Fjórir út – hverjir inn?

Eins og komið hefur fram hér og annars staðar þá eru nokkrir leikmenn að yfirgefa Liverpool þessa vikuna. Um helgina gekk Antonio Barragan til liðs við Deportivo La Coruna, en það er hluti af samningnum að Liverpool geta keypt hann aftur fyrir fyrirfram ákveðið verð, ef hann slær í gegn hjá Depor. Í gær skrifaði Chris Kirkland svo undir lánssamning við Wigan Athletic, en ef hann stendur sig vel þar kaupa þeir hann í janúar á eina milljón punda. Ég vona að hann haldi sér nú meiðslalausum einu sinni, miðað við hans sögu yrði ég himinlifandi að fá fyrir hann milljón. Í dag er svo búist við að Dietmar Hamann skrifi undir samning við Manchester City, eftir að hafa snúið frá Bolton á nánast farsakenndan hátt. Við erum víst að fá um 500,000 pund fyrir þann þýska.

Í dag mun Djibril Cissé svo ganga frá samningi sínum við Marseille, og lýkur þar með sögu dýrasta leikmanns Liverpool hjá félaginu. Hann mun skrifa undir lánssamning til að byrja með, þar sem hann er meiddur, en talið er að Marseille borgi í kringum 8 milljónir punda fyrir hann í janúar þegar hann er farinn að spila á fullu.

Sem sagt, fjórir leikmenn hafa yfirgefið Liverpool þessa vikuna. Við erum ekki með nákvæmar tölur neins staðar, en líklegar tölur eru eftirfarandi: Barragan – 1 milljón, Hamann – 500 þúsund, Kirkland og Cissé lán (fé síðar). Við erum sem sagt að fá eina og hálfa milljón akkúrrat núna, en gætum fengið allt að níu milljónir fyrir Kirkland og Cissé í janúar.

Spurningin er því tvíþætt að mínu mati:

1. Til hvers var Rafa að leyfa þessum mönnum að fara, úr því að við fáum ekki mikið fé strax fyrir þá? Að mínu mati er það augljóslega til þess að losna við þá af launasamningi. Sérstaklega munar um þá Hamann, Kirkland og Cissé, en þeirra sameiginlegi launapakki hjá Liverpool hlýtur að hafa verið rausnarlegur. Hér hefur myndast pláss fyrir fleiri en einn nýjan leikmann í launastrúktúr liðsins.

2. Þótt liðið fái ekki nema um 1,5 milljónir punda strax fyrir þessa leikmenn, þá getum við verið nokkuð vissir um milljónirnar fyrir Cissé í janúar. Þannig að það er mögulega hægt að gera ráð fyrir þeim milljónum í fjárhagsplönum klúbbsins. Þeir hjá Daily Post vilja meina að þessar brottfarir muni gera Rafa kleift að ganga frá kaupum á Daniel Alves, og að þessi rúma milljón sem við fáum strax muni þá fara beint í aukið tilboð fyrir hann, sem Sevilla muni samþykkja. Þá hefur verið talað um að Rafa ætli sér að stökkva til og nýta sér mögulega útsölu á Ítalíu, verði lið eins og Juventus og AC Milan dæmd niður um deild(ir), en ég er ekki svo viss. Veit ekki hvaða leikmenn þar gætu verið Rafa að skapi, og svo stórefast ég um að menn eins og Ibrahimovic, Trézeguet eða Camoranesi (sem hafa helst verið nefndir í sambandi við okkur) fari eitthvað ódýrara þótt þeir séu komnir niður í Serie B.

Það er allavega ljóst í mínu huga, með þessum fjórum brottförum, að Rafa og Rick Parry eru að vinna á bak við tjöldin að því að stækka leikmannahópinn enn frekar áður en tímabilið hefst. Enn er rúmur mánuður í fyrsta deildarleik, og rúmlega einn og hálfur þangað til leikmannaglugganum lokar, þannig að það á enn mikið vatn eftir að renna til sjávar.

Það verður spennandi að fylgjast með þessu næstu dagana/vikurnar.

23 Comments

  1. Jamm, en það sem er að angra mig er að nú eru æfingar að hefjast og mjög mikilvægt að nota þann tíma sem eftir er fram að byrjun deildarinnar til að slípa saman nýja og eldri leikmenn.

  2. Reyndar er kaupverðið á Barragan nær 2 milljónum punda en 1. Talað um að það sé 1,7 milljónir punda, sem er bara nokkuð gott.

    Þú ert að spá í af hverju við séum að losa þessa leikmenn fyrst við fáum ekki pening fyrir þá strax. Einfalt mál. Þeir eru ekki í plönum Rafa og í stað þess að vera að borga þeim svimandi há laun, þá er betra að setja þá peninga sem þar sparast í að kaupa menn sem hann vill hafa í sínum plönum. Barragan bara með heimþrá og lítið við því að gera. 9-10 milljónir punda í janúar fyrir hina tvo og við erum að tala saman.

    Maður hefur hálfgert brosað út í annað í sumar þegar Liverpool stuðningsmenn hafa verið að fara á taugum vegna þess að ekki allir leikmenn voru keytir fyrir HM eins og Rafa sagði að væri ákjósanlegast. Svo núna að vera ekki komnir með alla þegar pre-season byrjar. Nú þegar eru komin 4 ný andlit í hópinn sem eiga eftir að vera stór partur af plönum Rafa. Það er líka búið að skýra frá því að 2-3 séu væntanlegir til viðbótar. Fyrir mér er 31. ágúst lykildagsetningin. Við erum komnir með frábæran hóp eins og hann er í dag, og þessir 2-3 verða bara stór plús og komi þeir fyrir lokun gluggans, þá verð ég sáttur.

    Það er tímafrekt að standa í kaupum og sölum. Búið er verið að losa 5 menn frá okkur (Cheyrou ekki inni í þessum 4 sem taldir voru upp). Einnig hafa menn verið í viðræðum við Seville og önnur félög og verið að reyna að ná besta hugsanlega díl sem hægt er að fá fyrir félagið. Það læðist líka að manni sá grunur að verið sé að bíða eftir útkomunni á Ítalíu. Það þarf enginn að segja mér það að ef Juventus verði dæmt niður í C deild, að það hafi ekki áhrif á verð leikmanna liðsins. Þeir munu verða ódýrari en ef væri verið að selja þá sem A deildar menn. Kaupendurnir vita að Juve þarf að selja og því verður kaupverðið alltaf mun lægra. Hversu mikið lægra fer bara eftir því hversu mörg félög eru um hitunina. Svo má ekki gleyma því að ef hin félögin verða líka dæmd niður, þá verður þvílíkur fjöldi af góðum knattspyrnumönnum til sölu. Sumir segja að lið eins og Milan geti alveg lifað af eitt ár með alla sína leikmenn (fjárhagslega). En menn gleyma því líka að þessir leikmenn eru stjörnur og gríðarlega góðir og haldið þið að hollustan við Milan sé svo mikil að þeir vilji spila í næst efstu deild og að horfa fram á allavega 2 ár án þess að spila í Evrópukeppni? Nei, held ekki.

  3. Sammála. Ég hef eiginlega verið langt því frá að vera stressaður. Palletta var öruggur fyrir sumarið og hann ásamt Agger leysa breiddina í vörninni. Við vissum líka af Aurelio og málin tóku strax í júní mjög skýra stefnu með Bellamy, og þau kaup gengu greiðlega. Í raun má segja að það eina sem hafi stressað mig verulega hafi verið hvort Gonzalez fengi atvinnuleyfi eða ekki, en það gekk eftir og því allt í góðu.

    Hitt er svo annað mál að Rafa á sennilega eftir að bæta við kantmanni og líklega framherja líka. Það virðast vera þau kaup sem eru eftir, nema hann komi á óvart, og því bíður maður frekar spenntur en eitthvað annað að sjá hvað gerist. Við sáum það í fyrra að García og Gerrard geta leyst kantstöðuna sín á milli, og með tilkomu Bellamy erum við ágætir í framherjamálum, þótt við gætum verið betri. Gleymum því ekki að García og Kewell geta spilað frammi, auk þess sem Rafa mun örugglega nota 4-5-1 taktíkina nokkuð mikið í vetur eftir að Gerrard færir sig aftur inná miðjuna.

    Þannig að þetta er meira bara forvitni/spenna í manni núna. Jú, ég vill ólmur ganga frá kaupum á hægri kantmanni svo að það mál sé loksins frá, en ég myndi ekki örvænta jafn mikið og í fyrra ef það gerðist ekki. Í fyrra örvænti maður verulega, en það kom á daginn að sú örvænting var óþörf því Steven Gerrard reddaði málunum. Að kaupa Pennant eða Alves eða Joaquin eða hver það nú er væri meira eins og lúxusviðbót við sterkan hóp.

  4. Kristján ég er ekki sáttur við 1 millj punda fyrir Kirkland. Við borguðum 6 millj punda fyrir hann á sínum tíma. Án meiðsla er hann markvörður nr 2-3 inn í landsliðið. Dyer og Owen eru líka mikið meiddir, það kemur samt ekki í veg fyrir að lið eru til í að borga háar upphæði fyrir þá.

    Miðað við hve dýrir enskir leikmenn eru (þegar Liverpool á í hlut) þá finnst mér þetta verð of lítið.

    Við erum að tapa 5 millj (6-1=5) punda á honum, menn hafa verið að kvarta yfir því að tapa hugsanlega 6 millj (14-8=6) á Cisse, þarna er ekki mikill munur.

    Svo væri gaman að vita hve mikið Liverpool fékk fyrir Cheyrou, erum við að tala um 1 eða 2 millj punda, kannski ekkert. SSteinn getur væntanlega svarað því.

  5. Krizzi – myndir þú borga 1m punda fyrir markvörð sem er ekkert víst að endist út fyrstu æfinguna án þess að meiðast?

    Hélt ekki.

    Auðvitað erum við að tapa á Kirkland, en í þessu dæmi er það ekki lélegum samningaviðræðum um að kenna eða linkind í okkar mönnum. Hann er ALLTAF meiddur, og því finnst mér hreinlega ótrúlegt að einhver sé til í að borga fyrir hann heila milljón.

  6. EF hann væri ÁN meiðsla þá VÆRI hann markvörður nr. 2 ef ekki nr. 1 (held að fáir gætu andmælt því :confused:) – Kirkland sýndi það að hann er ótrúlega góður markvörður en það voru einmitt MEIÐSLI (sem hefur verið bak, lappir, hendur, fingur og margt annað :rolleyes:) sem gerðu það að verkum að hann er þar sem hann er núna…. Ég verð því að taka í sama streng og Kristján Atli…. Það er ótrúlegt að einhver vilji reyna að nýta krafta hans á meðan menn vita ekki hvort að hann sé heill eður ei….. :blush:

  7. Ef og kannski…

    Mér hefur aldrei fundist Kirkland sýna nokkurn skapaðan hlut í treyju Liverpool til að réttlæta veru sína þar og hvað þá enska landsliðinu!

    Ég man eftir honum haustið 2004 þegar Benitez tók hann fram yfir Dudek. Vörnin hélt sæmilega en fyrir aftan hana stóð markvörður sem varði varla nema 50% skota sem komu á markið!

    Léleg kaup!

  8. Já, hann var arfaslakur fyrir Liverpool á þessu tímabili sem þú talar um, Gummi H. Það þarf bara að skoða leikskýrslur frá þeim tíma.

    En hann spilaði þó vel fyrir WBA á síðasta tímabili *áður en hann meiddist.*

  9. Það þýðir ekkert að tala um tap þegar seldir eru leikmenn… Það þarf að sjálfsögðu líka að spá í launakostnaðinn sem getur yfir einhvern tíma farið langt yfir kaupverð.

    Því hlýtur það alltaf að vera forgangsatriði að vera aðeins með nothæfa leikmenn á launaskrá.

    T.d. ef þú kaupir bíl á 2M og það kostar kanski 0.5M að reka hann á ári… Eftir tvö ár er hægt að selja hann á segjum 1M… Skvt. rökum Krizza ætti maður að halda bílnum áfram því maður tapar jú 1M á bílnum en þá er ekki tekið með í reikninginn að eftir 1 ár hefur hann kostað 0.5M í rekstri og að auki fallið í verði enn frekar.

    Þetta er álíka og leikmenn, það er ekki hægt að ætlast til að græða á því að kaupa og selja leikmenn, því það eru notin af þeim sem búa til hin eiginlegu verðmæti sem kosta reksturinn.

    kv/

  10. Kristján og Einar það sem ég átti við er að Kirkland er enskur og enskir leikmenn hafa verið hátt verðlagðir síðustu ár burt séð frá gæðum eða meiðslum.

    Eins og ég kom inn á þá var meiðslasaga Dyer og Owen ekki góð samt var lið tilbúið að borga mjög háar fjárhæði fyrir þá. Svo eru menn að tala um 8 millj punda fyrir Cisse, leikmann sem hefur 2 brotnað mjög ílla.

    Kirkland er fæddur 2. maí 1981 (25 ára) og er því á besta aldri. Þrátt fyrir ótrúlega meiðslasögu þá hafa Englendingar mjög mikla trú á honum enda eiga þeir fáa góða markmenn. Í hvert sinn sem Kirkland hefur náð að spila 5-10 leiki í röð þá hefur hann strax verið valinn í landliðshópinn. Plús það að meiðslin hans á síðasta tímabili voru ekki alvarleg og ekki af þeim toga að þau hafi áhrif á getu hans í framtíðinni.

    Því segji ég er ekki komið nóg af stórtapi vegna kaupa og sölu á leikmönnum. Það er engin furða að litlir peningar séu til þegar við töpum fúlgu fjár á hverjum leikmanninum á fætur öðrum.

    Hér eru dæmi um nokkra leikmenn keypta eftir 2000:

    Emile Heskey keyptur á 11 m. seldur á 6,25 m.
    El Hadji Diouf keyptur á 10 m. seldur á 3,5m.
    Bruno Cheyrou keyptur á 3,7 seldur á ? líklega 0-500 þús.
    Fernando Morientes keyptur á 6,3 m. seldur á 3m.

    Á þessum 4 leikmönnum hefur Liverpool tapað við kaup og sölu um 17,5 MILLJÓN PUNDA.

    Svo eru hér 3 sem líklega verða seldir á árinu

    Cris Kirkland keyptur á 6 m. verður seldur (miðað við þessa grein) á 1 m.
    Djibril Cisse keyptur á 14,5 m. seldur vonandi á 8 m. gæti orðið minna.
    Salif Diao keyptur á 4,7m. nánast verðlaus í dag, í mesta lagi 500 þús virði.´

    Hér erum við að öllum líkindum að horfa upp á tap við kaup og sölu heilar 15 MILLJÓNIR PUNDA.

    Eini leikmaðurinn sem Liverpool hefur grætt á við kaup og sölu síðan 2000 er Milan Baros. Keyptur á 3,2 m. seldur á 6 m.

  11. Hvernig hefur hinum stóru liðunum gengið að selja sína leikmenn. Hvað græddu Man U á Veron, Djemba Djemba, Forlan, Kleberson etc. Hvað græddi Arsenal á Wiltord og Edu? Hvað græddi Chelsea á Veron, Scottt Parker, etc.

    Einu dæmin um verulegan gróða hjá þessum liðum er þegar leikmenn hafa óskað eftir að fara frá félögunum þegar þeir hafa verið að standa sig vel (s.s. Anelka, Overmas, og svo framvegis). Sem betur fer erum við ekki að selja menn undir þeim aðstæðum.

  12. Það er samt ótrúlegt að hugsa til þess að á heilum 6 árum skuli einungis einn leikmaður auka verðgildi sitt í búningi Liverpool. Það hljómar verr þegar skoðaður er fjöldi leikmanna sem seldir voru á þessu tímabili, um 30 talsins.

    Einar þau lið sem þú telur upp hafa öll grætt mun oftar á kaupum og sölu leikmanna síðan 2000, Arsenal er þar í sérflokki. Afhverju hefur þessi fjöldi leikmanna ekki bætt sig hjá Liverpool? Var Húlli að kaupa tóma miðlungsmenn og að auki borga allt of mikið fyrir þá?

    Arnar ó. Jú þú getur talað um tap á leikmönnum. Ég tek ekki inn í útreikninginn launagreiðslur heldur er ég eingöngu að benda á hversu hátt kaupverð Liverpool greiddi fyrir leikmennina og hversu mikið kom í kassan við sölu á þeim. Þessi bílasamlíking þín er bara grín, hláturinn lengir lífið.

  13. >Það er samt ótrúlegt að hugsa til þess að á heilum 6 árum skuli einungis einn leikmaður auka verðgildi sitt í búningi Liverpool.

    Jú, en þeir leikmenn hafa bara ekki verið seldir.

    >Einar þau lið sem þú telur upp hafa öll grætt mun oftar á kaupum og sölu leikmanna síðan 2000, Arsenal er þar í sérflokki.

    Hvað geturðu nefnt mörg dæmi hjá hinum liðunum?

  14. Smá viðbót, þessi umræða er svo skemmtileg.

    Houllier eyddi 125.400 millj punda í 40 leikmenn í stjórnartíð sinni. Eftir sumarið verða líklega einungis 4 leikmenn af þessum 40 en í hópi Benitez (Hyypia, Riise, Finnan, Kewell, spurning með Dudek og Pongolle).
    Þessir eiga enga framtíð hjá Benitez: Kirkland, Cisse, Le Tallec, Traore, Diao, Medjani.

    Þarna er líklegasta skýringin á peningaskorti Liverpool, því lítill peningur hefur komið til baka í kassan við sölu á hluta þessa 40 leikmanna.

  15. Það er nú ekki alveg rétt að Milan Baros sé eini leikmaðurinn sem við græddum á frá árinu 2000. Við “græddum” ca. 10M á Owen, tæpar 13 á Fowler, tæpar 5 á Dominic Matteo og 3 á Stephen Wright.

  16. Einar ég man í fljótu bragði eftir Eiði Smára og Patrick Vieira + þeir sem þú taldir upp. Verð að nota tækifærið og hrósa Liverpool síðunum þær eru mörgum klössum betri en síður manu,arsenal og C$$$$$ þegar kemur að upplýsingum um leikmenn og sögu klúbbana. Hef t.d. ekki fundið síðu með upplýsingum um kaup og sölu hjá þessum liðum.

    Hannes ég var að tala um keypta leikmenn ekki uppalda, reyndar náði Liverpool að græða á Antonio Barragan svo nú eru þeir orðnir tveir.

  17. Það hefur farið voðalega leynt hversu mikið af seðlum við fengum fyrir Cheyrou, það er allavega ljóst að við fengum ekki nærri því sem við borguðum fyrir hann, enda bjóst enginn við því. Samkvæmt því sem ég kemst næst, þá fáum við um 1 milljón pund í kassann, sem getur svo hæst farið í 1,5.

  18. Ég myndi nú ekki taka Dyer með í þetta með Owen. Þegar hann var keyptur á sínum tíma, þá var hann ekki þessi meiðslafrík sem hann er í dag og ekki hefur hann verið við það að ganga til liðs við aðra klúbba síðan þá og virðist lítill áhugi á að kaupa hann.

  19. Takk fyrir upplýsingarnar SSteinn, Þetta var meira spurning um það hvort við fengum eitthvað. 1 millj punda er betra en ekki neitt.

  20. Arnar ó. Jú þú getur talað um tap á leikmönnum. Ég tek ekki inn í útreikninginn launagreiðslur heldur er ég eingöngu að benda á hversu hátt kaupverð Liverpool greiddi fyrir leikmennina og hversu mikið kom í kassan við sölu á þeim. Þessi bílasamlíking þín er bara grín, hláturinn lengir lífið.

    Mikið eindeimis bull er þetta. Hefur þú eitthvað vit á rekstri ? Auðvitað skiptir launakostnaður höfuðmáli í þessu öllu saman.

    Það má vel vera að bílasamlíkingin sé ekki góð, en þú ert að líkja þessu við einhvern hlutabréfamarkað þar sem þú kaupir bréf til að selja þau þegar gengið á þeim hækkar. En virðist ekki gera þér grein fyrir því að þegar verð á leikmönnum hækkar er það vegna þess að þeir eru að standa sig vel og eigum við að selja þá leikmenn ? Auðvitað lækkar verðmiðinn á þeim sem standa sig ílla !

Hamann farinn til Bolton (STAÐFEST)

Cissé til Marseille (staðfest)