Maccabi Haifa á morgun!

Aaaaaaaah … leyfið mér að njóta þessa augnabliks aðeins. Fyrsta upphitun tímabilsins, fyrir fyrsta alvöruleikinn. Í dag er áttundi ágúst og á morgun taka okkar menn á móti ísraelska liðinu Maccabi Haifa á Anfield í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Alvöruleikur við alvörulið þar sem mikið er í húfi.

[dregur djúpt andann]

Fjúff! Ójá … tímabilið er hafið! Eftir erfitt undirbúningstímabil hafa okkar menn væntanlega girt sig í brók yfir helgina og mæta vonandi fullir sjálfstrausts til leiks á morgun í leik sem við einfaldlega verðum að vinna!

Um lið Maccabi Haifa er margt að segja, en þó lítið af viti. Við vitum að þeir eru frá Ísrael og samkvæmt UEFA.com eru þeir með sterkara lið en oft áður. Þeir unnu víst bæði deildina og bikarinn í Ísrael í vor og hafa komist í riðlakeppnina í Meistaradeildinni nokkrum sinnum áður. Síðast fyrir tveimur árum voru þeir með Man U í riðli, ef mig minnir rétt (sjá mynd) en í fyrra ullu þeir vonbrigðum er þeir töpuðu fyrir Malmö frá Svíþjóð í annarri umferð forkeppninnar síðasta sumar.

Hvað svo sem því líður þá er það alveg ljóst að þetta er lið sem við verðum að taka alvarlega. Ég er ekki að segja að þetta sé AC Milan, en þetta er engu að síður lið sem getur, og mun, nýta sér allt kæruleysi og hálfkák hjá okkar mönnum. Þetta er fyrri leikurinn af tveimur og sá síðari verður haldinn á hlutlausum velli, í Kænugarði, en það breytir því ekki að ef Haifa-menn ná hagstæðum úrslitum á Anfield á morgun eru þeir algjörlega með pálmann í höndunum. Það bara má ekki gerast; klúbburinn er að reyna að tryggja sér Dirk Kuyt og um leið að vinna að því að geta byggt nýjan heimavöll í framtíðinni, og því yrði fjárhagslegt tjón af því að komast ekki inn í riðlakeppnina óhugsandi.

Síðustu tvö ár höfum við verið í þeirri aðstöðu að hafa byrjað þriðju umferð forkeppninnar á góðum sigri á útvelli, þannig að leikurinn á Anfield hefur verið lítið annað en formsatriði. Í bæði skiptin höfum við tapað 1-0 á Anfield, óvænt, í leik sem skipti eiginlega engu máli. Í þetta sinn byrjum við á heimavelli og því skiptir það öllu máli að þessi leikur vinnist, og það helst án þess að fá á sig mark á móti. Við þurfum einfaldlega á því að halda á morgun að Anfield og áhorfendurnir skarti sínu besta, að Rafa stilli upp sterku liði sem mætir reiðubúið til leiks, og að liðið gefi sterkan tón fyrir tímabilið sem er framundan.

Um okkar menn þarf ekkert að fjölyrða, þið vitið öll hver staðan er. Nýju leikmennirnir eru til í slaginn, utan Fabio Aurelio sem er frá í nokkrar vikur með hnjask. Þá eru Stephen Warnock og Harry Kewell ennþá meiddir, auk þess sem Steve Finnan og Robbie Fowler eru tæpir. Vona samt að þeir geti verið með, við gætum sérstaklega þegið markvissu Fowler annað kvöld.

Annars finnst mér líklegt að Rafa stilli upp sterku byrjunarliði á morgun. Ég ætla að gefa mér að Finnan og Fowler verði ekki með, annars verður Finnan í stað Kromkamp í þessari uppstillingu á morgun:

Reina

Kromkamp – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Sissoko – Alonso – Zenden

Bellamy – Crouch

Þetta er kannski ekki okkar sókndjarfasta lið en þetta er heldur ekki okkar varnarsinnaðasta. Og það sem mestu máli skiptir er að þetta eru allt reyndir menn í Meistaradeildinni, menn sem vita hvað þessi leikur þýðir. Ég tel að Rafa muni byrja þetta svona, með stöðugt og öflugt lið, og vilji þá frekar eiga menn eins og Luis García, Gonzalez, Pennant og Fowler á bekknum ef þörf krefur þegar líður á leikinn. Mér finnst líklegt að við sjáum bæði Pennant og Gonzalez spila helling á morgun, þó svo að þeir byrji ekki inná, og við vitum að ef García byrjar á bekknum mun hann samt koma fyrstur manna inná. Hann er bara þannig leikmaður að ef við þurfum einhvern extra kraft í sóknina annað kvöld er hann fyrsti maður inná völlinn.

MÍN SPÁ: Fyrsta spá vetrarins. Ég ætla að spá okkur 2-0 sigri á morgun. Captain Fantastic skorar og svei mér þá ef Bellamy setur hann ekki líka. Þau úrslit myndu duga mér, þótt ég telji liðið eiga að geta unnið stærri sigur á þessu Haifa-liði þá veit ég líka að þeir geta hæglega bitið frá sér. Þannig að ef við vinnum 2-0 sigur, náum að halda hreinu og fara með gott forskot til Úkraínu, mun ég anda léttar annað kvöld.

Fyrsti leikur tímabilsins. Ég hlakka sjaldan jafn mikið til leikja og þegar tímabilið er að hefjast … áfram Liverpool! 🙂

9 Comments

  1. Vááá… mig hlakkar til … Gaman að sjá nýju strákana, hef ekkert séð úr æfingarleikjunum,

    en alveg hvað hlökkunin er til staðar, þetta verður æðislegur leikur … ég Segi að Garcia Skori Fyrsta Mark leiksins í á 68 mín og Bellamy annað á síðustu 10 mín … :biggrin:

  2. Kannski að bæta því við að leikurinn er í beinni á Sýn kl 18.55

    En já, ég er verulega spenntur. Verður m.a. athyglisvert hvort að Gerrard verðuru á hægri kantinum – það er svo sannarlega öruggara en að taka áhættu með Pennant í fyrsta leiknum.

    Gæti alveg séð Luis Garcia þarna einhvers staðar inná, annaðhvort sem hægri kantur eða þá í staðinn fyrir Bellamy frammi. En Rafa á svosem eflaust eftir að koma okkur á óvart.

    En ég er allavegana verulega spenntur. 🙂

  3. Ég held að uppstillingin verði svona

    Reina—

    Finnan—Hyypia—-CarraRiise

    Pennant—-Alonso—-Sissoko—Gonzales

    Gerrard

    Bellamy—-

    Öruggur 3-0 sigur Bellamy með 2, Gerrard 1

  4. Ég er greinilega einn um það að vera enn þokkalega mettur svona knattspyrnulega séð. Eftir langa leiktíð á Englandi og HM, sem endaði ömurlega, þá er ég ekkert farinn að hlakka til leiktíðarinnar.

    Það mun þó sennilega breytast um leið og flautað verður á annað kvöld.

  5. Jamm gríðarlega spennandi !
    En talandi um Captain Fantastic þá fullyrðir breska pressan að McClaren sé nýbúinn að eiga fund með Gerrard……úúúhh…spennó !

  6. Það verður helvíti gaman að sjá þennan leik á morgun, alltaf eftirvænting fyrir nýju seasoni.

    Sammála Ace með allt starting, fyrir utan Pennant, held að Garcia byrji þar og Pennant fái 20-25 í seinni. Verðum gaman að sjá hvernig hann virkar á mig. Gerrard er bestur finnst mér fyrir aftan framherjann, og þar vil ég sjá hann.

    Síðan er bara að vona að við vinnum 2 til 3-0 og fari með fínt veganesti til Israels, kaupum einhvern öflugan striker á næstu dögum sem er BETRI en þeir sem fyrir eru og þá fer maður sáttur og fullur væntingar inn í nýtt season sem hefst 13. ág.

  7. Sammála Kristjáni Atla nema að ég vona að Garcia byrji inn á í staðinn fyrir Crouch.

    Áfram Liverpool!

  8. Hössi minn, við verðum seint á sömu síðu varðandi leikmenn grunar mig. 😉 Hvernig í ósköpunum geturðu fengið það út að það sé betra fyrir liðið að hafa García í byrjunarliðinu en Crouch?

    Nú er ég alls ekki að setja út á García. Hann er mikilvægur leikmaður sem býður upp á margt sem enginn annar býður uppá í þessu liði.

    En Crouch er sá leikmaður sem við eigum sem lætur alla aðra leikmenn í kringum sig SPILA BETUR! Hvernig í ósköpunum er ekki hægt að sjá það sem mér þykir vera svo augljóst, það er hversu mikið Crouch gerir fyrir liðið?

    Crouch er kannski ekki besti framherji í enska boltanum, en með hann inná vellinum spilar liðið einfaldlega betur. 🙂

Kuyt viðræður aftur á borðinu

Tomkins um tölfræði