Speedy og Quickie kynntir í dag

craig_rafa_mark.jpg

Hinir tveir nýju leikmennirnir okkar voru kynntir til leiks í dag, þeir Mark ‘Speedy’ Gonzalez og Craig ‘Quickie’ Bellamy. Með tilkomu þeirra er óhætt að segja að meðalhraði Liverpool-liðsins hafi sennilega tvöfaldast, ef ekki meira, og ljóst er að andstæðingar okkar komast ekki lengur upp með að stilla upp meðalhröðum varnarmönnum gegn Liverpool.

Craig Bellamy sagðist vera kominn til að vinna titla á meðan Mark Gonzalez fjallar um hina löngu bið sína áður en hann loks varð Liverpool-leikmaður. Rafa hrósar þeim báðum, segir að Bellamy minni sig á Robbie Fowler og hefur farið fögrum orðum um Gonzalez allt þetta ár.

Liðið spilar sinn fyrsta varaliðsleik á morgun, á útivelli gegn Wrexham og verða þrír af nýju leikmönnunum með í þeim leik ásamt leikmönnum á borð við Daniel Agger, Sami Hyypiä, Momo Sissoko og Johnny Riise, svo að nokkrir séu nefndir. Þeir leikmenn Liverpool sem tóku þátt í HM eru ennþá í fríi og Gonzalez þarf því miður að bíða í viku eftir að geta spilað sinn fyrsta leik, eftir að hann fann til eymsla í hné eftir æfingu í gær.

Annars tjáði Rafa sig um leitina að hægri kantmanni á blaðamannafundinum í dag:

>”The problem is clubs know we need a right winger so they put the price up on the player so maybe we will have to wait. For sure I think we will have the player soon but it’s important to find the right player for us.”

Vonandi finnur Rafa rétta manninn, ekki bara einhvern til að fylla í skarðið. Annars er það helst að frétta að liðið spilar í nýja Evrópu-varabúningnum gegn Wrexham á morgun, en sá ku vera grænn og hvítur og verður sá fyrsti af þremur nýjum ADIDAS-búningum Liverpool sem verða opinberaðir. Hinir verða opinberaðir í ágústmánuði.

Í kvöld mun svo allt fara af stað varðandi leikmannamarkaðinn í Evrópu en þá fellur loksins dómurinn í þessu mútumáli á Ítalíu. Slúðrið segir að AC Milan haldi sér í Serie A en verði látið hafa 15-stiga frádrátt og hent út úr Evrópukeppninni, á meðan Juventus, Lazio og Fiorentina muni öll verða rekin niður í Serie B og látin hafa mismunandi stigafrádrætti. Ef rétt reynist mun útsalan sem flestöll lið í Evrópu virðast vera að bíða eftir hefjast og sérstaklega munu örugglega margir heimsklassaleikmenn yfirgefa Juventus-liðið. Ég á ennþá eftir að sjá það gerast að Liverpool kaupi einhvern leikmann úr þessum hópi en hvað sem verður er ljóst að það kemst ekki almennileg hreyfing á leikmannamarkaðinn í Evrópu fyrr en niðurskurður þessa dómsmáls er ljós. Sem verður í kvöld, þannig að það verður sannarlega sjónarspil að fylgjast með leikmannamarkaðnum í Evrópu næstu vikuna eða svo.

Nóg í bili. Leikur á morgun og ég segi bara áfram Liverpool og áfram góð heilsa! Umfram allt vona ég að enginn meiðist í þessum leik …

Já, og áttið þið ykkur á því að í dag eru 30 dagar í fyrsta alvöruleik liðsins? Það er leikurinn um Samfélagsskjöldinn, gegn Chelsea á Millennium Stadium í Cardiff. Þannig að mönnum er óhætt að byrja að telja niður. 🙂

5 Comments

  1. Já og er enginn möguleiki á að sjá þennan blessaða leik á morgun? Það er altént sýndur mykjuhaugsleikur. Afhverju ekki Lifrarpollsleikur? Ek bara spyr!

Punktar um Aurelio og Paletta

Juventus, Fiorentina og Lazio niður um deild