HM molar

Jæja, í gær lauk riðlakeppninni með því að Frakkar og Svisslendingar komust áfram úr G-riðli, og því er orðið ljóst hvaða lið mætast í 16-liða úrslitunum. Þau eru sem hér segir:

Þýskaland – Svíþjóð
Argentína – Mexíkó
England – Ekvador
Portúgal – Holland
Ítalía – Ástralía
Sviss – Úkraína
Brasilía – Gana
Spánn – Frakkland

Þetta eru allt feykiskemmtilegir leikir, og það er gaman að velta því aðeins fyrir sér hvaða lið gætu mæst í næstu umferð. Ef við gerum ráð fyrir að líklegra liðið sigri í öllum leikjum, þá myndu 8-liða úrslitin líta svona út:

Þýskaland – Argentína
England – Portúgal/Holland
Ítalía – Sviss
Brasilía – Spánn

Þetta er náttúrulega stórt ef. Það er nú yfirleitt svo að maður fær óvænt úrslit einhvers staðar, í einhverri umferð, og í 16-liða úrslitunum eru öll liðin nógu sterk til að fara áfram. Þó hefur verið vakin athygli á því hvað Ítalir virðast heppnir með stöðu í riðli sínum. Vegna þess að Frakkar álpuðust til að lenda í öðru sæti í sínum riðli, en ekki vinna hann eins og búist var við (Sviss unnu hann) þá þurfa Spánverjar að mæta stórliði Frakka í sínum leik í 16-liða úrslitunum á meðan Úkraínumenn eru stálheppnir og fá Sviss frekar en Frakka. Bæði erfið lið að spila við, en það myndu öll lið fagna því að mæta Sviss frekar en Frakklandi.

Þannig að það er nánast eins og Spánverjar, sem yfirspiluðu sinn riðil og unnu sér það inn að mæta veikara liðinu úr G-riðli, þurfi *samt* að mæta sterkara liðinu. En svona er þetta bara stundum.

Á móti koma Ítalir, sem vinna sinn riðil og mæta fyrir vikið Áströlum, sem fóru óvænt upp úr sínum riðli á kostnað Króata. Þótt Ástralir séu stemningslið keppninnar og alls ekki búnir að tapa fyrir Ítölum fyrirfram, þá er ljóst að Ítalir prísa sig sæla með að mæta þeim en ekki Króötum. Í ofanálag kemur að sigri Ítalir Ástrala mæta þeir sigurvegaranum úr leik Svisslendinga og Úkraínumanna í 8-liða úrslitunum, en sigurvegarinn úr þeim leik yrði klárlega veikasta liðið í hópi síðustu átta. Það er gaman að við skulum geta tryggt eitt spútniklið inn í 8-liða úrslitin, Sviss eða Úkraínu, og þetta er hin afleiðing þess að Frakkar skyldu klúðra sínum riðli. Það gerðist, og fyrir vikið þurfa Spánverjar að mæta einum af stórliðum keppninnar strax á meðan Úkraínumenn mæta Sviss. Það yrði hálf fáránleg tilhugsun ef Úkraínumenn færu lengra í keppninni en Spánverjar, eftir að þeir síðarnefndu rústuðu Úkraínumönnum 4-0 í fyrsta leik og eru klárlega langtum betra liðið.

En allavega, Ítalir virðast eiga nokkuð greiða leið inn í undanúrslitin, að því gefnu að ekkert óvænt gerist. Þeir eru allavega mjög sigurstranglegir í næstu tveimur leikjum sínum, þannig að ef menn vilja veðja á væntanlega sigurvegara væri ekki vitlaust að giska á Totti og félaga. Þeir eru líklegir.

Annars er það að frétta af Englendingum, sem spila gegn Ekvador á morgun, að Sven Göran Eriksson hefur LOKSINS ákveðið að losa Steven Gerrard úr varnarhlekkjunum á miðjunni og veita honum sóknarleyfi. Loksins, og trúið mér að þið sjáið nýtt og betra enskt landslið spila á morgun. Ég skal hundur heita ef Gerrard og Lampard verða ekki eins og frelsaðir menn á morgun, að fá að hafa varnarsinnaðan miðjumann á borð við Michael Carrick fyrir aftan sig. Annað sem Englendingar græða á innkomu hans er að hann býður upp á svolítið sem hvorki Gerrard né Lampard gera; hann dreifir spilinu vel, er góður í þessu Xabi Alonso-hlutverki á miðjunni. Hann er að sjálfsögðu enginn Xabi Alonso, en engu að síður góður.

Neikvæða hliðin á þessum fréttum fyrir okkur Púllara er að þeir Jamie Carragher og Peter Crouch missa stöðu sína í byrjunarliðinu fyrir vikið. Crouch er fórnað fyrir fimmta miðjumanninn, á meðan Owen Hargreaves verður í bakverðinum í stað Carra. Þótt ég sé mikill aðdáandi Carra er erfitt að vera ósammála þessu; Carragher er takmarkaður sem sóknarbakvörður og Hargreaves, sem leikinn miðjumaður, er betur til þess fallinn að sækja upp vænginn með Beckham. Eins lengi og Neville-systirin er ekki að spila er ég sáttur …

En allavega, liðið hjá Englendingum á morgun verður því svona, að því gefnu að Rio Ferdinand jafni sig á meiðslum sínum:

Robinson

Hargreaves – Ferdinand – Terry – A. Cole

Beckham – Lampard – Carrick – Gerrard – J. Cole

Rooney

Verður spennandi að sjá hvort enska liðið smellur í gírinn á morgun. Það er síðasti séns, því ef þeir gera það ekki á morgun gæti farið illa. Ef Englendingarnir tapa á morgun verður SGE tekinn af lífi í gulu pressunni í London, og það réttilega svo. Eins og lesendur þessarar síðu hafa séð glöggt er ég alls ekki sáttur við margt af því sem Svíinn hefur gert fyrir þessa keppni, og ég vorkenni honum lítið ef þetta fer illa.

En allavega, nú er að hefjast leikur Þjóðverja og Svía. Þetta verður hörkuleikur og ég spái 3-1 fyrir Þýskaland. Gaman gaman!

Rafa og Stevie um Bellamy

HM: Argentína og Þýskaland í 8-liða úrslit!