadonnur fá að hvíla í svona og gera sér upp smá meiðsli. KSÍ var rétt í þessu að staðfesta það að ein regla gildir um Eið Smára og önnur um aðra leikmenn.

    Ég er bara ösku reiður yfir þessu landsleikjahléi á þessum tímapunkti.

  6. Ég endurtek: ég er sammála og þoli ekki landsleikjahlé. Mín skrif voru ekki rökstuðningur fyrir minni afstöðu heldur innlegg í umræðu. Og já, tímasetningin er fáranleg burtséð frá öllu öðru (þótt það sé eingöngu enska deildin sem er að hefjast).

    Ég nefndi að hléin leggjast jafnt á toppliðin – sem betur fer. Og að hléin hjálpa litlu liðunum og deildin verður jafnari – sem má alveg túlka jákvætt (fer eftir hverjum og einum og hvaða lið þeir styðja). Það er eingöngu afleiðing hléanna og þýðir ekki að þau séu réttlætanleg. Allt í allt, munu hléin ekki koma í veg fyrir atlögu Liverpool að titlinum í ár!

    En fyrst þú nefndir Formúluna þá stenst ég ekki að benda á að þar er sífellt verið að gera tilraunir til að jafna muninn á litlu og stóru liðunum. Margar ansi skrautlegar og spurning hvort þú sendir ekki þína tillögu út á forráðamenn þar á bæ því þeir eru einmitt að undirbúa breytingar sem eiga að skila sér í jafnari keppni að ári!

  7. ég hef verið á þeirri skoðun varðandi landsleikjamálin að þeir leikmenn sem spila ekki mikið með landsliðunum eiga að spila vináttulandsleikina og líka leikmenn minni liðanna. Það á ekki að þurfa að auka álagið á leikmenn stærri liðanna enn frekar með því að láta þá spila þessa heimskulegu æfingalandsleiki. Finnst þetta frekar vera refsing gagnvart þeim leikmönnum sem spila fyrri stærri liðin með því að fjölga þeirra leikjum enn frekar.

  8. láta þá leikmenn sem eru ekki í Evrópukeppnum spila æfingalandsleikina.

  9. Það má klárlega henda út 1-2 landsleikjahléum á árinu. Þ.e.a.s. þessi hlé þar sem liðin eru að leika vináttulandsleiki. Það er ekkert leiðinlegra en að horfa á tilgangslausa vináttuleiki / æfingaleiki sem engu máli skipta.

    Ef Sepp Blatter les þessa síðu þá er mótmælum mínum vegna vináttuleikja formlega komið á framfæri 🙂

  10. UEFA er búið að vera á bakinu á Englendingum í að fækka í 18 lið eins og hinar deildirnar eru með og vilja helst fá allar í 16. Þannig að þeim finnst ekkert leiðinlegt að pirra Englandinga svona.

    Ef Sepp Blatter er að lesa þetta má hann vita að hann er fáviti.

  11. Jaaa…en hugsið ykkur ef Íslendingar myndu ekki spila æfingaleiki. Þá væru engir íslenskir sigurleikir.

    Ekki slæm hugmynd að fækka liðum úr Premíunni, má ég mæla með Everton og Blackburn?!

  12. Ég er bara ekkert sammála þessu væli vegna landsleikja. Ísland er númer eitt hjá mér og ég fer á völlinn með fánann minn og syng þar til lungun gefa sig. Það er ekkert aumara en menn sem styðja erlend lið meira en sitt eigið.

    ÁFRAM ÍSLAND!!!

  13. Auðvitað er alltaf gaman að sjá Ísland spila við sterkar þjóðir, og í dag gerast þær ekki mikið sterkari en Spánn.

    Hins vegar þætti mér ekkert að því að gefa liðum sem spiluðu á HM frí frá þessum æfingaleikjum sem eru í kvöld. HM lauk fyrir ca mánuði og þjálfarar þeirra liða sem spiluðu þar vita nákvæmlega hvernig liðin standa.

    EF HM liðin þurfa að taka þátt í æfingarleikjum rétt eftir stórmót þá væri frekar hugmynd að prófa aðra leikmenn en þá sem spiluðu í þeirri keppni. Eins og Donodoni gerði hjá Ítölum fyrir æfingarleikin gegn Króatíu í kvöld.

    Áfram Ísland

Rafa neitar óvinskap við Mourinho.

Seinni leikurinn gegn Maccabi Haifa í Kænugarði.