Samfélagsskjöldurinn á morgun!

Ég gæti skrifað heila romsu um Chelsea. En ég ætla ekki að gera það, af einföldum ástæðum (sem mér finnst ég alltaf vera að endurtaka á þessari síðu):

1. Það er ekkert sem ég get sagt sem þið vitið ekki nú þegar.
2. Það er ekkert sem ég get sagt sem ég hef ekki sagt nú þegar mörgum sinnum hér.
3. Ég er orðinn þreyttur á Chelsea, Mourinho, Abramovitch og svo framvegis.

Aðdragandinn að leik morgundagsins hefur verið svo reglubundinn að það hefði verið hægt að stilla klukkuna eftir fréttaflutningnum. Klukkan kortér í sjö á fimmtudegi skýtur José Mourinho á Liverpool, um sólarhring síðar svarar Rafa Benítez því að hann stundi ekki sálfræðistríð og á laugardegi hrósa báðir þjálfarar hinu liðinu og segja að þetta verði erfið viðureign.

Við þetta bætist að þetta er þegar öllu er á botninn hvolft æfingaleikur með bikarafhendingu, og þá man maður að þetta skiptir ekki öllu máli. En samt skiptir þetta öllu máli. Bæði lið geta unnið – Chelsea aðeins líklegri, eins og venjulega, en við nánast á heimavelli þarna í Cardiff – og því eru bæði lið með fyrirframsniðna afsökun ef þau tapa. Þetta er jú bara æfingaleikur og skiptir engu máli, fyrir tapliðið, en fyrir sigurliðið verður sigurinn í þessum leik tafarlaus sönnun þess að:

* Chelsea-menn eru ennþá ljósárum á undan okkur í gæðum knattspyrnuliðs og að við lifum í draumalandi ef við ætlum okkur að berjast um titilinn í ár.

* Liverpool-liðið stendur nú Chelsea-liðinu algjörlega jafnfætis og þetta verður hnífjafnt tímabil.

Hvernig sem fer þá er ljóst að sigurliðið mun líta á þetta sem sálfræðilegan stórsigur á viðkvæmum tíma, rétt áður en tímabilið hefst, en tapliðið mun gera lítið úr tapinu þar sem þetta var jú bara æfingaleikur.

Chelsea-liðið verður sterkt á morgun; Cech og Joe Cole eru meiddir, Ashley Cole er ekki enn kominn til þeirra og þeir Makelele og Gallas eru fjarri góðu gamni (í fríi og skammarkróknum). Ég vona að Mourinho skorist ekki undan og stilli upp sínu sterkasta tiltæka á morgun, sem gæti litið svona út:

Cudicini

Ferreira – Carvalho – Terry – Bridge

Essien – Lampard – Ballack

Schevchenko – Drogba – Robben

Á meðan gæti Rafa gert eina eða tvær breytingar á liðinu sem mætti Maccabi Haifa á miðvikudag. Miðað við frammistöðu í leiknum kæmi mér á óvart ef Mark Gonzalez fái ekki að byrja inná á morgun í stað Bolo Zenden, og svo gæti ég trúað að Rafa muni rótera Bellamy og Crouch og láta þann síðarnefnda byrja inná á morgun. Þá gætum við verið að stilla þessu upp svona:

Reina

Bara þessir sömu og venjulega.

Gerrard – Alonso – Sissoko

Pennant – Crouch – Gonzalez

MÍN SPÁ: Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þori eiginlega hvorugt liðið að taka sénsa í þessum leik, því það sé betra að gera 0-0 jafnteflið og tapa í vító en að taka sénsinn á sóknarbolta og tapa illa. Þannig að þótt bæði lið komi til með að stilla upp ákveðið sókndjörfum liðum held ég að þetta verði í járnum og muni ráðast annað hvort í vító eða á varnarmistökum öðrum hvorum megin.

Ég spái því að Steven Gerrard skori eftir að John Terry gefur boltann klaufalega á hann. 🙂

**Áfram Liverpool!!!**

6 Comments

  1. Liverpool vinnur 2 – 0
    Gonzalez 1 á 21 mín
    og Alonso 1 á 44
    😉 góða skemtun

  2. Liverpool vinna þennan leik 1-0… Við erum alltaf sókndjarfara liðið og núna getum við skorað þökk sé nýjum mönnum og reyndari crouch. Svo er gerrard alltaf líklegur. Takk fyrir

  3. Held því miður að chelsea vinni þennan leik nokkuð örugglega. Í kjölfarið verður Mourinho sendur á spítala vegna óhóflegs magns af lofti og verður framkvæmd á honum neyðaraðgerð til að tappa af honum. Fjölmiðlar afskrifa síðan liverpool það sem eftir er tímabils sem verður til þess að þeir koma óhemju sterkir í fyrsta leik í deildinni sem þeir rúlla svo upp.

  4. nema Rise skori sjálfamark fyrir Mourinho
    og verði seldur á 15millur

Enn einn leikmaður frá Houllier farinn.

Liðið gegn Chelsea – Gerrard & Alonso á bekknum